11.6.2019 | 19:55
Bókaspjall
Bókaspjall
Ég er hálfnuð með að lesa, þ.e. hlusta á Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson, þegar mig langar til að fá hana í hendurnar, þótt ég geti ekki lengur lesið. Mig langar til að útskýra þetta fyrir konunni í bókasafninu, sem segir mér að hún sé alveg nýkomin og það sé verið að ganga frá henni, ég þurfi bara að hinkra aðeins.
Þær eru alltaf svo fallegar bækurnar hans Hermanns segi ég og mér finnst svo gott að koma við þær og handleika þær. En það segir konan og ég heyri á röddinni að hún hefur líklega misskilið mig og flýti mér að segja, já, að utan, ég veit ekki hvað ég á að segja um hitt.
Svo kom bókin. Nýplöstuð og með álímdum miðum. NÝTT og 14 dagar.
JÁ, hún er vissulega falleg, hönnuð af Ragnari Helga Ólafssyni. Ljósmynd á kápu eftir Dag Gunnarsson. En plastið skaðar heildarmyndina. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það ætti ekki að plasta bækur. Þori ekki að segja hvað þetta minnir mig á.
Af hverju ekki að leyfa bókunum að eldast og slitna eðlilega. Já hreinlega eyðileggjast ef svo ber undir? Er ekki alltaf verið að tala um að það sé allt of mikið til af bókum, erfingjarnir eru að kikna undan bókum forelda sinna?
Nóg um útlitið. Ég er búin að lesa bókina til hálfs en og ætla að skrifa um hana þegar henni lýkur.
Eitt get ég þó sagt nú þegar. Þetta er ekki þægindalestur. Hún er full af umdeilanlegum fullyrðingum og spurningum sem ekki er svarað og hugurinn fer á flug. Þetta er ekki bók til að sofna út frá. Ég er strax farin að hlakka til kvöldsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2019 | 23:49
Nagíb Mahfúz: Þjófur og hundar
Áður en ég skrifa um bókina Þjófur og hundar, langar mig til að tala meira um höfundinn, Nagíb Mahfúz, en ég sagði stuttlega frá honum í síðasta pistli.
Nagíb Mahfúz
Hann var fæddur í Kairó 1911 og bjó þar til dauðadags 2006. Hann nam heimspeki við háskólann í Kaíró og fékk að prófi loknu vinnu hjá hinu opinbera og vann þar til 1971. Hann sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. En lengst af vann hann fyrir Menntamálaráðuneytið. Jafnframt skrifaði hann greinar í blöð og tímarit. Það er sagt að eftir hann liggi 34 skáldsögur og 350 smásögur auk fjölda greina og ritgerða (esseyjur). Hann hefur greinilega verið mjög vinnusamur.
En það var ekki bara þetta sem ég ætlaði að koma á framfæri, það er ekkert óvenjulegt að rithöfundar séu vinnusamir. Mig langar til að segja frá hversu mikið hann lét til sín taka á opinberum vettvangi varðandi stjórnmál.
Á unga aldri aðhylltist hann róttækar skoðanir, seinna bar meira á framlagi hans til umræðu um lýðræði og ritfrelsi.Mér sýnist að það séu mörg hættuleg sprengjusvæði í menningarumræðu í arabískum bókmenntaheimi. Nagíb Mahfúz gerði sig óvinsælan þegar hann studdi í sínum skrifum samkomulag það,sem kennt er við Camp David 1978.Seinna tók hann þátt baráttu fyrir ritfrelsi þegar hann gagnrýndi dauðadóm dóm Khomeinis á Salman Rushdie 1989 og var sjálfur settur á dauðalista harðlínumanna Múslima. Eftir það þurfti hann að vera undir opinberri vernd og gat ekki farið ferða sinna án lífvarða. Þó tókst ekki betur til en svo að ráðist var á skáldið fyrir utan heimili hans 1994 og hann særðist illa á hálsi.
Þegar ég skoða þetta sem ég hef skrifað, velti ég fyrir mér hvað ég veit lítið um arabaheiminn og er sjálfsagt ekki ein um það. Ég man t.d. ekkert eftir þessari frétt. Vegna þessa leggst ég í þetta grúsk.
Þjófur og hundar
En nú ætla ég að snúa mér að bókinni Þjófur og hundar.Sú bók er afar ólík bók Mafhfúz um Blindgötu í Kairó. Hún fjallar um mann sem er nýkominn úr fangelsi og það eina sem kemst að í huga hans er hefnd. Hann er gagntekinn af hefndarhug, honum finnst hann hafa verið svikinn af konu sinni og af fyrrverandi félögum. Dóttir hans þekkir hann ekki lengur. Hann finnur enga sök hjá sjálfum sér. Eina manneskjan sem sem styður hann er kona sem elskar hann en hann lítur niður á hana. Hugur hans er gagntekinn af hefndarþorsta og það er eins og lesandinn sé staddur í hans hugarheimi. Hann er snjöll skytta en ekki tekst betur til en svo, að í tvígang verða saklausir menn fyrir skotum hans. Þetta er mögnuð bók og lesandinn veit allan tímann að hún getur ekki endað vel. Hún kom út í heimalandinu 1961 og hér kom hún út 1992 í þýðingu Úlfs Hjörvars. Það er Gunnar Stefánsson sem les bókina fyrir mig í boði Hljóðbókasafns Íslands. Mikið er ég þakklát öllum þessum mönnum.
Bókin er stutt og það er freistandi að ljúka henni í einni lotu.
Lokaorð
Hvati minn að því að lesa nú bækur Mahfúz var ferð mín til Egyptalands. Mig langaði til að öðlast betri innsýn inn í heim sem þar opnaðist mér. Nú finnst mér að bækur Mahfúz séu fyrst og fremst sammannlegar en vissulega gerast þær í heimi sem er mér framandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2019 | 21:17
Blindgata í Kairó
Blindgata í Kaíró
Eftir ferðalag mitt til Egyptalands fannst mér ég hafa fræðst mikið um Egyptaland til forna en lítið um Egyptaland nútímans ef undan er skilin sú veröld sem búin er til handa ferðamönnum.
Ég hef reynt að bæta við mig fróðleik með því að lesa.
Fyrir valinu varð Nagíb Mahfúz, egypskur rithöfundur, fæddur 1911 og dó 2006.
Nú er ég búin að lesa eftir hann tvær bækur, hvora á eftir annarri, forvitnin rak mig áfram. Ég ætla hér að segja frá bók sem heitir í íslenskri þýðingu Blindgata í Kaíró.
Sagan kom út í Kaíró 1947 en ekki fyrr en 1966 á enskri tungu. Mahfuz fékk Nóbelsverðlaunin 1988 og árið eftir kom bókin út hér í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Blessuð sé minning hans. Sögusviðið er gata, öngstræti í Kairó. Hún gerist undir lok seinni heimstyrjaldar. Bretar eru enn við völd og tilfinningar Egypta gagnvart stríðinu eru blendnar. Þeir eru í sinni sjálfstæðisbaráttu og líta á stríðið sem nokkurs konar búbót því það skapar þeim atvinnu. Í bókinni er ungur maður, sem hefur verð í Bretavinnu, látinn segja við vin sinn,Ég hélt að hann myndi endast lengur þessi Hitler. En satt best að segja minnti lýsing höfundar á viðbrögðum Egypta dálítið á viðhorfin til stríðsins hér á sínum tíma. Við fengum jú kalda stríðið og framlengda hersetu og glöddumst.
Sagan segir frá nokkrum íbúum öngstrætisins, samskiptum þeirra og hvernig hagsmunir þeirra og örlög fléttast saman. Persónurnar sem við sögu koma eru af ólíkum toga og öngstrætið er í raun eins og smækkuð mynd af samfélaginu.
Þótt myndin sem höfundur dregur upp af persónum virðist ýkt, fer ekki hjá því að ég tryði því að hún væri sönn, svona hafi þetta verið. Mér fannst að ég hefði þekkt svona fólk.
Þetta virðist samt vera annar heimur, honum er stýrt af öðrum gildum og allt svigrúm fyrir breytingar virðist minna en það sem við þekkjum.
Eða er hann kannski líkari okkar heimi en maður vill kannast við. Ef ég ber hann saman við heiminn sem er lýst í Sóleyjarsögu Elíasar Mar var heldur ekki mikið pláss eða tækifæri fyrir fátækt fólk að ráða örlögum sínu og framtíð.
Þetta er sem sagt pólitísk bók, það er greinilegt að höfundur vill hafa áhrif á samfélagþróunina með því að greina vandann og benda á hann. Þótt lýsing höfundar sé gráglettin, skynjar lesandinn mikla alvöru. Þetta er bók um hræsni, misskiptingu, spillingu, örvæntingu og vonleysi. Hún er spennandi og óhugguleg. Það sem gerir hana enn áhrifameiri er að innst inni grunar mann að sannleikurinn, sem opnast fyrir manni í bókinni, sé nær en maður heldur. Og að hann sé ekki bara bundinn við Egyptaland árið 1945. Ef til vill leynist hann víðar, bara ef maður þorir að horfa og horfast í augu við það sem blasir við.
Myndin sýnir hluta af dúk sem ég keypti í Egyptalandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2019 | 13:11
Fólk á flótta
Í ferð minni til Egyptalands nú í vor, skoðuðum við ógrynni af gömlum byggingum,, misfornum þó. Sumar voru rústir einar. Leiðsögumaðurinn var óþreytandi að ausa í okkur fróðleik. Einn daginn skoðuðum við sama daginn mosku , kirkju og sáum sínagógu tilsýndar.
Ég, trúlaus manneskjan, gerði mitt besta til að vera andaktug, svo ég gæti skynjað helgidóm hverrar byggingar fyrir sig. Það var í þessari ferð sem hún, leiðsögumaðurinn, sýndi okkur kort af leiðinni sem María og Jósep fóru með litla Jesúsbarnið á flótta sínum undan hermönnum Heródesar, sem hafði fyrirskipað morð á öllum ungum sveinbörnum í Betlehem og nágrenni.
Koptakirkjan sem við heimsóttum var undurfögur og leiðsögumaðurinn fræddi okkur um að hún væri ein af fjölda kirkna sem reistar hefðu verið á hinni helgu slóð Maríu og Jóseps með Jésúsbarnið. Hún sýndi okkur holu í gólfi kirkjunnar þar sem vaggan hefði verið falin. Hún sagði jafnframt að hin heilaga fjölskylda hefði dvalið þrjú ár í Egyptaland og margar sögur væru til um það ferðalag og um fólk sem aðstoðaði þau á flóttanum.
Mér fannst sagan merkileg og kannaðist ekki við að það hefði staðið neitt um þessa dvöl í minni Biblíu eða biblíusögum. Þar var einungis sagt frá því að þau hefðu flúið til Egyptalands.
Þarna í þessari fallegu kirkju varð mér hugsað til allra fjölskyldnanna sem í dag hrekjast frá heimilum sínum vegna Heródesa dagsins í dag. Óskaplega hefur heimurinn lítið breyst.
Eftirmáli
Heimkomin þegar ég fór að vinna úr áhrifum ferðarinnar, rakst ég á þetta ljóð eftir Snorra Hjartarson:
Ég heyrði þau nálgast
Ég heyrði þau nálgast
í húminu beið
á veginum rykgráum veginum
Hann gengur með hestinum
höndin kreppt
um tauminn gróin við taumin
Hún hlúir að barninu
horfir föl
fram á nóttina stjarnlausa nóttina.
Og ég sagði; þið eruð
þá enn sem fyrr
á veginum flóttamannsveginum
en hvar er nú friðland
hvar fáið þið leynzt
með von ykkar von okkar allra ?
Þau horfðu á mig þögul
og hurfu mér sýn
inn í nóttina myrkrið og nóttina
Myndin er af veggklæðningu í koptisku kirkjunni í Karó.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2019 | 18:49
Suddi
Hvort sem þið trúið því eða ekki, finnst mér gaman að vera úti í sudda. Fór að hugsa um þetta í dag, þegar ég var að hjóla mér til skemmtunar og heilsubótar. Það var suddi, ef ekki suddarigning. Það var angan í lofti og fuglarnir sungu. Jörðin angar aldrei meir eða betur en í votviðri, það skil ég. En hvers vegna syngja fuglarnir mest þá?k
Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég var barn. Það er langur tími. Þá, á vorin, kom oft í minn hlut að gæta ánna um sauðburðinn, en þá var fé ekki látið bera á húsum eins og nú tíðkast. Ærnar gengu frjálsar í haganum. Þar var mikið birkikjarr og ærnar sóttu í nýgresið í buskunum. Þar var líka kjörlendi fugla. Fyrir austan var kjarri kallað buskar.
Í dag var loftið tært, fullt af af angan og söng. Já og fullt sudda.
Veit einhver af hverju fuglarnir syngja og mest þegar vott er á?
Myndina tók pistlahöfundur.
Eftur á hugsun
Það hefði þurft að mála brýrnar, appelsínuguli liturinn er farinn að dofna. En þessar brýr eru einstaklega fallegar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2019 | 22:11
Egyptinn: Mika Waltari
Hvenær lýkur ferðalagi?
Nú eru liðnir 17 dagar síðan ég kom heim frá Egyptalandi og ég er að nokkru leyti þar enn. Í huganum.
Ég hef verið að lesa Egyptann eftir Mika Waltari (1908 -1979). Ég byrjaði á bókinni áður en ég fór, og lauk við þegar ég kom heim. Ég hef einnig legið á Wikipedíu og lesið mér til, til að geta svarað spurningum sem kviknuðu við lesturinn.
Þetta er um margt merkileg bók, söguleg skáldsaga, kom út 1945 í Finnlandi. Hér kom hún út 1952 í þýðingu Björns O. Björnssonar. Sagan segir að höfundur hafi skrifað hana á þremur mánuðum í skugga stríðsins. Hún stenst vel tímans tönn, þ.e. hún er vel læsileg fyrir nútímafólk. Hún segir frá fólki, atburðum og stríðsátökum á tímum nýja ríkisins (1330 fyrir Krist) í Egyptalandi og nærliggjandi ríkjum. Sagan er lögð í munn læknisins og lærdómsmannsins Sínúhe. En sá maður mun hafa verið til í raunveruleikanum, því það hafa varðveist eftir hann textar og textabrot. Vegna starfa síns sem læknir tengdist Sínúhe fólki á æðstu stöðum, þ.e. fjölskyldu faraós og embættismönnum ríkisins.Við sögu koma m.a. faraóinn Akhenaten (1351 til 1334 f. Kr.) sem frægur er fyrir að hafa fyrstur einvalda reynt að koma á eingyðistrú í ríki sínu. Sá guð var guð friðar og jöfnuðar.
Waltari lætur sögumann sinn Sínúhe vera fróðleiksþyrstan og koma víða við. Kynnast háum sem lágum. Sagan er því í senn saga þessa merkilega ríkis og saga alþýðunnar sem bjó þar.
Hún er bæði spennandi og fræðandi. En þetta er ekki neinn skemmtilestur, því hún er full af frásögum um ofbeldi, misþyrmingum og kúgun. Ég er ekki að bera brigður á að svo hafi verið í raunveruleikanum, miklu frekar undirstrika það, af því ég trúi,að svo hafi verið, finnst mér frásagan fá aukinn kraft.
Að tapa trú á mannkynið
Waltari teflir saman frásögum af hugsjónamanninum og siðbótarmanninum Akhenaten sem vill setja af hina gömlu guði og hikar ekki við að beita til þess valdi og stríðsmanninum Hóremheb sem telur stríð bæði góð og nauðsynleg.
Það hvarflaði að mér að hann væri með Stalín og Hitler í huga, báðir komu að því að móta örlög heimalands hans, Finnlands. Og ef sú tilgáta er rétt, að aðalpersónur Waltari eigi sér fyrirmyndir, er ekki ólíklegt að vinur og fyrrverandi þræll Sínúhe, hinn ráðagóði Kaptah, sé Churchill. Þetta voru getgátur.
Það er mikil bölsýni í þessari bók enda hafði höfundur ekki farið varhluta af stríðsástandi í landi sínu. Mér sýnist boðskapur bókarinnar vera, að manninum sé ekki trúandi fyrir sjálfum sér eða fyrir jörðinni sem nærir hann. Og að honum sé áskapað að læra ekki af reynslunni og geri því ævinlega sömu mistökin.
Getum við eitthvað lært?
Meðan ég hlustaði á þessa sögu, sem er listavel lesin af Sigurði Skúlasyni, var mér ekki bara órótt yfir grimmd fortíðarinnar. Nei, mér var miklu frekar órótt vegna þess sem er að gerast í okkar eigin samtíð fyrir augunum á okkur. Vegna stríðanna sem geisa og jörðinni sem við höfum gengið of nærri.
Hvað eftir annað hugsaði ég, getum við eitthvað lært? En ég er svo lánsöm að ég trúi á það góða í manninum og ég geri ráð fyrir að það mætti skrifa bækur um framfarir og allt það góða sem hefur gerst í heiminum. Við þurfum að hafa augun opin fyrir því góða ekki síður en því sem úrskeiðis fer. En líklega eru bækur um vonsku betri söluvara en bækur um gæsku og kærleika.
Að lokum ætla ég að reyna að svara spurningunni sem ég lagði upp með, hvenær lýkur ferðalagi. Svari mitt er. Gott ferðalag er eins og snjóbolti í hæfilega blautum snjó. Það heldur áfram að hlaða utan á sig og stækka.
Myndin er af pistlahöfundi í Egyptalandi. Ljósmyndari: Erling Ólafsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2019 | 18:50
Egyptaland og hugleiðing um ferðalög
Það er langt síðan ég hef skrifað nokkuð, ég hef verið að ferðast. Í þetta skipti dugði ekkert minna en Egyptaland.
Ég hef lengi átt þann draum að ferðast til Egyptalands og loksins lét ég hann rætast.
Egyptaland er stórt land með langa og mikla sögu. Í ellefu daga ferð fær maður aðeins smá nasasjón af af því sem var og því sem er núna. Þótt maður hafi sig alla við.
Ég nálgaðist verkefnið eins og samviskusamur nemandi, reyndi að muna allt og skilja. En eftir því sem leið á ferðina, voru rústir, hof, konungagrafir og pýramídar farin að blandast saman í höfðinu á mér og mér leið eins og ég myndi falla á prófi um keisaraættir Egyptalands hins forna. Við vorum sem sagt með afar fróðan og andríkan leiðsögumann.
Til hvers?
Ferðalög eru erfiði og ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna menn leggi á sig að ferðast. Ég held að baki liggi það sama og fær mann til að lesa bækur. Tilgangurinn er að stækka heiminn og að nálgast sitt innra sjálf. Ykkur finnst þetta ef til vill háfleygt en svona hugsa ég.
Nú gæti einhver spurt, af hverju vera að ferðast, ef það er hægt að lesa bækur í staðinn? Ég kann ekki að svara því en eitt útilokar ekki annað. Áður en ég fór í ferðalagið hóf ég lestur á bókinni Egyptinn eftir finnska höfundinn Mika Valtari. Hún er löng, tekur 20 stundir í upplestri. Mér tókst ekki að hlaða henni inn sem hljóðbók. Ég tók Sturlungu með mér í staðinn en hana átti ég sem hljóðbók. Þegar ég hvíldi mig á milli ferða, slakaði ég á við að lesa um átök höfðingja í Dölunum. Og hvílíkur léttir. Allt í einu er Sturlunga orðin eins og léttlestrarbók. Næsta stóra ferðalag mitt verður í Dali vestur, ég ætla að kynna mér allar litlu sögurnar sem leynast milli stóru atburðanna í Sturlungu og ég hlakka til. Engir leiðinlegir flugvellir sem fara þarf um. Mikið óskaplega eru flugvellir leiðinlegt fyrir-bæri. Þurfa þeir að vera svona?
Lokaorð
Áhersla Egypta í ferðamálum er greinilega á söguna en ekki á kynna landið sjálft og líf fólksins sem býr þar núna. Sagan og sögulegar minjar er þeirra aðdráttarafl eins og náttúran er okkar.
En það vakna margar spurningar á svona ferðalagi og mínar ósvöruðu spurningar snúa frekar að nútíð en þátíð.
Eftirþankar
Ég mátti til með að láta þetta fylgja með:
Eg er kominn upp á það
allra þakka verðast
að sitja kyrr í sama stað,
og samt að vera' að ferðast.
Myndin er af sefinu í Níl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2019 | 21:12
Arisman
Bók Tapio Koivukari, Arisman, kom út 2012 og ég var fyrst að lesa hana núna. Það var bókin um Galdra-Möngu sem kallaði á hana. Ég hef reyndar lengi verið forvitin um þessa sögu: Hvernig gat það gerst að Íslendingar réðust gegn skipbrotsmönnum og dræpu þá? Þetta var svo ólíkt öllu sem öðru sem heyrst hafði. Níðingsverk.
Þetta hefur Tapio Koivukari líka fundist líka og þess vegna kafar hann ofan í bakgrunn þessa máls.
Atburðirnir áttu sér stað 1615. Það voru vestfirskir bændur sem unnu á þeim undir stjórn höfðingja síns, Ara Magnússonar í Ögri.
Ekki ein og ekki tvær, heldur margar hliðar
Höfundurinn leitast við að skoða málið frá ýmsum hliðum. Spánverjarnir höfðu verið hér við hvalveiðar í góðri trú og átt viðskipti við Íslendinga. Samskiptin fara ýmist fram á latínu eða á því sem í sögunni er kallað verslunarmál, margt er óljóst.
Þetta er söguleg skáldsaga.
Tapio Koivukari setur hana á svið og tekst draga upp mynd af persónum sem eru nógu lifandi til að maður trúir því að þær hafi verið til og að þetta hafi allt verið nákvæmlega svona. Sögusviðin eru mörg. Líf bændafólks, þar sem unga stúlkan Kristrún er í forgrunni. Lífið í smábæ í Baskalandi þar sem lífið byggist á sjómennsku. Lesandinn er fylgist með uppvexti drengsins Martin de Villafranca, tilviljun ræður því, að hann velur sjómennskuna, sama gildir um drenginn sem verður aðstoðarbeykir, Gartzia de Aranburu. Maður vonar svo innilega að þeir bjargist.
Lesandinn er rækilega kynntur fyrir veiðunum og lífinu um borð. Og loks erum við kynnt fyrir höfðingjanum Ara og fjölskyldu hans.
Galdurinn
Galdur skáldskapar er að maður trúir sögu höfundar, fær samkennd með persónunum, jafnvel skúrkunum. Mér finnst merkilegt að útlendur maður, geti sett sig svo vel inn í veruleika fortíðarinnar hér á okkar afskekkta landi. Um leið slær það mig að öreigar allra landa eiga margt sameiginlegt. Reyndar má færa þann sannleik einnig upp á valdstéttina og stóreignafólk.
Það er mikið afrek að setja sig inn í og endurskapa þessa veröld, sem er svo ólík okkar. Við sem erum vön að líta á okkur svo sérstök og einstök. Kaflinn um hvalveiðar var skemmtilega ítarlegur og allt í einu vissi ég fjölmargt sem ég hafði ekki hugmynd um fyrir. Lýsingarnar á lífinu í Baskalandi varð til þess að samkennd lesandans með sjómönnunum var enn sterkari. Flestir Íslendingar sem ég þekki, geta auðveldlega tengt sig við sjómenn og sjómennsku og margir Íslendingar á mínum aldri haf misst ástvini í hafið.
Aðförin að Spánverjunum er því óskiljanleg og glæpsamleg. Eftir að hafa lesið Arisman sýnist mér einfaldast að líkja aðförinni að Spánverjunum við stríð. Það er kynnt ófriðarbál. Það er búið til andrúmsloft ótta og tortryggni. Fólki er talin trú um að þarna séu hættulegir óvinir á ferð.
Bækur eru ekki einnota
Það er hefð fyrir því að það er fyrst og fremst fjallað um bækur um leið og þær koma út og mig grunar að þær séu einkum lesnar þá. En bækur eru ekki einnota. Bók er ný í hvert skipti sem hún er lesin, hún endurskapast í hug og hjarta lesanda síns. Þetta skrifa ég af því það eru 7 ár síðan bókin kom út og mig langar til að mæla með henni við þá sem eru svo heppnir að eiga eftir að lesa hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2019 | 22:31
Wow: Sjaldan er ein báran stök
Sjaldan er ein báran stök. Sama daginn og Wow skilaði inn flugrekstrarleyfi sínu lagði sjónvarpið okkar upp laupana. Hvorugt kom sérstaklega á óvart. Aðdragandinn var í sjálfu sér ekki ólíkur. Í tilviki Wow höfðu farið fram ýmsar þreifingar. Varðandi sjónvarpið, sem maðurinn minn sér um,höfðu einnig verið gerðar ráðstafanir sem vonir voru bundnar við. Í hvorugu tilviki rættust þessar vonir.
Wow og sjónvarpið okkar voru næstum því jafnaldrar. Hvoru tveggja tákn um betri tíma. Upprisa eftir höggið sem þjóðin hafði fengið í andlitið í boði gróðafíkla. Bæði sjónvarpið og Wow höfðu fært okkur gleði. Sjónvarpið færði okkur ánægjuna heim í stofu, Wow flutti okkur til staða þar sem við nutum menningar og ævintýra.
En það er engin ástæða til að leggjast í volæði og þunglyndi. Ég er hundleið á að hlusta á spár og hrakspár fróðra manna um öll þau áhrif sem þetta gjaldþrot kemur til með að hafa á þjóðarbúið. Líklega kostar það hið svokallaða þjóðarbú álíka mikið hlutfallslega að rétta sig af og það kostar okkur að rétta okkur af eftir bilað sjónvarp. Ég sagði hlutfallslega.
Bless sjónvarp, bless Wow. Koma tímar og koma ráð.
Maðurinn minn leysir áreiðanlega þetta með sjónvarpið og ég yrði ekkert hissa þótt fljótlega rísi upp nýtt flugfélag úr öskunni.
Wow - skellurinn er eins og sýnidæmi um okkar ónýtu krónu, sem burgeisar og gróðapungar elska út af lífinu, því þannig geta þeir verið vissir um að kjarabarátta og verkföll nýtist ekki fólkinu. Seðlabankinn sér til þess. Sjálfir reka þeir svo öll sín viðskipti í erlendum gjaldmiðlum.
Svei
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2019 | 14:30
Brennuöldin eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur
Það er göldrum líkast hvernig ein bók kallar á aðra. Stundum finnst mér eins og valdið til að velja sé frá mér tekið.
Þegar ég hafði lokið bók Tapio Koivukari um Galdra-Möngu, brann ég í skinninu að vita meira um þessa undarlegu tíma, þegar fólk trúði því að það gæti breytt gangi lífsins með hjálp afla, sem lágu einhvers staðar á milli náttúruafla og trúarbragða.
Ég vissi af bók Ólínu Þorvarðardóttur, um þetta efni, hún ber nafnið Brennuöldin. Hún kom út árið 2000 og ég hafði eitthvað blaðað í henni á sínum tíma.
Nú vill svo vel til að það er nýbúið að lesa þessa bók inn sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafni Íslands. Það er Ólína sjálf sem les og það gerir hún framúrskarandi vel. Bókin byggir á doktorsritgerð höfundar og er því í grunninn fræðileg. Það er því vandaverk að lesa og koma til skila því sem er mikilvægt í slíkum bókum. Þ.e. hvert hún sækir heimildir og hvaða fræði hún leggur til grundvallar. Þetta gerir Ólína lipurlega og það truflar aldrei eðlilegt flæði og framvindu meginmáls bókarinnar.
Þetta er mikil bók, tekur tvo 26 tíma í upplestri og því er mikilvægt að átta sig vel á uppbyggingu hennar frá byrjun.
Ólína rannsakar efnið út frá tvennum ólíkum heimildum. Annarsvegar leggur hún til grundvallar dómabækur alþingis, hins vegar munnmæli og þjóðsögur. Allt þetta skoðar hún í sögulegu ljósi, því fjallar hún um sögu og hugmyndaheim galdra og galdraofsókna í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Sá kafli var afar áhugaverður fyrir mig því þar kom margt fram sem ég vissi ekki áður. Aðalviðfangsefni rannsóknarinnar er þó um það sem gerðist á Íslandi. Mér fannst merkilegt að sjá hvernig hún varpaði ljósi á rannsóknarefnið fá þessum ólíku hliðum, þ. e. því sem stendur eins og stafur á bók í dómsskjölum og því sem lifað hefur í munnmælum og þjóðsögum. Umfjöllun hennar um þjóðsögurnar fannst mér sérstaklega gefandi, því þar fannst mér eins og mér opnaðist nýr þekkingarheimur.
Auðvitað er þetta alltof stórt og margslungið verk til að lýsa í stuttum pistli. Mig langaði bara til að segja þeim sem ekki hafa lesið og hafa áhuga á að kynnast fortíð okkar og skilja hana, að mikið fæst ekki fyrir lítið, en það er þess virði að lesa þessa bók þótt það taki bæði tíma og fyrirhöfn. Með fyrirhöfn meina ég að lesturinn krefst einbeitingar og fullrar nærveru hugans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar