Gegnumlýsing þjóðar

7145CF6C-A99F-4D58-AD73-5962F51E9503Nú hefur komið út skýrsla frá Greiningardeild ríkislögreglustjóra sem hljómar nánast eins og  neyðaróp. Það er allt vaðandi uppi í skipulögðum glæpagengjum. Allt sem ratar í fréttir í aðdraganda kosninga magnast einhvern veginn upp og öðlast dýpri merkingu. Því spyr ég mig, er það þetta sem við eigum að vera hrædd við og hvaða flokk á ég þá að kjósa?

Ég ákvað því að lesa skýrsluna og renndi líka yfir skýrslu  frá 2015. Mér sýndist að þetta hefði jafnvel verið verra þá. Mér létti.

Reyndar kann ég ekkert á svona skýrslur. Í skýrslum sem ég kann að lesa er gerð grein fyrir greiningarviðmiðum,greiningargögnum, einhverju sem hægt að mæla eða telja. Og svo kann ég náttúrlega heilmikið um glæpagengi úr glæpasögum og glæpamyndum. Lögreglustjóri Irene Huss (sænsk glæpasería) myndi segja við þann sem skilar inn svona skýrslu. “Du har ingen ting på fötterna”.

Nei ég kann ekki að lesa svona skýrslu, en hitt veit ég, að að það er verið að beina athyglinni frá því sem máli skiptir.

Það er verið að afvegaleiða fólk. Hræða það. 

Af hverju þessi ofuráhersla á Skipulagða Glæpastarfsemi? Hvað um strákana sem byrjuðu á að stela úr smákökuboxi mömmu sinnar en stela nú undan skatti með því að geyma peningana sína í kökuboxum í útlöndum? Þau þarna á Greiningardeild lögreglustjóra ættu að ráða mig í vinnu. Ég sé. Ég sé nefnilega  alltaf hverjir eru að skrökva og ég veit að allra stærstu auðgunarglæpirnir eru framdir af strákum sem hafa lært að segja, “það var ekki ég”. Og komist upp með það. 

En mig grunaði reyndar að að væru til skipulögð glæpagengi. Ég varð fyrir því óláni í haust að hjólinu mínu var rænt. Það var læst en ekki við neitt. Líklega hefur annar klippt í sundur lásinn, hinn verið á sendibíl og sá þriðji annast söluna. Þræl skipulagt

Nei, látum ekki rugla okkur með hræðsluáróðri um skipulögð glæpagengi. Það eru þessir með kökuboxin sem hafa vægi.

Kjósum þá ekki.

Myndina tók ég af hvíta karlinum sem allir trampa á, á göngustígum og kannski víðar. Ég held að hannsé blásaklais

 


Gefum gaum að litlum hrukkum.

IMG_1039

Af hverju eru allir allt í einu farnir að segja heilt yfir?

Af hverju segja menn ekki "í heildina", "samanlagt","oftast", "í flestum tilvikum","í grunninn"eða "vanalega". Og margt fleira sem hentar? Ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri einhver ástæða fyrir því að menn, heilt yfir, fara að segja heilt yfir. Ég tók fyrst eftir þessu í íþróttaþætti RÚV en síðan virtist sem mjög margir tækju þaða upp. 

En auðvitað er þetta ekkert rangt í sjálfu sér og það skilja það allir. En ég fór,líklega vegna yfirstandandi kosningabaráttu, að velta því fyrir mér, hvort það leyndist einhver breyting á bak við einmitt þessi orð, HEILT YFIR. Bendir þetta ef til vill til að fólk sjái hlutina meira ofanfrá, eða grunnt?

Lengra komst ég ekki í vangaveltum mínum um þróun málsfars og hugsunar út frá frasa um HEILT YFIR. Ég var farin að hugsa um stjórnmál. Mér finnst skorta á dýptina í stjórnmálaumræðunni, hún snyst of oft um stök málefni án þess að þau séu sett í heildarsamhengi. Einstök mál og snúast upp í þras. Með eða móti. Ég er að tala út frá tilfinningu, ekki rannsókn og orð mín beinast ekki að neinum sérstökum. Og þetta var ekkert betra í gamla daga. Það er ég sem hef breyst. Nú hentar mér best til að skilja, að skoða málefni heildrænt og á dýptina.

Hvað gengur mönnunum til, á hvaða grunni hvílir pólitík flokkanna. Reyndar veit ég, eða tel mig vita, að allir flokkar hafi gert grein fyrir hugmyndagrundvelli sínum en það breytir því ekki að þegar á hólminn er komið snýst umræðan oft um stök og afmörkuð málefni.

Hvaðan kemur þessi umræðuhefð? Er við okkur kjósendur að sakast, berum við öll ákveðna málaflokka fyrir brjósti og lítum á framgang þeirra sem prófstein á pólitíkina? Gætu spyrlar haldið betur utan um þá samkvæmni sem þarf að vera á milli stefnu og framkvæmdar.

Hvers konar flokkur er það sem finnst allt í lagi, sjálfsagt að rýra kjör eldri borgara og öryrkja? Hvernig hugsa menn um náttúru og náttúruvernd sem ekki fallast á að fara eftir vísindalegu mati á nýtingu auðlinda? Og hvernig hugsa menn um landið sitt, sem ekki leitast við að halda því öllu í byggð? Þetta voru bara dæmi um hversu mikilvægt er að spegla stöðugt einstök mál í stefnu. Í mínum huga segir stefna í senn til um lífsgildi og leiðina að þeim. 

Að lokum.

Mér finnst mikilvægt að taka eftir orðavali og viprunum kringum munninn þegar þau eru sögð. Já og litlu hrukkunum í augnkrókunum. 

Mér fellur illa við fólk sem segir vísvitandi ósatt í pólitík. Enn verr fellur mér við þann sem veit ekki hvenær hann segir satt eða ósatt af því að sannleikurinn í þeirra augum er svo sveigjanlegt fyrirbæri.

 


Konan sem fór til að rannsaka byltinguna

IMG_1054Það ber að geta þess sem gott er. Það er búið að lesa inn bók Mary Wallstonecraft, Til varnar réttindum konunnar, sem kom út hjá Bókmenntafélaginu 2016. Bókin er þýdd af Gísla Magnússyni og það er Eyja Margrét Brynjarsdóttir sem skrifar formálann. Lesari er Ingunn Ásdísardóttir. 

Ég get skrifað um þessa bók, þótt ég sé enn stödd í formálanum af því bókin er mér ekki akveg ókunn. Ég hef nefnilega barist í gegnum hana á ensku, þótt textinn væri allt of snúinn fyrir mig. En nógu mikið skildi ég til að komast að því að þetta var saga eftir kvenhetju. En það sem gerir hana umframt allt merkilega er að konan er um leið heimspekingur.

Mary Wallstonecraft, (fædd 1759 og deyr 1795 ) elst upp við ótrygga bernsku. Fjárhagur fjölskyldunnar er í molum og ekki bætir úr skal drykkjuskapur og ofbeldi. Stúlkan Marý þarf ekki bara að standa á eigin fótum, heldur reynir hún líka að vera bjargvættur. Ég skil ekki hvernig hún hefur aflað sér menntunar, því menntuð er hún. Það sést ekki bara af því að hún stofnar og rekur stúlknaskóla, heldur einnig af því að hún tekur þátt í lærðri umræðu við menn sem stóðu framarlega í umræðu um pólitík og heimspeki þessa tíma. Hún gerir sér meira að segja ferð til Frakklands til að geta svarað neikvæðum skrifum

um byltinguna. Hún var sannfærð um að konur stóðu körlum ekki að baki og jafnrétti kynjanna var því sjálfsagt að hennar mat. Og þótt skólinn sem hún rak væri eingöngu fyrir stúlkur var hún þess fullviss að best væri að kynin sætu saman á skólabekk. 

Ég hlakka til að njóta þessarar merkilegu bókar og er þakklát Hljóðbókasafninu að gera mér það kleyft. Og hvernig á ég að hrósa Ingunni svo vert sé? Er nóg að segja að hún sé úrvals lesandi? Ég veit ekki hvernig er borgað fyrir að lesa inn bækur en hitt veit ég að það er vandaverk og það skiptir sköpum fyr efnið að það sé gert af listfengi.

Eins og sjá má, er mér þakklæti í huga.

Ég á eftir að skrifa meira um þessa bók.

Ég læt fylgja mynd af bókinni sem er einkar falleg í sínum látlausa búningi. 


Sjóveikur í München: Hallgrímur Helgason

IMG_1009Eg veit alveg af hverju ég hef dregið svona lengi að lesa þessa bók. Hún kom út 2015 og allar bækur sem ekki eru nýjar, eru í dag gamlar. Það vill þær enginn. Fólk sem er að vinna að því að búa sér til naumhyggjuheimili og að búa sig undir dauðann, talar endalaust um stöðu bókarinnar. Það vill þær enginn, ekki einu sinni Góði hirðirinn.

Ástæðan fyrir því að ég dró svo lengi að lesa þessa bók, bók eftir höfund,sem ég les full unaðar, er titillinn. Ég þoli ekki ælur og sá sem er sjóveikur mun æla. 

Ákveðin í að láta mig hafa þetta, hef ég lesturinn eins og ég sé að tæma hrákadall á sjúkrahúsi. Eitthvað sem ég þarf að gera. Reyndar þoli ég illa umfjöllun um alla líkamsvessa. Aðeins einu skáldi hefur tekist, að mínu mati að lyfta slíkri umfjöllun inn í skáldlega vídd.

Bókin Sjóveikur í München, er þroskasaga pilts sem er í senn að leita að og skapa sjálfan sig. Fyrst leitar hann að sinni hillu, svo sér hann að hann verður að búa hana til sjálfur. 

Hallgrímur er að skrifa um sig. Segja eigin sögu. Efir að hafa gefist upp á Myndlistarskólanum hér, fer hann til München. Mér finnst alltaf dálítið sárt að lesa sögur um unga menn sem lýsa æsku sinni. Ég er viðkvæm vegna þess að ég skil þá of vel og langar að segja "þetta verður allt  lagi". Mig langar líka til að segja þetta við Ungan og geri það reyndar margoft undir lestrinum. Það geri ég þó mér geðjist ekki að persónunni Ungum, sem er hrokafullur og sjálfbirgingslegur og fullur af fordómum. Ég hef heyrt ávæning um að sagan sé ekki að öllu leyti sönn en ég trúi hverju orði. Ef saga er heppnuð, trúi ég hverju orði. 

Reyndar er ég ekki að eltast við að lesa bækur Hallgríms út af sögunni, sem slíkri. Ég les hann vegna þess, hvernig hann leikur sér með tungumálið, það fljúga gneistar. Mér finnst líka gaman að hugarleiftrunum, sem stundum taka yfir frásöguna og verða að útúrdúrum. Því fleiri útúrdúrar, því betri Hallgrímur.

En það er ekki hægt að ræða um þessa bók án þess að fjalla um æluna. Í fyrstu  trúði  ég öllu um hana, eins og  öðru. Umhyggjusöm vonaði ég að hann fengi lækningu. En þessi æla var ekki af þessum heimi, heldur yfirskilvitlegt astraltertugubb eins hjá Stuðmönnum. Reyndar svart, en mig minnir að gubbið í poka lögreglumannanna í Allt á hreinu væri gráhvítt.

Þetta gubb á sér hlutverk. Það liggur eins og svartur þráður í gegnum verkið og á  þátt í því að allt fer vel að lokum. Ungur  ákveður að smíða sér hillu. 

Þótt ég grípi til þessarar líkingar, er ég ekki alls kostar ánægð með þetta hillutal. Ég held að það sé allt of mikið gert úr því að ungt fólk, leiti og finni sjálft sig. Ég held að allt fólk sé endalaust að leita og skapa sjálft sig. Meðan  það dregur lífs andann. En þessi skoðun mín liggur reyndar ekki innan ramma þessa pistils. 

Bók sem ég mun lesa aftur. 

Eftirþanki: Ég man í augnablikinu ekki eftir bók, þar sem kona eða stúlka segir sína þroskasögu. Man bara eftir strákum. Þarf að skoða þetta  betur. 

 


Vömb, keppur, laki og winstur

IMG_1004

Það er ekkert undarlegt við það, að einu sinni sveitastúlka, hugsi til sláturtíðar, senn kominn Gormánuður og rifji upp þessa gömlu möntru: Vömb, keppur, laki, winstur. Það er merkilegt, þegar þulan ósjálfrátt blandast pólitík dagsins í dag (eins og sést á stafsetningunni). Ég er að segja ykkur satt, allt í einu gerðist þetta í huga mér. 

Ég er reyndar enginn viðvaningur í að handleika innyfli. Þrjár sláturtíðir í röð stóð ég við innmatsborðið í sláturhúsinu á Breiðdalsvík og aðskildi innvols. Ég stóð á milli Einars í Ási og Brynjólfs á Ormsstöðum. Einar tók sig af smágirninu, sem hann gerði upp í passlegar hankir, það var selt til útlanda, ég sá um að taka mörina, netjuna af vömbinni og að setja nýrun í tilskilið ílát, Brynki sá svo um að ganga frá ristlinum og kasta vömbinni út um lúgu til Varða og Hildar, sem sáu um að tæma hana og skola. Þetta voru góðir vinnufélagar og því er notalegt að rifja þetta upp.

Núna þegar,hugurinn fer allt í einu að rugla vinstur saman við Wintris, rifja ég upp möntruna góðu,vömb, keppur, laki, vinstur og ég skoða ferð fæðunnar í gegnum skepnuna, sé ég að það er kannski ekki tóm vitleysa að þarna séu einhver líkindi. Þessi gamli fróðleikur fjallar nefnilega um það sem er sérstakt við meltingu jórturdýra. Það er að segja sjálft jórtrið. Það er sko ekki einleikið hvernig jórtrað er á sumum hlutum. 

Ég ætla að rifja upp ferð fæðunnar, það er ekki víst að allir muni þetta, en svona er þetta.

Þegar skepnan hefur tuggið fóðrið (lauslega)fer það um vélindað niður í vömb og blandast melingarvökvum. Þaðan fer það síðan í keppinn. Úr keppnum fer fæðan svo upp í munninn og er jórtruð. Loks fer fæðan, þá vel tuggin niður vélindað fram hjá vömbinni og keppnum í lakann og þaðan í vinstina. Og þá á allt að vera búið og ekki jórtrað á neinu meir.

En af hverju er þjóðin endalaust að jórtra á gömlum málum eins og Wintris eða Sjóðníu? Þetta á allt að vera löngu búið. Fullmelt. 

En þótt tenging  milli Wintris og vinstur væri einhvers konar innsláttarvilla hjá mínum gamla heila, var gagnlegt fyrir mig að rifja upp meltingarkerfi jórturdýra. Það er góð táknmynd.

Nú skil ég íslenska pólitík betur, sum mál hafa ekki mýkst nægilega, það þarf að jórtra betur. Tuggan sem gefin var á garðann fyrir kjósendur er illmeltanleg. 

Myndin sem fylgir er úr dýrafræðinni sem ég nam forðum. 


Upprifjun á bóklestri

IMG_1002

Af bóklestri
Mér finnst gott að rifja upp bóklestur minn af og til,til að glöggva mig á bókunum, sem ég er og var að lesa. Ósjálfrátt fer ég að velta fyrir mér eðli bóklestrar.
Bækur eru ávananabindandi og ég er djúpt sokkin. Ég réttlæti neysluna með ýmsu móti;


Í fyrsta lagi les ég til að njóta. Því betri bók því meiri er nautnin.
Í öðru lagi les ég til að hvíla hugann. Líklega er rétt að kalla það afþreyingarlestur.
Í þriðja lagi les ég af forvitni eða til að fræðast. Til að fylgjast með áhugamálum mínum, sem eru mörg.
Í fjórða lagi les ég bækur til að læra þýsku. Er alltaf að vona að þýskan komi til mín, verði lauflétt.
Það er sjálfsagt hægt að halda endalaust áfram við að réttlæta lestraráráttu, en ég kýs að stoppa hér.


Ég þarf reyndar að bæta því við,áður en lengra er haldið, að ég les ekki, ég hlusta. Það gerir sjónin, þ. e.a. s. skortur á henni. En ég hugsa og tala samt um að lesa af gömlum vana. Það væri hægt að skrifa langt mál um muninn á að hlusta og lesa en ætla ekki að gera það núna. Nema að ég sakna þess að lesa á bók. En þar sem ég hef ákveðið að horfa frekar á það sem ég get, heldur en það sem ég get ekki, bægi ég þeirri hugsun frá mér. Það er dásamlegt hvað tæknin getur leyst vandamál.
Af því að ég nota lestur til að mæta mörgum ólíkum þörfum, er ég alltaf með margar bækur í takinu.


Ég ætla í þessum pistli að tala um bækurnar sem ég er að lesa eða er nýbúin með.
Ég var að ljúka við þriðju bók Karl Ove Knausgård, Min kamp og skilaði henni í dag í Norræna bókasafnið. Ég gekk líka úr skugga um að hinar bækurnar þrjár sem ég á ólesnar eru til á diskum í safninu. Knausgård fellur í fyrsta flokkinn í flokkunarkerfinu sem ég var að leika mér að, að búa til. Sönn nautn. Mikið er gaman að eiga þrjár bækur um Min kamp ólesnar. 
Bókin sem ég er að lesa núna af forvitni og til að fræðast, er bókin Heimför eftir Yaa Gyasi. Þetta er söguleg skáldsaga, um tvær systur í Ghana í upphafi bókar. Önnur fór sem þræll til Ameríku, hin giftist þrælakaupmanni og varð eftir. Sagan er síðan rakin áfram í gegnum afkomendur þessara systra í 9 kynslóðir. Við lesturinn lærir maður margt um fólk beggja vegna Atlantshafsins.


Síðasta þýska bókin sem ég las, heitir Das Verstummen Der Krähe eftir Sanine Kornbichler. Þetta er glæpasaga, aðalpersónan vinnur að því að því að ganga frá dánarbúum. Í vinnu við eitt slíkt er vinningur í boði. Ef hún getur sýnt fram á að maður sem setið hefur í fangelsi og er nú látinn, hafi verið ranglega dæmdur, fær hún „bónus“. Málið flækist þegar kemur í ljós að mál bróður hennar, sem hvarf fyrir sex árum blandast inn í þetta. Bæði málin tengjast tæknifrjóvgunarsjúkrahúsi. Spennandi bók og ókunnar slóðir fyrir mig.
Afþreyingabókin sem ég var að ljúka við heitir Syndafloden, eftir Kristina Ohlsson. Bókin virðist í fyrstu vera ósköp venjuleg raðmorðabók, en málið reynist flóknara. Mér drepleiddist bókin. Eini ljósi punkturinn var lögguteymið, viðkunnanlegt fólk. Ætla aldrei að lesa fleiri bækur eftir Kristinu Ohlsson.


Á undan henni las ég bók eftir Håkan Nesser, Levande och döda i Winsford. Sagan er lögð í munn konu sem ætlar að hefja nýtt líf. Hún leigir sér hús á eyðilegri heiði í Exmoor. Umhverfið minnti mjög á slóðir Baskervillehundsins. Þarna í einverunni rifjar hún upp líf sitt. Reyndar er ekki rétt að tala um einveru, því með henni er hundur sem hún hefur mikinn félagsskap af. Håkan Nesser er mikill hundavinur. En fortíðin vitjar hennar og nýja lífið sem hún ráðgerði, verður ekki eins og hún hafði ætlað. Hrífandi bók. Þegar ég hafði lokið við hana, las ég Baskervillehundinn og ráðgerði í huganum ferð til Exmoor.
Niðurstaða mín nú þegar ég rifja upp bækurnar sem ég var að lesa, er sú að það er skemmtilegra að lesa góðar bækur en vondar. Stundum þegar ég freistast til að lesa of mikið af glæpasögum finnst mér eins og morð og ofbeldi leki út um eyrun á mér.
Kenningu mín um glæpasögur er:
Því færri morð, því betri bók. Á eftir að rannsaka þetta betur.
 


Hvað er miðja? - - - Hvar er miðja?

IMG_0952Stundum er pólítík flokkuð eftir lit

Mundin er af litríkum trefl.

Í fyrsta skipti sem ég heyrði flokksformann lýsa stefnu flokks síns með þeim orðum, að hann sæktist eftir því að vera miðjuflokkur, var þegar Halldór Ásgrímsson sagði það í sjónvarpsviðtali. Það er langt síðan. En ég varð gáttuð. Það getur ekki verið stefna að vera í miðjunni, hugsaði ég. Miðja í pólitík er eitthvað sem ræðst af öðrum. Það ræðst ekki ekki nema að litlu leyti af því sem formaðurinn gerir sjálfur. Einungis óbeint.  Fyrir hvað stóð miðjan í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar? Hugsa ég. Eða nú í Tyrklandi?

Mér fannst leitt að Halldór skyldi láta þessa vitleysu út úr sér, við erum bæði Austfirðingar og áreiðanlega alin upp á  Framsóknarheimili. Hann átti því að vita að Framsóknarflokkurinn var félagshyggjuflokkur sem trúði á mátt samvinnu hreyfingarinnar til að vinna að jöfnuði, já og framförum. 

Þetta rifjaðist upp nú þegar nýr flokkur birtist á sjónarsviðið sem kennir sig þegar í upphafi við miðjuna. Það kom fáum á óvart en ég var föst í hugleiðingum mínum um hvað gerir flokk að flokk.

Það er ekki langt síðan að ég horfði á fréttir frá Grímsey, það var verið að koma fyrir risastórri kúlu á heimskautsbaugnum. Það var erfitt verk að koma kúlunni fyrir en verra var, að heimskautsbaugurinn færist til, það þarf því stöðugt að flytja kúluna. Ósjálfrátt fór ég að hugsa um flokkinn sem kennir sig við miðju. Sá mennina fyrir mér baksa við að velta kúlunni eftir því sem miðjan fluttist til, eftir því hvernig atkvæði flokkanna féllu. Ég sé verkstjórann másandi og sveittan á enninu. 

Allt þetta miðjutal er auðvitað tilkomið vegna hefðarinnar að hugsa sér pólitíkina út frá  línulaga mælistiku, hægri vinstri.Þessi hefð réðist af sætaskipan í franska þinginu á 18. öld.

Það eru til margar aðferðir við að skilgreina miðju og sumar mjög vísindalegar. Líklega þekkja flestir Gauss kúrfuna. Hún er gildust um miðjuna og dvínar út til hliðanna. Væri hægt að skoða pólitíkina út frá henni? Líklega myndi miðjan færast til og frá.

Miðja er líka samheiti við mitti. Þegar við tölum um þá miðju, okkar eigin miðju, viljum við að hún sé sem mjóst og leggjum jafn vel heil mikið á okkur til að þurfa ekki bæta götum á beltið.

Nú að pólitíkinni.

Allir stjórnmálaflokkar með sjálfsvirðingu skilgreina sig út frá málefnum sem þeim finnst mikilvægt að vinna að og hafa í heiðri. Það er ekki þeirra að raða sér á skala eða reikna út kúrfuna, sem líklega skekktist fram og til baka.

Ég kýs þann flokkur sem  vinnur best og sannast að þeim málefnm em mér  finnast mikilvæg á grundvelli lífsskoðana minna. Mér er alveg sama þó sá flokkur sé ekki alltaf gildur um miðjuna

IMG_0948

 Myndin er af meðalkúrfu, hún er fengin að láni af netinu


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2017
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband