Smjörklípuvélin

imageÍ gamla daga,þegar ég var ung, framleiddum við stundum smjör á mínu heimili. Við áttum smjörmót og eigið framleiðslunúmer, til að neytendur gætu rakið hvaðan smjörið var. Það er langt síðan. 

Löngu seinna lærði ég orðið smjörklípa. Það hefur með pólitík að gera og maður þarf hvorki mót eða númer til að útdeila slíku smjöri, enda ókeypis vara. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég lenti í vandræðum með að finna smjörið á morgunverðarborðinu á hótelinu þar sem ég bý. Var þá bent á undarlegt tæki sem mótar litlar sætar smjörklípur, þegar ýtt er á takka. Hugsaði strax heim, svona tæki gæti nýst sumum í pólotíkinni. 

Mér fannst svo mikið til tækisins koma að ég tók mynd af því. 

En auðvitað er þetta vegna þess að hugurinn er á einhverju pólitísku svamli. 


Á hækjum um Berlín

image

Er búin að kjósa en hugsa heim. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn pólitísk, því nú finn ég æ á eigin skinni hversu miklu máli skiptir að við fáum starfhæfa stjórn sem vill takast á við að endurreisa velferðarkerfi á Íslandi. Ég segi, á eigin skinni því nú þarf ég á hjálp að halda og ég hélt að ég væri búin að vinna mér hana inn, ég hef verið ein af þessum með breiðu bökin, sem borga skatt án efirsjár og trúað því að ég fenginþetta allt launað, ef og þegar ég þyrfti á því að halda. Þannig er því eflaust varið með marga. Ég þekki engan sem ekki vill gott heilbrigðiskerfi.t 

En tíminn hér í Berlín er búinn að vera góður. Ég er búinað vera slæm í baki og mjöðm frá því í apríl og gengið við hækju. Allt í einu datt mér í hug að það væri svo sem ekkert verra að vera á hækjum erlendis. Mér fannst ég þurfa að styrkja mig til að detta ekki niður í þunglyndi. 

Og tíminn í Berlín er búinn að vera dásamlegur. Tónleikar og leikhús svo ég tali nú ekki um bjór og góðan mat. Nú líður að lokum dvalarinnar og ég bíð spennt eftir úrslitum kosninganna. Ekk þægilega spennt eins og á kappleik eða spurningakeppni. Nú snýst þetta um mitt eigið líf. Hvað verður tíminn á biðlista löng? Fæ ég áfram lyfin sem forða mér frá því að forða mér í lengstu lög frá því að verða alveg blind?

Ég kaus Samfylkinguna áður en ég fór í ferðalagið, því henni treysti ég best þótt það sé á brattann að sækja. 

Kosningar eru ekki spaug. Þær eru dýrt spaug.


Fyrir hvað er verið að refsa Samfylkingunni?

 image

Stundum finnst mér gott að flækja ekki hlutina, hugsa einfaldar hugsanir, kannski að því er virðist barnalegar. Pólitík þarf ekki að vera flókin. Það eina sem maður þarf að vita er hvernig þjóðfélag við viljum hafa og hverjum þú treystir best til að vinna aað því að koma því á.

Þegar maður les niðurstöður skoðanakannana blasir að það við að Samfylkingunni skal refsað. En fyrir hvað? Af því pólitík skiptir máli hef ég reynt að finna svar eða svör við þessari spurningu.  Og af því að mér finnst eðlilegast að vera opin og ræða af hreinskilni um það sem skiptir mig máli, ef ég á annað borð ræði það, þá get ég sagt það strax að þessar vangaveltur mínar eru ekki síst sprottnar af því að ég hef kosið Samfylkinguna og ég ætla að kjósa hana í komandi kosningum.

Aftur að spurningunni. Mér finnst ekki ólíklegt að sumir óánægðir með hvernig hún stóð að málum þegar Hrunið varð, hún var jú annar ríkisstjórnarflokkurinn. Hrunið kom illa við marga, sumir töpuðu fé og eignum og enn aðrir misstu þá öryggistilfinningu sem þeir höfðu haft og þó sér í lagi traust sitt á stjórnmálamönnum. Enn ef þetta er svarið, hvers vegna eru menn þá ekki að hegna Sjálfstæðisflokknum? Aðkoma hans að fjármálum  og sér í lagi að Hrunmálunum var þó mun meiri en Samfylkingarinnar.

Liggur þá skýringin í því hvernig Samfylkingin stóð að því að rétta við fjármál þjóðarinnar að Hruni loknu? Þá voru margar erfiðar ákvarðanir teknar og það er sjálfsagt ýmislegt út á þær að setja, þetta voru erfiðir tímar og það þurfti að vinna hratt. En ef skýringin liggur þarna, af hverju er ekki Vinstri Grænum refsað líka?

Þriðji möguleikinn er að fólki lítist einfaldlega ekki á núverandi stefnu Samfylkingarinnar og treysti ekki fólkinu sem er í framboði? Það er erfitt að finna svar við þessu, en ég hef skoðað þessa stefnu og borið hana við það sem aðrir flokkar bjóða og mín niðurstaða er að ég ætla að kjósa þennan flokk. Og fólkið? Marga þekki ég  og treysti og aðra hef ég reynt að fræðast um og mér líst vel á. Auðvitað er margt gott fólk í framboði hjá öðrum flokkum, svo þegar til kastanna kemur ræðst niðurstaða mín af stefnunni.

Núverandi stjórnarflokkar bera mikla ábyrgð. Ég sé þá fyrir mér sem flokkana sem gátu ekki látið borgara landsins njóta góðs af einhverju mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað. Þeir eru flokkarnir sem hafa lagt sig fram um að rústa velferðarkerfinu og foringjar í forystusveit þeirra hafa orðið vísir af ósannindum og undanbrögðum með eigin peninga. Við getum ekki treyst fólki sem vill að það gildi önnur lög fyrir þá en fólkið í landinu,

Ég get sem sagt ekki svarað spurningunni, fyrir hvað kjósendur ætla að refsa Samfylkingunni og langar að biðja aðra svara þeirri spurningu hver fyrir sig. Það er óþarfi að segja mér svarið, það er einfaldlega of seint. Ég vil kjósa flokk sem stendur fyrir jafnaðarstefnu og gengst við henni.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna, hún er glæsilegur flokkur.

Mín lokaorð eru fengin að láni (að breyttu breytanda) frá einum okkar virtasta stjórnmálamanni. Tími Samfylkingarinnar mun koma.


Den sanna historien om Pinocchios näsa: Hin sanna saga um nefið á Gosa

imageDen sanna historien om Pinocchio näsa:Leif G.W, Persson

Var að ljúka við að hlusta á geisladisk með bók Leif G. W. Persson sem á íslensku myndi heita, Hin sanna saga um nefið á Gosa. Ég hef miklar mætur á Person hann skrifar svo kjarnyrta og fallega sænsku að það er unun að lesa. Auk þess kann hann að búa til sögu sem rígheldur manni við efnið og sjónarhorn hans á sænska glæpaheiminn og þó einkum og sér í lagi er sýn hans á starf lögreglunnar er dæmalaust. En í þeim heimi stendur hann föstum fótum, hefur starfað sem lögreglumaður í áratugi og seinna doktor í lögreglufræðum við rannsóknardeild lögreglunar. Hann er ekki síður þekktur í fjölmiðlum, bæði sem sá sem leitað er til sem sérfræðings og einnig fyrir sérstaka þætti.

En nú vissi ég ekki hvað ég var að fara út í. Hingað til hef ég lesið bækurnar en nú hlustaði ég og hafði ekki hugmynd um hvað sagan var löng. Ég settist því í besta stól heimilisins eftir að hafa gengið frá eftir morgunmatinn, sem hjá mér er um hádegisbil og hlustaði og vann að handavinnu.

Og sagan var löng. Eftir að hafa setið við í a.m.k. fimm daga, var sagan búin. Og hvílík saga.

Reyndar vissi ég fyrirfram að bókin fjallaði um lögreglumanninn Evert Bäckström en hann þekki ég frá fyrri bókum. Bäckström er afar ógeðfelld persóna, lítill feitur kall, sem hefur fyrst og fremst áhuga á að maka krókinn og vera eins lítið í vinnunni og hann kemst upp með. Hans aðaláhugamál eru peningar, vodka og kvenfólk. Hann er fullur af mannfyrirlitninguí og þó sérstaklega kvenfyrirlitningu. Satt að segja minnir hann á mann sem nú er í framboði til forseta í Bandaríkjanna.

En þrátt fyrir þetta allt saman, stýrir hann lítilli deild innan lögreglunnar í miðbæ Stokkhólms, einmitt þar sem kóngurinn og margt vel stætt fólk býr. Málið sem hann fær nú fær til rannsóknar virðist í fyrstu ekki stórt í sniðum. Það hefst sem klögumál út af illri meðferð á dýrum en fljótlega bætist við morð á lögfræðingi sem sérhæfði sig í að verja glæpamenn, síðan berst leikurinn inn í fína kredsa  í átt að konungsbústaðnum, loks lýkur því sem  ... ? En frá því ætla ég ekki að segja hér vegna þeirra sem ef til vill taka sig til að lesa þessa sérstöku bók.

Það var satt að segja talsvert strembið að halda þræði. Einkum og sér í lagi vegna þess að Person hefur yndi af útúrdúrum og oft löngum, sem reyndar eru mun skemmtilegri en sjálf glæpasagan. Í þetta skipti var m.a. fjallað um samskipti Bäckströms við páfagauk, lögmál listaverkamarkaðar, rússneskan aðal og keisarafjölskylduna sem kommúnistar drápu og loks um hálfruglaða (að því er virðist) sænska konu af aðalsættum. Þetta var allt greinargott og áhugavert en á meðan týndist þráður glæpsins.

Þessi ógeðfelldi lögreglumaður lifir satt best að segja mjög reglusömu lífi. Dagurinn byrjar með morgunbaði, á eftir klæðir hann sig í silkislopp og blandar sér fyrsta drykkinn. Ef hann á annað borð mætir í vinnuna, sýnir hann yfirlæti en í huganum er hann að skipuleggja hvaða hóru hann ætlar að fá heim til sín að vinnu lokinni.

Í þetta skipti fór þessi tilbúni lögreglumaður í taugarnar á mér. Það er öðru vísi að hlusta en lesa, það er eins og maður sé óvarinn. Núna varð ég miður mín þegar vesalings kallinn fór að tala um besta vin sinn, sinn eigin lim, sem hann kallar gælunafninu Súpersalamin og hugrenningar hans um nuddkonuna sem hann fór alltaf til á föstudögum til að fá sérmeðferð, fóru líka í taugarnar á mér. Svo ég tali nú ekki um fantasíur hans um finnsku heimilishjálpina sem hann borgaði fyrir hjálpa sem var fyrir utan stafsrammann.

Undir lok bókarinnar var ógeðið komið upp í háls en ég er staðföst kona þegar kemur að bóklestri og lauk sögunni.

Lestur bókarinnar var frábær (Peder Falk) en ég mun í framhaldinu hugsa mig um tvisvar áður en ég hlusta á fleiri sögur með þessum hræðilega lögreglumanni. Og ég mun heldur ekki borða salamí í bráð!


 Ferð til fjár? Að safna og hafna; Hugarsýn listamanns

 image

Þetta er ekki minn dagur.

Í dag brugðum við undir okkur betri fætinum, tvær vinkonur og fórum á sýninguna Safna og hafna, smáverk í eigu Guðbergs Bergssonar í Listasal Mosfellsbæjar. Þetta er talsvert ferðalag, Mosfellsbær er ekki í alfaraleið finnst mér. Við vinkonurnar erum báðar aðdáendur Guðbergs og langaði til að sjá listaverkasýningu þar sem verkin eru valin og raðað upp af Guðbergi. Þannig hélt ég, að ég gæti horft á listina með hans skörpu augum og séð hana í gegnum síu hans vitra hugar.

En þegar á hólminn var komið, var Listasalur Mosfellsbæjar lokaður vegna héraðsskjalabókavarðaráðstefnu. Þetta urðu okkur mikil vonbrigði og við ræddum við elskulegan starfsmann (konu) um hvað við gætum gert. Við sögðum henni að það  væri ólíklegt að við kæmumst seinna því önnur okkar býr út á landi. Eftir þó nokkurn vandræðagang bauð hún okkur að nýta okkur kaffihlé ráðstefnugestanna og fara inn með þeirra leyfi.

Salurinn var þéttskipaður áhugasömum héraðskjalabókavörðum og þeir  hafa örugglega verið að fjalla um eitthvað stórmerkilegt, því kaffitíminn var notaður til að ræða áfram um viðfangsefni dagsins. Við smeygðum okkur inn eins og mýs meðfram veggjunum og rýndum. Myndirnar voru litlar svo það var mikilvægt að komast nærri þeim, ekki síst fyrir mig sem er farin að tapa sjón. Á miðjum vegg þar sem við vissum að Picasso-myndin  átti að vera huldi sýningartjald ráðstefnunnar. Á bak við voru tvær myndir. Við lyftum tjaldinu og kíktum. Handbragðið leyndi sér ekki, einföld mynd en sterk. Ramminn aftur á móti var í undarlegri mótsögn, flúraður og dúllulegur. Var þetta með vilja gert? Við fikruðum  okkur meðfram veggjunum, rástefnugestir drukku kaffi og töluðu. Þeirra á meðal var kær vinkona sem ég þurfti að heilsa og tala við um að við yrðum að fara að hittast. Áfram héldum við.

Í horninu þar sem fuglinn var sem Guðbergur hafði sagt að tengdist Maríu mey, var fatahengi og engar myndir aðgengilegar. Í framhaldi af horninu var fólksþvagan þéttust og það var ómögulegt að komast að. Þarna áttu, samkvæmt skránni, að vera listaverk frá Afríku. Merkilegt að skoða sýningu og vera upptekin af því sem ekki sést.

Svo var kaffihléið búið og þar með tíminn sem okkur var skammtaður til að skoða þessa sýningu.Það var sem sagt ekki nokkur leið að fá heildarmynd af sýningunnniog ég veit ekki hvernig Guðbergur hefði sj´lfur brugðist við í þessum aðstæðum. Þar með gat ég ekki nýtt augu hans hvað þá hugann.  

Við yfirgáfum svæðið og í huga mér tókust á andstæðar tilfinningar. Annars vegar þakklæti fyrir það að fá að kíkja. Hinsvegar gremja yfir því að vera göbbuð og koma að lokuðum dyrum á sýningu sem nýbúið er að auglýsa í sjónvarpi og útvarpi. Sem betur fer vó  þakklætistilfinning sterkar. Það gerði notaleg framkoma starfsfólksins í safninu sem var svo elskulegt. Það var það sem upp úr stendur eftir þessa furðulegu sýningarferð, það er alltaf mannlegi þátturinn sem vegur þyngst þegar upp er staðið.

Á eftir settumst við vinkonurnar inn á kaffihús og skoðuðum sýningarskrána. Hún er list um list. Vinkonan sagði mér að það væru allt of margar ritvillur í henni. Sjálf er ég bara búin að lesa glefsur. Það er að mörgu að hyggja þegar gera á sýningu. Í þessu tilviki held ég það sé best að virða viljann fyrir verkið.

ARTPRO prentþjónusta sá um prentun á sýningarskránni.

Myndin sem fylgir er af lítilli fallegri mynd á sýningunni. Myndin er af Rilke


Freki kallinn

image

Hvaðan koma freku karlarnir?

Ég hef oft ergt mig á því hvað sumir karlar eru frekir og komast upp með það. En með sjálfri mér hef ég hugsað sem svo að vandamálið væri á undanhaldi, það væru breyttir tímar.

En um daginn var ég vitni að því að tiltölulega ungur maður fékk frekjukast og hljóp út, hann fékk ekki að stjórna liðinu, hann hafði haft rangt við og gat ekki viðurkennt það. Það var ekki bara ég sem horfi á þetta, öll þjóðin horfði.Við höfum öll fylgst með þessum manni síðan í vor þegar hann hljóp út eftir að hann var staðinn að verki.

Ég var fegin og hugsaði, þá er aftur hægt að fara að tala um pólitík, ekki veitir af. Fjórar vikur í kosningar og mörg mikilvæg mál sem þar að reifa og takast á um. Við búum í lýðræðisríki og það er mikilvægt að tala saman. Það er mikilvægt að geta borið virðingu fyrir stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Líka þeim sem maður er ekki sammála.  

En viti menn. Gerist nú ekki það sem allt of oft gerist í tilviki frekra stráka, allir í fjölskyldunni hlaupa til og fara að sleikja úr þeim fýluna. Þetta er allt í lagi góurinn minn, við erum ekkert reið, þú gerðir ekkert af þér, þetta var hinum að kenna. Einhvern veginn svona gengur þetta fyrir sig.

Einhvern veginn svona verða freku karlarnir til.

Svo ég tali nú alveg hreint út. Ég er að tala um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og fyrrverandi formann Framsóknarflokksins. Hvers vegna í ósköpunum er verið að hlaupa á eftir honum? Er allt í lagi að koma fjármunum undan  og geyma þá í skattaskjólum? Er allt í lagi að skrökva? Mér finnst það ekki og það væri hreinsun að því að losna við slík fólk út úr pólitík. Ég er þá ekki bara að tala um formann framsóknarflokksins heldur einnig um hina ráðherrana tvo sem láta eins og þetta sé í góðu lagi og komast upp með það.

Hættum að umbera freka fólkið sem vill láta sérstakar reglur gilda fyrir sig.

Myndin er af dúkku sem ég er að hekla. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2016
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 187338

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband