25.9.2020 | 17:17
Beðið eftir barbörunum
Lestur bókarinnar, Beðið eftir barbörunum, bar upp á sama tíma og umræðan um brottrekstur egypskrar barnafjölskyldu stóð sem hæst. Var þetta tilviljun? Trúlega. Hvað sem því líður hafði það mikil áhrif á upplifun mína af bókinni.
Það er minna en tvö ár síðan ég var sjálf í Egyptalandi sem túristi. Við skoðuðum píramídana, fornar grafir konunga og fjöldann allan af föllnum og hálfföllnum musterum undir handleiðslu okkar frábæru leiðsögukonu.
Það minnisstæðasta úr þessari ferð er þó lítil saga sem hún sagði okkur, þegar við vorum að skoða gamla kirkju í Kæró .
Fjölskylda á flótta
Sagan segir að kirkjan sé byggð á grunni húss þar sem góð fjölskylda skaut skjólshúsi yfir þriggja manna flóttafjölskyldu, þeirra Jósefs, Maríu og hans Jesús litla. Hún sýndi okkur gróp í gólfið þar sem sagan segir að vaggan hafi staðið. Upp á vegg var svo kort af flóttaleiðinni sem fjölskyldan fór og staðirnir merktir inn þar sem þau gistu á flóttanum með hjálp góðviljaðra. Þar voru síðar byggðar kirkjur. Ekkert sem ég heyrði eða sá í Egyptalandi hreif mig eins mikið og þessi litla saga sem ég þó vissi að var ekki sönn. Allt í einu fannst mér ég vita hvernig það var að vera á flótta.
En ég ætlaði að skrifa um bókina Beðið eftir barbörunum eftir Nóbelsverðlaunahafann Coetzee. Ég hef ekki lesið bækur hans fyrr því mér er sagt af vinum mínum, sem ég treysti, að lesturinn taki svo mikið á mann og ég vildi hlífa mér. En nú ákvað ég að taka stökkið og hóf lestur/hlustun um leið og ég sá að bókin var komin á Hljóðbókasafnið. Bókin lætur ekki mikið yfir sér. Hún tekur 7:37 klst. í aflestri og það er Karl Emil Gunnarsson sem les . Hann les vel.
Aðalpersóna sögunnar er dómari litlu í þorpi á útjaðri heimsveldis. Hann segir sögu sína í fyrstu persónu. Hann er búinn að vera þarna lengi og er í raun að bíða eftir því að komast á eftirlaun. En hann á ekki því láni að fagna. Það fer að heyrast orðrómur um að barbarar muni ráðast á þorpið. Ef eitthvað hverfur í þorpinu trúa menn því að þetta séu þeir,barbararnir. Og af því að þetta þorp er á útjaðri heimsveldis, finnst þeim í höfuðborginni rétt að kanna hvort heimsveldinu standi ógn af barbörum og senda mann á staðinn. Hann handsamar fólk sem tilheyrir hirðingjaflokki og yfirheyrir það með sínum aðferðum. Og nær fram játningu um að barbarar séu að undirbúa áhlaup, innrás í heimsveldið. Og það er sendur her. Ástandið stigmagnast. Lesandinn getur einungis ráðið í ástandið út frá því sem dómarinn segir. Og mér sem lesanda sýnist að dómarinn trúi ekki þessum fréttum. Hann veit að játningunum hefur verið náð fram með pyntingum. Hann gerir ekkert, reynir þó að finna sér svefnstað þar sem hann heyrir ekki kvalahljóðin í fólkinu.
Það sem lesandinn fær að vita um dómarann í gegnum frásögn hans sjálfs er, að hann virðist vera meinleysisgrey en mikið upp á kvenhöndina. Þær þurfa að vera ungar, því að geta hans til kynlífs fer dvínandi og þá hjálpar að hafa þær ungar. Það er ógeðfellt að lesa um þetta. Allt í einu áttar lesandinn sig á því, að þarna er maður í valdastöðu og vald hans er slíkt að hann þarf ekki einu sinni að nauðga. Hann getur notað konur að vild sinni.
Þegar herinn er búinn að fá það upp úr barbörurum, það sem hann vill heyra, er þeim sleppt og þeir fara til baka til sinna heimkynna. Þá verður eftir á torginu stúlka eða barn sem betlar sér fyrir mat. Dómarinn spyrst fyrir og kemst að því að hún er blind og getur ekki gengið. Þannig er hún útleikin eftir yfirheyrslurnar. Hann fer með hana heim til sín og tekur ástfóstri við hana. Hann veit ekki sjálfur hvers lags sambandið er. Finnst hann vera allt í senn, faðir, elskhugi og vinur. Hér ætla ég að stoppa við að rekja efni þessarar bókar. Mér fannst ónotalegt að lesa hana , ég get þó ekki alveg áttað mig á því hvers vegna hún kemur svo illa við mig. Er það vegna þess að hún er svo sönn eða finnst mér eins og það sé verið að væna mig um eitthvað? Fyrst fannst mér eins og höfundurinn væri að segja frá einhverju sem hefði gerst í raunveruleikanum á 19.öld í Afríku . Coetzee er frá Suður- Afríku (fæddur 1940). Svo sá ég að veðurfarið og staðhættir stemmdu ekki. Loks sá ég að tímasetningin var alls ekki á hreinu heldur.
Nú veit ég að grimmd ádeilunnar liggur í því að Coetzee er að fjalla um nútímann, um okkur. Við óttumst saklaust fólk og búum til úr því óvini. Og ég er ekki í neinum vafa um að umræðan um flóttafólkið hjálpaði mér til að skilja þessa bók betur. En þessi bók er ekki að fjalla um ástandið í heiminum hér og nú. Þetta er tímalaus frásaga um land sem er til allsstaðar og hvergi. Kannski er hún um erfðasyndina. Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa borðað ávexti af skilningstré góðs og ills.
Betra er seint en aldrei
Þessi bók kom út á ensku 1980 . Og 1984 var hún lesin í útvarpinu af Sigurlínu Davíðsdóttur. Sem hafði sjálf þýtt hana. Sú þýðing kom aldrei út. Þýðingin á bókinni sem sem ég var að hlusta á núna er samvinnuverkefni Sigurlínar Davíðsdóttur og Rúnars Helga Vignissonar. Það er mikill fengur í því að vera búin að fá þessa merkilegu bók á íslensku.
Lokaorð
Ég finn það meðan ég er að skrifa þetta að það er ekki á mínu færi að gera þessari bók verðug skil. En reyni þó. Þegar ég hóf að skrifa þennan pistil var tvísýnt um hvort við myndum fá að taka á móti sex manna fjölskyldu. Í gærkvöldi var sagt frá því í fréttum að fjölskyldan fengi að vera. Fréttin var þó ekki nógu skýr og afdráttarlaus.
Eftirskrift
Sem sjá má, kallast bóklestur á við það sem er að gerast í heiminum og innra með lesandanum. Það er eðli góðra bóka. Ég reyni ekki einu sinni að halda því aðgreindu.
En af hverju tengjum við móttöku flóttamanna alltaf saman við hjálparstarf og góðverk: Höfum við gleymt öllum snillingunum og duglega fólkinu sem við höfum fengið til okkar hér á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2020 | 16:19
Jan Guillou: Bækur til að gleyma stund og stað
Jan Guillou Rithöfundurinn Jan Guillou (fæddur 1944) er þjóðþekktur maður í Svíþjóð, ekki bara sem rithöfundur heldur einnig sem blaðamaður og álitsgjafi.
Fyrir mörgum árum setti ég hann út af sakramentinu, hætti að lesa hann, af því mér féll ekki við aðalpersónu hans, Carl Hamilton. En Guillou
skrifaði alls tíu bækur með hann í aðalhlutverki á árunum 1986 til 1995.
Bókasafn Norræna hússins leynir á sér
Í leit minni að innlesnu efni síðastliðinn vetur, komst ég að því, að það er talsvert til af diskum með bókum Guillou í Bókasafni Norræna hússins. Ég ákvað þá að gleyma því að ég væri móðguð, enda man ég ekki lengur hvers vegna mér líkaði ekki við Hamilton.
Fyrst varð Vägen til Jerúsalem fyrir valinu. Hún er fyrsta bók af þremur um Arn Magnusson og gerist á tímabilinu 1150 til 1200.
Arn er höfðingjasonur og sögusvið fyrstu bókarinnar er Vesturgautland. Arn elst upp í klaustri og fær þeirra tíma kristilega menntun. (Þetta er vilji móður hans sem er mjög trúuð kona). En það á ekki fyrir honum að liggja að verða munkur, ættin þarfnast hans og hann fer aftur heim á óðalið. Hinn ungi Arn hefur sterka réttlætiskennd sem verður til þess að hann vegur mann í stað þess að horfa upp á óréttlæti. Í framhaldi af því er hann dæmdur til að fara í krossferð. Áður en af því verður hefur hann þó kynnst ástinni og getið barn.
Næsta bók Tempelriddaren segir frá krossferð Arn og dvölinni í Palestínu. Þetta er spennandi bók og fróðleg fyrir mig sem veit lítið um krossferðir og þekki til Palestínu einungis út frá fréttaflutningi dagsins í dag.
Þriðja bókin heitir Riket vid vägens slut. Hana hef ég því miður ekki lesið enn, en er á biðlista eftir henni í bókasafninu.
Hvað heillar?
Guillou er mikill sögumaður. Hann er snillingur í að lýsa umhverfi með því að mála myndir með orðum. Hann er sömu- leiðis góður í að spinna upp samtöl, bæði venjuleg samtöl sem sögð eru upphátt og ekki síður hin, innri samtöl. Samtöl sem sögupersóna á við sjálfa sig í hljóði. Hann er orðmargur, sagan flæðir.
Það fór ekki hjá því að mér yrði bæði hugsað til Heimskringlu og Sturlungu, efnisins vegna, veruleiki sögunnar er ekki ólíkur en Guillou segir margt sem ekki er talað um í okkar góðu bókum, svo sem líðan, sálarlífi og hugmyndum. Lýsingar hans á klausturlífi eru fróðlega, sama gildir um trúarlífið sjálft.
Guillou-árátta mín byrjaði með kóvít. Mig langaði til að fara inn í tilbúin heim og gleyma heimi raunveruleikans sem takmarkar svo ótal margt. Ég bókstaflega datt í Guillou. Hann er klárlega ávanabindandi.
Nú er ég búin að lesa þrjár glæpasögur þar sem hin einkar geðfellda Eva Johnsen Tanguy er í aðalhlutverki. Ég er líka búin með Ondskan, sem er umdeild bók. Þar er fjallað um æskuár Erik Ponti sem minnir um margt á æsku Guillou sjálfs. Hann lýsir m.a. stjúpföður sem er haldinn kvalalosta og ber Erik litla svo til daglega. Erik er seinna sendur á heimavistarskóla þar sem skipulagt ofbeldi er hluti af námskrá skólans. Þessi bók vakti eðlilega miklar deilur í Svíþjóð, umræðan snerist um hvað af þessu væri mögulega satt og hvað væri hreinn skáldskapur.
Jan Guillou á ekki erfitt með að draga til sín athygli. Og enn á ný er hann í kastljósinu, nú sem mest lesni höfundur Svíþjóðar.
Hann hefur sem sagt lokið við nýjan bókaflokk, 10 sögulegar skáldsögur sem fjalla um tuttugustu öldina. Bókaflokkurinn heitir Det stora århundradet.
Ég hef lokið við að lesa tvær þeirra en ekki í réttri röð. Þessar tvær heita Dandy og Blå stjärnan. Þær lofa góðu
Að lokum
Það væri ósanngjarnt að geta ekki mannsins, sem les hljóðbækur Guillou. Hann heitir Tomas Bolme og er listalesari. Hann les svo vel að mér finnst að þarna sé höfundurinn sjálfur kominn til að lesa bara fyrir mig.
Eftirþanki
Ég veit ekki til þess að bækur Jan Guillou hafi verið þýddar á íslensku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2020 | 14:29
Húsbóndinn á Skriðuklaustri
Vel heppnuð heimsókn á safn á það til að hlaða utan á sig eins og snjóbolti. Hún ýtir undir forvitni og kallar á lestur.
Á ferð minni um Austurland ekki alls fyrir löngu, kom ég við á Skriðuklaustri. Þar, í hinu veglega húsi, gjöf Gunnars Gunnarssonar til þjóðarinnar, eru nú tvær sýningar. Önnur um skáldið, hin um rannsóknir Steinunnar Kristjánsdóttur á klausturrústunum. Og svo er húsið sjálf áhrifamesti sýningargripurinn.
Ég hef oft komið þarna áður en í þetta skipti kveikti heimsóknin svo í mér að ég lagðist í lestur. Ég ákvað að leita fanga í bók Jóns Yngva Jóhannssonar, Landnám. Hafði reyndar lesið þá bók áður, en minni mitt er hriplekt.
Þetta er frábær bók. Hún er ekki bara um Gunnar og skáldskap hans, hún setur sögu Gunnars í samhengi við samtíð hans og stefnur og strauma í Evrópu.
Það liggur gríðarleg vinna í þessari bók, Jón Yngvi rekur ekki bara ævi hans út frá heimildum, hann skoðar skáldskap hans og hugmyndaheim út frá því sem var að gerast í heiminum og hans eigin lífi. Einkum finnst mér mikill fengur í umfjöllun Jóns Yngva á trúarlífi Gunnars. Gunnar var alin upp á strangtrúuðu heimili og þegar hann tapar barnatrúnni myndast gap sem hann leitast við að fylla.
Ég ætla ekki að reyna að endursegja efni Landnáms, þetta er löng og efnismikil bók og það er hætta á að þegar tæpt er á einstökum hlutum að samhengið glatist. Mig langar fyrst og fremst að benda á að það er mikil saga og hugmyndasaga sögð í þessu verki.
Ég hafði ekki fyrr lokið lestri Landnáms en ég hóf lestur á Sögu Borgarættarinnar. Hana hef ég ekki lesið áður eða séð myndina og er ekki seinna vænna, því ég er orðin háöldruð og nú stendur til að sýna myndina að nýju eftir að filman hefur verið lagfærð og samin við hana tónlist. Það átti reyndar að vera löngu búið að sýna hana en kóvít hefur hamlað því eins og svo mörgu öðru.
Það var upplifun að heimsækja Skriðuklaustur og nú finnst mér að við hefðum átt að staldra lengur við.
Ég get ekki lokið þessum pistli án þess að minnast á hið frábæra kaffihlaðborð staðarins. Ekki veit ég hvort það er í anda Gunnars og spegli matarsmekk hans, því þótt Jón Yngvi fjalli ítarlega um líf hans, man ég ekki til þess að hann komi inn á mataræði.
Myndin er af glugga á Skriðuklaustri. En Franzisca kona Gunnars var mikil blómakona
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2020 | 18:18
Eldum björn: Mikael Niemi
Um leið og ég sá að búið var að lesa Eldum björn inn hjá Hljóðbókasafninu, vissi ég hvaða bók ég myndi lesa næst. Bókin er eftir Mikael Niemi og bækur hans eru ómótstæðilegar. Hann sló í gegn með Rokkað í Vitula, sem er galsafengin æsku og uppvaxtarsaga unglinga á landsbyggðinni í Norður-Svíþjóð. Það sem gerir hana sérstaka er að hún er skrifuð á því máli sem sem hann ólst upp við. Það er að segja finnskuskotinni sænsku kryddaðri samísku. Ég las þá bók á frummálinu og átti fullt í fangi með það..
Í þessari bók Eldum björn, sækir hann efnivið aftur í tímann og byggir söguna að hluta til á atburðum , sem gerðust um miðja 19. öld. Önnur aðalpersónan er kennimaðurinn og náttúrufræðingurinn Lars Levi Læstadius.Hann hafði fengið það verkefni að kristna Samana og endaði með að koma af stað trúarhreyfingu sem mér skilst að sé enn við líði.
Í bók Niemi, Eldum Björn, hefur Læsta-dius tekið að sér samiska drenginn Jussa sem hann kennir að lesa og skrifa. Þegar óhuggulegir hlutir fara að gerast í sókninni umbreytast þeir tveir í nokkurs konar Scherlock Holmes og Watson
Læstadius fer á vettvang og rannsakar verksummerki í ljósi vísindalegrar þekkingar. Jussi hlustar og skráir. Ekki gengur þeim þó allt sem skyldi. Valdastéttin tekur ekki mark á ábendingum þeirra. Að lokum beinist grunur að Jussa sjálfum.
Þetta er margslungin saga og á köflum groddaleg. Og auðvitað er hún líka sorgleg . Samarnir eru nánast flóttamenn í eigin landi. Hinn vel meinandi Læstadius þarf í senn að berjast við fáfræði og spillingu.
En þetta er ekki bara mögnuð glæpasaga, þetta er líka saga um ástina. Of svo er sagan fræðandi lesning um þetta tímabil í sænskri sögu. Ég (einu sinni kennari ) hafði t.d. afar gaman að fræðast um lestrarkennsluna og um mátt stafanna.
Ég ætla ekki að rekja hvernig sagan endar. En veit að baráttu Sama fyrir mannréttindum er ekki enn lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2020 | 20:13
Dagurinnn sem sigurskúfurinn blómgvast
Dagurinn þegar sigurskúfurinn blómgast
Þessi pistill er ekki um bók, hann er samt um sögu. Svona sögu eins og Íslendingar segja um fólk.
Einhvern tíma þegar ég var enn ung og bjó á Austurlandi, heyrði ég sögu um mann sem vann við skógræktina á Hallormsstað. Þegar hann var spurður af yfirmanni, hvenær einhverju verkefni lauk, sem hann hafði með höndum. Eflaust fyrir einhverja skráningu. Svaraði hann um hæl, Það var daginn sem sigurskúfurinn blómgaðist.
Mér finnst svarið eitthvað ólýsanlega töfrandi að það rifjast upp fyrir mér hvert sumar sem sigurskúfurinn ákveður að að lýsa upp heiminn.
Þessi saga var hreint ekki sögð til heiðurs þessum góða dreng og náttúruunnanda. Þvert á móti. Hún var sögð til að láta alla vita að hann væri kynlegur kvistur.
Mikið væri gaman að eiga almanak með blómgunartíma jurta.
Einmitt núna er blómgunartími sigurskúfsins og reyndar fjölda annarra síðsumarplantna.
Ekki missa af því.
Meðan ég var að skrifa þennan stubb, langaði mig að hafa sigurskúfur með stórum staf. En það passar ekki. En einhvern tíma lærði ég að Jón Ólafsson blaðamaður og skáld hefði gefið út tímarit á Austurlandi sem hét Sigurskúfur. Hér gat ég komið stóra stafnum að.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2020 | 18:01
Tíbrá: Ármann Jakobsson
Ég las Tíbrá, bók Ármanns Jakobssonar, áður en ég fór í hringferð um landið. Eins og þeir vita sem lesið hafa pistlana mína, finnst mér oft gott að hverfa inn í langar og efnismiklar bækur, ekki síst þegar eitthvað er mótdrægt. En það er oft gott að stinga styttri og e.t.v. léttari lesefni inn á milli voldugra verka, eins og t.d. ritverka Torfhildar Hólm. Ég valdi Tíbrá. Þar sem nokkuð er um liðið, þurfti ég að fríska upp á minnið þegar ég loks hafði mig í að skrifa um bókina. Bókin batnaði við endurlestur, eins og allar góðar bækur gera.
Tíbrá/Blekking
Þetta er þriðja glæpasaga Ármanns sem ég les og þegar ég reyni að finna samnefnara fyrir þær er niðurstaðan þessi. Bækur Ármanns fjalla fyrst og fremst um fólk. Þar liggur styrkleiki þeirra. En nú er það ekki hið geðþekka lögregluteymi, sem er í forgrunni, nú fáum við að kynnast afar ólíkum hópi karlmanna. Og svo fjallar bókin að sjálfsögðu um morð. Um þann hluta sögunnar ætla ég ekki að tjá mig, því það gæti spillt ánægju þeirra sem ekki hafa enn lesið bókina. Plottið er afar sérstakt en gengur upp.
Til að vera alveg hreinskilin verð ég einnig að geta þess, sem mér fannst miður við bókina frá mér séð. Reyndar held ég það sé fyrst og fremst vandamál mitt. Mér leiðast kynlífslýsingar. Þetta er líklega tepruskapur, en það gildir einu. Ég hefði miklu frekar viljað fá mataruppskrift, t.d. af grænmetisréttinum sem stúlkan frá Slóveníu eldaði handa gestum sínum.
Eftir á að hyggja og til að enda ekki á því sem mér féll ekki, vil ég bæta því við, að Ármann á auðvelt með að draga upp sannferðugar myndir af fólki. Þessi bók gæti flokkast sem sálfræðiglæpasaga ef maður vill á annað borð flokka bækur og raða í kerfi.
Nú bíð ég spennt eftir hvers konar bók Ármann kemur með næst og vona að lögguhópurinn fái eitthvað til að takast á við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2020 | 17:50
Urðarköttur: Ármann Jakobsson
Urðarköttur
Ég var ekki fyrr búin með útlagamorðin þegar ég ákvað að lesa bók Ármanns um Urðarkött.Ég er svo hrifin af lögguteyminu hans, þeim Bjarna, Kristínu,Margréti og Njáli. Auk þess las ég bókina Finnbogasögu ramma fyrir langalöngu og mér fannst spennandi að sjá hvernig hægt væri að spegla þessa gömlu sögu en þangað er nafn bókarinnar sótt.
Margar efasemdir kviknuðu þegar sérstöku morðteymi var komið á laggirnar í okkar friðsæla landi.En í þessari bók fær teymið svo sannarlega tækifæri til að spreyta sig þegar tvö morð eru framin með stuttu millibili. Annað er ung kona sem finnst úti á víðavangi, hitt er einnig ung kona sem nýlega hefur hafið störf við litla háskólastofnun, sem vinnur að rannsóknum á þjóðsögum og þjóðháttum. Lýsingin á stofnuninni er meiri háttar. Mér finnst næstum að ég þekki hana (hef reynslu af því að starfa í Háskóla Íslands sem prófvörður).
Tengjast þessi tvö morð? Og ef já, þá hvernig? Ég ætla ekki að fara lengra inn í framvindu sögunnar til að spilla ekki fyrir þeim sem e.t.v.hafa ekki enn lesið bókina.
Þessi saga svíkur engan. Ármann kann að skapa góðar og trúverðugar persónur og spennandi söguþráð. Og síðast og ekki síst, er Ármann frábær stílisti. Hann skrifar auðugt og fallegt mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2020 | 18:08
Ferðast um Norður- og Austurland með Jóni lærða
Ferðast um Norður- og Austurland með Jóni lærða
Ég hef verið á 12 daga ferðalagi með eiginmanni og vinum. Og Jón lærði var með í för. Það er alltaf jafn gaman að ferðast um Ísland, svo ég tali nú ekki um æskuslóðirnar . Við dvöldum sjö daga á Eiðum en þaðan á ég margar góðar minningar frá því ég var þar í skóla. Ég tók með mér bók Viðars Hreinssonar um Jón lærða (1574 1658). Hún entist mér út ferðalagið. Mikið afskapleg er þetta merkileg og hrífandi bók . Bókin heitir fullu nafni Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.
Hún fjallar reyndar ekki bara um þennan sérkennilega mann og ótrúlegt lífshlaup hans. Það sem gerir hana einstaka, er að hún fjallar ekki síður um aldarfarið og hugmyndasögu þessa tíma, þegar yfirnáttúrlegir hlutir og yfirskilvitlegir vógu þyngra en það sem við menn gátum sannreynt . Hugmyndaheimur með lifandi náttúru með álfa í steinum og marbendla og sækýr í sjó. Mikið fellur hugmyndaheimur vel að verkum austfirsku listamannanna Þórbergs og Kjarvals.
En Viðar lætur sér ekki nægja að lýsa íslenskum hugmyndaheimi, hann rekur tengsl þeirra við það sem er að gerast hjá öðrum þjóðum og sýnir fram á að hugmyndaheimur Jóns lærða sem er sjálfmenntaður alþýðumaður, eru í takt við það sem er að gerast í öðrum þjóðlöndum.
En sagan er ekki bara saga hugmynda, hún er ekki síður spennandi og á köflum hryllingssaga. Jón skapaði sér ekki bara óvild valdamanna með því að skrifa um Baskavígin, hann var gagnrýninn á trúskiptin og kenndi þeim um siðrof. Vegna skrifa sinna og hugmynda hans, m. a. um galdur var hann ákærður og dæmdur. Hann slapp við að verða brenndur, í þess stað var honum gert að flytja sig um set og búa á Austurlandi. Þangað fluttist hann í kringum 1630 og bjó lengst af á Úthéraði. En stundum í Bjarnarey úti fyrir Héraðsflóa.
Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók. Hún er prýðisvel lesin af Jóni B. Guðlaugssyni en í þetta skipti saknaði ég að hafa bókina í höndunum, því í henni eru fjölmargar myndir sem lesari gerði grein fyrir. En eyra kemur aldrei í stað augna. En sem betur fer er ég kunnug ýmsum þessara mynda frá fyrri tíð.
Lokaorð
Þetta er sem sagt ekki bara góð bók, þetta er bók sem fer á listann yfir bækur sem ég les oft. Og þangað fara bara úrvalsbækur. Auk þess að bregða upp mynd af óvenjulegum manni og skoða hugmyndasögu okkar Íslendinga í ljósi þess sem er að gerast í Evrópu og klassískra fræða, hittir boðskapur verksins á kjarna þess sem nú er efst á baugi. Náttúruvernd.
Eftirmáli
Þegar maður er í fylgd með Jóni lærða, kemur ekki að sök að aka um landið í þoku, súld eða rigningu. Það lifnar við og maður sér náttúrur náttúrunnar fyrir sínum hugskotssjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2020 | 11:43
Brautryðjandinn Torfhildur Hólm
Stundum er erfitt að segja skilið við bók. Persónur sækja að þér, þráður sögunnar slitnar ekki og spinnst áfram þótt höfundurinn hafi lokið sögunni. Sett punkt. Stundum stíga persónurnar fram eins og þær vilji þér eitthvað, jafnvel til að leiðrétta höfundinn. Eins og meinlausir draugar.
Í þetta skipti er það höfundurinn sjálfur sem rígheldur í mig. Vill ekki fara.
Ég hef verið að lesa Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm og hef nú lokið við allt það efni sem ég ræð við, get nýtt mér . Það er að segja innlesið efni. Auk þess hefur maðurinn minn lesið fyrir mig formála Vilhjálms Þ. Gíslasonar við bók Torfhildar um Brynjólf Sveinsson biskup.
Spurningin sem sækir á mig er, hvernig gat Torfhildur farið fram hjá mér, bókelskri konunni? Af hverju barst hún ekki í tal á mínu bókelska heimili, eða tók ég bara svona illa eftir? En eitt er víst að í námi mínu í menntaskóla heyrði ég aldrei á hana minnst og það fannst ekki stafur um hana í yfirlitsbókum um bókmenntir.
Torfhildur er, ætti að vera, eitt af stóru nöfnunum í íslenskri bókmenntasögu.
Hún er fædd 1845 á Kálfafellsstað í Austur Skaftafellssýslu og dó 1918 í spænsku veikinni. Hún var líklega fyrst Íslendinga til að vinna fyrir sér með ritstörfum.
Nú hef ég hlustað á:
Jón biskup Arason,Brynjólf Sveinsson biskup,
Týndu hringarnir,
Seint fyrnast fornar ástir.
Bækurnar um biskupana eru sögulegar skáldsögur, hinar tvær eru smásögur. Týndu hringarnir komu út í bókinni Draumur um veruleika frá 1977, sem er safn af smásögum eftir konur, ritstýrt af Helgu Kress. Helga hefur einnig skrifað formála og inngang bókarinnar. Allt mjög gefandi. Þessa bók var ég að lesa fyrst núna. Ég var hissa á að bókin hefði farið fram hjá mér. En sé að athuguðu máli, að þá bjó ég erlendis . Seint er betra en aldrei. Bækurnar Seint fyrnist forn ást og Brynjólfur Sveinsson biskup voru lesnar í útvarp í kringum 1980. Gerður Steinþórsdóttur gerði formála að báðum sögunum.
Vilhjálmur segir í formála sínum að bók Torhildar um Brynjólf Sveinsson sé hennar langbesta bók. Ég er ekki viss um að svo sé, bækurnar um biskupana eru ólíkar, Bókin um Jón Arason ber þess vott að bókin kom út sem framhaldssaga í tímariti og er í raun margir sjálfstæðir þættir. Bókin um Brynjólf er heildstæðari en ekki þar með sagt að hún sé betri. Allar eru bækur hennar að sjálfsögðu börn síns tíma. Hvað sem má um það segja er það víst að Torfhildur er brautryðjandi í íslenskum bókmenntum og það hafa margir farið í sporin hennar.
Hér lýkur tilraun minni við að kveðja Torfhildi í bili en vona innst inni að ég eigi eftir að öðlast aðgang að fleiri verkum eftir þessa vænu konu.
Myndin er af blásól
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2020 | 20:20
Torfhildur Þ. Hólm: Jón biskup Arason
Stundum líður mér þannig að mig langar bara til að lesa langar bækur. Það var því næstum eins og himnasending þegar tilkynning um bók Torfhildar Hólm; Jón biskup Arason birtist á Hljóðbókasafninu. Bókin er í tveimur bindum og tekur í heild rúmlega 23 klukkustundir í hlustun.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tekst á við bók eftir Torfhildi. Ég reyndi að lesa þessa sömu bók fyrir margt löngu og gafst upp. Það var fyrir þann tíma sem ég setti mér þá lífsreglu að ljúka hverri bók sem ég hæfi lestur á.
Torfhildur Hólm er fædd 1845 og deyr 1918 í spænsku veikinni. Hún er þekktust fyrir sínar sögulegar skáldsögur en hún skrifaði einnig smásögur og ritstýrði tímaritum. Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Torfhildi og ég vildi að ég hefði kynnst verkum hennar fyrr, meðan ég hafði augu til að sjá með. Gat grúskað.
En ég ætla því fyrst og fremst að ræða um bókina sem ber titilinn Jón biskup Arason, þótt hún sé ekki bara um hann. Þetta er breið þjóðfélagslýsing sem segir frá lífinu á tímum Jóns Arasonar og segir sögu fjölmargra samtímamanna hans. Þetta er undarlegur heimur, allir sem koma við sögu, eru að ota sínum tota og braska með jarðir, hjónabönd og stöðuveitingar. Og Jón karlinn er ekki barnanna bestur. En höfundur reynir að standa með sínum manni.
Mér fannst umfjöllun Torfhildar um trúmál grunn. Enda vart við því að búast að Torfhildur sé fær um hlutlausa umfjöllun um katólska trú. Hún er prestsdóttir og vafalaust alin upp í anda siðbótar Lúthers.
Og þótt ég segði hér á undan að sagan væri breið frásaga, samfélagslýsing frá tímum Jóns Arasonar, er það ekki alls kostar rétt. Bókin fjallar um íslenska yfirstétt þess tíma. Fátæklingana vantar.
Það liggur mikil vinna í þessari bók og líklega mótast frásögnin talsvert af heimildunum sem Torfhildur hafði aðgang að. Það sem var skrifað og skrásett á þessum tíma tengist gjarnan jarðakaupum og dómum og svo voru náttúrlega annálar og árbækur Espólíns.
En Torfhildur kann að segja sögu, hún sviðsetur og dregur upp myndir. Lýsingar hennar á himninum, blæbrigðum ljóss og skugga eru svo kröftugar að þær minna á kvikmynd.
Allir kaflar bókarinnar hefjast á vísu eða máltæki sem vísar inn í frásöguna sem á eftir kemur. Mér fannst þessi háttur hennar á að ávarpa eigin texta skemmtilegur. Torfhildur var menntuð kona, lærði m.a. ensku hjá einkakennara. Auk þess var hún sigld, hafði dvalið í Danmörku og 13 ár í Ameríku. Hún hefur eflaust lesið enska og danska 19. aldar rómana þótt hún velji sér síðan að skrifa sögulegar skáldsögur.
Það sem er í senn kostur og ókostur þessarar bókar, er að það koma margir við sögu, mörg nöfn að muna, svo ég tali nú ekki um mægðir, ættir og tengingar. Hún er því svolítið í ætt við Sturlungu. Það er hægt að lesa hana oft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar