Sjóveikur í München: Hallgrímur Helgason

IMG_1009Eg veit alveg af hverju ég hef dregið svona lengi að lesa þessa bók. Hún kom út 2015 og allar bækur sem ekki eru nýjar, eru í dag gamlar. Það vill þær enginn. Fólk sem er að vinna að því að búa sér til naumhyggjuheimili og að búa sig undir dauðann, talar endalaust um stöðu bókarinnar. Það vill þær enginn, ekki einu sinni Góði hirðirinn.

Ástæðan fyrir því að ég dró svo lengi að lesa þessa bók, bók eftir höfund,sem ég les full unaðar, er titillinn. Ég þoli ekki ælur og sá sem er sjóveikur mun æla. 

Ákveðin í að láta mig hafa þetta, hef ég lesturinn eins og ég sé að tæma hrákadall á sjúkrahúsi. Eitthvað sem ég þarf að gera. Reyndar þoli ég illa umfjöllun um alla líkamsvessa. Aðeins einu skáldi hefur tekist, að mínu mati að lyfta slíkri umfjöllun inn í skáldlega vídd.

Bókin Sjóveikur í München, er þroskasaga pilts sem er í senn að leita að og skapa sjálfan sig. Fyrst leitar hann að sinni hillu, svo sér hann að hann verður að búa hana til sjálfur. 

Hallgrímur er að skrifa um sig. Segja eigin sögu. Efir að hafa gefist upp á Myndlistarskólanum hér, fer hann til München. Mér finnst alltaf dálítið sárt að lesa sögur um unga menn sem lýsa æsku sinni. Ég er viðkvæm vegna þess að ég skil þá of vel og langar að segja "þetta verður allt  lagi". Mig langar líka til að segja þetta við Ungan og geri það reyndar margoft undir lestrinum. Það geri ég þó mér geðjist ekki að persónunni Ungum, sem er hrokafullur og sjálfbirgingslegur og fullur af fordómum. Ég hef heyrt ávæning um að sagan sé ekki að öllu leyti sönn en ég trúi hverju orði. Ef saga er heppnuð, trúi ég hverju orði. 

Reyndar er ég ekki að eltast við að lesa bækur Hallgríms út af sögunni, sem slíkri. Ég les hann vegna þess, hvernig hann leikur sér með tungumálið, það fljúga gneistar. Mér finnst líka gaman að hugarleiftrunum, sem stundum taka yfir frásöguna og verða að útúrdúrum. Því fleiri útúrdúrar, því betri Hallgrímur.

En það er ekki hægt að ræða um þessa bók án þess að fjalla um æluna. Í fyrstu  trúði  ég öllu um hana, eins og  öðru. Umhyggjusöm vonaði ég að hann fengi lækningu. En þessi æla var ekki af þessum heimi, heldur yfirskilvitlegt astraltertugubb eins hjá Stuðmönnum. Reyndar svart, en mig minnir að gubbið í poka lögreglumannanna í Allt á hreinu væri gráhvítt.

Þetta gubb á sér hlutverk. Það liggur eins og svartur þráður í gegnum verkið og á  þátt í því að allt fer vel að lokum. Ungur  ákveður að smíða sér hillu. 

Þótt ég grípi til þessarar líkingar, er ég ekki alls kostar ánægð með þetta hillutal. Ég held að það sé allt of mikið gert úr því að ungt fólk, leiti og finni sjálft sig. Ég held að allt fólk sé endalaust að leita og skapa sjálft sig. Meðan  það dregur lífs andann. En þessi skoðun mín liggur reyndar ekki innan ramma þessa pistils. 

Bók sem ég mun lesa aftur. 

Eftirþanki: Ég man í augnablikinu ekki eftir bók, þar sem kona eða stúlka segir sína þroskasögu. Man bara eftir strákum. Þarf að skoða þetta  betur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 186946

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband