Torfhildur Þ. Hólm: Jón biskup Arason

E67D4025-92BF-4EC0-8E01-9985B892FEB0
Torfhildur Hólm

Stundum líður mér þannig að mig langar bara til að lesa langar bækur. Það var því næstum eins og himnasending þegar tilkynning um bók Torfhildar Hólm; Jón biskup Arason birtist  á Hljóðbókasafninu. Bókin er í tveimur bindum og tekur í heild rúmlega 23  klukkustundir í hlustun.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tekst á við bók eftir Torfhildi. Ég reyndi að lesa þessa sömu bók fyrir margt löngu og gafst upp. Það var fyrir þann tíma sem ég setti mér þá lífsreglu að ljúka hverri bók sem ég hæfi lestur á.

Torfhildur Hólm er fædd 1845 og deyr 1918 í spænsku veikinni. Hún er þekktust fyrir sínar sögulegar skáldsögur en hún skrifaði einnig smásögur og ritstýrði tímaritum. Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Torfhildi og ég vildi að ég hefði kynnst verkum hennar fyrr, meðan ég hafði augu til að sjá með. Gat grúskað.

En ég ætla því fyrst og fremst að ræða um bókina sem ber titilinn Jón biskup Arason, þótt hún sé ekki bara um hann. Þetta er breið þjóðfélagslýsing sem segir frá lífinu á tímum Jóns Arasonar og segir sögu fjölmargra samtímamanna hans. Þetta er  undarlegur heimur, allir sem koma við sögu, eru að  ota sínum tota og braska með jarðir, hjónabönd og stöðuveitingar. Og Jón karlinn er ekki  barnanna bestur. En höfundur reynir að standa með sínum manni.

Mér fannst umfjöllun Torfhildar um trúmál grunn. Enda vart við því að búast að  Torfhildur sé fær um hlutlausa umfjöllun um katólska trú. Hún er  prestsdóttir og vafalaust  alin upp í anda „siðbótar“ Lúthers.

Og þótt ég segði hér á undan að sagan væri breið frásaga, samfélagslýsing  frá tímum Jóns Arasonar, er það ekki alls kostar rétt. Bókin fjallar um íslenska yfirstétt þess tíma. Fátæklingana vantar.   

Það liggur mikil vinna í þessari bók og líklega mótast frásögnin talsvert af heimildunum sem  Torfhildur hafði aðgang að. Það sem var skrifað og skrásett á þessum  tíma tengist gjarnan jarðakaupum og dómum og svo voru náttúrlega annálar og árbækur Espólíns.

En Torfhildur kann að segja sögu, hún sviðsetur og dregur upp myndir. Lýsingar hennar á himninum, blæbrigðum ljóss og skugga eru svo kröftugar að þær minna á  kvikmynd.

Allir kaflar bókarinnar hefjast á vísu eða máltæki sem vísar  inn í frásöguna sem á eftir  kemur. Mér fannst þessi háttur hennar á að ávarpa eigin texta skemmtilegur. Torfhildur var menntuð kona, lærði m.a. ensku hjá einkakennara. Auk þess var hún sigld, hafði dvalið í Danmörku og 13 ár í Ameríku.   Hún hefur eflaust lesið enska og danska   19. aldar  rómana þótt hún velji sér síðan að skrifa sögulegar skáldsögur.

Það sem er í senn kostur og ókostur þessarar bókar, er að það  koma margir við sögu, mörg nöfn að muna, svo ég tali nú ekki um mægðir, ættir og tengingar. Hún er því svolítið í ætt við Sturlungu. Það er hægt að lesa hana oft.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 187450

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband