Vömb, keppur, laki og winstur

IMG_1004

Það er ekkert undarlegt við það, að einu sinni sveitastúlka, hugsi til sláturtíðar, senn kominn Gormánuður og rifji upp þessa gömlu möntru: Vömb, keppur, laki, winstur. Það er merkilegt, þegar þulan ósjálfrátt blandast pólitík dagsins í dag (eins og sést á stafsetningunni). Ég er að segja ykkur satt, allt í einu gerðist þetta í huga mér. 

Ég er reyndar enginn viðvaningur í að handleika innyfli. Þrjár sláturtíðir í röð stóð ég við innmatsborðið í sláturhúsinu á Breiðdalsvík og aðskildi innvols. Ég stóð á milli Einars í Ási og Brynjólfs á Ormsstöðum. Einar tók sig af smágirninu, sem hann gerði upp í passlegar hankir, það var selt til útlanda, ég sá um að taka mörina, netjuna af vömbinni og að setja nýrun í tilskilið ílát, Brynki sá svo um að ganga frá ristlinum og kasta vömbinni út um lúgu til Varða og Hildar, sem sáu um að tæma hana og skola. Þetta voru góðir vinnufélagar og því er notalegt að rifja þetta upp.

Núna þegar,hugurinn fer allt í einu að rugla vinstur saman við Wintris, rifja ég upp möntruna góðu,vömb, keppur, laki, vinstur og ég skoða ferð fæðunnar í gegnum skepnuna, sé ég að það er kannski ekki tóm vitleysa að þarna séu einhver líkindi. Þessi gamli fróðleikur fjallar nefnilega um það sem er sérstakt við meltingu jórturdýra. Það er að segja sjálft jórtrið. Það er sko ekki einleikið hvernig jórtrað er á sumum hlutum. 

Ég ætla að rifja upp ferð fæðunnar, það er ekki víst að allir muni þetta, en svona er þetta.

Þegar skepnan hefur tuggið fóðrið (lauslega)fer það um vélindað niður í vömb og blandast melingarvökvum. Þaðan fer það síðan í keppinn. Úr keppnum fer fæðan svo upp í munninn og er jórtruð. Loks fer fæðan, þá vel tuggin niður vélindað fram hjá vömbinni og keppnum í lakann og þaðan í vinstina. Og þá á allt að vera búið og ekki jórtrað á neinu meir.

En af hverju er þjóðin endalaust að jórtra á gömlum málum eins og Wintris eða Sjóðníu? Þetta á allt að vera löngu búið. Fullmelt. 

En þótt tenging  milli Wintris og vinstur væri einhvers konar innsláttarvilla hjá mínum gamla heila, var gagnlegt fyrir mig að rifja upp meltingarkerfi jórturdýra. Það er góð táknmynd.

Nú skil ég íslenska pólitík betur, sum mál hafa ekki mýkst nægilega, það þarf að jórtra betur. Tuggan sem gefin var á garðann fyrir kjósendur er illmeltanleg. 

Myndin sem fylgir er úr dýrafræðinni sem ég nam forðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þrjú atriði blasa við á myndum: Vömb, keppur og Wintris.

Ómar Ragnarsson, 7.10.2017 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 186934

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband