Söngur fuglanna hefur ekki breyst

Þar sem ég er stödd í mínum gömlu heimahögum, Norðurdal i Breiðdal, notaði ég tækifærið og skokkaði smávegis, ég hef ekki enn gert upp við mig hvort ég hlaupi hálfmaraþon. Veðrið var eins og best verður á kosið og fuglarnir sungu fyrir mig. Mér fannst það merkileg upplifun að hlaupa í þessum dal sem er að tæmast af fólki, áður fyrr var þar svo mikið líf og ungu mennirnir spiluðu stundum fótbolta á Eyrunum. 

Ósjálfrátt fór ég að hugsa um hvernig væri hægt að stuðla að því að byggð héldist í þessum fallega dal og og ósjálfrátt fór ég að hugsa um forsætisráðherra, þetta er nú einu sinni hans kjördæmi. Hugurinn er svo frjáls og óheftur þegar maður skokkar.  Og allt í einu sló þeirri hugmynd niður, að ég myndi bara eftir einum manni sem hefði áður ætlað leys fjárhags og byggðavanda ríkis með nauðungarflutningum á fólki. Samtímis hugsaði ég, það er ekki rétt að hugsa svona, þér væri nær að hugsa eitthvað uppbyggilegt. Ekki segja nafnið, hugsaði ég. 

Það er gott að hugsa og skokka og um leið og ég slökkti á nafninu sem ekki má segja, vissi ég hvað forsætisráðherra ætti að gera fyrir kjördæmið sitt. Hann á auðvitað að bæta netsambandið. Af hverju bætir hann ekki netsambandið? Fólk er lokað inni.  

Það er gott að hlaupa í Breiðdalnum og tveir af bestu langhlaupurum ÚÍA eru úr Norðurdal eins og ég en það var fyrir mína skokkaratíð. Fuglarnir hafa sjálfsagt sungið líka fyrir Guðmund Jónsson frá Þorvaldsstöðum og Þóri Bjarnason frá Dísastaðaseli þegar þeir hlupu. 

Ég er viss um að fuglarnir myndu líka syngja fyrir ráðherrann ef tæki sig til og skokkaði í kjöridæminu sínu og þá fyndi hann eflast betri lausnir. 

 


Rótað i fortíðinni

Hef notað þjóðhátíðardaginn til að róta i fortíðinni, i bókstaflegum skilningi. Ég nýt þeirra vafasömu forréttinda að hafa mikið geymslupláss, tvær geymslur. Þegar við fluttum úr sveitinni á sínum tíma rótuðum við þangað inn öllu því sem við vorum ekki beinlínis að nota og síðan hefur ýmislegt bæst við. Nú er hvorug geymslan manngeng fyrir ,,drasli".

Ég veit ekki nákvæmlega hvaðan ég fékk styrk til að gera eitthvað í málinu en er að vinna í málinu.  Búin að fara eina ferð i Sorpu og búin að afhenda Góða hirðinum nokkra poka af fötum sem mér fannst mikil eftirsjá, en ég hef ekki notað þau í 20 ár. 

Viðleguútbúnaður frá Hornstrandatímabilinu er allfyrirferðarmikill. Ég þarf að ræða þetta við manninn en mér finnst frekar ólíklegt að við eigum eftir að ganga oftar frá Dröngum i Hlöðuvík með allt á bakinu. Og svo er þetta auk þess margt orðið úrelt. Sama gildir um kassetturnar og vídeókassetturnar. Við eigum ekki einu sinni tæki til að skoða hvað er á þessu. En það er sjálfsagt eitthvert dýrmæt.

Bækurnar eru þó erfiðastar viðfangs. Þegar ég opnaði kassa með gömlu námsbókunum minum frá Uppsölum voru mín fyrstu viðbrögð að sakna bóka sem ,,áttu" að  vera þar. 

Árangur dagsins er að dóttir mín fékk tvo kassa með barnabókum og einn kassa með gömlu legó og nokkrar John Irving bækur. Ég tók nokkrar Kurt Vonnegut bækur með mér upp, ég á enn langt i land við að geta kvatt hann. Ég veit ekki heldur hvað ég muni gera við kassann með gömlu Neistablöðunum.   

 

En af því það er þjóðhátíðardagur hugsa ég um fullveldið, ég er frá tímabili konungsdæmisins. Í mínum uppvexti voru svona geymsluvandamál óþekkt. Það var aldrei neinu hent og kannski ekki alltaf svo mikið til. En það er kannski ekki svo vitlaust að gefa sér tíma til að róta í fortíðinni.

 

 


Fréttablaðið: Um hvað er manneskjan að tala?

Las leiðara Fréttablaðsins í dag (ég reyni að renna yfir leiðarann til að fylgjast með). Hann fjallaði um menningamál og það fannst mér gott. Höfundurinn Friðrika Benónýsdóttir gerði grósku i röðum ungra listamanna að umtalsefni, þeir blómstra og sýna mikið frumkvæði og oft frumleika við að koma sér á framfæri. Það er gaman. Það hefur mér reyndar fundist alla tíð að hafi verið aðalsmerki listamanna (en ég er orðin allfullorðin). En það var ekki þessi hluti leiðarans sem réði því að ég gat ekki orða bundist, heldur hitt að i síðari hluta leiðarans hnýtir hún í móttökur 68 kynslóðarinnar á nýrri list. Þetta finnst mér ómaklegt og veit alls ekki um hvað leiðarahöfundur er að tala.

Ég reiknast víst of gömul til að tilheyra þessari rómuðu kynslóð en ég fer alltaf í vörn þegar hún er nídd niður, hvort sem um hana er rætt í þátíð eða fyrir hvað þessi kynslóð stendur nú.  Ég man nefnilega vel eftir því hvað mér fannst andi þessa fólks sem kennt hefur verið við 68 frelsandi. 

Reyndar finnst mér ekki rétt tala um 68 kynslóðina sem einn samstæðan hóp. Það sem einkenndi þessa tíma var að það voru margir hópar, ólíkar skoðanir og mikil átök. 

En þetta fólk hefur elst og er trúlega jafn ólíkt i dag og það var þá. Ég þekki til margra og finnst þeir eigi ekki skilið að fá þessa ónotalegu kveðju frá Fréttablaðinu. Það þarf ekki að slökkva á loga þessa hóps til að lampi nýrra listamanna lýsi.

En líklega er leiðarahöfundur að tala um einhverjar tilteknar persónur, án þess að nefna nöfn. Af hverju segir hún ekki um hverja hún er að tala?

 

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2014
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband