4.10.2022 | 17:31
Dauðinn og mörgæsin Andrej Kurkov
Ég las bókina, Dauðinn og mörgæsin strax og hún kom út en þá var hún kynnt af höfundi á bókmenntahátíð í Iðnó. Þetta hefur líklega verið 2005. Höfundurinn, Andrej Kurkov, var gestur á hátíðinni og kynnti bókina sjálfur. Andrej Kurkov er fæddur í Leníngrad 1961 en flutti tveggja ára með foreldrum sínum til Úkraínu. Hann skrifar á rússnesku.
Sagan
Bókin fjallar um hæglátan rithöfund sem býr einn. Honum hefur haldist illa á konum og honum hefur líka gengið illa að fá verk sín útgefin. Kannski er ekki rétt að hann búi einn því hann á mörgæs og hún tekur mikið pláss í lífi hans og í þessari bók. Honum gengur best að semja stutta texta. Af tilviljun sendir hann einn slíkan til Höfuðstaðsblaðsins. Eftir það fær hann beiðni frá ritstjóranum um að skrifa fyrirfram minningargreinar um þekkt fólk. Það er gott að eiga þær á lager og tiltækar, segir hann. Allir deyja einhvern tíma. Ritstjórinn stingur sjálfur upp á um hverja skuli skrifað og leggur honum til heimildir. Það lítur út fyrir að Viktor hafi dottið í lukkupottinn. En það fylgir böggull skammrifi. Viktor tekur eftir því að persónurnar sem hann hefur skrifað um, látast gjarnan fljótlega eftir að hann hefur skilað inn skrifum sínum um þær.Allt þetta gerist nokkru eftir fall Sovétríkjanna og það eru mikil umbrot í þjóðlífinu, ríkiseignir komast í einkaeign.
Fjölskyldan stækkar
Um svipað leyti og úr rætist með fjarhag Viktors biður vinur hans hann fyrir Sonju, fjögurra ára dóttur sína um stundarsakir. Þegar það dregst að hún sé sótt, ræður hann unga stúlku til að gæta hennar svo það eru orðnir fimm í heimili. Með mörgæsinni meðtalinni.
En líf hans er ekki áhyggjulaust. Mörgæsin vanþrífst. Hún reynist vera með hjartagalla og þarf nýtt hjarta. Hjarta úr barni. Þetta er viðburðarík og spennandi frásögn en ég ætla ekki að rekja hana frekar hér.
Að lesa bók tvisvar
Það eru gömul sannindi að það er ómögulegt að stíga tvisvar í sama lækinn. Eins er þetta með bóklestur, bókin tekur sífelldum breytingum. Ný bók við hvern lestur. Þegar ég las þessa bók í fyrra skiptið, fannst mér hún fyrst og fremst fyndin. Það gerði mörgæsin. Það er eitthvað dæmalaust fyndið við mörgæsir. Líklega er það göngulagið og hvað þær eru líkar mönnum.
Þegar ég las bókina núna fann ég til ótta. Það var eitthvað óhuggulegt í gangi eins og enginn væri óhultur. Og svo voru það veikindin á mörgæsinni.
Ekki veit ég hvað verður í forgrunni þegar ég les hana næst. Ef mér endist aldur. En ég hef það til siðs að lesa góðar bækur oft.
Bókin í paddanum
En ég hafði næstum gleymt því að ég les ekki lengur bækur. Ég hlusta. Þannig verður
bókin sem ég les, verk margra. Það er Áslaug Agnarsdóttir sem þýðir bókina úr rússnesku. Hjálmar Hjálmarsson les hana fyrir Hljóðbókasafnið.
Ég sakna þess að það skuli ekki fylgja henni formáli því mér þykir líklegt að bókin sé fyrst og fremst fyrir heimamenn og það sé margt í henni sem er þeim ætlað og ég skil ekki eða misskil. Ég finn þó að það er margt sem kraumar undir í þessari bók. Og svo minnir hún auðvitað á stríðið, sem við fáum daglegar fréttir af. Einhvern tíma verður hægt að heimsækja Úkraínu.
Kannski og vonandi.
Myndin á ekkert skilt við greinina. Hún er úr mínum heimahögum og er til skrauts.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 40
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.