Dagbók úr fangelsi Sigurður Gunnarsson

2C2482B9-E281-4C59-94D7-8D0332413597Dagbók úr fangelsi  

 Það er aldrei einfalt að ljúka bók og velja nýja. Fyrst þar f maður að kveðja  þá sem er búin, síðan hefst leitin að nýrri.  Bækur hafa margvís leg áhrif á líðan, þær  gleðja, fræða, róa og eru góðar til að sofna útfrá. En fyrst og fremst hafa þær þó sögu að segja sem þú getur speglað þig í.

Vandinn við að velja bók við hæfi.

HBS birtir jafnóðum lista yfir bækur sem hafa verið lesnar inn og auðvitað hefur það líka áhrif á valið. Þegar ég sá að lesin hefði verið inn Dagbók úr fangelsi, hvarflaði ekki að mér að lesa hana, datt ekki í hug að þetta væri bók fyrir mig. Ég hef svo sem oft lesið frásagnir um fangelsisdvöl og nú síðast  bókina Ef þetta er maður eftir Primo Levi. Ég hef enn ekki sagt frá henni hér, er að safna kjarki. Áður í sumar las ég  bókina Istanbúl Istanbúl eftir Burhan Sönmez.

En síðan varð forvitnin yfirsterkari: hvernig skyldi lífið vera í íslensku fangelsi?

Og þar með var áhugi minn vakinn.

Litla Hraun

Bókin er eftir Sigurð Gunnarsson. Hún er eins og titillinn segir, dagbók. Dagbókin rekur  það sem á dagana dreif nokkurn  veginn frá degi til dags þessa fimm mánuði sem fanginn situr inni. Við þetta bætast ýmis fylgiskjöl, svo svo sem bréf sem höfundur skrifar fyrir samfanga sína og hans eigin bréf. En fyrst og fremst er dagbókin hugleiðingar höfundar um samskipti hans við aðra fanga og  við fangaverði. Bókin er gagnrýni á fangelsið,  margt gæti verðið betra, oft er réttur fanganna ekki virtur og auðvitað eru fangelsi algjör vitleysa. Hver verður betri maður af því að vera í fangelsi? Auk  þess kosta fangelsi heilan helling og þeim peningum væri betur varið til að gera ýmislegt annað. Ég held að það sem segir hér að framan, sé nokkurn veginn það sem Höfundur leggur áherslu á. Hann er fullur af réttlætiskennd. Hann er vel að sér og vill að það sé farið að lögum. Oft aðstoðar hann samfanga sína  þegar ágreiningur kemur upp í samskiptum þeirra við fangelsisyfirvöld.

Ég var hissa á því hversu oft þetta snerist um vinnu innan fangelsisins. Það virðist vera skortur á vinnuframboði og fangar vilja gjarnan vinna þótt kaupið sé lúsarlega  lágt.

En það er ekki allt neikvætt við að vera í fangelsi. Sigurður hefur gaman af tónlist og talar oft um það sem hann er að hlusta á og og hann tekst einnig á við að þýða bók. Það skín við í gegnum alla frásögnina að hann vill láta gott af sér leiða.

Gamall kunningi

Ég var ekki komin langt inn í bókina þegar ég áttaði mig á því að ég þekkti höfund bókarinnar. Hann tilheyrði nemendahópnum frá því ég var í Uppsölum 1977-1980. Auðvitað breytti þetta upplifun minni af lestrinum. Ég varð jákvæðari og hugsað nú með sjálfri mér þegar mér fannst hann vera að sökkva í dý neikvæðni. Framan af lestrinum hafði ég oftar en einu sinni látið það fara í taugarnar á mér hversu neikvæður höfundur var út í starfsmenn fangelsisins og yfirstjórn fangelsismála og túlka allt á versta veg, en eftir að ég vissi hver maðurinn var, hugsaði ég bara  æ, æ, Siggi.

Ég vissi sem er að öll ákvarðanataka í stjórnkerfinu er sein í vöfum, svo ekki sé meira sagt. Mér fannst oft  túlkun hans jaðra við ofsóknarfælni. En það er ekki mitt að koma með greiningar á fólki og fella dóma. Ég á að halda mér við að skilja bækur mínum skilningi og til þess er ég að skrifa þessa pistla. Oft vantar fé til úrbóta.

Þótt bókin sé í dagbókarformi og því eðlilega full af endurtekningum, er hún skemmtileg aflestrar. Það er greinilegt að að Sigurður er góður penni.

Það er Árni Blandon sem les, hann er úrvalslesari.

Lokaorð

Ég nefndi hér að framan þær bækur sem gerast í fangelsum, sem eru mjög ólíkar því sem lýst er í þessari bók. Önnur bókin, Ef þetta er maður gerist í útrýmingarbúðum. Hin gerist í tyrknesku fangelsi, þar sem reynt er að pína fólk til sagna. Auðvitað er slíkt ekki til á okkar litla Íslandi. (Ekki lengur). Eina bók hef ég þó lesið sem gæti verið sambærileg við þessa. Hún heitir 30 dagar í Sunnefjord og er eftir Vigdis Hjort. Þar lýsir hún lífi sínu í fangelsi þegar hún sat inni fyrir umferðalagabrot. Það var mikið áfall fyrir hana, því hún er þjóðþekktur einstaklingur. Gagnrýni hennar í bókinni beinist fyrst og fremst að henni sjálfri. Hún er full af skömm. Já bækur eru alltaf hver annarri ólíkar, eins og fólkið sem skrifar þær. Allar auka þær okkur skilning.


Frásagnir af Þögla : Cecil Bødker

 B42FB887-88A8-4110-92A8-6B2E30656564

Frásagnir af Þögla

Í gamla daga þegar ég var ung fylgdust nær allir með sögum sem lesnar voru í útvarpið. Frásagnir um Þögla er ein af þeim. Hún var lesin 1986 og það er Nína Björk sem les en hún er einnig þýðandi sögunnar. Bókin er eftir danska höfundinn Cecil Bødler. Bækur sem lesnar hafa verið í útvarp eru gjarnan aðgengilegar í HBS.

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég rakst á þessa bók á ráfi mínu um vef HBS. Þetta er áhugavert hugsa ég úr því Nína Björk hefur valið hana til að þýða og lesa í útvarp. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Sagan

Allt í einu er ég komin í annað land. Til Danmerkur,held ég. Drengurinn, sem gengur undir nafninu Þögli er að uppgötva sjálfan sig og heiminn. Hann hefur hlustað á önnur börn tala um mömmu og pabba og dettur þá allt í einu að hann hljóti einnig að eiga foreldra. Hann hefur alist upp hjá ömmu sinni og spyr hana. Auðvitað átt þú móður segir hún, allir eiga móður. Maður fær að fylgjast með nokkrum samtölum þeirra í sögunni, þau eru sérstök. Allt er sérstakt i þessari bók. Lesandinn fær að fylgjast með nokkrum svipmyndum úr ævi Þögla, fær að sjá hann þroskast.

 Þetta er dásamleg bók, ekki síst fyrir það sem er látið ósagt.

Nína Björk

Sjálfsagt á Nína Björk sinn þátt í því, hversu gaman og gott fyrir sálina er að hlusta á söguna um Þögla. Það var hún sem valdi söguna, þýddi hana og les. Ég veit ekki hvort þessi saga var einhvern tíma gefin út sem bók . Grunar að svo sé ekki. Hvað sem því líður er þessi litla saga perla.

Um höfundinn

Cecil Bødker er danskur rithöfundur, fædd 1927 og dó 2020. Hún hefur alveg farið fram hjá mér, þó las ég talsvert af dönskum bókum hér áður fyrr. Það var auðvelt að finna þær í bókabúðum. Nú virðist sem bækur á ensku hafi tekið við. Ef leitað er að bók á norðurlandamáli finnur maður hana á nsku. Hér er best að slá botni í þennan pistil, ég er komin langt frá efninu.


Strendingar: Yrsa Þöll Gylfadóttir

Strendingar Yrsu 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1EÞallar

Loksins gafst mér tækifæri til að lesa/hlusta á Strendinga, bók Yrsu Þallar Gylfadóttur, sem kom út 2020. Það er sem sagt búið að lesa hana inn.

Þetta er fjölskyldusaga, saga dæmigerðrar íslenskrar fjölskyldu, mamma, pabbi og þrjú börn. Sagan gerist í þorpi,  á landsbyggðinni. Móðirin  Eva vinnur sem byggingafulltrúi og stendur í ströngu því hugmyndir hennar um að laga gömlu kirkjuna í stað þess að byggja nýja stangast á við hugmyndir hinna í stjórn bæjarins. Þegar hún kemur úr barneignaleyfi, er búið að samþykkja byggingu nýrrar kirkju og steypa sökkulinn. Eva fær taugaáfall, verður veik.

Pétur maður hennar hefur unnið á auglýsingaskrifstofu, en er nú heima í barneignarfríi.

Silja, elsta barnið og stjúpdóttir hans er á kafi í tölvuleikjum. Hún skrifar líka  sögu sem hún setur á netið og slær í gegn.

Miðjubarnið, Steinar, sex ára, verður afar hændur að afa sínum Bergi, sem dvelur tímabundið á heimilinu.

Litla stúlkan, Ólafía, er rétt byrjuð að tala sín fyrstu orð. Á heimilinu er líka köttur.

Ég ætla ekki að rekja  söguþráð þessarar bókar frekar, heldur tala um það sem mér finnst sérstakt við þessa bók. Þ.e. stíllinn og frásagnarmátinn. Yrsa ljær öllum persónum sínum rödd, líka kettinum. Þess vegna er sagan margradda, sjónarhorn þeirra eru ólík. Eva sem er í eðli sínu raunsæiskona hefur verið slegin út af laginu. Það er ekki bara stjórn bæjarfélagsins, sem er á móti henni, heldur allt þorpið. Hinn orðhaga Pétur langar að skrifa ljóðabók. Kaflinn sem hann leikur sér að orðum og stöfum er framúrskarandi. Það kom mér á óvart hvað þessi litla bók er efnismikil.

Ég má ekki láta hjá líða að ræða sérstaklega um gamla bóndann, Berg. Hann er kominn út úr heiminum og lifir í sínum einkaheimi sem er fullur af firrum. Synir hans hafa ekki hugmynd um það. En þegar Pétur tekur hann heim til sín er þó svo mikið eftir af honum að hann verður kærkominn félagsskapur fyrir drenginn Steinar.

Skiptir staðsetning máli?

Þegar ég les íslenskar sögur get ég aldrei varist að reyna að staðsetja þær. Ég brenn í skinninu. Og þar sem höfundurinn segir ekkert um þetta, ákveð ég það fyrir hann. Ég set byggðarlagið í Sjálfstæðu fólki hiklaust niður á Jökuldalsheiðina og þorpið hennar Sölku Völku kalla ég í huga mínum Þórshöfn. Ég veit að ég hef ekkert fyrir mér í þessu en hætti samt ekki að leita að stað fyrir sögur með skálduðum nöfnum á landakortinu. Auðvitað er ég búin að finna stað fyrir Stapaströnd en ætla að halda því fyrir mig.

Ég hef þegar talað um hversu vel Yrsa Þöll  lýsir lífi gamla bóndans Brands. Samt get ég ekki staðist að láta vissa ónákvæmni um orðalag fara í taugarnar á mér. Maður talar ekki um bása í fjárhúsum og sauðir eru ekki lengur hluti af hjörðinni. Nema ef vera skyldi staka forystusauður. Ég get reyndar ekki fullyrt neitt um þetta með vissu nema það sem tíðkaðist í Breiðdalnum í eldgamladaga.

Heimiliskötturinn Mjálmi er merkilegur með sig, telur sig vera hefðarkött og heita Sahure og vera langt yfir aðra hafinn.

Allt í einu er sagan búin, mér finnst hún vera endaslepp. En hugsa svo „hún er eins og lífið, maður ræður engu um lengd þess.“

Vonandi kemur Yrsa Þöll fljótlega aftur með nýja bók. Og vonandi klárar fjölskyldan í Stapafirði sig án mín.

Lokaorð

Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók, hún var oft fyndin (ég gleymdi að segja frá því). Það er María Lovísa Guðjónsdóttir sem les.Ég hefði viljað fá hana fyrr, því ég er bókaunnandi og skrifar um bækur. Það er leiðinlegt að skrifa um „nýja“ bók sem er að verða þriggja ára gömul.


Ru: Kim Thúy

0F12344F-42A1-49A5-9909-9EEA3BB52B27

Ru

Ru er lítil bók sem leynir á sér. Hún er eftir Víetnam-kanadiska rithöfundinn  Kim Thúy (fædd 1968) sem Vkom með foreldrum sínum sem bátaflóttamaður til Kanada tíu eða ellefu ára gömul. Fyrstu Víetnamarnir sem komu hingað voru líka bátafólk.

Ég vildi óska að ég hefði verið búin að lesa þessa bók þá, því það kom í minn hlut að fylgjast með hvernig börnunum vegnaði í skóla. Nú finnst mér að ég og við öll hafi vitað svo lítið. 

Að flýja ættland sitt

Þegar her Norður- Víetnam hafði sigrað í stríðinu og sameinað Norður og Suður- Víetnam reyndu margir að flýja land, þar á meðal fjölskylda Kim. Þau voru efnafólk, sem kom sér vel, því fargjaldið í bátunum kostaði sitt. Ferðin yfir hafið var hættuleg og aðbúnaðurinn var líkari gripaflutningum en farþega flutningum. Þau voru heppin. Það var ekki ráðist á skipið af sjóræningjum og þau komust heilu og höldnu til Malasíu þar sem þau voru vistuð í yfirfullum flóttamannabúðum. Ástandið þar var hræðilegt. Loks bauðst þeim að flytja til Kanada, til Quebec. Þar tók við hið erfiða og stóra verkefni að læra nýtt mál og aðlagast nýju landi. Það virðist hafa gengið vel því Kim tókst að  menntast og finna sér hlutverk.

 Bókin

Ru er fyrsta bók höfundar. Hún kom út 2009 en síðan hafa komið út fleiri bækur eftir hana.

Ru er lítil bók, safn frásagna og hugleiðinga. Hún minnir helst  á ljóð. Hún er að hluta til ævisöguleg, byggir á reynslu hennar og minningabrotum án þess að rekja söguna í heild sinni. Hún segir frá fjölskyldu sinni í gamla landinu og frá tímanum fram að flóttanum, eftir að kommúnistar höfðu tekið hús þeirra eignanámi og úthlutað þeim ákveðnu rými til afnota.

Faðir Kim hafði svo illan bifur á kommúnistunum að hann sagði dóttur sinni seinna að ef fjölskyldan hefi fallið í hendur kommúnista eða sjóræningja, hefði hann verið tilbúin til að drepa þau öll með blásýru.  

Hvað er mikilvægt?

Það er trúlega ekki ytri veruleiki sem vegur þyngst í  lífi fólks, það sem gerir útslagið er hvernig unnið er úr honum. Mér fannst skemmtilegast að lesa það sem hún skrifar um tungumálið.

Orðin eru margræð, í þeim leynist dulin merking. Hún tekur dæmi  af eigin nafni og nafni móður sinnar(á víetnömsku). Fljótt á litið virðast nöfnin eins, einungis ein komma greinir þau að. Hennar eigið  nafn þýðir innri friður, nafn móður hennar þýðir kyrrlátt umhverfi.

Nafn bókarinnar, Ru, merkir lækur á frönsku eða það sem streymir. Á víetnömsku þýðir orðið vögguvísa eða þann sem  raular eða fer með vögguvísu.Þessi bók kom mér á óvart. Fyrst hlustaði ég á hana sem hljóðbók. Hún var vel lesin en samt skilaði hún sér ekki almennilega. Það var ekki fyrr en að ég fékk hana í hendurnar og gat rennt henni undir lessjána (stækkunartæki sem gerir mér fært að lesa bækur) að ég áttaði mig á henni.

Lokaorð

Ég þurfti að hafa talsvert fyrir þessari bók. Það stemmir við hugmyndir mínar um bóklestur, góðar bækur þarf maður að lesa oft.

Eins og alltaf hlýnar mér um hjartaræturnar af þakklæti.

Bókin er þýdd úr frönsku af Arndísi Lóu Magnúsdóttur og hljóðbókin er lesin af Súsönnu Margréti Gestsdóttur.

Ru er bók til að eiga.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2022
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 190413

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband