2.6.2021 | 19:08
Ljóð gleðja
Flestir kannast við að fá lög á heilann. Ég hef lengi strítt við það. Allt í einu koma lögin bara og glymja í hausnum á mér. Ég veit ekki af hverju. Oft eru þetta meira að segja lög sem ég hef lítið dálæti á. En í vor varð skyndilega breyting á. Það komu ljóð í stað laga.
Fyrsta ljóðið sem settist að í höfðinu á mér, var Svanir fljúga hratt til heiða eftir Stefán frá Hvítadal. Auðvitað bara nokkrar línur, framhaldið las ég svo á Google. Mér til mikillar ánægju komst ég að því að ég kann það nokkurn veginn. Þetta er svo fallegt ljóð. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um sólina, vorið og okkur Íslendinga. Annan sólardag heimsótti Guðmundur Böðvarsson skáld mig með ljóðinu Kyssti mig sól og sagði, sérðu ekki hvað ég skín, gleymdu nú vetrargaddinum sára. Gleymdu honum ástin mín. Nú er ég átján ára. Forskriftin sem pabbi gaf mér (og systkinum mínum) í forskriftabókina, þegar ég var að læra að skrifa var: Ó, blessuð vertu sumarsól, eftir Pál Ólafsson. Þannig lærði ég það kvæði. Seinna lærði ég litla ljóðið um sólskríkjuna. Sólskríkjan skiptir ekki bara um búning til að taka á móti sólinni, hún skiptir líka um nafn. Hættir að vera snjótittlingur. Hvernig ætti fugl með slíkt nafn að syngja fyrir skáld?
Eftirmáli
Líklega þarf ég að útskýra þetta með forskriftabókina. Þegar ég var barn, það er langt síðan, tíðkaðist það að sveitabörn lærðu heima hjá foreldrum sínum, til tíu ára aldurs. Þá tók farskólinn við. Þetta eru breyttir tímar. Einn vetur kenndi mér engin önnur en Oddný Guðmundsdóttir snillingur. Hún lét okkur gera vinnubók um skáld. Og svo átti maður að læra ljóð utanbókar . Mikið finnst mér vænt að hafa þurft að læra ljóð utanað. Þau eru sífellt að koma til mín. Ljóð gleðja.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.