Færsluflokkur: Bloggar

Framúrskarandi vinkona: Kvittað fyrir bók

3_agust_2010_019.jpg

Nú hef ég lokið við að lesa, Framúrskarandi vinkona eftir Elena Ferrante. Þessi bók varð fyrir valinu af tveimur ástæðum. Hún var að koma út og hún er þýdd af sama þýðanda og bókin, Ef að vetrarnóttu ferðalangur. En sú bók fannst mér framúrskarandi. Báðar bækurnar eru þýddar af Brynja Cortes Andrésdóttir. Hún er flink.

Ég er náttúrlega búin að lesa mér til um höfundinn, sem er nokkurs konar Stella Blómkvist Ítalíu, það veit enginn hver hún er. Þessi bók er fyrsta bókin í því sem kallast er Napolí-sögur hennar. Þær fjalla um lífið í Napólí og hefjast á sjötta áratug síðustu aldar. Ítalía er að ná sér eftir stríðið. Fólkið sem bókin fjallar um býr í verkamannahverfi í Napolí og mér (lesandanum) finnst að þetta gæti eins vel verið þorp út í sveit.

Þetta er saga níu fjölskyldna í þessu úthverfi (þorpi) en þó aðallega tveggja telpna, síðar ungra stúlkna. Líf þeirra tvinnast saman.  Þetta eru gáfaðar stelpur sem keppa um að vera bestar í skóla.  Sú sem segir söguna, húsvarðardóttirin (Elena Greco) verður að láta í minni pokann fyrir skóaradótturinni (Lilu Cerullo ). Lila skarar framúr í öllu en  hættir í námi. Elena heldur áfram námi en verður á undarlegan hátt bundin þessari framúrskarandi vinkonu sinni svo  að allt sem hún gerir stjórnast af því hvað hún heldur að hin (Lila) hefði gert.

Öll bókin litast af lífsbaráttu fólksins og fátækt. Þetta er fræðandi, mynd mín af Ítalíu verður önnur . En ég á erfitt með að skilja hversu ósjálfstæð Elena er.

Vinkonunum tveimur er vel lýst og þær verða að manneskjum. Það á ekki við allar persónur í þessari bók en flestar þeirra eru lítt eða ekkert mótaðar. Þetta eru fyrst og fremst n.k. fulltrúar fjölskyldanna sem bókin fjallar um.

Tímabilið sem lýst er, eru æsku og unglingsárin mín og ég ber líf stúlknanna í Napolí stöðugt saman við lífið í Breiðdalnum á sjötta áratugnum. Þetta eru ólíkir heimar. Og þó, í Breiðdalnum stýrðist lífið og samskipti fremur af fjölskyldum en af einstaklingum. En það er meira ofbeldi í þessari bók en í Breiðdalnum í gamla daga. 

En eftir stendur að ég næ því ekki af hverju Elena Greco,var svona ósjálfstæð en það er hún sem segir söguna. 

Þessi bók olli mér vonbrigðum eftir að hafa lesið Ef að vetrarnóttu ferðalangur, en það er kannski ósanngjarnt að bera metsöluhöfundinn Ferrante saman við snillinginn Italo Calvino.  

Ég veit ekki hvort mig langar til að lesa framhaldið, tvær bækur um sömu persónur. En held þó að ég muni freistast til þess. Ef þær verða þýddar og ég lifi svo lengi.

Myndin er af sólblómi á eigin svölum


Bókasafnið mitt er að verða ónothæft

image

Ég er nú að lesa og hlusta á þrjár bækur sitt á hvað. Eina hlusta ég á í símanum á meðan ég skokka. Það er bókin Go Set a Watchman eftir Harper Lee. Mér gengur hægt með þessa bók af því ég skokka lítið. Nú er ég komin með hana á Kindilinn, þ.e. ég get lesið hana. Þá get ég glöggvað mig á því sem ég er búin að hlusta á og lesið áfram í rólegheitum heima.

En heima er ég að hlusta á, Frammúrskarandi vinkona eftir Elena Ferante. Ég hlusta á hana á streyminu ...í boði Hljóðbókasafnis Íslands.  Það er kvöldlesning.

Loks er ég að lesa þýska bók, Schattengrund. Ég er að reyna að æfa mig í þýsku, viðhalda því sem ég kann og helst komast örlítið lengra. Kannski ætti ég líka að ná í hana upplesna, ég hef nefnilega komist að því að mér gengur betur að hlusta á þýsku en að lesa hana sjálf. Það fannst mér skemmtilegt. 

Ekkert af þessu hefði ég gert nema af því sjónin er að svíkja mig, ég get ekki lengur lesið bækur nema með stækkunargleri. Ég er ein af mörgum sem hlakkaði til elliáranna og gerði plön um að þá skyldi ég lesa og endurlesa bækurnar sem ég (og maður minn) hafði safnað. Kóngur vill sigla en byr ræður. Það fer margt öðru vísi en ætlað er. Nú hjálpa ekki lengur gleraugu og góð birta, ég get ekki lesið venjulegt letur lengur. Þegar ég hafði kyngt þessarri staðreynd komst ég fljótlega í þann gír að hugsa, hvernig geri ég nú. Ég ákvað að horfa á hvað ég gæti frekar en hvað ég gæti ekki. Og það er heil stofnun með allt of löngu nafni, sem er tilbúin að leiðbeina (Þjónustu- og ráðgjafarstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga). 

En af hverju er ég að skrifa þetta? Ég veit að það er margt fólk sem er í svipaðri stöðu og ég og kannski finnst þeim gott að vita hvað er til ráða. En fyrst og fremst er ég að skrifa þetta fyrir sjálfa mig sem syrgi skerpu sjónarinnar til að geta lesið og séð. Og vegna þess að mig langar til það að geta talað opið um þetta eins og hvern annan hlut. Eins og vetrarhálkuna og hvort maður eigi að setja undir nagladekk eða láta harðkornadekk nægja. Mig langar til að það sé eðlilegt að vera fatlaður. 

Þannig hugsa reyndar allir fatlaðir og reyndar gamalt fólk líka. Þeir vilja vera venjulegt fólk sem tekið sé  mark á.

Þetta er kannski að verða einum of alvarleg og íþyngjandi lesning. Mig langar bara til að minna ykkur á, bíða ekki með að lesa bækurnar sem ykkur langar til að lesa. 

Og stundum opnar sjálf "ógæfan" nýjan glugga og við blasa ný tækifæri. Og stundum styrkleikar sem þú hafðir ekki hugmynd um.

 

Myndin er af augnfró, sem er lítið yfirlætislaust haustblóm 

 


Svínin okkar

image

Margt fólk á mínum aldri er annað hvort uppalið í sveit eða hefur verið sumarbarn í sveit (ég er komin yfir sjötugt). Sveitin sem við berum í hjarta okkar, er gamla sveitin. Þó vitum við flest betur.

Það hefur svo margt breyst. Það hafa orðið framfarir í landbúnaði, segja menn. En eitt hefur þó ekki breyst og kjör sveitafólks eru enn ekki góð í samanburði við kjör annarra stétta. Þau eru reyndar afar misjöfn og því erfitt að tala um bændur sem einn hóp. 

Þegar ég var barn, var lausnarorðið að það þyrfti að stækka búin. Ég man eftir þessum greinum úr Frey (ég las Frey sem barn), bændur áttu að stækka búin og vélvæðast. Pabbi tók þetta mjög alvarlega og þannig varð það. Skref fyrir skref vélvæðast sveitirnar, hvert skref kostar. Á sama tíma fækkaði fólkinu. En kjörin bötnuðu lítið.

Mér varð bylt við þegar ég sá myndirnar í sjónvarpinu fra íslenskum svínabúum. Ég hélt fyrst að um misskilning væri að ræða, svona lagað gæti ekki gerst á Íslandi. En þetta var ekki misskilningur, næstu viðbrögð mín voru hneykslun. Ég vissi reyndar að margt hafði breyst og hafði sjálf margsinnist hneykslast innra með mér á meðferðinni á sláturfé, sem er keyrt í vöruflutningabílumtil þvert yfir landið til slátrunar. Áður var slátrað heima í héraði og strangar reglur bæði um gripaflutninga og tíma og meðferð í sláturrétt. Þá mátti t.d ekki flytja fé á vörubílspalli án gæslu. 

En aftur að svínunum. Myndirnar sem við höfum séð sýna glæpi og það ber að bregðast við. Það er sjálfsögð krafa. Sjálf mun ég ekki kaupa svínakjöt fyrr en ég hef fengið fréttir af því að það sé búið að gera ráðstafanir sem mark er á takandi. Ég hygg að fleiri en ég hugsi líkt. Það er engin lausn að kaupa erlent kjöt. Við hér í þessu landi, þurfum að komast af hneykslunarstiginu og upphrópunarstiginu á aðgerðastigið (þetta eru löng og erfið orð en þannig er íslenskan). Ég held að við viljum flest að það þrífist landbúnaður í þessu landi, bæði vegna okkar sem neytenda og eins vegna fólksins sem vinnur þar. En það þurfa að verða breytingar. Strax. 

Það er svo sem til lítils að stræka á svínakjöt, ekki batnar meðferð dýranna við það. Hér þurfa stjónvöld að koma að og mikið vildi ég að það gæti orðið samstaða um að laga það sem er brýnast að koma í lag. 

Kannski þarf þessi vara að vera dýrari, og ef svo, þá það. Hver vill vera meðsekur í að kvelja skepnur?

Myndin er af Emil í Kattholti með grísinn sinn


Sagan okkar: Svik og prettir

image

 

Í gær hófust fyrirlestrar Miðaldastofu um Sturlungu. Þetta verður röð fyrirlestra, þar sem efnið verður krufið frá ólíkum sjónarhornum, vænti ég. Í fyrra stóð Miðaldastofa fyrir fyrirlestraröð sem var helguð Landnámu. Hún var framúrskarandi og ég reyndi að missa ekki úr dag. Þetta var geisivinsælt.  

Í fyrirlestri gærdagsins, reið Guðni Th. Jóhannesson á vaðið. Fyrirlesturinn hét, Sundrung og svik. Það var yfirskrift yfir því hvað menn hafa sér í lagi dregið fram úr Sturlungu til að leggja áherslu á mál sitt. Fyrirlesturinn var bráðskemmtilegur, Guðni sýndi stiklur úr þingræðum, viðtöl í blöðum og umræður á Feisbók, svo dæmi séu tekin. En merkilegastur fannst mér sá hluti fyrirlestrarins sem fjallaði um:

Getum við lært af sögunni ?

           og

Erum við að túlka söguna rétt?

Í vangaveltum sínum um þessar tvær spurningar fann ég að þarna var vandaður fræðimaður á ferð, það var undir þeim lestri sem kviknuðu hjá mér nýjar hugsanir, nýjar spurningar. 

Ég hlakka til vetrarins. Minn einasti vetrarkvíði tengist nú því að þessir fyrirlestrar verði of vinsælir og  sprengi utan af sér öll salarkynni. Í ljósi þess ætti ég auðvitað ekki að vera  að skrifa þennan pistil, því með því auglýsi ég fyrirlestrana enn meir. 

En mig langaði bara að segja ykkur frá þessu.

 


Er þjóðkirkjan verktaki?

image

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil sem átti fyrst að fjalla um umburðarlyndi.  En varð að hugleiðingu um hvar markalínan liggur milli þess sem á að umbera og þess sem á ekki að líða neinum.

Að mínu mati liggja mörkin þar sem hegðun eins meiðir eða særir annan eða aðra. Mig langaði í raun til þess að ég gæti sagt að við ættum að sýna Þjóðkirkjunni umburðarlyndi varðandi hegðun presta, sem neita að gefa saman fólk af sama kyni. En eftir að hafa hugsað málið betur, sá ég að þetta átti ekki að umbera, því með því særðu þeir tilfinningar þeirra sem til þeirra leituðu og fjölda annarra. Þeim ætti ekki að líðast þetta. 

Þar sem ég er trúleysingi lít ég þannig á þetta mál að Þjóðkirkjan sé nokkurs konar verktaki hjá ríkinu, sem hefur tekið að sér að sjá um margs konar þjónust fyrir ríkið og eitt af því sé að gefa fólk saman í hjónaband. Ef ekki er staðið við slíkan samning, þýðir það í verktakasamningum rof á samningi, held ég. Oftast leiðir þó slíkt rof til að leitað er lausna. Reyndar finnst mér ekki rétt að skoða höfnun prestanna á að gefa fólk saman eina og sér, heldur hitt að þarna gera þeir upp á milli sóknarbarna sinna, blessun þeirra nær ekki til allra. Hvað gerist þegar kemur því að veita sálusorgun?

Mér finnst þetta vera leiðindamál. Þótt ég sé trúleysingi þekki ég fjölda fólks sem er trúað og er annt um kirkjuna. Mér sýnist að kirkjan sé að grafa sér sína eigin gröf. Það er alvarlegt mál miðað við alla þá ábyrgð sem henni er ætlað að hafa.

Engir hafa meiri áhuga á að ræða kirkjuleg málefnien trúleysingjar. Ég er þar í góðum félagsskap. Enda ekki sveitungi Helga Hósessonar fyrir ekki neitt. 

Myndin er af Marteini Lúther, tekin úr prógrammi Berliner Dom, sem lá þar frammi í fyrra.


Ein besta bók sem ég hef lengi lesið: Ef að vetrarnóttu feraðalangur, Italo Calvino

Ég var tortryggin á bókina sem við í bókaklúbbnum settum okkur fyrir að lesa. Mér fannst nafnið fráhrindandi, Ef að vetrarnóttu ferðalangur. Mér fannst líka undarlegt að svo gömul bók (kom út 1979)eftir látinn höfund (f. 1923 d. 1985) skyldi vera að koma út á Íslandi 2015.

Ég hóf lestur af skyldurækni við stöllur mínar en með neikvæðu hugarfari gagnvart bókinni. Best að ljúka þessu af. Það kom því vel á vondan þegar höfundur byrjar bók sína með að ávarpa lesandann beint með fræðandi inngangi um hversu mikilvægt það sé að lesandinn setji sig í réttar stellingar þegar hann hefur lestur á nýrri bók. Og í staðinn fyrir að fara í fýlu við áminningarlesturinn, sá var ég sammála hverju orði og gerði nákvæmlega það sem hann var að segja. Gaf mig alla í lesturinn og gætti þess að athyglin væri á sögunni og engu öðru. 

Reyndar er full þörf á að fylgjast vel með, bókin er engri bók lík og lengi vel áttaði ég mig ekki á því hvert rithöfundurinn var fara með mig. Sagan er skáldskapur um skáldskap, um höfundinn, lesandann og tungumálið og miklu meira. En það er ekki gott að segja frá efni þessarar bókar en ég mæli með henni. Og þá er best gera eins og höfundurinn segir, koma sér vel fyrir, loka hurðinni og hafa öll skilningarvit í gangi. Njóta.

Ég get ekki dæmt um þýðinguna svo vel sé, ég kann ekki ítölsku,nema að þetta er góður texti, svo góður að stundum var eins og maður væri að lesa ljóð. Þýðandinn er Brynja Cortes Andrésdóttir. 

Ég á eftir að lesa þessa bók aftur. 


Sunnudagshugleiðing trúleysingja

Ég man eftir umræðu frá því að ég var barn, um fólk sem var"svo sem ágætis fólk en það borðaði ekki slátur". Mér fannst þetta skrítið. Ekki man ég af hverju þetta barst í tal. Síðar þegar ég var 12 ára gömul, kynntist ég stelpu sem tilheyrði þessu "skrítna fólki", sem ekki borðaði slátur. Við, ég og hún, vorum saman á sundnámskeiði á Fáskrúðsfirði. Í tvær vikur var hún besta vinkona mín. Ég vissi hverra manna hún var en slátur barst aldrei í tal á milli okkar. Mér fannst hún ekkert skrítin og saknaði hennar þegar námskeiðið var á enda. Við vorum úr sitt hvoru byggðarlaginu. Á þessum tíma var samfélagið á Íslandi enn einsleitara en það er nú. 

Síðar (í menntaskóla) voru nemendur með mér í skóla, sem mættu ekki í skólann á laugardögum. Þetta þótti okkur sérviskulegt. Nú er hætt að kenna á laugardögum og það er reyndar ekkert tiltökumál lengur að nemendur sleppi skóla dag og dag. Tímarnir breytast. En eitt hefur þó ekki breyst. Við erum enn jafn óörugg gagnvart trúarsetningum fólks, þ.e.a.s. þegar þær stinga í stúf við okkar eigin.

Ástæðan fyrir því að ég fór að grufla í þessu, er afstaða presta sem vilja ekki gifta samkynhneigt fólk. Þeir túlka trúarbrögð sín á þann veg að samkynheigð sé synd. Það er þeirra trúarsetning. Þetta var í mínum huga fyrst svipað "vandamál" og að sumt fólk borðar ekki slátur, eða svínakjöt.  

Mér finnst, eins og flestum, að við eigum að sýna fólki með siðvenjum ólíkum  okkar umburðarlyndi, svo fremi sem það er ekki að troða á réLttindum annarra. Í fljótu bragði fannst mér að þetta gilti um höfnun prestanna. Þetta væri léttvægt, prestarnir ættu einfaldlega að leysa málið og fá staðgengil.

Þetta var minn misskilningur. Málið er ekki léttvægt. Þarna eru á ferðinni átök innan kirkjunnar. Þjóðkirkjan (hún heitir svo) er ekki búin að gera upp við sig í hvorn fótinn hún á að stíga í mannréttindamálum. Ætti ekki biskup sem höfuð kirkjunnar að láta til sín taka? Í mínum huga væri það nær lagi en að setja lög. Það er ekki hægt að setja lög um samvisku fólks. 

Það skýtur skökku við að ég, guðleysinginn, skuli vera að velta þessu fyrir mér. En ég tilheyri nú þessari þjóð þó ég sé utan Þjóðlirkju. Ég leitast við að láta samvisku mína styðjast við sannfæringu. Það verða trúleysingjar að gera og mér finnst það eðlilegt. Margir halda því fram að trú og sannfæring sé eitt og hið sama.  Ég er því ósammála og gruna hvern þann, sem slíkt segir um hugsanaleti. Í báðum tilvikum, hver svo sem rökstuðningurinn er, er samviskan stjórntæki einstaklingsins. Það sem allt ræðst af. Trúað fólk syndgar, við trúleysingjar gerum mistök. 

Höfnun prestanna á að vinna embættisverk sín er alvarlegt mál, ef þeir hafa með því sært tilfinningar fólks sem til þeirra leitar.  Það ætti að vera á ábyrgð yfirmanns þeirra að bregðast við því.

Þetta mál snýst ekki um svínakjöt, búrkur, slátur eða um tímasetningu hvíldardagsins. 

Þetta er mannréttindamál svo lengi sem rétturinn til að gifta er í höndum trúfélaga og lífsskoðunarhópa. 

Giftum okkur hjá dómara. Ég hef aldrei heyrt um að samviskan veltist fyrir þeim. 

 


Einar Benediktsson allur: Lifir hann enn?

 

image

Það hefur verið stórvirki að skrifa ævisögu Einars Benediktssonar. Hún er í þremur bindum og ekkert þeirra er stutt. Mér finnst það ærið verk að meðtaka þessa sögu og takk Guðjón Friðriksson, þótt seint sé. En ég held að það hafi verið réttur tími fyrir mig að lesa þessa bók einmitt núna. Í ljósi þess sem gerst hefur, finnst mér ég sjá þjóðina mína í nýju ljósi. Sagan um Einar Benediktsson er að vissu leyti saga síns tíma en ég velti fyrir mér hvort eitthvað hafi breyst.

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk á þeim tíma gat gert hetju úr úr þessum manni, sem blekkti og sveik vini og vandamenn en þó sérstaklega útlendinga. Og í raun gekk honum ekki annað annað til en að lifa í vellystingum. Og hver haldið þið lesendur góðir hafi borgað reikninginn. Honum var ekki bara fyrirgefið, heldur líka jarðaður á kostnað þjóðarinnar í sérstökum heiðursgrafreit. Hann hafði það að vísu fram yfir svikarana okkar í dag að hann gat ort, það geta þeir ekki. Það geta lögfræðingarnir þeirra ekki heldur svo ég viti.

Þótt undarlegt sé, kveð ég Einar og hans fólk með vissum söknuði. Einar er búinn að vera hluti af lífi mínu svo vikum skiptir og það sem á daga hans dreif var rætt við morgunverðarborðið hér í Álfheimunum til jafns við fréttir dagsins. Ég var meira að segja farin að hafa samúð með kallkvölinni, eftir að hann varð ósjálfbjarga erfitt gamalmenni. Lítill í sér en fullur af hroka og kvenfyrirlitningu. Aumingja Hlín. Hún fékk að vísu jörð til að hokra á. Ef einhver á heiður skilið þá er það Hlín. Gott að það skyldi ekki vera búið að finna upp orðið meðvirkni. Í framhaldi af þeirri hugsun, fór ég að velta fyrir mér hvort hluti að íslenskri þjóð væri haldinn af meðvirkni með glæsilegum þjófum.  

Margt í þessari bók kom mér á óvart. Mér fannst ótrúlegt hversu mikið er til af heimildum varðandi viðskipti Einars og reyndar samskipti hans við fólk í heild sinni. Mér finnst Grænlansmálið merkilegt, sérstaklega með tilliti til hvað stutt er síðan að Íslendingar áttu sér þennan draum um að eignast nýlendu. Reyndar ætlaði Einar að hagnast á því og selja nýlenduna eða leigja hæstbjóðanda um leið og málið væri í höfn. Skemmtilegasta sagan var þó af skáldinu og sýslumanninum, ríðandi í kvensöðli. Einar hafði meitt sig og vildi líklega ýkja meiðslin sér til ávinnings. Þannig hafði ég ekki séð hann fyrir mér þegar ég var að læra Fáka.

Myndin sem fylgir pistlinum er af kvensöðli.  

 

 

 

 


Gamlar konur:Að slá gegn

imageSjálfsagt hafa lesendur mínir tekið eftir því að gamalt fólk á Íslandi hefur verið látið mæta afgangi þegar kemur að kjaramálum. Ellilífeyririnn hækkar ekki í takt laun á vinnumarkaði. Ekki hefur þessi umræða slegið í gegn. Mér liggur við að segja að þessi umræða hafi verið hunsuð.

En ég ætla ekki í þessum pistli að tala um kjarabaráttu öryrkja og aldraðra. Ég ætla líka að segja frá þremur höfundum sem ég hef kynnst í sumar. 

 

Ég hef nefnilega byrjað að hlusta á bækur meðan ég skokka eða hjóla. Ég er að æfa mig. Það er ekki tilviljun að hlustun á bækur hefur aukist hjá mér, það er vegna þess að sjónin hefur daprast. Það var í þessu andrúmslofti fjandsamlegrar þagnar sem ég kynntist þessum útlendu konum.

Fyrst ég kynntist Jane Gardam (fædd 1928).  Hún er breskur rithöfundur og hefur skrifað bækur í mörg ár. En allt í einu slær hún í gegn 2004 með bókinni, Old Filth (skýring: FILTH= failed in London tray Hon Kong). Síðar komu út tvær bækur um sama fólkið og sagt er frá í fyrstu bókinni. Fyrst, The man in the Wooden hat og svo, Last Friends. Í öllum tilvikum kynnumst við gömlu fólki sem rifjar upp líf sitt. Þetta eru fyrrverandi munaðarleysingjar heimsveldisins, Raj orphans, nú gamalmenni fyrrverandi heimsveldis. Börn fólks sem starfaði í nýlendum Breta voru send heim til gamla landsins á heimavistarskóla, barnung. Sögurnar þrjár eru sagðar frá þrem ólíkum sjónarhornum. 

Hin gamla konan (ég ég er enn að lesa hana) er Harper Lee (1926). Eina bókin sem hún hafði skrifað, To kill a Mockingbird kom út 1960. En öllum til mikillar undrunar var tilkynnt 2014, að það væri að koma ný bók, Go Set the Watchman. Þá bók er ég nú að reyna að meðtaka á hlaupum (brandari). Reyndar er ekki alls kostar rétt að bókin sé ný, það hafði fundist gamalt handrit. Meira um þessa bók að loknum lestri.

Mig langar að bæta þriðju konunni við, Edith Wharton (f. 1862 d. 1937) þó hún passi ekki alveg inn í kategóríuna, gamlar konur.  Bækurnar sem ég hef  lesið eftir hana fjalla um gamla tíma, 19. öldina. Sjálf var hún 43 ára þegar bókin The House of Mirth kom út og 58 ára þegar The Age of Innocence kom út. Eftir að hafa lesið þessar bækur dettur mér eingöngu í hug, "af hverju var þetta ekki sagt mér". Og af hverju hafa bækur þessarar konu ekki verið þýddar. Algjörlega sígildar. 

Auðvitað kemur þessi lesning umræðunni um kjör gamla fólksins á Íslandi lítið við nema,  að þegar ég gerði hlé á lestrinum (þ.e. alltaf sem ég er ekki að skokka)  æpir á mig andrúmsloft þöggunar varðandi kjör gamals fólks og öryrkja. Ég velti fyrir mér af hverju öll þessi skrif "gamlingja" og góður rökstuðningur hefur ekki slegið í gegn, náð eyrum stjórnvalda. Nú er ég ekki að tala um bækurnar.

Ég er sjálf gömul kona. Ég get nú fagnað því að gangnagerðarmenn hafa slegið í gegn í Norðfjarðargöngunum (bókstaflega, nú skil ég loksins þetta orðatiltæki). Ég fagna því vissulega,  enda Austfirðingur í hjarta mér. Auðvitað eiga þessi göng eftir að nýtast okkur öllum. 

Eina skýringin sem sem ég get hugsað mér á því, hversu eldra fólk og öryrkjar þurfa stöðugt að hamra á sínum málum, án þess að slá í gegn, er að kannski hefur enginn mátt vera að því að reikna út  hvað það kostar stjórnvöld lítið að bæta kjör þessara hópa. 

 

 

Myndin er af Jane  Gardam 


Náttúran í okkur og við í náttúrunni

Í tilefni imageaf degi náttúrunnar langar mig til að hugsa og skrifa um náttúruna. Mér finnst það svolítið skrýtið, því alla jafna er ég ekki mikið að hugsa um náttúruna, því ég lít svo á að hún sé í okkur, við í henni. Við erum náttúra. Það er talað um að karlar missi náttúruna og það er vont. En það er ekki sú náttúra sem þessi dagur er helgaður. Konur missa ekki náttúruna, a.m.k. er aldrei talað um það. Þær verða kaldar. En auðvitað veit ég hvað er átt við með degi náttúrunnar. 

Og að öllu gamni slepptu er ekki útilokað að kynin hafi ólíka sýn á náttúruna. Ég fór að velta einmitt þessu fyrir mér af því ég er á kafi í að lesa Ævisögu Einars Benediktssonar. Hann er hreinn snillingur í að sækja sér líkingar í náttúruna. Þær eru reyndar margar kaldar og hrjúfar. Karlmannlegar? En það er kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að nefna nafn Einars Benediktssonar á degi helgaðan náttúrunnii. Nafn fossasalans, sem var tilbúinn að pranga með hana og selja hæst bjóðanda. En lesið Öldulíf, dásamlegar líkingar. 

Ekki alls fyrir löngu var ég viðstödd opnun á myndlistarsýningu Arngunnar Ýrar, myndlistarkonu. Hún býr í Ameríku en vinnur hér heima á sumrinn sem leiðsögumaður við að sýna útlendingum Ísland. 

Myndirnar á sýningunni voru nær allar unnar eftir á. Þær voru skínandi bjartar, íslensk fjöll í öllu sínu veldi. Íslensk náttúra. Við opnun sýningarinnar hélt Elísabet Jökulsdóttir ræðu. Þetta var nefnilega ekki bara opnun myndlistarsýningar, þetta var líka útgáfuteiti. Það var að koma út bók, Vitni, um náttúruna þar sem Arngunnur var höfundur mynda en Elísabet var höfundur texta. Í ræðu sinni velti Elísabet fyrir sér sambandi manns og náttúru og hvernig við hugsum um hana í dag. Í orðræðu dýrkum við náttúru en hún getur verið svo margt, t.d. creepy. 

Ég er í augnablikinu mikið að hugsa um að náttúran sé nálægt okkur og hún getur verið hvunndagsleg. Fegurð náttúrunnar er fólgin í því hvernig við hugsum, datt mér í hug fyrir nokkru síðan. Ég var að horfa á drullupoll og fannst hann svo fallegur. Meira að segja trén spegluðu sig i honum.

En til að enginn misskilji mig langar, mig til að segja þetta:

Stöndum vörð um náttúruna og munum að hún er bæði í hinu smáa og hinu stóra. Hún er í okkur, hjá okkur og hún er allur heimurinn.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 190388

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband