19.6.2021 | 15:26
Konan kemur við sögu: Í tilefni dagsins
Þessi bók kom mér á óvart, ég vissi ekki að hún væri til fyrr en hún birtist allt í einu á lista Hljóðbókavefsins yfir ný-innlesnar bækur. Í bókinni eru 52 greinar, þar sem konur koma við sögu. Þær eru mislangar og fjalla um allt mögulegt. Það er Árnastofnun sem ber veg og vanda af bókinni. Efni hennar kom fyrst út 2015 á vef stofnunarinnar. Hún er þeirra framlag til að minnast 100 ára kosningarréttar kvenna. Greinarnar komu síðan út á bók 2016.
Bækur og svefn
Loksins, loksins hugsa ég, nú fær grúskarinn í mér einhverja næringu. Ég var í miðju kafi við að lesa spennubók (meira um hana síðar) og hugsaði mér gott til glóðarinnar að hafa bókina Kona kemur við sögu sem kvöldlesningu. Til að komast í værð, sofna fljótar og fá betri svefn. Þetta snerist þó fljótlega við, bók Árnastofnunar varð að spennubók. Hin varð að bíða.
Innihaldsríkur lestur
Greinarnar í bókinni eru mislangar og ólíkar hvað varðar efni. Sumar eru nálægt okkur í tíma, aðrar eru fjær. Auðvitað get ég ekki fjallað um 52 greinar í stuttum pistli en ætla að velja 3 til þess að væntanlegir lesendur fái nasasjón af því, hvað ég er að tala um.
Konan sem vildi mæla máli sínu: Eva María Jónsdóttir
Í greininni leitast Eva María við að svara því af hverju karlmennirnir í Svarfaðardal voru svo vondir við Yngvildi fagurkinn. Ég hef sjálf gert nokkrar atrennur til að komast í gegn um Svarfdælu og varð satt að segja fegin að ég er ekki ein um að þykja hún strembin. Meðferð karlanna á þessari duglegu og vænu konu er óskiljanleg. Reyndar er fleira illskiljanlegt í þessari skrýtnu sögu. Það var gaman að lesa/hlusta á samantekt Evu Maríu en ég er ekki viss um hvort henni tókst fyllilega að skýra framferði Svarfdæla.
Handrit úr fórum Guðríðar Jónasdóttur frá Svarfhóli: Gísli Sigurðsson
Hér segir Gísli frá því sem kom upp úr kökuboxi föðursystur hans, Ragnheiðar Kristjönu Baldursdóttur, sem hann fékk að gramsa í . Þar á meðal var umslag merkt Guðríði Jónasdóttur móður Jóhanns Gunnars Sigurðssonar skálds, sem lést 1906. Þarna voru bréf sem farið höfðu á milli Guðríðar og Baldurs Sveinssonar en Baldur og Jóhann Gunnar voru vinir og skólabræður. Eftir að Jóhann Gunnar lést skrifaði Guðríður Baldri bréf til að þakka honum hversu vel hann hafði reynst Jóhanni í veikindum hans. Í kökuboxinu var auk þess handrit með ljóðum Guðríðar. Mér fannst ævintýri líkast að lesa þessa grein enda mikill aðdáandi ljóða Jóhanns Gunnars.
Heilög Margrét verndardýrlingur ljósmæðra og fæðandi kvenna:Ludger Zeevaert
Í þessari grein lýsir höfundur handriti í litlu broti sem notað var til hjálpar fæðandi konum. Handritið skyldi vera spennt utan um læri konunnar meðan á fæðingu stóð. Auk þess að lýsa handritinu, rekur hann sögu dýrlingsins. Voðalega veit maður lítið um trúarbrögð fyrr á öldum.
Lokaorð
Framúrskarandi lesning. Ég á oft eftir að glugga í hana. Það er Ásdís Thoroddsen sem les, hún les vel að vanda og er ekkert að flýta sér.
Bókin er nokkuð löng, tekur 10 klukkustundir og 40 mínútur í aflestri. Auk þess hefur hún að geyma fjölda mynda, sem eru í senn fræðandi og til ánægju fyrir augað.
Myndun af valkyrjunni er tekin að láni úr bókinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2021 | 14:11
Uppruni: Sasa Stanisic
Uppruni eftir Sasa Stanisic Það er nokkuð um liðið síðan ég las/hlustaði á bókina Uppruni eftir þýsk- króatíska rithöfundinn Sasa Stanisic. Eða á ég að segja þýsk-Júgóslavneska rithöfundinn Sasa Stanisic? Í bókinni fjallar hann um vandann við að skilgreina sig fyrir þá sem hafa þurft að flýja heimaland sitt. Hann er fæddur 1978 í Visegrad í Bosníu- Herzegóníu en flýr með foreldrum sínum 1992 til Þýskalands. Ein af minningum hans frá gamla landinu er um aðdáun hans á Rauðu stjörnunni. Hann horfir á leiki hennar í sjónvarpinu með föður sínum og fer meira að segja einu sinni með honum til Belgrad til að horfa á leik. Rauðu stjörnunnar. Þegar Júgóslavía liðaðist í sundur hrapaði Rauða stjarnan af stjörnuhimni fótboltans. Eftir það urðu öll lið á Balkanskaganum B-lið, segir hann. Foreldrar hans þurftu að flýja, þau voru í svo kölluðu blönduðu hjónabandi. Það er erfitt fyrir unglinga að hefja nám í nýju landi því þá eru teknar ákvarðanir fyrir lífið. Honum tekst, þrátt fyrir tungumálaerfiðleika að komast inn í menntaskóla og síðar háskóla.
Í þessari bók segir hann frá því hvernig er að vera flóttamaður. Gamla landið hans býr innra með honum, þótt á yfirborðinu sé hann eins og hver annar Þjóðverji.
Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn nánar hér, enda vafasamt að tala um þráð í þessu sambandi. Skrif mín eru eilífir útúrdúrar, segir hann. Eftir að friður komst á í fyrrum Júgóslavíu var foreldrum hans vísað úr landi.
Þýskalandi. En þau treystu sér ekki til að fara heim og fóru til Bandaríkjanna. Föðuramma hans hafði orðið eftir í Visegrad og nú kemur það í hans hlut að líta til með henni. Hann segir frá því, að á sama tíma og amma hans var að tapa sínum minningum, tók hann til við að reyna að safna sínum minningum.
Þetta er bók sem hreyfir við tilfinningum
Mér fannst þetta skemmtileg bók. Hún er hlý og full af visku. Þegar Sasa lýsti ferð sem hann fór með ömmu sinni og fylgdarmanni til að heimsækja þorpið, sem afi hans var frá, sá hann ættarnafn sitt Stanisic á öðrum hverjum legsteini í kirkjugarðinum. Um leið hugsaði hann til þess með trega, að líklega myndi byggðin þarna í fjöllunum leggjast af. Að fólkið sem bjó þar þá og var að sýna honum æskustöðvar afans, yrðu síðustu ábúendurnir. Ekki vegna stríðs, heldur vegna breyttra lifnaðarhátta. Vegna nútímans. Mér leið dálítið eins og þegar ég heimsæki dalinn minn, Breiðdal.
Hvenær er sögu lokið?
Í lok sögunnar leikur höfundur sér að því að gefa lesendum kost á því að velja hvernig þeir vilji að bókin endi. Þetta virkaði ekki fyrir mig, sem þarf að hlusta á bækur í stað þess að lesa þær. Ég veit ekki hvernig þetta kemur út fyrir aðra. Þetta fékk mig að hugsa um eðli endis í bókum. Er þetta ekki bara spurning um hvar maður velur að setja síðasta punktinn? Bækur enda en lífið heldur áfram.
Að lokum
Bókin er þýdd af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur sem er ávísun á góða og vel þýdda bók . Það er Stefán Jónsson sem les en hann er einn af mínum uppáhaldslesurum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2021 | 17:02
Dvergurinn frá Normandí: Saga um refilinn frá Bayeux
Ég fæ mig seint fullsadda af efni sem tengist víkingaöldinni og þar með fornbókmenntum okkar Íslendinga. Bókin, Dvergurinn frá Normandí gerir það svo sannarlega, því hvað eftir annað er vísað til heimilda sem Íslendingar hafa ritað á skinn. Bókin er eftir danskan mann, Lars-Henrik Olsen (fæddur 1946). Hún kom út í Danmörku árið 1988 en á Íslandi ekki fyrr en nú, 2021, í þýðingu Steinunnar Jónu Sveinsdóttur. Hún er hugsuð sem unglingabók frá hendi höfundar en hentar ekki síður fullorðnum eins og allar góðar barna og unglingabækur.
Sögusviðið er . nunnuklaustur í Kent á Englandi árið 1077 . Þar sitja fjórar stúlkur við sauma. Þær hafa verið valdar til að vinna að verkefni sem nú gengur undir nafninu Refillinn frá Bayeux, því þar var hann varðveittur. Þetta er rúmlega 70 metra langt og hálfs metra breitt veggteppi, sem lýsir því sem gerðist í orrustunni við Hasting, þegar Vilhjálmur sigursæli vann sigur á Haraldi Guðinasyni. Þetta var ójafn leikur, lið Vilhjálms var að hluta riddaralið og hafði betur eftir langa og harða orrustu. Bókin fjallar bara óbeint um þennan hildarleik, hún fjallar fyrst og fremst um verkefni hópsins í klaustrinu, sem vinnur að því skrá atburðinn . Ekki beinlínis á spjöld sögunnar eins og komist er að orði. Stúlkurnar sauma hann út. En verkið er ekki bara þeirra, þetta er teymisvinna. Dvergurinn Þóraldur stýrir verkinu. Hann er fjölhæfur listamaður og biskupinn Ódó, hálfbróðir Vilhjálms hefur falið honum verkefnið. Í teyminu starfar einnig fanginn Líkúlfur, hermaður úr liði Haraldar. Einnig kemur munkur við sögu, hann er fulltrúi ritlistarinnar. Í sögunni er brugðið upp mynd af lífinu á 12.öld. Hún er kannski ekki svo ólík þeirri mynd sem við Íslendingar þekkjum úr Sturlungu, höfðingjar takast á um völd, alþýðan er höfð að leiksoppi.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Í raun má líkja reflinum við myndasögur nútímans. Á þessum tímum var lestur enn ekki orðinn útbreiddur. Þess vegna þjónuðu myndverk vel til að koma skoðunum á frafæri, hvort sem var í trúarlegum efnum eða pólitískum.
Sá sem les bókina fyrir Hljóðbókasafn Íslands, heitir Orri Huginn Ágústsson. Ég hef ekki heyrt í honum áður. Hann les prýðisvel.
Bókin er falleg, skreytt fjölda mynda úr þessu fræga verki Bayeux- reflinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2021 | 19:08
Ljóð gleðja
Flestir kannast við að fá lög á heilann. Ég hef lengi strítt við það. Allt í einu koma lögin bara og glymja í hausnum á mér. Ég veit ekki af hverju. Oft eru þetta meira að segja lög sem ég hef lítið dálæti á. En í vor varð skyndilega breyting á. Það komu ljóð í stað laga.
Fyrsta ljóðið sem settist að í höfðinu á mér, var Svanir fljúga hratt til heiða eftir Stefán frá Hvítadal. Auðvitað bara nokkrar línur, framhaldið las ég svo á Google. Mér til mikillar ánægju komst ég að því að ég kann það nokkurn veginn. Þetta er svo fallegt ljóð. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um sólina, vorið og okkur Íslendinga. Annan sólardag heimsótti Guðmundur Böðvarsson skáld mig með ljóðinu Kyssti mig sól og sagði, sérðu ekki hvað ég skín, gleymdu nú vetrargaddinum sára. Gleymdu honum ástin mín. Nú er ég átján ára. Forskriftin sem pabbi gaf mér (og systkinum mínum) í forskriftabókina, þegar ég var að læra að skrifa var: Ó, blessuð vertu sumarsól, eftir Pál Ólafsson. Þannig lærði ég það kvæði. Seinna lærði ég litla ljóðið um sólskríkjuna. Sólskríkjan skiptir ekki bara um búning til að taka á móti sólinni, hún skiptir líka um nafn. Hættir að vera snjótittlingur. Hvernig ætti fugl með slíkt nafn að syngja fyrir skáld?
Eftirmáli
Líklega þarf ég að útskýra þetta með forskriftabókina. Þegar ég var barn, það er langt síðan, tíðkaðist það að sveitabörn lærðu heima hjá foreldrum sínum, til tíu ára aldurs. Þá tók farskólinn við. Þetta eru breyttir tímar. Einn vetur kenndi mér engin önnur en Oddný Guðmundsdóttir snillingur. Hún lét okkur gera vinnubók um skáld. Og svo átti maður að læra ljóð utanbókar . Mikið finnst mér vænt að hafa þurft að læra ljóð utanað. Þau eru sífellt að koma til mín. Ljóð gleðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 190964
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar