Færsluflokkur: Bloggar

Kristín Lafranzdóttir og prjónaskapur

IMG_0408

Nú hef ég lokið þriðju og síðustu bók Sigrid Undset um Kristínu Lavranzdóttur. Hún ber undirtitilinn Krossinn. Ég kveð hana og Noreg 14. aldar með vissum söknuði og er farin að skoða ferðalag með Dovrebanen um Guðbrandsdal til Niðaróss (Þrándheim).

Sagan um Kristínu Lafranzdóttur er í þremur bindum (Kransinn, Húsfrúin og Krossinn) en hún er skipulögð  sem heild og þannig ber að lesa hana. Ósjálfrátt velti ég fyrir  mér hvernig til hefur tekist. 

Það má líkja skrifum rithöfunda við prjónaskap. Fyrst er fitjað upp, síðan er valið munstur og prjónað áfram svo lengi sem þarf. Þá er komið að úrtöku og frágangi á lausum endum. Ef ég skoða bók Sigrid Undset út frá þessari samlíkingu, finnst mér að vel hafi tekist til með að fitja upp og að prjóna grípandi mynstur. Úrtakan er of snubbótt fyrir minn smekk og endarnir eru allt of margir til að það sé viðlit að ganga frá þeim.

En aftur að bókinni, án líkinga. Í Krossinum er Kristín orðin kona með stálpuð börn, syni og Erlendur, stóra ástin í lífi hennar á ekki nema hluta af ást hennar. Það er margt sem togast á í lífi hennar en samt er það framtíð sona hennar sem skiptir hana mestu. Þó lifir enn í glæðum ástarinnar.

Ef ég reyni að henda reiður á hvað fjallað er um í bókunum um Kristínu, þá verður til heill listi. 

1. Ástin í öllum sínum myndum. Ástin til föður og móður, ástin til barna, ástin til Guðs, ástin til maka. 

2. Saga Noregs

3. Náttúran, þó einkum jurtir

4. Hýbýli, klæðnaður og matur til forna

5. Fæðingar, sjúkdómar og dauði 

6. Trú og trúarsiðir kaþólsku kirkjunnar 

Sjálfsagt gæti þessi listi verið enn lengri. Stundum fannst mér höfundur full langorður þegar kom að hinum fjölmörgu myndum ástar en hafði því meira gaman af því sem er neðar á listanum. Eitt hef ég ekki enn talið upp, það er persónusköpun höfundar. Undset leggur mikla vinnu í persónusköpun. Það sem einkennir persónur hennar er að þær eru ekki einfaldar svarthvítar, góðar eða vondar og því oft erfitt að taka afstöðu til þeirra. Þannig er um persónu aðalpersónunnar, Kristínar, ég veit ekki enn hvernig mér fellur hún. Og hinn gullfallegi Erlendur, sem mér finnst lengst af að sé skíthæll, á sínu góðu hliðar.

Bókinni líkur þegar Kristín er sest í klaustur í Þrændalögum og Svarti dauði er við það að leggja landið í auðn. Það,sem annað, virðist vel stutt sögulegri þekkingu. 

Ég mun sakna Kristínar og fólksins hennar. Ég er búin að horfa á kvikmynd (sem Liv Ullman leikstýrði) sem er gerð eftir fyrstu sögunni og mér  finnst auðvitað bókin betri. Enda ekki mögulegt að vera sögunni trúr nema að taka allar bækurnar sem heild. Ég hef heyrt að nú standi til að gera söngleik um Kristínu og hlakka til að frétta meira af því. 


Gömul saga og ný

IMG_0363 

Þá

Þegar ég var við nám í Ósló (1971-1972) varð ég vitni að því í kaffihléi að samnemendur mínir voru allir í þvögu og í hörku samræðum um mynd í Dagbladet (held ég). Myndin var af hjónum á Vesturlandinu og börnum þeirra. Fréttin sem fylgdi, var um að hjónin ættu 10 börn, sem þótti mikið.

Nemendahópurinn sem var að ræða fréttina, hafði skipst í tvennt.

Annar hópurinn sagði að þessi hjón væru dæmalaust óábyrg, þau gætu eflaust ekki séð fyrir þessum barnaskara og samfélagið þyrfti að gjalda fyrir þessa óráðsíu þeirra. Ég hafði grun um að einhver í þessum hópi þekkti til þarna og væri búinn  að segja fréttir úr heimabyggð.

Hinn hópurinn, sem reyndar var bara einn maður og því rangt að tala um hóp, hélt því fram að það ætti að verlauna hjónin. „Sjáið þið ekki, að þau hafa fært okkur skattborgara framtíðarinnar“, sagði hann, „fólkið sem kemur til að sjá fyrir okkur“?

Ég, útlendingurinn, blandaði mér ekki í þessa norsku umræðu en dáðist að kallinum, því þetta var einn af eldri skólabræðrum mínum og ég hafði aldrei tekið eftir því að hann væri  sérstaklega róttækur í skoðunum.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér nú nýlega, þegar ég hlustaði á umræðu um framhaldsskólakerfið. Umræðan snerist fyrst og fremst um kostnað,þrúgandi kostnað, við að mennta nemendur. Það var eins og þetta væri þungur baggi á þjóðfélaginu. Góðverk, nánast  gustukaverk stjórnvalda. Það eina sem gæti réttlætt slíkt væri að einkavæða þessa vesalinga, græða á þeim.Þessi armæðutónn er reyndar nálægur þegar kemur að því að ræða um menntun barna sem fullorðinna.

Heima í stofu fyrir framan sjónvarpið, hugsaði ég, „Sér fólkið virkilega ekki, að þetta eru upprennandi skattborgarar og því meiri menntun, því betri skattborgarar?“

Myndin er til skrauts og hefur ekkert með efnið að gera. Hún er af vettlingi sem ég fann á göngu minni.


Kristín Lafranzdóttir: Sigrid Undset: Húsfrúin

IMG_0489

Kristín Lafranzdóttir: Húsfrúin

Í fyrstu bókinni um Kristínu Lafranzdóttur Kransinum, var sagt frá óstýrilátu ástalífi hennar og Erlendar Nikulássonar, sem seinna varð maður hennar. Í þessari bók, Húsfrúnni, segir frá samlífi þeirra hjóna eftir að þau voru komin í vígða sambúð. Í dag myndi maður segja að hjónabandið hafi ekki  staðist væntingar. Kristín var óhamingjusöm, þótt hún elskaði mann sinn staðfastlega.

Það var í mörgu að snúast á nýja heimilinu, Húsabæ. Kristín elur manni sínum 7 drengi og er stjúpmóðir tveggja frillubara hans. Hún kemur skikki á heimilishaldið, sem hafði verið í argasta ólestri. Það eru miklar sviptingar í tilfinningalífi Kristínar og hún hefur mikinn trúarhita. Hinn glæsilegi Erlendur er ónærgætinn og stundum hrottalegur. Í dag myndi maður nota meðvirkni til að lýsa viðbrögðum Kristínar, en með því að tala svo, er ég líklega að svíkja söguna, því þá fer ég út fyrir dramatískan ramma hennar. Kristín grætur mikið.

En bókin er ekki fyrst og fremst um heimilislífið á Húsabæ. Í henni eru rakin pólitísk átök þessa tíma. Og þetta eru ekki nein óljós átök í útjaðri sögunnar, heldur sviptingar sem skipta sköpum um um líf fjölskyldunnar og örlög konungdæmisins Noregs. Erlendur Nikulásson tengist, eða er í forsvari fyrir samsæri, hann vill steypa kónginum,  sem er yfirboðari hans og frændi.

Það sem gerir bækurnar um Kristínu Lafranzdóttur heillandi lesningu er að höfundur dregur upp mynd af lífsháttum þessa tíma. Hún lýsir öllu, mjög nákvæmlega. Segir frá   matarvenjum, klæðnaði, húsakynnum og trúarlífi, sem mótaði líf fólks meira þá en nú. Í þessari bók lýsir hún virðingarstiga lénsveldisins sem var undirstaða ríkisins. Kristín Lafranzdóttir og fjölskylda hennar eru tilbúnar persónur. En  þannig er því ekki varið með allar persónur sögunnar.  Sagan er látin gerast á tímum Magnúsar Eiríkssonar (f. 1316  d. 1374) og fjölmargt sem lýtur að sögu  Noregs er sótt í norrænar sögur. Það er dálítið eins og maður sé komin heim til Sturlungu. Allt líkist nema að sögusviðinu er lýst frá sjónarhorni konu.

Og nú er ég komin að því sem mér finnst skemmtilegast af öllu. Í hvert skipti sem ég les slíkar bækur, leggst ég í aukalestur. Nú las ég allt sem ég gat fundið á netinu um norska kónga.  Magnús Eiríksson varð konungur þriggja ára gamall, móðir hans, Ingibjörg, leit til með honum ásamt Erlingi Víðkunnssyni og sjálfsagt fleirum. (Þessi Erlingur kemur mjög við í sögu í bókinni um Kristínu Lafranzdóttur ). Mé reiknast svo til að Ingibjörg hafi alið Magnús þegar hún var 15 ára. Ég held áfram að lesa um norskt kóngafólk og rekst á, að amma Magnúsar Eiríkssonar,  Eufemia, hafi átt stærst bókasafn síns tíma og að hún hafi þýtt ballöður og aðrar riddarabókmenntir. Af hverju var mér aldri sagt þetta?

En allur þessi lestur minn á netinu um kóngaættir er tilkominn vegna Kristínar Lafranzdóttur svo ég yfirgef netheima og tek aftur til við söguna. Nú er ég tekin til við  þriðju og síðustu bókina, Krossinn.

Það er engin venjuleg koddalesning að lesa bækur Sigrid Undset um Kristínu Lafranzdóttur, það er meira svona eins og prójekt. Þessar bækur væru kjörnar til að fjalla um á námskeiði í miðaldafræðum, það mætti flétta inn umræður um stöðu konunnar. Alls eru þetta þrjár bækur sem eru samtals 1200 blaðsíður. Ég hlusta á þær sem hljóðbækur.  Sagan er fallega  lesin (upplesarinn heitir Ólafía  Ólafsdóttir) og tekur 51 klukkustund og 26 mínútur í hlustun.

Ekki spillir að sagan er á köflum mjög spennandi. Eins og ævinlega þegar ég les góðar bækur flyt ég að hluta inn til sögupersónanna  og dvel meira með þeim en hér í íslenska vorinu.

Líklega getur Kristín Lafransdóttir ekki talist til léttlestrarbóka. En af hverju ætti maður að vera að lesa eitthvert þunnmeti þegar maður á kost á þessari átakamiklu og innihaldsríku bók?

Hún er sannkallað maraþon fyrir heilann.

Næst mun ég segja frá síðustu bókinni, sem heitir Krossinn

Myndin  er er sótt netið. Hún prýðir þar lista um "norska Monarkiet".


Hversu arðbært er krabbamein?

IMG_0463 

Í gamla daga, fyrir mitt minni, tíðkaðist að bændur sendu vinnumenn sína á vertíð. Þeir voru þá ráðnir upp á hlut eins og enn tíðkast, en bóndinn hirti hlut þeirra eftir hverja vertíð. Þetta var hluti af hagkerfi þess tíma.

Ég fór að velta þessu fyrir mér þegar ég hlustaði á forsætisráðherra ræða um hversu sjálfsagt það væri að einkafyrirtæki rækju heilbrigðisstofnanir og innheimtu arð.

Hversu sjálfsagt er það?

Hjá okkur hefur það tíðkast að Heilbrigðisstofnanir eru reknar af ríki fyrir almannafé og hingað til hefur ekki verið afgangur af því fé sem er til þess ætlað.

Ég fór því að hugsa um hugtakið. Í mínum huga er arður=gróði=virðisauki=gildisauki allt eitt og hið sama. Til að glöggva mig á skilgreiningunni kíkti ég eftir hvað google segir um þetta. Útkoman var þessi:

1

fá eigendur framleiðsluauðsins meira gildi upp úr starfsemi verkalýðsins en það, sem þeir gefa fyrir vinnuafl hans. Þannig myndast gildis- eða verðmætisauki, sem legst við framleiðsluauðinn.

gildisauki

Réttur   1931, 110
Aldur: 20f

2

gildisauki: sú verðmætasköpun vinnuseljanda í framleiðsluferlinu sem honum er ekki greidd í kaupgjaldinu.

gildisauki

BBSigFrjáls   , 245
Aldur: 20s

3

Þar sem verkamenn framleiða meira en þeir fá greitt í laun hefur sá ,,gildisauki``, sem þeir hafa framleitt, lent í vasa eiganda framleiðslutækjanna.

gildisauki

WorslFél   , 284
Aldur: 20s

 

Ekki nennti ég þó að eltast frekar við það en tilfinning mín segir mér að það sé eitthvað stórlega bogið við að ríkið afhendi einkaaðilum afmarkaða þætti heilbrigðisþjónustu til að græða á og sitji svo sjálft eftir með þann hlut ábyrgðinni

sem tap er á.

Reyndar finnst  mér eina rétta leiðin vera sú, að  við sjálf, ríkið fyrir hönd almennings í landinu, reki spítalana  og fái til þess þann pening sem þarf.

Ég hef sjálf oftar en ég vil , notið þessarar þjónustu, á henni líf að launa. Ég hef heyrt því fleygt að brjóstnám sé ein af þeim læknisaðgerðum sem boðið sé upp á  að kaupa á hinum frjálsa markaði. Af því er komin titill þessa pistils.

En hvað merkir hinn frjálsi í þessu öllu saman? Eru ekki greiðslurnar meira og minna komnar frá ríkinu, þ.e. okkur. Mér og þér?

Mér finnst ömurlegt hvernig reynt er að rugla fólk í ríminu varðandi einkavæðingu Heilbrigðiskerfisins. Nú stefnir t.d. í að menntað starfsfólk kjósi að ráða sig frekar til einkaaðila,  þeir borga betur. En af hverju borga þeir betur? Hver skaffar þeim fé?   Mér þykir líklegt að meiri hluti af tekjum þeirra komi beint frá ríki. Ef arður verður af, sýnist mér að ríkið hafi greitt um of. Væri ekki nær að okkar ábyrgu ríkisstofnanir fengju aukningu til að geta betur innt af hend sín mýmörgu verkefni?

Það er erfitt að henda reiður á því, hvað þarna er að gerast, það er pukur í gangi. Allt er þetta til komið vegna nýrrar trúarsetningar sem hljóðar upp á það að einkavæðing sé góð í sjálfu sér. Hallelulúja.

Mín skoðun er sú að það séu til margvísleg starfsemi sem ekki á að reka til að skila fjárhagslegum  arði. Það sem slíkar stofnanir gera fyrir fólkið er arður í sjálfu sér. Heilbrigðisstofnanir lækna og líkna, skólar skila til okkar menntuðum og siðuðum einstaklingum. Samgöngukerfið byggir brýr og vegi, Ríkisútvarpið nærir andann og sér okkur fyrir vönduðum fréttaflutningi. Það mætti telja upp enn fleiri stofnanir.  Ég ætla ekki hér að tjá mig um fangelsin, því ég veit ekki hvort þau eru á réttri leið.

Látum ekki blekkjast af fagurgala þessarar nýju trúarsetningar. Það vekur athygli mína að engin list hefur verið samin þeim til dýrðar.

En aftur að til vinnumannsins sem bóndinn sendi á vertíð. Getum við dregið einhvern lærdóm af því?

Kannski ekki. Nú eru stórvirkar starfsmannaleigur sem annast slíkt og eru stórtækar. Nú er það íslenskur verkalýður sem er gert að afhenda laun sín í gegn um skatta. Það er gott. En það er ótækt að stjórnmálamenn taki sér bessaleyfi og braski með þetta eins og um eigið fé sé að ræða.

Myndin er ljósmynd af listaverki albanska listamannsins Samir Strati. Hún tengist ekki hugleiðingum mínum beint en kom óvænt upp í hendurnar á mér

 


Sigrid Undset: Kristín Lafranzdóttir

IMG_0456 

Gömul saga en þó sem ný

Ég hef lokið við að lesa fyrsta bindi af þremur um Kristínu Lafranzdóttur eftir Sigrid Undset (f. 1882 d. 1949). Bækurnar  komu á út árunum 1920-1922 og Sigrid fékk síðan Nóbelsverðlaunin 1928.

Ég hafði lesið bókina áður en man hana svo illa að þetta er eins og lesa nýja bók. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég las hana en bókin sem ég minnist er um margt ólík. Þá gerði ég mér ekki grein fyrir að sagan ætti að gerast á miðöldum. Ég tók hana sem hverja aðra sveitsögu frá Noregi og hreyfst af ástarsögunni og sveitalífslífslýsingunum.  

Nú er ég afar upptekin af því að bera söguna saman við það sem ég þekki til lýsinga á lífi fólks úr okkar fortíð og hugsa gjarnan til Sturlungu í því sambandi.

En hvernig er þá sagan?

Fyrsta bindi Kristínar Lafranzdóttur, Kransinn,  segir frá uppvexti höfðingjadótturinnar Kristínar á Jörundargörðum. Sagan er látin hefjast um það leyti sem Kristín litla er farin að muna eftir sér og lýkur þegar hún yfirgefur heimaslóðir, gift kona. Í fyrstu fær lesandinn að fylgjast með frásögninni eins og barnið sér heiminn. Frásagnarmátinn breytist eftir því sem árin líða. Loks verður þetta mögnuð ástarsaga. Líklega passar hér að setja inn frönskuslettuna l´amour fou.

En það er svo margt sérstakt í þessari bók að það er eflaust stöðugt hægt að koma auga á eitthvað merkilegt. Foreldrar Kristínar er strangtrúuð  og á heimi Kristínar tengjast allar ákvarðanir sem máli skipta hugmyndum kirkjunnar um hvað sé Guði þóknanlegt. Barnið og seinna stúlkan hugsar um synd, fyrirgefningu, iðrun og náð, orð sem á þessum tíma höfðu ríkara innihald en nú, trúlega. Ófróðri um kaþólskan  trúarheim,  fannst mér  þetta þetta allt mjög fræðandi. Helgidagahald kirkjunnar rammar inn líf fólksins.

Það er gaman að sjá hvernig þarna er fjallað um líf kvenna á miðöldum frá sjónarhóli kvenna. Það var eins og opinberun að bera þetta saman við sögurnar okkar, þar sem konur eru ævinlega í aukahlutverki.  

Eitt af því sem gerir lesturinn skemmtilegan, er hvernig tekist hefur að firna málfarið án þess að það íþyngi skilningi lesandans. Ekki veit ég hvernig það er á norskunni en í íslensku þýðingunni er oft eins og maður sé að lesa forna bók. Helgi Hjörvar og Arnheiður Sigurðardóttir eru skrifuð fyrir þýðingunni. Bókin mun fyrst hafa verið lesin í útvarp 1941 en var  síðan gefin út á  árunum1955-1957.

Þegar ég skrifa þetta, er ég þegar komin vel af stað með annað bindi sögunnar, Húsfrúin. Þar er sagt frá ungu nýgiftu konunni Kristínu, sem  nú er flutt úr föðurgarði  burt frá frændfólki og vinum. Nú fæ ég að vita hvernig stóru ástinni reiðir af í annríki og hverdagsleika daganna.

Framhald þegar ég hef lokið við Húsfrúna.

Það eru ekki margar konur sem prýða peningaseðla, Sigrid Undset er ein þeirra.

 


Hrollköld lesning: Sigríður Hagalín og Hildur Knútsdóttir

Þegar ég hafði kvatt Balzac ákvað ég að velja mér lesefni sem reyndi ekki eins mikið á. Bók Agöthu Christie , Myrkraverk á Styles – setri,  varð fyrir valinu.  Agata olli mér ekki vonbrigðum frekar en venjulega en ég ætla ekki að fjalla um hana nú, heldur bækurnar sem ég las í framhaldinu.

 

EylandEyland

Ég hef ekki enn komist yfir að lesa nýjustu bækurnar, því mér finnst svo gaman að lesa gamlar bækur.  En ég lifi í nútíðinni og ákvað að lesa nýja bók eftir höfund sem ég þekki ekki, Eyland eftir Sigríði Hagalín. Bókin gerist í nálægri framtíð, þegar samband Íslands við önnur lönd hefur rofnað. Enginn veit hvers vegna og stjórnvöld hafa tekið þá afstöðu að það sé affarasælast að fyrir þjóðina að vera ekki allt of mikið að velta þessu fyrir sér. Það væri betra að nýta kraftana til að  læra að lifa við ástandið og um fram allt að fara eftir fyrirmælum stjórnvala.

Lesandi fylgist með þróun mála á þessu einangraða eylandi í gegnum nokkrar vel dregnar lykilpersónur, Hjalta, Maríu og börnin hennar tvö Margréti og Elís. Forsætisráðherrann, Elín einnig lykilmanneskja. Hún hefur tekið við í forföllum forsætisráðherra, sem var staddur erlendis þegar landið einangraðist. Oft er eins og Elín tali út frá handriti sem við þekkjum úr pólitísku lífi okkar Íslendinga. Setningarnar sem hún segir eru eins og teknar úr munni annarra forsætisráðherra sem við þekkjum.

Það má segja að þrír þrír þræðir sögunnar  séu  raktir samtímis: Ástarsaga Hjalta  og Maríu, þroskasaga Margrétar og stóra sagan um hvernig allt breytist þegar landið einangrast. Það er ótrúlega auðvelt að fylgjast með þessu og höfundi tekst að byggja upp óhugnað  og spennu.

Sagan er í senn ógnvænleg og sorgleg. Það sem veldur því að hún snertir innstu hjartarætur, er að höfundi tekst að feta slóð sem liggur svo nærri því sem er eðlilegt, sjálfsagt og við þekkjum vel.  Ég trúi hverju orði. Já svona gæti þetta gerst, einmitt svona myndi það vera ef við værum ein eftir. Tilfinningin sem situr eftir er ísmeygilegur ótti, sorg og vanmáttur. Varnarleysi.

Bókin er meistaralega skrifuð bæði hvað varðar uppbyggingu og orðfæri. Innskotin með fróðleik og sögulegu efni gerðu sitt gagn. Hún gat meira að segja gert mér til hæfis þegar kom að því að lýsa búskap og dýrahaldi, en ég er afskaplega viðkvæm fyrir hvernig farið er með slíkt. Voðalegasti kafli sögunnar fjallaði um endanlega lausn útlendingavandans. Ég veit af hverju.

 

Vetrarhorkur_72Vetrarfrí og Vetrarhörkur

Þegar ég hafði lokið lestrinum fannst mér liggja beint við að lesa tvær barnabækur, Vetrarfrí og Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur. Önnur kom út í fyrra og hin fyrir síðustu jól. Ég hafði heyrt Hildi lesa upp úr þeim á bókakynningu og vissi nokkuð um hvers var að vænta.

Ég var enn með hroll í sálinni eftir að hafa lesið Eyland og sjálfrátt bar ég bækurnar saman. Hafi ég átt von á því að Hildur gæfi einhver barnaafslátt á hryllingi   fór ég vill vegar.

Í Vetrarfrí og Vetrarhörkur hafa geimverur ráðist á okkar litla land. Þessar geimverur eru mannætur. Þær virðast ekki vilja borða lifandi bráð, þess vegna kála þær fólkinu fyrst með því að dreifa eitri,  fólk fær uppköst, síðan deyr það. Aðeins örfáir komast undan og um þá er bókin. Það kvarnast úr þessum litla hóp  og óhugnaðurinn og spennan magnast.

Sagan hefst á því að lýsa lífi og hugmyndum Bergljótar, unglingsstúlku í Vesturbæ Reykjavíkur. Veröld hennar er ekki stór, hún snýst um vinkonurnar og strákinn sem hún er skotin í . Og svo hugsar hún auðvitað um fjölskylduna sem hún er greinilega talsvert gagnrýnin á. Fjölskylda,  Bergljót, Bragi bróðir hennar og pabbi þeirra Þórbergur fara saman í sumarhús á Arnarstapa, öll nema móðirin, Sigrún, sem þurfti að vinna. Bergljót er miður sín út af því að missa af skólaballi. þar hefði hún getað hitt strákinn sem átti hug hennar. Hún er reið út í pabba sinn og vil refsa honum. Hún situr ein eftir í sófanum þegar pabbinn fer út með Braga bróður hennar. Hún er í fýlu. En þá gerðist það sem enginn gat séð fyrir.

Ég dvalist sjálf í sumarhúsi á Arnarstapa í fyrra sumar svo þessi fyrsti vettvangur atburða í sögunni er aafar lifandi, ég sé þetta allt fyrir mér. Sófann, leikvöllinn og útsýnið út um gluggann. Kannski voru þau í sama sumarhúsi.

Og þá er ég komin að því sem er galdur allra heppnaðra sagna, maður trúir þeim. Já svona var þetta segir maður við sjálfan sig  og kinkar kolli. Hildur er snilldarsögumaður. Frásögnin er rík af vel dregnum vettvangslýsingum, góðum samtölum og hugsunum sem snerta mann. Aldrei er slakað á spennunni ekki einu sinni í lokakaflanum. Það gæti alveg verið þörf fyrir aðra bók. Og þrátt fyrir þennan í meira lagi alvarlega söguþráð er bókin meira að segja fyndin. Ég verð að koma því að, að uppáhaldspersónan mín í sögunni er Víkingur geimveruáhugamaður. Það kemur honum ekkert á óvart. „Sagði ég ekki“ sagði Víkingur.

Af og til velti ég því fyrir mér hvernig börn taki þessu öllu saman. Ég hugga mig við að líklega taki þau þetta ekki eins nærri sér og ég, því þau skilji ekki óhugnaðinn eins bókstaflega. Ég veit að það eru breyttir tímar þar sem netið og margmiðlun bíður fram fjölbreytt efn með limlestingum, morðum og stríðsógnum í leikformi fyrir börn. Börn eru umkringd skelfingu, sprengjurnar verða stærri og öflugri hvort sem er í fréttefninu eða skemmtiefninu. En þarna í þessari bók er efnið  sótt inn í þeirra hverdag, þá svíður. Þá dugir hvorki herðing né forherðing.

Eins og fyrr sagði, ber ég bækur Sigríðar og Hildar saman í huga mér. Ég veit ekki hvor höfundurinn hreyfir meir við mér og kannski eru efnistökin ekki svo ólík. Maður skynjar glöggt að sama alvaran býr þarna að baki. Það er eins og þær vilji brýna okkur, láta okkur skynja hvers virði lífið er. Þetta ómerkilega líf okkar.

Loks velti ég því fyrir mér hvað það hafa komið út margar góðar bækur fyrir síðustu jól. Og kannski leynast enn perlur því ég á nokkrar eftir ólesnar.    


Honoré de Balzac

Honoré_de_Balzac_(1842)_Detail

Ég hef lengi vitað að Balzac tilheyrði bókmenntarisum 19. aldar en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma lesið bók eftir hann.  Nú þegar mér býðst að lesa Ævisögu Balzacs gríp ég tækifærið feginshendi. Ævisaga er betra en ekkert. Og þar að auki er þetta þýðing Sigurjóns Björnssonar vinar míns. 

Ævisagan er eftir Stefan Zweig (1881 – 1942) sem er stórt nafn í bókmenntum 20. aldar. Satt best að segja olli bókin mér  vonbrigðum. Ég hefði þó mátt vita hvers var að vænta, því það er ekki ýkja langt síðan ég las Veröld sem var, en í þeirri bók gekk höfundurinn algerlega fram af mér í eltingaleik sínum við fræg nöfn og kvennahundsun. Ég læt Stean Zweig fara í taugarnar á mér og það bitnar á lestrinum.   Ég veit að hann er barn síns tíma en fyrr má nú vera.

Það er greinilegt að Zweig byggir bók sína á mikilli heimildavinnu enda af miklu að taka. Ég efast ekki  að hann fer rétt með staðreyndir, það eru túlkanir þessara staðreynda sem ég  efast stundum um. En áður en ég segi meira er besta að snúa sér að efni bókarinnar.

Rammi sögunnar er ósköp venjulegur ævisögurammi. Hefst á því að segja frá foreldrum hans og lýkur með dauða hans. Faðirinn er bóndasonur fæddur 1746. Hann hefur unnið sig upp í virðingarstiga þjóðfélagsins með ævintýramennsku og seinna tryggði hann fjárhag sinn með því að giftast vel stæðri stúlku rúmlega þrjátíu árum yngri. Hann var þá fimmtugur og stúlkan 18. Á tiltölulega stuttum tíma eignast hjónin 5 börn. Balzac fæddist 1799 var næst elstur.  Börnin eru eru sett í fóstur hjá mjólkandi fóstru eins og  þá tíðkaðist hjá betri borgurum. Mér finnst óljóst hversu mikið litli drengurinn hafði af foreldrum sínum að segja en 10 ára gamall var hann sendur í heimavistarskóla svo það hefur ekki verið mikið. Faðir hans vildi að hann yrði málafærslumaður en hugur hans stóð til annars.

Hann ætlaði að verða skáld og samdi við foreldra sína um að kosta uppihald sitt í tvö ár, það var tíminn sem hann ætlaði að nota til að sanna að í honum byggi rithöfundur. Niðurstaðan varð þó ekki hughreystandi fyrir unga manninn, því afrakstur erfiðisins var ekki hæfur til útgáfu. En áfram hélt hann, fyrst lengi vel skrifaði hann reifara og ástarsögur undir dulnefnum og komst vel af. Auk þess tók hann sér ýmislegt fyrir hendur. Hann var útgefandi, reyndi fyrir sér í pólitík, var í blaðamennsku og fleira.En það kom að því að hann gaf bækur sínar út undir eigin nafn.Þrátt fyrir rífandi tekjur var Balzac í eilífum fjárkröggum.

Balzac þekkti vel til annarra rithöfunda þessa tíma og lærði töluvert af þeim og fékk ýmislegt lánað. En samkvæmt þessari sögu snerist metnaður hans þó ekki um að skrifa, heldur að verða ríkur og komast í tölu betri borgara, aðalsmanna. Hann var óhemju snobbaður og bætti de við nafn sitt.

Balzac er frægur fyrir vinnutarnir sínar og afköst hans voru ótrúleg. Samkvæmt þessari frásögu Zweigs, skrifaði hann þó ekki af því honum fyndist hann hafa eitthvað fram að færa, heldur af löngun sinni til að verða ríkur. Þörf hans fyrir að verða ríkur og elskaður var drifkrafturinn á bak við snilligáfu hans.

Þessu trúi ég náttúrlega ekki og það fékk mig til að efast um fleira í túlkun Zweigs á persónuleika listamannsins.   

Balzac er lýst sem hégómlegum, klaufalegum  og óaðlaðandi ungum manni. Hann langar að vera elskaður. Hver vill það ekki? Hann laðast að eldri konum og átti í vinasambandi og ástsambandi við konur sem tóku að sér að koma honum til manns. En Balzac þráði að komast inn í raðir tignarfólks og sóttist eftir að ná ástum aðalskonu.Og að lokum tókst honum að kynnast einni slíkri. Eftir margra ára bréfaskipti mælir hann sér mót við aðalskonuna Hanska. Þau hafa aldrei sést og frásögnin af sambandinu minnir mig á sögur sem ég heyri af fólki sem verður ástfangið í gegnum netið. Hún var að vísu gift og þurfti Balzac að bíða. Að lokum giftast þau en Balzac dó skömmu síðar (1850).

Öll frásaga Zweigs er mjög fróðleg, ekki síst lýsingin á lífinu í París. En hvað  í bókinni tilheyrir hugmyndaheimi Balzacs og hvað tilheyrir hugmyndaheimi Zweigs sjálfs? Ég las bókina full efa og ekki bætti úr skák að mér fannst hallað á konur. Auk þessi truflaði mig að bókin er full af frásögum af frægu fólki sem ég veit ekki haus eða hala á, enda ekki vel að mér um franska sögu. Það sem verra er, titlar og bókarheiti eru öll á frönsku.   En Zweig skrifar fyrir menntað fólk síns tíma, sem setur slíkt ekki fyrir sig. Ég vildi að Sigurjón hefði þýtt þetta, en hér fylgir hann sjálfsagt hefð, með því að gera það ekki.

Bókin er að sjálfsögðu vel skrifuð enda Zweig frægur fyrir vandaðan stíl og hún er á góðri og lipurri íslensku. Mér finnst rétt að taka þetta fram úr því ég er búin að vera svona neikvæð. En þar sem ég skrifa um bækur til að glöggva mig á hvað mér finnst um þær, kemst ég ekki hjá því að segja eins og er. Enda á maður hvorki að lúga í sjálfan sig né aðra.

Í bók Zweigs um eru konur ótrúlega fjarstaddar, í þessari bók eru þær þó til staðar en eru vondar, heimskar og/eða hlægilegar. Öll vandræði í lífi Balzacs eru móður hans að kenna. Þannig virðist Balzac sjálfur hafa litið á þetta og Zweig dregur það ekki í efa.  Móðurinni er lýst sem ómerkilegri taugaveiklaði konu jafnvel lauslátri.Það virðist þó vera þessi kona sem stendur á bak við hann alla tíð. Balzac er lýst sem stóru ólánlegu barni. Hann fullorðnaðist  aldrei.

Eftir á að hyggja, hefði verið betra að lesa bókina án femíniskra gleraugna.Ég var í stöðugri vörn fyrir konurnar í bókinni. Var t.d. upptekin af því hvernig það var fyrir móður Bazacs 18. ára gamla  að giftast afgömlum kalli og eignast með honum 5 börn á átta árum. 

Niðurstaðan af lestrinum er þó sú, að bókin kveikir áhuga minn á að kynnast verkum Balzacs, kannski gæti ég útvegað mér bækur hans á tungumálum sem ég ræð við. Það er svo sannarlega nóg af bókum til að lesa


Balzac og kínverska saumastúlkan:

 

Saumavél mömmu

Balzac og kínverska saumastúlkan

Um leið og ég frétti af þýðingu Sigurjóns Björnssonar á ævisögu Balzacs, vissi ég að þessa bók yrði ég að lesa. Við Sigurjón þekkjumst úr bókbandin (Nánari skýring: Við Sigurjón vorum,eilífðarnemendur í bókbandi. Ég er hætt, Sigurjón er enn að).

Við leit mína að bókinni í Hljóðbókasafninu, kom upp bókin Balzac og kínverska saumastúlkan og af einskærri forvitni, ákvað ég að lesa hana fyrst. Af þessu sést að bókaval mitt ræðst ekki af tilviljunum.  

 Bókin er eftir Dai Sijie og gerist á dögum menningarbyltingarinnar. Hún kom út á íslensku 2002. Þessi bók hafði alveg farið fram hjá mér, enda tími minn til að lesa, minni þá en nú. Ég hef reyndar lesið nokkrar bækur um þessa sérkennilegu menntatilraun og langaði til að fræðast enn frekar. Í því samhengi langar mig að nefna Fjall andanna (Andarnas berg en ég las bókina á sænsku) eftir nóbelsverðlaunahafann (2000) Gaó Xingjian. Dásamleg bók.  Hún hefur ekki verið íslenskuð. Merkilegt hvað er þýtt og hvað ekki.

Í bókinni, Balzac og saumastúlkan, er sögð saga tveggja ungra manna, nánast drengja, sem eru dæmdir til hætta námi, sem reyndar var í skötulíki og flytja út á land. Þeir áttu að kynnast kjörum fólksins. Í lýsingu höfundar á viðbrögðum piltanna gagnvart þessu nýja umhverfi, er greinilegt að þá vantar auðmýktina sem Maó hefur líklega gert ráð fyrir, þeim ofbýður sóðaskapurinn og finnst alþýðan þröngsýn og einföld. Mér varð allt í einu hugsað til íslensku borgardrengjanna sem voru teknir úr fótboltanum og sendir í sveit á sumrin. Hvernig leið þeim? En það er önnur saga.

Borgardrengirnir, Sögumaður og vinir hans Lúó, voru sendir í afskekkt fjallaþorp og vissulega kynntust þeir lífi sem var þeim framandi en þeir lærðu líklega annað en til var ætlast. Það sem heillaði þá þó mest var tvennt. Annað var undurfögur saumastúlka, dóttir skraddarans, hitt var heimurinn sem, laukst upp fyrir þeim við að lesa Balzac og fleiri forboðna höfunda. Ástæðan fyrir því að bækurnar voru í farangri þeirra í sveitina, var að móðir Lúós hafði beðið hann fyrir tösku með forboðnum bókum, til að bjarga þeim frá bókabrennu.

Þótt meginefni sögunnar fjalli um pólitík, er þetta í hina röndina þroskasaga.Í gegnum Balzac uppgötva vinirnir ástina og dásemdir einstaklingshyggjunnar.Hin fagra dóttir skraddarans heillar þá og þó sérstaklega Lúó. Hún er þó ekki nógu fáguð að hans mati og hann vill mennta hana. Það tókst honum en niðurstaðan var önnur en þegar Higgins menntaði Elísu í My Fair Lady.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar hér, hún er stutt og þeir sem vilja eru fljótir að kynna sér hana. En mér fannst bókin skemmtileg,þrátt fyrir alvarleika málsins er hún prakkaraleg og fyndin.Mér fannst líka gaman að lesa um hagi sveitafólksins.

Ég hef lesið mér til um höfundinn og veit núna að sagan byggir á reynslu hans. Hann var sjálfur fórnarlamb menningar- byltingarinnar. Seinna lauk hann menntun sinni og gerðist kennari. Hann yfirgaf Kína 1984 og settist að í Frakklandi, landi Balzacs og hefur dvalið þar og starfað bæði sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður.

Bókina þýðir Friðrik Rafnsson,úr frönsku.

Myndin er af saumavél móður minnar, kínverska saumastúlkan var með fótstigna.

Næst skrifa ég um Ævisögu Bazacs


Svo tjöllum við okkur í rallið: Guðmundur Andri Thorssson

OgSvoTjollumVidOkkurIRallid-500x523 

 

 

 

Þrátt fyrir að ég þekki vel til Guðmundar Andra Thorssonar, sem er margverðlaunaður rithöfundur, kom bókin mér þægilega á óvart. Ég veit ekki við hverju ég bjóst.. Líklega einhverju fræðandi um Skáldið og menningarvininn Thor Vilhjálmsson með ívafi saknaðar sonar.

Ég nota hljóðbækur í stað prentaðra bóka, sem í þessu tilviki er verra en ella, því bókin  byggir á myndum. Hún er 47 kaflar og hver kafli er spunninn í kringum mynd. Það er höfundur sjálfur sem les og hann gerir það af mikilli nærgætni og hefur lestur hvers kafla með því að lýsa myndinni sem er kveikja að minningunni sem spunnið er úr.

Ég sem lesandi

Alltaf þegar ég hef lestur á bók, nálgast ég hana út frá einhverjum væntingum sem ég hef ómeðvitað búið búið mér til. Þessar væntingar hafa áhrif á upplifun mína, hvern hvernig ég skil og hvað mér finnst. Lengi vissi ég þetta ekki

En nú þegar ég veit um þessar lúmsku tilfinningar reyni ég, í hvert skipti sem ég les eða hlusta, að núllstilla mig. Mér finnst það mikilvæg forsenda þess að njóta.

Í tilviki Guðmundar Andra er þetta óvenju erfitt. Í huga mér fylgir Guðmundi svo mikill „farangur“. Í fyrsta lagi er hann sonur Thors Vilhjálmssonar og Margrétar Indriðadóttur, sem bæði eru þekkt, í öðru lagi er hann tónlistarmaður sem slær á létta strengi með Spöðunum og í þriðja lagi, ég held að það vegi þyngst, skrifar hann greinar í Fréttablaðið. Ég held að þetta síðast talda skipti mestu máli. Hann, skáldið, notar ritsnilld sína til að taka þátt í hverdagsumræðu og hefur skoðanir á málefnum sem þrasað er um. Ég tek eftir því að þetta kveikir ósjálfráð viðbrögð, sem minna á það sem gerist þegar gamanleikari tekst á við að leika alvarlegt hlutverk. Get ég treyst honum? Þess vegna hreinsa ég hugann rækilega áður en ég hlusta. Ég tæmi hugann gæti þess að fókusinn sé rétt stilltur.

Það er ekki erfitt að móttaka þessa bók, hún hreif mig strax. Frásögnin færði mér lifandi mynd af manninum Thor, af samskiptum hans og drengsins, seinna mannsins sem var sonur hans. Sagan færði mér ekki síður lifandi mynd af móður hans og fjölskyldunni allri í Karfavogi. Bókin er hlý og ef einhvern tíma passar að nota orðið ljúfsár, þá er það um þessa bók.

Mig langar til að telja upp nokkur atriði til að styrkja mál mitt hvílík afbragðsbók Svo tjöllum við okkur í rallið er.

Fyrst var ég upptekin af því, sem líklega mætti kalla, almennan fróðleik. Hverjir voru eiginlega þessir Thorsarar og af hverju leit Thor á sig sem Þingeying? Mér fannst gott að hafa þetta alveg á hreinu. Því næst beindist athygli mín að fjölskyldunni, mér fannst merkilegt að lesa um konu skáldsins, hvernig hún hélt sínu striki, þrátt fyrir að það leynir sér ekki að Thor var plássfrekur maður. En það sem mér fannst þó best og mest gefandi við þessa bók var, þegar Guðmundur Andri lýsti því, hvernig orð og athafnir pabba hans kveiktu hjá honum hugsanir. Hjálpuðu honum til að hugsa og skilja heiminn. Ég fann hvernig þetta gerðist líka hjá mér, frásögn Guðmundar Andra færðu mér nýjan sannleik. Það er líklega einmitt sú tilfinning sem maður fær þegar maður les góðar bækur. Maður finnur að maður hefur fengið verkfæri til að skilja sjálfan sig betur og heiminn.

Að lokum langar mig að segja frá einum hlut sem ég kinkaði kolli við  bóklestrinum. Ég orða þetta svona, vegna þess að þarna er um feimnismál að ræða og  best að segja sem minnst. Þetta var um afstöðu Thors til Listar. Hann veltist ekki í vafa um að list var eitthvað alveg sérstakt, ekki bara annar endinn á einhvers konar rófi. Ég veit að þetta er umdeilt og álíka erfitt að ræða það eins og um tilvist Guðs. En nú hef ég sagt það, sem ég hef ekki sagt áður. Ég hugsa stundum eins og Thor.

Lokaorð

Til að koma í veg fyrir allan misskilning, langar mig til að segja að ég dáist að  greinaskrifum Guðmundar Andra. Mér finnst aðdáunarvert hvernig honum tekst oft að fjalla um málefni sem tekist er á um eins og í reiptogi. Hann lyftir þeim upp og flytur þau yfir á umræðuhæft plan. Mér finnst líka gaman að hlusta á hann syngja.  


Bókin um Baltimorefjölskyluna: Joël Dicker

Joel Dicker

Mikið er ég fegin að vera búin með þessa bók, ég hefði líklega aldrei lokið við hana, ef hún hefði ekki verið ákveðin af bókaklúbbnum. Rökin fyrir valinu voru m.a. að höfundurinn er metsöluhöfundur. Og svo er hún þýdd af Friðriki Rafnssyni og vinkonur mínar sögðu að það væri óbeinn gæðastimpill. Það er slæmt að lenda á bókum sem manni leiðast og enn verra að nú finnst mér ég þurfi verja  tilfinningaleg viðbrögð mín. Rökstyðja.

Ég las bókina með jákvæðu hugarfari (það er satt). Ég beið og beið eftir því að upplifa töfra góðrar bókar. Bókar sem flytur mann til í tíma og rúmi og lætur mann kynnast nýju fólki. Færir manni nýja sneið af heiminum. En galdurinn lét standa á sér. 

Sögumaðurinn, Marcus Goldman, er ungur framgangsríkur rithöfundur. Hann er upptekinn af frændfólki sínu í Baltimore sem hann hafði heillast af sem barn og unglingur. Fjölskyldu sem hann dvaldi hjá í skólafríum og á stórhátíðum. Hans eigin fjölskylda í New Jersey fellur í skuggann.

Hjá Baltimore fjölskyldunni er allt að gerast. Þar kynnist hann jafnaldra frænda sínum Hillel og Woody, dreng sem fjölskyldan hefur tekið að sér. Hann kynnist líka veika drengnum Scott, sem er með slímseigjusótt og systur hans Alexöndru. Hillel er langt á undan sínum jafnöldrum. Hann kemur sér í vandræði af því hann er svo upptekinn af jafnrétti og  réttlæti. Roody er afburðaíþróttamaður en Scott langar fyrst og fremst til að vera eins og önnur börn en sjúkdómurinn kemur í veg fyrir að hann geti leikið sér og stundað íþróttir. 

Mér gengur illa að henda reiður á söguþræðinum. Höfundurinn flakkar fram og til baka í tíma.  Stöðugt er klifað á að þetta eða hitt hafi gerst fyrir eða eftir harmleikinn.

Í bókinni fléttast saman þrír þræðir. Í fyrsta lagi er sagt frá uppvexti drengjanna, í öðru lagi er saga fjölskyldunnar rakin og í þriðja fáum við að fylgjast með lífi rithöfundarins. Tilraunir hans til að endurheimta Alexöndru, æskuástina, virðist þó yfirskyggja ritstörfin.    

Baltimorefjölskyldan sem hann dáir, hefur orðið fyrir áföllum og er ekki söm á eftir. Veldi hennar er hrunið. Ungi rithöfundurinn reynir  að átta sig á hvað gerðist í raun og veru. Síðast og ekki síst glímir hann við að skilja sjálfan sig.

Líklega spilar inn í lesturinn að ég þekki lítið til bandarískra lífshátta og þaðan af síður þekki ég bandarískt umhverfi (nema úr bókum og kvikmyndum).

Í bókinni er allt stórt í sniðum, ríka fólkið er moldríkt og fræga fólkið er heimsfrægt. Ég læt það fara í taugarnar á mér, hversu höfundurinn er ómeðvitaður. Það örlar ekki á gagnrýnum viðhorfum og það er eins og peningarnir verði til á skrifstofum sem höndla með verðbréf. Ungi rithöfundurinn, aðalpersóna bókarinnar, flengist á milli dvalarstaða á Austurströndinni allt frá New York til Flórída og virðist aldrei hafa heyrt um umhverfismál, ungur maðurinn. Ég gafst upp á að að henda reiður á öllum húsunum sem hann ýmist átti eða hafði aðgang að.  

Annað veifið var eins og bókin ætti að vera svona dæmigerð menntaskóla/háskólasaga, þar sem lífið snýst um körfubolta eða ruðningsbolta. Ástin laut í lægra haldi fyrir vinskap drengjanna. Það er engu líkara en að ástinni sé skeytt inn í þegar hraðspólað er í gegnum söguna um fræga rithöfundinn sem var ástfanginn af frægu söng- og tónlistarkonunni, sem nú er í sambandi við frægan tennisleikara.

Ringluð í kollinum af því að rifja upp landafræðina, varð ég sífellt meira pirruð yfir að þessi höfundur skyldi ekki geta tjaslað saman sögu, sem væri nokkurn veginn trúverðug. 

Ég fór að lesa mér til um hann. Joël Dicker er frægur og margverðlaunaður. Bókin hans Sannleikurinn um mál Harry Quebert seldist upp úr öllu valdi. Og svo er hann ekki einu sinni bandarískur.

Hann er frönskumælandi Svisslendingur. Ég verð að játa það, að ég gladdist, þegar ég fann á Wikipediu að hann hafði verið sakaður um ritstuld í Frakklandi. Sagt var að atvik, persónur og umhverfi bókarinnar um Harry, væri grunsamlega lík, eins og fengin að láni, úr bók Philips Roth, The Human Stain.  En það sannaðist ekki. Reyndar gildir sama um bókina sem ég var að lesa, hún liggur líka undir grun. Drengurinn sem Baltimorefjölskyldan tók að sér er að sögn óþægilega líkur dreng úr annarri sögu. En hvað veit ég?

Mig langar til að segja að bókin sé ekki bara væmin sápa heldur froða. Eða á ég að láta mér nægja að segja að bókin sé ekki fyrir mig.

Það er einkennilega holur hljómur í þessari bók.  

Til að kóróna vandræði mín, gerðist þetta:

Í miðjum hugleiðingum mínum hringdi síminn. Það var góð vinkona mín. „Mig langaði bara að segja þér frá svo afskaplega góðri bók“ sagði hún. „Hún er eftir Joël Dicker og heitir, Sannleikurinn um mál Harry Quebert"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband