Færsluflokkur: Bloggar

Min kamp: Barátta mín Karl Ove Knausgård

IMG_0576 

Barátta mín Min Kamp

Hvað ætla ég að eyða miklu af því sem eftir er af lífi mínu með Karl Ove Knausgård? Er nema von að ég velti þessu fyrir mér, því lífið styttist hratt. Ef ég nota bjartsýnistölfræði á ég svona 10 ár eftir ólifuð. Ég hef verið að lesa (hlusta á) Min kamp, barátta mín. Er u.þ.b. hálfnuð með bók 2 af 6. Hún tekur 20 klukkustundir og 35 mínútur í afspilun. Ef ég hlusta á þær allar tekur þetta mig nokkrar vikur. Ég sé ekki eftir tímanum, heldur því, að ég les ekki annað á meðan. Og það er svo mikið til af  góðum bókum og mig langar að lesa þær allar.

Kannski væri nær að snúa spurningunni við og spyrja: Hvað ætlar Karl Ove Knausgård að gefa mér mikið af sínu lífi?

Fordómar

Ég hélt að bókin væri allt öðru vísi. Ég hélt að hún væri grimm. Um ungan mann segir frá uppvexti sínum, kenndi öðrum um það sem miður fór. Ég hélt að hann væri harkalegur í uppgjöri sínu við samtímamenn sína. Grófur og stóryrtur. Mig langaði ekkert til að lesa þessa bók þótt hún væri margverðlaunuð. Þessi mynd varð til við að hlusta álengdar á umfjöllun um bókina. Ég kynnti mér þetta ekki nánar.

Opinn hugur

Reyndin er allt önnur. Bókin er mjúk og lágstemmd eins og lækur sem fellur í lygnum straumi í mýrlendi. Engar flúðir, engir fossar. Þegar sagt er frá átökum í lífi höfundar, koma hyljir í stað flúða. Stundum er rétt svo að ég heyri í honum.

Bókin er afbragðsvel lesin af Anders Ribu, mér finnst ég heyri rödd Knausgård á bak við röddina hans. Á netinu fræðist ég um að Ribu sé eftirsóttur lesari. Bækurnar barátta mín komu út í Noregi á árunum 2009 til 2011 og hafa nú verið þýddar á fjölda tungumála. Mér finnst það vera forrétti að geta notið hennar á norsku.

En um hvað er bókin?

 Rithöfundurinn rekur ævi sína frá því að hann er lítill hnokki í Trömöya. Hann segir frá því sem gerðist eins og hann sé sjálfur að reyna að átta sig á því. Frásögnin er ekki í sagnfræðilegri tímaröð, hún liðast fram og til baka í tíma, eitt kallar á annað. Það er þó engan veginn erfitt að raða henni saman í heillega mynd. Af hverju þarf allt að vera í tímaröð? Mikið  af því sem bókin fjallar um er hvort sem er tímalaust, hugsanir, tilfinningar og líðan. Lífsspeki? Ég sé Knausgård fyrir mér, þennan stóra mann, hann er ofurviðkvæmur og er stöðugt að verja sig fyrir  áreitni lífsins. Ég hef áhyggjur af honum, hann reykir of mikið og dettur í það. Þegar hann verður ástfanginn, hellist ástin yfir hann og er óviðráðanleg. Reyndar held ég að þannig sé það með ástina yfirleitt. Það gleður mig að það kemur fram að hann les mikið, hann gleypir í sig bækur. Kannski hefur hann lesið Sigrid Undset.  

Ég er líka svolítið óróleg yfir því hvernig saga hans snertir aðra. Hvernig kemur þetta við hans nánustu. Og Noregur er lítið land, kannski þekkja ekki allir alla, en elítan er ekki stór.

Í augnablikinu er  Karl Ove kominn með fastan sess í lífi mínu og sambúðin er góð.

Myndin er af blómi og er aðeins til skrauts


Ástin, frelsið og listin í tímans rás

23161014

Þegar ég hafði lokið við að lesa (hlusta á) Kristínu Lafransdóttur, eftir Sigrid Unset ákvað ég að lesa Jenny, bókina sem Sigrid sló í gegn með. Ég fékk hana sem hljóðbók á norsku auðvitað í Norræna húsinu. Fyrstu viðbrögð mín var ánægja yfir því að hvað mér veittist létt að skilja norskuna, það er langt síðan ég dvaldi í Noregi. Þegar Jenny var búin fannst mér liggja beint við að lesa Min Kamp eftir Karl Ove Knausgård.  Svona leiðir eitt af öðru. Þetta var inngangur, til að koma sér að efninu.

Ég er ekki búin með 1. bókina (af 7) en nógu langt komin til að bera þau saman í huganum, Undset og Knausgård.

Sigrid Undset var fædd 1882 og Knausgård er fæddur 1968 Það fer ekki hjá því að ég beri þau saman. Ég er þó ekki fyrst og fremst að bera þau saman sem rithöfunda, mig langar frekar að vita hvernig þau sjá sig, tilgang sinn í lífinu. Eða á maður að segja tilgang lífsins.

Sagan um Jenny hefst í Róm. Þangað er Jenny komin til að þroska sig sem listamann, málara og vera frjáls. En þó að ásetningurinn sé þessi, langar hana fyrst og fremst að kynnast ástinni og í hennar huga er ástin eitthvað óumræðanlega stórt, sönn, hrein og göfug. Hún er 28 ára gömul  og hefur fram að þessu búið heima og verið hjálparhella móður sinnar. Lífið í Róm er auðugt af fegurð og hugsjónum. Og þegar hinn ferkantaði Gunnar Gran stúdent biður hennar, blekkir hún sjálfa sig til að trúa því að þarna sé ástin komin.

Ég ætla ekki að rekja efni bókarinnar en í staðinn tala um það sem mér finnst einkenna hana. Hún gæti alveg eins verið málverk. Knausgård er að lýsa sjálfum sér í sinni bók og það er mjög líklegt að það sé Sigrid einnig að gera í Jenny, því margt er líkt með myndlistakonunni Jenny og rithöfundinum Sigrid Undset. Sigrid fer einnig til Rómar 28 ára gömul og hún er að byggja sig upp sem rithöfund. Þess vegna les ég bók Sigrid ekki síður sem ævisögu en bók Klausgårds, í báðum bókunum er ung manneskja að leita að því hver hún er og hver hún vill vera.

 

Min kampÞau eru í raun ekkert svo ólík. Bæði jafn getulaus til að hafa áhrif á framvindu eigin lífs. Þau væflast. Reyndar er Knausgård miklu yngri svo samanburðurinn er ekki sanngjarn. En þau eru bæði að leita að ástinni en ástin er einhvern veginn öðru vísií laginu. Jenny hugsar um hvað hún hafi að gefa, Knausgård um hvað hann geti fengið. Ást  Jennyar er andleg, næstum ekki af þessum heimi en ást Knausgård er líkamleg og nálæg.

Það fer ekki hjá því, þegar maður les svona bækur um ástina að maður hugsi til sinnar eigin fortíðar. Hvernig  var ástin mín?

Ég veit það alveg en ég ætla ekki að skrifa um það hér.  En þarna er ég komin að veigamiklu atriði um ástæðuna fyrir því hvers vegna maður les bækur. Maður er ekki fyrst og fremst að fræðast um fólkið í bókunum, maður er að spegla sig í því. Ég á auðveldara með að spegla mig í Jenny. Unglingurinn Knausgård er allt of upptekin af því að komast á réttan stað í metorðastiganum eða á maður að segja goggunarröðinni. Ég var búin að finna minn þegar ég hleypti heimdraganum, ég var til hliðar við þessa röð og sættimig við það.

Auðvitað finnur Jenny ekki ástina sem hún er að leita að og þegar hún finnur huggun hjá manni sem hún elskaði ekki  rétt, finnst henni hún hafa svikið ástina. Reyndar held ég að þetta hefði verið allt auðveldara ef það hefðu verið komnar getnaðarvarnir.

Ég er sem sagt búin með Jenny og langt komin með fyrstu bók Knausgårds af sjö ef ég les þær allar. Sigrid Undset fékk Nóbelsverðlaun 1928 eftir að hafa skrifað Kristínu Lafransdóttur, kannski fær Knaugård þau líka. Nobelsnefndin hefur verið örlát við Norðmenn, þrenn verðlaun hvorki meira né minna.

Þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað hér, sé ég að ég er undir áhrifum frá Knausgård, ég skrifa beint út það sem ég er að hugsa, reyni ekki að leggja mat á það hvort það sé mikilvægt, frásögnin er flöt, engir toppar engin niðurstaða. Hvernig verð ég þegar ég hef lesið allar bækurnar um baráttu hans?

Myndirnar eru af tveimur bókum eftir þau Undset og Knausgård. Teknar af netinu og valdar af handahófi.


Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

EDEN_Southworth_c1860-crop

Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

Það eru um það bil sextíu ár síðan að ég var fengin að lesa fyrir gamla konu, Guðlaugu Helgu Þorgrímsdóttur. Hún var lasin og sonur hennar, kennari minn, bað mig um þetta. Bókin sem hún valdi var Kapítóla. Ég náði engu sambandi við bókina, líklega vegna þess að ég hafði þá komið mér upp bókasmekk (fordómum) að ég hefði ekki gaman af ástarsögum. Ég var 14 ára.

Ég fékk reyndar ekkert samhengi í söguna því við vorum fleiri sem skiptumst á að lesa.

Þegar ég sá að búið var að  lesa Kapítólu inn hjá Hljóðbókasafninu ákvað ég að sannreyna hverslags bók Kapítóla væri. Bókin er lesin af Silju Aðalsteinsdóttur, listavel.

Ég þurfti ekki að hlusta lengi, til að komast að því, hve rangt ég hafði haft fyrir mér. Þetta er ævintýraleg prakkarasaga þar sem aðalhlutverkið er í höndum hinnar strákslegu Kapítólu. Sögusviði er Villta Vestrið, nánar til tekið afskekkt stórbýli í hrikalegu fjallahéraði í Virgíníu.

Hinn uppstökki og orðljóti stórbóndi og fyrrverandi major, Fellibylur, er kallaður út um miðja nótt, til deyjandi konu. Óveðrið  hvín í fjallaskörðunum. Hún trúir honum fyrir leyndarmáli og miklu óréttlæti. Fellibylur sækir götubarnið Kapítólu til New York, þar sem hún hefur dulbúið sig sem strák. Það er auðveldar að vera strákur en stelpa þegar maður þarf að bjarga sér.

Þessi saga er ævintýraleg frásögn, þar sem við sögu koma ræningjar, misindismenn og skúrkar annars vegar en hins vegar fátækar einstæðar mæður og höfðinglegir og ríkir stórbændur.

Í þessari sögu er fólk annaðhvort fallegt og gott eða ljótt og vont. Nema svarti Donald sem er í raun góður maður á villigötum.

Sagan er æsispennandi og ekki spillir að öllum aðstæðum er lýst á þann veg að maður verður forvitin um þetta framandi umhverfi. Svarta þjónustufólkið (þrælarnir) sefur á dýnu á gólfinu inni hjá húsbændum sínum  til  að geta þjónað þeim sem best.

 

Ég las mér til um höfundinn. Bókin er eftir konu, E.D.E.N. Southworth sem er fædd 1819. Sagan kom fyrst sem framhaldssaga í blaðinu New York Ledger 1859. Og síðan 1868 og loks 1883. Hún kom loks út sem bók 1888 og sló í gegn. Þessi útgáfusaga er eins og fjölmargra annarra bóka frá frá þessum tíma.

E.D.E. N. Southworth var menntuð róttæk kona sem skrifaði til að drýgja tekjurnar eftir að maðurinn stakk af frá henni og tveimur börnum (til að leita að gulli). Hún þarf því ekki langt að leita eftir fyrirmynd að frómum sívinnandi einstæðum mæðrum.

Þetta er á tímum íslensku vesturfaranna og að einhverju leyti sá veruleiki sem mætir þeim. Það var líka þannig sem þessi bók rataði til okkar. Mér hefur ekki tekist að púsla saman  útgáfusögu þessarar bókar á íslensku en sýnist að hún hafi fyrst komið út sem framhaldssaga í Heimskringlu (Winnipeg) 1897, Kapitola: Upp komast svik um síðir. Ekki er getið þýðanda bókarinnar sem ég hef undir höndum en í bók frá  1905 (varðveitt á Borgarbókasafni , aðalbókasafn) er Eggert Jóhannsson skráður sem þýðandi og Jóhann Jóhannesson sem útgefandi og kostnaðarmaður.   Sú bók átti eftir að fá á sig gagnrýni frá Jónasi frá Hriflu, sem er vafasöm.

Eins sjá má tapaði ég mér alveg í að skoða mannlífið sem þessi bók hafnaði í, allt vegna þess að mig langaði til að skilja heim Guðlaugar H. Þorgrímsdóttur en hún var á aldur við ömmur mínar sem voru fæddar 1884. Þetta hafa þær verið að lesa. Ævintýralega spennusögu með ástarívafi, þar sem söguhetjan er  grallaralegur stelpukrakki. Mest hafði ég þó gaman að því að sjá  hvernig kvenréttindakonan E.D.E. N. Southworth laumar inn gagnlegum fróðleik eins og t.d. að það ætti engin stúlka að gifta sig fyrir 20 ára aldur, því barneignir á ungaaldri og þrældómur sem því fylgdi gæti verið dæmalaust heilsuspillandi.


Guð sé oss næstur: Arto Paasilinna

 

 250px-Kerimäki_churchGuð almáttugur er ekki bara farinn að þreytast, hann er gjörsamlega kulnaður í starfi og vill taka sér ársleyfi. Hann veit að það þarf að vanda valið á staðgengli og setur af stað vinnu við að leita að góðum Guði í sinn stað. Sankti Pétur  og Gabríel erkiengill taka að sér að finna staðgengil. Þeir búa til lista. En Guð er óþolinmóður og virðist bera litla virðingu fyrir faglegheitunum og tekur geðþóttaákvörðun um að velja finnskan kranamann til starfans. Síðan tekur við frásagan af því hvernig til tókst. 

Kranamaðurinn Pirjeri Ryymänen  er fullur bjartsýni og hefur ákveðnar hugmyndir um úrbætur. Margt er hreinlega gamaldags. Hann vill innleiða  nútímalegri vinnubrögð, tölvuvæða, forgangsraða verkefnum og gera kerfið skilvirkara. Auk þess flytur hann Himnaríki til Finnlands en það hafði verið í Búlgaríu.  

En ekki fer allt sem ætlað er, Skrattinn eyðileggur tölvukerfið, notar vírusa (Það kom mér ekki á óvart)og máltækið, það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, sannaðist á englunum. Hann stofnaði himnaríki fyrir dýrin.

Ég hef áður lesið nokkrar bækur eftir þennan galgopalega náunga og haft gaman af. En nú var eitthvað sem ekki gekk upp, mér fannst bókin ekki nógu fyndin og fannst illa farið með gott efni. Hélt í fyrstu að e.t.v.væri heilsuleysi mínu um að kenna. Verkir eru nefnilega ótrúlega húmorhamlandi.En svo las ég mér til og tók bókina í sátt.

Arto Paassilinna fékk alvarlega heilablæðingu 2009 og skrifar ekki meir. Það hafa komið út yfir 40 bækur. Þessi bók kom út 1989. Svona er húmor viðkvæmt fyrirbæri, það má engu muna.

Ég vildi óska að forlagið hefði verið nákvæmara varðandi útkomuár, það hefði sparað mér að endurspóla í huganum í gegnum alla bókina til að hlæja á réttum stöðum.

Sem biblíufróð áhugakona um andleg málefni, er ég vandlát og kröfuhörð varðandi leikaraskap með Biblíuna. Þetta var í lagi. Mér finnst rétt hjá Guði að banna Pirjeri Ryymänen  að fikta í sköpunarverkinu meðan hann tók sér frí. En ég sakna þess að heilög María fái ekki stærra hlutverk. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin, fannst mér það nú í fyrsta skipti, skera í augun, hvað konur eru valdalitlar á himnum. En eiginlega hafði ég samt mest gaman að lesa um vinnuna með biðlistann. Hann minnir mig nefnilega á nokkuð alveg sérstakt.  

Myndin er af kirkjunni í Kerimäki.Þar er himnaríki bókarinnar.

 


Sænskur réttarhalda krimmi: Malin Persson Giolito

IMG_0574

Ég vissi fyrir löngu  að það væri hægt að fá hljóðbækur lánaðar í Norræna húsinu en ég bara er nýlega farin að nýta mér þessa þjónustu. Það kemur sér vel af því ég get ekki nýtt lengur venjulegar bækur. Ég var stórtæk, fékk lánaðar þrjár sænskar bækur og eina norska. Ég þekkti alla höfundana frá því áður nema einn og hann kom mér sannarlega á óvart. 

Þetta var Malin Persson Gioloto en ég þekki vel til föður hennar, Leif G. W. Persson, sem er afbrotafræðingur, rithöfundur og heimsfrægur í sínu heimalandi. Bókin heitir, Störst av allt og  er réttarhaldsdrama. Kornung stúlka, 18 ára, dvelur í einangrun í fangelsi meðan verið er að rannsaka hver er aðild hennar að harmleik sem átti sér stað í menntaskóla. Lesandinn  fær vitneskju um það sem gerðist í gegnum ruglingslega upprifjun hennar. 

Hún er full af angist og vanlíðan en um leið hörð óg ásakandi, svo það er erfitt að hafa samúð með henni. Réttarhöldunum og dvölinni í fangelsinu er lýst frá degi til dags, það er satt að segja afar fróðlegt. Þetta er yfirstéttarstúlka og skólinn þar sem atburðirnir áttu sér yfirstéttarskóli. Ég fæ það á tilfinninguna að höfundurinn sé hér að lýsa eigin umhverfi (álykta svo út frá ævisögu pabba hennar). Fjölmiðlar og almenningur þar með, hefur litla samúð með þessar forréttindastelpu og hefur þegar dæmt hana seka. Eini ljósi punkturinn í lífi stúlkunnar er lögfræðingurinn sem ver hana. Hún treystir honum. 

Sagan er frábærlega vel skrifuð. Lesandinn fær mynd af lífi barnsins og seinna táningsins og uppvexti í heimi þar sem peningar eru látnir leysa allt. Þetta er þroskasaga, ef það er hægt að nota það orð um ferli unglings sem villist af leið. Hægt og hægt fer lesandinn að finna til með stúlkunni og verður um leið hugsað til allra hinna sem eru í þessari aðstöðu. Bíða dóms.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar en mæli með henni, þetta er toppbók. Sjálf ætla ég að verða mér út um hinar bækurnar sem Malin Persson Giolito hefur skrifað: Dubbla slag og Bara ett barn. 

Höfundurinn er fædd 1969 og starfar sem lögfræðingur í Brussel.

Eftirmáli: Bókin hefur komið út á íslensku og heiti hér Kviksyndi. 


Herman Melville: Ég kýs það síður

IMG_4079

Bókin Bartleby skrifari eftir Herman Melville lætur ekki mikið fyrir sér fara. Það var ein ástæðan fyrir að ég valdi hana þegar ég rakst á hana í Hljóðbókasafninu. Ein ástæðan var að hún er lesin af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Allt sem hann les lifnar við. Hún tekur 2 tíma og 40 mínútur í afspilun. Bókin kom út 1853 og ekki spillti að komast að því að hún er eftir heimsfrægan rithöfund. Flest fólk kannast við söguna um Moby Dick, ef ekki sem bók, þá sem kvikmynd. Ég sem er skammarlega illa að mér um bandarískar bókmenntir hafði ekki kveikt á nafninu.

Í sögunni segir af samskiptum lögmanns á lögmannsskrifstofu í Wall Sreet við skrifara sinn. Á þessum tíma, fyrir daga ritvéla og tölva, voru ritarar afar mikilvægir. Það er lögmaðurinn sem er sögumaður og hann gefur sér góðan tíma til að koma sér að efninu. Hann lýsir lífinu á lögmannsskrifstofunni og segir frá hinum riturunum. Nú hafa umsvif aukist svo að hann þarf að bæta við ritara. Hann velur hann sjálfur og í fyrstu gengur allt vel. Ritarinn kann vel til verka. Svo fer að bera á því að ritarinn gerir ekki það sem honum er falið og svarar fyrirmælum með "Ég kýs það síður." Á endanum gerir hann alls ekki neitt og lögmaðurinn kemst að því að hann býr á skrifstofunni. Lögmaðurinn sem lýsir sjálfum sér sem góðum og vel meinandi. Hann veit að ef hann segir honum upp, endar hann á götunni. Hann býður honum ýmsa álitlega kosti, en fær stöðugt sama svarið,"Ég kýs það síður." 

Að lokum tekur hann þó rögg á sig og lætur hann fara, mest fyrir ytri þrýsting. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra en kjarni hennar eru innri átök lögmannsins, þegar hann þarf að horfast í augu við vanmátt sinn.

Þessi bók skilur mann eftir með ótal spurningar. Lesandinn verður engu nær um hvers konar maður Bartleby er eða hvað lögmaðurinn hefði getað gert í stöðunni. Það styrkir mig í afstöðu minni um að bækur eru til að kveikja spurningar en ekki til að svara þeim. Þessi bók er hrein perla. Og það sem merkilegt er, er að hún gæti alveg eins átt við daginn í dag. Það er enn jafn erfitt að hafa fátæktina inn á sér og horfa upp á að geta engu breytt. Eða er það svo? Þarf maður e.t.v. að breyta einhverju hjá sjálfum sér? 

Er það tilviljun að sögunni er fundinn staður í Wall Street, þar sem peningahjarta kapítalismans slær? Nei, ég held að það sé ekki tilviljun, allt í þessari bók er þrauthugsað. Þetta er bók sem maður getur lesið aftur og aftur, ekki vegna þess að maður hafi gleymt, heldur vegna þess að maður finnur stöðugt eitthvað nýtt. Ef ekki í bókinni, þá í sínum eigin viðbrögðum. 

Bókin er þýdd af Rúnari Helga Vignissyni og óþarft að taka það fram að þar er vandað til verka. Auk þess skrifar Rúnar Helgi eftirmála um þýðinguna, ábendingar til lesanda og stingur upp á rilistarverkefnum fyrir þá sem vilja spreyta sig á þeim vettvangi. Þetta er bók sem lifir, af því hún fær mann til að leita svara við spurningum, sem aldrei verður svarað til fulls.


Hin helgu vé

IMG_0465Þverstæður og helgir dómar

Þegar ég flutti til baka til Reykjavíkur eftir að hafa búið úti á landi (eins og kallað er) í 15 ár, valdi ég (og maðurinn minn líka) að setjast að í Álfheimum, sem liggur við Laugardalinn austanverðan. Það var ekki síst hann, sem réði ákvörðun okkar. Fegurðin, friðsældin og blómskrúðið. Hér er gott að búa. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt út undan mér umræður um að það þurfi að koma meira lífi í Laugardalinn. Ég reyni að halda mér utan við þessa umræðu, því ég skil hana ekki. Ég skil hana ekki því hér iðar allt af lífi. En friðsælt er nú þannig í eðli sínu að það fer ekki endilega mikið fyrir henni. 

Fjölskyldu - og húsdýragarðurinn er skemmtilega passlegur, það er hægt að skoða allt og komast í allt í einni ferð og börnin kvabba um að fara þangað aftur og aftur. Grasagarðurinn er endalaus uppspretta nýrra upplifana, vetur sumar vor og haust. Á litlum hól til hliðar við garðlandiðið, hefur hópur manna fengið aðstöðu til að spila frisbí. Þetta er notalegt

Fólk sem sér garðinn allt öðrum augum en ég og vill koma lífi í garðinn, talar um að það ætti að nota hann meira til skemmtanahalds. Já og stundum heyrist manni að fólk sé að skemmta sér,eða skemmta börnum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Meðan það stendur yfir forðast ég að fara út á svalirnar heima hjá mér. Hafa börnin gaman af þessum gauragangi og asnalegu bröndurum. Hugsa ég. Þetta stendur yfirleitt stutt. Einstaka sinnum heyri ég hanagal. 

Einu sinni á ári, um sólstöðuleytið, hefur verið haldin tónlistarhátíð, Solstice. Hún er umfangsmeiri en það sem fyrr er upptalið og það eru deildar meiningar um hvort að hún sé við hæfi. Aðallega er spurt um hvort hún sé fólki til ama, haldi fyrir því vöku.

Fólk skiptist í andstæðar fylkingar. Sumir segjast flýja bæinn, aðrir segja að þetta sé í besta lagi. Ég sit uppi með tilfinningu um að það sé fyrirfram búið að stimpla mig sem leiðindaskjóðu, ef ég segi eins og er: Mér finnst að það hefði aldrei átt að leyfa þetta, því það stangast á við Gildi Laugardalsins. Friðsældina. 

Ég oft velt fyrir mér þessari undarlegu þverstæðu. Fólk sem langar til að skemmta sér, sletta úr klaufunum og hafa hátt, vill helst af öllu gera það í fögru og friðsælu umhverfi.

Hefðin er löng. Ég hef persónulega reynslu af útihátíðum. Framsóknarmenn helguðu sér Atlavík Sjálfstæðismenn helguðu sér rjóður í Egilsstaðaskógi en ég veit ekki hvaða Guð var dýrkaður á Húsafelli. Ég fann mig ekkiá þessum samkomum og nú hafa þær lagst af.   

Mér verður hugsað til frásagnarinnar af Þórólfi Mostraskeggi í Eyrbyggju. Einn var staður í landi hans  sem svo mikil helgi hvíldi á, að þangað mátti enginn óþveginn líta. Það var Helgafell. Á Þórsnesinu, þar sem öndvegissúlur Þórólfs  höfðu rekið á land, var ekki síður heilagt.

Þar sem Þór hafði á land komið á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.“

Óvildarmenn Þórsnesinga Kjallakkar, vildu ekki sæta þessu og saurguðu þingstaðinn. Óþokkarnir. Þau eru mörg átökin um helga dóma í mannkynssögunni. 

Það er eitthvað ótrúlega merkilegt við það sem við köllum helgun. Vanhelgun snertir innstu hjartarætur. Það þarf t.d. að endurhelga kirkjur sem hafa orðið fyrir vanhelgun. Það hefur orðið rof. 

„Trúlausir“ eiga sér ekki síður  helga dóma en þeir sem játa einhverja trú.

Laugardalurinn, náttúran í borginni er minn helgi reitur.

Höldum grið. Virðum hvert annað. Virðum helgidóma annarra,þó við skiljum þá ekki.  Brennum hvorki Biblíur eða Kórana. 

 

 


Kristinn trúleysingi ígrundar

 

IMG_0527Hvítasunna

Ég er svo vel upp alin að mér finnst að mér beri að ígrunda til hvers helgidagar eru fyrir trúaða og hvernig við hin, sem ekki eru trúuð, eigum að nýta þá. Þetta eru nú einu sinni frídagar. Ég er það gömul að ég náði í skottið á því að fólk leitaðist við að gefa helgidögum trúarlegt innihald.  Að minnsta kosti einhvers konar trúarlega  ásýnd. Fólk klæddi sig upp á, stillti á útvarpsmessuna og sussaði á okkur börnin.

 Seinna, allmiklu seinna, varð hvítasunnan að nokkurs konar hátíð unga fólksins. Það þyrptist út í náttúru, tjaldaði og var frjálst. Enginn vissi fyrir fram hvaða staður myndi verða fyrir valinu.

Fjölmiðlar voru fullar af fréttum af unga fólkinu.  Það var erfitt að segja hvort var varð ofan á, áhyggjur eða hneykslan.

Eftir að þessum hátíðahöldum úti í guðsgrænni náttúrunni lauk, hefur hvítasunnan einungis verið löng helgi.

Trúleysinginn, ég, ígrundaði og las mér til.

Hvítasunnan er haldin hátíðleg til að minnast þess að þá kom heilagur andi yfir lærisveinana og fleira fólk. Það talaði tungum. Allir skildu hvers annars mál. Það sem gerðist var í raun alveg öfugt við það sem átti sér stað þegar Guð sundraði fólki til að refsa því fyrir hroka sinn og byggingu Babelsturnsins. Hann, þ.e. Guð, sundraði málum heimsins.

Á hinni fyrstu hvítasunnu er sagt að allt að 3000 manns hafi látið skírast til kristinnar trúar enda er oft litið svo á að til þessa dags megi rekja upphaf kristinnar kirkju.

Auðvitað má rekja tímasetningu hátíðarinnar til  í gyðinglegrar hátíðar, þannig er um flestar kristnar hátíðir en ég er því miður allt of ófróð um það.  Þó las ég mér til um að eitt af því sem er  fagnað  hátíð gyðinga,  er að þá gaf Guð gaf þeim boðorðin 10.  Þau hafa kristnir menn tekið í arf eins og margt fleira. Þetta er svo sannarlega eitthvað til að halda upp á. Það mætti t.d. velja út boðorð og fagna þeim sérstaklega og þakka fyrir þau.  Væri ekki full þörf að hnykkja á tíunda boðorðinu sem varar við/bannar græðgi.

Frásagan af því sem gerðist á hinni fyrstu hvítasunnuhátíð er örstutt. Þegar ég les hana sé ég að undrið sem átti sér stað fjallar frekar um að hlusta en tala. Þennan dag var margt fólk frá „öllum   löndum undir himninum“  í Jerúsalem. Þegar undrið varð segir: „Þeim brá mjög við því hver og einn heyrði þá mæla á eigin tungu.“ Líklega táknar þessi saga að kristnin ætta að verða sameiginlegt tungumál allra manna.

Fyrsta fréttin sem ég heyrði í morgun var um voðaverkin í London. Það vantar svo sannarlega mikið á að þjóðir heimsins skilji hver aðra. Væri ekki ráð að hlusta betur?

Já það er svo sannarlega þess virði að nota rauðu dagana á almanakinu til að ígrunda.

Myndin er af Babelsturninum eftir Pieter Brugel eldri (f.1525). 


Kör - Hugsað til fortíðar -

IMG_0357

Nú er liðið eitt ár og einn mánuður síðan ég varð ógöngufær. Ég ætla að minnast dagsins til að skrifa um kör – karlægur – vera komin í kör.

Reyndar er alls ekki þannig komið hjá mér, en mér hefur oft verið hugsað til formæðra minna og forfeðra. Hvernig leið þeim? Hver var staða þeirra? Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rannsakað en finnst trúlegt að atlætið hafi farið eftir efnum og aðstæðum. Þá sem nú.

Það er ekki fullkomlega ljóst hver uppruni orðsins kör er. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals eru raktar nokkrar tilgátur. Hann  telur ekki afstöðu til hver þeirra sé sönn.

En hvað sem upprunanum líður er kör og karlæg/ur lifandi mál. Þegar ég hugsað til veikra fyrr á tímum, spyr ég mig: Hvernig var lífið fyrir tíma verkjastillandi lyfja. Ósköp hefur vesalings fólkið þurft að þjáðst. Ekkert Tramól, ekkert Aroxia ekkert Íbúfen.

Í veikindum mínum nýt ég þess að hlusta á tónlist og á góðar hljóðbækur. Ósjálfrátt hugsa ég „vesalings fólkið, mikið hefur því leiðst að geta ekkert gert sér til dægrastyttingar“.

Víða í Íslendingasögunum kemur gamalt fólk við sögu. Þó man ég ekki eftir að beinlínis sé vikið að líðan þess. Í Laxdælu segir frá   Hólmgöngu Bessa. Hann orti þessa skemmtilegu vísu:

 Liggjum báðir
í lamasessi
Haldórr ok ek,
höfum engi þrek ;
veldr elli mér,
en œska þér,
þess batnar þér,
en þeygi mér.

Tilefni vísunnar var að hann lá ósjálfbjarga í rúminu, fólkið var á engjum. Við hlið hans var

barn í vöggu. Vaggan valt og hann gat ekkert að gert. Ekkert nema yrkja þessa vísu, sem enn heldur uppi nafni hans.

Karlæga fólkið okkar í nútímanum er að því leyti betur sett en fólk fyrri alda, að það fær bæði verkjastillandi lyf og aðhlynningu á hjúkrunarheimilum, þegar þar er pláss. Þeir sem ekki fá pláss liggja á legudeildum spítalanna. Oftast, og nær alltaf, heyrum við talað um það vegna þessa. Það er fyrir. Mikið hlýtur að vera leiðinlegt að heyra að maður sé fyrir.

Egill Skallagrímsson var erfitt gamalmenni og hann var líka fyrir. Hann þvældist fyrir fótum eldabuskunnar. Hann var hæddur af vinnufólkinu á Mosfelli en hann gat svarað fyrir sig í bundnu máli. Það hefur verið eins og að taka inn verkjapillu.

Og svo lúrði hann líka á illa fengnu fé. Þórdísi (barnabarni) tókst af telja hann ofan af því að dreifa því yfir þingheim en hann gróf það í jörð. Svo vel að það hefur ekki enn fundist.

Skyldu einhver gamalmenni sem nú „þvælast fyrir“ eiga silfursjóði? Ég veit það ekki en hitt veit ég að það eru margir að safna digrum sjóðum og miklu meiru en þeir geta tekið með sér yfir um. Og það fé er ekki allt vel fengið.

Ég ætlaði að setja punktinn hér en get ekki stillt mig um að rifja upp söguna um Þórólf bægifót, sem var vondur maður hann var afspyrnu erfitt  gamalmenni og gekk svo aftur. Hann varð svo öflug afturganga að við lá að byggð færi í eyði. Skyldi aldrei hvarfla að valdamönnum sem gæta sjóða, til að ausa úr, hvort einhver sem liggur þarna, fyrir öllum, eigi eftir að ganga aftur og hefna? Nei þeir þekkja ekki Eyrbyggju.

 

 

Myndin er af ylpoka fyrir kalda fætur (eigin hönnun). 

Fannst myndin passa, gömlu fólki er oft kalt á fótunum


Vondar og góðar jurtir

IMG_0499

Fyrir nokkrum árum var gott vor og mikil fíflaspretta. Í nágrenni mínu, í útjaðri matjurtagarðanna í Laugardal, uxu gróskulegir túnfíflar, þeir mynduðu gula rönd við jaðar garðlandsins. Ég hafði nýlega fengið uppskrift af fíflahunangi og fannst að hér bera vel í veiði. Ég tíndi gommu af fíflahausum til að gera mér fíflahunang. Hunangið gerði lukku og ég ætlaði að endurtaka þetta að ári. En viti menn. Þá höfðu einhverjir fíflafjendur eitrað og engir fíflar þrifust í nágrenni garðlandsins. 

Síðan hef ég ekkert hunang gert. Ég fór að hugsa um þetta í gær, þegar ég horfði á fallegar fíflabreiður á          blettinum fyrir utan blokkina, þar sem ég bý.

Blóm draga fram  góðar minningar

Í gamla daga, þegar ég var ung, var rótarlauf, en það voru fíflablöð kölluð í mínum heimkynnum, notuð til að leggja við sár og hamla bólgu. Amma mín gerði græðandi smyrsl úr smjöri og rótarlaufi. Það var hið besta meðal.

En hvaða blóm (jurtir) eru vond, eiga sér óvini? Ég sem er mikill blómavinur fæ stundum þá tilfinningu að hér á landi ríki einhvers konar jurtafasismi. Duglegar plöntur sem ráða vel við erfið vaxtarskilyrði, ég tala nú ekki um er þær eru útlendrar ættar, verða sérstaklega fyrir barðinu á þessu.

Margir hamast gegn öspinni, lúpínunni og spánarkerflinum. Ætihvönnin og heimulan, sem eru ekki síðar frekar,eru síður áreittar. Ég veit ekki til að það hafi verið skipulagðar herferðir gegn þeim. Þó hefur hvönnin lagt undir sig stór svæði á Hornströndum og heimulunjólinn leggur víða undir sig stóra skika í þéttbýli. 

Blöð heimulunnar, voru notuð til matar heima hjá mér, enda lostæti. Oft þegar líða tók á  sumar og kartöflurnar annað hvort búnar eða óætar, voru blöðin notuð í jafning. Aldrei man ég til að hvönnin væri nýtt.

Ein er sú jurt sem lítið hefur verið kvartað yfir, mér vitanlega, er hóffífillinn, sem er hið versta illgresi fyrir garðeigendur. Þetta blóm sem nú er gjarnan fyrsta vorblómið hér um slóðir, er gömul lækningajurt erlendis og nefnist Tussilago á latínu. Úr jurtinni vori unnin meðöl við hósta og sjálfsagt fleiru. Hin stóru grænu blöð voru nýtt á ýmsa vegu.  Ekki veit ég til að hún hafi verið nýtt hér.

En hvað er ég að vilja með því að vera að skrifa um þetta? Ekki er ég sérfræðingur í jurtum og ekki á ég land eða garð. Svarið er, að ég er fyrst og fremst að lýsa tilfinningum mínum. Náttúran kemur öllum við.

Mér finnst best að fara varlega í að eitra og útrýma jurtum, þótt stundum sé nauðsynlegt að koma einhverju skipulagi á landsvæði. Nýtum og njótum í stað þess að eitra og höggva. Snyrtum öspina í stað þess að fella hana. Hún á það inni hjá okkur, hún hefur bætt loftslagið umtalsvert, þar sem hennar nýtur við.

Myndin sýnir fífil í varpa og var tekin í gær.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 190339

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband