Til hamingju með afmælið RÚV: Upprifjun minninga

 

image

Til hamingju RÚV

Í tilefni af afmæli sjónvarpsins rifjuðust upp minningar sem höfðu blundað lengi. Ég fór að velta fyrir mér úr hvaða jarðvegi það spratt og hvað varð til þess þá, að það var ráðist í að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Þeim fer fækkandi sem muna sjónvarpslaust Ísland.

Á þeim tíma fann þjóðin ekki til knýjandi þarfar fyrir sjónvarp, slíkar þarfir þarf að skapa.

Líklega er lítill vafi á að Kanasjónvarpið, sjónvarp bandaríska setuliðsins, flýtti fyrir þessari þróun. Þetta sjónvarp var mörgum þyrnir í augum. Sumir töldu að það gæti veikt stöðu íslenskunnar. Öðrum fannst að það gæti ekkert gott komið frá herstöð og hermenning væri ekki samboðin friðsamri þjóð.

1965 tóku 60 málsmetandi og þjóðkunnir einstaklingar sig saman og skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda um að láta loka Kanasjónvarpinu eða takmarka það við herstöðina. Þetta kveikti miklar umræður. Í framhaldi af því ákváðu stúdentar við Háskóla Íslands að þrýsta enn á og söfnuðu 600 undirskriftum.

Ég var þá nemandi í Háskólanum og tók að mér það verkefni að safna undirskrifum í Hafnarfirði ásamt ungum manni sem hafði bíl til afnota. Hann keyrði, ég bankaði upp á hjá fólki og talaði við það. Ég var feimin við þennan unga lokkaprúða mann enda var þetta enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson síðar forseti. Ég var líka feimin að tala við fólkið og hefði miklu frekar viljað keyra. En markmið söfnunarinnar náðist, 600 undirskriftir.

Þessar undirskriftir  beindust ekki að því að fá íslenskt sjónvarp. Það er meira að segja öruggt að margir í hópi 60-menninganna hafi verið tortryggnir gagnvart íslensku sjónvarpi á þessum tíma. En allt þetta hefur þó trúlega frekar en ekki flýtt fyrir þróuninni. 

Ekki var þó Kanasjónvarpinu lokað strax.

Ég sá þó aldrei þetta sjónvarp en frétti af því í gegnum nemendur mína sem sumir hverjir voru svo hændir að því að þeir skrópuðu í skólann til að horfa á þátt sem var sýndur á laugardagsmorgnum. Þetta var 1969 og enn kennt á laugardögum.

Enn síðar, ég man ekki hvaða ár. Fór ég ásamt litlum harðskeyttum hópi fólks tengdum Æskulýðsfylkingunni.  Við klifruðum yfir girðingu hersvæðisins í skjóli myrkurs og lögðum sjónvarpsstöð hersins undir okkur. Þetta gekk hratt og líklega betur en við gerðum ráð fyrir, því við vorum ekki tilbúin með hvað gera skyldi í framhaldinu. Var því ýmislegt gert sem ekki var á áætlun. Það var brenndur fáni og ég persónulega slökkti á útsendingunni með því að fikta í tökkum. Svo kom löggan. Seinna hafði ég af þessu nokkrar áhyggjur en slapp með skrekkinn því það virtust vera samantekin ráð að gera, sem minnst úr afreki okkar, enda ekki gott til afspurnar að varnir landsins væru svo veikar  eins og þarna kom í ljós. Það var lítið um þetta mál fjallað í blöðum. En líklega hefur þessi aðgerð ekkert með sjónvarpið okkar og afmæli þess að gera, nema vera skyldi fréttaflutningur. Um hann veit ég ekkert því ég fékk mér ekki sjónvarp fyrr en 1972 eða 74.

Nú finnst flestum íslenskt sjónvarp vera nauðsyn og fólk er löngu hætt af hafa áhyggjur af útlendu sjónvarpi. Nú hafa menn áhyggjur af netinu. Ég óska stofnuninni hjartanlega til hamingju  afmælið. Án hennar væri fjölmiðlalífið dapurlegt.

Myndin var tekin af útsendingu Arte á Töfraflautunni


Upp á sigurhæðir: Ævisaga Matthíasar Jochumssonar

image

Ég dæmi ekki bækur, ég skrifa um lestrarupplifun. Hún getur ráðist af því hvernig bókin hittir mann fyrir, kemur inn í líf manns.

Ég hef lokið við að lesa bókina Upp á Sigurhæðir: Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur. Bókin er 672 blaðsíður og vegur næstum tvö kíló. Bókin er prýdd mörgum myndum. Þetta er sem sagt engin koddalesning, sem er kannski skýringin á að ég las hana ekki fyrr en nú, en hún kom út 2006. Nú hlusta ég á hana sem hljóðbók. Það er Jón B. Guðlaugsson sem les, hann er áheyrilegur. Það tekur u.þ.b. 24 klukkustundir að hlýða á bókina og þeim tíma var vel varið.

Líklega er rétt að geta þess hér að ég hef aldrei ha

ft neinar sérstakar mætur á Matthíasi og var til þess að gera ófróð um hann. Mér fannst lítið koma til hans sem skálds og sumt beinlínis leiddist mér. Þessi bók breytti áliti mínu, sem er gott. Fyrra viðhorf mitt byggði á fáfræði. Líklega veldur þar mestu um að nú sé ég Matthías í aðstæðum sem hann bjó við, sem mótaði hann. Seinna átti hann sjálfur þátt í að móta sína eigin samtíð. Matthías hafði mikil áhrif á fjölmarga þætti þjóðlífsins. Skoðanir hans voru í átti til meira frjálslyndis og jafnræðis. Það var t.d. ekkert hik á honum varðandi stöðu kvenna, hann taldi að þær ættu sama rétt og karlar.

Skáldskapurinn verkfæri hans til að setja fram skoðanir sínar.

Bók Þórunnar er ekki bara ævisaga, hún er líka aldarfarslýsing. Það er gaman að bera þessa tíma saman við okkar tíma. Þórunn hefur úr miklu efni að moða, bæði úr blöðum og tímaritum og úr einkabréfum. Fólk þessa tíma var ótrúlega duglegt að skrifa og það er merkilegt að sjá hvað er látið fjúka. Feisbók er ekkert í samanburði við bréfaskriftir þeirra.

Matthías vildi þróa hugmyndir kristninnar á þann veg að ekki yrðu stöðugir árekstrar við vísindakenningar þess tíma og skynsamleg rök. Hann fann að hann átti samleið með Únitörum og tók að sér að vinna að framgangi þeirra á Íslandi. Það er þó spurning um hvort hann efndi loforð sín, því hann kaus að gera þetta á þann veg að fara ekki í stríð við kirkjuna, en vinna fyrir málstaðinn með skrifum og fyrirlestrum. Ég hefði kosið að Þórunn hefði fjallað ítarlega um hugmyndir   Únitara en hef reynt að bæta mér það upp með því að lesa mér til annars staðar.

Það var gaman að lesa þessa bók, Matthías er hrífandi persóna, fjölhæfur og mikilvirkur. Það er ótrúlegt hvað liggur mikið eftir hann. Það hefur oft verið fundið Matthíasi til foráttu að hann var stöðugt á höttunum eftir peningum. Sumum fannst hann leggjast lágt.

En þá ber á það að líta að hann er af alþýðufólki kominn  og var aldrei eignamaður og hafði fyrir mörgum að sjá. Enn er listamönnum núið upp úr því að þeir séu ómagar sem lifi á öðrum.

Lokaorð

Það var þýðing Matthíasar á Sögum herlæknisins sem ýtti við mér að lesa þessa bók. Þýðingin er snilld, sérstaklega fannst mér formálinn merkilegur. Nú að lestri loknum finn ég til tómleika, eins og ég hafi kvatt vin.

Það er ekki nokkur vegur að rekja þessa löngu sögu hér. Ég hef staldrað við fáeina þætti sem mér finnst gaman að skoða betur, sem, skoða í ljósi dagsins í dag. Mér fannst Þórunn fara hratt yfir sögu í lok bókarinnar, mín vegna hefði hún mátt vera lengri.

Myndin er sótt í bókina. Hún er teiknuð af Hannesi Hafstein


Lestur er lífsgæði: Skrifað í bið eftir að lesa Zacharias Topelius

 image

Lestur er lífsgæði. Þetta hugsaði ég þegar mig rak í strand með að lesa Sögur herlæknisins eftir Zacharías Topelíus. Minn lestur, ef lestur skyldi kalla, er háður aðgengi að hljóðbókum, ég hlusta. Auðvitað er þetta ekki það sama og að lesa sjálf, en ég er farin að læra á það og sætta mig við. Það kom í ljós að aðeins fyrsta bókin af þremur var til innlesin hjá Hljóðbókasafni Íslands. Ég varð að skilja við Sögur herlæknisins í þann mund sem hann var að fara að segja frá hrapallegum hamförum Karls XII.

Ég hafði samband við hljóðbókasafnið og bað um að verkið yrði lesið í heild sinni, reyndi að tjá mig um vandkvæði sem koma upp í sálarlífinu þegar maður verður að stoppa í miðri bók. Veit ekki hvort það tókst eða hvort sálarlíf mitt skiptir máli í bókavali þar á bæ.

Til að bregðast jákvætt við ákvað ég að lesa Sigurhæðir, bók Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur, um Matthías Jochumsson,en það er hann sem þýddi Sögur herlæknisins á sínum tíma.Ég hugsaði oft til Matthíasar meðan ég var að lesa Sögur herlæknisins, um hvílíkt afrek það er að koma þessari bók til skila á sínum tíma. Ég á eftir að segja ykkur frá Matthíasi. Mér finnst sú bók ætti að vera skyldulesning í Guðfræðideild og kannski víðar.

Þetta var góð ákvörðun. Ég var ekki fyrr farin að lesa um Matthías, en ég var dottin inn í efnið. Ótrúlega góð bók. Nú hef ég lokið henni. Í gærkvöldi fann ég hvernig fyllti sál mína. Hvaða bók gæti fyllt slíkt tómarúm, heill Matthías og einn þriðji herlæknir eftir Topelíus.

Þá skaut hugmynd niður, ég veit ekki hvaðan. Skyldi vera búið að lesa inn bók Jensens, Carl Johan, Ó, sögur um djöfulskap, sem Ingunn Ásdísardóttir þýddi 2o13 Og viti menn? Hún er innlesin, það er meira að segja þýðandinn sjálfur sem les og það tekur um það bil 40 klukkustundir að hlýða á hana. Þá get ég verið til friðs í þó nokkra daga.

Þessar hugleiðingar voru settar á blað vegna þess að það var ekki fyrr en aðgangur minn að bókum takmarkaðist vegna fötlunar minnar að ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að lestur er lífsgæði.

Svona er maður alltaf að læra.

Myndin er af Zacharias Topelisus, sótt á netið


Þræðir fortíðar: Sögur herlæknisins

Sögur herlæknisins

Spuni minninganna

Ég mun minnast þessa sumars, sem sumarsins sem ég var ógöngufær og tók að mér það verkefni að fjalla um heimilistæki fyrir tíma rafmagns. Við viðfangsefnið studdist ég við eigin minningar, auk þess sem sem ég las mér til. Hugurinn var því eðli málsins samkvæmt mikið austur í Breiðdal. Ég hugsaði til foreldra minna, til foreldra þeirra. Ég hugsaði um hugmyndaheim þeirra, mynd þeirra af heiminum. Allt í einu var ég farin að hugsa um hvað þau lásu. Foreldrakynslóð mín ólst upp við að lesa Sögur herlæknisins. Pabbi vitnaði oft til þeirrar sögu. Ég hafði aldrei lesið hana og í krafti þess að ég var að leitast við að sjá fortíðina, ákvað ég að lesa þessa sögu. Svona geta minningar spunnið þráð.

Sagan

Nú hef ég lokið fyrstu bók af þremur. Sögurnar sem eru eftir Zacharias Topelius, komu út í Finnlandi á árunum 1851-1866. Þetta er söguleg skáldsaga um sögu Finnlands og Svíþjóðar. Rammi þessara frásagna er nokkurs konar finnskt baðstofulíf, þar sem gamli herlæknirinn segir sögurnar í áföngum. Sögurnar komu út á íslensku á árunum 1904-1909 í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Bókin hefur nú verið endurútgefin rafrænt. Matthías skrifar formála að bókinni þar sem hann gerir grein fyrir hugmyndum sínum um þýðingarvinnuna. Þýðingin er snillþd. Þetta er stórvirki og hreint ótrúlegt að slíkt skuli vera gert í hjáverkum.

Þetta er ekki bók sem  leyfir lesanda sínum að slaka á. Þetta er saga mikilla átaka og hörmunga ýmist af mannavöldum eða af harðræði sem náttúran leggur á fólk. Eitt tekur við af öðru, stríð, hallæri og hungurdauði. Krydd frásagnarinnar er glæsileiki aðalsins, ástir og ofbeldi.

Fyrsta sagan segir frá Gústaf Adolf og þrjátíu ára stríðinu og frá dögum þeirra Karls X. og lýkur á dauða Karls XI. Aðalpersónur sögunnar eru uppskáldaðir  söguhetjur finnskrar ættar, þeir Bertenskjöld hershöfðingi og seinna sonur hans Bertenskjöld greifi. Bertenskjöldarnir eru límið í þessari sögu.

Þetta er svo breið og löng saga að mér dettur ekki í huga að reyna að endursegja hana. Það sem ég hrífst af er frásagnargleðin, hvernig hann lætur söguna koma til okkar með því að sviðsetja og tengja. Þetta er ljót saga. Alþýðan er fátæk og kúguð og sænskir kóngar flengjast um Evrópu og drepa fólk og spilla landi í nafni trúarinnar. Hver trúir því. Það er eins og höfundur sjái ofbeldið og óréttlætið en hann er samt veikur fyrir glæsileka aðalsins og færir rök fyrir því að þeir geti gagnast fólki ef rétt er á haldið. Frásögnin minnir stundum á Íslendingasögurnar, stundum er hún rómantísk og skáldleg.

Samanburður 

Fjölskyldan á HlíðarendaMeðan ég var að rifja upp hvaða heimilistæki voru í notkun fyrir tíma rafmagns, horfi ég á  mynd af fjölskyldu föður míns. Það kom ljósmyndari á bæinn og fólkið dreif sig út. Afi hafði verið í smiðju og þvoði sér ekki einu sinni í framan, sagði amma. Mér þykir ekki ólíklegt að afi hafi lesið Sögur herlæknisins. Kannski upphátt fyrir fjölskylduna. Það voru aðrir tímar fyrir rafmagn.

Við lesturinn ber ég atburði sögunnar saman við það sem var að gerast í okkar landi. Við vorum  fátæk og smá en við þurftum ekki að þola stríð eða skaffa hermenn á vígvöll.

Ég hrósa happi að ég skyldi detta niður á þessa bók og velti fyrir mér hvað áhrif hún hefur haft á sína samtíð.

Fyri myndin er úr bókinu og sýnir dauða Gústaf Adolfs. Listamanns ekki getið.

Síðari myndin er af fjölskyldu föður míns.

 


Smásögur heimsins: Norður Ameríka

image

Ekki veit ég hvað það er með mig og smásögur. Það er einhver fyrirstaða og ég dreg það alltaf í lengstu lög að lesa þær, jafnvel þótt um uppáhaldshöfunda sé að ræða. Ég þarf að herða mig upp, tala í mig kjark.

Þegar ég heyrði um hina bráðsnjöllu hugmynd að gefa út smásagnasöfn, þar sem hvert hefti væri helgað hverri heimsálfu, hugsaði ég, þetta skal ég lesa. Engu að síður lét ég það dragast í  meira en hálft ár.

Í bókinni eru 13 sögur frá Norður-Ameríku. Suma höfundanna þekki ég en aðra ekki. Þetta er fjölbreyttur hópur, konur og karlar, fólk af ólíkum uppruna og með mismunandi bakgrunn. Hver saga er brot af lífi og saman mynda þær heilan heim. Margar sögur komu mér á óvart, líklega er það eðli smásagna.

Ég ætla ekki að fjalla efnislega um bækurnar,  til þess eru þær of margar og ég get ekki eða vil, gera upp á milli þeirra.

Það er ekki bara að bókin færi okkur þessar sögur, í henni er líka fjallað um smásöguna sem slíka, auk þess fær lesandinn nokkurn fróðleik um hvern og einn höfund sagnanna og aftast er örlítið sagt frá þýðendum. Í hinu knappa formi smásögunnar veldur hver heldur  á . Reyndar er þýðendur alltaf mikilvægir.

Ég hóf þennan pistil á að tala um vandamál mitt gagnvart smásögum. Mig grunar ástæðuna. Engar sögur ganga eins nærri mér og góð smásaga og ég er ekki alltaf tilbúin til að takast á við það.

Í þetta skipti ákvað ég að lesa tvær sögur á kvöldi, hvorki meira né minna. Það gekk vel og þær meiddu mig ekki óbærilega en næst ætla ég að lesa eina á dag. Og ég hlakka til.

Lokaorð

Mér finnst útkoma þessarar bókar eitt það merkasta sem lengi hefur gerst í bókaheiminum. Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason önnuðust þessa útgáfu. Ég þakka þeim.

Myndin sem fylgir er af bókarkápu. Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli hvað álímdir miðar spilla oft útlit fallegra bóka. En líklega er þetta nauðsyn.


Djöflaeyjan

image

Ég hef gert það að vana mínum að skrifa pistla um bækur sem ég les, leikhúsferðir og ýmislegt annað. Þetta geri ég í krafti þess að menning er fyrir háa sem lága, allir geta sagt sitt um menningu. Þess vegna er hún menning, það er eðli hennar.  

Ég fór í Þjóðleikhúsið á sunnudaginn var og nú bregður svo við, að það kemur hik á mig að segja hvað mér finnst um sýninguna. Ég veit að það er vegna  þess að, að þó að ég skemmti mér,  féll  mér ekki sumt í sýningunni. Ég veit sem er, að þetta hik stafar að meðvirkni. Það hafa svo margir lagt mikið að sér við að skapa þetta og lagt sál sína í verkið. En til að vera sjálfri mér trú, hef ég einsett mér að hrista þetta af mér, í krafti þess að sannleikurinn sé alltaf sagna bestur.

Fyrir leikhúsferðina hafi ég átt alvarlegt samtal við sjálfa mig, til að minna mig á að leikhúsverk sjálfstætt verk, annað en bókin. Ég ákvað að reyna einnig að losa mig undan áhrifum frá kvikmyndinni og leikhúsuppfærslu Leikfélags Reykjavíkur sem Kjartan Ragnarsson, setti upp og mér fannst alveg frábær. En auðvitað eru öll þessi verk að draugast í manni meðan maður er að horfa, það gildir einu hverju  þú hefur lofað sjálfum þér. 

En sýningin byrjaði vel, þegar leikmyndin birtist, saup ég hveljur, mér fannst hún svo falleg og áhrifamikil. Sömu sögu er að segja um tónlistina og textarnir voru frábærir. Meðan ég naut verksins, velti ég því fyrir mér, hvort og hvernig sagan skilaði sér til þeirra sem eru henni ekki kunnugir. Um það get ég ekki dæmt en mér fannst sjálfri að sagan hefði tapað ýmsu í sambandi við persónur og atburðarás. Ég saknaði Línu spákonu, en þá á ég við að sú Lína sem ég hef alltaf séð fyrir mér, var ekki þarna í Þjóðleikhúsinu þetta kvöld. Mín Lína er valdamikil persóna, hún heldur fjölskyldunni saman  og berst eins og ljón fyrir sínum málstað. Þessi Lína var eins og tuðandi meðvirknisjúklingur og brandarnir sem henni voru lagðir í munn minntu mig á þröngsýna kellingu sem engin tekur mark á. 

Ég er sem sagt ekki ánægð með þessa nýju Línu og held þó að það sé með vilja gert að hafa Línu svona. Ef það hefði staðið til að leyfa henni að halda reisn sinni, hefði hún fengið söngtexta til að flytja okkur og hún hefði fengið fatnað til að klæðast í, sem magnaði upp allt hið magnþrungna sem fylgir því að sjá fyrir örlög fólks.

Það var fleira sem mér líkaði ekki. „Aukapersónur“ voru ekki nægilega tengdar inn í verkið, ráfuðu um í tilgangsleysi og voru næstum því fyrir. Ég hef gæsalappir um aukapersónur, því allt eru þetta mikilvægar persónur sem eiga erindi í þessu verki. Þarna á ég t.d. við kúluvarparann og konu hans. Aðalpersóna þessarar leikgerðar, Baddi, var látinn sletta alltof mikilli ensku og brandarar sagðir of oft. Það sem er skemmtilegt einu sinni eða tvisvar verður þreytandi ef það er of oft endurtekið. Allt of líkt raunveruleikanum.

En þrátt fyrir alla þessa upptalningu um það sem ég hefði viljað hafa öðru vísi, naut ég sýningarinnar, það var svo mikið sem var vel gert. Ég var ánægð með mjúka manninn Gretti, ástríðufulla elskhugann, Halldór trésmið, hinn hljóðláta draumlinda Danna  svo ég tali ekki um heimilisföðurinn Halldór. Eggert bregst aldrei. Fleira mætti upp telja.

Það fylgja því sem sagt bæði kostir og gallar að horfa á sögu, sem er í uppáhaldi túlkað af öðrum. Manni gefst tækifæri til að rifja upp söguna en maður verður að sætta sig við að maður er stundum ósammála túlkun annarra. Þá er ráð að grípa björgunarhringinn og hugsa, þetta er sjálfstætt verk.

Myndina tók ég af bragga í Reykjavík, sem enn stendur.

 


Svona fór um sundferð þá

 image

Ég er ekki góð til gangs en get hjólað.  Ég dreif mig í sund, trúi á lækningamátt heitra pott og léttrar hreyfingar. Þegar ég var að stimpla mig inn í gegnum hliðið í sundinu, tókst ekki betur til en svo að ég var ekki nógu snögg í gegnum hliðið og það lokaði á mig. Reffilegur karl sem var að stimpla sig út, kallaði til mín eitthvað á þessa leið:“Ég hef aldrei á lífsfæddri æfi minn séð annan eins klaufaskap“. Ég reyndi að afsaka mig og sagði: „Ég er nú ekki góð til gangs um þessar mundir“. Hann svarði um hæl:“Ég myndi nú klofast yfir í þínum sporum“, síðan snaraðist hann í burt, svo ég hafði ekki tíma til að segja honum að það gæti ég alls ekki. Ekki var mér nú alveg sama um þessi samskipti.

Ég kom mér að þjónustuborðinu til að biðja um aðstoð. Þar var afgreiðslumaður að útskýra baðsiði Íslendinga fyrir útlendum ferðamönnun. Ræðan var nokkuð löng svo ég hafði góðan tíma til að hugsa um uppákomuna við hliðið.

Það var gott, því nú sá ég samskiptin í nýju ljósi. Auðvitað hefði reffilegur karlmaður aldrei farið að eyða orðum á kerlinguna mig, ef hann hefði vitað að þarna færi hálfáttræð farlama manneskja. Mér létti. Ég hlýt að bera aldurinn og verkin vel. Þetta gladdi mig. Auk þess var ræða afgreiðslumannsins um baðsiðina skemmtileg, það er gaman að heyra um alla þessa staði sem maður á að þvo sérstaklega. Það er mikils um vert að vanda orðavalið svo þetta verði ekki beinlínis klúrt. Þegar hann loksins hafði tíma til að opna fyrir mér, var mér glatt í sinni. Ég tók mína venjulegu rútínu í sundinu og komst klakklaust í gegnum hliðið út. Sundið hefur greinilega gert mér gott.

Svona fór um sundferð þá.

Myndina átti ég í fórum mínum og finnst hún gæti átt við:Maður getur alltaf á sig blómum bætt.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2016
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 187197

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband