Upprifjun á bóklestri

IMG_1002

Af bóklestri
Mér finnst gott að rifja upp bóklestur minn af og til,til að glöggva mig á bókunum, sem ég er og var að lesa. Ósjálfrátt fer ég að velta fyrir mér eðli bóklestrar.
Bækur eru ávananabindandi og ég er djúpt sokkin. Ég réttlæti neysluna með ýmsu móti;


Í fyrsta lagi les ég til að njóta. Því betri bók því meiri er nautnin.
Í öðru lagi les ég til að hvíla hugann. Líklega er rétt að kalla það afþreyingarlestur.
Í þriðja lagi les ég af forvitni eða til að fræðast. Til að fylgjast með áhugamálum mínum, sem eru mörg.
Í fjórða lagi les ég bækur til að læra þýsku. Er alltaf að vona að þýskan komi til mín, verði lauflétt.
Það er sjálfsagt hægt að halda endalaust áfram við að réttlæta lestraráráttu, en ég kýs að stoppa hér.


Ég þarf reyndar að bæta því við,áður en lengra er haldið, að ég les ekki, ég hlusta. Það gerir sjónin, þ. e.a. s. skortur á henni. En ég hugsa og tala samt um að lesa af gömlum vana. Það væri hægt að skrifa langt mál um muninn á að hlusta og lesa en ætla ekki að gera það núna. Nema að ég sakna þess að lesa á bók. En þar sem ég hef ákveðið að horfa frekar á það sem ég get, heldur en það sem ég get ekki, bægi ég þeirri hugsun frá mér. Það er dásamlegt hvað tæknin getur leyst vandamál.
Af því að ég nota lestur til að mæta mörgum ólíkum þörfum, er ég alltaf með margar bækur í takinu.


Ég ætla í þessum pistli að tala um bækurnar sem ég er að lesa eða er nýbúin með.
Ég var að ljúka við þriðju bók Karl Ove Knausgård, Min kamp og skilaði henni í dag í Norræna bókasafnið. Ég gekk líka úr skugga um að hinar bækurnar þrjár sem ég á ólesnar eru til á diskum í safninu. Knausgård fellur í fyrsta flokkinn í flokkunarkerfinu sem ég var að leika mér að, að búa til. Sönn nautn. Mikið er gaman að eiga þrjár bækur um Min kamp ólesnar. 
Bókin sem ég er að lesa núna af forvitni og til að fræðast, er bókin Heimför eftir Yaa Gyasi. Þetta er söguleg skáldsaga, um tvær systur í Ghana í upphafi bókar. Önnur fór sem þræll til Ameríku, hin giftist þrælakaupmanni og varð eftir. Sagan er síðan rakin áfram í gegnum afkomendur þessara systra í 9 kynslóðir. Við lesturinn lærir maður margt um fólk beggja vegna Atlantshafsins.


Síðasta þýska bókin sem ég las, heitir Das Verstummen Der Krähe eftir Sanine Kornbichler. Þetta er glæpasaga, aðalpersónan vinnur að því að því að ganga frá dánarbúum. Í vinnu við eitt slíkt er vinningur í boði. Ef hún getur sýnt fram á að maður sem setið hefur í fangelsi og er nú látinn, hafi verið ranglega dæmdur, fær hún „bónus“. Málið flækist þegar kemur í ljós að mál bróður hennar, sem hvarf fyrir sex árum blandast inn í þetta. Bæði málin tengjast tæknifrjóvgunarsjúkrahúsi. Spennandi bók og ókunnar slóðir fyrir mig.
Afþreyingabókin sem ég var að ljúka við heitir Syndafloden, eftir Kristina Ohlsson. Bókin virðist í fyrstu vera ósköp venjuleg raðmorðabók, en málið reynist flóknara. Mér drepleiddist bókin. Eini ljósi punkturinn var lögguteymið, viðkunnanlegt fólk. Ætla aldrei að lesa fleiri bækur eftir Kristinu Ohlsson.


Á undan henni las ég bók eftir Håkan Nesser, Levande och döda i Winsford. Sagan er lögð í munn konu sem ætlar að hefja nýtt líf. Hún leigir sér hús á eyðilegri heiði í Exmoor. Umhverfið minnti mjög á slóðir Baskervillehundsins. Þarna í einverunni rifjar hún upp líf sitt. Reyndar er ekki rétt að tala um einveru, því með henni er hundur sem hún hefur mikinn félagsskap af. Håkan Nesser er mikill hundavinur. En fortíðin vitjar hennar og nýja lífið sem hún ráðgerði, verður ekki eins og hún hafði ætlað. Hrífandi bók. Þegar ég hafði lokið við hana, las ég Baskervillehundinn og ráðgerði í huganum ferð til Exmoor.
Niðurstaða mín nú þegar ég rifja upp bækurnar sem ég var að lesa, er sú að það er skemmtilegra að lesa góðar bækur en vondar. Stundum þegar ég freistast til að lesa of mikið af glæpasögum finnst mér eins og morð og ofbeldi leki út um eyrun á mér.
Kenningu mín um glæpasögur er:
Því færri morð, því betri bók. Á eftir að rannsaka þetta betur.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 187108

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband