31.3.2014 | 12:18
Andköf: Vettvangur glæps.
Hjá mér er því líkt farið með glæpasögur og hamborgara. Ég verð stöðugt fyrir vonbrigðum. Jafn vel þótt ég hafi ekki gert mér háar vonir. Þó endurtek ég leikinn stöðugt eins og ekkert hafi í skorist.
Var að ljúka við bók Ragnars Jónassonar, gat ekki stillt mig af því hún gerist fyrir norðan á slóðum sem ég þekki vel. Kálfshamarsvík, þar sem sagan er látin gerast. er t.d. fastur stoppistaður þótt hún sé úr leið. Þar er fallegt og þar talar saga þjóðarinnar beint til þín.
En... Það er varasamt að velja sér sögu þar sem vettvangur glæps er þér of kunnugur. Þú hengir þig á smáatriði og ekkert stemmir. Það sama gerðist með bók Yrsu, sem hún staðsetti á Hesteyri og það sama virðist vera að gerast hjá mér varðandi bók Rudolf Habringer, Island - Passion en þá bók er ég að glíma við að lesa á þýsku (þetta er að vísu ekki dæmigerð glæpasaga, þótt hún fjalli um glæp). Í öllu bókunum hafa höfundar ,,byggt hús", og mér finnst alls ekkert passa.
En aftur að bókinni sem gerist á hinum ægi fagra stað (mig langaði að skrifa Ægifagra en vissi að það var ekki rétt) Kálfshamarsvík. Þetta er fjórða bókin í sagnaröð (segir maðurinn minn) um lögreglumanninn Ara Þór Arason, samstarfsfólk hans, fjölskyldu og fjölskylduleysi. Það er ókostur að koma svona seint inn í seríubækur. Það er búið að kynna allar persónur til sögunnar og þær virka óþarflega flatar. Það er að vísu reynt að bæta úr þessu fyrir nýja lesendur með því að rifja upp og skjóta inn í því sem á undan er komið. Lögguteymið hans Ragnars virðist vera vænsta fólk og þau vinna vel saman. Sagan er um mikinn háska og um fólk sem fetar ekki troðnar slóðir samfélagsins, það hefur staðnæmst. Málfarið er lipurt, samtölin fljóta vel. Landslagið er stórbrotið og það er mikið keyrt. Bókin myndi gera sig vel í kvikmynd.
En ég sit föst í smáatriðunum og í hugsunum um þetta ... og þetta getur ekki stemmt. Það er ekki nein fæðingardeild á Blönduósi og ef Kristín sat föst á Þverárfjalli, af hverju var ekki betra að fara með hana á Sauðárkrók eða til Akureyrar.
Ekkert af þessu skiptir þó máli. Formúlubók er formúlubók alveg eins og hamborgari er staðlaður formúluréttur. Í báðum tilvikum er þó hægt að greina mun á hvað er vel eða illa gert. Ég sit eftir með tilfinningu að hafa svikið sjálfa mig. Ég veit allt of vel að ég er ekki skyndibitamanneskja og ég vil helst lesa bókmenntir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2014 | 21:15
Ljóð: Það var hnippt í mig
Það var hnippt í mig og mér sagt að að það væri ekki lengra síðan en árið 2007 að ég hlustaði á ljóð sem sækir myndlíkingar sínar á stríði, í ljóðið sem Darraður heyrði meyjar kyrja í dyngju sinni ( lok Njálssögu) kom mér ekki á óvart, því meðan ég var að grufla í þessu ljóði og umgjörð, þess fannst mér í bakhöfðinu, að íslenskt skáld væri nýbúið að vera á þessum slóðum.
Og nú man ég þetta vel. Skáldið var Guðrún Hannesdóttir og hún las kvæðið fyrir okkur hjá MFÍK og síðar á baráttufundi hjá MFÍK og fleirum 8. mars 2007. Ljóðið birtist síðan í ljóðabókinni Fléttum 2008. Mér fannst gott að vera minnt á þetta og nú minni ég ykkur á kæru lesendur. Lesið ljóð.
Og nú sit ég með bókina Fléttur og les. Maður les aldrei nóg af ljóðum.
Ég vildi líka að ég geymdi ekki svona margt í bakhöfðinu. Ég vildi óska þess að ég hefði lært fleiri ljóð utanað. Dóttir Melittu Urbancic (Sibyl) sagði í ræðu sem hún flutti við opnun sýningar um móður hennar að hún hefði munað öll ljóð sem hún las. Þetta hefði síðan auðgað líf hennar þegar hún var orðin gömul, hafði tapað sjón og heyrn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2014 | 18:44
Þá rigndi blóði og vopnin sóttu að eigendum
Enn að hugsa um Brjánsbardaga. Í aðdraganda bardagans gerðust undur og stórmerki.
Þegar þar var komið sögu að Sigtryggur konungur hafði fengið víkinginn Bróður til liðs við sig (gegn Brjáni) með því að heita að heita honum konungdómi og móður sinni, skoraðist Óspakur félagi hans undan en hann réði þriðjungi liðsins. Eftir að Bróðir hafði brugðist illa við þessu og sett hann í herkví varð hann og menn hans fyrir ásóknum þrjár nætur í röð. Fyrst rigndi blóði og þeir brenndust, þá réðust að þeim þeirra eigin vopn og loks réðust gegn þeim hrafnar með járnklær og járngogga.
Mér finnst senan með vopnin sem vega að eigendum sínum best. Hún væri fín í kvikmynd. Reyndar myndu allar þessar senur myndast vel. Ég held að þær orki svo sterkt á hug min, vegna þess að þær lýsa stríðsógninni svo vel. Líka því sem gerist í nútímanum. Og ef til vill í framtíðinni.
Annað eins gæti nú gerst og að vopn vegi að eigendum sínum. Og fleirum. Við nú búum ekki lengur svo langt frá HEIMSINS VÍGASLÓÐ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2014 | 13:53
Hverjum ber að minnast 1000 ára afmælis Brjánsbardaga?
Oft finnst mér sem líf mitt stýrist fyrst og fremst af röð tilviljana. Veit þó að ég stýri þessum tilviljunum að hluta með eigin vali. Það er t.d. ekki hrein tilviljun að dagurinn í dag hefur verið helgaður Brjánsbardaga og Njálu. Ég greip á lofti umræðu Lars Lönnroth, sænsks fræðimanns, sem hefur verið mér svo vinsamlegur að gerast vinur minn á feisbók (Nafnið var mér kunnugt frá þeim tíma, fyrir margt löngu, þegar ég var við nám í Uppsala og glímdi við að skoða hugmyndir Íslendinga um uppeldi barna út frá Íslendingasögunum).
Lars vakti athygli á því að nú styttist i 1000 ára afmæli Brjánsbardaga og hann velti fyrir sér hver eða hverjir myndu taka að sér að minnast hans. Yrðu það Írar, Norrænir menn og/eða Íslendingar.
Saga Brjánsbardaga hefur m.a. varðveist í Njálu þar sem fjallað er um eftirmál Njálsbrennu, ákkúrat þar sem manni finnst sagan eiginlega vera búin. Hann er talinn hafa átt sér stað föstudaginn langa 23. apríl 1014. Þar áttust við Brjánn konungur og lið Sigtryggs konungs og Sigurðar jarls (hluti þess liðs var málalið Norrænna manna, þar á meðal menn Flosa sem stóð að Njálsbrennu). Talið er að í liði Brjáns hafi verið um 7000 manns og að í liði Sigtryggs og Sigurðar hafi verið litlu færri. Þessari orrustu lauk með því að Brjánn vann en féll síðan, sem frægt er orðið. Féll en hélt velli.
Í Njálssögu er stórkostlegt ljóð um þennan bardaga þar sem ríðandi valkyrjur slá blóðugan vef úr innyflum fallinna. Vefstólinn er gerður úr vopnum og líkamspörtum með garnir sem ívaf. Á Íslandi og víðar gerðust einnig undur og stórmerki. Á Svínafelli rigndi blóði á hökul prestsins og á Þvottá fannst presti sem opnast hefði hyldýpi við fætur sér. (Frásögn Njálu af þessum atburðum er reyndar full af flóknum trúarlegum táknum sem ég kann ekki nóg um).
Þeim degi er ekki illa varið sem maður gleymir sér við að lesa um Brjánsbardaga. En ég er engu nær því að svara spurningunni um hverjir eigi að minnast hans eða hvort það eigi að minnast hans. Ég var miklu uppteknari af þætti tilviljana í lífinu. Eiginlega er frásaga Njálu af þessum atburði gott dæmi um mátt tilviljana. Hvað hefði gerst ef Flosi hefði farið með liði sínu í bardagann, ef Óspakur hefði ekki slitið bandalagi við Bróður og ef og ef og ef....?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2014 | 18:22
Spennustöðin: Hermann Stefánsson
Nú hef ég lokið við Spennustöðina, bókina sem ég byrjaði á í gær. Enn þá á ég ekki orð til að lýsa henni. Það að er eitthvað svo fátæklegt að segja bara að hún sé góð og ef ég fer að nota sterk orð passar það ekki heldur því þetta er lágstemmd bók.
Í gær þegar, þegar ég lauk við bókina, var ég að koma af jarðarför vinar og fann sterkt fyrir tómleikanum sem fylgir því að vera endanlega búin að kveðja. Einkennileg tilviljun að að vera einmitt að lesa þessa bók. Ég hefði ekki getað valið lestrarefni sem hæfði betur líðan minni.
Í bókinni segir höfundur frá dvöl sinni í húsi afa síns og ömmu á Akureyri þar sem faðir hans ólst upp. Faðir hans er nýlátinn og hann rifjar upp minningar um hann og um sig og um allt. Hvernig var þetta?
Í raun er höfundurinn á ferðalagi, hann er að leita að manni. Hann er að leita að sér. Það þarf kjark til að fara í slíka landkönnun og skáldagáfu til segja frá henni. Ég var búin að skrifa inngang að þessu bloggi (er hægt að skrifa inngang að bloggi?) og leika mér að titlinum, með því að nota titilinn Spennustöðina: ekki spennusaga, á bloggið mitt. Ég var þá bara hálfnuð með bókina. En eftir að hafa lokið bókinni verð ég að viðurkenna að það er ekki alls kostar rétt að sagan sé ekki spennandi. Ég hafði áhyggjur af því hvernig sögumanni myndi vegna í þessari för, var hann ekki að taka of mikla áhættu? Skyldi hann sleppa heill frá þessu? Það var þó ekki spennan sem slík sem bar bókina uppi, heldur textinn, málið og hugsunin. Höfundinum tekst nefnilega til að fá lesandann (í þessu tilviki mig) til að fylgja sér á þessu erfiða ferðalagi inn á við, að leita að sjálfum sér, nema ég er að leita að mér. Þetta var eins og að lesa ljóð. Ljóð tala oft fyrir þig. Sumar bækur tala ekki bara fyrir mann og segja hvað maður er að hugsa, þær eru eins og tónlist sem segir þér hvernig þér líður. Mikið er gott að eiga þessa listamenn að.
Ég sagði í upphafi að ég gæti ekki lýst þessari bók og það er rétt, ég finn það meðan ég er að setja þessar línur á blað. Fólk verður að lesa hana sjálft. Það eru margar fallegar setningar í þessari bók og ég veit að ég á eftir að lesa hana aftur. Og aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2014 | 00:25
Spennustöðin: Ekki spennusaga
Ég er að lesa bók Hermanns Stefánssonar, Spennustöðina en ég ætla ekki að skrifa um hans núna, því ég er bara hálfnuð með lesturinn. Í þessu bloggi ætla ég að skrifa um hvernig hún kveikir á minningum og sem betur fer góðum minningum.
Bókin segir frá dvöl rithöfundarins sjálfs og þegar hann dvelur á æskuheimili föður síns á Akureyri,í húsi afa síns og ömmu Þórhildar og Hermanns. Þau voru bæði íþróttakennarar við MA, Þórhildur kenndi mér íþróttir en Hermann kenndi mér ekki beinlínis en var allt í öllu þegar kom að félagsstarfi og söng. Það er merkilegt að eiga svona margar minningar um kennara sem ekki kenndi mér beinlínis. Hermann stóð fyrir því að nemendur lærðu að róa, ég man eftir dásamlegum haustdögum inn við Torfunesbryggju þar sem Pollurinn var spegilsléttur, hávaðasömum ferðum úr Útgarði, skíðaskàlanum sem brann og ,,vísindaferð" sem við fengum að fara í fjórða bekk til að skoða Öskjugosið. Hermann var einnig með okkur í bekkjarferðum. Ég hafði minni reynslu af Þórhildi og þar er mér sjálfri um að kenna. Ég kom úr sveitaskóla, Eiðum, og var búin að hafa karlkennara í leikfimi í þrjú ár sem lét okkur þjálfa krafta og snerpu. Það var því nýlunda fyrir mig að fá konu sem lagði áherslu á mjúkar hreyfingar og liðlegheit. Ég fékk það á tilfinninguna að Þórhildur vildi æfa upp hjá mér (og okkur öllum) kvenleika og mér féll það ekki. Ég var uppreisnarseggur og losaði mig út úr leikfiminni með því að ljúga mér út læknisvottorð. Ég held að það hafi verið hnén. Ég sá ekki eftir þessu fyrr en löngu seinna en ég er svo heppin að það hefur aldrei verið neitt að mér í hnjánum, annars hefði trúlega hvarflað að mér það væri refsing.
Það er gaman að rifja þetta upp og það er gaman að kynnast þessu góða fólki nú frá annarri hlið. Lýsing Hermanns á lífi og lífsviðhorfi passar svo vel við hvernig ég minnist þeirra. Mig langar til að koma með beina tilvitnun í bókina:
,, Í fjölskyldunni ríkti jákvæðni og bjartsýni af því tagi sem stundum er fyrirlitin af gáfuðu fólki því þeir sem hafa höfuðið fullt af skýjum eiga gjarnan erfitt með að botna í heiðríkju og halda hún sé eitthvað annað en hún er. En heiðríkja er það sem hún er, hrekkleysi, einlægni, hlýja, húmor, góðlyndi. Skýr hugsun."
Þetta er svo falleg setning. Hún lýsir þessu fólki svo vel eins og ég kynntist þeim. En líklega er ég svo hrifin af henni af því hún lýsir líka fleira fólki sem ég þekki og þekkti og þykir vænt um. Þetta var um mig og mínar minningar, ég ætla að skrifa um bókina þegar ég hef lokið henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2014 | 15:17
Guðmundur J. Hallvarðsson: Kveðjuorð um vin

Við Guðmundur kynntust fyrst í róttæku starfi á þeim gömlu góðu dögum þegar ungt fólk trúði því að það væri hægt að breyta heiminum. Gert hann betri og réttlátari og það væri þeirra verk. Guðmundur var formaður Æskulýðsfylkingarinnar í Kópavogi og ég formaður í Reykjavik. Í raun var Fylkingin eins og hún var kölluð æskulíðsfylking Sósíalistafélagsins og byggði á gamalli hefð. Á þessum tíma voru þessar einingar afar sjálfstæðar, fóru sínu fram og síðar voru tengsl þeirra við stjórnmálaflokkinn rofin að fullu og nafninu breytt úr æskulýðsfylking í Fylkingin. Það var þarna sem vinskapur okkar Guðmundar hófst og síðan áttum við eftir fylgjast að eftir krákustigum lífshlaupsins.
Á þessum árum lærði ég að þótt Guðmundur væri ekki hávær né langorður, var hanm með mótaðar skoðanir og vel undir það búinn, þegar taka þurfti afstöðu eða koma einhverju í verk. Hann var góður félagi að halla sér að. Ég lærði líka annað, að þegar kom að því að gleðjast í góðra manna hópi og skemmta sér saman (félagar Fylkingarinnar fundu mörg tækifæri til að gleðjast saman) var Guðmundur með vöskustu mönnum. Gítar Guðmundar var hluti af staðalbúnaði í Fylkingarpartíum. Stundum kom hann líka heim til mín og tók lagið með manninum mínum fyrrverandi (Magnúsi Þór, Megasi) og þá var glatt í kotinu. Undarleg örlög að sá maður átti seinna eftir að verða mágur hans þegar Guðmundur giftist Önnu Grétu mágkonu og vinkonu minni. Hjónaskilnaðir taka sem betur fer ekki til mágsemda. Á þessum tíma var Guðmundur enn við nám í Iðnskólanum, en hann vann með náminu og pólitíkin átti hug hans allan. Einhvern tíma sagði hann mér í algjörum trúnaði að hann langaði að hætta þessu öllu saman og læra tónlist. Ég held að ég hafi ekki almennilega trúað honum og horfði á stórar og á þessum tíma grófar hendur hans. Seinna þegar ég frétti að Guðmundur væri langt kominn með tónlistarnám með vinnu, rifjaðist þetta upp fyrir mér. Og þá fannst mér það vera dæmigert fyrir hann, hann seiglaðist og komst þangað sem hann ætlaði.
En aftur til hinna góðu gömlu daga. Guðmundur var lengur viðloðandi Fylkinguna og róttæka baráttuhópa til vinstri við meginstrauminn, en ég. En leiðir okkar lágu aftur saman eftir að hann og Anna Margrét giftust. Reyndar tók líf Guðmundar þá óvænta stefnu sem ekki tengdist því að hann festi ráð sitt. Hann gerðist útivistarmaður. Í upphafi tilhugalífsins kynnir hann mig fyrir þessu nýja áhugamáli. Hann hefur ákveðið að kynna sér Hornstrandir af eigin raun, ekki láta lengur bara sitja við frásagnir föður síns sem var borinn þar og barnfæddur. Þetta var 1985, það skyldi gengið frá Dröngum í Hlöðuvík að ættaróðali föður hans þar sem Hallvarður hafði byggt myndarlegt hús. Gönguhópurinn var búinn til úr vinum og vinum vina, rétt eins og feisbók nú. Göngumenn voru á ólíkum aldri, frá 12 til 63 ára. Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir að hvílast í Hlöðuvík en þar beið fleira fólk og vistir sem kom með Fagranesinu og halda síðan áfram til Hesteyrar og Aðalvíkur. Enginn í þessari ferð var vanur útivistarmaður nema ef vera skyldi elsti félaginn en hann var lítið fyrir að taka ákvarðanir fyrir aðra. Sagði ævinlega ef hann var spurður um vegalengdir,,að þetta væri smáspölur". Þetta var sem sagt löng og ströng ferð í misjöfnu veðri, við gengum með allt á bakinu og þá var ekki kominn sá létti og þægilegri viðleguútbúnaður sem nú má kaupa í öllum útivistarbúðum.
Eftir þessa ferð var Guðmundur kominn með Hornstrandaveikina og ef ekki gaf á Hornstrandir gekk hann á önnur fjöll og aðrar heiðar. Ég hef ekki tölu á hvað ég og maður minn gengum oft með Guðmundi og stundum fór ég ein. Guðmundur var óviðjafnanlegur ferðafélagi, hann var lítið fyrir að ganga inn í þau vandamál sem upp komu, vissi sem var að í góðum hópi hjálpast menn að en hann lagði línurnar og það var alltaf góður andi þar sem Guðmundur var á ferð.
Ég á ekki eftir að fara fleiri ferðir með Guðmundi hvorki langar eða stuttar. Það á enginn eftir að hringja til mín og spyrja: ,,Ertu til í að koma með mér í ferð á Heklu eftir vinnu, ég er nefnilega að...."?
En Guðmundur var ekki bara kær vinur úr pólitík og ferðalögum. Við vorum svo lánsöm hjónin að eiga þau Önnu Grétu að sem fjölskylduvini og fengið að fylgjast með þeim í gegn um þykkt og þunnt. Meðan við bjuggum úti á landi var heimili þeirra alltaf viðkomustaður og stundum gististaður. Ekki man ég hvenær sú hefð varð til að við kvöddum árið hjá þeim eða hvenær það hófst.
Þótt þetta sé blogg en ekki eiginlega minningargrein, langar mig til að vera hefðbundin og votta fjölskyldu hans samúð mína. Hann skilur eftir sig mikinn söknuð en huggunin er að návist hans var svo sterk að maður finnur fyrir henni þótt hann sé farinn. Ég yrði að minnsta kosti ekkert hissa þótt mér fyndist Guðmundur ganga við hliðina á mér næst þegar ég geng á fjöll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2014 | 22:25
Langar nætur Camillu Collette
Ég lærði dönsku eins og flestir Íslendingar og þess vegna finnst mér ég geta bjargað mér á Norðurlandamálunum. Reyndar er kannski fullmikið sagt að ég hafi lært dönsku en ég lærði að lesa hana og gat skrifað þokkalega stíla, en þegar við fengum kennara sem kunni að tala hana með réttu tónfalli, hlógum við að honum. Síðar átti ég eftir að búa eitt ár í Noregi og fjögur í Svíþjóð.
Ég rifja þetta upp vegna þess að ég stend mig að því að kunna ekki nóg, hafa ekki lært. Reyndar les ég mikið á öllum þessum málum en núna þegar ég sit með ljóðabók á nútímanorsku vantar nokkuð á að ég geti notið hennar til fulls.
Þetta er bókin Camillas lange netter eftir Monu Høvring, en þessa bók tilnefndu Norðmenn til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2014. Bókin er lítil falleg ljóðabók sem byggir á ævi skáld konunnar og kvenréttindakonunnar Camillu Collette. Camilla var 19. aldarkona (fædd 1813, dó 1895), samtímakona Fredriku Bremer (1801 - 1865) í Svíþjóð. Grímur Thomsen var skáldbróðir hennar hér en ég man ekki eftir konu hérlendis sem ég gæti nefnt sem hliðstæðu hennar sem kvenréttindakonu frá þessum tíma.
Ég hafði aldrei heyrt á þessa konu minnst þegar þetta litla kver barst af tilviljun inn á heimili mitt. En ég las mér til og varð heilluð. Camille (fædd Wergeland) skrifaði bækur og barðist fyrir réttindum kvenna. Hún var systir skáldsins Wergelands og elskaði óvin hans og keppinaut Welhaven. Ég hafði reyndar heyrt á þess karla minnst en aldrei lesið neitt eftir þá. En aftur að ljóðabókinni.
Camilla hafði sjálf skrifað bók sem hét Camillas lange netter, í henni fjallar hún um líf sitt. Það má segja að Mona yrki upp þessa bók og færi hana til okkar. Þetta er hrífandi lesning. Mikið finnst manni alltaf merkilegt þegar rödd höfundar hljómar til manns frá löngu liðnum tíma og hittir mann í hjartastað. Ég vildi að ég ætti þessa bók á íslensku, hún minnir mig svolítið á bók Gerðar Kristnýjar,Blóðhófnir.
Ég er þakklát fyrir þessa bók. Hún er hvalreki. Ég vona að hún verði þýdd. Hvernig væri að spara sér að þýða og gefa út eina glæpasögu og gera langar nætur Camillu að jólanóttum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2014 | 00:41
Mánasteinn: Sjón: Glimt frá liðnum tíma
Hef verið að undirbúa mig fyrir bókakvöld í bókaklúbbnum mínum, öðrum af tveimur. Verkefnið var ekki stórt núna, við settum okkur fyrir lesa Mánastein sem er lítil bók. Auðvitað er svolítið öðru vísi að lesa bók þegar hún hefur fengið mikla umfjöllun og lof í fjölmiðlum. Við því er ekkert að gera annað en muna að ég er ein með minni bók og veruleiki hennar kemur til mín eins og mér þóknast að skilja hann.
En það eru ekki fjölmiðlaumfjöllun sem truflar mig þegar kemur að bókum eftir Sjón, heldur hitt að ég næ stundum ekki almennilega sambandi við bækurnar hans og það setur mig í klemmu. Þessi klemma stafar af því að mér líkar svo vel við Sjón eins og hann birtist í fjölmiðlum þegar hann kemur fram sem fulltrúi lista og menningar að mig langar að líka við bækurnar hans. Hann er minn maður. Það breytir þó ekki því að stundum finnst mér ég ekki átta mig á því hvað hann er að fara, skil það sem hann segir en veit ekki af hverju hann segir það. Þetta er vandræðalegt.
Bókin Mánasteinn er eins og stuttmynd frá árinu 1918 en hún er ekki um fullveldið, frostið, spænsku veikina eða Kötlugosið. Reyndar bregður öllu þessu fyrir í sögunni en sagan er um drenginn, einstæðinginn Mánastein sem finnur farveg fyrir líf sitt og tilfinningar í gegnum að horfa á kvikmyndir. Strax í upphafi bókarinnar kemur fram að Mánasteinn laðast að karlmönnum og karlmenn laðast að honum. Á þessum tíma var það bæði synd,skömm og jafnvel glæpur en við því var ekki mikið að gera.
Frásagan um Mánastein er knöpp og það er ekki mikið sýnt inn í hugskot þessa pilts nema þegar kemur að kvikmyndunum og hvernig þær birtast honum og halda síðan áfram að móta sýn hans á veruleikann. Annað fáum við flest að skoða utan frá. Hann er illa læs 16 ára og býr hjá langömmusystur sinni.Hann á enga að. Sjón bregður því oft upp súrrealistiskum myndum, það er kunnuglegt hjá honum og hann gerir það vel.
Það er nýnæmi fyrir mig að skoða íslenskan veruleika frá þessu sjónarhorni, ég hef lesið um evrópskt framúrstefnufólk frá þessum tíma en þegar kemur að árinu 1918 og okkur hér, hugsa ég um frostaveturinn mikla, vöruskort og dauða. Amma mannsins míns dó í spænsku veikinni frá sex börnum. Föðuramma mín fyrir austan var þá búin að eignast átta börn, en veikin náði sem betur fer ekki austur á land. Sjón kynnir til sögunnar auðkonu Annie Winifred Ellerman og vini hennar sem koma við á Íslandi á ferð sinni um heiminn. Hann minnist líka á vinkonu hennar H.D Hilda Doolitle. Þetta fólk er svo órafjarri mér og mínum veruleika að mér fannst nær óhugsandi að heimur þeirra og drengsins, lítilmagnans Mánasteins gætu runnið saman.
Þegar hér var komið sögu í hugleiðingum mínum og skrifum um drenginn Mánastein og hvað Sjón væri að segja með þessari bók, ákvað ég að gera hlé og ljúka skrifunum þegar ég væri búin með ,,skylduskokkið". Og viti menn. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég hafði misskilið allt saman. Sjón var ekki að skírskota til fortíðar heldur til eigin samtíðar og jafnvel framtíðar. Asni gat ég verið. Ég er svo bundin á klafa íslenskrar söguhefðar. Hann var að vísa til unga fólksins í Breiðholtinu þar sem hann ólst upp og unga fólksins á Hlemmi. Hann var að skírskota til fólks sem þarf að finna sér leið til að skilja heiminn og lifa af.
Niðurstaða: Þetta er merkileg þroskasaga unglings sem verður að að takast á við veruleika sem ekki er viðurkenndur af öðrum. Hann finnur sína leið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 8
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 190374
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar