Guðmundur J. Hallvarðsson: Kveðjuorð um vin

390085_2896161210439_1381136246_n

Við Guðmundur kynntust fyrst í róttæku starfi á þeim gömlu góðu dögum þegar ungt fólk trúði því að það væri hægt að breyta heiminum. Gert hann betri og réttlátari og það væri þeirra verk. Guðmundur var formaður Æskulýðsfylkingarinnar í Kópavogi og ég formaður í Reykjavik. Í raun var Fylkingin eins og hún var kölluð æskulíðsfylking Sósíalistafélagsins og byggði á gamalli hefð. Á þessum tíma voru þessar einingar afar sjálfstæðar, fóru sínu fram og síðar voru tengsl þeirra við stjórnmálaflokkinn  rofin að fullu og nafninu breytt úr æskulýðsfylking í Fylkingin. Það var þarna sem vinskapur okkar Guðmundar hófst og síðan áttum við eftir fylgjast að eftir krákustigum lífshlaupsins. 

Á þessum árum lærði ég að þótt Guðmundur væri ekki hávær né langorður, var hanm með mótaðar skoðanir og vel undir það búinn, þegar taka þurfti afstöðu eða koma einhverju í verk. Hann var góður félagi að halla sér að. Ég lærði líka annað, að þegar kom að því að gleðjast í góðra manna hópi og skemmta sér saman (félagar Fylkingarinnar fundu mörg tækifæri til að gleðjast saman) var Guðmundur með vöskustu mönnum. Gítar Guðmundar var hluti af staðalbúnaði í Fylkingarpartíum. Stundum kom hann líka heim til mín og tók lagið með manninum mínum fyrrverandi (Magnúsi Þór, Megasi) og þá var glatt í kotinu. Undarleg örlög að sá maður átti seinna eftir að verða mágur hans þegar Guðmundur giftist Önnu Grétu mágkonu og vinkonu minni. Hjónaskilnaðir taka sem betur fer ekki til mágsemda. Á þessum  tíma var Guðmundur enn við nám í Iðnskólanum, en hann vann með náminu og pólitíkin átti hug hans allan. Einhvern tíma sagði hann mér í algjörum trúnaði að hann langaði að hætta þessu öllu saman og læra tónlist. Ég held að ég hafi ekki almennilega trúað honum og horfði á stórar og á þessum tíma grófar hendur hans. Seinna þegar ég frétti að Guðmundur væri langt kominn með tónlistarnám með vinnu, rifjaðist þetta upp fyrir mér. Og þá fannst mér það vera dæmigert fyrir hann, hann seiglaðist og komst þangað sem hann ætlaði.

En aftur til hinna góðu gömlu daga. Guðmundur var lengur viðloðandi Fylkinguna og róttæka baráttuhópa til vinstri við meginstrauminn, en ég. En leiðir okkar lágu aftur saman eftir að hann og Anna Margrét giftust. Reyndar tók líf Guðmundar þá óvænta stefnu sem ekki tengdist því að hann festi ráð sitt. Hann gerðist útivistarmaður. Í upphafi tilhugalífsins kynnir hann mig fyrir þessu nýja áhugamáli. Hann hefur ákveðið að kynna sér Hornstrandir af eigin raun, ekki láta lengur bara sitja við frásagnir föður síns sem var borinn þar og barnfæddur. Þetta var 1985, það skyldi gengið frá Dröngum í Hlöðuvík að ættaróðali föður hans þar sem Hallvarður hafði byggt myndarlegt hús. Gönguhópurinn var búinn til úr vinum og vinum vina, rétt eins og feisbók nú. Göngumenn voru á ólíkum aldri, frá 12 til 63 ára. Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir að hvílast í Hlöðuvík en þar beið fleira fólk og vistir sem kom með Fagranesinu og halda síðan áfram til Hesteyrar og Aðalvíkur.  Enginn í þessari ferð var vanur útivistarmaður nema ef vera skyldi elsti félaginn en hann var lítið fyrir að taka ákvarðanir fyrir aðra. Sagði ævinlega ef hann var spurður um vegalengdir,,að þetta væri smáspölur". Þetta var sem sagt löng og ströng ferð í misjöfnu veðri, við gengum með allt á bakinu og þá var ekki kominn sá létti og þægilegri viðleguútbúnaður sem nú má kaupa í öllum útivistarbúðum. 

Eftir þessa ferð var Guðmundur kominn með Hornstrandaveikina og ef ekki gaf á Hornstrandir gekk hann á önnur fjöll og aðrar heiðar. Ég hef ekki tölu á hvað ég og maður minn gengum oft með  Guðmundi og stundum fór ég ein. Guðmundur var óviðjafnanlegur ferðafélagi, hann var lítið fyrir að ganga inn í þau vandamál sem upp komu, vissi sem var að í góðum hópi hjálpast menn að en hann lagði línurnar og það var alltaf góður andi þar sem Guðmundur var á ferð.

Ég á ekki eftir að fara fleiri ferðir með Guðmundi hvorki langar eða stuttar. Það á enginn eftir að hringja til mín  og spyrja: ,,Ertu til í að koma með mér í ferð á Heklu eftir vinnu, ég er nefnilega að...."? 

En  Guðmundur var ekki bara kær vinur úr pólitík og ferðalögum. Við vorum svo lánsöm hjónin að eiga þau Önnu Grétu að sem fjölskylduvini og  fengið að fylgjast með þeim í gegn um þykkt og þunnt. Meðan við bjuggum úti á landi var heimili þeirra alltaf viðkomustaður og stundum gististaður. Ekki man ég hvenær sú hefð varð til að við kvöddum árið hjá þeim eða hvenær það hófst. 

Þótt þetta sé blogg en ekki eiginlega minningargrein, langar mig til að vera hefðbundin og votta fjölskyldu hans samúð mína. Hann skilur eftir sig mikinn söknuð en huggunin er að návist hans var svo sterk að maður finnur fyrir henni þótt hann sé farinn. Ég yrði að minnsta kosti ekkert hissa þótt mér fyndist Guðmundur ganga við hliðina á mér næst þegar ég geng á fjöll. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 77
  • Frá upphafi: 187225

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband