Tara Westover: Ótrúleg frásögn ungrar konu

08A53376-4C04-4C24-901D-A0B3B0EAD1F7

Ótrúleg frásögn ungrar konu

Ég hef ekki bara verið að lesa  Sturlungu. Inn á milli hef ég fundið mér  nútímalegra lesefni,þar á meðal las ég bók   Tara Westover (fædd 1986 - ), Educated. Ég las hana á sænsku, þar sem hún heitir, Allt jag fått lära mig. Á íslensku gæti hún e.t.v.heitið Allt sem ég fékk að læra eða Menntuð.

Þetta er ótrúleg frásögn ungrar konu um líf sitt.Tara er fædd 1986 í Idaho í Bandaríkjunum. Hún elst upp hjá fjölskyldu sinni yngst sex systkina. Þau eru mormónatrúar, faðirinn er predikari og móðirin er hómópati. Faðirinn er sjálfstæður atvinnurekandi, rífur niður ónýta bíla og vinnuvélar og kemur í verð. Þetta er erfið vinna og börnin hjálpa til. Móðirin safnar jurtum, býr til lyf og selur. Auk þess er hún ljósmóðir við heimafæðingar.  

Meðan Tara er lítið barn heldur hún að líf þeirra sé ósköp venjulegt.Bróðir hennar sem hefur skapað sér líf utan fjölskyldunnar,  opnar glufu  inn í heim sem hún hefur adrei heyrt talað um.

Fjölskylda hennar lifir nefnilega í lokuðum heimi þar sem orð heimilisföðurins eru lög, ekki bara heima hjá þeim, heldur að einhverju leyti líka hjá nágrönnum þeirra sem líka eru í söfnuðinum. Þau trúa því að þau þurfi að verja sig fyrir „kerfinu“, það er sett þeim til höfuðs, svo þau þiggja enga þjónusu. Börnin eru ekki skráð við fæðingu, þegar veikindi og slys steðja að, má ekki leita læknis og börnin fá ekki að sækja skóla. Þeim er kennt heima og innihald námsefnisins er sniðið að þeim sannleik,sem predikaranum, föður Töru, er þóknanlegur. Heimsendir er á næsta leiti. Þegar unglingsárin  nálgast hjá Töru, er það einkum tvennt sem ræður því að hún vill komast í burtu. Henni fellur ekki að vinna við ruslaniðurrif fyrirtækisins. Vinnan er þrældómur, sóðaleg og auk þess hættuleg. Við þetta bætist að eldri bróðir hennar   ógnar henni og misþyrmir.

En það er enginn hægðarleikur að komast burt, hvað þá komast  inn í heiminn fyrir utan, sem hún vissi svo lítið um.  Fyrst af öllu þurfti hún að láta skrá sig, eignast skilríki. Hana langaði að menntast og þá varð hún að gangast undir próf sem sýndi hvar hún stóð námslega.

Allt þettta þurfti Tara að gera ein, án stuðnings fjölskyldunnar og í óþökk hennar.

Síðari hluti bókarinnar fjallar um skólagönguna og mér finnst undravert hversu vel „kerfið“ brást við þörfum hennar eftir að hún ákvað að treysta því. En Tara þurfti ekki bara að   vinna upp það sem hún hafði misst af í skólakerfinu, hún þurfti líka að læra að        að umgangast jafnaldra, hún varð að læra  allt mögulegt sem hvergi stendur skrifað en er nauðsynlegt til að skilja aðra og vita til hvers er ætlast af manni.

Jafnframt þessu reyndi hún að ná sáttum við fjölskyldu sína, sem hafði afneitað hennni.

Þetta er grípandi ævisaga ungrar konu sem er enn svo ung, að innst inni  finnst manni að hún sé rétt að byrja lífið. Líf hennar er ævintýri líkast eða martröð og hún er spennandi. Mestu skiptir þó að bókin er vel skrifuð.

Fleiri ævisögur

Meðan ég var að lesa baráttusögu Töru, varð mér oft hugsað til annarra kvenna sem einnig hafa sagt frá glímu sinni við að brjótast út úr erfiðum aðstæðum.Jeannett Walls (fædd 1960- )hefur skrifað bók  sem heitir  The Glass Castle. Í henni segir hún frá     baráttu fjölskyldu sinnar við kerfið og hvernig sú barátta bitnaði á henni, ekki síst hvað varðaði menntun   og vinatengsl.   The Glass Castle hefur verið kvikmynduð. Í báðum þessum tilvikum er aðdáunarvert hversu vel „kerfið“ tekur á málum þessara ungu stúlkna.

Enn ein saga um lífsreynslu ungrar konu

Meðan ég las, varð mér líka hugsað til enn einnar ungrar konu sem hefur skrifað um baráttu sína fyrir frelsi og tilverurétti. Það er Yan-mi Park (fædd 1993- ) og  bókin heitir  Með lífið að veði. Þar lýsir hún flótta sínum frá Norður Kóreu.

Öfgar og harðstjórn fara illa með fólk hvort sem þær koma frá ríkisvaldinu eða öðrum sem eru í aðstöðu til að kúga umhverfi sitt.

Lokaorð

Allar þessar frásagnir hafa hrifið mig og ég verð að játa, þótt því sé ekki saman að jafna, að mér varð líka stundum   hugsað til eigin bernsku. Mér varð hugsað til ungu stúlkunnar sem  fór „út í heim“ með eina heimasmíðaða ferðatösku og sængina og koddann í hvítum hveitipoka. Ferðinni var heitið að Eiðum en ég hafði ekki áður verið í eiginlegum skóla. Nei,  þessu er ekki  saman að jafna, en ýmislegt úr minni reynslu eykur samkennd mína með þessum ungu stúlkum sem þurftu fyrst og fremst að stóla á sjálfa sig. Góðar bækur opna gjarnan á tilfinningar sem  liggja kannski ekki  alveg á yfirborðinu.

Myndin af höfundi er sótt á netið.


Suðurganga með Sturlungu í farteskinu

54AAC001-FD54-4321-822C-6B9CB5B4867C

Ferðalag með Sturlungu í farteskinu

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað hér á síðuna mína um bækur en það þýðir ekki að ég hafi ekki lesið, ástæðan var allt önnur. Allt í einu missti ég löngunuina  til að skrifa og nú líður mér eins og ég eigi eftir að gera upp fjölda útistandandi reikninga. En eins og lesendur mínir vita er ég fyrst og fremst að gera þetta fyririr sjálfa mig  og það er höfuðsynd að svíkja sjálfan sig.

Ég ætla að byrja á því að tala um Sturlungu. Frómt frá sagt hefur engin bók kallað mig oftar til sín nema ef vera skyldi Biblían.

Báðar þessar bækur einkennast af mörgum matarholum.

Suðurganga

Þegar kom að löngu tímabærri Suðurgöngu, en svo kölluðust ferðalög forfeðra okkar og örfárra formæðra til Róm á kaþólskum tíma, fannst mér upplagt að taka Sturlungu með, ekki síst til að dreifa huganum í flughöfnum sem í mínum huga líkjast mest lýsingum á hreinsunareldinum.

Í Keflavík var þar komið sögu, að Þórður kakali var nýlentur á Gásum og á leið til systur sinnar á Keldum og Hálfdánar mágs síns.

Þórður kakali Ásgeirs Jakobssonar

En það  hafði heldur betur hlaupið á snærið hjá mér, þegar ég var að leggja í hann, sé ég að það er búið að lesa bók um Þórð kakala inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Þar með var Sturlungulesturinn orðinn tvöfaldur. Meira um þá bók síðar.

Ferðalagið gekk vel og sama gildir um lesturinn. Ég skoðaði fleiri kirkjur en ég hef tölu á og þar með talin er Péturskirkjan, sem að var ekki til á tímum þeirra Sturlunga. En það er allvíða sagt frá Suðurgöngu þeirra sem þar koma við sögu , sem við þá er kennd. Reyndar er óljóst hvað þeir voru nákvæmlega að biðja Guð að fyrirgefa, en ekki held ég að þeir hafi verið að biðja hann um að fyrirgefa sér manndráp eða limlestingar á fólki, eða að fara eins og logi yfir akur rænandi og eyðileggjandi nema í þeim tilvikum þegar það sneri að kirkjunni. Um þetta var ég að hugsa þegar ég sat í svölum kirkjunum að flýja hitann og til að láta líða úr mér eftir langar göngur.

Við lestur Sturlungu hef ég hvað eftir annað staðið mig að því að vera að leita að hetju sem ég gæti haldið með. Leita að einhverjum sem væri betri en aðrir. Nú hef ég gefið það endanlega frá mér enda er ég í þessari lesskorpu búin að fara í aSauðsfellsför, drápin á Þorvaldssonum, Flóabardaga og Haugsnesorrustu og fleira og fleira. Andstyggilegastar að mínu mati eru þó limlestingar á  saklausu fólki.

Etir að ég loks sætti mig við að það er engin hetja í Sturlungu, nema ef vera skyldi kona sem  sem fóstraði litlu dóttur Sturlu og Sólveigar og skýldi með líkama sínum þegar óvinir réðust að heimilisfólkinu á Sauðafelli:“ Kona sú hafði gengið til kamars er Arngerður hét Torfadóttir. Hún fóstraði Guðnýju Sturludóttur. Og er hún varð vör við ófriðinn slökkti hún ljós í skálanum og hljóp til hvílunnar þar er mærin lá. Hún tók dýnuna og breiddi á sig en meyna lagði hún við stokkinn hjá sér og undir sig og gerði yfir krossmark og bað guð gæta“.

Hetjur og skúrkar

Eftir árangurslausa leit að hetjum í Sturlungu, rann það upp fyrir mér að svona er þetta í öllum stríðum. Það er hernaðurinn sjálfur sem er sökudólgurinn. Strax og menn hafa fallist á að það eigi og þurfi að leysa mál með hernaði, gufa hetjurnar upp og eftir verða skúrkar. Hvað er ekki að gerast akkúrat núna í Sýrlandi?

En örlítiðmeira um bók Ásgeirs Jakobssonar um Þórð kakala. Bókin kom út 1988, en þá hafði áhugi minn á Sturlungu ekki enn kviknað. Nú þegar hún kemur út sem hljóðbók var hún mér kærkominn happafengur.  Hún er lesin af Hirti Pálssyni, réttur maður á réttum stað. Þegar ég skoða bókina í bókasafni, sé ég að hún er myndskreytt af Gísla Sigurðssyni ritstjóra og myndlistarmanni. Myndirnar eru prentaðar í lit og afar tjáningarríkar.

Nú meðan þetta er skrifað fer fram fótboltaleikur milli Frakka og Íslendinga. Enn er 0-0.

Er ekki hægt að breyta samskiptum þjóða og  há kappleiki í stað stríða?

Mymdin er úr bók Ásgeirs Jakobssonar. 


Smásögur heimsins

B2EB30E2-1278-463F-9D59-7F46F8558AF1

Smásögur heimsins:

 

Asía og Eyjaálfa er þriðja bókin í röðinni í hinni merku útgáfu Smásögur heimsins. Áður hafa komið út sögur frá Norður-Ameríku og Rómönsku Ameríku. Þá eru eftir sögur frá Evrópu og Afríku. Þegar maður hefur lesið þær allar er eins og maður hafi farið í heimsferð. Já og ekki neitt smáræðis ferðalag.  

Hugmyndin að baki ritraðarinnar er að kynna fyrir Íslendingum smásögur frá öllum heimshornum. Sögurnar eru frá síðustu 100 árum. Auk þess að velja góðar sögur er leitast við sýna fjölbreytni og velja höfunda með ólíkan bakgrunn og efnistök.

Hverri sögu fylgir stutt kynning á höfundi.  

Í þessari bók eru 20 sögur frá jafn mörgum löndum. Ég átti von á stærri bók. Í Asíu eru 48 lönd og enn fleiri menningarheimar. Þar  býr meira en helmingur jarðarbúa en við þetta bætist  síðan Eyjaálfa. Mér finnst það misráðið, því menningarlega séð á hún betur heima með Evrópu og þá hefði verið hægt að gera Asíu betur skil.Það er umdeilt hvernig á að skipta heiminum í heimsálfur svo ég hætti mér ekki lengra út í þessa umræðu en í raun sakna ég að ekki skuli vera eitt einasta land frá gamla Sovét.  

Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók frá löndum sem eru mér svo framandi.  En þetta er enginn „yndislestur“ því margar sögur fjalla um átök og óhuggulega atburði. Við erum kannski ekkert óvön því Íslendingar að fái fréttir af stríðum og  voðaverkum frá framandi heimshlutum. 0g höfum sjálfsagt flest komið okkur upp varnarkerfi til að taka það ekki of mikið inn á okkur en það er öðru vísi að lesa/hlusta á frásögn af einstaklingum sem upplifa það á eigin líkama. Mér fannst merkilegt að finna hvernig efni bókarinnar kallaðist á við gamlar fréttir. Það var eins og þær lifnuðu við, afskaplega veit maður lítið, hugsaði ég. Það er erfitt að alhæfa um 20 sögur, sem eru eins ólíkar og þær eru margar og sögusviðið nær yfir s.l. 100 ár. Mig  langar til að finna samnefnara og nú hef ég listað þær upp, svo að í næsta bloggi mun ég gera betur grein fyrir hverri og einni sögu. Ég á ekki von á að þetta verði læsilegt, ég geri þetta fyrir mig, ég er ástríðulesari  og á stundum erfitt með að yfirgefa bækur.

Hljóðbókin

Það er vandað til gerðar þessarar hljóðbókar engu síður en til bókaflokksins í heild. Upplesararnir lesa vel og sumir frábærlega. Ég hefði viljað að þeir hefðu verið kynntir með hverri sögu, ég þekki sumar raddirnar en ekki allar. Þegar bók á borð við þessa er gerð mér aðgengileg sem hljóbók finn ég til mikils þakklætis.  


Er náttúruvend í stöðu lítilsmagnans?

D6E82D31-D10F-4C5A-BB1C-76B4EBA26A63

Frekja og yfirgangur   

Eg hef verið að reyna að slíta mig út úr andrúmslofti Sturlungu sem ég hafnaði í í friðsældinni á Flúðum (sjá fyrra blogg þar um). Það er ekki svo létt, atburðir í nútímanum kalla stöðugt fram  hliðstæður.

Ég hef um langt skeið fylgst með samskiptum virkjanasinna og náttúruverndarsinna, allt síðan í Kárahnjúkadeilunni.   Ég taldi mig ekki vera andvirkjunarsinna.

Síðan hefur margt breyst í heimi hér. Nú er vísindalega sannað að stefnubreytingar er þörf, hún er lífsspursmál.

Nú stendur deilan  um tiltölulega litla virkjun, Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Ég hef sjálf gengið þar um slóðir, þekki til og á góðar minningar þaðan. Jafnvel draum um að endurnýja kynni mín.

En og aftur að Sturlungu.

Þegar ég var barn lærði ég  setningar utanbókar og þær sitja enn.  „Um 1120 bjó á Breiðabólsstað í Húnaþingi Hafliði Másson en Þorgils Oddason  á Staðarhóli í Dalasý. Þeir voru þá einna mestu höfðingjar í landinu“ (Íslandssaga 2. bindi, höf. Jónas Jónsson). Ekki vissi ég þá að ég ætti efir að ánetjast bókinni sem Jóna sótti þennan efnivið í.

Skjólstæðingar þeirra Hafliða og Þorgils voru Ólafur Hildisson og Már Bergþórsson. Þá greindi á,  en með þeim var lítið jafnræði. Annars vegar var lítilmagninn Ólafur Hildisson sem verið hafði fjórðungsómagi (merkilegt hugtak) eftir að faðir hans var dæmdur  skóggangsmaður.  Þá var Ólafur enn barn að aldri. Hins vegar var Már, frændi Hafliða Mássonar. Már virðist hafa verið siðlaus fantur en hann komst upp með það í skjóli þessa valdamikla frænda síns. Ólafur hallaði  sér að höfðingjanum Þorgilsi og fór, fyrir hans orð, í Ávík á Ströndum til að leita fyrir sér um vinnu.

Í Ávík bjó Hneitir bóndi ásamt konu, vinnufólki og börnum. Þetta virðist hafa verið friðsemdarfólk. Hneitir sá um reka fyrir Hafliða Másson.

Nú ætla ég að gera langa sögu stutta.  Vandræðagepillinn Már treður sér upp á þetta vammlausa fólk, greinilega valdaður af frændanum. Hann hefur keypt sér bát og vill gera út frá Ströndum. Ólafur, sem er í atvinnuleit  ræður sig á skip hjá honum. Veiðarnar gengu vel en Ólafur er hýrudreginn í lok vertíðar. Auk þessa rænir Már hann því litla sem hann átti af götum og vopnum.

Ólafur reyndi seinna að sækja mál sitt, var til þess hvattur af Þorgilsi. En eftir að vera bæði  smánaður og hunsaður af Má slæmir hann til hans öxi og særir hann, þó ekki meira en svo að delinn Már,  gat haldið áfram yfirgangi sínum.

Í framhaldi af þessu drepur hann Þorstein vinnumann Hneitis og veldur dauða Hneitis sjálfs. Áður hefur hann tekið konu og dóttur Hneitis frillutaki.

Að leita réttar síns

Eftir þessi ósköp finnst ekkjunni erfitt að leita réttar síns hjá Hafliða sem henni bar, Már var heimamaður hans og hún veigraði sér við að hitta hann fyrir.  Svo úr varð, að hún leitar til Þorgils og hann velur að borga henni bæturnar sjálfur úr eigin vasa. Vill ekki koma illu af stað. Við þetta firrtist höfðinginn Hafliði og fer af stað með málsókn út af áverka Más og vinnur málið.

Æ, æ, það er ekki hægt að endursegja Sturlungu. Ég bendi lesendum mínum á að kíkja í bókina.

Sýnidæmi

Það sem ég ætlaði að ná fram með þessu sýnidæmi, var að ef fólk er valdað af höfðingjum, kemst það upp með hvaða óþokkaskap og vitleysu sem það vill og ætlar sér.

Það er merkilegt að fylgjast með því hvernig mál hafa runnið í gegn hjá aðstandendum Hvalárvirkjunar og undarlegt að framkvæmdir skuli vera hafnar þótt enn sé mörgum málum ólokið.

Hverjum ber að valda náttúrufegurð?

Náttúruvernd á Íslandi á sér marga góða talsmenn. En þegar kemur að því að taka ákvarðanir um nýtingu auðlinda mega þeir sér oft lítils, þá er eins og rödd gróðans heyrist betur en rödd gróandans. Lengi vel var hægt að treysta því að VG gætti hagsmuna landverndar. Nú er eins og fallið hafi á þá herfjötur.

Er náttúruvend í stöðu lítilmagnans?

Myndin er af síðu í stóru kortabókinni  Ísenskur Atlas


90 sýni úr minni mínu og Tvöfalt gler:Halldóra Thoroddsen

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Það er ekki ekki allskostar rétt að ég hafi einungöis lesið Sturlungu í sumarbústaðnum á Flúðum eins og ég ræddi um í síðasta pistli, ég hafði líka gripið með mér bók Halldóru Thoroddsen, 90 sýni úr minni mínu. Áður hafði ég lesið/hlustað á Tvöfalt gler efir sama höfund. Já og þar þar áður á Katrínu. Allt í öfugri röð.

Af hverju las ég þær ekki jafn óðum og þær komu út?

Fyrst nokkur orð um tvöfalt gler. 

Heillandi bók og full af visku.Hvernig geta svona mikil sannindi rúmast í svo þunnri bók? Jafnaldra mín (eða þar um bil) ályktar um lífið sem var, sem er og um framtíðina. Allt er þettta saman komið í einum punkti í huga jafnöldru minnar í sögunni. Þessi bók er heimspekileg og pólitísk um leið. Hnitmiðuð, lágstemmd og lúmskt glettin.

Ég held ég viti núna hvers vegna ég las hana ekki fyrr, bækur koma til manns þegar maður hefur þörf og þroska til að lesa þær.  

90 sýni úr minni mínu.

Þesssi bók hefur ekki verið lesin inn sem hljóðbók og þess vegna fór ég bónleið að bónda mínum og hann las hana í í litlum skömmtum. Hann les vel og það sem best var að ég held að hann hafi ekki síður notið þessara litlu frásagna sem hún kallar sýni. Mér fannst ég vera að hlusta á ljóð. Alveg ótrúlega skemmtileg bók og gefandi því hún er full af speki. Ef ég ætti sð  búa til lista yfir þjóðskáld Íslands væri Halldóra Thoroddsen ofarlega á þeim lista ásamt nöfnu sinni og ömmu.  


Sturlungaöld í uppsveitum Árnessýslu

FCD3E35C-A9EE-44BC-85E2-077F4CE1F7C6

Sturlungaöld í uppsveitum Árnessýslu

 

Síðastliðna viku dvaldi ég í sumarbústað í Árnessýslu. Nánar til tekið á Flúðum. Bústaðurinn var í eigu Verslunarmannafélagsins og ég átti mér ekki annars von en að hann væri nútímalegur í einu og öllu. Og það var, nema í einu tilliti. Það skorti nettengingu.

Og þar með var lífi mínu umturnað. Nettenging er nefnilega lífæð mín . Tengir mig  við umheiminn og að hluta til við sjálfa mig. Ég  get ekki lengur lesið bækur, ég hlusta og ég get ekki lengur lesið blöð nema á netinu.

Ég var sem sagt ekki undir það búin að vera vikulangt bóka- og fjölmiðlalaus.

Það vildi mér til happs að ég  hafði hlaðið inn nokkrum bókum fyrir ferð mína til Egyptalands í vetur og átti eina bók ólesna, Sturlungu,  öll þrjú bindin.

Bók sem endist og stenst tímans tönn

Reyndar er ekki alls kostar rétt að ég hafi ekki lesið hana áður, en þetta er bók sem maður þarf að lesa oft.

Bók Hljóðbókasafnsins er ritstýrt af Guðna Jónssyn og það er hann sem skrifar formála. Ólafur Jensson les. Hann gerir það vel. Vísur eru lesnar eins og þær standa í textanum, auk þess eru þær færðar til nútímamáls þegar þurfa þykir. Ég finn að ég sakna Svart á hvítu útgáfunnar, sem ég á heima í hillu og get ekki lengur nýtt mér. Frábær útgáfa með kortum og margvíslegum skýringum.

Með Sturlungu í eyrunum

Þessa viku í sumarbústaðnum sofnaði ég  og vaknaði við Sturlungu. Þetta er voðaleg bók og það sem gerir  hana enn hræðilegri er að maður trúir henni. Veit að svona hafi þetta verið í raunveruleikanum. Flokkar manna undir stjórn svokallaðra höfðingja þeistu um landið, drápu fólk og brenndu bæi, stálu og misþyrmdu. Höfundur eða höfundar sviðsetja viðburði og upplifun mín þarna í blómaskrúðinu og sumarnóttinni var eins og að vera á endalausri Hamlet sýningu. Kannski væri nær að tala um Macbeth.  Lúsmýið truflar ekki konu sem er að hlusta á Sturlungu.

Það sem mér finnst erfiðast að þola í bókum  og tek endalaust  inn á mig, eru misþyrmingarnar á fólki. Ég veit eki hvort reiði eða fyrirlitning skorar hærra á tilfinningaskalanum gagnvart mönnunum, sem stýra þessu. Þeir eru í senn grimmir og ómerkilegir karakterar. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvarflar hugur minn til hrunverja okkar tíma, því allt snýst þettta um völd og peninga. Um leið finn ég til örlítils léttis, það hafa orðið framfarir hugsa ég. Á Íslandi tíðkast ekki lengur að drepa fólk eð limlesta, hvað þá nota dætur sínar sem skiptimynt við samningagerð.  Nei, ekki á Íslandi.

Það passar betur að máta hugarheim Sturlunga við alþjóðastjórnmálin. Þar bregður svo sannarlega fyrir ruddum og tuddum. Það bregst ekki að við sjáum einn eða fleiri í hverjum sjónvarpsfréttatíma.

Reyndar erum við í slagtogi með þjóð sem valdar þjóðríki, sem svífst einskis við að sölsa undir sig land annarra og þar hafa mörg börn bæði dáið og misst limi sína. Fólk er ekki aflimað handvirkt nú til dags, tæknin hefur tekið stakkaskiptum.

Svona fer hugurinn út um víðan völl eftir að hafa lesið Sturlungu  í viku.

Lokaorð

Það er alltaf  erfitt að lesa bækur þegar allir karakterar eru jafn vondir og ómerkilegir, maður finnur engan til að standa með. Þykja vænt um. Dást að. Einna helst að Guðmundur góði komi til greina eða Hálfdán á Keldum sem neitaði að fara í stríð þótt kona hans hæddi hann.  

 

 


Katrínarsaga: Halldóra Thoroddsen

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49

Katrínarsaga

Ég var nokkurn tíma að átta mig á að ég hafði búist við allt öðru vísu sögu. Og ætla að byrja á að segja frá hvernig saga það var. Forhugmyndir eru nefnilega  merkilegt fyrirbæri og  þær  ráða oft meiru um hvað manni finnst um hitt og þetta. Stundum kallaðar fordómar.

Ég hafði búist við  minningatengdri sögu hippatímans, ef til vill uppgjöri við hann, jafnvel einhvers konar afsökun á því að hafa lifað hann, tekið þátt og verið sannfærð.

 

En Katrínarsaga er annað og meira. Vissulega er þetta saga, byggð á minningum og sagt frá lífi Katrínar og nokkurra vina hennar á tímum blómabarnanna. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Katrínar og ósjálfrátt lokkast lesandinn  til að trúa  því að Katrín sé nátengd höfundi, jafnvel höfundurinn sjálfur.  

Ég upplifði sjálf þessa  tíma og stóð mig að því að leita að fólki sem ég þekkti meðal vina Katrínar. En það gekk ekki. Ég fann engan.Myndir af fólki birtist eins og flöktandi skuggar á vegg, einungis hugur Katrínar var skýr. 

 

Það var ekki fyrr en ég gerði mér grein fyrir því að þetta er ekki saga einstakra persóna. Ekki  harmræn ástarsaga eða saga um biturleika, þar sem fólk hefur látist blekkjast til að veðja á skakkan pólitískan hest.

Þetta er saga hugmynda. Þá fyrst þegar ég  hafði fattað þetta, naut ég lestursins .

Já,ég meira en naut, ég varð yfir mig hrifin. Saga Katrínar er sem sagt hugmyndasaga með pólitísku ívafi. Ég las og kinkaði kolli í huganum. Já svona var þetta. Já og er.

 

Það sem gerir þessa bók svo skemmtilega, er að höfundurinn er svo glögg á hvað það er sem einkennir hugmyndir og hvernig þær umbreytast í tíðaranda. Hún er svo hnitmiðuð og oft fyndin þegar hún sendir hárfín pólitísk skeyti.

Og það er ekki bara fortíðin sem fær pillur. Þær eru flestar ætlaðar okkur í samtímanum. Nú.

 

Í dag fór ég, sem þetta skrifar, á mótmælafund. Það var verið að mótmæla meðferð Íslands á börnum á flótta. Fundurinn í dag var á  vissan hátt neyðarfundur vegna fjögurra barna sem hafa dvalið hér og slegið rótum en nú hefur verið ákveðið að senda þau úr landi.  

Katrín fylgdi mér á fundinn, ég heyrði rödd hennar. Það er ekkert óvanalegt að persónur bóka dvelji með með mér nokkra hríð eftir lestur.

Í dag rifjaðist upp hugleiðingar Katrínar sem vísuðu beint inn í það sem var að gerast á fundinum.

Katrín segir að Vesturlandabúar séu í raun allir á sömu siglingunni. Á sama skemmtiferðaskipinu. Fargjöldin séu dýr og þægindin mikil . Rekstur  svona skipa er umsvifamikið verkefni.  Það þarf að nýta sér þrælavinnu í öðrum fátækari löndum í öðrum heimsálfum þar sem fólk  kann að vera fátækt. Og það þarf halda uppi hernaði.  Líka í öðrum  heimsálfum. Hernaður er svo peningaskapandi. (Þetta sem hér er haft eftir

Katrínu,  er allt rakið samkvæmt minni. Ókosturinn við hljóðbækur er að það er svo erfitt að finna tilvitnanir í textanum. Ég  biðst forláts ef rangt er með farið).

 

Saga Katrínar er perla, ég á eftir að hlusta oft á hana.

Það er Ásdís Thoroddsen sem les, hún er frábær lesari.

Katrín aðalpersóna sögunnar á eftir að ferðast með mér út ævina.  Held ég.

Það er gott að þurfa ekki að borga fargjaldið fyrir hana.  

 

 

 

 

 

 


List, haf og gróður

F364733A-270E-42D4-8B99-A35BFEFA0BBA

Það er minna en vika síðan ég hlustaði á þátt í útvarpinu um listamanninn Samúel Jónsson í Selárdal og hvernig hópur listunnenda hefur stofnað félag um viðgerð og varðveislu verkanna hans. Ég sá þessi verk fyrir löngu , þegar allt leit út fyrir að þau myndu falla fyrir tímans tönn. Og ég er innilega þakklát þeim sem hafa komið þeim til bjargar.

Mér varð hugsað til þessa í dag á göngu minni í Laugarnesinu þegar ég virti fyrir mér listaverkin við bústað Hrafns Gunnlaugssonar.  Það er eins og þau séu  að veðrast burt. Gætu ekki unnendur  frumlegra lista sameinast um að bjarga verkunum og gera þau aðgengileg.   Auðvitað  í samvinnu við listamanninn?  Það þarf að sjá til þess  að þau hverfi ekki.

Hrafn er frægur fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar, sú frægð kom að einhverju leyti að utan eins og frægð ýmissa annarra sem list stunda, Íslendingar eru oft hikandi í dómum sínum þegar kemur að því að meta list  og hættir til að blanda saman manninum og verkum hans. Framlag Hrafns til myndlistar er vanmetið, kannski veit hann ekki einu sinni sjálfur hversu góð verk hans eru.  

Ég vona að það sé ekki of seint að koma þeim   til bjargar.

En kannski er auðveldara að bjarga verkum dauðra listamann en þeirra sem enn lifa.

Eftirmáli með efasemdum.

En hvað veit ég um listir í Laugarnesinu. Ég er bara gömul hrifnæm kona, sem læt heillast af samspili veðurs, náttúru og manngerðra forma. Kannski er veðrun og eyðilegging hluti af fegurðunni?   


Talentur fjármálaráðherra og þeir sem minna mega sín

 35A60F4A-C073-4E33-8640-A213FA5BF3E4

Núorðið les ég blöðin á netinu, nest þó fyrirsagnirnar. Þegar ég rak augun í þessa klausu staldraði ég við og las tvisvar.  

Í til­lögu að breyttri fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2020 til 2024 er gert ráð fyr­ir 4,7 millj­arða króna minna fram­lagi til sjúkra­húsþjón­ustu en í fyrri áætl­un á tíma­bil­inu og 7,9 millj­örðum minna fram­lagi vegna ör­orku og mál­efna fatlaðs fólks, að því er fram kem­ur í gögn­um sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­um og greinir frá í dag“.

Getur þetta verið hugsaði ég? Ekki getur verið að að fjármálaráðherrann okkar taki Biblíuna svona bókstaflega.

En þar stendur:

Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur“.

 

Jú, þetta stendur þarna í Biblíunni, (Matteus 25. 29). En hver sem þekkir til  anda þeirrar bókar, veit að auðvitað hefur Kristur ekki ætlast til þess að tal hans um talentur væri tekið bókstaflega, hann tjáði sig gjarnan í líkingamáli.  

Og ef maður les lengra verður textinn enn grimmari:

Rekið þennan ónýta þjón (fátæklinginn)  út í ystu myrkur. Þar verður  grátur  og gnístran tanna“.(Matteus 25.30).


DYR OPNAST: Hermann Stefánsson

72073417-4DB2-4559-8842-90CF0F713764

Ég er orðin 77 ára og veit að lífsbókin mín fer að styttast. En öfugt við aðrar bækur gerist alltaf minna og minna og hreint ekkert spennandi. Stundum velti ég því fyrir mér, hvort það sé þess virði að fletta yfir á næstu blaðsíðu. 

Þá kemur allt í einu upp í hendurnar á mér þessi dásamlega bók. DYR OPNAST og hugur minn ljómar upp. Mér líður eins og ég sé ung og hrifnæm aftur.

Þetta er lítil bók, 195 blaðsíður, sem inniheldur 38 frásagnir,  af ólíkum toga. Það  væri einföldun að nota orðið smásögur, því þarna eru ritgerðir, þjóðsaga, dæmisögur, viðbót við dýrafræði og fleira og fleira. Ef til vill er óþarfi að flokka bækur í þetta eða hitt en mig langaði til að skrifa um bókina og segja vinum mínu, þeim sem lesa bloggið hvílík gersemi hún er. Mig langaði að finna samnefnara fyrir frásagnirnar þá gengi mér betur að gera grein fyrir þeim, því  það yrði allt of langt mála að fjalla um hverja og  eina. Hver myndi endast til að lesa 38 frásagnir?

Til að ná sjálf utan um verkefnið  ákvað ég að gera exelskjal, lista með heiti frásagnar,  söguþræði og loks lærdómi. Lærdómur var það sem mér fannst mikilvægast .

Það var gaman að gera þennan lista en hann er óbrúklegur, því hann segir meira um mig heldur um bókina. Og er hann hér með úr sögunni.  

Niðurstaða

Bókin er fyndin og átakanleg í senn. Höfundur heldur til á jarðsprengjubelti sem flestir hafa vit á að fara ekki inn á.  Ég, lesandinn, er allan tímann  hrædd við a springa í loft upp með skoðunum mínum. Og ég óttast sársaukann þegar og ef mikilvægar skoðanir springa. Bókin er í senn  heimspekileg, pólitísk, átakanleg og absúrd. Hún er nístandi háð  um samfélagsumræðuna og um leið innlegg í hana. Höfundur  leikur sér með orð og hugmyndir, kemst að niðurstöðu og skiptir svo um hest í miðri á og sundríður til sama lands.

Dyr opnast og dyr lokast. Maðurinn er ósýnilegur, hann getur flogið og stundar svefnrannsóknir á sjálfum sér.

 

Frásagnirnar eru eins og lífið, ófyrirsjáanlegar og óþolandi en samt vill maður lesa þær til enda og helst skilja til fulls.

Auk þess hefur þessi bók lækningarmátt (sjá fyrr í texta).

Hefur landlækni verið sagt frá þessu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 190338

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband