Den sanna historien om Pinocchios näsa: Hin sanna saga um nefið á Gosa

imageDen sanna historien om Pinocchio näsa:Leif G.W, Persson

Var að ljúka við að hlusta á geisladisk með bók Leif G. W. Persson sem á íslensku myndi heita, Hin sanna saga um nefið á Gosa. Ég hef miklar mætur á Person hann skrifar svo kjarnyrta og fallega sænsku að það er unun að lesa. Auk þess kann hann að búa til sögu sem rígheldur manni við efnið og sjónarhorn hans á sænska glæpaheiminn og þó einkum og sér í lagi er sýn hans á starf lögreglunnar er dæmalaust. En í þeim heimi stendur hann föstum fótum, hefur starfað sem lögreglumaður í áratugi og seinna doktor í lögreglufræðum við rannsóknardeild lögreglunar. Hann er ekki síður þekktur í fjölmiðlum, bæði sem sá sem leitað er til sem sérfræðings og einnig fyrir sérstaka þætti.

En nú vissi ég ekki hvað ég var að fara út í. Hingað til hef ég lesið bækurnar en nú hlustaði ég og hafði ekki hugmynd um hvað sagan var löng. Ég settist því í besta stól heimilisins eftir að hafa gengið frá eftir morgunmatinn, sem hjá mér er um hádegisbil og hlustaði og vann að handavinnu.

Og sagan var löng. Eftir að hafa setið við í a.m.k. fimm daga, var sagan búin. Og hvílík saga.

Reyndar vissi ég fyrirfram að bókin fjallaði um lögreglumanninn Evert Bäckström en hann þekki ég frá fyrri bókum. Bäckström er afar ógeðfelld persóna, lítill feitur kall, sem hefur fyrst og fremst áhuga á að maka krókinn og vera eins lítið í vinnunni og hann kemst upp með. Hans aðaláhugamál eru peningar, vodka og kvenfólk. Hann er fullur af mannfyrirlitninguí og þó sérstaklega kvenfyrirlitningu. Satt að segja minnir hann á mann sem nú er í framboði til forseta í Bandaríkjanna.

En þrátt fyrir þetta allt saman, stýrir hann lítilli deild innan lögreglunnar í miðbæ Stokkhólms, einmitt þar sem kóngurinn og margt vel stætt fólk býr. Málið sem hann fær nú fær til rannsóknar virðist í fyrstu ekki stórt í sniðum. Það hefst sem klögumál út af illri meðferð á dýrum en fljótlega bætist við morð á lögfræðingi sem sérhæfði sig í að verja glæpamenn, síðan berst leikurinn inn í fína kredsa  í átt að konungsbústaðnum, loks lýkur því sem  ... ? En frá því ætla ég ekki að segja hér vegna þeirra sem ef til vill taka sig til að lesa þessa sérstöku bók.

Það var satt að segja talsvert strembið að halda þræði. Einkum og sér í lagi vegna þess að Person hefur yndi af útúrdúrum og oft löngum, sem reyndar eru mun skemmtilegri en sjálf glæpasagan. Í þetta skipti var m.a. fjallað um samskipti Bäckströms við páfagauk, lögmál listaverkamarkaðar, rússneskan aðal og keisarafjölskylduna sem kommúnistar drápu og loks um hálfruglaða (að því er virðist) sænska konu af aðalsættum. Þetta var allt greinargott og áhugavert en á meðan týndist þráður glæpsins.

Þessi ógeðfelldi lögreglumaður lifir satt best að segja mjög reglusömu lífi. Dagurinn byrjar með morgunbaði, á eftir klæðir hann sig í silkislopp og blandar sér fyrsta drykkinn. Ef hann á annað borð mætir í vinnuna, sýnir hann yfirlæti en í huganum er hann að skipuleggja hvaða hóru hann ætlar að fá heim til sín að vinnu lokinni.

Í þetta skipti fór þessi tilbúni lögreglumaður í taugarnar á mér. Það er öðru vísi að hlusta en lesa, það er eins og maður sé óvarinn. Núna varð ég miður mín þegar vesalings kallinn fór að tala um besta vin sinn, sinn eigin lim, sem hann kallar gælunafninu Súpersalamin og hugrenningar hans um nuddkonuna sem hann fór alltaf til á föstudögum til að fá sérmeðferð, fóru líka í taugarnar á mér. Svo ég tali nú ekki um fantasíur hans um finnsku heimilishjálpina sem hann borgaði fyrir hjálpa sem var fyrir utan stafsrammann.

Undir lok bókarinnar var ógeðið komið upp í háls en ég er staðföst kona þegar kemur að bóklestri og lauk sögunni.

Lestur bókarinnar var frábær (Peder Falk) en ég mun í framhaldinu hugsa mig um tvisvar áður en ég hlusta á fleiri sögur með þessum hræðilega lögreglumanni. Og ég mun heldur ekki borða salamí í bráð!


Bloggfærslur 13. október 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband