Talentur fjármálaráðherra og þeir sem minna mega sín

 35A60F4A-C073-4E33-8640-A213FA5BF3E4

Núorðið les ég blöðin á netinu, nest þó fyrirsagnirnar. Þegar ég rak augun í þessa klausu staldraði ég við og las tvisvar.  

Í til­lögu að breyttri fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2020 til 2024 er gert ráð fyr­ir 4,7 millj­arða króna minna fram­lagi til sjúkra­húsþjón­ustu en í fyrri áætl­un á tíma­bil­inu og 7,9 millj­örðum minna fram­lagi vegna ör­orku og mál­efna fatlaðs fólks, að því er fram kem­ur í gögn­um sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­um og greinir frá í dag“.

Getur þetta verið hugsaði ég? Ekki getur verið að að fjármálaráðherrann okkar taki Biblíuna svona bókstaflega.

En þar stendur:

Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur“.

 

Jú, þetta stendur þarna í Biblíunni, (Matteus 25. 29). En hver sem þekkir til  anda þeirrar bókar, veit að auðvitað hefur Kristur ekki ætlast til þess að tal hans um talentur væri tekið bókstaflega, hann tjáði sig gjarnan í líkingamáli.  

Og ef maður les lengra verður textinn enn grimmari:

Rekið þennan ónýta þjón (fátæklinginn)  út í ystu myrkur. Þar verður  grátur  og gnístran tanna“.(Matteus 25.30).


DYR OPNAST: Hermann Stefánsson

72073417-4DB2-4559-8842-90CF0F713764

Ég er orðin 77 ára og veit að lífsbókin mín fer að styttast. En öfugt við aðrar bækur gerist alltaf minna og minna og hreint ekkert spennandi. Stundum velti ég því fyrir mér, hvort það sé þess virði að fletta yfir á næstu blaðsíðu. 

Þá kemur allt í einu upp í hendurnar á mér þessi dásamlega bók. DYR OPNAST og hugur minn ljómar upp. Mér líður eins og ég sé ung og hrifnæm aftur.

Þetta er lítil bók, 195 blaðsíður, sem inniheldur 38 frásagnir,  af ólíkum toga. Það  væri einföldun að nota orðið smásögur, því þarna eru ritgerðir, þjóðsaga, dæmisögur, viðbót við dýrafræði og fleira og fleira. Ef til vill er óþarfi að flokka bækur í þetta eða hitt en mig langaði til að skrifa um bókina og segja vinum mínu, þeim sem lesa bloggið hvílík gersemi hún er. Mig langaði að finna samnefnara fyrir frásagnirnar þá gengi mér betur að gera grein fyrir þeim, því  það yrði allt of langt mála að fjalla um hverja og  eina. Hver myndi endast til að lesa 38 frásagnir?

Til að ná sjálf utan um verkefnið  ákvað ég að gera exelskjal, lista með heiti frásagnar,  söguþræði og loks lærdómi. Lærdómur var það sem mér fannst mikilvægast .

Það var gaman að gera þennan lista en hann er óbrúklegur, því hann segir meira um mig heldur um bókina. Og er hann hér með úr sögunni.  

Niðurstaða

Bókin er fyndin og átakanleg í senn. Höfundur heldur til á jarðsprengjubelti sem flestir hafa vit á að fara ekki inn á.  Ég, lesandinn, er allan tímann  hrædd við a springa í loft upp með skoðunum mínum. Og ég óttast sársaukann þegar og ef mikilvægar skoðanir springa. Bókin er í senn  heimspekileg, pólitísk, átakanleg og absúrd. Hún er nístandi háð  um samfélagsumræðuna og um leið innlegg í hana. Höfundur  leikur sér með orð og hugmyndir, kemst að niðurstöðu og skiptir svo um hest í miðri á og sundríður til sama lands.

Dyr opnast og dyr lokast. Maðurinn er ósýnilegur, hann getur flogið og stundar svefnrannsóknir á sjálfum sér.

 

Frásagnirnar eru eins og lífið, ófyrirsjáanlegar og óþolandi en samt vill maður lesa þær til enda og helst skilja til fulls.

Auk þess hefur þessi bók lækningarmátt (sjá fyrr í texta).

Hefur landlækni verið sagt frá þessu?


Bókaspjall

AD4C3972-943B-4229-914A-5F6AC3467662

Bókaspjall

Ég er hálfnuð með að lesa, þ.e. hlusta á Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson, þegar mig langar til að fá hana í hendurnar, þótt ég geti ekki lengur lesið. Mig langar til að útskýra þetta fyrir konunni í bókasafninu, sem segir mér að hún sé alveg nýkomin og það sé verið að ganga frá henni, ég þurfi bara að hinkra aðeins.

Þær eru alltaf svo fallegar bækurnar hans Hermanns segi ég og mér finnst svo gott að koma við þær og handleika þær. En það segir konan og ég heyri á röddinni að hún hefur líklega misskilið mig og flýti mér að segja, „já, að utan, ég veit ekki hvað ég á að segja um hitt.

Svo kom bókin. Nýplöstuð og með álímdum miðum. NÝTT og 14 dagar.

JÁ, hún er vissulega falleg, hönnuð af Ragnari Helga Ólafssyni. Ljósmynd á kápu eftir  Dag Gunnarsson. En plastið skaðar heildarmyndina. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það ætti ekki að plasta bækur. Þori ekki að segja hvað þetta minnir mig á.

Af hverju ekki að leyfa bókunum að eldast og slitna eðlilega. Já hreinlega eyðileggjast ef svo ber undir? Er ekki alltaf verið að tala um að það sé allt of mikið til af bókum, erfingjarnir  eru að kikna undan bókum forelda sinna?

Nóg um útlitið. Ég er búin að lesa bókina til hálfs en og ætla að skrifa um hana þegar henni lýkur.

Eitt get ég þó sagt nú þegar. Þetta er ekki þægindalestur. Hún er full af umdeilanlegum fullyrðingum og spurningum sem ekki er svarað og hugurinn fer á flug. Þetta er ekki bók til að sofna út frá. Ég er strax farin að hlakka til kvöldsins.


Nagíb Mahfúz: Þjófur og hundar

CB91A9FE-90C7-4D02-8C89-36F08A4417A6

Áður en ég skrifa um bókina Þjófur  og hundar, langar mig til að tala meira um höfundinn, Nagíb Mahfúz, en ég sagði stuttlega frá honum í síðasta pistli.

Nagíb Mahfúz

Hann var fæddur í Kairó 1911 og bjó þar til dauðadags 2006. Hann nam heimspeki við háskólann í Kaíró og fékk að prófi loknu vinnu hjá hinu opinbera og vann þar til 1971. Hann sinnti þar  ýmsum trúnaðarstörfum. En lengst af vann hann fyrir Menntamálaráðuneytið. Jafnframt skrifaði hann greinar í blöð og tímarit. Það er sagt að eftir hann liggi 34 skáldsögur og 350 smásögur auk fjölda greina og ritgerða (esseyjur). Hann hefur greinilega verið mjög vinnusamur.

En það var ekki bara þetta sem ég ætlaði að koma á framfæri, það er ekkert óvenjulegt að rithöfundar séu vinnusamir. Mig langar til að segja frá hversu mikið hann lét til sín taka á opinberum vettvangi varðandi stjórnmál.

Á unga aldri aðhylltist hann róttækar skoðanir, seinna bar meira á framlagi hans til umræðu um lýðræði og ritfrelsi.Mér sýnist að það séu mörg hættuleg sprengjusvæði í menningarumræðu í  arabískum bókmenntaheimi. Nagíb Mahfúz gerði sig óvinsælan þegar hann studdi í sínum  skrifum  samkomulag það,sem kennt er við Camp David 1978.Seinna tók hann þátt baráttu fyrir ritfrelsi þegar hann gagnrýndi dauðadóm dóm Khomeinis á Salman Rushdie 1989 og var sjálfur settur á dauðalista harðlínumanna Múslima. Eftir það þurfti hann að vera undir opinberri vernd og gat ekki farið ferða sinna án lífvarða. Þó tókst ekki betur til en svo að ráðist var á skáldið fyrir utan heimili  hans 1994 og hann særðist illa á hálsi.

Þegar ég skoða þetta sem ég hef skrifað, velti ég fyrir mér hvað ég veit lítið um arabaheiminn og er sjálfsagt  ekki ein um það. Ég man t.d. ekkert eftir þessari frétt. Vegna þessa leggst ég í þetta grúsk.

Þjófur og hundar

En nú ætla ég að snúa mér að bókinni Þjófur og hundar.Sú bók er afar ólík bók Mafhfúz um  Blindgötu í Kairó. Hún fjallar um mann sem er nýkominn úr fangelsi og það eina sem kemst að í huga hans er hefnd. Hann er gagntekinn af hefndarhug, honum finnst hann hafa verið svikinn af konu sinni og af fyrrverandi félögum. Dóttir  hans þekkir hann ekki lengur. Hann  finnur enga sök hjá sjálfum sér. Eina manneskjan sem sem styður hann er kona sem elskar hann en hann lítur niður á hana. Hugur hans er gagntekinn af hefndarþorsta og það er eins og lesandinn sé staddur í hans hugarheimi.   Hann er snjöll skytta en ekki tekst betur til en svo, að í tvígang verða saklausir menn fyrir skotum hans. Þetta er mögnuð bók og lesandinn veit allan tímann að hún getur ekki endað vel. Hún kom út í heimalandinu 1961 og hér kom hún út 1992 í þýðingu Úlfs Hjörvars. Það er Gunnar Stefánsson sem les bókina fyrir mig í boði Hljóðbókasafns Íslands. Mikið er ég þakklát öllum þessum mönnum.

Bókin er stutt og það er freistandi að ljúka henni í einni lotu.

Lokaorð

Hvati minn að því að lesa nú bækur Mahfúz var ferð mín til Egyptalands. Mig langaði til að öðlast betri innsýn inn í heim sem þar opnaðist mér.   Nú finnst mér að bækur  Mahfúz séu fyrst og fremst sammannlegar en vissulega gerast þær í heimi sem er mér framandi.       

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2019
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband