Til hamingju með afmælið RÚV: Upprifjun minninga

 

image

Til hamingju RÚV

Í tilefni af afmæli sjónvarpsins rifjuðust upp minningar sem höfðu blundað lengi. Ég fór að velta fyrir mér úr hvaða jarðvegi það spratt og hvað varð til þess þá, að það var ráðist í að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Þeim fer fækkandi sem muna sjónvarpslaust Ísland.

Á þeim tíma fann þjóðin ekki til knýjandi þarfar fyrir sjónvarp, slíkar þarfir þarf að skapa.

Líklega er lítill vafi á að Kanasjónvarpið, sjónvarp bandaríska setuliðsins, flýtti fyrir þessari þróun. Þetta sjónvarp var mörgum þyrnir í augum. Sumir töldu að það gæti veikt stöðu íslenskunnar. Öðrum fannst að það gæti ekkert gott komið frá herstöð og hermenning væri ekki samboðin friðsamri þjóð.

1965 tóku 60 málsmetandi og þjóðkunnir einstaklingar sig saman og skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda um að láta loka Kanasjónvarpinu eða takmarka það við herstöðina. Þetta kveikti miklar umræður. Í framhaldi af því ákváðu stúdentar við Háskóla Íslands að þrýsta enn á og söfnuðu 600 undirskriftum.

Ég var þá nemandi í Háskólanum og tók að mér það verkefni að safna undirskrifum í Hafnarfirði ásamt ungum manni sem hafði bíl til afnota. Hann keyrði, ég bankaði upp á hjá fólki og talaði við það. Ég var feimin við þennan unga lokkaprúða mann enda var þetta enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson síðar forseti. Ég var líka feimin að tala við fólkið og hefði miklu frekar viljað keyra. En markmið söfnunarinnar náðist, 600 undirskriftir.

Þessar undirskriftir  beindust ekki að því að fá íslenskt sjónvarp. Það er meira að segja öruggt að margir í hópi 60-menninganna hafi verið tortryggnir gagnvart íslensku sjónvarpi á þessum tíma. En allt þetta hefur þó trúlega frekar en ekki flýtt fyrir þróuninni. 

Ekki var þó Kanasjónvarpinu lokað strax.

Ég sá þó aldrei þetta sjónvarp en frétti af því í gegnum nemendur mína sem sumir hverjir voru svo hændir að því að þeir skrópuðu í skólann til að horfa á þátt sem var sýndur á laugardagsmorgnum. Þetta var 1969 og enn kennt á laugardögum.

Enn síðar, ég man ekki hvaða ár. Fór ég ásamt litlum harðskeyttum hópi fólks tengdum Æskulýðsfylkingunni.  Við klifruðum yfir girðingu hersvæðisins í skjóli myrkurs og lögðum sjónvarpsstöð hersins undir okkur. Þetta gekk hratt og líklega betur en við gerðum ráð fyrir, því við vorum ekki tilbúin með hvað gera skyldi í framhaldinu. Var því ýmislegt gert sem ekki var á áætlun. Það var brenndur fáni og ég persónulega slökkti á útsendingunni með því að fikta í tökkum. Svo kom löggan. Seinna hafði ég af þessu nokkrar áhyggjur en slapp með skrekkinn því það virtust vera samantekin ráð að gera, sem minnst úr afreki okkar, enda ekki gott til afspurnar að varnir landsins væru svo veikar  eins og þarna kom í ljós. Það var lítið um þetta mál fjallað í blöðum. En líklega hefur þessi aðgerð ekkert með sjónvarpið okkar og afmæli þess að gera, nema vera skyldi fréttaflutningur. Um hann veit ég ekkert því ég fékk mér ekki sjónvarp fyrr en 1972 eða 74.

Nú finnst flestum íslenskt sjónvarp vera nauðsyn og fólk er löngu hætt af hafa áhyggjur af útlendu sjónvarpi. Nú hafa menn áhyggjur af netinu. Ég óska stofnuninni hjartanlega til hamingju  afmælið. Án hennar væri fjölmiðlalífið dapurlegt.

Myndin var tekin af útsendingu Arte á Töfraflautunni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 187318

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband