31.12.2021 | 17:31
Um ellina eftir Cicero :Lærdómsrit Bokmenntafélagsins
Fáir tala vel um ellina þótt fólk undantekningalaust vilji verða gamalt. Er það kannski byggt á misskilningi? Það er ekki seinna vænna að kynna sér það, verðandi áttræð. Allt í einu birtist mér bókartitillinn Um ellina eftir Cicero, Maco Tullius inn á vef Hljóðbókasafns Íslands. Hún kom út 1962 en það er nýbúið að lesa hana inn . Bókin er skrifuð á 1. öld fyrir Krist. Þar sem hún var á latínu var hún um langt skeið aðgengileg fyrir menntaða einstaklinga þess tíma. Allir sem hugðu á æðri menntun urðu að tileinka sér latínu. Meira að segja ég varð að læra hana. Reyndar fannst mér hún skemmtileg en hef nú tapað henni niður.
Bókin er þýdd af Kjartani Ragnars. Hún hefst á sagnfræðilegum inngangi eftir Eyjólf Kolbeins. Í innganginum segir hann frá stjórnskipulaginu í Róm þessa tíma, ferli Ciceros sem embættismanns og menntun hans.
Cicero skrifar þessa bók er þegar hann er 62 ára. Þessi inngangur Eyjólfs var mikilvægur mér sem lesanda til að meðtaka efni bókarinnar.
Ritinu sjálfu fylgja fjöldi neðanmálsgreina til að skýra textann enn frekar. Þótt þetta stöðuga rof á texta við að lesa neðanmálsgreinarnar, trufli lesandann í að njóta hins eiginlega texta, reyndust mér þær afar gagnlegar til að skilja og njóta og ígrunda efni hans.
Þörf lesning
Áður en ég hóf lesturinn var ég vægast sagt forvitin um ástæðuna fyrir því af hverju Cicero fannst brýnt að verja ellina. Að lestri loknum, sýnist mér að honum hafi gengið hið sama til og fjölmörgum Íslendingum nú, sem gagnrýna það að gömlu fólki sé ýtt til hliðar um leið og ákveðnum aldri er náð. Hann bendir á að nauðsynlegt sé að gera greinarmun á heilsubresti og elli. Enn fremur bendir hann á hversu mikilvægt það sé að ástunda dyggðugt líferni til að njóta ellinnar.
Reyndar segir hann fjölmargt annað sem trúlega er jafn mikilvægt nú og þá.
En Cicero fékk sjálfur ekki að njóta ellinnar lengi því hann var veginn í pólitískum átökum ári eftir að hann lauk við að skrifa bókina.
Lokaorð
Mér finnst gaman að því að lesa þessa bók og fannst margt viturlegt sagt. Þó tók ég eftir því að þar er hvergi vikið að konum . Ef svo hefur verið fór það fram hjá mér.
Þessi pistill minn verður sá síðasti á árinu. Mig langar því til að óska lesendum mínum árs og friðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2021 | 21:35
Kolbeinsey: Bergsveinn Birgisson
Kolbeinsey eftir Bergsvein Birgisson er einstök bók. Fyrst fannst mér hún galgopaleg og grótesk. Við annan lestur (ég les bækur oft tvisvar) fannst mér hún í senn fyndin og full af speki. Sagan fjallar um tvo þunglynda karlmenn á miðjum aldri. Þeir hafa verið vinir frá því í barnæsku og nú er annar þeirra á geðdeild, hinn er lítið betur settur en hann á kærustu og son frá fyrra sambandi. Það er hann sem er sögumaður. Lífsgleðin hefur yfirgefið hann. Þetta er fræðimaður og skáld sem byggir afkomu sína á skriftum og fyrirlestrahaldi. Það hefur ekkert komið fyrir en allt í einu hellist yfir hann kvíði og lífsleiði. Hann sér engan tilgang í lífi sínu og aflýsir fyrirlestrahaldi sem hann hefur tekið að sér.
Það er kærastan hans sem stingur upp á að hann heimsæki vin sinn á sjúkrahúsið, telur að það geti e.t.v. gert honum gott sjálfum.
Vinurinn tekur honum illa og hefur allt á hornum sér. Honum er líka vægast sagt tekið illa af starfsfólki spítalans. Hjúkrunarkonan sem hefur aðalumsjón með vininum setur honum fyrst skilyrði um að hún sé til staðar þegar þeir hittast og loks er hann settur í heimsóknarbann.
Það er þá sem hann ákveðu að frelsa vin sinn frá heilbrigðiskerfinu. Þeir félagar leggja í langa óvissuferð. Fljótlega verða þeir þó þess vísari að hjúkrunarkonan eltir þá. Við það upphefst mikill eltingarleikur. Hjúkrunarkonan er ægileg, nánast eins og norn.
Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar enda er það ekki sagan sem slík sem er aðalatriði þessarar bókar heldur samtal vinanna og hugmyndir sögumannsins um hvað það er sem skiptir máli í lífinu.
Ósjálfrátt varð mér hugsað, til ýmissa vísana. Hvað minnir þessi bók á? Fyrst varð mér hugsað til Barna náttúrunnar eftir Friðrik Þór, þegar gamla fólkið flúði af elliheimilinu. Því næst hugsaði ég um hversu hjúkrunarkonan ægilega minnir um margt á kollega sinn í Gaukshreiðrinu. Loks velti ég fyrir mér hvort þunglyndu vinirnir væru e.t.v. nútímaútgáfa af þeim fóstbræðrum Þorgeiri og Þormóði. Sá þó fljótlega að ekkert af þessu skiptir máli . Það sem gerir þessa bók góða er frábær stíll höfundar þar sem hann í senn leikur sér með orð og leitar svara við tilvistarlegum spurningum. Auk þess er hann svo fyndinn að , ég sem sjaldan hlæ , skellihló innan í mér. Það eru svo margar skemmtilegar setningar í þessari bók að ég er strax farin að huga að því að lesa hana í þriðja skipti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2021 | 17:31
Vilborg Davíðsdóttir: Bækurnar um Auði djúpúðgu
Þegar líða tekur að jólum, við upphaf jólabókaflóðsins, fyllist ég af einhvers konar samviskubiti yfir bókunum sem ég á enn ólesnar frá fyrri jólabókaflóðum. Kvalin af sektarkennd rýk ég til að lesa gamlar bækur.
Nú hef ég um nokkurt skeið verið að lesa bækur Vilborgar Davíðsdóttur, um forsögu þess að Auður djúpúðga flýði til Íslands.
Bækurnar eru þrjár talsins. Sú fyrsta kom út 2009 og heitir einfaldlega Auður. Hún hefst á því að segja frá Auði í foreldrahúsum á Suðureyjum. Mér fannst sem verið væri að lýsa óvenju hugmyndaríkum stelpukrakka en samkvæmt þáverandi siðvenjum, var hún komin á giftingaraldur. Orðin mannbær (hræðilegt orð). Það var drifið í að finna handa henni mann. Hann hét Ólafur hvíti. Hún flytur með honum til Dyflinnar og elur honum barn, soninn Þorstein. Þegar til kemur hafnar hann barninu,telur það annars manns barn. Eftir það flytur Auður í Katanes, þar sem hún rekur myndarbú.
Næsta bók kom út 2012. Hún ber nafnið Vígroði.
Hún hefst á frásögu af heimsókn Auðar til ættingja sinna en hún hafði haldið sig fjarri þeim um árabil af ótta við að faðir hennar, Ketill flatnefur, vilji gifta hana á ný (giftingar þessa tíma voru brask með auð og völd). Af því verður þó ekki. Vegir þeirra Ólafs hvíta liggja saman á ný og hann sér að sér varðandi faðerni barns þeirra. Þau sættast.
Það horfir ófriðlega fyrir víkingabyggðir norrænna manna á Bretlandseyjum og Auður missir bæði son sinn Þorstein og mann sinn, Ólaf.
Þriðja bókin Blóðug jörð kom út 2017. Hún fjallar um síðustu ár Auðar á Bretlandseyjum og atburði sem leiddu til þess að hún sá sér engra kosta völ nema að flýja til eylandsins í Norðrinu. En einnig þar er úthellt blóði. Þessari sögu Auðar djúpúðgu líkur þar sem saga Auðar í Laxdælu hefst.
Stéttaskipting?
Þótt sagan sem Vilborg segir, sé um margt lík sögunum sem við þekkjum sem Íslendingasögur, er hún um margt ólík.
Í fyrsta lagi bætist við heill heimur, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni þræla og ambátta, saga hinna ófrjálsu. Í öðru lagi bætist við ítarleg frásaga af lifnaðarháttum, bæði í hvunndagslífi og stríði. Vilborg skapar nýjan heim á grundvelli þjóðfræða og sögu.
Það liggur mikil vinna í þessari bók/bókum.
Vangaveltur
Samkvæmt rannsóknum á erfðamengi okkar Íslendinga, erum við skyldari Írum og Skotum en Skandinövum. Ástæðan er sú að meiri hluti landnámskvenna kom frá Bretlandseyjum. Þetta lærði ég, þegar ég hlustaði á frábæran fyrirlestur, Þar talaði Agnar Helgason en hann hefur, ásamt fleiri fræðimönnum, rannsakað erfðamengi okkar Íslendinga.
Ekki veit ég hvað vakti fyrir Vilborgu Davíðsdóttur þegar hún hófst handa við að skrifa forsögu Auðar djúpúðgu. Það er að segja þann hluta hennar, sem gerðist áður en hún kom til Íslands.
Reyndar held ég að það sem fyrir henni vaki sé að skapa nýjan og áður óþekktan heim sem rúmar allt fólk, háa sem lága. Í hennar sögu fá konur og þrælar og ambáttir rödd. Já, og meira en það. Konur og ófrjálsir eru í aðalhlutverki í stað höfðingja og stríðshetja.
Innskot um bækur Svíans Jan Guillou
Fyrir um það bil tveim árum var ég á kafi í að lesa/hlusta á bækur Jan Guillou um Arn Magnusson og Birger jarl. Tímasetning þessara bóka er að vísu talsvert seinna en bækur Vilborgar. Margt er þó líkt. Þar segir af höfðingjum og valdamiklum konum. Þrælum bregður fyrir og þá í svipuðu hlutverki og við þekkjum þá frá okkar góðu gömlu Íslendingasögum.
Bækur Guillou
eru stórskemmtilegar.
Mikið fæst ekki fyrir lítið
Til baka til Vilborgar. Það er betra að vera með athyglina í lagi þegar maður les/hlustar á bækur Vilborgar. Hún gefur engan afslátt á því að muna vensl og ættir. Það er líka betra að læra landafræði Bretlandseyja. Vilborg kryddar oft frásögn sína með Gelísku. Það ýtir við manni til að hafa í huga að Bretlandseyjar þessa tíma voru í það minnsta tvítyngdar.
Það er mikið sem situr eftir þegar maður hefur lesið þessa bók. Ég mun minnast aðventunnar 2021 sem aðventunnar sem ég fór til Bretlandseyja með viðkomu í Færeyjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2021 | 23:40
Tvær barnabækur: Gerður Kristný: Heimspeki pönksins
Þegar ég vil endurræsa barnið í mér, les ég gjarnan barnabækur. Í þetta skipti las ég tvær bækur eftir Gerði Kristnýju, Iðunn og afi pönk og Meira pönk, meiri hamingja. Þær eru báðar komnar inn á Hljóðbókasafn Íslands. Safnið mitt. Gerður les þær sjálf, hún er afbragðs lesari.
Bókin er um Iðunni, vinkonur hennar, fjölskyldu og nágranna. Afinn, sem er eilífðarpönkari, fer með stórt hlutverk.
Í fyrri bókinni hverfist söguþráðurinn um þegar nýja hjólið hennar sem hún fékk í afmælisgjöf týnist. Sú seinni segir frá því þegar Iðunni langar svo mikið á útihátíðina í Krækiberjadrekahalagili. Gerður er snillingur í að búa til löng samsett orð. Þegar mamma Iðunnar vildi ekki leyfa henni að fara, fékk hún að slá upp tjaldi í garðinum og halda þar sína útihátíð. Henni lauk þó með slíkum hætti að mamma hennar féllst á að þau færu öll á hátíðina í Krækiberjadrekahalagili.
Það sem einkennir þessar bækur
Það sem einkennir þessar bækur er hugarflug og uppátæki aðalpersónunnar,Iðunnar. Hún er sögumaður og minnir mig í senn á Emil í Kattholti og bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Um leið er hún allt öðru vísi.
Ég sagði frá því í byrjun að mig hefði langað til að ná til barnsins í mér til að uppfæra sálina. Það tókst ekki. Að sjálfsögðu. Barnið sem ég var er afar ólíkt Iðunni. Ég upplifði mig frá upphafi minnis míns sem mikilvægt hjól í framleiðsluvél sjálfþurftarbúskaparins. Já, og kunni því vel. Mér finnst þó merkilega gaman að fylgjast með hugmyndum og uppátækjum Iðunnar og er tilbúin að hlaða því inn til viðbótar við mitt áttræða barnasjálf (ég er að vísu bara 79 ára og 11 mánaða svo ég geri eins og börnin.). En það sem mér fannst allra allra skemmtilegast við lestur þessara bóka, var að Gerður Kristný með sinn fágaða og tæra texta skyldi vera að skrifa um pönk.
Enn vantar mig myndirnar
Myndirnar sem eru í bókinni gat ég ekki nýtt mér af því að ég hlusta í stað þess að lesa. Ég veit að myndirnar eru gerðar af Halldóri Baldurssyni, hann bregst ekki. Ég kem til með að kaupa eða fá bækurnar að láni. Ég get nefnilega enn skoðað myndir, þótt lestrarleiknin hafi yfirgefið mig.
Draumurinn
Nóttina eftir að ég las fyrri bókina, dreymdi mig draum sem ég mundi glöggt þegar ég vaknaði. En yfirleitt man ég ekki drauma. Mér fannst sem ég væri að hlusta á umfjöllun um bækur. Þar sagði höfundur frá því að öll börn sem læsu bókina sjálf, fengju sælgæti, sem verðlaun. Þau væru hluti af bókakaupunum.
Draumurinn var svo raunverulegur að strax þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um hvernig þetta væri framkvæmanlegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2021 | 17:32
Jakobsböckerna: Olga Tokarczuk
Eftir að ég fór að lesa/hlusta á Jakobsbækur Olgu Tokarczuk hef ég ekki verið með sjálfri mér. Ég hef verið villuráfandi um Pólland og löndin þar austur og suður af. Og tíminn er síðari hluti átjándu aldar.
Jakobsbækurnar eru 7 talsin og enginn smádoðrantur allar saman komnar í einni bók, 912 blaðsíður. Ég les/hlusta á bækurnar á sænsku, því þeim hefur ekki verið snarað á íslensku. Þetta þarf að þýða hugsa ég. Það ættu að vera til þýddar bækur eftir alla Nóbelsverðlaunahöfunda. Olga Tokarczuk ( fædd 1962) fékk verðlaunin 2018. Ef einhvern langar til að týna sjálfum sér í lestri er þetta bókin.
Um hvað er bókin?
Þetta er söguleg skáldsaga sem styðst við atburði sem gerðust og sögur fara af. Jakob Frank er einhverskonar miðpunktur, þó finnst mér ekki rétt að tala um hann sem aðalpersónu. Hann var lærður Gyðingur en fékk vitrun og trúði því sjálfur að hann væri Messías, sem Gyðingar voru að bíða eftir. Hann virðist hafa verið góður kennimaður því fljótlega myndaðist trúarhreyfing sem byggði á kenningum hans.
Heimur trúar og kraftaverka
En það er ekki Jakob og trúarbrögð hans sem er kjarni þessarar bókar. Það sem hreif mig var hversu vel höfundi tekst að draga upp mynd af lífi fólks þessa tíma og af hugarheimi þeirra sem lifa þar. Ósjálfrátt varð mér hugsað til hvernig þetta var hér á okkar litla landi og dettur strax í hug Jón lærði og hugarheimur hans tíma sem Viðar Hreinsson lýsir svo snilldarlega. En margt er þó ólíkt. Pólland var ólgandi samsuða fjölmargra menningarhópa og trúarbragða, Ísland var einangrað og einnar trúar samfélag. Mér finnst samfélagslýsing Tokarczuk framúrskarandi. Þarna gat allt gerst. Menn uppljómast í bókstaflegum skilningi, lýsa eins og lampar og gamla konan Jenta er stödd í einhverri vídd sem við þekkjum ekki, einhverstaðar milli lífs og dauða. Uppáhaldspersónan mín í sögunni er gamli sveitaklerkurinn, sem hefur ofurtrú á mætti upplýsingarinnar. Ef manneskjan veit nóg, breytir hún rétt. Hann hafði því sjálfur sett saman alfræðirit fyrir Pólverja. Hann elskaði bækur. Ef allir væru að lesa sömu bækur, hugsaði hann, myndu þeir skilja hver annan betur. Það eru ekki bara ólík tungumál sem standa í veginum, þessir ólíku menningarhópar nota hver sitt stafróf.
Lokaorð
Þótt Jakobsbækurnar fjalli um 18. öldina, er ég ekki í neinum vafa um að tilgangur höfundar sé að færa okkur spegil til að spegla samtíð okkar í.
Þetta er bók til að lesa mörgum sinnum, þannig er það með allar góðar bækur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2021 | 18:08
Olga og Ástarflótti: Tvær bækur Bernhards Schlinks
Olga
Ég er að undirbúa mig fyrir bókakvöld en það er búið að vera erfitt að finna tíma til að hittast sem hentar öllum. Mikið erum við þessar fullorðnu konur tímabundnar . Í þetta skipti lásum við tvær bækur eftir Bernharð Schlink, þann sama sem skrifaði Lesarann, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir þó nokkru.
Ég ætla fyrst að tala um Olgu. Þetta er saga konu frá því í byrjun 20. aldar, en um leið er hún saga Þýskalands og saga þriggja stríða. Ég segi þriggja,því þá er meðtalið stríðið við innbyggja Afríku um land.
En fyrst um Olgu sjálfa.
Olga var meðfærilegt barn. Hún bara stóð stillt og prúð og virti hlutina fyrir sér. Fiktaði ekki. Hún missti ung báða foreldra sína og ólst upp hjá ömmu sinni, sem var hörð við hana. Og Olga flutti frá henni um leið og hún gat. Hún var námfús og langaði að fara í háskóla en á þeim tíma var það ekki í boði fyrir konur í Prússlandi, svo hún lærði að verða kennari.
Ástin
Ástin kom snemma til Olgu. Hún varð ástfangin af vini sínum og skólabróður, Herbert, í framhaldsskóla. Þau voru fyrst vinir og sálufélagar. Síðan þróast vinátta þeirra yfir í ást og kynlíf. Hún og þessi vinur hennar, eru ekki af sama sauðahúsi. Hún er alþýðustúlka en hann er af ríku og fínu fólki. Herbert fer samt ekki í háskóla eins og hún hafði gert ráð fyrir. Hann fer í herinn.
Fjarlægðin
Olgu gekk vel að kenna og hafði yndi af því. Hún hélt áfram að elska sinn gamla vin þótt hann væri farinn á vit ævintýra, landvinninga og landkönnunar. Þau skrifuðust á. Alla vega hún honum. Því hluti bókarinnar byggir á slíkum bréfum.
Þjóðin og stríðið
Olgu er lýst sem sterkri og vel gerðri manneskju.Hún tekur þátt í félagsstarfi kennara og kýs krata. Um miðjan aldur veikist hún illa og missir heyrn. Þá þarf hún að hætta kennslu. En hún kunni að sauma. Svo eftir það vann hún fyrir sér með saumaskap. Ég ætla ekki að rekja sögu Olgu og Herberts lengra hér, því eins og ég sagði fyrr í þessum pistli, er höfundurinn kannski fyrst og fremst að segja sögu Þýskalands.
Þessi bók stækkaði heiminn
Ég hélt að ég þekkti talsvert sögu 20. Aldar þó nokkuð en nú bættist við stríð Þjóðverja í Vestur- Afríku. Ef til vill væri réttara að tala um þjóðarmorð þeirra á Hereróum. Þarna hóf maðurinn sem Olga elskaði feril sinn sem hermaður.Þetta er nokkurn veginn landsvæðið þar sem nú er Namibía. Vissi Olga hvað hann var að gera? Eða er ástin raunverulega blind?
Lokaorð
Þessi bók skildi mig eftir með margar ósvaraðar spurningar. Það er gott. Á eftir las ég smásögur eftir sama mann, Ástarflótti. Reyndar fannst mér þær naumast vera smásögur, þær eru svo efnismiklar. Flestar þeirra, ef ekki allar fjalla þær um blekkingaleik manneskjunnar við sjálfa sig þegar hún reynir að svindla ögn á eigin prinsippum sérstaklega þegar kemur að ástinni.
Þökk sé þeim
Höfundur þessara bóka Bernhard Schlink er fæddur 1944. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem slíkur.
Þegar ég hef lokið bók, lesið eða hlustað finn ég til þakklætis. Ekki bara til höfundarins heldur líka til allra hinna sem færa mér þær. Það var Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem þýddi Olgu. Hún svíkur aldrei. Það var Helga Elínborg Jónsdóttir sem las. Hún bregst Ekki.Hluti bókarinnar var reyndar lesinn af karlmanni. Nafns hans var ekki getið. Það virðist vera einhverjir vankantar á því hjá Hljóðbókasafninu að birta nöfn lesara er þeir eru fleiri en einn.Þetta þarf að laga. Sögurnar í Ástarflótta þýddi Þórarinn Kristjánsson. Þekki hann ekki. Það er Sólveig Hauksdóttir sem les. Sólveig er sérstakur lesari. Þessa bók las hún listavel.
Það verður gaman að spjalla um þessar bækur við stöllur mínar þegar bókakvöldið rennur upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2021 | 21:28
Þjófur í Paradís : Indriði G. Þorsteinsson
Þegar ég kom af jarðarför gamals vinar, ákvað ég að lesa bók Indriða G. Þorsteinssonar Þjófur í Paradís aftur. Ég las hana á sínum tíma og vissi að fjölskyldan í bókinni tengdist þessum vini mínum. En við ræddum það aldrei.
Mér fannst bókin góð þegar ég las hana á sínum tíma, en var með efasemdir um hvort skáld hefðu rétt til að ýfa upp sár fólks, sem hefur orðið fyrir mótlæti í lífinu.
Við jarðarförina sótti sama hugsun að mér.
Indriði G. er reyndar einn af mínum uppáhaldsrithöfundum, hann er svo góður stílisti.
Heim komin af jarðarförinni las ég sem sagt bókina þ.e.a.s. ég hlustaði. Það er höfundurinn sjálfur sem les. Ég komst við.Voðalega hefur líf þessarar fjölskyldu verið erfitt. Allt í senn,félagslega og fjárhagslega. Líklega hefur þó vansæmdin verið verst. Það er hægt að afplána dóm fyrir sauðaþjófnað en orðsporið fylgir ævilangt.
Sagan
Sagan Þjófur í Paradís er knöpp að forminu til. Hún hefst á brúðkaupi þar sem orð falla sem verða til þess að ákvörðun er tekin um að láta til skarar skríða og ganga úr skugga um hvort eitthvað sé til í orðrómi sem lengi hefur verið á sveimi. Sú rannsókn leiðir síðan til réttarhalda og dómur felldur.Eins og í fleiri knöppum sögum, er það ósagða áhrifamest.
En aftur að vini mínum sem var borinn til grafar. Ég held að hann hafi aldrei rætt þessi mál við nokkurn mann og það hvarflaði ekki að mér að fitja upp á slíkri umræðu við hann. Við ræddum um pólitík, hann var með stéttabaráttuna á hreinu og vandaði arðræningjunum ekki kveðjurnar. En auðvitað er það eins og að skvetta vatni á gæs. Í heimi er orðið ekki til, einungis orðið ARÐUR eða GRÓðI og því meira sem þeir græða (ræna) því stoltari eru þeir.
Ekki veit ég hvað vakti fyrir Indriða þegar hann valdi að skrifa um þetta mál sem varð svo örlagaríkt fyrir þessa fjölskyldu
Kannski hefur hann fyrst og fremst séð að þarna var gott söguefni.
Líklega hefur hann ekki hugsað til aðstandenda.
En Indriði má þó eiga það að bókin er góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2021 | 15:25
Slétt og brugðið: Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Útkoma bókarinnar, Slétt og brugðið eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur árið 2021 hafði farið fram hjá mér.
Það var nafnið á bókinni sem vakti áhuga minn, ég hélt að bókin fjallaði um prjónaskap. Fljótlega sá ég þó að svo var ekki, en ákvað samt að lesa hana. Bókin fjallar um konur á miðjum aldri. Þær hafa hist í saumaklúbbi síðan í menntaskóla. Þegar þessi saga hefst, hafa þær ákveðið að breyta inntaki klúbbsins, sleppa handavinnunni. Í stað þess ætla þær að kynna sér gyðjur, sækja til þeirra kraft og fyrirmyndir.
Þótt konurnar séu sex í klúbbnum, snýst frásagan einkum um tvær þeirra, Freyju og Eddu. Þær eru báðar lærðar hjúkrunarfræðingar. En nú, eftir að hafa bætt við sig námi, vinnur önnur á fæðingardeild en hin á líknardeild .
Lesandinn fær þannig lítillega að kynnast upphafi og endalokum lífsins. Það er Freyja sem er aðalpersóna. Við fáum líka að kynnast Eddu vinkonu hennar, en hinir klúbbfélagarnir eru meira í bakgrunni.
Gyðjur
Það er Linda sem fær hugmyndina um að kynna sér gyðjur. Henni finnst hún vera stödd á flæðiskeri, henni hefur verið sagt upp en hún hefur verið blaðamaður til margra ára. Hún heldur því fram að konum vanti fyrirmyndir í lífinu og þær þyrftu á styrk að halda.
Þetta er sem sagt kvennabók, jafnvel bók fyrir stelpur. Frásögnin er létt og leikandi. Oft fyndin, jafnvel meinhæðin.
Þetta er bók um framgang og samskipti og um vináttu. Ég hefði gjarnan viljað að höfundurinn hefði farið dýpra í gyðjufræðin en auðvitað get ég gert það sjálf seinna.
Að lestri loknum kynnti ég mér hvort fleiri bækur væru til innlesnar eftir Árelíu Eydísi og fann tvær, Söru og Á réttri hillu: Leiðin til meiri hamingju í lífi og starfi. Auðvitað er ég búin að lesa þær báðar. Þegar ég var búin með Á réttri hillu, sem er bók um hagnýta sáifræði og sjálfsrækt, rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað er þetta hún Árelía sem ég hef verið á námskeiðum hjá, meðan ég var enn á vinnumarkaði og var að fylgjast með því sem var efst á baugi í stjórnendafræðum. Af hverju fattaði ég þetta ekki strax? Og svo. Breytir það einhverju? Nei, líklega ekki og ef einhverju þá er það bara til hins betra. Gallinn er bara sá að líklega er ég vaxin upp úr svona bókum.
Árelía hefur sem sagt skrifað fleiri, fleiri bækur. Ein þeirra heitir, Sterkari í seinni hálfleik og er flokkuð sem sjálfstyrkingarbók. Bók fyrir mig og fólk á mínum aldri (ég er að verða áttræð) gæti heitið, Sterkust í framlengingu. Kannski skrifar Áróra einhvern tíma slíka bók. Ekki veitir af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2021 | 14:18
Vesalingarnir og Maríukirkjan eftir Victor Hugo
Þegar ég vil gera virkilega vel við mig, kýs ég að lesa langar bækur. Ég hef verið að flytja búferlum og í rótinu sem fylgdi flutningunum ákvað ég að finna mér verulega langa bók. Fyrir valinu urðu fyrstVesalingarnir eftir Victor Hugo og síðan kom Maríukirkjan. Fleira fann ég ekki innlesið eftir þetta mikla skáld. Ég hafði áður, sem unglingur, lesið Maðurinn sem hlær en fann hana nú ekki sem hljóðbók.
Vesalingarnir
Fyrst las ég Vesalingana. Ég hafði ekki lesið hana áður en þekkti til hennar í gegnum kvikmyndir og í gegnum frábæra leiksýningu í Þjóðleikhúsinu byggða á efni hennar.
Fyrst um skáldið
Victor Hugo er franskur, fæddur 1802 og dó 1885. Hann skrifaði ljóð, skáldsögur og leikrit. Auk þess var hann virkur í pólitík. Þetta voru umbrotasamir tímar mikilla atburða og Victor var mitt í hringiðu pólitískra hræringa. Í skáldskap fylgdi hann rómantísku stefnuunni og í pólitík var hann lýðræðissinni. Auðvitað spegla bækurnar pólitískar hugmyndir hans. Í grunninn eru Vesalingarnir æsilegur reifari í fjórum bindum. Fyrstu tvö bindin eru þýdd af Einari H. Kvaran, síðari tvö eru þýdd af Vilhjálmi Þ. Gíslasyni. Þessar þýðingar voru gerðar úr dönsku. Nú hefur Torfi Tulinius yfir farið þýðingarnar, borið þær saman við frumtextann og fært til betri vegar. Torfi hefur einnig skrifað eftirmála. Bókin í heild er 38 klukkustundir og 14 mínútur í hlustun. Sigurður Skúlason las. Hann gerði það vel eins og hann á vanda til.
Vesalingarnir er æsileg frásögn þar sem slegið er á alla strengi mannssálarinnar. Satt best að segja fannst mér oft erfitt að hlusta á lýsingar á neyð og kvöl fólksins. Ekki bætti úr skák vitneskjan um að það er ennþá mikil neyð og það eru enn stundaðar pyndingar á fólki. Ekki góð koddalesning.
Maríukirkjan
Maríukirkjan kom út í Frakklandi 1831. Bókin sem ég var að hlusta á er þýdd af Björgúlfi Ólafssyni og kom fyrst út á Íslandi árið 1945, held ég. Margir þekkja hana undir nafninu Hringjarinn í Notre Dam. Þetta er byggt upp sem söguleg skáldsaga frá 15. öld, sögusviðið er París. Í raun er þetta fyrst og fremst ástarsaga. Saga um vonlausa ást. Afskræmdi krypplingurinn Qvasimodo fellir hug til hinnar undurfögru sígaunastúlku Esmeröldu. Stór hluti sögunnar fer fram í Notre Dam. Auk þess skrifar höfundurinn kafla um skipulag borgarinnar og húsagerðarlist. Victor Hugo var rétt um þrítugt þegar bókin kom út. Þvílík flæðandi mælska. Það er Björgúlfuur Ólafsson sem þýðir þessa bók sem kom út á íslensku 1945, held ég. Það er fúlt að skrifa held ég. En því miður hefur Hljóðbókasafnið ekki nægilegar góðar bókfræðilegar upplýsingar fyrir grúskara eins og mig. Það er Guðmundur Ingi Kristjánsson, hann skilar efninu vel.
En svolítið gat ég lesið mér til, stafað mig í gegnum. Þessi Björgúlfur er ótrúlega spennandi karl. Fæddur 1882 (af kynslóð ömmu minnar). Hann þjálfaði Vestmanney inga í knattspyrnu, var herlæknir í her Hollendinga í Indónesíu, stofnaði Skeljung og var bóndi á Bessastöðum og fleira og fleira. Ég get að sjálfsögðu ekki borið þýðingu hans saman við frumtextann en þessi bók er á flæðandi góðri og gróskumikilli íslensku.
Eftirmáli
Í reynd eru báðar þessar bækur eiginlega ofjarl minn. Til að njóta þeirra til fulls, væri upplagt að lesa þær undir handleiðslu góðs kennara og bókmenntafræðings, t.d. Torfa Túliníusar.
Það er einhver tign yfir löngum efnismiklum bókum. Það er eins og að dvelja í dómkirkju, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja.
Myndin er af kirkjuklukkunum í Bjarnanesi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2021 | 13:27
Eins og málverk
Bókin Ína eftir Skúla Thoroddsen er eins og málverk.
Sagan er vísun í leiðangur sem Walther von Knebel , Max Rudoff og Hans Reck fóru í til Öskju árið 1907. Tveir þeirra, Walther von Knebel og Max Rudoff hurfu sporlaust, félagi þeirra, Hans Reck, var einn til frásagnar. Hann gat lítið um málið sagt því hann var annars staðar við rannsóknir daginn sem þeir hurfu. Ári síðar fer hann í leiðangur til að rannsaka betur aðstæður til að finna skýringar á því hvað hefði gerst og með von um að finna líkamsleirfar mannanna tveggja. Með í för var Ína von Brumbkow unnusta Walther von Knebel.
Saga Skúla er spunnin í kringum þessa síðari ferð og allt það sem gerðist, út frá sjónarhorni Ínu. Þetta er þó engin vvwnjuleg sagnfræðileg frásaga. Höfundur nýtir sér þessar dramatísku og rómantísku aðstæður til að mála myndir með orðum. Í fyrsta kafla bókarinnar er Ína er kynnt til sögunnar sem gömul kona, sem situr ein í húsi sínu í Berlín 1942 og hugsar til baka um lífshlaup sitt.
ÞegarÍna kom til Íslands var hún ung listakona, sem teiknaði og málaði myndir. Frásagnarmáti Skúla á því vel við.
Ína og Hans fara í fótspor Walthers og Max og Ína hugsar til hans í sorg sinni og reynir þannig að nálgast hann. Ína er í frásögn Skúla áhugasöm um Ísland og vel að sér. Það spretta fram vísanir í skáldskap sem þá var á allra vörum. Á Akureyri hittir hún Matthías Jochumsson og á tal við hann á Sjónarhæðum. Sá Matthías sem hún hittir er í senn prestur og reyndur sálusorgari. Hann skynjar sorg hennar og hjálpar henni til að vinna úr áfallinu sem hefur heltekið hana. Eftir þetta verða þáttaskil í lífi hennar. En þetta er ekki bara saga Ínu og þýsku leiðangranna tveggja, 1907 og 1908. Það er brugðið upp mynd af eldgosum frá sjónarhorni íslenskrar alþýðu og frá sjónarhorni fræðimanna í útlöndum. Þetta er einstæð lýsing á hugarheimi fólks í lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. Og þessi hugarheimur er ekki bara neyð og myrkur, vegna óblíðrar náttúru og fátæktar. Þessi hugarheimur er fullur af von og þrá, gleði og fegurð.
Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók, því ég vissi ekki á hverju ég átti von, hélt að þarna væri á ferðinni söguleg skáldsaga. Kannski má líta svo á. En mér fannst bókin vera eins og langur ljóðabálkur, textinn er svo fallegur.Ekki spillir að það er Hanna María Karlsdóttir sem les og hún er frábær lesari.
Ég sagði í upphafi að mér fannst bókin vera eins og nálverk, málað með orðum en ég vissi ekki hvort verkið minnti meira á Eggert Pétursson eða á Kjarval. Nú hallast ég að því að hún minni á þá báða tvo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar