31.10.2022 | 21:07
Ida Pfeiffer : Íslandsför
Ida Pfeiffer, landkönnuður. Fædd 1797 og dáin 1858
Hér á árum áður, tíðkaðist að menn legðu á sig ferðalög til að kanna ókunn lönd. Oftast voru þetta karlmenn og ekki einir á ferð. Þetta voru leiðangrar. Landkönnuðurinn Ida Pfeiffer var undantekning. Hún var kona (ekkja) sem lagðist í ferðalög þegar synir hennar tveir voru ouppkomnir. Hún ferðaðist vítt og breitt um veröldina og skrifaði bækur um ferðir sínar. Ferðabækur hennar seldust vel og fjármögnuðu ferðirnar að einhverju leyti.
Frásagan um Íslandsferðina hefur nú komið út í íslenskri þýðingu Guðmundar J. Guðmundssonar.
Íslandsförin
Hingað kom hún með skipi til Hafnarfjarðar 10. maí 1845. Hún hóf þegar að skoða sig um. Langaði að faðma landið, segir hún. Torfbæirnir litu út eins og grösugir hólar. Hún hrífst af landinu en á varla orð til að lýsa sóðaskap fólksins sem býr þar. Engu að síður skoðar hún húsakostinn og lýsingar hennar á torfbæjunum eru greinargóðar. Og ég hugsa þetta stemmir, nokkurn vegin við lýsingu Kiljans á Sumarhúsum hart nær 100 árum seinna. Ida nýtir tímann vel. Fyrst dvelur hún nokkra daga í Reykjavík, býr hjá Bernhöftsfólkinu. Hún skoðar sig um og undirbýr sjálft ferðalagið. Hún kaupir hesta og ræður sér leiðsögumann. Hún heimsækir Krísuvík og Þingvelli, fer þaðan til Borgarfjarðar, dvelur í Reykholti. hún fer í skoðunarferðir um hverasvæðið og skoðar Surtshelli. Snorralaug var á þessum tíma nýtt til að þvo ull, segir hún.
Síðan fer hún til baka til Suðurlands og skoðar m.a. Geysi og gengur á Heklu. Ósjálfrátt ber ég frásögu hennar af Heklugöngunni saman við mína eigin göngu á Heklu. Ég fór með félögum úr Ferðafélagi Íslands en Ida Pfeiffer fór með eigin leiðsögumanni, ríðandi á hesti, hluta ferðarinnar.Ég vorkenni hestinum.
Eftir ferðalög sín um Suðurland og gönguna á Heklu, fer Ida til baka til Reykjavíkur.
Niðurstaða
Ida hrífst af landslaginu en verður fyrir vonbrigðum með fólkið. Hún segir sjálf að hún hafi fyrirfram gert sér háar hugmyndir um bændurna, en orðið fyrir vonbrigðum. Henni fundust Íslendingar upp til hópa latir, fégráðugir erkisóðar og nefnir mörg dæmi þar um. Sér í lagi talar hún um drykkjuskap og neftóbaksnotkun. Hún viðurkennir að fólkið sé bláfátækt en finnst samt að það ætti að geta þrifið sig. En landið sjálft og sérstaklega hraunin fá háa einkunn. Ida hafði viljandi í sparnaðarskyni ekki tekið með sér tjald í ferðina og verður því að gista í kirkjum eða skemmum. Aldrei minnist hún á hvar leiðsögumaðurinn svaf.
Lokaorð
Mér fannst merkilegt að lesa þessa frásögn ókunnrar miðstéttarkonu frá Vínarborg um formæður og forfeður okkar. Það er líka merkilegt hvað er sagt og hvað er látið ósagt. Líklega hefur hún náð litlu sambandi við almenning því fáir töluðu þýsku hér um slóðir. Fyrir ferðina hafði hún að vísu lært eitthvað hrafl í dönsku. Bernhöft, hjálparhella hennar í Reykjavík, talaði þýsku. Tvisvar lýsir Ida kirkjuferð. Í annað skiptið var um að ræða vígslu þriggja presta í dómkirkjunni, í hitt skiptið var lýsing á jarðarför frá sveitakirkju. Henni fundust athafnirnar langdregnar. Auðvitað voru þær á íslensku. Ida virðist hafa verið líkamlega hraust kona og ekki virðist henni hafa orðið meint af volkinu á Íslandi. Hún deyr 1858 erftir dvöl á Madagaskar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2022 | 18:03
Þernan
Ég vissi ekki á hverju ég átti von þegar ég hóf lestur á þessari bók. Fannst eins og ég hefði áður lesið bók með sama nafni. En sú var ekki raunin. Bók Margaret Atwood heitir Saga þernunnar.
Þessi heitir bara Þernan og er afar ólík dystophiu Atwood. En höfundur þessarar bókar er Nita Prose er líka kanadísk.
Þernan
Aðalpersóna bókarinnar heitir Molly Gray. Hún hefur alist upp hjá ömmu sinni sem nú er látin. Hún er 25 ára og vinnur sem þerna á hóteli. Hún elskar vinnuna því hún hefur unun af því að þrífa og taka til. Mollý er óvenjuleg stúlka, í hennar heimi eru hlutirnir annað hvort eða. Svart eða hvítt, engin blæbrigði. Sama gildir um fólk. Meðan amma hennar lifði hjálpaði hún henni með að skilja heiminn með því að útskýra blæbrigði. Mollý er fluggáfuð en hún er á því sem við köllum einhverfuróf.
Nýlega las ég bók um svipaða stúlku í bókinni Kjörbúðarstúlkan. Sú elskaði að vinna í kjörbúð.
En aftur til Mollýjar. Hún er frábær starfsmaður en blandast ekki í hópinn. Það er meira að segja gert grín að henni. Hún er kölluð ryksuguvélmennið og þaðan af verra.
Harður heimur
Það er auðvelt að blekkja fólk eins og Mollý og hún er vísvitandi dregin inn í verknað sem varðar við lög. Hún kann ekki að verja sig. En hún á góðan að. Dyravörðurinn var vinur ömmu hennar. Hann tekur málin í sínar hendur. Allt fer vel að lokum. Ég er ekki að koma upp um neitt, því auðvitað fara flest mál vel. Ef sagan er nógu löng. Ef einhver saga endar illa er hún einfaldlega ekki nógu löng. Það má segja að það sé boðskapur bókarinnar.
Skínandi hreinlæti
Ég hafði reyndar mest gaman af bókinni meðan hún fjallaði fyrst og fremst um tiltektir og hreinlæti. Spennusagan í bókinni var ekki nærri því eins skemmtileg og einfaldleikinn við að það sé hægt að bæta heiminn með hreinlæti. Að það þurfi einfaldlega að taka til.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Hún er oft fyndin og ég er ekki fjarri því að hún hafi haft áhrif á eigin tiltektir. Reyndar fékk ég ágætis tilsögn í heimahúsum fyrir margt löngu. Móðir mín lagði að mér að gera hluti vel. Hún sagði að það væri ekkert fljótlegra að gera hluti illa. Þessu trúi ég reyndar enn.
Lokaorð
Það er vel staðið að þessari bók. Magnea J. Matthíasdóttir hefur þýtt hana og það er Þórey Þórsdóttir sem les.
Ég hef gleymt að tala um fræðslugildi hennar. Molllý talar oft um að þernurnar séu á vissan hátt ósýnilegar og það sé bara tekið eftir því ef tiltekt vantar. Minnir aðeins á hlutverk húsmóðurinnar.
Ekki satt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2022 | 17:31
Dauðinn og mörgæsin Andrej Kurkov
Ég las bókina, Dauðinn og mörgæsin strax og hún kom út en þá var hún kynnt af höfundi á bókmenntahátíð í Iðnó. Þetta hefur líklega verið 2005. Höfundurinn, Andrej Kurkov, var gestur á hátíðinni og kynnti bókina sjálfur. Andrej Kurkov er fæddur í Leníngrad 1961 en flutti tveggja ára með foreldrum sínum til Úkraínu. Hann skrifar á rússnesku.
Sagan
Bókin fjallar um hæglátan rithöfund sem býr einn. Honum hefur haldist illa á konum og honum hefur líka gengið illa að fá verk sín útgefin. Kannski er ekki rétt að hann búi einn því hann á mörgæs og hún tekur mikið pláss í lífi hans og í þessari bók. Honum gengur best að semja stutta texta. Af tilviljun sendir hann einn slíkan til Höfuðstaðsblaðsins. Eftir það fær hann beiðni frá ritstjóranum um að skrifa fyrirfram minningargreinar um þekkt fólk. Það er gott að eiga þær á lager og tiltækar, segir hann. Allir deyja einhvern tíma. Ritstjórinn stingur sjálfur upp á um hverja skuli skrifað og leggur honum til heimildir. Það lítur út fyrir að Viktor hafi dottið í lukkupottinn. En það fylgir böggull skammrifi. Viktor tekur eftir því að persónurnar sem hann hefur skrifað um, látast gjarnan fljótlega eftir að hann hefur skilað inn skrifum sínum um þær.Allt þetta gerist nokkru eftir fall Sovétríkjanna og það eru mikil umbrot í þjóðlífinu, ríkiseignir komast í einkaeign.
Fjölskyldan stækkar
Um svipað leyti og úr rætist með fjarhag Viktors biður vinur hans hann fyrir Sonju, fjögurra ára dóttur sína um stundarsakir. Þegar það dregst að hún sé sótt, ræður hann unga stúlku til að gæta hennar svo það eru orðnir fimm í heimili. Með mörgæsinni meðtalinni.
En líf hans er ekki áhyggjulaust. Mörgæsin vanþrífst. Hún reynist vera með hjartagalla og þarf nýtt hjarta. Hjarta úr barni. Þetta er viðburðarík og spennandi frásögn en ég ætla ekki að rekja hana frekar hér.
Að lesa bók tvisvar
Það eru gömul sannindi að það er ómögulegt að stíga tvisvar í sama lækinn. Eins er þetta með bóklestur, bókin tekur sífelldum breytingum. Ný bók við hvern lestur. Þegar ég las þessa bók í fyrra skiptið, fannst mér hún fyrst og fremst fyndin. Það gerði mörgæsin. Það er eitthvað dæmalaust fyndið við mörgæsir. Líklega er það göngulagið og hvað þær eru líkar mönnum.
Þegar ég las bókina núna fann ég til ótta. Það var eitthvað óhuggulegt í gangi eins og enginn væri óhultur. Og svo voru það veikindin á mörgæsinni.
Ekki veit ég hvað verður í forgrunni þegar ég les hana næst. Ef mér endist aldur. En ég hef það til siðs að lesa góðar bækur oft.
Bókin í paddanum
En ég hafði næstum gleymt því að ég les ekki lengur bækur. Ég hlusta. Þannig verður
bókin sem ég les, verk margra. Það er Áslaug Agnarsdóttir sem þýðir bókina úr rússnesku. Hjálmar Hjálmarsson les hana fyrir Hljóðbókasafnið.
Ég sakna þess að það skuli ekki fylgja henni formáli því mér þykir líklegt að bókin sé fyrst og fremst fyrir heimamenn og það sé margt í henni sem er þeim ætlað og ég skil ekki eða misskil. Ég finn þó að það er margt sem kraumar undir í þessari bók. Og svo minnir hún auðvitað á stríðið, sem við fáum daglegar fréttir af. Einhvern tíma verður hægt að heimsækja Úkraínu.
Kannski og vonandi.
Myndin á ekkert skilt við greinina. Hún er úr mínum heimahögum og er til skrauts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 190410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar