Færsluflokkur: Bloggar

Hendur í hári: Hugleiðing á hárgreiðslustofu

Meðan ég sat í stólnum á hárgreiðslustofunni hugsaði ég til fólksins hefur tekið að sér að laga mig til í gegnum árin. Allt frá því að ég var lítil stúlka hef ég hugsað um hendurnar á því. Ég er nefnilega hársár, eða svo var sagt. En hverjum finnst gott að vera hárreittur. Ég held að ég geti sagt að ég hafi hatað hárborða, reyndar tek ég ekki oft svo sterkt til orða. En mamma hafði hlýjar hendur. 

Þar sem ég er með gróft og stíft hár var ég í eilífum vandræðum með hárið á mér meðan það átti að vera mjúkt og liðað. Ekki tók betra við á tímum túberinganna. Konan sem tók að sér að laga til á mér hárið áður en stúdentsmyndin var tekin, sagði að hárið á mér væri eins og vírbursti. Á tímabili trúði ég því að rakarar væru bestir í að klippa hár og fann rakarastofu miðsvæðis, það hentaði mér og þangað fór ég. En sá draumur átti eftir að hrynja. Þessi rakari var að vísu bæði fljótur og snjall með skærin en hann var einnig umboðsmaður hljómsveita og virtist nota rakarastofuna til að vinna að þeim málum. Einu sinni þegar ég sat í stolnum, kom til hans óánægður kúnni úr hljómsveitabransanum sem vildi fá leiðréttingu sinna mála. Úr varð rifrildi, sem stóð út klippinguna. Þeir voru báðir þrútnir af reiði og ég var á tímabili hrædd um eyrun á mér. Ekki held ég að þeir hafi leyst vandann en ég kom ekki aftur á þessa rakarastofu. Næsti rakari sem ég fór til hafði orð á sér að vera góður að finna réttan stíl sem hæfði hverjum og einum. Hann sagði mér strax í upphafi að ég væri með svipað höfuðlag og fyrrverandi konan sín. Síðan fór hann mjúkum og nærfærnum höndum um höfuð mitt og klippingin varð snilld. Ég skynjaði söknuð mannsins eftir konunni í handtökum hans. Þetta var allt hið vandræðalegasta og fór annað næst. 

En ég ætlaði að skrifa þennan pistil um hárgreiðslukonurnar sem ég minnist best í gegnum árin. Ég verð ævinlega þakklát konunni sem rakaði á mér kollinn, þegar ég var í lyfjameðferðinni og gat ekki hugsað mér að horfa á hárflyksurnar á koddanum. Hún var nærgætin og góð. Ekki var hún síðri hárgreiðslukonan sem fékk það hlutverk að snyrta nýja hárið mitt. Mér leist svo vel á hana að ég ákvað að halda mér við hana næstu árin. Þetta var um aldamótin og til hennar fór ég á  5 vikna fresti alveg þangað til hún þurfti að elta manninn sinn út til Noregs eftir Hrun. Hendur hennar voru kraftmiklar, fumlausar og þéttar. Höfuðnuddið sem var innifalið í hárþvottinum var óviðjafnanlegt. Ég saknaði hennar mikið og hélt að ég myndi aldrei finna hennar líka. En eftir að hafa prófað mig áfram, fann ég hana. Hún var að vísu allt öðruvísi góð. Handtök hennar eru svo mjúk að í fyrstu óttaðist ég að hún væri ekki neitt. 

Allt þetta var ég að hugsa á hárgreiðslustofunni. En svo þegar ég fór að skrifa það niður, byrjuðu gagnrýnisraddirnar í höfðinu að segja:" Af hverju ertu að skrifa um þetta væri þér ekki nær að skrifa um eitthvað sem máli skiptir, eins og stríðið í Sýrland, vanda flóttafólks eða bara vandræðagang eigin stjórnvalda, sem geta ekki gert upp við sig hvort við séum sjálfstæð þjóð sem hefur efni á því að hafa skoðanir."

Ég veit vel að ég er forréttindakona, ég bý fjarri átakasvæðum og þjóðin mín er ein af ríkustu þjóðum heims. En hvað getur gömul kona gert?

 

 


Der Schneegänger: Bók er ástríða

Var að ljúka við bókina Der Schneegänger eftir Elisabeth Herrmann. Þetta er önnur bókin sem ég les eftir þennan höfund. Sú fyrri var Das Dorf der Mörder og það eru sömu persónur í lögregluteyminu. Þær eru vel dregnar, trúverðugar og lifandi. Sagan gerist í Berlín, það er kaldur vetur.

Sagan hefst á því að það finnst lík af dreng sem hvarf fjórum árum fyrr. Gehring lögregluforingi og hans lið er fljótt að komast að því  hvaða drengur þetta er með því að skoða skrá um týnda einstaklinga. Þetta er sonur króatískra foreldra, móðir hans kom til Þýskalands sem þjónustustúlka en faðir drengsins er líffræðingur sem vinnur við rannsóknir á úlfum. Aðstæður hafa nú breyst, foreldrarnir hafa skilið og þjónustustúlkan er nú gift fyrrverandi húsbónda sínum. Þar sem Lutz Gehring lögreglu foringi talar ekki króatísku, leitar til Sanelu Beara sem er króatískur innflytjandi.  Hún hefur verið götulögga en ætlar að vinna sig upp innan lögreglunnar og er því að bæta við sig námi. Henni er ekki ætlað stórt hlutverk í rannsókninni, en það fer þó svo að hún villir á sér heimildir og ræður sig sem þjónustustúlka á heimili móður drengsins og stjúpföðr. Þannig kemst hún á snoðir um ýmislegt óvænt.

Höfundur leikur sér með nöfn, svo fljótlega fer lesandi að leita skýringa fyrir utan bókina. Heimilisfaðirinn heitir Günther og synirnir Sigfried og Tristan. Þarna koma líka við sögu Dianna, Lida og fleiri þekktar goðsögulegar persónur. 

Höfundi lætur afar vel að lýsa umhverfi og aðstæðum og mér, lesandanum, finnst ég vera þarna með þessu fólki. Og ég var í stöðugri óvissu um hverjum ég á að treysta, því einhvers staðar meðal meðal þeirra er misindismaðurinn.

Ég hlustaði á bókina en var líka með hana sem rafbók mér til glöggvunar, það er gott, sérstaklega til að átta sig á nöfnum. Það er talsvert oft skipt um sjónarhorn og þá er betra að vita strax hvar maður er staddur. 

Mér fannst þetta skemmtileg bók og mig langar til Berlínar.

 

Eftirmáli um bóklestur

Það er ýmislegt hægt að gera nú til dags þótt sjónin hafi daprast. Ég hef verið að æfa mig í að hlusta í stað þess að lesa. Enn ég fæ ég þó ekki eins mikið út úr því, það er kominn milliliður milli mín og textans. Ekkert jafnast á við bók sem hægt er að handleika og fletta. Ég reyni að bæta mér þetta upp með því að kaupa rafbækur, því þá get ég stækkað texann. En rafbækur ilma ekki. 


Eiturbyrlarinn ljúfi: Gamalt fólkið getur þurft að verja sig.

Á sama tíma og ég er að renna í gegnum bókina, Eiturbyrlarinn ljúfi, fylgist ég með umræðu um gamalt fólk. Hvað er í gangi? Bókin Eiturbyrlarinninn ljúfi eftir Artó Pasilinna, kom út í heimalandinu Finnlandi 1988 og á íslensku í fyrra. Áður hafði ég lesið, Á ári hérans og Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð, sem mér fannst frábærar Í fyrstu áttaði ég mig ekki á hvað bókin var gömul og lenti í vandræðum, það var eitthvað sem ekki gekk upp. En eftir að ég fann útgáfuárið (1988) var ég sátt. 

Bókin er um gamla ofurstaekkju sem ætlar að njóta elliáranna á fiðsælum stað, hún hefur keypt sér smábýli í finnskri sveit en verður fyrir ofsóknum og kúgun ungra auðnuleysinga og iðjuleysingja sem kúga fé af henni og hafa í frammi skemmdarverk. Þeir eru mættir á svæðið í hvert sinn sem hún fær útborgaðan ellilífeyrir sinn. Og ekki nóg með það þeir hneykslast á því hversu lítill hann er.

Þetta er fyndin og óskammfeilin bók. En sú gamla tekur til sinna ráða. Reyndar kemur í ljós að sú gamla á brogaða fortíð, hún er enginn engill. En í ljósi umræðu um gamalt fólk sem nú er í gangi, tók ég þetta nærri mér og stóð með þeirri gömlu. Aldrei hvarflaði það að mér sem ungri konu að ég þyrfti að upplifa umræðu um gamalt fólk í líkingu við þá sem ég hef verið að fylgjast með undanfarnar vikur.  

En eins og ég sagði,  blandaðist efni þessarar bókar óheppilega mikið saman við fréttir líðandi stundar um hættuna sem stafar af gömlu fólki. Það er að setja þjóðina á hausinn (lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða opinberra starfsmanna), það er varasamt í umferðinni og það er spurning um hvort svona rosknu fólki sé treystandi fyrir börnum. 

Nú held ég að upplifun mín á þessari bók sé engan veginn rétt, hún er nöpur ádeila á finnska pólitík, m.a. samskipti þeirra við Rússa og hún er skrifuð 1988. Reyndar þurfum við trúlega að rýna í samskipti okkar við Rússa en það er önnur saga. 

Ég hafði gaman af þessari bók.

Nú ætla ég, grínlaust, að snúa mér að Kínverjum og lesa bók efir Gao Xingjiang. Ég les hana í sænskri þýðingu Göran Malmquist og þar heitir hún Andarnas berg. Ég hef lesið hana áður og veit að hún er góð. Það er tryggast fyrir mig, sem er svona skeptisk á bækur, að vera búin að lesa bækur áður.

Ég veit að ég verð lengi að lesa hana.

Vonandi endist mér aldur og augu til þess.

 


Bók er blekking: Eftirþankar eftir lestur Náðarstundar

Góð bók er blekking. Meðan þú ert að lesa hana trúir þú hverju orði og lifir og hrærist heiminum sem höfundurinn hefur skapað. Þannig er þetta að minnsta kosti með mig. Þetta gera höfundar með þeim galdri sem þeim einum er lagið. Allt verður að virðast satt, persónur, umhverfið sem þær hrærast í og framvinda sögunnar. Góðum sögumanni fyrirgefst ýmislegt, en lesandinn hrekkur svolítið við. Ég var t.d leið út af börnunum í Sölku Völku, sem hún hafði tekið að sér en duttu svo barasta út. Ég hafði áhyggjur af þessum börnum en töfrar bókarinnar héldust samt. 

Verst ef staðreyndaheimurinn stenst ekki. Þá hrynur veröldin. Allir góðir sögumenn vita þetta og leggja sig fram við að hafa hann sem ljósastan. Þetta vissi t.d. sveitungi minn, Gísli á Brekkuborg sem var svo góður sögumaður að ég trúði hverju orði. Hver saga var full af smáatriðum sem ómögulegt var að rengja, þótt maður vissi innst inni að kallinn var að búa þetta til. Hann gat t.d. hafið söguna svona:

Einu sinni kom ég að Hlíðarenda. Það var um haust og fé enn á fjalli. Veðrið var rysjótt og sat fólk inni við yfir kaffi og bakkelsi. Mér var boðið í elhúsið. Þarna var margt karlmanna, þeir voru roggnir og töluðu um að veðurspáin væri slæm, það væri að ganga í óveður og svo var rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Ég spurði eftir húsmóður, en í því snarast hún inn í útifötum og segir, ef ykkur vantar meira kaffi, þá er það á brúsanum, ég ætla að fara að ná inn fénu. 

Þessa sögu heyrði ég ekki sjálf, enda er hún um fólkið mitt, ég fékk hana í endursögn og fannst hún góð.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég lítinn pistil um Náðarstund (Burial Rites), bók eftir Hannah Kent. Ég hafði ekki notið þess að lesa hana því heimurinn sem hún lét söguna gerast í stóðst ekki reynsluheim minn. Töfrarnir hrundu. Hann var of nærri mér. En ég trúði auðveldlega á sínum tima að þriðji hundurinn í ævintýri H.C Andersen hefði augu, sem voru eins stór og Sívali turninn. Og trúi því reyndar enn, en þetta er ævintýri. 

Trúlega hefði frásögn Hannah Kennt sloppið ef hún hefði ekki verð svona ofurnákvæm. Ég er svo viðkvæm fyrir smáatriðum, (ég átti t.d. bágt með allar nýju lopapeysurnar í myndinni Kaldaljós. Þær voru allt of nýjar og svo pössuðu mynstrin á þeim ekki inn í tímasetningu sögunnar). Umhverfi bókar er sviðsmynd frásagnar og er eitt af meðulunum sem höfundur beitir til að töfra og blekkja. Fá okkur til að trúa sér.

Ég hóf lestur Náðarstundar viðbúin því að láta engin smáatriði setja mig út af laginu en ég hélt ekki út. Töfrarnir rofnuðu. 

Það var allt of mikið bruðlað með ljósmeti og kaffi. Silkináttkjóllinn kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Ég hafði lært að náttfatnaður hefði ekki tíðkast í fátæktarlandinu Íslandi (en það gæti verið rangt hjá mér). Það er fráleitt að ætlast til þess að lesandinn trúi því að konur séu ófærar um að taka á móti lömbum og hrista í þau líf (einhvern veginn svona var þetta orðað). Fyrr í sögunni er höfundur búinn að láta Agnesi bæði slá og hlaða upp vegg, hvorugt taldist nú beinlínis til kvenmannsverka, svo það var eðlilegt að lesandi hefði þegar ályktað, að hún væri vel að manni.

Lýkur hér vangaveltum mínum um þessa framandi bók út frá íslenskan veruleka. Ég er á vissan hátt þakklát höfundi, því bókin varð til þess að það rifjaðist upp fyrir mér af húnvetnskum fróðleik sem ég varð mér úti um þegar ég dvaldist með því góða fólki.

Að lokum læt ég fylgja með, Brot úr Iðrunarsálmi Agnesar. Þetta er úr fórum  Elínborgar M. Jónsdóttur fræðikonu sem nú er látin:

Önd mín fagnar

Endar lífs hér tómið

Allt burt dragnar

hryggð og neyðargrómið.

Nátt frá leiðst,

náð mér greiðist.

Nú fyrir beiðist.

Hár guðs heiður hljómi.

(Orðrétt eftir blaði frá Elínborgu)

 

 

 

 

 

 

 

  


Náðarstund:Útfararsiðir í Húnaþingi

Enn og aftur lendi ég í því að lesa bók, sem er hrósað upp í hástert en mér finnst hún svo gölluð á köflum að ég fer hjá mér. Ég var að ljúka við Náðarstund, sem heitir á frummálinu Burial rites.

Eiginlega er sagan um tilurð bókarinnar ekki síður áhugaverð en sjálf bókin. Unglingsstúlka fra Ástralíu kemur til Íslands sem skiptinemi og í einsemd sinni í kulda og vetrarmyrkri norðurhjarans, heillast hún af sögunni um síðustu aftöku á Íslandi. Þegar hún kemur aftur í heimahagana, tekur hún upp þráðinn og rannsakar heimildir um málið. Hún hefur greinilega einnig kynnt sér sögu- og þjóðfræði og loks lærir hún skapandi skrif. (Þessi samantekt mín er samtíningur af netinu.)

Bókin kom út á ensku 2013 og fékk afar góðar móttökur. Hún kom út í íslenskri þýðingu (Jón Stefán Kristjánsson) árið eftir. Ég held að það sé hægt að segja að hún hafi fengið góðar viðtökur hér líka, en með undantekningum þó. Mér fannst sagan um unga skiptinemann svo merkileg að ég ákvað að les bókina sem hún skrifaði, þótt mig grunaði innst inni að mér myndi ekki falla hún. 

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les um málin sem spunnust vegna morðbrennunnar á Illugastöðum. Áður hafði ég lesið Yfirvaldið (Þorgeir Þorgeirsson) og Enginn má undan líta (Guðlaug Guðmundsson). Ólíkar bækur en góðar hvor á sinn hátt. Þegar ég bjó í Húnaþingi, hellti ég mér út í lestur þjóðlegs fróðleiks úr byggðarlaginu. Hugmynd mín á bak við þá skorpu var, að þannig næði ég  betra sambandi við Húnvetninga. Ég bjó þar í 5 ár og náði alveg ágætu sambandi, hvort sem það var lestrinum að þakka eður ei. Þetta var úturdúr og aftur að bókinni um  Agnesi. 

Eins og ég gat um í upphafi byggir höfundur bók sína á miklum rannsóknum á sögu og lifnaðarháttum á Íslandi í upphafi 19. aldar. Stundum fannst mér þjóðfræðin yfirgnæfandi. Kannski hefði það verið allt í lagi ef hún hefði verið rétt. Þetta var eins og lesa bók sem höfundur skifar á máli sem ekki er móðurmál hans, en kann ekki nógu vel. Fyrir mig sem er alin upp í sveit fyrir tíma rafmagns, síma og traktora, var þetta oft beinlínis pínlegt. Reyndar getur verið að stór hluti íslenskra lesenda séu svo fjarri þessum veruleika að þeir geti lesið textann án þess að truflast af vitleysunum. Dramatíkin og rómantíkin er alveg í lagi. Bókin er spennandi.  Reyndar minnti hún mig oft meira á Rauðu ástarsögurnar en á Dostójevskí.

Ég lauk lestri bókarinnar á degi Druslugöngunnar. Það var vel við hæfi. Samúð höfundar er hjá Agnesi. Natan er ekki sá maður sem hún hugði og þar að auki misnotar hann barnunga stúlku í rúminu við hliðina á henni. En það er enn betra að lesa um Skepnuskap Natans Ketilssonar í grein Helgu Kress í Tímariti sögufélagsins (LII: 2014). 

Af því ég er orðin sjóndöpur, var ég einnig  með bókina sem eBók á ensku (þá getur maður stækkað letrið að vild). Satt að segja fannst mér sá texti þjálli, ég er þó ekki að kasta neinni rýrð á þýðinguna. Kannski hef ég bara skilið enskuna verr og því stuðast minna af vandræðalegum lýsingum á sveitalífi sjálfþurftarbúskaparins.

Að lokum: Ef þú, kæri lesandi ert ekki búinn að lesa, Yfirvaldið þá skaltu gera það. Frábær texti. Og ef þú hefur þegar lesið  þá bók, þá er allt í lagi að gera það aftur. 

Og 

Ef einhver spyr, hvers vegna voru þessir menn myrtir, þá trúi ég ,,réttarsálfræðilegun" skýringum Helgu Kress best. Natan nýddist á þessum konum. En er ekki meira en trúlegt að hann hafi líka nýðst á Friðriki? 


Hatursáróður gegn gömlu fólki?

Ég hef satt að segja verið hugsi siðan ég last tvo greinastubba í hinu ,,frjálslynda" blaði, Fréttablaðinu í, Frá degi til dags. Annar stubburinn ber yfirskriftina, Kaldastríðskarlar, hinn, Fylgitungl stjórnmálamanna. 

Í Kaldastríðskallar er vitnað til orða Stefáns Ólafssonar, þar sem hann hrósar Jóni Baldvini fyrir skýra stjórnmálasýn sem Stefán ber saman við sýn yngri stjórnmálamanna. Stefán hrósar Jóni Baldvini á kostnað yngri stjórnmálamanna og þeim sárnar. Ég er ekki að skrifa þennan pistil, til að taka undir orð Stefáns enda ekki að öllu leyti sammála en mér finnst Jón Baldvin síst eiga skilið uppnefnið kaldastríðskarl. Enda mun hans verða minnst fyrir annað. Hann rauf fyrstur pólitíkusa skarð í járntjaldið. 

Í greinarstubbnum sem ber yfirskriftina, fylgitungl stjórnmálamanna, er sagt frá því hvernig Guðmundur Steingrímsson agnúast út í það að fyrrverandi stjórnmálamenn skuli taka þátt í stjórnmálaumræðu. Í báðum tilvikum eru ,,öldungarnir" afgreiddir með ,,hnyttni". Þessi orðræða pistlahöfundar sló mig, mér fannst eitthvað rangt við hana. Fannst sem það væri verið að flokka fólk. Er það ekki einmitt það sem við, gamla fólkið meðtalið, höfum verið að vinna gegn?

Eftir að ég ákvað að skrifa þessar línur, ákvað ég að skoða þessa umræðu betur á netinu. Þá fyrst var mér verulega brugðið. Ég get ekki betur séð en að það sé hatursároður í gangi gegn gömlu fólki. Helstu rökin fyrir því að Ólafur Ragnar eigi ekki að bjóða sig fram enn og aftur, er aldur hans en ekki frammistaða hans í embætti og skoðanir (reyndar finnst mér að nú sé nóg komið en það hefur ekkert með aldur hans að gera).

Dóri DNA hefur látið út úr sér að gamalt fólk ætti ekki að fá að ákveða neitt, nema kvöldmatinn. Þetta er að vísu sagt í skjóli fyndninnar en hvað fyndist okkur um þessa fullyrðingu ef við skiptum út orðinu, gamalt fólk, fyrir kvenfólk eða fólk með þroskahömlun. 

Ég er auðvitað ekki að skrifa þetta út af Jóni Baldvini og Ólafi Ragnari, heldur út af sjálfri mér. Ég er reyndar ekki á leiðinni í framboð en ég lít svo á að þátttaka í pólitík og pólitískri umræðu sé nánast borgaraleg skylda. Á hvaða aldri sem maður er.

 

 


Hvern langar til að lesa um fötlun?

Eg tók eftir því að þegar Tímariti Öryrkjabandalagsins var borið í hús í sumar, þá var búið að henda því öllu í körfuna fyrir ruslpóst (ég bý í blokk) áður en ég var búin að taka mér eintak. Eg fiskaði mér samt eitt blað og renndi í gegnum það. Það var gaman að lesa það og fróðlegt. Þetta var í júní um líkt leyti og umræða um málefni öryrkja var af einhverjum ástæðum á neikvæðum nótum. Í blaðinu voru viðtöl við ungt fólk sem er að gera það gott í samfélaginu og fullt af bjartsýni.

Í gær hlustaði ég á viðtal við borgarstjórann okkar, Dag B. Eggertsson í þættinum, Með okkar augum. Eitt af því sem hann var spurður um, var hvort honum fyndist ekki stundum að hann væri fatlaður. Hann hugsaði sig vel um en sagði síðan nei. Honum fannst greinilega að hann þyrfti að útskýra málið og sagði að hann héldi reyndar að fólk almennt, líka fatlaður, hugsaði ekki um sig sem fatlaða, heldur sem manneskjur. Mér fannst þetta gott svar, því ég er því sammála og mér finnst það undirstrika mikilvæg sannindi.  

Ég get á vissan hátt vísað í eigin reynslu, því ég hef verið að tapa sjón og telst nú lögblind. Það breytir ekki hugsun minni um mig nema þegar ég rek mig á takmarkanir sem af því hljótast. Oftar en ekki finnst mér að takmarkanirnar orsakist ekki bara af augunum mínum, heldur einnig framsetningu hlutanna. Mér finnst letrið of smátt eða grafíkin ekki nægilega skörp. Oft þyrfti í raun að gera svo lítið til að upplýsingarnar nýttust mér og mörgum, mörgum fleiri. Og af því ég er fyrrverandi kennari og hef reynslu af vinnu með leshömluðum, veit ég að margt þetta litla sem vantar gæti ekki síður nýst fólki sem á erfitt með lestur. 

Samanlagt er þetta það stór hópur, að ég hef oft velt því fyrir mér hvernig stendur á því að þeir sem eru að selja vöru og þjónustu, keppast ekki við að koma upplýsingum betur á framfæri. Hvers vegna virkar ekki samkeppnin? (Verð að taka það hér fram að ég hef aldrei trúáð á mátt hennar). Stundum myndi nægja að taka burt glansinn og/eð bæta lýsingu. Vita ekki þeir sem setja upplýsingar á netið að það er erfitt að vera með órólegan bakgrunn. Það er til mikil vitneskja um hvað virkar best fyrir sjóndapra en það er líka mikilvægt að muna að allt þetta er afar einstaklingsbundið, sjónskerðing er svo flókið fyrirbæri. Það er haft á orði ef það er erfitt eða nær ómögulegt að lýsa hlut, að það sé eins og að útskýra lit fyrir blindum. Það hefur hvarflað að mér að þannig sé því einmitt varið með að útskýra sjondepru fyrir sjáandi. 

En þá verður bara að taka reynsluna trúanlega. Það er erfitt að lesa merkingar í búðum, m.a. vegna plastins sem sett er yfir letrið og svo er þeim oft illa fyrir komið. Oft reynir reyndar á að hafa húmorinn í lagi og horfa á sjálfan sig með augum annarra. Ég brosi t.d. innan í mér, þegar ég krýp á hné í Ríkinu og rýni í upplýsingar í neðstu hillunum ( þar sem ódýrustu tegundirnar eru). Mér finnst það fyndið. Er ekki eitthvað ótrúlega hlægilegt og um leið nístandi, að horfa á gamla konu krjúpa á kné í ríkinu? Hvort á þessi gamla kona að hætta að drekka eða færa sig í dýrari vín? Þau sjást betur.

 


Lauflétt sumarlesning: Glæpur og refsing

Ekki veit ég hvað er átt við með, lauflétt sumarlesning en ég hef hvað efir annað heyrt þetta notað í auglýsingum um bækur sem menn ættu að taka með sér í fríið. Árstíðirnar hafa lítil áhrif á bókaval mitt og auglýsingar hreyfa ekki við mér. Oftar en ekki ræður því  tilviljun. 

Í sumar hef ég setið föst í Dostojevskí, þó með nokkrum útúrdúrum. Þegar ég var búin með Karamazov bræðurna og Fávitann og Glæpur og refsing við. Ég lauk við hana í gær.  Ég hef gert nokkrar atrennur að Dostojevskí, en útkoman er aldrei sú sama. Slíkt er einkenni á góðum bókum. 

Það sem heillaði mig við lesturinn í þetta skiptið, var ekki sjálf atburðarásin, glæpurinn og refsingin, heldur hvernig skáldið málar upp myndir af umhverfinu og skapar persónur. Ég sé Pétursborg þessa tíma fyrir mér og mér finnst ég þekkja þetta fólk. Sumar vettvangsmyndirnar eru eins og málverk. Ég veit að tímarnir hafa breyst, það eru ekki lengur hestvagnar á götunum og það er komið rafmagn en mér finnst folkið vera eins og fólkið í dag, mér finnst eins og ég gæti rekist á það. 

Dostojevskí byggir karekterlýsingar sínar mikið á samtölum. E.t.v væri stundum réttara að tala um einræður, því menn tala lengi og mikið. Höfundur gefur persónum sínum mikið pláss. Það merkilega (eða ómerkilega) við þessi samtöl er að fólk er að tala um nákvæmlega það sama efni og við erum að tala um í dag. Við eru stödd á sömu slóðum. Stundum finnst mér Dostojevskí tala beint inn í umræðu dagsins. Það var óneitanlega undarleg tilviljun og daginn eftir að ég les rökstuðning Svirdigailov (1. kafli í bindi II) um að karlmenn sem leiðist út í að beita valdi og nauðga séu í raun fórnarlömb, les ég umræðu um að til stæði að fá hingað til dæmdan nauðgara til að halda fyrirlestur.

Nú ætla ég að taka mér frí frá Dostojevskí og ég mun sakna hans. Ég hef þegar hafið lestur á bók sem einnig fjallar um glæp og refsingu, þ.e. bókin Náðarstund eftir Hannah Kent. Báðar þessar bækur fjalla um morð. Í bók Dostojevskís eru myrtar tvær konur í bók Hannah Kent eru það tveir karlmenn. Og í báðum tilvikum stóð til að drepa einungis einn, seinna morðið var ill nauðsyn, til að losa sig við vitni.  Það er ósanngjarnt bera Hannah Kent saman við skáldrisanm Dostojevskí. Þetta er hennar fyrsta bók.

 


Um hreinleika herbúðanna: Hreinlætismál fyrr og nú

Í 5. Mósebók (23.12) er fjallað um mál sem nú er ofarlega á baugi. 

,,Þú skaltu og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú ganga erinda þinna. Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum,  moka því næst yfir og hylja saurinn."

Það er greinilegt að lengi hefur maðurinn kunnað ráð til að umgangast sinn eiginn skít og það þótti þá þegar vert að setja um það reglur. Nú þegar Íslendingar eru farnir að taka á móti svo mörgum gestum sem raun ber vitni, verða þeir huga að þessum þætti og finna þörfum þeirra stað utan herbúðanna. Ég er ekki að ætlast til að þeim verði gert skylt að taka með sér spaða. Og ég er ekki að fíflast. Allir sem ferðast hafa erlendis meta þjónustu m.a. út frá því hversu vel er séð fyrir hreinlætismálum og kunna sögur um sóðaleg klósett. Fyrir langa löngu var ég a feðalagi í Póllandi með þremur fullorðnum og einu barni. Eftir nokkrar tilraunir til að fara með barnið á almenningssalerni, ákvað sú lita (þetta var stúlka) að þangað færi hún ekki fleiri ferðir. Þannig kynntist ég hinum pólsku skógum og er henni þakklát. 

En að öllu gamni slepptu. Við Íslendingar verðum að koma hreinlætismálum okkar í lag. Annars verðum við fræg fyrir sóðaskap. Þetta getur ekki verið gestunum að kenna.


Reykjavíkurflugvöllur: Rofin byggð

Ég bjó við flugvöllinn í 15 ár. Sem aðfluttur Reykvíkingur vissi ég meira um sögu Reykjavíkur til forna og landnám Ingólfs Arnarsonar en það sem lá nær mér í tíma.  Ég festi kaup á lítilli íbúð við Einarsnes og horfið á flugvélarnar út um eldhúsgluggann. Mér fannst óskiljanlegt að pappírarnir um eignina, voru allir stíluð á Þverveg 42, en ég flutti inn í Einarsnes 42. Nágrannar mínir höfðu unun af að fræða mig. Nágrannakona mín, Elsa Magnúsdóttir (faðir hennar hafði byggt húsið) útskýrði þetta allt fyrir mér. Þetta er rofin byggð, sagði hún.  Og hún lýsti fyrir mér hvernig byggðin í Skerjafirði var áður en Bretarnir tóku landið. 

Þá var Reykjvík ein heild en Skerjafjörðurinn tiltölulega nýleg byggð. Skarð hafði verið rofið í byggðina, húsin ýmist flutt (inn í Laugarnes) eða rifin. Ég reyndi að sjá byggðina fyrir mér eins og hún var. Það meikaði sens.

Reyndar kunni ég aldrei illa nábýlinu við völlinn. Það var ekkert yfirflug stórra flugvéla en litlu vélarnar voru óútreiknananlegar. Um helgar voru þær stöðugt að lenda og taka sig til flugs (sjálfsagt í æfingarskyni) og mér fannst eins og þær myndu koma í hausinn á mér. Það hvarflaði ekki að mér að kannski, ef til vill, væri betra að hafa flugvöllinn annars staðar.

Íslendingar réðu ekki vali á flugvallastæðinu. Þetta var breskur flugvöllur. Ég veit ekki hvort ákvörðun um staðarval hefði verið önnur ef Íslendingar hefðu sjálfir ráðið. En það hefði áreiðanlega verið deilt. Landið hentaði illa, þetta er mýri og það þurfti að aka mikilli möl í foraðið. Í það fór hluti af Rauðhólunum. 

En þegar ég rifja upp í huganum flugvellina sem við höfum sjálf gert og ráðið staðsetningu á, man ég ekki eftir neinum, sem er staðsettur í þéttbýlinu sem hann á að þjóna. Ég hef heldur aldrei lent í miðborg erlendis. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 190396

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband