6.9.2021 | 22:04
Maður er manns gaman
Eða það hélt ég. En reynsla mín undanfarna
mánuði fær mig til að efast um sannleiksgildi þessa spakmælis.
Búferlaflutningar
Ég, við hjónin, höfum verið að leita okkur að þægilegra húsnæði með það fyrir augum að kaupa íbúð í lyftublokk. Við skoðuðum margar. Alls staðar, í hverri einustu íbúð, var okkur sagt af eigendum eða sölumönnum að næðið í íbúðinni væri slíkt, að þetta væri eins og að búa í einbýlishúsi. Og ég kinkaði kolli, eins og ég væri sammála. Innra með mér hugsaði ég, þarf þetta að vera svona? Væri ekki meira gaman að búa í blokk þar sem væri sagt við mann,Það er svo gaman á húsfundunum,eða allir ganga svo vel um sameignina?
Ég er sjálf alin upp í sveit, þar sem gestakomur þóttu viðburður. Það þótti við hæfi að leggja frá sér orfið eða hrífuna og drepa á dráttarvélinni eftir að hún kom til sögunnar. Svo var hellt upp á kaffi og talað. Talað mikið.
Manneskjan er oftast ein.
(En nú með síma)
Við lifum á tímum tækni, hún léttir okkur lífið. Óneitanlega. En það er lítið talað um hvað það er sem tapast í leiðinni. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um samveru við menn. Skiptast áaugnatillitum. Brosa og segja nokkur orð. Það þóttu tíðindi, þegar sjálfsafgreiðsla hófst í búðum. Ég held að það hafi verið árið sem ég fermdist sem Kaupfélag Stöðfirðinga á Breiðdalsvík tók upp þessa nýjung. Nú getur maður
keypt nær allar vörur án þess að yrða á fólk. Já, nema í fiskbúðum. Þar fær maður fiskinn afgreiddan yfir borðið og því fylgir spjall við fisksalann. Mér leiðist aldrei að fara í fiskbúð.
Það er búið að gera dýr að lúxusvöru
Umgengni við dýr er líka gefandi. En dýrahald er skuldbindandi og krefjandi.
Eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt frá Japan þar sem vélhundar heimsóttu gamalt fólk á elliheimili til að gleðja það, fór ég alvarlega að velta því fyrir mér, hvort maðurinn væri í þann veginn að hagræða sjálfan sig í burtu.
Á Íslandi eigum við heimsmet í að amast við dýrum. Í blokkinni sem ég er að flytja í er dýrahald að sjálfsögðu bannað. Kannski get ég keypt mér róbótkött?
Og vinnan. Það er eins og það hafi gleymst að mörgum finnst líkamleg vinna skemmtileg. Í hófi. Nú koma heilsuræktarsalir að einhverju leyti í staðinn.
Eftirmáli
Fyrri hlutinn af þessum pistli var skrifaður í Álfheimunum þar sem ég hafði búið í 20 ár, þetta í eftirmálanum er skrifað í nýju heimkynnunum í Þverholti. Búferlaflutningar eru líkamlega og andlega erfiðir.
Ég ákvað að því nota þá sem tækifærið til að kynnast sjálfri mér. Hvernig kona er það sem á allt þetta dót? Auk þess eru flutningar líkamlega erfiðir. Minna mig helst á smalamennsku. Mér fannst ég skynja með áþreifanlegum hætti, hversu mikilvæg tengslin við vini og vandamenn eru.
Sem sjá má, er þessi pistill ekki um bækur. Það er þó langt í frá að ég sé hætt að lesa. Flutningarnir hafa síður en svo truflað lesturinn, það tók bara tíma að ganga frá tölvuskjánum. Næst ætla ég að skrifa um bókina Ínu eftir Skúla Thoroddsen. Hún kom mér á óvart. Efni hennar tengist Öskju og ég hafði ekki fyrr lokið lestrinum, þegar Askja minnti á sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2021 | 14:42
Glæpabærinn Akranes!!!
Ég hef ásett mér að lesa íslenskar sakamálasögur. Fylgjast með því sem er að gerast í okkar litla landi. Góður ásetningur er ekki alltaf nóg, stundum safnast upp ólesnar bækur og það dúkka upp höfundar sem ég hef ekki tekið eftir eða heyrt um.
Þetta gerðist með Evu Björgu Ægisdóttur. Ég vissi af henni en allt í einu eru komnar þrjár ólesnar bækur.
Marrið í stiganum 2018,
Stelpur sem ljúga 2019,
Næturskuggar 2020.
Ég ákvað að lesa þær í réttri röð. Mín fyrsta hugsun var, þessi kona er góð að finna titla á bækur sínar.
Eva Björg var fyrst höfunda til að hreppa glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn, fyrir bókina, Marrið í stiganum.
Allar bækurnar gerast á Akranesi.
Marrið í stiganum
Lögreglukonan Elma hefur hafið störf á Akranesi. En hún er ekki ókunnug þar, því hún ólst þar upp og fólkið hennar býr þar. Lögregluteymið á Akranesi vinnur vel saman. Í þessari bók skiptast á sögur úr lífi ýmissa Akurnesinga og sögur frá vinnu teymisins sem vinnur að því að upplýsa morð á ungri konu sem fannst í fjörunni við gamla vitann.
Þetta er saga um stéttaskiptingu, fátækt og umkomuleysi . Lítil stúlka verður fórnarlamb, því enginn gætir hennar.
Næsta bók, Stelpur sem ljúga, fjallar um hvernig erfið æska getur dregið dilk á eftir sér. Sagan hefst á að lýsa tilfinningum konu sem er engan veginn tilbúin að annast nýfætt barn sitt. Einstaklega vel lýst sálarástandi konu sem er haldin fæðingarþunglyndi, hugsa ég. Lögregluteymið á Akranesi fær upphringingu vegna líkfundar í Grábrókarhrauni. Lögreglan á Vesturlandi vinnur saman að lausn stærri mála. Þess vegna er teymið Akranesi kallað út.Líkið reyndist vera af konu sem hvarf frá heimili sínu fyrir sjö mánuðum og lögreglan hafði gert ráð fyrir að hefði fyrirfarið sér. Annað kom í ljós.
Þriðja bókin Næturskuggar fjallar um ungt fólk á Akranesi. Foreldrarnir koma einnig við sögu. Að sjálfsögðu. Þetta er saga úr nútímanum og ungt fólk býr lengur heima en fyrr á tímum. Enn vinna Elma og félagar að því að upplýsa morðmál. Það hefur orðið húsbruni við friðsæla götu. Og það kemur í ljós að pilturinn sem finnst látinn, hefur dáið áður en bruninn varð. Sími óperstúlku finnst á vettvangi en stúlkan er horfin. Það kemur síðan í ljós að þessi mál tengjast.
Ekki meira um þetta hér, ég vil ekki skaða upplifun væntanlegra lesenda ef einhver á eftir að lesa bækurnar.
Lokaorð
Eva Björg Ægisdóttir kann að skrifa. Og hún er ekki bara góð í að skapa trúverðugar persónur og draga upp ljóslifandi mynd af vettvangi hún er leikin við að laga blæbrigði textans. Ýmist til að ná fram dýpt frásagnarinnar eða hraða. Allt eftir því sem við á.
Það var gaman að lesa þessar bækur. Ekki síst textans vegna.
Ég átti því miður ekki mynd frá Akranesi. Myndin sem fylgir er af vitanum við Sæbraut í Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2021 | 18:58
Sumarferð með Karamazov-feðgum
Þetta er ekki í fyrsta skipti (og vonandi ekki það síðasta) sem ég les bækurnar um Karamazov, föður og syni. Þegar ferðast er með Karamazov í kollinum fer ekki hjá því að að maður sjái veröldina í nýju ljósi. Frá sjónarhorni Karamazov.
Ferðinni var heitið til Austfjarða, fyrst til Hafnar í Hornafirði og svo í Breiðdalinn. Það fyrsta sem ég tók eftir var að í mínum íslenska raunheimi var mikið talað um veður og landslag en í sögunni um bræðurna var lítið fjallað um veðurfar eða um náttúru en því meir um tilfinningar og hugmyndir. Fyrir þá sem ekki þekkja til bókanna um feðgana Karamazov vil ég segja þetta: Bókin kom út í Rússlandi á árunum 1879 til 1880. Þetta var síðasta verk hans því hann lést árið 1881. Í raun eru þetta 12 bækur. Á Íslandi kom verkið út í tveim bindum 1990 í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Ingibjörg lýsir rússneskri nafnahefð í upphafi fyrri bókarinnar til að auðvelda lesendum lesturinn. Ég bendi fólki á að notfæra sér þessa fræðslu en ætla ekki að fjalla meira um það hér.
Fjölskyldan Karamazov
Bókin hefst á frásögn um fjölskylduföðurinn Fyodor Karamazov sem er svallari og dæmigerður rugludallur, sem þrátt fyrir alla vitleysuna kann þó að auðgast og halda utan um eigið fé. Seinna kemur þó fram í bókinni (við réttarhöld) að það sé vafasamt að kalla menn eins og hann föður, því hann verðskuldi það engan veginn. En Fyodor eignast þrjá skilgetna drengi með tveimur konum. Sú fyrri elur drenginn Dmitri sem hún skilur eftir þegar hún flýr heimilið og deyr síðan í örbyrgð. Sú seinni eignast tvo drengi, Ivan og Alexei og deyr frá þeim ungum. Auk þessara skilgetnu sona er grunr um að hann eigi óskilgetinn son, Smerdyakov með vangefinni stúlku á vergangi. Allir skilgetnu drengirnir alast upp hjá fjarskyldum ættingjum. Hinn óskilgetni Smerdyakov elst upp hjá ráðsmanni Fyodors og konu hans.
Tekist á um hugmyndir
Það eru umbrotatímar á seinni hluta 19. aldar í Rússlandi eins og víðar. Tímabili bændaánauðar er nýlokið og læsi er orðið það útbreytt að fjölmiðlar, blöð, bækur og tímarit ná til fleira fólks en áður. Landið logar í umræðu. Í þessari bók er tekist á um trúmál, heimspeki og pólitík. Aðalpersóna bókarinnar; Alexei gengur tímabundið í klaustur og heillast af öldungnum Zosima, hinn bráðgáfaði Ivan, hefur safnað frásögnum um illa meðferð á börnum og spyr spurninga. Hvers konar guð lætur slíkt viðgangast? Hann efast ekki um tilvist hans en segist vilja skila aðgöngumiðanum. Mér verður hugsað til sveitunga míns, Helga Hóseassonar, sem líka vildi skila aðgöngumiðanum, losna frá skírnarheitinu.
Elsti sonurinn Dmitri, vill einungis fá arf eftir móður sína sem faðirinn hefur sölsað undir sig.
Ég sé að ég er komin í ógöngur með því að fara að fjalla um einstakar persónur. Það eru svo margar áhugaverðar persónur í þessari bók og nú langar mig að biðja þær sem ég get ekki fjallað um afsökunar.
Ég sagði frá því í upphafi að það er lítið um landslag og veðurfar í Bræðrunum Karamzov. Það er því vel við hæfi að njóta bókarinnar í stórbrotnu landslagi Austfjarða . Eldhugar trúar og umræða um og vafasamt réttlæti Guðs falla eitthvað svo vel að tign austfirskra fjalla.
Það var Sigurður Skúlason sem las bókina. Reyndar gerði hann meira en að lesa, því um leið léði hann sumum persónum rödd sína. Upplifunin var eins og að vera í leikhúsi.
Myndi er af klettafrú í landi Hoffells.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2021 | 15:26
Konan kemur við sögu: Í tilefni dagsins
Þessi bók kom mér á óvart, ég vissi ekki að hún væri til fyrr en hún birtist allt í einu á lista Hljóðbókavefsins yfir ný-innlesnar bækur. Í bókinni eru 52 greinar, þar sem konur koma við sögu. Þær eru mislangar og fjalla um allt mögulegt. Það er Árnastofnun sem ber veg og vanda af bókinni. Efni hennar kom fyrst út 2015 á vef stofnunarinnar. Hún er þeirra framlag til að minnast 100 ára kosningarréttar kvenna. Greinarnar komu síðan út á bók 2016.
Bækur og svefn
Loksins, loksins hugsa ég, nú fær grúskarinn í mér einhverja næringu. Ég var í miðju kafi við að lesa spennubók (meira um hana síðar) og hugsaði mér gott til glóðarinnar að hafa bókina Kona kemur við sögu sem kvöldlesningu. Til að komast í værð, sofna fljótar og fá betri svefn. Þetta snerist þó fljótlega við, bók Árnastofnunar varð að spennubók. Hin varð að bíða.
Innihaldsríkur lestur
Greinarnar í bókinni eru mislangar og ólíkar hvað varðar efni. Sumar eru nálægt okkur í tíma, aðrar eru fjær. Auðvitað get ég ekki fjallað um 52 greinar í stuttum pistli en ætla að velja 3 til þess að væntanlegir lesendur fái nasasjón af því, hvað ég er að tala um.
Konan sem vildi mæla máli sínu: Eva María Jónsdóttir
Í greininni leitast Eva María við að svara því af hverju karlmennirnir í Svarfaðardal voru svo vondir við Yngvildi fagurkinn. Ég hef sjálf gert nokkrar atrennur til að komast í gegn um Svarfdælu og varð satt að segja fegin að ég er ekki ein um að þykja hún strembin. Meðferð karlanna á þessari duglegu og vænu konu er óskiljanleg. Reyndar er fleira illskiljanlegt í þessari skrýtnu sögu. Það var gaman að lesa/hlusta á samantekt Evu Maríu en ég er ekki viss um hvort henni tókst fyllilega að skýra framferði Svarfdæla.
Handrit úr fórum Guðríðar Jónasdóttur frá Svarfhóli: Gísli Sigurðsson
Hér segir Gísli frá því sem kom upp úr kökuboxi föðursystur hans, Ragnheiðar Kristjönu Baldursdóttur, sem hann fékk að gramsa í . Þar á meðal var umslag merkt Guðríði Jónasdóttur móður Jóhanns Gunnars Sigurðssonar skálds, sem lést 1906. Þarna voru bréf sem farið höfðu á milli Guðríðar og Baldurs Sveinssonar en Baldur og Jóhann Gunnar voru vinir og skólabræður. Eftir að Jóhann Gunnar lést skrifaði Guðríður Baldri bréf til að þakka honum hversu vel hann hafði reynst Jóhanni í veikindum hans. Í kökuboxinu var auk þess handrit með ljóðum Guðríðar. Mér fannst ævintýri líkast að lesa þessa grein enda mikill aðdáandi ljóða Jóhanns Gunnars.
Heilög Margrét verndardýrlingur ljósmæðra og fæðandi kvenna:Ludger Zeevaert
Í þessari grein lýsir höfundur handriti í litlu broti sem notað var til hjálpar fæðandi konum. Handritið skyldi vera spennt utan um læri konunnar meðan á fæðingu stóð. Auk þess að lýsa handritinu, rekur hann sögu dýrlingsins. Voðalega veit maður lítið um trúarbrögð fyrr á öldum.
Lokaorð
Framúrskarandi lesning. Ég á oft eftir að glugga í hana. Það er Ásdís Thoroddsen sem les, hún les vel að vanda og er ekkert að flýta sér.
Bókin er nokkuð löng, tekur 10 klukkustundir og 40 mínútur í aflestri. Auk þess hefur hún að geyma fjölda mynda, sem eru í senn fræðandi og til ánægju fyrir augað.
Myndun af valkyrjunni er tekin að láni úr bókinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2021 | 14:11
Uppruni: Sasa Stanisic
Uppruni eftir Sasa Stanisic Það er nokkuð um liðið síðan ég las/hlustaði á bókina Uppruni eftir þýsk- króatíska rithöfundinn Sasa Stanisic. Eða á ég að segja þýsk-Júgóslavneska rithöfundinn Sasa Stanisic? Í bókinni fjallar hann um vandann við að skilgreina sig fyrir þá sem hafa þurft að flýja heimaland sitt. Hann er fæddur 1978 í Visegrad í Bosníu- Herzegóníu en flýr með foreldrum sínum 1992 til Þýskalands. Ein af minningum hans frá gamla landinu er um aðdáun hans á Rauðu stjörnunni. Hann horfir á leiki hennar í sjónvarpinu með föður sínum og fer meira að segja einu sinni með honum til Belgrad til að horfa á leik. Rauðu stjörnunnar. Þegar Júgóslavía liðaðist í sundur hrapaði Rauða stjarnan af stjörnuhimni fótboltans. Eftir það urðu öll lið á Balkanskaganum B-lið, segir hann. Foreldrar hans þurftu að flýja, þau voru í svo kölluðu blönduðu hjónabandi. Það er erfitt fyrir unglinga að hefja nám í nýju landi því þá eru teknar ákvarðanir fyrir lífið. Honum tekst, þrátt fyrir tungumálaerfiðleika að komast inn í menntaskóla og síðar háskóla.
Í þessari bók segir hann frá því hvernig er að vera flóttamaður. Gamla landið hans býr innra með honum, þótt á yfirborðinu sé hann eins og hver annar Þjóðverji.
Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn nánar hér, enda vafasamt að tala um þráð í þessu sambandi. Skrif mín eru eilífir útúrdúrar, segir hann. Eftir að friður komst á í fyrrum Júgóslavíu var foreldrum hans vísað úr landi.
Þýskalandi. En þau treystu sér ekki til að fara heim og fóru til Bandaríkjanna. Föðuramma hans hafði orðið eftir í Visegrad og nú kemur það í hans hlut að líta til með henni. Hann segir frá því, að á sama tíma og amma hans var að tapa sínum minningum, tók hann til við að reyna að safna sínum minningum.
Þetta er bók sem hreyfir við tilfinningum
Mér fannst þetta skemmtileg bók. Hún er hlý og full af visku. Þegar Sasa lýsti ferð sem hann fór með ömmu sinni og fylgdarmanni til að heimsækja þorpið, sem afi hans var frá, sá hann ættarnafn sitt Stanisic á öðrum hverjum legsteini í kirkjugarðinum. Um leið hugsaði hann til þess með trega, að líklega myndi byggðin þarna í fjöllunum leggjast af. Að fólkið sem bjó þar þá og var að sýna honum æskustöðvar afans, yrðu síðustu ábúendurnir. Ekki vegna stríðs, heldur vegna breyttra lifnaðarhátta. Vegna nútímans. Mér leið dálítið eins og þegar ég heimsæki dalinn minn, Breiðdal.
Hvenær er sögu lokið?
Í lok sögunnar leikur höfundur sér að því að gefa lesendum kost á því að velja hvernig þeir vilji að bókin endi. Þetta virkaði ekki fyrir mig, sem þarf að hlusta á bækur í stað þess að lesa þær. Ég veit ekki hvernig þetta kemur út fyrir aðra. Þetta fékk mig að hugsa um eðli endis í bókum. Er þetta ekki bara spurning um hvar maður velur að setja síðasta punktinn? Bækur enda en lífið heldur áfram.
Að lokum
Bókin er þýdd af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur sem er ávísun á góða og vel þýdda bók . Það er Stefán Jónsson sem les en hann er einn af mínum uppáhaldslesurum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2021 | 17:02
Dvergurinn frá Normandí: Saga um refilinn frá Bayeux
Ég fæ mig seint fullsadda af efni sem tengist víkingaöldinni og þar með fornbókmenntum okkar Íslendinga. Bókin, Dvergurinn frá Normandí gerir það svo sannarlega, því hvað eftir annað er vísað til heimilda sem Íslendingar hafa ritað á skinn. Bókin er eftir danskan mann, Lars-Henrik Olsen (fæddur 1946). Hún kom út í Danmörku árið 1988 en á Íslandi ekki fyrr en nú, 2021, í þýðingu Steinunnar Jónu Sveinsdóttur. Hún er hugsuð sem unglingabók frá hendi höfundar en hentar ekki síður fullorðnum eins og allar góðar barna og unglingabækur.
Sögusviðið er . nunnuklaustur í Kent á Englandi árið 1077 . Þar sitja fjórar stúlkur við sauma. Þær hafa verið valdar til að vinna að verkefni sem nú gengur undir nafninu Refillinn frá Bayeux, því þar var hann varðveittur. Þetta er rúmlega 70 metra langt og hálfs metra breitt veggteppi, sem lýsir því sem gerðist í orrustunni við Hasting, þegar Vilhjálmur sigursæli vann sigur á Haraldi Guðinasyni. Þetta var ójafn leikur, lið Vilhjálms var að hluta riddaralið og hafði betur eftir langa og harða orrustu. Bókin fjallar bara óbeint um þennan hildarleik, hún fjallar fyrst og fremst um verkefni hópsins í klaustrinu, sem vinnur að því skrá atburðinn . Ekki beinlínis á spjöld sögunnar eins og komist er að orði. Stúlkurnar sauma hann út. En verkið er ekki bara þeirra, þetta er teymisvinna. Dvergurinn Þóraldur stýrir verkinu. Hann er fjölhæfur listamaður og biskupinn Ódó, hálfbróðir Vilhjálms hefur falið honum verkefnið. Í teyminu starfar einnig fanginn Líkúlfur, hermaður úr liði Haraldar. Einnig kemur munkur við sögu, hann er fulltrúi ritlistarinnar. Í sögunni er brugðið upp mynd af lífinu á 12.öld. Hún er kannski ekki svo ólík þeirri mynd sem við Íslendingar þekkjum úr Sturlungu, höfðingjar takast á um völd, alþýðan er höfð að leiksoppi.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Í raun má líkja reflinum við myndasögur nútímans. Á þessum tímum var lestur enn ekki orðinn útbreiddur. Þess vegna þjónuðu myndverk vel til að koma skoðunum á frafæri, hvort sem var í trúarlegum efnum eða pólitískum.
Sá sem les bókina fyrir Hljóðbókasafn Íslands, heitir Orri Huginn Ágústsson. Ég hef ekki heyrt í honum áður. Hann les prýðisvel.
Bókin er falleg, skreytt fjölda mynda úr þessu fræga verki Bayeux- reflinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2021 | 19:08
Ljóð gleðja
Flestir kannast við að fá lög á heilann. Ég hef lengi strítt við það. Allt í einu koma lögin bara og glymja í hausnum á mér. Ég veit ekki af hverju. Oft eru þetta meira að segja lög sem ég hef lítið dálæti á. En í vor varð skyndilega breyting á. Það komu ljóð í stað laga.
Fyrsta ljóðið sem settist að í höfðinu á mér, var Svanir fljúga hratt til heiða eftir Stefán frá Hvítadal. Auðvitað bara nokkrar línur, framhaldið las ég svo á Google. Mér til mikillar ánægju komst ég að því að ég kann það nokkurn veginn. Þetta er svo fallegt ljóð. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um sólina, vorið og okkur Íslendinga. Annan sólardag heimsótti Guðmundur Böðvarsson skáld mig með ljóðinu Kyssti mig sól og sagði, sérðu ekki hvað ég skín, gleymdu nú vetrargaddinum sára. Gleymdu honum ástin mín. Nú er ég átján ára. Forskriftin sem pabbi gaf mér (og systkinum mínum) í forskriftabókina, þegar ég var að læra að skrifa var: Ó, blessuð vertu sumarsól, eftir Pál Ólafsson. Þannig lærði ég það kvæði. Seinna lærði ég litla ljóðið um sólskríkjuna. Sólskríkjan skiptir ekki bara um búning til að taka á móti sólinni, hún skiptir líka um nafn. Hættir að vera snjótittlingur. Hvernig ætti fugl með slíkt nafn að syngja fyrir skáld?
Eftirmáli
Líklega þarf ég að útskýra þetta með forskriftabókina. Þegar ég var barn, það er langt síðan, tíðkaðist það að sveitabörn lærðu heima hjá foreldrum sínum, til tíu ára aldurs. Þá tók farskólinn við. Þetta eru breyttir tímar. Einn vetur kenndi mér engin önnur en Oddný Guðmundsdóttir snillingur. Hún lét okkur gera vinnubók um skáld. Og svo átti maður að læra ljóð utanbókar . Mikið finnst mér vænt að hafa þurft að læra ljóð utanað. Þau eru sífellt að koma til mín. Ljóð gleðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2021 | 18:46
Bönd ovg Grikkur: Donenico Starnone
Ég hlýt að hafa verið utan við mig þegar bækurnar í leshópnum mínum voru valdar. Allt í einu tók ég eftir því að Við ætluðum að lesa tvær bækur eftir ítalskan höfund sem ég hafði aldrei heyrt um,Domenico Starnone. Bækurnar heita Grikkur og Bönd. Þær eru báðar þýddar af Höllu Kjartansdóttur og það er Siðar Eggertsson sem les. Hann er pottþéttur lesari.
Bönd
Fyrst las/hlustaði ég á Bönd. Bókin hefst á bréfum eiginkonu til mannsins síns sem hefur yfirgefið hana. Bréfin eru full örvæntingar. Ýmist skammir eða yfirlýsingar um hversu mikið hún og börnin, sem hann hefur svikið sakna hans. Þau geta ekki lifað án hans. Maðurinn sem er háskólakennari hefur fundið nýja og yngri konu sem er falleg og ljúf. Skammast ekki. Engu að síður hlýðir hann kalli eiginkonu sinnar. Kemur heim. Fljótlega tekur hann þó upp fyrri lífsmáta, heldur framhjá en nú á laun. Seinna í bókinni kemur fram að börnin elska ekki foreldra sína, þeim finnst þau ömurleg. Öll ógæfa sem hendir þau í lífinu er foreldrunum að kenna. Dóttirin er beinlínis hatursfull.
Bókin hreif mig ekki, líklega mest vegna þess að ég trúði henni ekki. Flestum sem ég þekki þykir vænt um foreldra sína. Ég man þó eftir fólki sem var gagnrýnið á foreldrana á unglingsárunum meðan það var að finna sig, en það eltist af þeim . Mér leiddist bókin.
Grikkur
Grikkur segir frá gömlum listamanni, sem tekur að sér að gæta fjögurra ára dóttursonar síns, meðan foreldrarnir fara á stærðfræðiráðstefnu. Hann hefur nýlega gengið í gegnum erfið veikindi og treystir sér naumast í að passa. En þegar dóttirin leggur að honum, höfðar til samvisku hans, lætur hann undan. Afinn virðist þekkja barnið lítið, býr í annarri borg. Hann ræður illa við verkefnið. Drengurinn er kotroskinn og tekur honum vel. Barnið er sterkari aðilinn. Þeir leika þykjustu leiki og allt í einu fer leikurinn úr böndunum. Afinn kemst í klípu. Yfir og allt um kring grillir í beyg gamla mannsins ýmist í fortíð eða í framtíð. Hann hefur áhyggjur af heilsu sinni og af dóttur sinni. Hann hefur skynjað að það eru erfiðleikar í hjónabandinu. Auk þess hefur hann áhyggjur af verkefni sem hann hefur tekið að sér.
Þessar bækur segja mér að það hafi orðið einhvers konar gliðnun í sambandi , tengslum fjölskyldna á Ítalíu. Hvað hefur orðið af háværu stórfjölskyldunni sem borðar saman, þar sem hver talar ofan í annan?
Höfundur bókarinnar er Domenico Starnone fæddur 1943. Þegar ég fór að lesa mér til um hann, sá ég frétt, þar sem talað er um hann sem mögulegt púsl í púsluspilinu sem er að verða til í leitinni að höfundinum á bak við dulnefnið Elena Ferrante. Domenico er nefnilega giftur Anita Raja en því hefur verið slegið föstu að hún sé konan á bak við dulnefnið. Ég sá bækurnar í nýju ljósi eftir að hafa meðtekið þessa frétt. Áður hafði ég hugsað að bókin Bönd væri merkilega lík síðustu bókinni sem ég las eftir Ferrante; Lygalíf fullorðinna. Það skyldi þó ekki vera að Ferranti bækurnar séu samvinnuverkefni þeirra hjóna ?
Lokaorð
Og núna þegar ég lýk við þessi skrif er ég næstum orðin jákvæð og þakklát. Kannski þarf ég að líta mér nær í sambandi við hvort fölskylduböndin séu í lagi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2021 | 18:24
Ofurstynjan: Rosa Liksom
Ofurstynjan Rosa Liksom (raunverulegt nafn Anni Ylavaara, fædd 1958).
Líklega enginn yndislestur, hugsaði ég, en góð samt. Ég hafði áður lesið bók eftir sama höfund, Klefi nr. 6. Ógleymanleg bók. Ef ég ætti að velja orð til að lýsa efnistökum Liksom myndi ég velja hrá og beinskeytt.
Sagan
Sagan er lögð í munn gamallar konu í Lapplandi, sem rifjar upp ævi sína. Fyrirmynd höfundar er Annikki Kariniemi sem var fædd 1913, dáin 1984. Hún var kennari og rithöfundur. Hún var gift 30 árum eldri manni sem var ofursti og nazisti. Hún skrifaði fjölda bóka fyrir börn og fullorðna. Ein af þeim heitir Ett äktenskaps anatomi sem kom út 1958. Þá bók hef ég ekki lesið og þekki einungis af afspurn, þ.e. af netinu.
Ofurstynjan ólst upp á tímum þar sem viðhorf fólks litaðist af sjálfstæðisbaráttu Finna og í framhaldi þjóðernishyggju og nazisma. Faðir hennar var nazisti og eiginmaður hennar ofurstinn og hún líka. Hún var ógagnrýnin, viðurkennir að hún vissi allt um það sem nazistar voru að gera. En hún dáðist samt að þeim. Það hafði verið kreppa og þeir voru með lausnirnar. Á einum stað í bókinni er sagt frá samtali hennar við stöllu sína og jafnöldru. Þær voru enn unglingar. Vinkonan trúði jafn gagnrýnislaust á Sovét og var á leið þangað. Þegar stríðinu lauk tók við sálarstríð þeirra sem höfðu veðjað á rangan hest. Ofurstinn fer að verða vondur við ofurstynjuna sem hafði dáð hann og elskað alla tíð. Hjónabandinu lauk eftir að hann hafði ítrekað misþyrmt henni og drepið barnið sem hún gekk með. Hún var illa leikin bæði andlega og líkamlega en tókst að rísa upp og skapa sér nýtt líf.
Eftirþankar
Ég fræddist heilmikið um Finnland við að lesa þessa bók. Og stundum fannst mér þó að ég væri svo illa að mér að ég gæti ekki nýtt mér kennsluna.
Það sem mér fannst þó merkilegast, var þegar ég komst að því að bókin sjálf kom ekki fyrst út á finnsku, hún kom út á máli sem heitir Meänkieli. Þetta mál er talað beggja vegna landamæra Svíþjóðar og Finnlands.
Hvað vakir fyrir höfundi?
Mér er alls ekki ljóst hvað vakir fyrir höfundi. Enginn skrifar bók út í bláinn. Mér dettur í hug að hún vilji með bókinni kenna okkur að Nazistar voru ekki skrímsli, þeir voru fólk eins og við. Og það er alltaf full þörf á að ígrunda vel hvaða skoðanir maður aðhyllist. Það lúrir kannski eitthvað í okkar samtíð sem vert er að rýna vel í. Hvað um flóttafólk og hvað um skiptingu auðsins? Já og hvað um dekur okkar við moldríka?
Það er kominn kosningahugur í mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2021 | 16:58
Fjarvera þin er myrkur:Jón Kalman Stefánsson
Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson er bók til að lesa oft. Það þarf að hafa dálítið fyrir því að lesa hana, ég er búin að lesa /hlusta á hana tvisvar og mér finnst ég enn ekki fyllilega búin að raða henni saman. Frásögnin fer fram og til baka í tíma, persónur eru margar og ættfræðin skiptir máli. Þetta var svolítið eins og að lesa Eyrbyggju . Þetta eru margar sögur, sem tengjast og til samans mynda þær heild. Sögusviðið er líka nokkurn veginn það sama og Eyrbyggju, Snæfellsnes, Dalir og Strandir.
Góðar bækur eru til að lesa þær oft.
Ég tek það fram að ég tel það ekki eftir mér að þurfa að hafa fyrir því að lesa bók. Ég hef nógan tíma og ég ræð honum. Auk þess er stíllinn á þessari bók þannig að það er ljúft að lesa. Það eru margar fallegar setningar og heimspekilegar vangaveltur sem mann langar til að muna.
En um hvað er bókin?
Þetta er saga um líf alþýðufólks, um drauma þess og þrá. Já, og um ástríður. Það er greinilegt að allt þetta, draumar, þrá og ástríður er nokkuð sem manneskjan fær í sinn hlut án þess að biðja um það. Hún ræður sér ekki fyllilega sjálf, og lendir í basli. Þetta barasta hellist yfir mann. Sest að í sálinni eða í kroppnum.
Segulnál hjartans
Það væri rangt að kalla fólkið í bók Jóns Kalmans, homo sapiens, sem þýðir hinn viti borni maður. Persónur hans er fólk tilfinninga og skynjana. Ég kann ekki latínuheitið á því. Hjartað ræður meiru en skynsemin. Já, og fortíðin lifir í núinu. Ég þekki þetta ástand. Stundum talar afi minn á Veturhúsum í gegnum mig.
Lokaorð
Nóg að sinni um Fjarvera þín er myrkur. Meira þegar ég hef lesið hana betur og gert nafnaskrá og ættatal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar