Rætur lyginnar

Kannski vantar eitthvað upp á að Guð almáttugur hafi mótað boðorðið um lygi nægilega vel áður en hann lét Móses um að meitla það í steininn. Mér finnst of afmarkað hjá honum að segja að maður eigi ekki að bera ljúgvitni gegn náunga sínum. Og hver er náungi minn, ef út í það er farið. Má ég kannski segja ósatt um allt mögulegt annað en þarna er til tekið? Nei, svona hugsar fólk ekki.

Reynsla mín er reyndar sú að börn læra snemma að þau eigi að segja satt og þau skilja vel að það er í flestum tilvikum farsælla til lengdar. Oft hafa þau líka prófað sig áfram og sannreynt þetta. Flest full orðið fólk er sammála um að hreinskilni og sannleikur er undirstaða heilbrigðra samskipta. Og hjá flestum er þessi trú eða skoðun svo inngreipt í vitundundina að fólki líður beinlínis illa ef það stendur sjálft sig að því að segja ósatt. 

Á þessu eru þó undantekningar. Ég hef tekið eftir því að það eru til að minnsta kosti tvær tegundir lygara.

1. Þeir sem ljúga blákalt, horfast einarðir í augu við viðmælanda sinn (og í myndavélina ef svo ber undir). Þetta fólk er oftast vel undir búið  og fær jafnvel annað fólk í lið mér sér. Því finnst jafnvel að það sé að verja góðan málstað.

2. Þeir sem vita ekki að þeir eru að ljúga, fullyrða út í loftið og blanda saman sönnum og ósönnum fullyrðingum. Ég hef mikið velt þessari tegund ósannindamanna fyrir mér og hallast að því að þessi árátta geti skýrst af tvennu: óskýrri hugsun og/eða óskhyggju.

Ég veit vil helst ekki tala um af hverju ég er að segja þetta núna, kannski vita lesendur mínir það. En mér finnst ég alltaf sjá hvenær einhver segir ósatt eða hagræðir sannlekanum. Og ég býst við að svo sé um fleiri. 

Rætur lyginnar geta sem sagt verið ólíkar en það erum við sem borgararnir sem erum jarðvegurinn. Við leyfum lyginni að slá rótum 

 

 

 


Hvað er verið að gera við kjötið og mjólkina?

Uppalin í sveit, í gamla daga, hugsa ég stundum þegar ég borða landbúnaðarafurð, hvað er eiginlega búið að gera við kjötið eða mjólkina. Ég þekki þá tíð, þegar allar þessar vörur voru unnar frá grunni á heimilunum og það var allt annað bragð. Það er oft talað illa um gamlar matarhefðir, stundum af vanþekkingu og stundum með réttu. Það hafa orðið miklar tæknilegar framfarir sem auðvelda geymslu á mat svo matargerð ætti að hafa fleygt fram. En oftast skilar það sér ekki í betra bragði. Ég veit ekki hversu oft og mikið ég hef hlustað á umræður um að ,,unnar matvörur" séu ekki hollar. Mér finnst þetta vera tugga, spurningin er hverju er blandað saman við.

Ég held að þarna hljóti að vera við milliliðina, afurðastöðvarnar eða hvað það nú heitir, að sakast. Það er ekki verið að meðhöndla vöruna rétt. Um daginn frétti ég af því að það væri hægt að kaupa óhrært skyr beint frá býli fyrir austan fjall og þvílíkur munur. Ég er löngu hætt að kaupa ,,unnar kjötvöru" reyndar unnar fiskvörur líka. Ef mig vantar álegg á brauð fer ég í pólsku búðina á Laugateig. 

 En þetta vandamál snýst ekki um mig og minn smekk eða matvendni. Það snýst um íslenskan landbúnað. Og eins og ég sagði í upphafi, er ég bóndadóttir og ég veit að ef eitthvað er þá á íslensk landbúnarvara að vera að minnsta kosti að  jafn góð og fyrrum. Og nú þegar um er rætt að breyta tollaumhverfi sem snúa að landbúnaði, ætti fyrsta krafan frá þeim sem vilja íslenskum landbúnaði vel að krefjast þess að ,,milliliðirnir" skili betri vöru.

Ég held að það þurfi einfaldlega að vanda sig. 

 

 


Núvitund

Ég skokka.  Í gær sannfærðist ég loksins um að fólk, sem hefur stöðugt verið að tala um slæmt veður, hefur trúað Því sjálft. Ég hélt nefnilega að þetta væru bara látalæti í fólki. En allt í einu voru allir stígar og allar götur fullar af fólki. Það var ekki þverfótað fyrir fólki og ég þekkti marga og sumir vildu að sjálfsögðu taka mig tali og spjalla. Ég hef séð í amerískum bíómyndum, að alvöruskokkarar, sem eru teknir tali, skokka á staðnum á meðan þeir spjalla, ég er ekki búin að ná valdi á þeirri list. Kann ekki við það. 

 Hugsaði um núvitund og hvort það væri ekki bara nýtt orð yfir að vera með sjálfum sér. Mætti manni sem var að ganga og tala í síma. Hugsaði um að líklega væri hann ekki með sjálfum sér heldur með öðrum. Var hann þá ekki í núvitund? Hugsaði um sjálfa mig og hvernig hugsun mín er út um allt þótt ég sé ein með sjálfri mér. Hugsunin stýrist af minningu um staði. Á ákveðnum stað hugsa ég um manninn sem var að laga drenið við húsið sitt í fyrra. Dag eftir dag hljóp ég fram hjá honum og hugsaði: Mikið er hann nú duglegur, líklega komin á eftirlaun eins og ég. Ég hljóp út á götu til að vaða ekki í mold og möl sem búið var að róta út á gangstéttina. Ég hugsaði:Mikið verður þetta nú fínt þegar það er búið. Núna hugsa ég ekki lengur hlýjar hugsanir meðan ég skokka fram hjá þessu húsi. Ég hugsa: Bölvaður kallinn. Hann er búinn að þekja garðinn sinn með  steinsteypu, ekki ein einasta planta. Ekki eitt blóm.  Svona fólk ætti ekki að fá að eiga garð.

Ég veit að ég á ekki að hugsa svona, líklega ætti ég breyta um leið.  Ég hætti að skokka annars ágæta og hæfilega langa skokkleið, þegar ég stóð mig að því, að á tilteknum stað, að hugsa síendurtekið um hundaskít. Þetta var, ekki í vetur heldur hinn, einhver hundaeigandi hafði pakkað skítnum inn og skilið hann eftir. Lengi, lengi. Og svo þegar búið var að fjarlægja pokann hugsaði ég enn, þarna var hann. Nú fer ég aðra leið. 

Í gær skein sólin og það var sterk angan af blómunum, rósum og ég mætti vinum. Í upphafi hélt ég að ég hefði skilið hvað væri átt við með orðinu núvitund, nú veit ég að ég hef ekki hugmynd um það. Hugsanir koma óumbeðnar, ég reyni ekki að stöðva þær en ég hef lært að láta ljótar hugsanir ekki dvelja lengi hjá mér. Þær eru íþyngjandi. 

 


Hrossakjöt í matinn

Við, ég og maðurinn minn, höfum nú verið gift í 37 ár. Mér fannst ástæða til að halda upp á þetta, svona af því að ég mundi eftir því. Hvernig á fólk sem hefur verið gift i 37 ár að gera sér dagamun? Málið hafnaði á mínu borði. Eftir að hafa velt fyrir mér ýmsum möguleikum, ákvað ég að matreiða hrossakjöt. Ég trúi því nefnilega sjálf að þannig hafi ég unnið hug hans a sínum tíma. Pönnusteikt hrossakjöt með sveppum og rjómasósu, það gerði lukku. Þetta passaði mínum efnahag.

i dag keypti ég að vísu folaldakjöt og matreiddi það sem róstbíf, framúrskarandi. Meðlætið var það sem á sænsku gengur undir nafninu slottspotatis. 

Drengurinn sem afgreiddi mig í Nóatúni í dag hélt reyndar að trippakjöt væri af eldri dýrum en hrossakjöt og þakkaði mér fyrir fræðsluna um, folald, trippi, hross. Ég held að hann hafi meinað það í alvöru. 

Þetta var sem sagt fullkomin máltíð, en er ástæða til að halda upp á afmæli sem enda á 7 ?

Það var Hjördís Hákonardóttir sem gaf okkur saman (ég spurði hvort ekki væri hægt að fá konu). Það gekk vel og á eftir fórum við í bíó, Pasólíni. Við vorum hvort sem er búin að fá barnapössun. 


Fullkomið veður til að skokka

I dag var fullkomið veður til að skokka, logn og 15 stiga hiti. Ég hugsaði um þetta meðan ég hljóp og hugsaði um hvað það er oft búið að vera gott skokkveður í sumar. Ekki verri mælikvarði á veður en hvað annað.  Ég hleyp fjórum fimm sinnum i viku og hef, ekki svo ég muni, lent i slæmu veðri þetta sumarið. Ég hleyp ein. Ekki með neitt i eyrunum og ekki með tæki til að mæla vegalengdina (ég mæli hana netinu þegar heim er komið) og ekki með púlsmæli. Ég hleyp fyrst og fremst sjálfri mér til ánægju og svo trúi ég því að það sé gott fyrir heilsuna. Ég er reyndar búin að skrá mig í hálfmaraþon en það er til gamans gert. 

Það sem gerir skokk skemmtilegt er að það er svo góð aðferð til að skoða umhverfið. Á hef skokkað á ferðalögum erlendis, þannig gefst nýtt sjónarhorni sem gefst ekki öðru vísi.

 Í skokki mínu í dag ók lögreglubíl fram hjá. Það kveikti à hugsunum um skokk í glæpamyndum. Ég hef meiri ánægju af því að horfa á góðan eltingaleik en á kappakstur. Ég horfi gjarnan á skóna. Yfirleitt eru löggurnar illa skóaðar með tilliti til hlaupa, "glæpamennirnir" eru betur búnir til fótanna. Allt i einu fór ég að hugsa um sérstakan saksóknara og íslenska "glæpamenn", svona reikar hugurinn þegar maður skokkar. Hann, sérstakur, myndi ekki ná mörgum á skokkinu, honum hentar betur að vinna að rannsóknum. 

Já, skokk, er á við góða bók. Líklega er ekki hægt að lýsa því betur 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2014
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband