7.10.2022 | 18:03
Þernan
Ég vissi ekki á hverju ég átti von þegar ég hóf lestur á þessari bók. Fannst eins og ég hefði áður lesið bók með sama nafni. En sú var ekki raunin. Bók Margaret Atwood heitir Saga þernunnar.
Þessi heitir bara Þernan og er afar ólík dystophiu Atwood. En höfundur þessarar bókar er Nita Prose er líka kanadísk.
Þernan
Aðalpersóna bókarinnar heitir Molly Gray. Hún hefur alist upp hjá ömmu sinni sem nú er látin. Hún er 25 ára og vinnur sem þerna á hóteli. Hún elskar vinnuna því hún hefur unun af því að þrífa og taka til. Mollý er óvenjuleg stúlka, í hennar heimi eru hlutirnir annað hvort eða. Svart eða hvítt, engin blæbrigði. Sama gildir um fólk. Meðan amma hennar lifði hjálpaði hún henni með að skilja heiminn með því að útskýra blæbrigði. Mollý er fluggáfuð en hún er á því sem við köllum einhverfuróf.
Nýlega las ég bók um svipaða stúlku í bókinni Kjörbúðarstúlkan. Sú elskaði að vinna í kjörbúð.
En aftur til Mollýjar. Hún er frábær starfsmaður en blandast ekki í hópinn. Það er meira að segja gert grín að henni. Hún er kölluð ryksuguvélmennið og þaðan af verra.
Harður heimur
Það er auðvelt að blekkja fólk eins og Mollý og hún er vísvitandi dregin inn í verknað sem varðar við lög. Hún kann ekki að verja sig. En hún á góðan að. Dyravörðurinn var vinur ömmu hennar. Hann tekur málin í sínar hendur. Allt fer vel að lokum. Ég er ekki að koma upp um neitt, því auðvitað fara flest mál vel. Ef sagan er nógu löng. Ef einhver saga endar illa er hún einfaldlega ekki nógu löng. Það má segja að það sé boðskapur bókarinnar.
Skínandi hreinlæti
Ég hafði reyndar mest gaman af bókinni meðan hún fjallaði fyrst og fremst um tiltektir og hreinlæti. Spennusagan í bókinni var ekki nærri því eins skemmtileg og einfaldleikinn við að það sé hægt að bæta heiminn með hreinlæti. Að það þurfi einfaldlega að taka til.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Hún er oft fyndin og ég er ekki fjarri því að hún hafi haft áhrif á eigin tiltektir. Reyndar fékk ég ágætis tilsögn í heimahúsum fyrir margt löngu. Móðir mín lagði að mér að gera hluti vel. Hún sagði að það væri ekkert fljótlegra að gera hluti illa. Þessu trúi ég reyndar enn.
Lokaorð
Það er vel staðið að þessari bók. Magnea J. Matthíasdóttir hefur þýtt hana og það er Þórey Þórsdóttir sem les.
Ég hef gleymt að tala um fræðslugildi hennar. Molllý talar oft um að þernurnar séu á vissan hátt ósýnilegar og það sé bara tekið eftir því ef tiltekt vantar. Minnir aðeins á hlutverk húsmóðurinnar.
Ekki satt?
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 189263
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.