Færsluflokkur: Bloggar

Hrói og Gói í Þjóðleikhúsinu

Leihúsárið byrjaði hjá mér í fyrradag. Við hjónin erum í áskrift að fjórum sýningum í Þjóðleikhúsinu og í fyrradag var Hrói höttur á fjölunum. Ég vissi að þetta myndu verða Hróiloftfimleikar af því Vesturport var þarna á ferð, en velti fyrir mér hvort áherslan yrði lögð  á ástarsöguna eða á byltingarmennina í skóginum. Svona undirbýr maður sig í huganum fyrir leikhús. 

Strax og ég sá sviðið, leikmyndina, vissi ég að þessi leikhúsferð yrði heppnuð. Rjóðrið í Skírisskógi er undurfagurt og bjartir seiðandi tónar í anda sólargeislanna  sem hríslast milli trjágreinanna lýstu upp rjóðrið og flæddu um sviðið. Sagan af Hróa og félögum var sjálfri sér lík. Það eru til mörg afbrigði af þessari þjóðsögu og líklega er sagan okkar Íslendinga um Höllu og Eyvind, lituð af henni. 

Í þessari útgáfu var ástarsögunni og baráttu hinna góðu fyrir réttlæti þægilega blandað saman. Vonda fólkið alveg hræðilega vont, svo það var var lítið hik á áheyrendum að það ætti hið versta skilið. 

Það var svo margt gott og frábært við þessa sýningu að erfitt er upp að telja. Framsögnin var góð. Þessu tek ég eftir, mér hefur fundist að framsögn hafi hrakað í leikhúsum upp á síðkastið. Svo var ekki hjá Hróa, Mariönnu og félögum. Söngur, tónlist, leikur og hreyfingar mynduðu eina heild svo oft fannst mér ég væri að horfa á dans frekar en leikrit.

Það er einhver sérstakur blær yfir þessari sýningu. Í fyrstu fannst mér hún bera keim af kvikmyndum og myndasögum en fannst þó að það var eitthvað við þá hugmynd sem ekki passaði. Og allt í einu sá ég það.

Þessi Hrói er eins og tölvuleikur. Ég tek það fram að þann heim þekki ég einungis útundan mér í gegnum barnabörnin. Ég hef átt erfitt með að skilja hrifningu þeirra en allt í einu opnaðist fyrir mér að kannski sæju þau eitthvað allt annað en ég, þegar þau sitja við skjáinn. Kannski sjá þau í tölvuleikjunum það sem ég sé núna á sýningu Þjóðleikhússins.

Það var gaman á Hróa hetti, jafnvel þótt Hrói væri e.t.v ekki aðalkallinn. Kvenhetjan er ekki síður öflug. Reyndar má einnig segja að illmennið eigi sér kvenkeppinaut í illmennsku en það er engin önnur en Henríetta, systir Maríönnu. En öflugust er heildin sem skapast á sviðinu, það er hún sem gerir trykkið. 

Áhorfendur skemmtu sér, líka börnin en það voru mörg börn meðal áhorfenda. 

Minn maður í þessu verki var Gói, sem sló svo rækilega í gegn í leikritinu sem Pierre, að ég yrði ekki hissa ef ég frétti að hann hefði nú verið settur yfir í Skírisskógi.

  


Einar Ben: Vandinn við að vera góð manneskja

image

Það skýtur e.t.v. skökku við að vera að lesa bækur Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson núna 15-18  árum eftir að þær komu út. En þegar ég var búin að lesa bækur Edith Wharton um 19. aldar yfirstétt New York borgar, fannst mér ég þurfa að fá eitthvað mótvægi. 

Hugmyndaheimur Einars er í algjörri mótsögn við hugmyndaheiminn sem birtist í bókum Wharton (The Age of Innocence og The House of Mirth). Heimur Wharton þrengir að manni, lífið snýst um hegðun og siðvenjur, hvað má og hvað ekki. Heimur Einars Benediktssonar er víður og þar takast á menn stórra hugmynda, sem ætla að breyta þessum heimi. Þar má allt. 

En, bæta menn stórra hugmynda heiminn? Ég er sjálfsagt ekki ein um, að stundum kemur illa við mig hvað menn stórra hugmyndaleiga það til að vera ósamkvæmir sjálfum sér. Sama gildir um listamenn, ósjálfrátt gerir maður ráð fyrir  að fegurðin og göfgin sem þeir tjá í list sinni speglist í gerðum þeirra. Oft forðast ég í lengstu lög að lesa mér til um persónuna á bak við listina. Var ekki Hamsum, sem skrifaði þessar dásamlegu bækur, nasisti og Þórbergur sem hugsaði háleitari hugsanir en flestir samtímamenn, svo til ófær um að sjá um sig sjálfur? Persónan sem lýst var í kvikmyndinni um Turner var ekki líkleg til að gera undurfagrar og dulúðugar myndir. Þessi dæmi eru gripin af handahófi. Segir ekki sagan að Rousseau hafi látið vista börn sín á munaðarleysingjahæli?

Ég er fegin að þegar ég var látin læra Fáka utanbókar, vissi ég ekkert um skáldið nema að hann var mikill hestamaður. Nú grunar mig að ég hefði ekki fallið kylliflöt fyrir ljóðum hans ef ég hefði vitað hvað hann var ómerkilegur. Mikið er ég búin að vorkenna konu hans og börnum og fólkinu sem treysti honum. En ljóðin bliva og þau svíkja ekki. 

Það sem hrífur mig mest við ljóð Einars, er hvernig hann tekst á við að orða flókin sannindi og tengja saman sem anda og efni. Hann vill koma  þessu í orð og tekst það oft. Skítt með að ég sé ekki sammála honum. Hann segir reyndar hreint út í kvæðinu um Dettifoss að okkur beri að fórna náttúrunni fyrir veraldleg gæði. Sumt er þetta bölvað bögl en svo koma þessar dásamlegu setningar inn á milli. Þá gleymir maður hinu.

Enn er Einar (ég er stödd II. bindi ) aðeins liðlega fertugur og rétt kominn af stað með sínar djörfustu hugmyndir og á mikið eftir óort. 

Niðurstaða. Skáld, listamenn og menn stórra hugmynda eru jafn breiskir og aðrir menn. Það sem villir um fyrir okkur er að ósjálfrátt gerum við meiri kröfur til þeirra og  svo hafa þeir nú oft fleiri tækifæri en við sem teljum okkur venjulegt fólk, til að vera breiskir. 

 

 


Hver á skáldin?

image

Ég er svo heppin (eða óheppin) að ég hef aðgang að Blindrabókasafninu. Undanfarið hef ég verið að hlusta á Ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson. Í dag hlustaði ég á bókina  í staðinn fyrir að hlusta á setningu Alþingis meðan ég tók til í eldhúsinu.  Ég er stödd í bindi II. Ég hef lengi komið mér hjá því að lesa þessa bók, líklega vegna þess að ég er svo leið á þjóðsagnapersónunni Einari Benediktssyni, sögunum um glæsimennið og athafnaskáldið, sem fyrstur manna skildi að Íslendingar yrðu að ná í erlent fjármagn ef þeir ætluðu einhverntíma að komast úr moldarkofunum. En ég hef alltaf kunnað meta ljóðin hans. Alveg síðan ég var látin læra Fáka utanbókar. 

Þegar ég var í barnaskóla spurði ég kennarann minn, Birgi Einarsson, hvað skáld væri besta skáld á Íslandi. Birgir svaraði því til, að það væri ekki hægt að svara svona spurningu. Mér fannst það lélegt enda var ég nýbúin að læra um hver væri önnur mesta hetja okkar Íslendinga til forna. Ég gekk því eftir svarinu og spurði hvað honum fyndist sjálfum. Birgir tók sér langan umhugsunarfrest og svaraði svo: Mér finnst Einar Benediktsson bestur. Ég hef alltaf verið Birgi þakklát fyrir að kenna mér strax þá á stundum á samanburður ekki við og enn síður goggunarröð. 

En til baka í bók Guðjóns. Það er frábærlega gaman og spennandi að ferðast með Einari Benediktssyni í gegnum lífið. Þar er sko engin lognmolla. Bókin er ekki síst skemmtileg vegna þess að höfundi tekst að draga upp mynd af aldarhætti. Það gerir hann m.a. með því að draga upp lifandi myndir af samferðafólki hans.

Þegar ég les mér til (en netið er mér ómissandi liður í að njóta bókar) um Einar Benediktsson, sá ég að víða lágu þræðir til hans frá hægri mönnum. Eina ljóðabókin sem ég á eftir Einar, Sýnisbók, er með formála eftir Bjarna Benediktsson (eldri auðvitað). Þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart, þannig voru tímar kalda stríðsins. Skáldunum var skipt upp á milli ólíkra fylkinga. Kannski er þetta enn i gidi en skáldin okkar eiga það ekki skilið. 

En ég er enn ekki hálfnuð með bókina og ég veit hvernig hún fer. Þannig eru ævisögur um frægt fólk. Við erum alla bókina að leita skýringa af hverju fór sem fór. 

Ég hef þegar lýst því yfir að ég hef miklar mætur á skáldinu Einari Benediktssyni. En ég hef aldrei verið sannfærðari um mikilvægi þess að rugla ekki saman manni og skáldi. 

En það er vitleysa sem Einar klifar stöðugt á og margir hafa vitnað til: að peningarnir séu afl þeirra hluta sem gera skal og að það eigi að láta peningana vinna til að auðgast. 

Það er fólkið sem vinnur sem skapar auð.


Er fótbolti hættulegur?

Ég held að þjóðin hafi horft of mikið á fótbolta. Ekki kann ég neina aðra skýringu á því að fólk tapar ser í að draga líkingar úr heimi fótboltans inn í umræðu um stjórnmál og lýðræði. Ef fótboltalið  stendur sig illa er þjálfaranum sagt upp og ef flokkur stendur illa í skoðanakönnun er eina ráðið að segja upp formanninum. 

Frá mínum bæjardyrum séð leiðir þessi líking villur vega.

Fótbolti fylgir sýnum lögmálum, reglum og ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um að þær séu ólíkar þeim reglum sem við höfum sett okkur um lýðræðislega pólitík. Á fótboltavellinum keppast liðin um að vinna boltann til að skora mörk. Óháður dómari gætir þess að farið sé að reglum. 

Í pólitík velur þjóðin sér lið á fjögurra ára fresti til að vera með marga bolta á lofti. Þetta lið fær síðan að vera eitt inn á vellinum og skora eins mörg mörk og það hefur getu til. Því fleiri því betra. Eða hvað? Það er enginn utanaðkomandi dómari, nema ef til vill þjóðin sjálf í kosningum. Stjórnarandstaðan er ekki til að koma í veg fyrir markaskorun. Í því liggur villan sem þessi líking leiðir til. 

En samlíkingar ganga nú oftast ekki upp.

Ég veit að ég er hér að hættusvæði. Ríki karlmannanna í sófunum þar sem þeim líður svo undur- vel. Enda eru það fyrst og fremst þeir sem fá að stýra umræðunni þegar kemur að því lýsa og draga ályktanir af því sem er að gerast á stjórnmálavellinum. 

Stjórnmál snúast um markmið en ekki markaskorun.

 


Hjarta spekinganna býr í sorgarhúsi en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi

image

Ég lauk loks við bókina The House of Mirth. Ég byrjaði á henni 22. ágúst, var með hana í eyrunum meðan ég hljóp. Hlaupið var mér erfitt og kannski hefur afstaða mín til sögupersónu mótast einmitt þá. Ég verð að játa að aðalpersóna sögunnar Lily Bart, fór svo í taugarnar á mér, að ég átti erfitt með að njóta bókarinnar, þótt hún sé listilega vel skrifuð.

Fyrir þá sem ekki vita. The House of Mirth (1905) eftir Edith Wharton er látin gerast í lok 19. aldar. Sögusviðið er New York en sjónarhornið er að því leyti þröngt að sagan fjallar, ég held að mér sé óhætt að fullyrða, eingöngu um líf ríka fólksins. Lily á í vanda, faðir hennar hefur orðiðið gjaldþrota svo hún er eignalaus og verður að giftast til fjár, til að halda stöðu sinni innan yfirstéttarinnar. Hún er falleg, gáfuð og eftirsótt. Staða hennar virðist því vera álitleg. Lily horfir á stöðu sína nánast eins og góður skákmaður og hugsar út leiki. En hvað eftir annað er hún of lengi að hugsa, hún fellur á tíma. Þegar hún er tilbúin til að játa bónorði, er það of seint. Að lokum stendur hún uppi ein og vinalaus og gerir loks tilraun til að vinna fyrir sér. En blóm sem er ræktað í gróðurhúsi þrífst illa þar sem allra veðra er von. Lily er ekki samkeppnisfær við stúlkur sem hafa þjálfast í að vinna. 

Loksins þegar þarna var komið sögu, fór ég að finna til með Lily. Bækur kenna manni ýmislegt um sjálfan mann. Mér hafði allan tímann leiðst hikið á henni og ég lét líka þennan þrönga heim fína fólksins pirra mig. Í raun er það höfundur bókarinnar sem leikur sér með lesandann. 

Meðan ég var að koma mér í gegnum bókina, las ég mér til um hana og höfundinn. Bókin er flokkuð sem "novel of manners". Það vísar til bóka þar sem höfundur beinir sjónum lesandans að siðvenjum fólks, hvernig það hugsar um hvað sé viðeigandi og hvað sé mikilvægt. Þetta gerir höfundur með því að lýsa samtölum og hugrenningum fólks. 

Það er ekki við öðru að búast en hinn þröngi heimur yfirstéttar New Yorkborgar fari í taugarnar á mér. Ætla þau aldrei að horfa á heiminn í kringum sig, hugsa ég. Hvenær læra þau.

En auðvitað á ég að láta mer þykja vænt um Lily, en ég geri það ekki fyrr en hún er ein og útskúfð.

Ég skammast mín. Samúð með fólki á að ná út fyrir stétt og landamæri.  Við erum rækilega minnt á það þessa dagana þegar við horfum daglega upp á neyð fólks. 

Titill þessarar bókar er sóttur í Biblíuna: Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi (Predikarinn 7:4). 


Úr öskunni í eldinn? 19. öldin heillar mig

image

Stundum finnst mér gott að flýja inn í fortíðina ef mér finnst umræðan í samtímanum þrúgandi. Upp á síðkastið hef ég hallað mér að 19. öldinni. Nú er ég að lesa tvær bækur, sitt á hvað. Maður getur ekki lesið margar bækur samtímis en báðar fylla þessar bækur huga minn í augnablikinu og ósjálfrátt ber ég þær saman. 

Önnur bókin er skáldsaga eftir bandarískan rithöfund, Edith Wharton (The House of Mirth), hin er ævisaga Einars Benediktssonar (1. bindi) eftir Guðjón Friðriksson. Það er kannski ekki alveg út í bláinn að bera þessar bækur saman. Hér skal tekið fram að ég er enn stödd í fyrstu bókinni un Einar, sem fjallar ekki síst um föður hans. Hann kemst inn í íslenska yfirstétt með  því að kvænast. Hagar sér illa og er stöðugt blankur. Söguhetjan í The House of Mirth, Lily Bart, fæðist inn í yfirstéttina em faðir hennar verður gjaldþrota. Þá er eina leiðin til bjargar fyrir Lily að gifta sig til fjár. Hún er falleg, gáfuð og eftirsótt og alin upp til að vera yfirstéttarinnar. En hún spilar illa úr stöðu sinni og því fer sem fer. Það má á vissan hátt segja að það geri Benedikt Sveinsson líka á sinn hátt. 

Það sem sér í lagi aðskilur þessi tvö vandræðabörn og styrkur Benedikts, eru stórar og brennandi hugsjónir. Hann er brennandi í andanum fyrir frelsi og lýðræði. Veikleiki hans er vínið. Aumingja Lily hugsar fyrst og fremst um hvernig best sé fyrir hana að klæðast og haga sér, til að hún reiknist til stéttarinnar sem hún vill tilheyra. Ef það örlar á einhverri þjóðfélagssýn hjá henni, hef ég ekki tekið eftir því. Nú máttu lesandi góður giska á hvort þeirra er í uppáhaldinu hjá mér. 

En til baka í nútímann. Það er kannski að fara úr öskunni í eldinn ef forðast á  erfiða og stundum ómerkilega umræðu í nútímanum, að hoppa inn í 19. öldina. Bók Wharton er ekki síst snilldarlega vel skrifuð þegar kemur að því að lýsa orðræðu, sem stundum fær merkimiðann slúður. Allar vita nákvæmlega allt um alla og siðareglur fína fólksins eru hárnákvæmar. Blæbrigðamunur getur skipt máli. Íslenska umræðan, eins og Guðjón lýsir henni, var óvægin en ekki get ég merkt að slúður hafi breytt miklu til eða frá fyrir Benedikt, bóndann á Elliðavatni og síðar sýslumann á Húsavík. Hann var líka karl og þeim leyfðist ýmislegt.

Það sem mér finnst þó allra merkilegast við þennan lestur og samanburð, er hvað orðrómur barst fljótt og vel fyrir tíma nútímafjarskiptamiðla. Það hefði verið fjör á Feisbók hjá opinberum og óopinberum álitsgjöfum 19. aldar.

 


Deilihagkerfið: Orðrýni

Þú færð enga kvittun sagði maðurinn við mig, þegar ég reiddi fram mánaðarleiguna fyrir herbergið mitt. Ég var lengi að skilja hvað maðurinn var að meina. Þetta var fyrsta herbergið sem ég leigði á námsárum mínum. Það er langt síðan. Heil mánaðarleiga voru miklir peningar fyrir mig og ég vildi reyna að halda utan um hýruna mína frá sumarvinnunni. Áður hafði ég búið á heimavistun og þar fékk ég ævinlega kvittun. Þegar ég skildi að hann var að svindla og ég skammaðist mín fyrir hans hönd.  Þetta var kennari minn og ég hlustaði ekki á fyrirlestra hans með sama hugarfari eftir þetta.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég las fyrirsögn um Deilihagkerfi. Ég fór að velta fyrir mér merkingu orðsins. Það gefur einhvern veginn í skyn að það sem er verið að gera sé gott. Fólk sem á verðmæti, deilir með ser. Og með því að kalla verknaðinn Deilihagkerfi, finnst mér verið að gefa í skyn að þetta sé betra en hagkerfið sem við búum við.

Og hugurinn heldur áfram að spinna. Er fólk alveg búið að gleyma að því að það er einmitt það sem hagkerfið sem við búum við gerir. Það tekur til sín peninga og nýtir þá síðan ýmist til að reka það sem er hagkvæmt fyrir heildina og til að jafna aðstöðu fólks. 

Það er reyndar ekker skrýtið að það gleymist því þetta þykir í raun svo sjálfsagt að það er einungis  rætt um mistök eða það sem er ekki gert. Við þetta bætist að heilu stjórnmála- hreyfingarnar hafa það fyrir trúarbrögð að það þurfi að draga eins og mögulegt sé, úr ríkisrekstri. 

En aftur að hinu svokallaða deilihagkerfi. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt, nema það sem snýr að samskipatækninni. Netið auðveldar fólki að koma sér á framfæri og því sem það hefur upp á að bjóða. Það er gott en um leið kallar það á aðlögun innan kerfisins svo allir sitji við sama borð. 

Lokaorð.

Ég er ekki á móti því að fólk leitist við að nýta eignir sínar sem best en ég tortryggi rómantíkina sem er verið að búa til í kring um það með orðalagi sem lætur að þvi liggja að viðkomandi sé að deila með sér. 

Mér er annt um það sem hefur áunnist og er hrædd um velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og og annað sem alþýðan hefur barist fyrir. En til þess þarf skattheimtu og hún verður léttari ef allir borga sitt. Þá getum við öðlast raunverulegt Deilihagkerfi.

Nú eru að verða þrjú ár síðan ég greindist með erfiðan augnsjúkdóm. Síðan þá hef ég notið þjónustu Augndeildar Landspítalans. Ef hennar hefði ekki notið við, væri ég líklega blind núna. Sama á við um hóp fólks, sem nýtir sér þessa góðu þjónustu. Það er svo margt gott að gerast í heilbrigðiskerfinu og svo lítið talað um það. Þetta síðasta er kannski dramatískt og allt of persónulegt. En þannig kemur velferðarkerfið stundum inn í líf okkar.

 


Nýjustu útrýmingarbúðirnar eru lönd: Hvaðan koma vopnin?

 

image

Ég var að horfa á fréttaskot í sjónvarpinu (á erlendri stöð) frá glundroða sem kom upp þegar hópur flóttamanna braut sér leið undir og í gegnum gaddavírsgirðingu sem Ungverjar hafa reist til að verjast flóttamönnum. Ég horfi á svipinn á fólkinu og hvernig það gekk. Þarna fór fólk sem hafði misst allt og það eina sem var eftir var lífið sjálft.  Allt í einu sá ég fyrir mér annað fólk, sem var að reyna að flýja annað land fyrir u.þ.b. 70 -80 árum síðan. Ég fór að hugsa til Gyðinga, þeirra sem tókst að flýja og hinna sem ekki tókst. Síðar meir var það sem gerðist kallað þjóðarmorð. Allir hétu því þá að slíkt mætti aldrei endurtaka sig. 

En hvað er að gerast nú, í löndunum sem þetta fólk er að flýja? Við vitum það varla, þrátt fyrir endalausar fréttir þaðan.  En flóttafólkið veit það. Það er ekki hægt að lifa þar lengur. En hvað getum við hér gert og hverjir bera ábyrgðina?

Ekki veit ég það, þótt ég hafi lagt mig eftir því að fylgjast með þróun mála í Austurlöndum nær. Allt veður svo dæmalaust flókið þegar farið er að útskýra stöðuna og svo greinir menn á um kjarna málsins. Hvað hægt sé að gera í stöðunni. 

En eitt veit ég. Það eru einhverjir sem græða á þessu stríði (stríðum). Það eru vopnaframleiðeiðendur og vopnasalar og um þá er allt of lítið talað. Ég veit ekki hvers vegna þeir fá að sleppa svo létt en grunar að það sé vegna þess að þeir eru voldugir, spilltir og tengdir sömu aðilum sem eru í aðstöðu til að gera eitthvað í málunum, þ.e. valdhöfum ríkjanna.

Ég sé einungis tvennt sem við almennir borgarar getum gert. Við getum krafist þess að fréttamiðlar fletti ofan af vopnasölum og við getum krafist þess af okkar eiginn valdhöfum að við verðum í liðinu sem tekur á móti flóttafólki og leggjum því lið. 

Við erum lítil en við erum rík.

 


Þessi bók er gimsteinn: The Age of Innocence

image

Var að ljúka við alveg einstaklega góða bók. Hún er svo vel skrifuð að hún flytur lesanann til í tíma og rúmi. Ég vissi ekkert um þennan höfund (var bent á hann), hann heitir Edith Wharton og er fædd 1862 og bókin heitir The Age of Innocence. Sögusviðið er New York síðari hluta 19. aldar. Þetta er fjölskyldusaga sem  fjallar um yfirstétt þess tíma. Enn er ég komin aftur til fortíðar. Snilld þessarar konu er að henni tekst að flytja lesanda sinn, mig, í tíma og rúmi og jafnvel skipta um stétt. Ég trúi öllu sem höfundurinn segir og tek nú áhyggjufull þátt í áhyggjum, vonum og vonbrigðum fólksins. Ríka fólkið hefur nefnilega líka áhyggjur. 

Þetta er lágstemmd bók án stórra atburða. Hún fjallar um hugmyndir, tilfinningar og siðvenjur. Hvað má og hvað má ekki, hvernig á maður að haga sér til að falla inn í. Fatnaður, húsgögn og veisluhöld skipta miklu máli. Í forgrunni er ungt fólk sem ætlar að fara að gifta sig og það er mikilvægt að stíga engin feilspor. Aðalpersóna sögunnar, upprennandi lögfræðingur hefur í raun, fyrst og fremst áhuga á listum og menningu. Í þann mund sem trúlofun hans er tilkynnt opinberlega verður hann ástfanginn af annarri konu. Hann gerir sér grein fyrir tilfinningum sínum en telur sig bundinn af samfélaginu sem hann er hluti af. Þó hefur hann í raun heillast af róttækum hugmyndum þessa tíma um einstaklingsfrelsi.

 Þetta er bók þar sem þröngur heimur forréttindastéttarinnar og ástin togast á. Hún er svo góð og sannfærandi að ég pirraðist út í fólkið, slúðrið og smámunasemina. Aðalpersónan, Newland Arcer, var alveg að gera út af við mig. Hann gat aldrei tekið rögg á sig og staðið með sjálfum sér, eigin tilfinningum og þrá. 

Þetta er sem sagt góð bók sem setur lesandann svo rækilega inn lífið í New York á 19. öld að það er eins og að vera á staðnum. En það er skrítið fyrir mig, Íslendinginn, að hugsa til þess að þetta er tími Vesturfaranna. Tímabil fátæktar og landflótta, þegar fjöldi Íslendinga reyndi að hasla sér völl í mýja heiminum. Fátækum innflytjendum bregður ekki fyrir í hinum þrönga heimi yfirstéttarinnar í New York. 

Og þá er ég komin á þann stað, þar sem ég staldra alltaf við þegar ég les bækur fyrri tíma. Ég reyni að skoða samtíð mína í ljósi þess sem ég er að lesa. Er eitthvað sem ég get lært af þessu?

Og ég spyr, hvar stöndum við í sambandi við flóttafólk, fátæklinga? Erum við ekki auðkýfingar í samanburði við þau? Þessi bók er gimsteinn.


Mistökin í lífi mínu

image

Ég ætla ekki hér að telja upp eða kryfja öll mistök sem ég hef gert í lífi mínu, heldur láta mér nægja að segja frá mistökunum sem ég gerði í dag.

Undanfarnar vikur hef verið að undirbúa mig fyrir að hlaupa hálfmaraþon. Þetta er í 7. skipti sem ég hleyp þessa vegalengd. Þetta er þriðja hlaupið mitt eftir sjötugt. Í heildina er þetta skemmtilegt, maður hleypur á sínum hraða með fólki, þar sem allir eru að gera sitt besta, það er mikil orka í loftinu. Ekki spillir að á völdum stöðum meðfram brautinni hefur verið komið fyrir hvatningarstöðvum, þar sem skemmtilegt fólk telur í mann kjark og hrósar manni. Í sumum hverfum koma íbúar út á götu og gangstéttir og  hrópa hvatningarorð til þátttakenda. Í fyrra og í hitteðfyrra var þó einn kafli leiðarinnar bæði erfiður og leiðinlegur. Þar lá leiðin í gegnum ljótasta hverfi Reykjavíkur, það var leiðin móts við Sundahöfn, fram hjá vöruhótelum, vöruskemmum og loks þó nokkuð upp í móti. Hlauparinn, ég, er farinn að finna fyrir talsverðri þreytu en það er þó enn allt of langt eftir, til að hlakka til að nú sé stutt eftir. 

Þar sem ég trúi því að það sé hjálp í þvi að hugsa jákvætt, ákvað ég að hlaupa þessa leið í dag í anda jákvæðrar íhugunar. Hugsa jákvætt og fallega. Ég þrælaði mér í gegnum athafnasvæðið, fram hjá húsum og skemmum og hugsaði fallega og sá einungis fegurð í umhverfinu. Ég gætti þess að hugsa hlýlega til starfsfólksins sem vinnur þarna. Það gekk vel og ég sá meira að segja eitt listaverk og nokkur tré. Þessu hafði ég ekki tekið eftir áður og ég var farin að hlakka til laugardagsins. 

Þegar ég kom heim, skoðaði ég af tilviljun hlaupaleiðina 2015 og komst að því að hún er breytt. Þessi kafli hefur verið tekinn út. Ég var meira að segja búin að finna honum nýtt nafn, Aðaldyr Reykjavíkur. Þetta er nú það svæði sem margir túristar sjá fyrst.  Kaflinn sem kemur í staðinn er mér ókunnugur (hef ekki hlaupið þarna). Jákvæðniskokkið í dag eru því mistök. 

Eða hvað?

Er þetta ekki bara eins og lífið sjálft. Stóru mistökin í lífi þínu eru e.t.v þín mesta gæfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 190391

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband