Djöflaeyjan

image

Ég hef gert það að vana mínum að skrifa pistla um bækur sem ég les, leikhúsferðir og ýmislegt annað. Þetta geri ég í krafti þess að menning er fyrir háa sem lága, allir geta sagt sitt um menningu. Þess vegna er hún menning, það er eðli hennar.  

Ég fór í Þjóðleikhúsið á sunnudaginn var og nú bregður svo við, að það kemur hik á mig að segja hvað mér finnst um sýninguna. Ég veit að það er vegna  þess að, að þó að ég skemmti mér,  féll  mér ekki sumt í sýningunni. Ég veit sem er, að þetta hik stafar að meðvirkni. Það hafa svo margir lagt mikið að sér við að skapa þetta og lagt sál sína í verkið. En til að vera sjálfri mér trú, hef ég einsett mér að hrista þetta af mér, í krafti þess að sannleikurinn sé alltaf sagna bestur.

Fyrir leikhúsferðina hafi ég átt alvarlegt samtal við sjálfa mig, til að minna mig á að leikhúsverk sjálfstætt verk, annað en bókin. Ég ákvað að reyna einnig að losa mig undan áhrifum frá kvikmyndinni og leikhúsuppfærslu Leikfélags Reykjavíkur sem Kjartan Ragnarsson, setti upp og mér fannst alveg frábær. En auðvitað eru öll þessi verk að draugast í manni meðan maður er að horfa, það gildir einu hverju  þú hefur lofað sjálfum þér. 

En sýningin byrjaði vel, þegar leikmyndin birtist, saup ég hveljur, mér fannst hún svo falleg og áhrifamikil. Sömu sögu er að segja um tónlistina og textarnir voru frábærir. Meðan ég naut verksins, velti ég því fyrir mér, hvort og hvernig sagan skilaði sér til þeirra sem eru henni ekki kunnugir. Um það get ég ekki dæmt en mér fannst sjálfri að sagan hefði tapað ýmsu í sambandi við persónur og atburðarás. Ég saknaði Línu spákonu, en þá á ég við að sú Lína sem ég hef alltaf séð fyrir mér, var ekki þarna í Þjóðleikhúsinu þetta kvöld. Mín Lína er valdamikil persóna, hún heldur fjölskyldunni saman  og berst eins og ljón fyrir sínum málstað. Þessi Lína var eins og tuðandi meðvirknisjúklingur og brandarnir sem henni voru lagðir í munn minntu mig á þröngsýna kellingu sem engin tekur mark á. 

Ég er sem sagt ekki ánægð með þessa nýju Línu og held þó að það sé með vilja gert að hafa Línu svona. Ef það hefði staðið til að leyfa henni að halda reisn sinni, hefði hún fengið söngtexta til að flytja okkur og hún hefði fengið fatnað til að klæðast í, sem magnaði upp allt hið magnþrungna sem fylgir því að sjá fyrir örlög fólks.

Það var fleira sem mér líkaði ekki. „Aukapersónur“ voru ekki nægilega tengdar inn í verkið, ráfuðu um í tilgangsleysi og voru næstum því fyrir. Ég hef gæsalappir um aukapersónur, því allt eru þetta mikilvægar persónur sem eiga erindi í þessu verki. Þarna á ég t.d. við kúluvarparann og konu hans. Aðalpersóna þessarar leikgerðar, Baddi, var látinn sletta alltof mikilli ensku og brandarar sagðir of oft. Það sem er skemmtilegt einu sinni eða tvisvar verður þreytandi ef það er of oft endurtekið. Allt of líkt raunveruleikanum.

En þrátt fyrir alla þessa upptalningu um það sem ég hefði viljað hafa öðru vísi, naut ég sýningarinnar, það var svo mikið sem var vel gert. Ég var ánægð með mjúka manninn Gretti, ástríðufulla elskhugann, Halldór trésmið, hinn hljóðláta draumlinda Danna  svo ég tali ekki um heimilisföðurinn Halldór. Eggert bregst aldrei. Fleira mætti upp telja.

Það fylgja því sem sagt bæði kostir og gallar að horfa á sögu, sem er í uppáhaldi túlkað af öðrum. Manni gefst tækifæri til að rifja upp söguna en maður verður að sætta sig við að maður er stundum ósammála túlkun annarra. Þá er ráð að grípa björgunarhringinn og hugsa, þetta er sjálfstætt verk.

Myndina tók ég af bragga í Reykjavík, sem enn stendur.

 


Bloggfærslur 9. september 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 186934

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband