10 litbrigði af gráu

Ég hef ekki lesið bókina Fifty shades of gray (ekki enn) en dettur titillinn í hug vegna þess  að ég stemd frammi fyrir vali. Það er verið að mála blokkina þar sem bý og á að hluta og þeir sem stýra gangi mála bjóða mér (og auðvitað öðrum) að velja lit. Valið stendur á milli 10 grárra lita. 

Hvað er eiginlega að hjá okkur. Grátt og svart virðast vera tískulitir, borgin, sem einu sinni var þekkt fyrir líflega liti, er að verða samlit götum og gangstéttum. Ég finn fyrir tilfinningu sem lýsir sér i því að finnast allt óraunveruleg og að ég sé vanmegnug. 

Þess vegna varð þessi vísa til (en hún er absúrd):

Er ekki sátt við að allt sé grátt

á ísaköldu landi

Af mér dregur allan mátt

illur stýrir fjandi.

Þessi vísa er ekki bara absúrd, hún er líka leirburður en hún hefur lækningarmátt. Að minnsta kosti fyrir mig. Mér létti stórum um leið og ég var búin að setja hana saman. Það er nefnilega gagnlegt að staðsetja vandann (fjandann). En hann er því miður ekki bara staðsettur í blokkinni minni, þetta er út um alla borg, og stafar af því að elta tískustrauma og hafa i raun enga eigin skoðun. Þetta er hið raunverulega smekkleysi. Það getur ekki verið nein önnur skýring á því uppátæki að bjóða upp á val á milli 10 grárra lita og halda að það sé lýðræði.

Niður með svart og grátt og málum borgina í öllum regnbogans litum. 

 

 

 

 

 

 


Gunnarshólmi er staður í hjartanu

Síðastliðna helgi fór ég með hópi ferðafélaga um Suðurland. Það var rigning og slagveður en það kom ekki að sök þvi það var margt að sjá og það sem ekki sást vegna vöntunar á útsýni, var til varðveitt í hugskoti okkar, í bókum og í ljóðum. Í Fljótshlíðinni var kvæði Jónasar, Gunnarshólmi lesið (innanhúss) og síðan var ekið í skoðunarferð, í leit að Gunnarshólma. 

Nú er það þannig með Gunnarshólma að margir hafa skoðun á þvi hvar hann sé en fáum ber saman um staðsetningu hans. Í kvæðinu segir:

Þar sem að áður akrar huldu völl

ólgandi  Þverá fellur yfir sanda.

Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll

árstrauminn harða fögrum dali granda.

Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,

dauft er í sveitum, hnípin þjóð i vanda.

En lágum hlífir hulinn verndarkraftur

hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.

Þannig endar Gunnarshólmi. Og i gær þegar ég hlustaði á kvæðið flutt við lag Þórðar sonar míns. Það var í Hannesarholti, á vegum Listahátíðar. Flutninginn annaðist Tríóið Sírajón og það var Ingibjörg Guðjónsdóttir sem söng. Allt í mér einu, að enginn hefði skilgreint Íslendingseðlið, þjóðarsálina, betur en Jónas Hallgrímsson. Gunnarshólmi er táknmynd þess sem heldur saman þessari þjóð. Grasblettur á auðum söndum. Hann flæmist til og frá eftir því sem árstraumurinn fellur. En stöðugt verður til nýr bali sem gæti verið  bletturinn, hólminn, þar sem Gunnar nam staðar og leit upp til Hlíðarinnar. Gunnarshólmi er staðsettur í hjarta Íslendingsins, ef til vill bara þar. 

 

 


Mæður - Mæðradagar

Ég er ekki viss um að mér líki við mæðradaginn, frekar en aðra daga sem komið hefur verið á til að minna okkur á, af, ég veit ekki hverjum. Mig  grunar blómasala. Reyndar átti ég góða móður og ég held að það líði ekki dagur sem ég hugsa ekki til hennar. Núna t.d. þegar ég horfi á blómin mín rifjast upp fyrir mér hvernig hún blandaði moldina sem hún notaði á stofublómin.

Við vorum send út í  náttúruna til að ná í það sem með þurfti.

1. Mold úr lyngbarði

2. Sandur neðan af eyrunum við ána

3. Útrignt hrossatað (næstum hvítt, nýtt var of sterkt fyrir blómin)

Þessu blandaði hún síðan saman í réttum hlutföllum eftir tegund blómanna, rósirnar þurftu sandmold, pelagoníur meira af lyngmold. Í botninn á pottunum (sem voru gataðar niðursuðudósir)  setti hún svo skeljabrot. Utan um pottana var síðan settur kreppappír bundinn með pokagarni (pokagarn=upprak úr mjölpoka). 

Mamma mín hét Sigurbjörg Snjólfsdóttir, hún var ekki bara með græna fingur heldur einnig fjárglögg og hugmyndarík handavinnukona.  Hún var umburðarlynd og góð manneskja. Auk þess var hún annálaður dugnaðarforkur og gat snarað bagga á hest, sem yfirleitt var ekki litið á sem kvenmannsverk.

Ástæðan fyrir því að mér fellur ekki við mæðradaginn er að hann lætur mig rifja upp undarlega tilfinningu frá því að ég var barn. Ég hafði verið að lesa einhverja frásögu líklega í Ljósberanum eða Heimilisblaðinu en þessi blöð bárust inn á heimilið fyrir tilstilli Jóns Helgasonar, ritstjóra og prentara. Hann hafði verið giftur ömmusystur minni og var einstaklega trygglyndur maður. Í þessum frásögnum þótti börnum undurvænt um móður sína og tóku hana inn í bænir sínar. Þetta gerðum við ekki og mér varð á að hugsa að líklega fyndist mér ekkert vænt um mína móður. Ég hafði af þessu áhyggjur og fékk sektarkennd. Ekki ræddi ég þetta þó við nokkurn.

Seinna þegar þetta rifjaðist upp fyrir mér, hugsaði ég að mamma mín var jafn sjálfsögð og loftið sem ég andaði að mér. Ég hugsaði um hvorugt, það var þarna og ég gat ekki lifað án þess. Þannig var þetta.


Það sem allir vilja verða en enginn vill vera

Það er sagt að allir vilji verða langlífir en það vill samt enginn vera gamall.

Mér datt þessi mótsögn í hug þegar fjaðrafokið varð út af blaði, sem fólk fékk inn um lúguna hjá sér. Þótt ég hafi orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að eldast, hefur mér aldrei hugkvæmst að skoða lestur minn út frá þeirri breytu. Ekki fyrr en uppistandið varð út af blaði Landssambands eldri borgara en margir urðu hvumpnir þegar blaðið barst þeim. Ég hef reyndar fengið þetta blað í mörg ár án þessa að verða hvumpin en stundum hef ég pirrast yfir að því að mér fannst lítið í blaðinu fyrir mig. 

Vegna umræðunnar ákvað ég að lesa blaðið skipulega, meta það.

Blaðið, sem er gefið út af tilefni 25 ára afmæli landssambandsins hefst á kveðju frá formanni LEB og ávarpi frá forseta. Í báðum tilvikum er reynt að afmarka þennan hóp og skilgreina sérstöðu hans. Síðan taka við greinar með fréttum úr starfinu og fræðandi greinum um málefni sem gætu varðað eldri borgara öðrum fremur. Í þeim flokki eru t.d greinar um Hamingju á efri árum, aukakíló, áfengisveitingar  á elliheimilum og þjónustu TR. Loks eru greinar sem flokka mætti sem afþreyingu. Dæmi um það eru:krossgáta, vísnahorn, fræðsluhornið (matur og prjónauppskriftir) og margt fleira. Þetta er sem sagt fjölbreytt efni en kannski ekkert sem beinlínis heillar mann, ef maður er ekki á kafi í félagsmálum þessa hóps.

Lesturinn leiddi hug minn ósjálfrátt að öðru blaði (ef blað skyldi kalla) sem ég ánetjaðist í þetta eina sinn sem ég hef verið gestur í frístundabústaðaparadís á Spánarströndu. En íbúarnir þar eru flestir við aldur. Ég fór þangað með vinfólki og reyndi að falla inn í lífsmátann. Til að fá fregnir af því sem sem er á boðstólum, lásum við upplýsinga og auglýsingabækling á þýsku. Það sem ég féll fyrir var þó ekki það sem ég gat keypt, heldur brandarar sem voru á við og dreif um ritið. Þeir voru missvæsnir og merktir með gulum, appelsínugulum og rauðum lit. Þetta fannst mér skemmtilegt enda fór mér fram i þýsku meðan ég bjó þarna. Síðan hefur þáverandi gestgjafi minn passað upp á að taka með sér skatta af slíkum brandarablöðum í hvert sinn sem hún kemur heim úr dvöl sinni. 

Af því ég sit nú með ólesinn bunka, fór ég ósjálfrátt að bera þessi rit saman og reyna að skilgreina út frá því hvað einkenni gamalt fólk. Mér sýnist að fólkið hér heima sé upp til hópa félagslynt og þyrst í fróðleik meðan eldri borgararnir á Spáni virðast klámfengar eyðsluklær.  En ég ætla ekki að segja ykkur hér hvort blaðið freistar mín meira.

Að lokum. Ég var búin að þýða einn ósmekklegan brandara sem sýnishorn. Það átti að vera til þess að þið lesendur gætið séð muninn á þessum menningarheimum aldraðra. En þegar til kom fannst mér hann of kvenfjandsamlegur, svo ég eyddi honum. Vil ekki taka þátt í að dreifa óþvera.

Noðurstaða mín varðandi lesefni fyrir þennan hóp er að það þurfi að vera fjölbreytt, því þetta er fyrst og fremst venjulegt fólk. Við erum alls konar 

 


Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur: Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu

Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur: Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu flokkast víst ekki undir ævisögu þótt kveikjan að henni sé ævisögubrot ritað upp eftir gamalli konu sem segir frá. Guðrún er þá, að talið er, komin á níræðisaldur. Henni er greinilega mikið niðri fyrir og hún hefur frá mörgu að segja. Sagt er að Sigfús Jónsson hreppstjóri hafi skráð frásögn hennar þegar hún var gestkomandi að Syðra- Laugalandi í Öngulstaðahreppi. Það erfitt að ráða í hvað honum gekk til, fannst honum þetta merkilegt eða var hann að gera grín að gömlu konunni. Ekki er þó vitað með vissu hvort hann skráði þetta eður ei.

Höfundur bókarinnar notar þessa frásögn sem undirstöðu í rannsókn sína. Við fáum að kynnast Guðrúnu og aðstæðum hennar. Hún fæddist árið 1759 og dó 1842, þetta er því ekki bara 18. aldarsaga. Meginhluta ævi sinnar vann hún hjá öðrum. Það er enginn kengur í henni eða barlómur, sýnist mér. Hún virðist vera óhrædd, leitar réttar síns og tekur stórt upp í sig. Þrátt fyrir erfiðisvinnu, basl og mikil vonbrigði með manninn sem hún féll fyrir, sé ég ekki betur en að hér fari stolt kona. Ef henni væri augnablik kippt inn í nútímann og lýst með tungutaki dagsins í dag mundi ég segja að þarna færi kona með sterka sjálfsmynd sem stæði með sjálfri sér. 

Þó vitneskja okkar sé lítil um líf vinnufólks þessa tíma og það sé erfitt að ímynda sér hvernig því leið á þessu dekksta tímabili í sögu þjóðarinnar.  Höfundur bókarinnar, Guðný Hallgrímsdóttir, opnar okkur glugga til að horfa á líf einnar konu. Þannig sjáum við óbeint líf margra. Bókin er spennandi og örlög konunnar sem var send í vist 12 ára gömul, var svikin og lítilsvirt af manninum sem hún giftist er grípandi. Sérstaklega finnst mér frásagan af því hvernig hún reyndi að hafa drenginn sinn hjá sér átakanleg.

Það er mikill fróðleikur í þessari bók og á meðan að ég las hana dáðist ég að því, hversu mikið er til af skráðum heimildum frá þessum tíma. Það hefur ekki verið lítið starf hjá prestunum að heimsækja hvert heimili tvisvar á ári og skrá það sem þeim fannst um kunnáttu og karakter sóknarbarna sinna. En hvernig skyldi það nú hafa verið að fá þessar heimsóknir?

Mikið fannst mér gaman að lesa þessa bók.

Guðrún Ketilsdóttir dó árið 1842, það er auðvelt að muna það fyrir mig því 100 árum seinna fæðist ég. Í raun er það ekki langur tími en mikið höfðu kjör fólks batnað, þó vissulega væri margt ógert og sé enn, með tilliti til sómasamlegrar stöðu verkafólks.

 

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2014
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband