Hverjum klukkan glymur (1940): Ernest Hemingway

image

Ég vinn að endurmenntun minni. Les bækur sem  ég hefði átt að lesa fyrir löngu. Og endurles enn aðrar. Það eru til bækur sem allir tala um en kannski ekki allir lesið. Þær eru eins og vörður og eru eins og vörður sem við rekjum okkur eftir á  villusamri leið okkar til menningar. Höldum við. 

Ég hafði aldrei lesið, Hverjum klukkan glymur. Sneiddi viljandi hjá Hemingway, líkaði ekki við ímynd hans eins og hún birtist mér í umfjöllun þess tíma. Maður karlmennsku, stríðs og veiðiskapar var ekki fyrir mig. 

Nú reyni ég að vinda ofan af fordómum mínum. Las fyrst Veislu í farangrinum og var á báðum áttum. Einum of mikið um sögur að frægu fólki og stundum á þeirra kostnað. Minnti mig um sumt á Veröld sem var, eftir Stefan Zweig, en meðan Zweig lýsir því sem er að hverfa með trega, er greinilegt að Hemingway er maður nýrra tíma. Mér fannst ekki mikið til um þessa bók en þar gæti verið um að kenna, sérviskulegri þýðingu. Það er skrýtið að hugsa sem svo, því það er sjálft Nóbelsskáldið okkar sem þýðir. En mig grunar þetta. 

Hverjum klukkan glymur er mun merkilegri bók, saga sem sest að og verðu næstum eins og raunverulegur hluti af lífi þínu. Þessi grimma, en um leið angurværa saga, er um fólk sem ætlaði að breyta heiminum. Það snerist til varnar fyrir nýstofnað lýðveldi, sem Falangistar réðust gegn. En stríð þeirra var jafn grimmt og hinna. Stríð er stríð og alltaf jafn miskunnarlaust og mannfjandsamlegt. Mér hefur verið hugsað til Tyrklands. Þar var fólk farið að horfa björtum augum til framtíðar, eygja von, þegar verðandi einræðisherra kæfði þessa von með því að snúast gegn sínu eigin fólki. Mér hefur líka verið hugsað til Sýrlands. Margt er líkt, glundroðinn, innblöndun stórveldanna, miskunnarleysið. Tilgangsleysið.

Þetta er vel sögð saga, saga þriggja sólarhringa í lífi lítils skæruliðahóps í fjöllum Spánar. Þýðandinn er Stefán Bjarman og líklega er það ekki síst stíll hans sem gerir bókina að þvi listaverki sem hún er. Hún gengur nærri manni og ég var fegin þegar ég var búin með hana. Og nú losna ég ekki við hana, hún á eftir að fylgja mér. Þannig eru góðar bækur. 

Eftirmáli

Þessi bók heitir reyndar ekki, Hverjum klukkan glymur, eins og ég hafði haldið. Hún heitir á íslensku, Klukkan kallar. Þýðandinn hafði ætlað að láta hana heita, Hverjum klukkan glymur en þá var búið að gera kvikmynd og útgefandi vildi að myndin héti eins. Bókin kom út á íslensku 1951. 

Myndin er frá Spáni, en er að vísu ekki úr fjöllunum


Hótel Borg: Lecca Nocola

image

Ekki vissi ég á hverju ég átti von, þegar ég hóf lestur á bók Lecca Nicola(1976), Hótel Borg. Mig rámaði í, að hafa heyrt eitthvert spjall við hann í sjónvarpinu, en hafði ekki áttaði mig á honum.

Sagan hefst í Gautaborg í Svíþjóð og segir frá ungum og óráðnum manni, Óskari. Hann er einrænn og leitandi og mikill tónlistaraðdáandi.

Því næst segir frá heimsfrægum hljómsveitarstjóra, Alexander Norberg, sem er í tilvistarkreppu.Hann ætlar að ljúka ferli sínum með því að halda lokatónleika í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hann velur til flutnings tónverk, sem honum finnst fegurst allra, Stabat Mater eftir Pergolesi. Hann fær til liðs við sig tónlistarfólk sem hann treystir mest og best, drenginn Marcel og söngkonuna Rebeccu Lunardi.Hann ætlar að skapa fullkomna list.

Einu Íslendingarnir, sem eitthvert hlutverk hafa í sögunni, eru þjónn á Hótel Borg og einhvers konar íslenskur Casanova, Hákon Pétursson. Miðar á tónleikana eru ekki seldir, þeim er dreift til áheyrenda eftir að nöfn þeirra hafa verið dregin út úr nöfnum í símaskrá. Það er mikil fjölmiðlaumfjöllun um þetta mál. Ísland er í brennidepli.

Öll er þessi atburðarás frekar ótrúleg en gaman að hugsa sér það að klassísk tónlist veki svo mikið umtal.

Hinn sænski Óskar hefur bitið það í sig að það sé honum lífsnauðsyn að komast á þessa tónleika. Hann fær engan miða, enda ekki í símaskránni. Hann situr með kröfuspjald fyrir utan Dómkirkjuna og mótmælir óréttlætinu. Marcel uppgötvar að framtíð hans sem söngvara sé óviss og hann fyllist angist og reiði. Enginn hefur rætt um það við hann að rödd hans breytist þegar hann kemst í mútur.

Öll þessi frásögn ber það með sér að höfundur er að leika sér með þetta fólk og honum er alveg sama þó frásagan sé ekki beinlínis trúverðug. Ég átta mig ekki á hvað vakir fyrir honum.

Alltaf þegar ég les höfunda sem ég átta mig ekki á, er ég við því búin að ástæðan geti alveg eins legið hjá mér sem lesanda. Ég er auðvitað búin að lesa mér til um höfund og sé að hann hefur gott orðspor.

Kannski er þetta táknræn saga og ég kann ekki að lesa táknmálið. Er höfundurinn að lýsa fallvaltleika lífsins og að ofdramb komi mönnum í koll?

Ég áttaði mig sem sagt ekki á þessari sögu en hafði gaman að sjá Ísland með útlendum augum höfundarins. Kannski er hann bara að leika sér.

Það sem ég græddi mest á þessari bók var að ég tók mig til og hlustaði á Stabat mater eftir Pergolesi.

 


Dúkka: Gerður Kristný 2015

 image

Þegar ég var að alast upp, lásum við og það voru lesnar fyrir okkur, sögur og ævintýri. Í þessum sögum fékk vonda fólkið makleg málagjöld og okkur fannst ekkert athugavert við það. Vonda stjúpan í Mjallhvít var látin dansa á glóandi járnskóm þar til hún hneig dauð niður. Skórnir höfðu verið hitaðir í eldi og bornir til hennar á glóðartöngum. Nornin í Hans og Grétu var látin brenna í eigin bakarofni og úlfurinn í Rauðhettu var fylltur af hnullungsgrjóti. Síðar kom hik á uppalendur, þeir fóru að hafa áhyggjur af því að þessi grimmd skapaði ótta hjá börnunum og mörgum ævintýrum var breytt.

Nú er öldin önnur. Hryllingsbókmenntir njóta mikilla vinsælda hjá börnum, ekki síst sögur af vampýrum.

Bók Gerðar Kristnýjar, Dúkka er þó ekki vampýrusaga. Ekki beint. Sagan er hlaðin spennu, undirliggjandi óhugnaði. Aðalpersónan, Kristín Katla, fær að kaupa sér alveg sérstaka dúkku eins og vinkona hennar á. Þessar stelpur eru reyndar alveg á mörkunum til að vera of gamlar til að leika sér með dúkkur. En þessar dúkkur eru alveg sérstakar.

Óhugnaðurinn læðist, hann smýgur og fer sér hægt. Það var fyrir mig enn verra en það sem sagt er hreint út. Ég velti fyrir mér hvort bókin væri ekki of óhugguleg fyrir ungar sálir. Þegar ég spurði ömmustelpuna mína (hún er innan markhópsins), hvort hún hefði lesið hana, sagði hún, ég hef ekki lagt í það. Hún vissi greinilega hvers var að vænta.

En ég las bókina til enda og það var mér mikill léttir þegar allt fór vel að lokum.

Bókin Dúkka, er eins og allar góðar barnabækur, ekki síður fyrir fullorðna.

Reyndar er ekki alls kostar rétt að segja að ég hafi lesið bókina. Ég get ekki lesið lengur, augun eru að svíkja mig. Í þetta skipti var það einungis betra, því i Gerður Kristný las bókina sjálf og hún er frábær lesari.

En ég lét mér ekki nægja að hlusta á söguna, ég fékk hana lánaða í bókasafninu til að skoða hana. Og það var þess virði. Þetta er einstaklega falleg bók, frágangur er allur til fyrirmyndar. Hún er myndskreytt af Lindu Ólafsdóttur og kápumyndin er líka eftir hana. Ekki veit ég hvort þessi bók hefur verið þýdd, en svona metnaðarfull bók myndi sóma sér vel með barnabókmenntum heimsins.


Kuldi: Ýrsa Sigurðardóttir

 image

Af og til les ég krimma, en hef ég minna og minn gaman af því. Það er ekki vegna þess að það séu skrifaðir verri reyfarar nú en fyrr, það er ég sem hef breyst. En mig langar að fylgjast með, að minnsta kosti því sem íslenskir höfundar skrifa.

Las Kulda Yrsu Sigurðardóttur á hlýjustu dögum sumarsins, nú fyrr í ágúst. Það vr svalandi. Þetta er lipurlega skrifuð bók, þar tvinnast saman tveir þræðir.

Annars vegar er fjallað um Ómar, sem vinnur á lítilli opinberri stofnun. Hlutverk hennar er að skoða gömul mál á upptökustofnunum til að meta, hvort þar kunni að leynist eitthvað í líkingu við það, sem hafði gerst í Breiðuvík.

Hins vegar er lýst lífinu á upptökuheimilinu Króki. Sögumaður er ung stúlka, Aldís, sem  ræður sig þangað 1974. Í lok bókarinnar kemur heildarmyndin í  ljós. Saga Aldísar varpar ljósi á málið, sem Ómar er að rannsaka.

Styrkleikar Ýrsu liggja ekk síst í því, hvað hún dregur upp góðar myndir, öll smáatriði eru á sínum stað. Þetta gerir frásögnina trúverðuri. Annar styrkleiki hennar er, hvað hún er, góð að ná liprum og eðlilegum samtölum. Já, og svo að sjálfsögðu að skapa spennu.

Það sem mér geðjast ekki að, er hvað Ýrsa er vond við persónurnar, sem hún hefur sjálf skapað. Og auðvitað við mig í leiðinni, ég er farin að hafa samúð með þessu fólki og er ekki sama um hvernig farið er með það.

Reyndar er enn annað sem mér líkar ekki í þessari bók, það er sýn hennar á manneskjuna. Það er engu líkara en að sumar manneskjur séu vondar í sjálfu sér, jafnvel börn. Reyndar held ég að höfundurinn sé þarna búinn að tapa sjálfum sér og formúlan búin að taka yfir söguna. Ég vildi óska að höfundurinn gæfi okkur meira af sjálfri sér, þannig yrðu bækurnar enn betri.

 

 Myndin er vetrarmynd,  en tengist ekki þessari sögu.


Svarti sauðurinn: Augusto Monterroso

 image

Það var einstakt lán fyrir mig að rekast á bók Augusto Monterroso, Svarta sauðinn. Ég segi, lán eða heppni, af því ég vissi ekkert um þennan höfund. Hef líklega aldrei heyrt nafnið, enda er ég svo illa að mér um rómönsku Ameríku að ég fæ svimatilfinningu þegar ég reyni að setja mig inn í sögu og atburði. 

Þetta er ekki stór bók, safn stuttra frásagna sem hann kallar fabúlur. Þær eru um ýmiss dýr með mannlega eiginleika. Ég veit ekki hvort réttara er að kalla þetta dæmisögur, grín eða ádeilur. Það sem einkennir þær er að þær kitla mann með gáska sínum og gera mann svo dæmalaust glaðan. Þetta er bók sem maður getur lesið aftur og aftur og ég er reyndar þegar búin að lesa hana tvísvar. 

Ekki veit ég hvort ég skilji sögurnar til fulls, því sjálfsagt er ádeilan í þeim, ætluð til heimabrúks og þann heim þekki ég ekki.. Augusto Monterroso (1921 - 2003) er fæddur í Hondúras en flutti síðar til Guatamala. Þar tók hann virkan þátt í póltík og varð að flytjast til Mexikó vegna baráttu sinnar gegn einræðisherranum Jorgo Obico. Eftir það bjó hann í ýmsum löndum Suður Ameríku. Þetta er ég allt búin að lesa mér til um og er því þegar örlítið fróðari. 

Það er Kristín Guðrún Jónsdóttir sem þýðir þessa bók og það hlýtur að vera vel gert, því annars væri hún ekki ein hrífandi eins og raun ber vitni.

Myndin sem fylgir er af hvítum hrútum austur í Breiðdal. 


Fullkomið líf: Lesið í sumarhúsi á Snæfellsnesi

image 

Ég les og les. Og er alltaf jafn hrifin.

Var í viku í Sumarhúsi á Snæfellsnesi (Arnarstapa) í góðum félagsskap og las Gyrði Elíasson. 

Fyrst las ég, Suðurgluggann. Ég hafði lesið bókina áður en við endurlestur, varð hún enn betri. Ég sá fyrir mér líf rithöfundarins sem bókin fjallar um, staðsetti í huganum húsið sem hann bjó í. Sá það fyrir mér að Hellnum. Ég sá kaffihúsið með afundnu konunni, sem nú var fullt af túristum svo út af flóði. Ég keypti mér skó á Hellissandi í búð sem gæti verið búðin í sögunni, þar sem raunamæddi maðurinn afgreiddi. Hann sem var í bol sem á var letrað: Eru ekki allir í stuði. Konan sem seldi mér skóna var þó ekkert lík honum.

Ég tók eftir því núna, hvað Gyrðir er fyndinn. Ég hafði ekki tekið eftir því við fyrri lestur. Hann leikur sér með orð og  setningar og þegar ég allt í einu skil tengingarnar, finn ég hvernig sæluhrollur fer niður eftir bakinu á mér. Hann hefur sérstaklega gaman að því að leika sér með bókartitla. Þetta var rétt bók á réttum stað. 

Þegar ég var búin með Suðurgluggann, ákvað ég að lesa Lungnafiska, bók sem ég átti en hafði aldrei lesið í heild. Þetta er stutt bók, 100 örsögur á mörkum ljóðs og prósa. Dæmalaust hugmyndaríkar en um leið krefjandi fyrir lesandann. Þetta er bók til að lesa aftur og aftur.

Ég var uppnumin af hrifningu. Það hjálpaðist allt að, falleg náttúra, með fuglasöng og lækjarnið, og sagan sem mér fannst vera undir fótunum á mér. Alls staðar voru ummerki horfins tíma.

Eitt af því sem gerir bækur Gyrðis skemmtilegri en flestar aðrar bækur er, að þær eru svo fallegar, allt passar og er eins og það á að vera. Eitthvað fyrir mig sem er með dellu fyrir bókbandi og heildarútliti bóka. 

Að lesa góða bók er eins og að vera ástfangin. 

Myndin er af læknum sem miðaði og magnaði áhrif bökanna sem ég las 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2016
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 187182

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband