Mæður - Mæðradagar

Ég er ekki viss um að mér líki við mæðradaginn, frekar en aðra daga sem komið hefur verið á til að minna okkur á, af, ég veit ekki hverjum. Mig  grunar blómasala. Reyndar átti ég góða móður og ég held að það líði ekki dagur sem ég hugsa ekki til hennar. Núna t.d. þegar ég horfi á blómin mín rifjast upp fyrir mér hvernig hún blandaði moldina sem hún notaði á stofublómin.

Við vorum send út í  náttúruna til að ná í það sem með þurfti.

1. Mold úr lyngbarði

2. Sandur neðan af eyrunum við ána

3. Útrignt hrossatað (næstum hvítt, nýtt var of sterkt fyrir blómin)

Þessu blandaði hún síðan saman í réttum hlutföllum eftir tegund blómanna, rósirnar þurftu sandmold, pelagoníur meira af lyngmold. Í botninn á pottunum (sem voru gataðar niðursuðudósir)  setti hún svo skeljabrot. Utan um pottana var síðan settur kreppappír bundinn með pokagarni (pokagarn=upprak úr mjölpoka). 

Mamma mín hét Sigurbjörg Snjólfsdóttir, hún var ekki bara með græna fingur heldur einnig fjárglögg og hugmyndarík handavinnukona.  Hún var umburðarlynd og góð manneskja. Auk þess var hún annálaður dugnaðarforkur og gat snarað bagga á hest, sem yfirleitt var ekki litið á sem kvenmannsverk.

Ástæðan fyrir því að mér fellur ekki við mæðradaginn er að hann lætur mig rifja upp undarlega tilfinningu frá því að ég var barn. Ég hafði verið að lesa einhverja frásögu líklega í Ljósberanum eða Heimilisblaðinu en þessi blöð bárust inn á heimilið fyrir tilstilli Jóns Helgasonar, ritstjóra og prentara. Hann hafði verið giftur ömmusystur minni og var einstaklega trygglyndur maður. Í þessum frásögnum þótti börnum undurvænt um móður sína og tóku hana inn í bænir sínar. Þetta gerðum við ekki og mér varð á að hugsa að líklega fyndist mér ekkert vænt um mína móður. Ég hafði af þessu áhyggjur og fékk sektarkennd. Ekki ræddi ég þetta þó við nokkurn.

Seinna þegar þetta rifjaðist upp fyrir mér, hugsaði ég að mamma mín var jafn sjálfsögð og loftið sem ég andaði að mér. Ég hugsaði um hvorugt, það var þarna og ég gat ekki lifað án þess. Þannig var þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einstaklega ánægjuleg lesning, elsku Berþóra mín.

Kristín Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 18
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 83
  • Frá upphafi: 187351

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband