Blindgata í Kairó

BFFA7368-5222-409A-9B03-B5E07D41115F

Blindgata í Kaíró

 Eftir ferðalag mitt til Egyptalands fannst mér ég hafa fræðst mikið um Egyptaland til forna en lítið um Egyptaland nútímans ef undan er skilin sú veröld sem búin er til handa ferðamönnum.

Ég hef reynt að bæta við mig fróðleik með því að lesa.

Fyrir valinu varð Nagíb Mahfúz, egypskur rithöfundur, fæddur 1911 og dó 2006.  

Nú er ég búin að lesa eftir hann tvær bækur, hvora á eftir annarri, forvitnin rak mig áfram. Ég ætla hér að segja  frá bók sem heitir í íslenskri þýðingu Blindgata í Kaíró.

Sagan kom út í Kaíró  1947 en ekki fyrr en 1966 á enskri tungu. Mahfuz fékk Nóbelsverðlaunin 1988 og árið eftir kom bókin út hér í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Blessuð sé minning hans. Sögusviðið er gata, öngstræti í Kairó. Hún gerist undir lok  seinni heimstyrjaldar. Bretar eru enn við völd og tilfinningar Egypta gagnvart stríðinu eru blendnar. Þeir eru í sinni  sjálfstæðisbaráttu og  líta á stríðið sem nokkurs konar búbót því það skapar þeim atvinnu. Í bókinni er ungur maður, sem hefur verð í Bretavinnu, látinn segja við vin sinn,“Ég hélt að hann myndi endast lengur þessi Hitler“.  En satt best að segja minnti lýsing höfundar á viðbrögðum  Egypta dálítið á viðhorfin  til stríðsins hér á sínum tíma. Við fengum  jú kalda stríðið og framlengda hersetu og glöddumst.

Sagan segir frá nokkrum íbúum öngstrætisins, samskiptum þeirra og hvernig hagsmunir þeirra og örlög fléttast saman. Persónurnar sem við sögu koma eru af ólíkum toga og öngstrætið er í raun eins og smækkuð mynd af samfélaginu.

Þótt myndin  sem höfundur dregur upp af persónum   virðist ýkt, fer ekki hjá því að ég tryði því að hún væri sönn, svona hafi þetta verið. Mér fannst að ég hefði þekkt svona fólk.

Þetta virðist  samt vera annar heimur, honum er stýrt af öðrum gildum og allt svigrúm fyrir breytingar virðist minna en það sem við þekkjum.

Eða er hann kannski líkari okkar heimi en maður vill kannast við. Ef ég ber hann saman við heiminn sem er lýst í Sóleyjarsögu Elíasar Mar var heldur ekki mikið pláss eða tækifæri fyrir fátækt fólk að ráða örlögum sínu og framtíð.

Þetta er sem sagt pólitísk bók, það er greinilegt að höfundur vill hafa áhrif á samfélagþróunina með því að greina vandann og benda á hann.    Þótt lýsing höfundar sé gráglettin, skynjar lesandinn mikla alvöru. Þetta er bók um hræsni, misskiptingu, spillingu, örvæntingu og vonleysi. Hún er spennandi og óhugguleg. Það sem gerir hana enn áhrifameiri er að innst inni grunar mann að sannleikurinn, sem opnast fyrir manni í bókinni, sé nær en maður heldur. Og  að hann sé ekki bara bundinn við Egyptaland árið 1945. Ef til vill leynist hann víðar, bara ef maður þorir að horfa og horfast í augu við það sem blasir við.

Myndin sýnir hluta af dúk sem ég keypti í Egyptalandi.   


Fólk á flótta

B2EB30E2-1278-463F-9D59-7F46F8558AF1

Í ferð  minni til Egyptalands nú í vor, skoðuðum við ógrynni af gömlum byggingum,, misfornum þó. Sumar voru rústir einar. Leiðsögumaðurinn var óþreytandi að ausa í okkur fróðleik. Einn daginn skoðuðum við  sama daginn mosku , kirkju og sáum  sínagógu tilsýndar.

Ég, trúlaus manneskjan, gerði mitt besta til að vera andaktug, svo ég gæti skynjað helgidóm hverrar byggingar fyrir sig. Það var í þessari ferð sem hún, leiðsögumaðurinn, sýndi okkur kort af leiðinni sem María og Jósep fóru með litla Jesúsbarnið á flótta sínum undan hermönnum Heródesar, sem hafði fyrirskipað morð á öllum ungum sveinbörnum í Betlehem og nágrenni.

Koptakirkjan sem við heimsóttum var   undurfögur  og leiðsögumaðurinn  fræddi okkur um að hún væri ein af fjölda kirkna sem  reistar hefðu verið   á hinni helgu slóð Maríu og Jóseps með Jésúsbarnið. Hún sýndi okkur holu í gólfi kirkjunnar þar sem vaggan hefði verið falin. Hún sagði jafnframt að hin heilaga fjölskylda hefði dvalið þrjú ár í Egyptaland og margar sögur væru til um það ferðalag og um fólk sem aðstoðaði þau á flóttanum.

Mér fannst sagan merkileg og kannaðist ekki við að það hefði staðið neitt um þessa dvöl í minni Biblíu eða biblíusögum. Þar var einungis sagt frá því að  þau hefðu flúið til Egyptalands.  

Þarna í þessari fallegu kirkju varð mér hugsað til allra fjölskyldnanna sem í dag hrekjast frá heimilum sínum vegna Heródesa dagsins í dag. Óskaplega hefur heimurinn lítið breyst.  

Eftirmáli

Heimkomin þegar ég fór að vinna úr áhrifum ferðarinnar, rakst ég á þetta ljóð eftir Snorra Hjartarson:

Ég heyrði þau nálgast

Ég heyrði þau nálgast
í húminu beið
á veginum rykgráum veginum

Hann gengur með hestinum
höndin kreppt
um tauminn gróin við taumin

Hún hlúir að barninu
horfir föl
fram á nóttina stjarnlausa nóttina.

Og ég sagði; þið eruð
þá enn sem fyrr
á veginum flóttamannsveginum

en hvar er nú friðland
hvar fáið þið leynzt
með von ykkar von okkar allra ?

Þau horfðu á mig þögul
og hurfu mér sýn
inn í nóttina myrkrið og nóttina

 

Myndin er af veggklæðningu í koptisku kirkjunni í Karó. 


Suddi

C90B8938-13CB-4544-9E9E-38022362F9AD

Hvort sem þið trúið því eða ekki, finnst mér gaman að vera úti í sudda. Fór að hugsa um þetta í dag, þegar ég var að hjóla mér til skemmtunar og heilsubótar. Það var suddi, ef ekki suddarigning. Það var angan í lofti og fuglarnir sungu. Jörðin angar aldrei meir eða betur en í votviðri, það skil ég. En hvers vegna syngja fuglarnir mest þá?k

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég var barn. Það er langur tími. Þá, á vorin, kom oft í minn hlut að gæta ánna um sauðburðinn, en þá var fé ekki látið bera á húsum eins og nú tíðkast. Ærnar gengu frjálsar í haganum.  Þar var mikið birkikjarr og ærnar sóttu í nýgresið í buskunum. Þar var líka kjörlendi fugla. Fyrir austan var kjarri kallað buskar.

Í dag var loftið tært, fullt af af angan og söng. Já og fullt sudda. 

Veit einhver af hverju fuglarnir syngja og mest þegar vott er á?

Myndina tók pistlahöfundur.

Eftur á hugsun

Það hefði þurft að mála brýrnar, appelsínuguli liturinn er farinn að dofna. En þessar brýr eru einstaklega fallegar. 

 


Egyptinn: Mika Waltari

9C17E1FB-214A-42FC-8A51-26DFBEFFB922

Hvenær lýkur ferðalagi?

Nú eru liðnir 17 dagar síðan ég kom heim frá Egyptalandi og ég er að nokkru leyti þar enn. Í huganum.

Ég  hef verið að lesa Egyptann eftir Mika Waltari (1908 -1979). Ég byrjaði á bókinni áður en ég fór, og  lauk við þegar ég kom heim. Ég hef einnig „legið á Wikipedíu“ og lesið mér til, til að geta svarað spurningum sem kviknuðu við lesturinn.

Þetta er um margt merkileg bók,  söguleg skáldsaga, kom út 1945 í Finnlandi. Hér kom hún út 1952 í þýðingu Björns O. Björnssonar. Sagan segir að höfundur hafi skrifað hana á þremur mánuðum í skugga stríðsins. Hún stenst vel tímans tönn, þ.e. hún er vel læsileg fyrir nútímafólk. Hún segir frá fólki, atburðum og stríðsátökum á tímum nýja ríkisins (1330 fyrir Krist)  í Egyptalandi og nærliggjandi ríkjum. Sagan er lögð í munn læknisins og lærdómsmannsins  Sínúhe. En sá maður mun hafa verið til í raunveruleikanum, því það hafa varðveist eftir hann textar og textabrot. Vegna starfa síns sem læknir tengdist Sínúhe fólki á æðstu stöðum, þ.e. fjölskyldu faraós og embættismönnum ríkisins.Við sögu koma m.a. faraóinn  Akhenaten (1351 til 1334 f. Kr.) sem frægur er fyrir að hafa fyrstur einvalda reynt að koma á eingyðistrú í ríki sínu. Sá guð var guð friðar og jöfnuðar.

Waltari lætur  sögumann sinn Sínúhe vera fróðleiksþyrstan og koma víða við. Kynnast háum sem lágum. Sagan er því í senn saga þessa merkilega ríkis og saga alþýðunnar sem bjó þar.

Hún er bæði spennandi og fræðandi. En þetta er ekki neinn  skemmtilestur, því hún er full af frásögum um ofbeldi, misþyrmingum og kúgun. Ég er ekki að bera brigður á að svo hafi verið í raunveruleikanum, miklu frekar undirstrika það, af því ég trúi,að svo hafi verið, finnst mér frásagan fá aukinn kraft.

Að tapa trú á mannkynið

Waltari teflir saman frásögum af hugsjónamanninum og siðbótarmanninum Akhenaten sem vill setja af hina gömlu guði og hikar ekki við að beita til þess valdi og   stríðsmanninum Hóremheb  sem telur stríð bæði góð og nauðsynleg.

Það hvarflaði að mér að hann væri með Stalín og Hitler í huga, báðir komu að því að móta örlög heimalands hans, Finnlands. Og ef sú  tilgáta er rétt, að aðalpersónur Waltari eigi sér fyrirmyndir, er ekki ólíklegt að vinur  og fyrrverandi þræll Sínúhe, hinn ráðagóði Kaptah, sé Churchill. Þetta voru getgátur.

Það er mikil bölsýni í þessari bók enda hafði höfundur ekki farið varhluta af stríðsástandi í landi sínu. Mér sýnist boðskapur bókarinnar vera, að manninum sé ekki trúandi fyrir sjálfum sér eða fyrir jörðinni sem  nærir hann.  Og að honum sé áskapað að læra ekki af reynslunni og geri því ævinlega sömu mistökin.  

Getum við eitthvað lært?

Meðan ég hlustaði á þessa sögu, sem er listavel lesin af Sigurði Skúlasyni, var mér ekki bara órótt yfir grimmd fortíðarinnar. Nei, mér var miklu frekar órótt vegna þess sem er að gerast í okkar eigin samtíð fyrir augunum á okkur. Vegna stríðanna sem geisa og jörðinni sem við höfum gengið of nærri.

Hvað eftir annað hugsaði ég, getum við eitthvað lært? En ég er svo lánsöm að ég trúi á það góða í manninum og ég geri ráð fyrir að það mætti skrifa bækur um framfarir og allt það góða sem hefur gerst í heiminum. Við þurfum að hafa augun opin fyrir því góða ekki síður en því sem úrskeiðis fer. En líklega eru bækur um vonsku betri söluvara en bækur um gæsku og kærleika.

Að lokum ætla ég að reyna að svara spurningunni sem ég lagði upp með, hvenær lýkur ferðalagi. Svari mitt er. Gott ferðalag er eins og snjóbolti í hæfilega blautum snjó. Það heldur áfram að hlaða utan á sig og stækka. 

Myndin er af pistlahöfundi í Egyptalandi. Ljósmyndari: Erling Ólafsson

 


Egyptaland og hugleiðing um ferðalög

C46F0FF8-206F-437F-9159-AE8C02BACE7C

Það er langt síðan ég hef skrifað nokkuð, ég hef verið að ferðast. Í þetta skipti dugði ekkert minna en Egyptaland.

Ég hef lengi átt þann draum að ferðast til Egyptalands og loksins lét ég hann rætast.

Egyptaland er stórt land með langa og mikla sögu. Í ellefu daga ferð fær maður aðeins smá nasasjón af af því sem var og því sem er núna. Þótt maður hafi sig alla við.

Ég nálgaðist verkefnið eins og samviskusamur nemandi, reyndi að muna allt og skilja. En eftir því sem leið á ferðina, voru rústir,  hof, konungagrafir og pýramídar farin að blandast saman í höfðinu á mér og mér leið eins og ég myndi falla á prófi um keisaraættir Egyptalands hins forna. Við vorum sem sagt með afar fróðan og andríkan leiðsögumann.

Til hvers?

Ferðalög eru erfiði og ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna menn leggi á sig að ferðast. Ég held  að baki liggi það sama og fær mann til að lesa bækur. Tilgangurinn er að stækka heiminn og að nálgast sitt innra sjálf. Ykkur finnst þetta ef til vill háfleygt en svona hugsa ég.

Nú gæti einhver spurt, af hverju vera að ferðast, ef það er hægt að lesa bækur í staðinn? Ég kann ekki að svara því en eitt útilokar ekki annað. Áður en ég fór í ferðalagið hóf ég lestur á bókinni Egyptinn eftir finnska höfundinn Mika Valtari. Hún er löng, tekur 20 stundir í upplestri. Mér tókst ekki að hlaða henni inn sem hljóðbók. Ég tók Sturlungu með mér í staðinn en hana átti ég sem hljóðbók. Þegar ég hvíldi mig á milli ferða, slakaði ég á við að lesa um átök höfðingja í Dölunum. Og hvílíkur léttir. Allt í einu er Sturlunga orðin eins og léttlestrarbók. Næsta stóra ferðalag mitt verður í Dali vestur, ég ætla að kynna mér allar litlu sögurnar sem  leynast milli stóru atburðanna í Sturlungu og ég hlakka til. Engir leiðinlegir flugvellir sem fara þarf um. Mikið óskaplega eru flugvellir leiðinlegt fyrir-bæri. Þurfa þeir að vera svona?

Lokaorð

Áhersla Egypta í ferðamálum er greinilega á söguna en ekki á kynna landið sjálft og líf fólksins sem býr þar núna. Sagan og sögulegar minjar er þeirra aðdráttarafl eins og náttúran er okkar. 

En það vakna margar spurningar á svona ferðalagi og mínar ósvöruðu spurningar snúa frekar að nútíð en þátíð.

Eftirþankar

Ég mátti til með að láta þetta fylgja með:

 

Eg er kominn upp á það

– allra þakka verðast –

að sitja kyrr í sama stað,

og samt að vera' að ferðast.

 

Myndin er af sefinu í Níl.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2019
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 90
  • Frá upphafi: 187268

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 85
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband