Færsluflokkur: Bloggar

Mamma, það er flugvél á götunni

Í gamla daga, þegar ég var þriggja barna móðir í Skerjafirði, hringdi yngsta barnið til mín og sagði:,,Mamma,ég kemst ekki í skólann, það er flugvél á götinni". Ég var í vinnunni og börnin tóku strætó til of frá skóla. Ég var ekki alveg óvön því að stundum væri hringt og spurt hvort ég gæti ekki skutlað, því ég vann ekki langt frá. En þá þurftu að vera gildar ástæðu, því ég var ströng móðir og vildi ekki láta börnin komast upp með eitthvað rell. 

Nú fannst mér langt gengið og sagði eins og var að ég tryði ekki svona löguðu. Það kom angistarhljóð í símann. Þetta var yngsta barnið sem var í skólanum eftir hádegi (skólinn var tvísetinn eins og tíðkaðist þá). Ég vissi að miðbarnið átti að vera komið heim, og nú kom ný rödd í símann. ,,Jú, það er flugvél á veginum og strætó gengur ekki". 

Ég bað um leyfi til að skjótast úr vinnuni. Það er kannski allt í lagi að láta það fylgja sögunni, að það var ekkert vinsælt að vera að skjótast úr vinnunni.  Auk þess var með samviskubit út af af að láta litla barnið fara eitt í strætó, yfir tvær umferðagötur. En flugvél á götunni, það hafði mér aldrei dottið í hug. 

Ég dreif mig á vettvang. Og þarna var hún, eins og risastórt þunglamalegt sjóskrímsli, þvert yfir veginn, eins og á leiðinni út á sjó. Þetta var minnir mig áætlunarvélin til Pareksfjarðar. Á þessum tíma var stöðug umferð olíubíla úr Skerjafirði.

Engin slys urðu á fólki. Mér var létt.

Í 15 ár bjó ég í Skerjafirðinum. Mér fannst flugvöllurinn friðsæll, ég horfði á flugvélarnar koma og fara út um eldhúsgluggann. Það var lítil truflun af þeim, því það var ekki yfirflug. Skömmu síðar flutti fjölskyldan úr Skerjafirðinum út á land, rir sögn, reyndar voum við ekki að flýja. Ég var næstum búin að gleyma þessu og þegar ,,litla barnið" mitt mundi ekkert eftir þessu, fór ég að halda að mig hefði dreymt það. En vefurinn bjargaði mér.

Í Þjóðviljanum 11. 3. 1986 segir: Kraftaverkið frá því í gær (fyrirsögn)

Enginn farþegi né flugfólk slasaðist og engin bifreið var á Suðurgötunni þegar Fokkervélin hætti við flugtak og rann útaf flugbrautinni og yfir Suðurgötuna (millifyrirsögn).

Ég get ekki sagt að ég hafi mikinn áhuga á stríðinu um flugvöllinn. Flug er of dýrt fyrir mig. Ég er orðin 73 ára gömul og býst ekki við að lifa það að sjá nýjan flugvöll. En ef ég fengi að ráða þessu, yrði hann í Keflavík. Ég myndi síðan taka lestina í bæinn. 


Gullfinkan: Barnabók sem leynir á sér

image

Eg lauk við bókina The Goldfinch (Donna Tartt) fyrir nokkrum dögum. Siðan hef ég verið að gera það upp við mig hvað mér finnst.

Þetta er bók sem leynir á sér, í fyrstu er hún eins og barna- eða unglingabók. Hún er sögð í fyrstu persónu, það er drengurinn og seinna maðurinn, Theodor Decker, sem segir söguna. Han er býr hjá nóður sinni í New York, hann er ljúfur drengur,  enn barn. Móðir hans er falleg og skapandi. Hún lifir og hrærist í listageiranum. Hann er ljúfur drengur og deilir áhugamálum móður sinnar. Í upphafi sögunnar hefur þó verið kvartað undan hegðun hans í skólanum, svo þau mæðginin þurfa að fara á fund til að ræða málin. Þau koma við á listasafni til að nýta tímann og ferðina. Þá ríður reiðarslagið yfir. Safnið verður fyrir sprengjuáras og móðir hans ferst ásamt fleiri safngestum. Þau hafa verið að skoða frægt málverk frá 17. öld, mynd af gullfinku. Í uppnáminu og örvæntingunni sem upp kemur, kemst þetta málverk í hans hendur og  það á eftir að fylgja honum og hafa áhrif á örlög hans.

Það er ómögulegt að rekja innihald þessarar bókar án þess að stela eftirvæntingu hugsanlegs lesanda. Eftir þennan atburð umturnast líf drengsins. Lesandinn fylgir honum í gegnum þykkt og þunnt. 

Þetta er löng bók, 962 bls. Hún er langdregin, full af nákvæmum lýsingum, sem lesandinn (ég) sér sér, frásögnin lifnar við. Umhverfi og atburðir eru dregnir upp í smáatriðum.  Satt best að segja hefði ég ekki enst til að lesa þessa bók, nema af því mig langaði til að vita hvernig þessum dreng, sem ég kynnist í upphafi bókarinnar, reiðir af. Og vegna þess að bókin er einstaklega vel skrifuð. Stíllinn heillaði mig. En mér fanns stundum erfitt að fylgja löngum og nákvæmum lýsingum á dópi og dópupplifunum. Hugmyndaheimur glæpamanna er bæði óaðlaðandi og óinteressant.

Það er ekki alveg rétt að tala um að ég hafi lesið bókina. Ég sá aldrei, né handlék venjulega bók, ég var með hana í rafrænu formi, ýmisst sem hljóðbók eða sem rafbók. Það er nútiminn. Hann hentar mér vel, sjóndapurri konunni. Ég hlustaði á þessa bók meðan ég var að hlaupa og það var óneitanlega undarleg upplifun að vera með þennan glæpa og dópheim, sem drengurinn leiddist út í, hlaupandi í góðviðri og kyrrð Austurlands, þar sem fuglasöngurinn og þessi undarlegi heimur keppi um athygli mína. 

Þessi bók reyndi á það gerði skokkið líka. Síðustu kaflana las ég á Völlumum á leið inn í Skriðdal. Ég hélt að þetta ætlaði aldrei endi að taka en nú er ég þakklát fyrir að hafa haldið út. 

Þetta er ein besta bók sem ég hef lesið lengi.


Ef saltið dofnar

 

 image

Það er 17. júní og ég dvel í austfirskum skógi og hlusta á söng fuglanna. Ekki veit ég hvort rop karrans telst með, en hann situr uppi á húsburstinni og gefur frá sér þessi sérstöku hljóð. En ég veit að hann telur sig eiga svæðið og að ég sé aðskotadýr.

Hér er staðurinn til að hugsa um 17. júní, skilja þýðingu slíkrar hátíðar fyrir okkur, sem göngum undir nafninu þjóðin, en erum svo sundurleit, enda kjör okkar ólík. 

Auðvitað hefur 17. júní einungis þá merkingu sem við gefum honum og þá þurfum við að hugsa í árum en ekki bara í dagskránni sem er búin til af tilefni dagsins. Höfum við gengið til góðs...?

Og af því ég er stödd í kjördæmi forsætisráðherra langar mig til að biðja hann að íhuga: ,,Þér eruð salt jarðar og ef saltið dofnar hvernig á þá að selta það? (Matt:5:3). 


Mótmæli 17. júní

image

Ég verð ekki í Reykjavík á 17. júní. Ég er á leiðinni heim, til æskustöðvanna. En ég fylgist með því sem er að gerast í hinum stóra heimi í gegnum nútímatækni, netið. Og mig langar til að leggja mitt að mörkum í umræðunna. 

Las umræðu um mótmæli 17. júní. Þetta er ekki í fyrst sinn sem það er mótmælt 17. júní og vonandi ekki það síðasta. 

Í gamla daga þegar ég var ung, stóð Æskulýðsfylkingin að útifundi 17. júní með eigin dagskrá. Ég var þá formaður Reykjavíkurdeildarinnar og bar formlega ábyrgð á þessari framkvæmd.  En við vorum mörg og það var hugur í fólki. Við vildum gera 17. júní að virkum baráttudegi umbóta þar sem dagskráin einkenndist af því sem fólki lá á hjarta. 

Það er langt síðan, ég man ekki einu sinni hvaða ár þetta var, eða nákvæmlega hvað var á dagskrá. En það var eitthvað sem okkur fannst verðugt þá. 

Í þá daga var mikil vinna að því að undirbúa slíkan fund. Í fyrsta lagi þurfti að sækja um leyfi til lögreglustjóra Reykjavíkur, sem við gerðum. Við fengum höfnun en fundum glufu í kerfinu með því að halda hann á einkalóð og auglýstum fund. Ég sem var formaður kölluð á fund hjá lögreglustjóra Reykjavíkur. Hann tilkynnti mér að öll slys og óhöpp sem hlytust af slíkum fundi yrðu á mína ábyrgð. Ég var óstyrk, en gerði mér grein fyrir að svona lagað var ekki hægt. Fannst lögreglustjórinn sætur. Það hjálpaði.

Fundurinn gekk bara vel. Án slyss á mönnum.

Minning mín um þennan baráttufund er notaleg og nú þegar ég les um stóryrði/klúryrði sem fallið hafa um fundahöld 17. júní, rifjast þetta atvik upp. Mér finnst enn sem fyrr að það hljóti enn að vera gagnlegt að fólk helgi 17. júní mikilvægum málefnum en noti hann ekki bara sem skrautsýningu um sjálfstæði.


Höft og hrægammar: Slá þú hjartans hörpustrengir

image

Ég ætla ekki að tala um það hér, hvernig mér gengur að skilja það sem er upp og það sem er niður í fjármálum þjóðarinnar. Ég ætla bara að tala um hljóm orðanna. Öll orð hafa sinn tilfinningalega hljóm eða blæ, þau koma við ákveðna hjartastrengi. Það er staðreynd en líklega er þetta þó eitthvað breytilegt eftir hverjum og einum. Hljóðfærin eru misjöfn sem leikið er á. Ég veit bara hvernig mitt hljóðfæri hljómar.

Nú ætla ég að tala um orðin sem mér finnast ljót:

Nauðungarsamingar: það er ljótt orð, það getur ekki verið neitt gott við nauðung. Hún er í eðli sínu vond.

Kröfuhafar: Frekar ljótt orð. Það er eitthvað frekjulegt við það. Er ekki bara verið að tala um fólkið sem við skuldum? 

Hrægammasjóðir: Hræðilega ljótt orð. Það felur í sér ótta við hættulega ránfugla og vonda lykt, fnyk að rotnandi holdi. Mér stendur eiginlega meiri stuggur af lyktinni en af fuglunum. 

Höft: Hljómar vel. Ekkert athugavert við hljóminn í orðinu höft. Kveikir á ljúfum minningum frá barnæsku, þegar ég lærði að maður bregður haftinu á afturfætur kúnna en framfætur hestanna. Þetta þótti mér merkilegt þá. Það voru til brandarar um menn sem höfðu farið öfugt að. Nú hef ég ekki hugmynd um hvar maður bregður haftinu um gjaldeyrisdýrið en finnst eðlilegt að lina um haftið ef það er orðið sæmilega tamt og meðfærilegt.

Stöðugleiki hljómar vel. En eftirhljómurinn kveikir á tortryggni. Þetta hlýtur í raun að ráðast af því hvar maður er staddur í jöfnunni. Og ég hef ekki grænan grun um hver er í raun munurinn á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi. 

Ég ætlaði fyrst og fremst að tala umjm hljóm orðanna og reyna að halda mig frá stjórnmálaumræðu síðustu daga. En þar sem ég er eldri en tvævetur, veit ég sem er að orð eru ekki síður valin til að blekkja en til að segja nákvæmlega satt. Þegar orðin í umræðunni hljóma óeðlilega illa eða verða sæt og mjúk eins og hunang, er ég á verði.  

Eftur að hafa leitast við að skilja hvað er að gerast í pólitíkinni (ég lít á það sem borgaralega skyldu í lýðræðisþjóðfélagi) hallast ég að því að annað hættumerki sé í uppsiglingu. Það eru stórar glærur. Er ekki eitthvað að pólitískri umræðu þegar glærurnar eru komnar í yfirstærðir? 

 


Femme fatale

image

Mig dreymir um fjölmiðla sem fjalla um mikilvæg mál með skýrum hætti svo ég fræðist og skilji betur það sem er að gerast í heiminum. Mig dreymir um fjölmiðla sem stækka heiminn.

Í staðinn fæ ég endalausar frásagnir af einstaklingum. Þeir þurfa helst að vera frægir og ef þeir eru það ekki, verða þeir það. Mig langar ekkert til að lesa um þetta fólk. Ég vil kynnast fólki sjálf eða lesa um það í bókum.

Síðustu daga hefur þó alveg tekið steininn úr. Allt í einu eru tvær konur orðnar orðnar heimsfrægar á Íslandi og þjóðin stendur á öndinni. 

Ósjálfrátt fer éeg að rifja upp hvernig ,,femme fatale" útleggist á okkar ylhýra máli. Hef reyndar aldrei séð það í fleirtölu, kann ekki frönsku, en giska á ,,femmes fatales". Það er reyndar ekki langt síðan að ég fletti þessu orði/hugtaki upp og las mér til um það. Það kom til, vegna þess að ég var að lesa Dostojevskí og langaði að fræðast. Rakst þá á orðið í bókmenntlegri umræðu um tvær konur. Það voru þær Grushenka (Karamazovbræðurnir) og Nastasia Pilippovna (Fávitinn). Þessar konur eiga það sameiginlegt að töfra karla og verða örlagavaldar. Þær eru hrífandi. En það voru ekki bara þessir töfrar sem þær áttu sameiginlega. Þær áttu það líka sameiginlegt að vera fórnarlömb. Þær höfðu verið misnotaðar í bernsku. Í 19. aldar Rússlandi, þýddi það að framtíð þeirra var eyðilögð. Svívirt kona var ekki giftingarhæf.

Ég er nú engin sérfræðingur í femme fatale, þótt ég hafi lesið mér svolítið til um það, vegna þeirra Grushenku og Nastasíu. En vegna þeirra, hrökk ég ósjálfrátt við, þegar pressan okkar var allt í einu komin með, að því er virtist, tvær ,,femmes fatales" í öll fréttamál. Ég er á verði. Svo man ég að við erum stödd á 20. öldinni en ekki þeirri 19. En hefur eitthvað breyst? 

 

Konan á myndin er  Mata Hara 

 


Old Filth: Munaðarleysingi heimsveldis

image

Ég hef verið að hlusta á  söguna Old Filth, í símanum mínum þegar ég skokka og þegar ég fer í strætó. Ég er svolítið tortryggin á að hlusta á bækur í stað þess að lesa þær, ég er að æfa mig. Ég sé að unga fólkið er alltaf með eitthvað í eyrunum, af hverju ekki ég líka?

Bókin er eftir Jane Gardam (f. 1928), breskan höfund, sem ég kunni engin deili á en hef lesið mér til. Þessi kona er vel þekkt, hóf að skrifa um fertugt. Hún hefur skrifað barnabækur, smásögur og skáldsögur og er margverðlaunuð. 

Bókin fjallar um gamlan mann sem hefur misst konu sína og rifjar upp líf sitt. E.t.v væri réttara að segja að hann reyni að kryfja líf sitt, komast að því hver hann er. Minningar vella fram, það er eins og hann ráði ekki við það. 

Hann hefur verið lögmaður og dómari og unnið í Hong Kong. Nafn hans, sem er um leið nafn bókarinnar felur í sér brandara eða sögu. Það er sagt að hann sé maðurinn á bak við orðatiltækið ,, Fail in London, try Hong Kong". En það var einmitt það sem hann gerði. 

Þau hjónin höfðu búið í Hong Kong þar sem hann starfaði sem dómari og þau fluttu ,,heim" til Bretlands til að eyða þar ævikvöldinu. Þau fluttu til Wales. Ég hef heim innan gæsalappa því að eitt af því sem gamli maðurinn stríðir við að finna út úr er hvað er heim fyrir hann.

Hann er fæddur í Malasíu, þar sem faðir hans starfar fyrir heimsveldið. Faðirinn hafði barist í fyrri heimsstyrjöldinni og er farinn illa. Móður sína þekkir drengurinn ekki af því hún lést við fæðingu hans, svo hann er alinn upp af fóstrum. Þegar hann er 5 ára sendir faðir hans hann ,,heim" til að læra tungumálið. Síðan tekur við dvöl á heimavistarskólum. Þeim er reyndar ekki borin illa sagan. Í upprifjun gamla mannins á ævi sinni birtist honum óreiða. Auk þess burðast hann með hræðilegt leyndarmál.

Ég ætla ekki að rekja söguna lengra en í henni felst grimm ádeila á hvernig börn urðu fórnarlömb sóknar heimsveldis eftir völdum og auði. Og enn eru þau fórnarlömb, en þá hugsa ég  til stríðsátaka og flóttafólks.

Bókin er hrein perla, bæði spennandi, hrífandi og á einstaklega fallegu máli. 

Ég ætla að lesa meira eftir þessa konu, t.d The Man With the wooden Hat sem kom út 2009.

Ég er orðin 73 ára og ég veit vel að það fer mér ekki að vera með ,,earhpons" og reiðhjólahjálm og mér finnst ekki enn að hlustun jafnist á við lestur. En það kemur með æfingunni. Jane Gardam var 76 þegar hún skrifaði þessa bók. 


Fávitinn

image

Ég fæ stundum svo mikið dálæti á bókum og höfundum þeirra að það jaðrar við áráttu eða það er eins of að vera ástfangin. Núna byrjaði þetta með Karamazovbræðrunum sem ég las með bókaklúbbnum. Síðan tók Fávitinn við og nú hef ég hafið lestur á Glæpi og refsingu. Reyndar tók ég nokkrar bækur Tolstojs sem hliðarspor. Ég er ofurseld Rússum og það er ekkert óþægilegt. Allar þessar bækur eru þýddar af Ingibjörgu Haraldsdóttur. 

Fávitinn reyndist mér strembnari lesning en Karamasovbræðurnir, hann gekk á vissan hátt nærri mér. Það er eitthvað svo átakanlegt með þennan unga mann sem kemur heim til Rússlands eftir að hafa dvalið langdvölum erlendis vegna veikinda sinna en snýr nú heim til föðurlandsins eftir að hafa fengið lækningu. Að því er virðist. Hann á enga að og hefur misst langan kafla úr lífi sínu, ekki menntast og er allslaus. Að því er virðist. En hann er þó greifi og leitar því uppi fjölskyldu eina ættingja síns sem hann veit um. 

Þótt við liggi, að honum sé þar vísað á dyr, sér frænka hans Lísaveta og maður hennar, hershöfðinginn, Ivan Fjodorovits, aumur á honum. Þar með hefst flókin atburðarás sem ég ætla ekki að rekja hér. Hann kynnist mörgu fólki og af misjöfnu sauðahúsi og það eru þessir karakterar og samtölin sem gera þessa bók að meistaraverki. Reyndar væri stundum réttara að tala um einræður en um samtöl. Nær öllum þessum persónum er svo vel lýst að mér finnst ýmist að ég þekki þær og ef ekki, ef ég myndi mæta þeim á götu myndi ég þekkja þær og heilsa þeim með virktum. 

Þegar furstinn/fávitinn kemur heim til Pétursborgar, kemst allt í uppnám, að minnsta kosti hið innra með fólki. Hann er nefnilega góður. Elskar alla, er fullkomlega hreinskilinn, kann ekki að ljúga eða látast. Þetta raskar öllu jafnvægi í þessu stéttskipta þjóðfélagi sem byggist á ættum, peningum og spillingu. Fólk fer ósjálfrátt að spegla sig í honum og þar að auki er hann efnaður. Það hefur nefnilega komið í ljós að  velgjörðarmaður hans, sem stóð að því að vista hann á heilsuhælinu, hefur látið eftir sig arf og furstinn er lögmætur erfinginn hans. 

En þetta er ekki samtalsbók með myndum af fólki, þetta er ástarsaga með glæp og hún er spennandi. Mikið er ég fegin að Dostojevskí skrifaði sínar bækur áður en það þótti sjálfsagt að setja ritsjóra yfir rithöfunda til að sníða vankanta af bókum. Þessi bók er full af útúrdúrum og ég nýt þeirra. Hún tekur u.þ.b. 40 stundir í lestri. Það er ein vinnuvika. Það er eins gott að vera hætt að vinna. 

Ef þið hafið gaman af því að hlusta á fyllibyttur en viljið spara útgjöld við að fara á bar, lesið Fávitann. Ef ykkur langar að hlusta á heimspekilegar umræður og/eða guðfræðilegar,lesið Dostojevskí. Og ef ykkur langar hlusta á yfirgengilega lygalaupa, lesið kallinn.

Það er merkilegt hvað margt er líkt með Íslandi í dag og með Rússlandi 19. aldar.

Mig langar að ljúka þessum pistli með orðum Lísavetu, frænku furstans. Hún er artarleg kona  og heimsækir frænda sinn með föruneyti á hælið í Sviss en þangað er hann kominn af því sjúkdómur hans (flogaveiki) hefur tekið sig upp. Hann þekkir hana ekki lengur vegna ástands síns og hún ergir sig á öllu og langar heim:

,,Ég fékk að minnsta kosti að gráta á rússnesku yfir þessum vesalingi ...nú er nóg komið af þessari vitleysu, það er kominn tími til að hlýða skynseminni.  Allt þetta, öll þessi útlönd, og öll þessi Evrópa yðar, allt er þetta einber ímyndun, og við hér í útlöndum erum ekki annað en ímyndun... minnist orða minna, þér eigið eftir að sjá þetta sjálfur... " 


Bara börn

image 

Ég hef verið að undirbúa mig fyrir síðasta bókafund ársins í öðrum af tveimur bókaklúbbun sem ég tilheyri. Ég er búin að lesa bókina sem við settum okkur fyrir á síðasta fundi sem var haldinn stuttu eftir andlát Günter Grass (f. 1927). Köttur og mús, varð fyrir valinu. Ég hafði ekki lesið hana áður, en fyrir nokkrum árum las ég Blikktrommuna (í hinum bókaklúbbnum mínum). Á eftir fékk ég dellu fyrir Grass og reyndi að lesa Beim Häuten der Zwiebel á frummálinu en gafst upp og las hana á ensku, Peeling Onion. Mér finnst gaman að fá góða listamenn á heilann. 

Bókin, Köttur og mús, er stutt...drengjasaga. Hún segir frá unglingum í menntaskóla í Danzig á 4.áratug 20. aldar, árum í aðdraganda stríðsins. Danzig er að hluta til pólsk og hefur stöðu fríríkis, reyndar bara að nafninu til þegar hér er komið sögu. En drengirnir eru ekki uppteknir af því. Þeir lifa í sínum unglingaheimi og í upphafi sögunnar eru þeir uppteknir af ævintýrum sem fylgja því að synda út í skipsflak í inn siglingunni og kafa niður í vistarverur þess.

Það er kórdrengurinn Pilenz sem segir söguna, sjónarhornið er hans og stundum talar um hvað vakir fyrir honum. Hann er að skrifa um Mahlke, sem er einn af þeim drengjunum en samt alveg sérstakur. Lesandinn veit að það er stríð í uppsiglingu en drengjahópurinn er ekki upptekinn af því, ef frá er talinn áhugi þeirra að kunna allt um orustuskip, kafbáta. Þeir romsa upp úr sér nöfnum þessara hertóla, stærð og búnaði, eins ég gæti ímyndað mér að okkar gætu gert ef þeir væru að tala um uppáhalds hljómsveitir.

En stríðið mallar allstaðar undir  í frásögninni en þetta eru bara börn. Nálgun höfundar er að því leyti sérstök að bókin er eins og skýrsla um þennan dreng, Mahlke. Hann er  einn af þeim en öðru vísi, hann þarf ekki á þeim að halda. Fullorðna fólkið er að vissu leyti utan við sjónarhorn þessarar skýrslu og frásögnin varð á vissan hátt spennandi af því lesandinn þarf stöðugt að geta sér til um það sem ekki er sagt og hvers vegna. 

En stríðið nær þeim, stríðshetjurnar koma til þeirra inn í skólann og þeir eru undirbúnir fyrir sína þátttöku. Þessir drengir útskrifast ekki út í lífið eða til fara í háskóla. Þeir útskrifast í stríðið. 

Günter Grass hefur verið gagnrýndur fyrir þátttöku sína í stríðinu og fyrir að hafa ekki verið hreinskinn. Hann gekk í herinn 17 ára. Hann er orðinn 79 ára þegar hann gerir grein fyrir þessu í bókinni ,,Að flysja lauk". Nú þegar ég hef lesið þessar þrjár bækur, sem eru, Blikktromman, Köttur og mús og Að flysja lauk, finnst mér þær fjalla allar um þennan sama efnivið, undirbúning stríðs.

Ósjálfrátt bætist ein frásögn enn við í huga mér, bók Marchel Reich Ranicki, Mein Leben. Lýsing hans á menntaskólaárunum í Þýskalandi er hliðstæða við þessa frásögn. Ranicki er að vísu ekki í leikjaheimi, líf hans snýst um tónlist og bókmenntir. Þegar hann er 18 ára er honum  allt í einu er honum kippt upp með rótum, hann og fjölskylda hans eru send til Pólands þegar pólskættuðum Gyðingum er vísað úr landi. Þar bíður þeirra gettó. Ranicki tókst reyndar að sleppa þaðan og bjargaðist.  

Allar þessar bækur um unglinginn sem stendur frammi fyrir stríði hljóta að leiða huguann að stríðumum okkar í dag. Enn eru unglingar sem fara í stríð, ýmist viljugir eða tilneyddir. Og heimurinn er fullur af flóttafólki. Við huggum okkur með að stríðin séu langt í burtu en heimurinn er lítill. 


Sprell

image

Það er sól, það er vor og ég glöð og veit ekki hvort ég á að hjóla eða hlaupa.

Ég las í blaðinu í dag, eða var það í fréttunum, að það er búið að reikna það út að Íslendingar eru latir og þess vegna eiga þeir ekki skilið að fá hærra kaup.

Ég veit ekki um nokkurn mann sem veit hvað það eru mörg stéttarfélög í verkfalli eða á leiðinni í verkfall. Listamennirnir okkar eru óbrúklegir í útlöndum. En við getum verið sátt, því við eigum svo góða stjórnendur á æðstu stöðum að við þurfum að borga þeim formúur til að þeir verði ekki keyptir til útlanda. Og svo þurfum við að borga þeim bónus ofan á það.

Ég er löngu hætt að vinna og hef sjálfsagt verið löt. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa áhyggjur, minn tími er búinn. En mér finnst það einhvern veginn óþægilegt að dingla svona. Mér finnst eins og ég hangi í lausu lofti. Mér finnst að ég sé eins og sprellikerling það sé verið að leika sér með mig.

Og þegar ég hugsa líkinguna til enda, veit ég að ég að ég dingla og það eru sprellikarlar sem halda í spottann sem heldur mér uppi. 

Í gamla daga þegar til var alvörufólk var þetta betra. Krónan reyndar var ónothæf þá eins og nú en menn sættu sig við höftin og skömmtunina líka ef með þurfti. Við stunduðum vöruskipti við land sem líka átti mynt sem bara var til heimabrúks. Allir græddu. En það voru aðrir tímar. 

En það er sól. Það er vor. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 190396

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband