Medan han lever ( Meðan hann lifir):Elaine Eksvärd

00D76611-70EC-436F-BB72-43756F7FD57C

Elaine Eksvärd er nú orðin þekkt persóna í sænskum fjölmiðlum. Hún skrifar blogg, rekur rágjafarstofu sem heitir Snacka Snyggt, er eftirsóttur fyrirlesari og hefur verið ráðgjafi virtra fyrirtækja og opinberra stofnana. Einu sinni var hún það ekki, hún var bara lítið barn. 

Móðir hennar var brasilískur innflytjandi en faðirinn ósköp venjulegur Svíi. Eða virtist vera það. Þegar foreldrarnir skildu, var gerður ósköp venjulegur skilnaðarsamningur, hún var áfram hjá móður sinni, pabbinn varð helgarpabbi.Elaine elskaði pabba sinn út af lífinu, henni fannst hann skemmtilegur og góður. Hann gældi við hana og á kvöldin horfðu þau saman á vídeó. Auk þess leyfði hann allt sem mamman bannaði.

Elaine var líka eðlilegt barn að því leyti, að hún hélt að lífið sem pabbi hennar bauð henni upp á, væri eðlilegt líf. Hún þekkti ekkert annað. Smám saman fór hana þó að gruna að sumt væri ekki í lagi. Skilningur hennar á því sem var að gerast og uppgjörið við föðurinn kom löngu seinna.

Í bókinni (ég las bókina á sænsku) skiptist hún á að segja frá réttarhöldum og eigin lífi, sérstaklega bernskunni.  Þetta er áhrifamikil frásögn og það er á vissan hátt merkilegt að sjá hvernig þessi töff kona verður lítil þegar kemur að uppgjörinu við skömmina, svikunum. Eru til alvarlegri svik heldur en að svíkja barn sem maður á að verja fyrir öllu illu?

Þegar Elaine var 33 ára gömul kærði hún föður sinn fyrir kynferðislega áreitni. Hann hafði sent henni klámmyndband. Hún hafði reyndar áður reynt að kæra hann en var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. Nú hafði hún sönnunargagn. Móðir hennar hafði líka á sínum  tíma reynt að fá breytingar á umgengnisrétti og leitað til barnaverndaryfirvalda en var ekki trúað. 

Gælurnar sem pabbinn gerði við dóttur sína veru engar venjulegar gælur og myndböndin sem þau horfðu á voru gróft porr. 

Mér fannst erfitt að lesa þessa bók, það er ónotalegt að fá nákvæmar lýsingar á því hvernig barnið bregst við misnotkun, heldur í lengstu lög í að svona eigi þetta að vera. 14 ára sagði hún skilið við föður sinn og innsýn hennar kemur smámsaman. Lengi hélt hún í vonina að hann myndi iðrast og biðja hana fyrirgefningar, sem aldrei varð.

Frásaga Elaine af unglingsárum sínum þegar hún var í senn að takast á við að þroskast og við skömmina virkaði ruglingslega á mig enda mikið í gangi. En þrátt fyrir allt ruglið ákveður hún að læra eitthvað nytsamlegt og velur sér fagið retorik (mælskulist). Það hafði aldrei neinn trúað henni og hana langaði að ná valdi á málinu til að geta sannfært fólk.

Í kaflanum um æskuna minnti unglingurinn Elaine mig stundum á kóreönsku stúlkuna Yaonmi sem ég skrifaði um í síðasta bloggi. Þær leita báðar til trúarhreyfinga en einungis tímabundið. Í báðum tilvikum vilja þær tjá sig um reynslu sína.

Elaine segir frá reynslu sinni til að útskýra fyrir fólki hve misnotkun er lúmsk og hversu vandamálið er alvarlegt. Til að gera þetta enn augljósara bætir hún statistikk við frásögn sína, tölfræði sem, ef ég skil rétt, byggist á áætluðum tölum að hluta. Þessari  viðbót við frásögnina fannst mér ofaukið.

Það var tilviljun að ég valdi þessa bók, ég vissi ekki um hvað hún var. Forsíða var svo falleg en hún er af lítilli stúlku sem horfir kotroskin á heiminn. Meðan ég las, sá ég litlu stúlkuna fyrir mér. Opinn svipur barnsins gerir frásöguna enn áhrifameiri.

Ég las bókina í andrúmslofti umræðu um valdbeitingu og alls kyns kynferðislega áreitni sem konur hafa þurft að þola. Áhrifin eru sterk en ég finn að ég fyllist bjartsýni. Þessi umræða á eftir að breyta miklu. Ég er nefnilega viss um að þeir sem áreita og beita valdi, vita alveg hvað þeir eru að gera. Þess vegna geta þeir hætt, breytt hegðun sinni.  Þeir hafa komist upp með það. Ástæðan er í höfðinu á þeim en ekki í klofinu eins og oft er látið í veðri vaka. En ástæðan er líka í samfélagi sem lætur þeim líðast.  

Bókin um litlu stúlkuna sem seinna vann dómsmal gegn föður sínum er vel skrifuð enda ekki fyrst bók höfundar.    

 

 


Með lífið að veði: Yeonmi Park


64A890FF-6F3F-47FB-9F9A-3BBF9C19C861Með lífið að veði er efir Yeonmi Park (f. 1993) frá Norður-Kóreu. Hún flýr heimaland sitt þrettán ára ásamt móður sinni. Eldri systir var farin á undan þeim. Þær eru að flýja hungur og vonleysi. Eins og hún lýsir upplifun sinni eru þær tilneyddar. Frá heimaborg sinni, Hyesan, sjá þær ljósin í Kína og þær hafa heyrt að kjör fólksins séu betri þar og auðvelt að fá vinnu.
Kúgunin í Norður-Kóreu er svo algjör að Yeonmi gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því að hún er kúguð. Hún þekkir ekkert annað, þannig virkar heilaþvottur best. En ferð þeirra mæðgna er eins og fara úr öskunni í eldinn. Þær fá reyndar nóg að borða en frelsið sem þeim hafði verið lofað af þeim sem “hjálpuðu” þeim við flóttann, er ný kúgun. Þær hafa verið seldar mansali. Þær höfðu vonað og trúað að þær myndu finna eldri systurina sem fór fyrst en það á eftir að dragast á langinn. Leitin að henni á eftir að verða eins og stef í gegnum alla frásögnina.
Kaflinn sem fjallar um Kínadvölina er í senn átakanlegur og hrottalegur. Í Kína kynntust þær ekki frelsinu heldur spillingu. Mannlíf þar sem spilling þrífst er ljótt, ómanneskjulegt og grimmt. Að lokum tekst Yeonmi og móður hennar að flýja til Suður-Kóreu í gegnum Mongólíu með hjálp frá kristnum söfnuði.
Í Suður-Kóreu hefst enn nýr kafli í lífi þessarar kornungu stúlku. Hún er 16 ára og fram að þessu hefur líf hennar einungis gengið út á að lifa af. Hún kann ekki á lífið í nýja landinu þar sem allt önnur lögmál ríkja en hún er vön. Hún þarf líka að finna sjálfa sig og hver hún er þegar lífið snýst ekki lengur um að lifa af, heldur að taka eigin ákvarðanir byggðar á eigin sannfæringu. Það er litið niður á flóttamenn að norðan í Suður-Kóreu og Yeonmi sem er hert í baráttu fyrir lífi sínu í Norður- Kóreu og seinna í baráttu við melludólga og mafíósa í Kína, heldur áfram að berjast fyrir lífi sínu. Um leið sér maður af frásögninni glitta í unglinginn, barnið Yeonmi. Hún er bara 16 ára.
Skólaganga hennar frá Norður-Kóreu er í molum og hún hefur mikla þrá eftir að mennta sig og skilja. Í raun er eins og hún vilji gleypa þennan nýja heim. Eða er það heimurinn sem gleypir hana? Síðasti hluti bókarinnar fjallar um hvernig þessi unga stúlka finnur leið, byggir sig upp og slær í gegn. Það er eiginlega sá kafli sem mér fannst hvað erfiðast láta ganga alveg upp.


Mér finnst bókin mjög fræðandi. Þótt ég hafi lesið fréttir og greinar um allan þennan heimsósóma, kúgun í Norður-Kóreu, mansal og spillingu á heimsvísu, er öðru vísi að hlusta á rödd ungrar stúlku sem hefur reynt það á eigin kroppi. Og enn sterkari verður upplifunin af því hún var bara barn. Í raun er Yeonmi svo ung að ég finn að innst inni hef ég áhyggjur af henni næstum eins og hún væri i fjölskyldunni. Það er svo mikil fart á þessari stelpu og það leynast svo margar hættur í hinum „frjálsa heimi“.
Í raun er bókin ótrúlegt afrek miðað við bakgrunn höfundar. Ég hef lesið umræðu þar sem verið er að gera hana tortryggilega og látið að því liggja að hún sé handbendi þeirra sem vilji Norður-Kóreu og eða Kína illt og það hafa verið tínd til dæmi um villur í frásögn hennar.En það gefur auga leið að þessi stúlka hélt ekki dagbók svo ákveðin ónákvæmni í frásögninni er eðlileg.


Helsti ókostur bókarinnar að mínu mati, er að bókin fjallar um svo margt að það er bæði erfitt að henda reiður á fókus og heildarsýn. Þetta er allt í senn, saga einstaklings, saga fjölskyldu og greining stjórnmálaástands. Við þetta bætist hasarkennd spennusaga um lífið í Kína og ævintýralegur flótti mæðgnanna til Mongólíu. Þroskasaga Yeonmi í Suður-Kóreu hálfruglingsleg, líklega vantar höfundinn fjarlægð. Það sem mér fannst sýna best hvar þessi unga stúlka er nú stödd, er hvernig hún notar orðið frelsi sem eitthvað eitt og endanlegt ástand. Það vantar bara að hún skrifi það með stórum staf, Frelsi.
Þótt bókin sé ekki beinlínis skemmtilesning, gat ég ekki að því gert, að einu sinni skellti ég upp úr við lesturinn. Það var þegar hún var að útskýra hversu Norður-Kóreufólk á auðvelt með að skilja heilaga þrenningu. Hugsaðu þér bara Kim Il Sung, Kim Jong-il og Jong-un Kim,(vonandi er þetta rétt)sem þrenninguna, sagði konan, sem var að leiðbeina henni. Þá gengur allt upp!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Valdbeiting: Heimför Yaa Gyasi

 

DE1086A1-E5BE-4765-A4EC-7A20203E339AFyrir tilviljun las ég þrjár sögur í röð eftir ungar konur. Allar fjölluðu þær um valdbeitingu, þó með ólíkum hætti. Eða var það tilviljun að ég las þessar bækur nú? Líklega ekki. Það er svo mikið ofbeldi í henni veröld og nú eru konur farnar tjá sig í auknum mæli um það sem að þeim snýr. Heill skari kvenna hefur nú stigið fram og mótmælt kynferðislegri áreitni enn aðrar hafa skrifað bækur. Ég las þessar þrjár bækur hverja á eftir annarri, Heimför (Yaa Gymasi f. 1989), Með lífið veði (Yeonmi Parky f. 1993) og Medan han lever (Elaine Eksvärd f. 1981). Ég ætla að skrifa um þær hverja fyrir sig, því annað væri of stór biti, jafnvel fyrir áhugasama bókmenntaelskandi lesendur mína.

 

Heimför eftir Yaa Gyasi.

Þetta er söguleg skáldsaga. Hún hefst í Ghana á 18. öld og fylgir eftir afkomendum tveggja systra í sjö ættliði. Þær hafna í ólíkri stöðu, önnur er seld til Ameríku, hin giftist breskum þrælakaupmanni. Sögunni vindur fram mann fram af manni beggja vegna Atlantshafsins, í Ghana og í Bandaríkjunum. Í fyrstu fannst mér erfitt að fylgja þræði og átta mig á skyldleika fólks, en svo rifjaðist upp reynsla mín af af ættartölum í okkar eigin fornu bókmenntum, eftir það gekk allt betur.
Það var léttara fyrir mig að fylgja þræðinum og samsama mig persónunum í Bandaríkjunum, þar þekkti ég betur til í gegnum fréttir, kvikmyndir og bókmenntir. Lífið í Ghana var mér framandi og ég var slegin yfir því hvað þar ríkti mikið ofbeldi og alger kvennakúgun.
Höfundurinn Yaa Gyasi er sjálf uppalin í Ghana en fer með foreldrum sínum þriggja ára til Bandaríkjanna og menntast þar. Mér finnst líklegt að hún hafi ekki bara valið sér þetta söguefni til að fjalla um fólkið sitt, heldur sé hún líka að átta sig á hver hún er, hvar hún heyri til. Kornungur innflytjandi. Hún er að nema land. Sagan er sögð af einstakri næmni.

Í raun eru þetta margar litlar sögur og hver um sig heitir nafni persónunnar sem hún fjallar um. Það er lesandans að tengja þær saman og þá var gagnlegt að hafa ættartréð fremst í bókinni. Ég velti fyrir mér hvort það væri óþarft að tengja frásagnirnar saman en komst að því að það er einmitt þessi heild sem gefur bókinni styrkinn.


Í bókinni er fjallað um ótal birtingarmyndir ofbeldis um leið og höfundur leitast við að lýsa hvernig þolandinn stöðugt finnur sér leið til að halda áfram að vera manneskja, varðveita sinn innsta kjarna. En hvernig getur fólk verið svona grimmt? Höfundurinn lýsir því oftar en einu sinni að illskan hefst á því að hlutgera fólk, taka mennskuna frá því. Þetta er reyndar ekkert nýtt, þetta er það sem allur hernaður byggir á. Þegar þessu er lýst í mikilli nánd verður það sláandi, það nístir.


Tímagarðurinn: Karlaheimur?

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Játning: Ég les of lítið eftir íslenska höfunda og þetta er fyrsta bók sem ég les eftir Guðmund Brynjólfsson. 

Guðmundur las sjálfur bókina sína Tímagarðurinn. Ég hlustaði svolítið kvíðin, því ég vissi að hann ætlaði að gera það sem allir góðir rithöfundar gera, reyna að segja það ósegjanlega. Lestur Guðmundar þekki ég vel því hann er einn af mínum uppáhaldslesurum á hbs.is. En kvíðinn sem ég fann fyrir, vegna þess að ég ég óttaðist að bókin rifi upp gömul sár.   

Ég hafði undirbúið mig, fór á bókakynningu hjá bókaútgáfunni Sæmundi í Gunnarshúsi, þar sem höfundur sagði frá bók sinni og las einn kafla. Það borgar sig að undirbúa sig fyrir lestur, væntingar um bók er hluti af lestri. 

Ég fann á andrúmsloftinu að það bjó mikil alvara á bak við þessa bók, uppgjör. Ég þekki það af eigin reynslu að missa mér nákominn í hafið og ég hef lengi sneytt hjá slíku efni. Þess vegna fannst mér gott að finna fyrir þessari alvöru. Líklega hefði ég án þess aldrei lesið bókina. Það er rétt efnisins vegna að taka það fram að kaflinn sem Guðmundur las í Gunnarshúsi var gamansamur. 

Bókin Timagarðurinn fjallar um ungan mann sem missir föður og bróður í sjóslysi. Hann er enn á mótunarskeiði og situr fastur. Líf hans stöðvast. Það er eins og hann týni sjálfum sér. Hann á vandræðum með samskipti sín við konur og í hálfgerðu rugli vaknar hann upp í Hveragerði. Hann hringir í frænda sinn og biður hann um að skutla sér heim. Það gerir hann en fer ekki þá leið sem ungi maðurinn bjóst við, heldur hringferð um landið með viðkomu á stöðum þar sem hann þurfti að erindreka við að skila eða ná sér í bíla varahluti. Frændinn lifir í heimi gamalla bíla. Á einum viðkomustaðnum hirðir hann upp í bílinn kunningja, Tóta í Tauinu, sem þarf að komast suður til að fá hjálp við að hætta að drekka. Bókin fjallar síðan um þetta þríeyki í gegnum samtöl þeirra og mislangar sögur, sem flestar eru í stíl þess sem kallast gæti Íslensk fyndni. Inn á milli kemur ljóðrænn texti. 

Ég hélt ég þekkti vel heiminn sem bókin lýsir en svo rennur upp fyrir mér að húnn lýsir einkynja heimi karlmanna. Hann þekki ég ekki, eðli málsins samkvæmt myndi sá heimur hverfa um leið og ég bættist við. Það er greinilega ekki nóg að hafa haft kynni af karlmönnum síðan ég var í móðurlífi (ég er tvíburi), átt föður, bræður og frændur og eiginmenn. Tala karlmenn svona saman þegar þeir eru einir?

En frændinn veit nákvæmlega hvað hann er að gera, hann kann greinilega að gera við fleira en bílvélar. Allt samtalið, allar sögurnar og innskotin sem ég veit ekki hvort ég á að kalla ljóðrænan prósa  eða heimspekilegar hugleiðingar, stefna að einu marki, allt er þetta efniviður sem nýtist ungum manni sem er í senn að leita að ástinni, fegurðinni og sér sjálfum.

Pistill sem hefst á játningu, hlýtur að kalla á yfirlýsingu um að bæta ráð sitt. Ég ætla að taka mér tak varðandi lestur íslenskra bóka. En ég veit af hverju það er svona komið með þennan lestur. Íslenskar bækur standa mér svo nærri, þær reyna meira á mig. Til ills og til góðs eftir því hvernig til tekst. Oftast til góðs, sem betur fer.  Þessi bók er dæmi um það.

 Myndin er af píslarblómi. Auk þess að vera afskaplega fallegt hefur það trúarlega tilvísun sem ég kann ekki nóg um. Myndin tekin í Floru Laugardal núi haust

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 187081

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband