Ástin, frelsið og listin í tímans rás

23161014

Þegar ég hafði lokið við að lesa (hlusta á) Kristínu Lafransdóttur, eftir Sigrid Unset ákvað ég að lesa Jenny, bókina sem Sigrid sló í gegn með. Ég fékk hana sem hljóðbók á norsku auðvitað í Norræna húsinu. Fyrstu viðbrögð mín var ánægja yfir því að hvað mér veittist létt að skilja norskuna, það er langt síðan ég dvaldi í Noregi. Þegar Jenny var búin fannst mér liggja beint við að lesa Min Kamp eftir Karl Ove Knausgård.  Svona leiðir eitt af öðru. Þetta var inngangur, til að koma sér að efninu.

Ég er ekki búin með 1. bókina (af 7) en nógu langt komin til að bera þau saman í huganum, Undset og Knausgård.

Sigrid Undset var fædd 1882 og Knausgård er fæddur 1968 Það fer ekki hjá því að ég beri þau saman. Ég er þó ekki fyrst og fremst að bera þau saman sem rithöfunda, mig langar frekar að vita hvernig þau sjá sig, tilgang sinn í lífinu. Eða á maður að segja tilgang lífsins.

Sagan um Jenny hefst í Róm. Þangað er Jenny komin til að þroska sig sem listamann, málara og vera frjáls. En þó að ásetningurinn sé þessi, langar hana fyrst og fremst að kynnast ástinni og í hennar huga er ástin eitthvað óumræðanlega stórt, sönn, hrein og göfug. Hún er 28 ára gömul  og hefur fram að þessu búið heima og verið hjálparhella móður sinnar. Lífið í Róm er auðugt af fegurð og hugsjónum. Og þegar hinn ferkantaði Gunnar Gran stúdent biður hennar, blekkir hún sjálfa sig til að trúa því að þarna sé ástin komin.

Ég ætla ekki að rekja efni bókarinnar en í staðinn tala um það sem mér finnst einkenna hana. Hún gæti alveg eins verið málverk. Knausgård er að lýsa sjálfum sér í sinni bók og það er mjög líklegt að það sé Sigrid einnig að gera í Jenny, því margt er líkt með myndlistakonunni Jenny og rithöfundinum Sigrid Undset. Sigrid fer einnig til Rómar 28 ára gömul og hún er að byggja sig upp sem rithöfund. Þess vegna les ég bók Sigrid ekki síður sem ævisögu en bók Klausgårds, í báðum bókunum er ung manneskja að leita að því hver hún er og hver hún vill vera.

 

Min kampÞau eru í raun ekkert svo ólík. Bæði jafn getulaus til að hafa áhrif á framvindu eigin lífs. Þau væflast. Reyndar er Knausgård miklu yngri svo samanburðurinn er ekki sanngjarn. En þau eru bæði að leita að ástinni en ástin er einhvern veginn öðru vísií laginu. Jenny hugsar um hvað hún hafi að gefa, Knausgård um hvað hann geti fengið. Ást  Jennyar er andleg, næstum ekki af þessum heimi en ást Knausgård er líkamleg og nálæg.

Það fer ekki hjá því, þegar maður les svona bækur um ástina að maður hugsi til sinnar eigin fortíðar. Hvernig  var ástin mín?

Ég veit það alveg en ég ætla ekki að skrifa um það hér.  En þarna er ég komin að veigamiklu atriði um ástæðuna fyrir því hvers vegna maður les bækur. Maður er ekki fyrst og fremst að fræðast um fólkið í bókunum, maður er að spegla sig í því. Ég á auðveldara með að spegla mig í Jenny. Unglingurinn Knausgård er allt of upptekin af því að komast á réttan stað í metorðastiganum eða á maður að segja goggunarröðinni. Ég var búin að finna minn þegar ég hleypti heimdraganum, ég var til hliðar við þessa röð og sættimig við það.

Auðvitað finnur Jenny ekki ástina sem hún er að leita að og þegar hún finnur huggun hjá manni sem hún elskaði ekki  rétt, finnst henni hún hafa svikið ástina. Reyndar held ég að þetta hefði verið allt auðveldara ef það hefðu verið komnar getnaðarvarnir.

Ég er sem sagt búin með Jenny og langt komin með fyrstu bók Knausgårds af sjö ef ég les þær allar. Sigrid Undset fékk Nóbelsverðlaun 1928 eftir að hafa skrifað Kristínu Lafransdóttur, kannski fær Knaugård þau líka. Nobelsnefndin hefur verið örlát við Norðmenn, þrenn verðlaun hvorki meira né minna.

Þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað hér, sé ég að ég er undir áhrifum frá Knausgård, ég skrifa beint út það sem ég er að hugsa, reyni ekki að leggja mat á það hvort það sé mikilvægt, frásögnin er flöt, engir toppar engin niðurstaða. Hvernig verð ég þegar ég hef lesið allar bækurnar um baráttu hans?

Myndirnar eru af tveimur bókum eftir þau Undset og Knausgård. Teknar af netinu og valdar af handahófi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 186940

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband