19.6.2021 | 15:26
Konan kemur við sögu: Í tilefni dagsins
Þessi bók kom mér á óvart, ég vissi ekki að hún væri til fyrr en hún birtist allt í einu á lista Hljóðbókavefsins yfir ný-innlesnar bækur. Í bókinni eru 52 greinar, þar sem konur koma við sögu. Þær eru mislangar og fjalla um allt mögulegt. Það er Árnastofnun sem ber veg og vanda af bókinni. Efni hennar kom fyrst út 2015 á vef stofnunarinnar. Hún er þeirra framlag til að minnast 100 ára kosningarréttar kvenna. Greinarnar komu síðan út á bók 2016.
Bækur og svefn
Loksins, loksins hugsa ég, nú fær grúskarinn í mér einhverja næringu. Ég var í miðju kafi við að lesa spennubók (meira um hana síðar) og hugsaði mér gott til glóðarinnar að hafa bókina Kona kemur við sögu sem kvöldlesningu. Til að komast í værð, sofna fljótar og fá betri svefn. Þetta snerist þó fljótlega við, bók Árnastofnunar varð að spennubók. Hin varð að bíða.
Innihaldsríkur lestur
Greinarnar í bókinni eru mislangar og ólíkar hvað varðar efni. Sumar eru nálægt okkur í tíma, aðrar eru fjær. Auðvitað get ég ekki fjallað um 52 greinar í stuttum pistli en ætla að velja 3 til þess að væntanlegir lesendur fái nasasjón af því, hvað ég er að tala um.
Konan sem vildi mæla máli sínu: Eva María Jónsdóttir
Í greininni leitast Eva María við að svara því af hverju karlmennirnir í Svarfaðardal voru svo vondir við Yngvildi fagurkinn. Ég hef sjálf gert nokkrar atrennur til að komast í gegn um Svarfdælu og varð satt að segja fegin að ég er ekki ein um að þykja hún strembin. Meðferð karlanna á þessari duglegu og vænu konu er óskiljanleg. Reyndar er fleira illskiljanlegt í þessari skrýtnu sögu. Það var gaman að lesa/hlusta á samantekt Evu Maríu en ég er ekki viss um hvort henni tókst fyllilega að skýra framferði Svarfdæla.
Handrit úr fórum Guðríðar Jónasdóttur frá Svarfhóli: Gísli Sigurðsson
Hér segir Gísli frá því sem kom upp úr kökuboxi föðursystur hans, Ragnheiðar Kristjönu Baldursdóttur, sem hann fékk að gramsa í . Þar á meðal var umslag merkt Guðríði Jónasdóttur móður Jóhanns Gunnars Sigurðssonar skálds, sem lést 1906. Þarna voru bréf sem farið höfðu á milli Guðríðar og Baldurs Sveinssonar en Baldur og Jóhann Gunnar voru vinir og skólabræður. Eftir að Jóhann Gunnar lést skrifaði Guðríður Baldri bréf til að þakka honum hversu vel hann hafði reynst Jóhanni í veikindum hans. Í kökuboxinu var auk þess handrit með ljóðum Guðríðar. Mér fannst ævintýri líkast að lesa þessa grein enda mikill aðdáandi ljóða Jóhanns Gunnars.
Heilög Margrét verndardýrlingur ljósmæðra og fæðandi kvenna:Ludger Zeevaert
Í þessari grein lýsir höfundur handriti í litlu broti sem notað var til hjálpar fæðandi konum. Handritið skyldi vera spennt utan um læri konunnar meðan á fæðingu stóð. Auk þess að lýsa handritinu, rekur hann sögu dýrlingsins. Voðalega veit maður lítið um trúarbrögð fyrr á öldum.
Lokaorð
Framúrskarandi lesning. Ég á oft eftir að glugga í hana. Það er Ásdís Thoroddsen sem les, hún les vel að vanda og er ekkert að flýta sér.
Bókin er nokkuð löng, tekur 10 klukkustundir og 40 mínútur í aflestri. Auk þess hefur hún að geyma fjölda mynda, sem eru í senn fræðandi og til ánægju fyrir augað.
Myndun af valkyrjunni er tekin að láni úr bókinni
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.