Smásögur heimsins, Rómanska -Ameríka

 871F20E6-31D4-4E87-A49F-09EF20A3555A

Þegar ég var að skrifa um bókina Soralegi Havanaþríleikurinn, rifjaðist upp fyrir mér, að ég var ekki enn búin að skrifa um hina ágætu bók, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka (En ég hef það fyrir ásetning að skrifa um hverja bók sem ég les).Sagan sem rifjaðist upp var Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið eftir Ángel  Santiesteban.

En fyrst um, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka.

Ástæðan fyrir því að ég hafði dregið að skrifa um bókina,  var að verkefnið er svo stórt  og erfitt að ná utan um það  í stuttum pistli eins og ég er vön að skrifa. Bókin er númer tvö í ritröð sem ber yfirskriftina Smásögur heimsins. Fyrst  kom  út Smásögur heimsins Norður-Ameríka og þá eru eftir smásögur frá Evrópu, Asíu, Eyjaálfu og Afríku.

Eftir að hafa lesið tvær fyrstu bækurnar, finnst mér merkilegt hvað svona söfn skilja eftir magnaða tilfinningu, allt öðru vísi en þegar maður les eina og eina sögu á  stangli eða stök smásagnasöfn. Hér fær maður  á tilfinninguna að maður hafi kynnst heilli heimsálfu.  Samtímis  gerir maður sér grein fyrir  fyrir fjölbreytileikamum sem er í algjörri mótsögn við  þá hugmynd.

Vandað til verka

Það er mikið lagt upp úr vali sagnanna. Ekki bara bókmenntalegu gildi þeirra, það er einnig leitast við að höfundar, sem valdir eru, spegli sem flesta þjóðfélags­- og menningarhópa. 

Hvað þessa bók varðar, setur þessi fjölbreytni svo sannarlega svip á bókina, mér finnst sú Rómanska-Ameríka sem ég geng með í kollinum hafa breyst.

Í bókinni eru 22 sögur. Þær eru hver annarri betri og það er ógjörningur að gera upp á milli þeirra. Auk þess er örstutt umfjöllun um hvern höfund, sem er afar fróðleg.  

Ástæðan fyrir því að sagan um Eyrnalokkana sem vantar á tunglið ýtti við mér,  var umfjöllun um vændi í Soralega Havanaþríleiknum. Í frásögn sögumanns,  lítur út fyrir að þetta sé eins og hver önnur vinna sem gefst. Í smásögunni Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið er sýnt inn í nöturlegan  heim  ungrar konu sem vinnur þannig fyrir sér og fjölskyldu sinni. Maðurinn hennar er skilningsríkur  og hjálpsamur. Alveg til fyrirmyndar þangað  til að því kemur, að kúnninn er í raun að falast eftir honum sjálfum.

Ég er svo þakklát

Ég er svo þakklát og um leið stolt af því að svona framtak skuli eiga sér stað í okkar fámenna landi. Þjóðarstoltið bærir á sér.

Nú er þriðja bókin, Smásögur heimsins – Asía, að koma út, eða komin út. Það er því ekki seinna vænna tjá þakklæti sitt fyrir þetta frábæra framtak.

Hljóðbókin

Ég er í þeirri sérstöðu að ég þarf að hlusta á bækur í stað þess að lesa. Bókin  sem ég naut, var því  lesin inn á vegum Hljóðbókasafns Íslands. Enn er  mer þakklæti í huga, hversu vel er að verki staðið.  Hver upplesarinn öðrum betri.  En ég viðurkenni að mér fannst biðin eftir því að hún kæmi út sem hljóðbók löng.  

Bækur til að eiga

Þegar ég les bækur á borð við Smásögur heimsins, hugsa ég, svona bók ætti að vera til á hverju heimili. Um leið verður mér hugsað til vina minna, sem stöðugt eru að lýsa áhyggjum sínum yfir allt of mikilli bókaeign, þeim finnst að bækurnar séu fyrir sér og hafa áhyggjur út af því hversu erfitt það verði fyrir afkomendur þeirra að sitja uppi með  draslið.

Mér sem er hálfblind, finnst unun af því að hafa bækur nærri mér og nýt fulltingis eiginmannsins sem er með safnaraáráyyu og fulla sjón. Mér finnst mikilvægt að handleika bækur sem ég hlusta á. Ég sé nægilega til að  átta mig betur á útliti þeirra og skipulagi.

Á sænsku er til orðið att dödstäda, sem þýðir að taka til fyrir dauða sinn. Mér finnst þetta óþarft og mikilvægara að nota tímann til að lifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 189007

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband