Blindgata í Kairó

BFFA7368-5222-409A-9B03-B5E07D41115F

Blindgata í Kaíró

 Eftir ferðalag mitt til Egyptalands fannst mér ég hafa fræðst mikið um Egyptaland til forna en lítið um Egyptaland nútímans ef undan er skilin sú veröld sem búin er til handa ferðamönnum.

Ég hef reynt að bæta við mig fróðleik með því að lesa.

Fyrir valinu varð Nagíb Mahfúz, egypskur rithöfundur, fæddur 1911 og dó 2006.  

Nú er ég búin að lesa eftir hann tvær bækur, hvora á eftir annarri, forvitnin rak mig áfram. Ég ætla hér að segja  frá bók sem heitir í íslenskri þýðingu Blindgata í Kaíró.

Sagan kom út í Kaíró  1947 en ekki fyrr en 1966 á enskri tungu. Mahfuz fékk Nóbelsverðlaunin 1988 og árið eftir kom bókin út hér í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Blessuð sé minning hans. Sögusviðið er gata, öngstræti í Kairó. Hún gerist undir lok  seinni heimstyrjaldar. Bretar eru enn við völd og tilfinningar Egypta gagnvart stríðinu eru blendnar. Þeir eru í sinni  sjálfstæðisbaráttu og  líta á stríðið sem nokkurs konar búbót því það skapar þeim atvinnu. Í bókinni er ungur maður, sem hefur verð í Bretavinnu, látinn segja við vin sinn,“Ég hélt að hann myndi endast lengur þessi Hitler“.  En satt best að segja minnti lýsing höfundar á viðbrögðum  Egypta dálítið á viðhorfin  til stríðsins hér á sínum tíma. Við fengum  jú kalda stríðið og framlengda hersetu og glöddumst.

Sagan segir frá nokkrum íbúum öngstrætisins, samskiptum þeirra og hvernig hagsmunir þeirra og örlög fléttast saman. Persónurnar sem við sögu koma eru af ólíkum toga og öngstrætið er í raun eins og smækkuð mynd af samfélaginu.

Þótt myndin  sem höfundur dregur upp af persónum   virðist ýkt, fer ekki hjá því að ég tryði því að hún væri sönn, svona hafi þetta verið. Mér fannst að ég hefði þekkt svona fólk.

Þetta virðist  samt vera annar heimur, honum er stýrt af öðrum gildum og allt svigrúm fyrir breytingar virðist minna en það sem við þekkjum.

Eða er hann kannski líkari okkar heimi en maður vill kannast við. Ef ég ber hann saman við heiminn sem er lýst í Sóleyjarsögu Elíasar Mar var heldur ekki mikið pláss eða tækifæri fyrir fátækt fólk að ráða örlögum sínu og framtíð.

Þetta er sem sagt pólitísk bók, það er greinilegt að höfundur vill hafa áhrif á samfélagþróunina með því að greina vandann og benda á hann.    Þótt lýsing höfundar sé gráglettin, skynjar lesandinn mikla alvöru. Þetta er bók um hræsni, misskiptingu, spillingu, örvæntingu og vonleysi. Hún er spennandi og óhugguleg. Það sem gerir hana enn áhrifameiri er að innst inni grunar mann að sannleikurinn, sem opnast fyrir manni í bókinni, sé nær en maður heldur. Og  að hann sé ekki bara bundinn við Egyptaland árið 1945. Ef til vill leynist hann víðar, bara ef maður þorir að horfa og horfast í augu við það sem blasir við.

Myndin sýnir hluta af dúk sem ég keypti í Egyptalandi.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flottur dúkur!

"Fúsi" hefur hann Mahfuz karlinn verið kallaður hér á Íslandi. cool

Þorsteinn Briem, 30.5.2019 kl. 05:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband