Herman Melville: Ég kýs það síður

IMG_4079

Bókin Bartleby skrifari eftir Herman Melville lætur ekki mikið fyrir sér fara. Það var ein ástæðan fyrir að ég valdi hana þegar ég rakst á hana í Hljóðbókasafninu. Ein ástæðan var að hún er lesin af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Allt sem hann les lifnar við. Hún tekur 2 tíma og 40 mínútur í afspilun. Bókin kom út 1853 og ekki spillti að komast að því að hún er eftir heimsfrægan rithöfund. Flest fólk kannast við söguna um Moby Dick, ef ekki sem bók, þá sem kvikmynd. Ég sem er skammarlega illa að mér um bandarískar bókmenntir hafði ekki kveikt á nafninu.

Í sögunni segir af samskiptum lögmanns á lögmannsskrifstofu í Wall Sreet við skrifara sinn. Á þessum tíma, fyrir daga ritvéla og tölva, voru ritarar afar mikilvægir. Það er lögmaðurinn sem er sögumaður og hann gefur sér góðan tíma til að koma sér að efninu. Hann lýsir lífinu á lögmannsskrifstofunni og segir frá hinum riturunum. Nú hafa umsvif aukist svo að hann þarf að bæta við ritara. Hann velur hann sjálfur og í fyrstu gengur allt vel. Ritarinn kann vel til verka. Svo fer að bera á því að ritarinn gerir ekki það sem honum er falið og svarar fyrirmælum með "Ég kýs það síður." Á endanum gerir hann alls ekki neitt og lögmaðurinn kemst að því að hann býr á skrifstofunni. Lögmaðurinn sem lýsir sjálfum sér sem góðum og vel meinandi. Hann veit að ef hann segir honum upp, endar hann á götunni. Hann býður honum ýmsa álitlega kosti, en fær stöðugt sama svarið,"Ég kýs það síður." 

Að lokum tekur hann þó rögg á sig og lætur hann fara, mest fyrir ytri þrýsting. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra en kjarni hennar eru innri átök lögmannsins, þegar hann þarf að horfast í augu við vanmátt sinn.

Þessi bók skilur mann eftir með ótal spurningar. Lesandinn verður engu nær um hvers konar maður Bartleby er eða hvað lögmaðurinn hefði getað gert í stöðunni. Það styrkir mig í afstöðu minni um að bækur eru til að kveikja spurningar en ekki til að svara þeim. Þessi bók er hrein perla. Og það sem merkilegt er, er að hún gæti alveg eins átt við daginn í dag. Það er enn jafn erfitt að hafa fátæktina inn á sér og horfa upp á að geta engu breytt. Eða er það svo? Þarf maður e.t.v. að breyta einhverju hjá sjálfum sér? 

Er það tilviljun að sögunni er fundinn staður í Wall Street, þar sem peningahjarta kapítalismans slær? Nei, ég held að það sé ekki tilviljun, allt í þessari bók er þrauthugsað. Þetta er bók sem maður getur lesið aftur og aftur, ekki vegna þess að maður hafi gleymt, heldur vegna þess að maður finnur stöðugt eitthvað nýtt. Ef ekki í bókinni, þá í sínum eigin viðbrögðum. 

Bókin er þýdd af Rúnari Helga Vignissyni og óþarft að taka það fram að þar er vandað til verka. Auk þess skrifar Rúnar Helgi eftirmála um þýðinguna, ábendingar til lesanda og stingur upp á rilistarverkefnum fyrir þá sem vilja spreyta sig á þeim vettvangi. Þetta er bók sem lifir, af því hún fær mann til að leita svara við spurningum, sem aldrei verður svarað til fulls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband