27.7.2022 | 16:52
3 bækur Åsne Seierstad
Þrjár sögur eftir Åsne Seierstad
Það kann að virðast skrýtið og tilgangslaust að lesa gamlar og löngu útkomnar bækur. En því miður er það ekki svo. Heimurinn hefur lítið breyst. Bækurnar hitta beint í mark. Líka núna. Þetta eru bækur eftir norska blaðamanninn og rithöfundinn Åsne Seierstad (fædd 1970). Þær fjalla allar um áhrif stríðs og ofbeldis á líf fólks. Ég ætla að ræða lítillega um þær allar í þessum pistli í þeirri röð sem ég las þær.
Tvær systur
Bókin kom út í Noregi 2018. Ég hlustaði á bókina á sænsku. Ég hefði frekar viljað hlusta á hana á norsku en það var ekki í boði hjá HBÍ. Því miður. Sagan segir frá fjölskyldu frá Sómalíu. Þau komu til Noregs sem flóttamenn á tímum stríðsins í Sómalíu. Þegar sagan hefst hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir í Noregi, í Asker. Börnin ganga í skóla eins og norsk börn. Aðalpersónu sögunnar Ayan gengur vel, svipað má segja um yngri systur hennar Lailu. Ayan er fyrirmyndar námsmaður. Hún er um það bil að verða stúdent og dreymir um að verða diplómat eða vinna hjá Sameinuðu þjóðunum. Skyndilega hverfa þær. Koma ekki í matinn. Fjölskyldan er sem lömuð. Það kemur í ljós að systurnar hafa farið til Tyrklands og þaðan til Sýrlands til að berjast með Isis. Faðir þeirra fer á eftir þeim og ætlar að fá þær til baka. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra hér.
Tilraun til að skilja
Áður en þær fóru höfðu ýmsar breytingar á hegðun komið í ljós, sem bentu á að ekki var allt sem skyldi.
Saga þessarar fjölskyldu er tilraun til að skilja hvað fyrir þeim vakir og ekki síst til að skilja hvað fór úrskeiðis hjá Norðmönnum. Hvað gerðu gerðu þeir rangt. Þeir sem vildu svo gjarnan verða að liði og hjálpa? Seierstad rannsakar málið eins og blaðamaður. Sem hún er. Hún spyr spurninga og leitar svara. Hún svarar þó aldrei neinum spurningum sjálf, heldur leggur málið á borðið handa okkur, það er ekki hennar að svara. Það er okkar lesenda að draga ályktanir út frá því sem leggur fram. Hlutverk blaðamannsins er að rannsaka og upplýsa.
Einn af okkur
Bókin kom út í Noregi .og hér 2016. Það er Sveinn H. Guðmarsson sem þýðir.
Þetta er löng bók 20:21 klukkustundir í upplestri. Það liggur fyrir mikið efni, sem fjalla þarf um til að leitast við að skilja það sem leiddi til fjöldamorðanna í Útey.
Fyrst kynnir hún til sögunnar nokkrar fjölskyldur sem eiga það eitt sameiginlegt að þær eiga bráðgeran ungling sem er með áhuga á þjóðfélagsmálum.
Gerandinn Síðan segir hún frá drengnum Anders Behring Breivik. Fyrst fá æskuárum og síðan frá unglingnum og loks fullorðna Breivik sem er fullur af hatri. Hún segir frá árásinni og hvernig krakkarnir eru skotnir. Frásagan er nákvæm. Þau eru skotin eitt af öðru. Mér finnst næstum eins og hún segi enginn skal undan líta
Ég hef aldrei lesið átakanlegri frásögn.
Hún lýsir líka viðbrögðum lögreglu sem voru til skammar. En fyrst og fremst hörmuleg. Það er merkilegt til þess að hugsa að æðsti maður þjóðarinnar, sem bar með ábyrgð á vanhæfni lögreglunnar, skyldi síðar vera valinn sem framkvæmdastjóri NATO.
Loks rekur höfundur það sem gerðist við réttarhöldin, dóminn og að endingu aðbúnað Breiviks í fangelsinu.
Að endingu segir höfundur frá sorginni. Foreldrar barnanna sem dóu, verða aldrei samir.
Bóksalinn í Kabúl.
Bókin kom út 2002 og var þýdd af Ernu Árnadóttur og kom út á Íslandi 2016. Af einhverjum ástæðum lét ég þessa bók fram hjá mér fara. Þetta er bókin sem geði Seierstad heimsfræga.
Seierstad hafði unnið um skeið sem blaðamaður í Afganistan. Þegar því starfi lauk dvalist hún um skeið í Kabúl þar sem hún kynnist bóksala. Það samdist um með þeim að hún fengi að búa hjá fjölskyldu hans. Hana langaði til að skilja betur líf Múslima og hugmyndaheiminn sem lagður er til grundvallar. Hún fylgdist með og spurði spurninga. Fjölskyldan var stór og allt var samkvæmt gömlum siðvenjum. Allir urðu að lúta vilja húsbóndans. Konurnar máttu ekki einu sinni hugsa. Það var synd að sætta sig ekki við ákvarðanir fjölskylduföðurins, hann sótti vald sitt í sjálfan Kóraninn.
Blaðamaðurinn skráði hjá sér. Spurði og tók viðtöl. Úr öllu þessu varð bókin til. Hún varð metsölubók. En auðvitað varð bóksalinn reiður. Honum sárnaði og hann kærði.Og það urðu réttarhöld og Seierstad var dæmd. Fékk sekt. En bókin lifir.
Lokaorð
Það hafa komið út fleiri bækur eftir Åsne Seierstad og ég brenn í skinninu að fá þær sem hljóðbækur. Helst á norsku.
Ég finn til þakklætis
Ég finn alltaf til þakklætis þegar ég les/hlusta á góðar bækur. Ég er þakklát höfundi fyrir að hafa skrifað þær, þýðanda fyrir að þýða þær og lesara fyrir að lesa. Og auðvitað er ég þakklát fyrir að hafa aðgang að hljóðbókasafni sem gerir mér og öðrum blindum/sjónskertum kleift að njóta bóka. Engu að síður er ég stundum óþolinmóð, finnst erfitt að bíða eftir bók eða það þurfi að lesa inn enn fleiri bækur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 14:30
10 dagar sem skóku heiminn John Reed
Tíu dagar sem skóku heiminn
Þegar ég hafði lesið Þrjár systur eftir Helen Rapaport, fannst mér ég þurfa að lesa mér til um það sem var að gerast í Rússlandi á síðust dögum keisaraveldisins. Fyrir valinu varð bók John Reed, Tíu dagar sem skóku heiminn. Þessi bók kom fyrst út árið 1919 og sjálfur Lenín fylgdi henni úr hlaði. Skrifaði formála.
Um höfundinn
John var bandarískur blaðamaður kominn af auðugu fólki. Hann hafði sem blaðamaður fylgst með stríðinu í Mexíkó. Nú lá leiðin til Rússlands. Hann var róttækur sósíalisti og fékk sem slíkur sérstakan aðgang að því sem var að gerast á vinstri væng stjórnmálanna í Rússlandi. Sat m.a. annað þing Komintern 1920. Það er því engan veginn hægt að líta á skrif hans sem hlutlausa blaðamennsku (ef hún er þá til?). Hann fær því tækifæri til fylgjast með því sem er að gerast. Hefur beinan aðgang að vettvangi pólitískra átaka. Allt þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á framsetningu efnisins.
Keisaraveldið fellur
Það er stríð, sem síðar var kallað heimsstyrjöld. Rússlandi vegnaði illa í styrjöldinni og alþýða manna bjó við kröpp kjör. Sumir sultu. Hermenn ræddu sín á milli að það væri brýnna að berjast við auðvaldið en að drepa þýska félaga sína og bræður.
Bylting
Löngu fyrir þennan tíma hafði byggst upp öflug hreyfing vinstri manna. Líklega væri réttara að tala um hreyfingar, því þær voru margar og þær tókust á um hvaða leið ætti að fara.
En þessi umræða var ekki bara bundin við Rússland. Hvarvetna í heiminum var rætt um að það væri nauðsynlegt að bæta kjör verkamanna og að færa þeim meiri völd. Þeir sem stóðu lengst til vinstri trúðu því, það myndi verða heimsbylting.
Lifandi frásögn
John Reed lýsir umræðunni og því sem ber fyrir augu eins og hann sé alltaf viðstaddur. Og stundum er hann það trúlega. Fundirnir eru hávaðasamir, það er mikið reykt og stundum ganga menn á dyr fússi í til að undirstrika óánægju sína með það sem sagt er eða ákveðið. Inn á milli útskírir höfundur stöðu og þróun stjórnmála í Rússlandi og skilgreinir pólitísk hugtök. Mér fannst þessi kafli um umræðuna ekki síst merkileg af því hún líkist því sem ég þekkti og gat rifjað upp endurómun hennar hér á Íslandi. Það er trúlega óþarfi að rekja það að það varð bylting og það voru hugmyndir Bolsevíka sem urðu ofaná. Því fór sem fór.
Það er næstum annarlegt að lesa um allt þetta eftir rúmlega 100 ár.
Mikill fengur
Það er fengur í þessari bók, hún er merkileg söguleg heimild. Þorvaldur Þorvaldsson er þýðandi bókarinnar. Hann segir frá því að hann hafði lengi gengið með þá hugmynd að snúa bókinni á íslensku en það varð ekki af því fyrr en 2017 á 100 ára afmæli byltingarinna. Þetta er stórvirki og ég er sannfærð um það er vel af hendi leyst. Þorvaldur gerir sjálfur grein fyrir því hlutverki sem hann ætlar bókinni . Hann sér fyrir sér að hún geti bæði nýst sem söguleg heimild og innlegg í pólitíska umræðu. Hann nefnir reyndar líka að það megi einnig lesa hana sem spennusögu. Það hafði mér ekki dottið í hug en get borið vitni um að vissulega er þetta spennandi frásögn, þrátt fyrir að maður þekki endalokin.
Til baka til höfundar
John Reed (fæddur 1897 dó 1920 )
ætlaði að skrifa aðra bók og hafði þegar lagt drög að henni. Hún átti að fjalla um byltinguna í víðari samhengi og um friðarsamningana við Þýskaland.
En sú bók var aldrei skrifuð. John Reed veiktist af taugaveiki og andaðist 1920, þá aðeins 32 ára.
Lokaorð
Lenin fékk heldur aldrei að útfæra sína byltingu, skapa stéttlaust ríki, alræði öreiganna. Hann lést árið 1924 eftir erfið veikindi. .
Það var Stalín sem tók við keflinu. Við þekkjum framhaldið.
Það er Jón St. Kristjánsson sem les bókina.Hann hefur þægilega rödd og kemur textanum vel til skila.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2022 | 22:04
Orðspor/fótspor
Hann hefur trúlega lítið verið að velta fyrir sér kolefnissporinu sínu milljónamæringurinn, sem kom hingað á 18 manna einkaþotu á Reykjavíkurflugvöll í dag.
Næsta frétt á undan sýndi brennandi skóga í Evrópu og i Ameríku. Og mér sýndist viðmælandinn, sem tók a móti honum væri ansi ánægður líka.
Er kolefnissporið ef til vill okkar?
Ekki veit ég það.
En ég held að það sé kominn tími til að reikna þetta Út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2022 | 13:52
Dansað í friði: Elsa Margrét Böðvarsdóttir
Dansað í friði
Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast meðnýjum höfundum, þótt ég hafi mest gaman að lesa og endurlesa höfunda sem ég þekki. Fyrsta bók Elsu Margrétar Böðvarsdóttur heitir Dansað í friði.
Sagan segir frá ungri stúlku af Akranesi sem er að stíga sín fyrstu skref í háskóla. Hún hefur valið sér viðskiptafræði.
Hún hefur ákveðið með sjálfri sér að fara nú að lifa lífinu. Hún fer á kynningu á hvaða félagslíf er í boði. Í framhaldi af því gefst henni tækifæri til að taka þátt alþjóðlegu starfi. Þar hittir hún Thomas.Það er ást við fyrstu sýn. Það er mikið drukkið og dansað í þessari bók. En Marta lætur þetta ljúfa líf ekki trufla námið.
Ég var nokkra stund að átta mig á hverskonar bók væri hér á ferðinni. Í fyrstu minnti hún mig á bók Hlínar Agnarsdóttir, Blómin frá Maó. Þar er einnig sagt frá stúlku af landsbyggðinni með álíka ásetning. Hún fellur fyrir Maóista og heimsmynd hennar breytist um hríð. Sú stúlka klúðrar náminu og þarf að fara aftur á byrjunarreit. Nei, þessar stúlkur eru ekki líkar og þessar bækur eru allsólíkar.
Ástarsaga
Saga Elsu Margrétar er ástarsaga af gamla skólanum. Eins og ég tók með mér þegar ég fór í útilegu . Af einhverjum ástæðum sem ég man ekki lengur, voru þessar bækur sem ég las oftast á dönsku.
Sagan Dansað í friði er ástarsaga með boðskap. Aðalsöguhetjan, Marta hefur fundið það út að dansinn er á vissan hátt frelsandi. Sá sem dansar getur aldrei alið á illum hugsunum. Hann er frjáls, honum líður vel. Hann er friðsamur og fullur af ást. Samkvæmt þessu væri trúlega árangursríkast fyrir heimsfriðinn að láta þjóðarleiðtoga dansa heldur en að setjast við borð.
Niðurstaða
Í raun er þetta ekki bara ástarsaga, þetta er um leið ævintýri. Ungi maðurinn í sögunni er nefnilega nokkurs konar prins eins og í Öskubusku og móðir hans er norn.
Tímarnir hafa breyst og ég hef breyst. Ég var ekki á ferðalagi þegar ég las bókina og hún var ekki á dönsku.
Eða
Kannski er ég of gömul fyrir þessa tegund bóka, því hún var ekki nógu sannfærandi fyrir mig. Ég sem venjulega trúi öllu meðan ég er að lesa bók. Ég sannfærist.
En boðskapur bókarinnar féll mér vel og það er alltaf gaman að kynnast nýjum höfundum.
Það var Anna Björk Jónsdóttir sem las, ég man ekki til þess að hún hafi lesið fyrir mig áður. Mér féll vel við lesturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2022 | 14:02
Fjórar systur: Helen Rappaport
Um leið og ég sá bókina Fjórar systur eftir Helen Rappaport á vef Hljóðbókasafnsins, vissi ég að þarna væri komin bók fyrir mig.
Í Fyrsta lagi er hún löng, tekur rúmar 19 klukkustundir í upplestri. Í öðru lagi er hún þýdd af Jóni Þ. Þór sagnfræðingi sem er sá hinn sami sem skrifaði bók um Katrínu miklu. Auk þess er hann skólabróðir minn. Í þriðja lagi er hún um efni sem mig hefur lengi langað að fræðast meira um.
Bókin fjallar um dætur Rússakeisara, fjórar talsins. Þannig er nafnið til komið. Hún fjallar að vísu líka um bróðurinn og um fjölskylduna í heild. Það eina sem ég vissi um þessar systur var endalokin. Þær Olga, Tjatiana, Maria og Anastasia voru allar skotnar.
Aðrir tímar
Veruleiki þessarar sögu er svo fjarri mér að ég á erfitt með að ímynda mér hann. Þó ég hafi lesið Tolstoj. Sögupersónur hans lifðu og hrærðust í þessum veruleika. Það er óravegur á milli ríkra og fátækra. Og valdhafarnir sitja á toppnum. Það gerir stéttaskiptingin. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að hún hafi ekki verið til staðar hér, því það var hún. Hún var öðru vísi.
Vesalings litlu Zardínurnar!
Keisaradæturnar voru dótturdætur Viktoríu drottningar. Eftir lestur bókarinnar sýnist mér að móðir þeirra, Alexandra sé valdamesta persóna bókarinnar. Samt á hún við mikla vanheilsu að stríða. Þegar hún var 32 ára hafði hún alið 5 börn og misst fóstur að minnstakosti tvisvar. Eftir fyrstu fæðinguna virðist hún hafa fengið grindargliðnun sem er mjög kvalafull. Maðurinn hennar keisarinn virðist vera rola, fer blint eftir vondum ráðleggingum. En þau elska stelpurnar og leitast við að ala þær upp til að verða gott yfirstéttar kvonfang. Líf litla drengsins, ríkisarfans mótast fyrst og fremst af því að hann er haldinn lífshættulegum sjúkdómi. Mér finnst merkilegt að fylgjast með því hvernig höfundi tekst að draga upp heildstæða mynd af öllu þessu fólki. Af þessu sér maður hvað það liggur mikil heimildavinna að baki við þessa bók. Á þessum tíma skrifuðu menn bréf og færðu dagbækur.
En Zarinn skilur ekki kall tímans og því fer sem fer.
Ef og hefði
Ég er þó nokkurn veginn sannfærð um að þótt Zarinn hefði reynt að koma umbótum í kring, þá hefði það ekki dugað til, byltingaröflin voru sterkari og kænni en hann. Aftaka keisarans og fjölskyldu hans minnir mig á aftöku Jóns Arasonar og sona hans. Öxin og jörðin geymir þá best.
Hvað finnst okkur svo um dauðarefsingu?
Ég býst við að flest fólk, við Íslendingar, séum alfarið á móti þeim enda tala menn um að aftaka vesalinganna Agnesar og Friðriks, sé síðasta aftakan á Íslandi. Vissulega. En bandamenn okkar beita þó aftökum þegar svo ber undir. Margir muna, að hafa horft á það í sjónvarpinu í stofunni sinni, þegar Saddan Hússein var tekinn af lífi. Og stóð ekki sjálfur Obama fyrir því að láta myrða Osama Bin Laden og fjölskyldu hans?
Kannski er erfiðara í að komast, en um að tala, að vera þjóðhöfðingi. Og auðvitað eru stríð ekkert annað en ein tegund aftaka.
Ég gleymdi Raspútín
Áður fyrr, þegar ég las um fall einræðisherrans í Rússlandi var gjarnan vikið að Raspútín. Að hann hefði skaðað orðspor keisarafjölskyldunnar. Þetta var aldrei útskýrt. Loksins fékk ég skýringuna.Þegar litli drengurinn var veikur og vart hugað líf, leitaði fjölskyldan til furðufuglsins Raspútíns. Hann var sagður geta læknað fólk, gert kraftaverk. Þessu trúði hannl íklega sjálfur. Þau hjónin ánetjuðust honum. Illar tungur héldu því fram að hann ráðskaðist með þau. Væri farin að stýra landinu. Það var ekki fyrr en að ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta var hérna heima á þessum tíma. Margt fólk, var á kafi í dulspeki og leitar jafnvel til miðla. Fólk í æðstu valdastöðum.
Um höfundinn
Helen Rappaport er fræikona og hefur skrifað fjölda bóka um sögulegt efni. Það er Helga Elínborg Jónsdóttir sem les hana inn. Það er mikill fengur í þessari bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2022 | 12:22
Játningar Bóksala: Shaun Bythell
Játningar bóksala eftir Shaun Bythell er óvenjuleg bók. Hún er að forminu til dagbók bóksala. Þaö sem er skráð allt sem er mikilvægt fyrir starfið. Það er kaup og sala á bókum og frásagnir um bókasöfn sem hann skoðar með það í huga hvort hann ætli að kaupa eitthvað eða ekki. Við þetta bætist ýmislegt sem varðar starfsfólk og viðskiptavini. Já og köttinn. Mér fannst í fyrstu að frásagan væri aðallega neikvæð og niðrandi.
Góð bók til að sofna ut frá
Í byrjun var ég í vafa um hvort ég ætti að lesa bókina og ákvað svo að nota hana sem sofna út frá bók. Það gekk prýðilega því bókin er flöt og laus við spennu. Smám saman var ég þó vör við að ég var farin að vera svolítið spennt fyrir hvernig honum gekk að selja og sá búðina hans fyrir mér. Hún var ólík þessari einu fornbókabúð sem ég þekki, Bókabúð Braga, að því leyti að það var meira flokkað og betur raðað í hillurnar. Já, og bóksalinn í Wigham gat verið neikvæður og leiðinlegur við fólk, það var Bragi ekki. Dagarnir eru hver öðrum líkir í þessu starfi, salan er oftast lítil. Eina undantekningin er þegar búðin tekur þátt í einhvers konar bæjarhátíð, þá er starf bóksalans spennuþrungið og frásögnin iðar af fjöri.
Það er nauðsynlegt að trúa
Þegar ég les bækur trúi ég öllu, tek allt bókstaflega. Þessi bók var engin undantekning. Þess vegna tók ég nærri mér, hvað sögumaðurinn, bóksalinn var leiðinlegur við starfsmanninn sinn og hugsaði neikvæðar hugsanir um fólkið í kringum sig. Þó vissi ég að ég átti að álykta sem svo að þarna væri þessi fræga breska kaldhæðni á ferðinni. Mig myndi ekki langa til að kaupa bækur hjá þessum karli, hugsa ég.
Niðurstaða
Mér fannst gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Það var ljúft að sofna út frá henni. Nú veit ég líka að Það er til önnur bók eftir sama höfund, hún heitir Dagbók bóksala. Það hefði eflaust verið betra að byrja á henni.
Nú er eg jafn vel farin að velta fyrir mer að heimsækja Wigtown.
Myndin er tekin í Breiðdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2022 | 14:58
Tíu dagar í Helvíti
Tíu dagar í (Helvíti) heitir saga eftir Magnús Lyngdal Magnússon. Það er sagt að þetta sé hans fyrsta bók. Hún er stutt og snýst um afmarkað efni, drykkjuskap. Sögusviðið er hugur karlmanns á miðjum aldri. Hún hefst þegar hann vaknar upp í áður ókunnu herbergi. Honum finnst að það gæti minnt á fangaklefa. Já, og þetta er fangaklefi. Þetta er honum ný reynsla. Hann drekkur að vísu, og þarf stundum að nota lyf, en hann er ekki alkóhólisti, af því hann á sitt eigið húsnæði og er í góðu starfi. Þetta er hans skilgreining á því að vera ekki alkóhólisti.
Gloppur
Nú man hann ekki hvað gerðist. Fær að vita að hann var hirtur upp af gangstétt fyrir utan bar. Kvíðinn magnast, gerði hann eitthvað af sér. Bíllinn er ekki heima þar sem hann á að vera. Hann hefur sem sagt verið á bílnum. Drap ég einhvern, hugsar hann. Kvíðinn er næstum óbærilegur en hann getur ekki rætt þetta við neinn. Það gerir skömmin. Skömmin yfir því að ráða ekki við drykkjuna. Bókin er í senn átakanleg og fyndin. Átakanleg vegna þess hversu hann á bágt og fyndin vegna þess hvernig hann leitast við að blekkja sjálfan sig.
Aðgengi
Líklega hefði ég ekki lesið þessa bók ef ég hefði haft augu til að lesa og valið mínar bækur sjálf . Nú ræðst bóklestur minn algjörlega af því hvað hefur verið lesið inn hjá Hljóðbókasafni Íslands.
Þetta minnir mig ósjálfrátt á umræðuna um vín og aðgengi. Það hefur sýnt sig að gott aðgengi að alkóhóli eykur víndrykkju. Að sjálfsögðu. En það er munur á. Vín getur verið skaðlegt, bækur ekki.
Útúrdúr
Að vísu man ég eftir gömlum manni í Breiðdal bernskunnar sem hélt því fram að bóklestur væri ekki síður ávanabindandi en tóbak. Ég held að það sé nokkuð til í þessu. En ég hef enn ekki heyrt nokkurn halda því fram að bóklestur skaði heilsuna.
Það er von
Maðurinn í sögu Magnúsar veit að það er hægt að leita sér hjálpar. Hans er valið.
Það er Árni Blandon sem les. Hann er snilldar lesari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 190415
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar