Vítislogar:Heimur í stríði 1939 -1945: Max Hastings

D134F902-88C8-426F-8344-18FC6DE64241
Heimsstyrjöldin síðari

Lesið á ferðalagi

Þegar ég hafði komið mér notalega fyrir á hótelherbergi í Berlín, hugaði ég að því að velja mér bók til lestrar. Það er lán í óláni fyrir blinda og sjónskerta að þeir geta tekið bókasafnið sitt, Hljóðbókasafn Íslands, með í ferðalög. Ég sá að það var búið að setja inn bækur um heimstyrjöldina síðari. Þær heita Vítislogar:Heimur í stríði 1939 – 1945 og eru eftir Max Hastings.  Magnús Þór Hafsteinsson hefur þýtt þær og les þær sjálfur. Eftir nokkuð hik ákvað ég að lesa þær en gerði mér um leið grein fyrir að það er stórvirki að lesa slíkar bækur, bæði vegna lengdar þeirra og  efnisins vegna. Þær taka 20,42 +20,56 +16,36 klukkustundir í hlustun. Auðvitað veit kona á mínum aldri ýmislegt um stríðið, ég man meira að segja eftir því (fædd 1942). Ég veit ekki hvort það sé rétt að tala um stríðið, því það voru mörg stríð í gangi. Höfundur gerir grein fyrir efnistökum í inngangi. Segist ætla að draga upp heildarmynd í tímaröð af framgangi stríðsins. Hann ræðir fátt um aðdragandann, dembir sér beint að segja frá innrásinni í Pólland. Bretar og Frakkar sem höfðu lofað Póllandi stuðningi voru óviðbúnir.

Síðan er gangur stríðsins rakinn nokkurn veginn í tímaröð. En þetta er ekki bara saga hernaðar, höfundur leitast við að lýsa baklandi hinna stríðandi fylkinga, hvað vill almenningur ? En slíkar pælingar ná auðvitað bara til lýðræðisríkja. Einræðisríki þurfa engan að spyrja.

Stríðin utan Evrópu

 Auðvitað vissi ég að það voru háð stríð utan Evrópu en ég vissi lítið um þau stríð, hafði ekki lagt mig eftir því að fræðast. Það litla sem ég vissi var úr bókum og kvikmyndum.

Þurfum við að vita þetta?

Ég held að það hafi verið vegna stríðsins  í Úkraníu,  sem ég ákvað að lesa þessa bók og að hluta til vegna þess að ég var stödd í  Berlín. Ég hraðlas, staldraði ekki við neitt, reyndi að ná þessari heildarsýn sem höfundur lofar. Það var mikið af tölum. Tölur fallinna og látinna, í bland við þetta voru frásögur  af einstaklingum sem ýmist dóu eða lifðu stríðið af en urðu aldrei samir menn. Það er merkilegt hvað maður hefur mikla samúð með einstaklingum og frásaga af tugþúsund og/eða hundruðum þúsunda lætur  mann lítt snortinn.

Stríð er glæpur

Höfundur leitast við að leggja mat á hvað er rétt og hvað er rangt í þessu stríði. Hann gerir það vel og af mikilli alvöru. Ég hugsa: Stríð er bara vont.

Fyrir nokkrum árum las  ég bók Svetlönu Aleksíevítsj;Stríðið hefur enga  kvenlega ásýnd. Hún byggir bókina á viðtölum sem hún átti við fjölda kvenna sem börðust í her Sovét. Mér fannst þetta grípandi bók. Las hana á sænsku og hugsa oft til þess að þessa bók þyrfti að þýða.

Að lokum

Ég hef heyrt útundan mér að vopnaframleiðendur hafi sett allt á fullt og hjá þeim sé bjart framundan. Auðvitað.

En ég hef minna heyrt af því að fólk kalli eftir vinnu sem miðar að því að breyta heiminum á þann veg að það skapist ekki stríðsástand. Mér finnst að efi bókarinnar um heimsstyrjöldina síðari kalli á að við lærum af mistökunum.

Þakkir

Það er stórvirki að þýða þessa bók og ég kann þýðanda Magnúsi Þór Hafsteinssyni þakkir fyrir. Já og líka fyrir lesturinn

Myndin er tekin af málverki á Berlínarmúrnum.


Hús harmleikja: Guðrún Guðlaugsdóttir

Lestur á ferðalagi

Þríbólusett og búin a566A007C-4B2A-4E8F-A785-CC6454CBB2C7ð veikjast einu sinni af kóvít, fannst okkur hjónunum kominn tími til að ráðast í utanlandsferð. Berlín varð fyrir valinu. Ég ætla ekki að skrifa um þá ferð hér, heldur hvaða bækur ég las/hlustaði  á í ferðalaginu.

Hús harmleikja

Á leiðinni í flugrútunni lauk ég við að lesa Hús harmleikja eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Þetta er 7. bókin í bókaseríunni um Ölmu blaðamann. Henni hefur verið sagt upp á blaðinu og ætlar að láta verða af því að skrifa bók. Hún hefur verið að kynna sér reynslu fólks af því að búa í húsum þar sem fólk hefur látist voveiflega. Hún fær af tilviljun boð um að vinna að skriftunum á Eyrarbakka í húsi sem stendur autt og er til sölu. Þangað fer hún. Hún vill vinna sína rannsóknarvinnu og tekur fólk tali. Fljótlega kynnist hún hinni líflegu Oktavíu sem vinnur sem safnvörður til bráðabirgða í Húsinu. En í rauninni er hún leikkona sem vonast eftir hlutverki í kvikmynd sem stendur til að gera á Bakkanum. Og auðvitað spyrst Alma fyrir um hús þar sem eitthvað hörmulegt hefur gerst.

Rithöfundar þurfa að sitja við

Mér finnst hún sinna skrifunum óþægilega lítið. Brátt dúkka upp tveir handritshöfundar og auðvitað fá þeir að gista hjá Ölmu í húsinu sem hún hefur til umráða að skrifa í. Ég dæsi og spyr sjálfa mig hvort hún ætli aldrei að læra, til þess að skrifa, þá  verður hún setjast við tölvuna og vera ein með sjálfri sér.  Kvikmyndaleikstjórinn mætir á svæðið og brátt gerast óhugnanlegir hlutir.

Ég ætla ekki að rekja þessa frásögn lengra. En væntanlegir lesendur geta treyst því að  allt fer þó vel að lokum frá sjónarhorni Ölmu. Hún reynist lögreglunni betri en engin við að greiða úr flækjum og leysa málið. Hún yfirgefur húsið

á Bakkanum  án þess að hafa skrifað mikið og Gunnar maður hennar tekur glaður á móti henni.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók og ég undrast hvers vegna, því í rauninni fellur mér engan veginn við Ölmu. Mér finnst hún hnýsin og blanda sér í það sem henni kemur ekkert við. Hún minnir á Miss Marble en það vantar prjónana. Og eins og alltaf velti ég fyrir mér hvort það sé ekki eitthvað rangsnúið við að hafa gaman að lesa glæpasögur og sér í lagi  þær sem gerast í friðsælu íslensku þorpi?

Reyndar veit ég alveg hvað gerir þessa bók skemmtilega. Persónur eru á einhvern hátt kunnuglegar og frásagan er oft fyndin. Mér finnst þetta skemmtilegasta Ölmubókin til þessa.


Hyperíon: Friedrich Hölderlin: Arthúr Björgvin Bollason

EA266862-E10F-4B90-AFF2-8D178C301091
Það gleður mig að kynnast Hölderlin

 Hölderlin er maður sem mig hefur lengi langað til að kynnast.  Ég  hef svo oft heyrt talað um hann. Hann fylgir gjarnan með í kippunni þegar talað er um þýsk skáld og heimspekinga 18. og 19. aldar. Svo sem Schiller, Göethe og Hegel.

 Friedrich Hölderlin er fæddur í Þýskalandi 1770 og dó 1843. Hann er aðallega þekktur fyrir ljóð og sum hafa verið þýdd á íslensku. Ég hef spreytt mig á að lesa þau og líka ljóð sem þýdd hafa verið á  sænsku en ekki náð almennilega sambandi, mig vantar bakgrunninn.  

Nú færir Arthúr Björgvin Bollason okkur skáldsögu eftir þennan sama mann á silfurfati, auk  ítarlegs formála. Þökk sé honum.

Sagan heitir  Hyperíon, eða einfarinn á Grikklandi. Sagan er eins og langt ljóð.

Það gladdi mig  að lesa þennan óviðjafnanlega texta um manninn, ástina, náttúruna og Guð. Einmitt það sem við þurfum núna. En það tók mig nokkra stund og  vangaveltur að átta mig á honum.En ég sé ekki eftir því. Það er svo margt ómerkilegt sem á manni glymur að það er hugarfró að lesa texta sem skilur eitthvað eftir og kallar á vangaveltur og ósvaraðar spurningar.

Sagan

Sagan er í bréfformi. Sögumaður, Hyperíon, skrifast á við ástina   Díótínu og vini sína. Hann er staddur á Grikklandi því hann, þessi góði maður, hefur ályktað að hann geti bætt heiminn með því að taka þátt í baráttu þeirra við Tyrki. Hugleiðingar hans í lok orrustu, þegar hann horfir yfir vígvöllinn eiga vel við nú.

Ég ætla ekki að reyna að rekja söguþráðinn frekar hér en reyni að gera grein fyrir hugmyndum hans eins og ég skil þær. Mér finnast þær merkilegar út frá því hversu vel þær falla að því sem er brýnast í heiminum í dag.

Ástin, náttúran og listin

Það sem bjargar Hyperíon eftir óhugnað stríðsins, er vorið og náttúran. Hann lýsir þessu í bréfi til  elskunnar  sinnar fullur af fögnuði.

Sagan er einber skáldskapur. Þótt sagan gerist á Grikklandi hafði Hölderlin  aldrei komið til Grikklands.  Grikkland var í hans huga tákn frelsisins. Hann las sér til um það og notaði ferðabæklinga til að sviðsetja atburðina og notaði hugaraflið og skáldskapinn.

Lokaorð

Náttúruverndarfólk  gæti fundið margar góðar setningar í þessari bók til að rökstyðja og styrkja málstað sinn. Sagan gæti líka verið kennslubók fyrir alla um hvernig er hægt að njóta og gleðjast.

Eftirþanki

Ég hef gleymt að segja frá því að þótt Hölderlin yrði 73 ára gamall varð starfsævi hans ekki löng. Hann varð veikur á geði frá því  í kring um 1800 og var síðar vistaður á geðdeild á sjúkrahúsi. Það er falleg sagan af því þegar smiður í  í Tübingen bauð honum að búa hjá sér í turni húss sem hann hafði byggt. Þetta gerði hann af einberu þakklæti vegna sögunnar um Hyperíon. Þar lést hann 1843.

Eftirþanki 2

Ég sé að ég hef líka gleymt að geta þess að það er Árni Blandon sem les bókina. Hann gerir það ljómandi vel. 


Ljósgildran: Guðni Elísson

170C723B-062F-4BC6-B691-8DB8659A03C1
Ljósgildran

Jæja.

Loksins hef ég lokið við að lesa/hlusta á Ljósgildruna eftir Guðna Elísson prófessor Það tók u.þ.b. 30 klukkustundir í upplestri og það var Margrét Örnólfsdóttir sem las. Hún er öruggur lesari sem kemur innihaldi bóka  og blæbrigðum vel til skila.

En ég er ekki bara búin að hlusta, ég hef endurhlustað og glöggvað mig á mörgum köflum bókanna, því þetta eru tvær bækur. Það er erfiðara að glöggva sig á hljóðbókum en bókum á pappír. Það er ekki hægt að blaða og fletta, hvað þá setja gula miða eða undirstrika.

Fyrstu viðbrögð

Ég hef aldrei lesið neitt eftir þennan höfund enda er þetta hans fyrsta bók. Ég var því forvitin um hvað biði mín.  Ég hafði ekki lesið langt þegar ég hugsaði:“Þessi maður kann að skrifa, íslenskan hans er  hrein og tær“. Það er ekkert sjálfsagt að prófessor í íslenskum skóla  skrifi gott mál. Margir vel menntaðir menn eru hallir undir enskuna án þess að vita af því. Guðni skrifar ekki bara góðan texta, margar setningar eru svo góðar að mann langar til að kunna þær og geta vitnað í þær.

Um hvað er þessi bók?

Þetta er bók um íslenskan veruleika eins og hann blasir við á árunum eftir hrun á tímum kóvít.

Þræðir sögunnar eru nokkrir. Skáldin tvö HMS Hermann og Jakob eru uppstaða þessarar bókar.  Þeir verða hvor um sig kandídatar ólíkra stjórnmálaafla án þess að bera sig eftir því. Hermann er bjartasta von forsetans,  Sjálfstæðisflokkurinn veðjar á Jakob en flokkurinn hefur ákveðið að bregða út af vana sínum. Hætta að veðja einungis á dráttarhesta atvinnu- og fjármála og koma sér upp listamanni. Þeir hafa stofnað til eigin verðlauna. Forsetinn vill vekja áhuga á sjálfum sér  sem manninum sem manni menninga og lista og plottar stuðning við Hermann. Kapítóla forsetafrú er ósammála manni sínum. Ívaf sögunnar er fjölbreytt og litríkt.

 Hans Húbert formaður í loftslagsfélaginu Kaldrana bætir enn við breidd sögunnar. Það  berst fyrir því að leiðrétta hugmyndir fræðimanna um hlýnun jarðar og sýna fram á hið gagnstæða. Pollýanna mætir óvænt á fund með afa sínum og styður málflutninginn. Ég átti svolítið bágt með að sætta mig við hlutverkið sem uppáhaldinu mínu, hinni ríflega 100 ára gömlu Pollýönnu,  var úthlutað. Hvað hefur orðið um rótæknina og gleðina  og hver er þessi afi hennar? Hún sem átti engan afa.

Nú er ég dottin í gryfju sem erfitt er að komast upp úr, það er ógjörlegt að endursegja efni bókarinnar. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á Valhallarkaflann. Hann er stórkostlegur í heild sinni. Reyndar var það einmitt í þeim kafla sem ég var að hugsa um að hætta lestri.

Það skemmtilega við Ljósgildruna er að flestir sem þar koma við sögu, eiga sér raunverulegar fyrirmyndir. Eða gætu átt sér. Er t.d. forsætisráðherrann Bjarni eða Geir? Eða er forsetinn Guðni eða Ólafur Ragnar? Og Hermann? Er þetta nokkuð Hermann vinur minn? Þarna í Valhallarkaflanum leið ég fyrir það að ég er svo vel upp alin.Mér,okkur var uppálagt að tala ekki illa eða niðrandi um annað fólk og alls ekki tala um lýti þess eða kalla það ónöfnum. Takk pabbi og mamma. Ég hef ekki breytt um skoðun. Þessi kafli var bara einhvers konar bókmenntalegt forarfen sem ég þurfti að svamla vegna bókmenntanna sem mig langar svo til að skilja.

Kaflinn um náðhúsið á Stöng sem höfundur hefur komið fyrir á efstu hæðinni í Valhöll er meistaraverk. Svo ég tali ekki um hugleiðingar hvernig hugleiðingar skáldsins um hvernig slíkt náðhús gæti auðgað flokkstarfið og stuðlað að betri liðsheild. Þarna eru tvisvar sinnum 11 setur hlið við hlið. Passlegt fyrir þingflokksfundi.

Það er þarna sem rithöfundurinn Hermann  hittir púkann á fjósbitanum.

Gangtegundir

Það er ógjörningur að lýsa þessari sögu svo vel sé. Mér dettur í hug  að það mætti líkja höfundi við hest sem kann margar gangtegundir. Kaflarnir um Jakob væri þá mjúkt  skeið, kaflinn um forsetann væri tölt en í Valhallarkaflanum brokkar fákurinn og hleypur út undan sér, eys og prjónar.

Tilvitnanir

Þessi bók er full af tilvitnunum í gömul skáld og ný. Sum þekki ég önnur ekki. Mér finnst gaman þegar ég þekki til skáldanna og pirrast ekki þegar ég þekki ekki til þeirra. Hugsaði hlýlega til skáldanna „kannski les ég þig seinna“.

Framtíðin

Það er lítil framtíð í þessari bók, þetta er bók sem verður að lesa núna. Hún er um okkur. Höfundurinn verður heldur ekki frægur í útlöndum, því bókin er fyrst og fremst fyrir Íslendinga, það er svo gaman spá í hver er hver . Og þó, Söguramminn er svo góður að það mætti ef til vill selja hann einan og sér.

Lokaorð

Ég er á móti því að flokka bækur. Hver bók er eins og manneskja, alveg sérstök. En ef ég myndi nú flokka bækur (sem ég geri ekki) myndi ég setja þessa bók  í flokk með Eyrbyggju, Karamazov bræðurna og Sturlungu, bækur sem ég les reglulega.´´

Eftirþanki

Ég nenni ekki að tala um kynjahallann. Ég er ekki viss um að mig langi í viðlíka bók um konur.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2022
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 12
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 190427

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband