Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2016 | 17:10
Leitin að Ljúdmílu fögru eftir Alexander Púskín
Alveg er það dæmalaust hvað guðirnir, sem ég trúi ekki á, eru klókir að vísa mér leið í bókaskóginum. Ég var að leita að allt annarri bók og fann Ljúdmílu. Hafði aldrei heyrt um þessa sögu og þaðan af síður að hún væri til til í íslenskri þýðingu.
Ég hlusta á bókina hjá Hljóðbókasafni Íslands, það er Erlingur E. Hallórsson sem les.
Sagan er heillandi. Ég veit ekki hvar ég á að staðsetja hana, einhvers konar sambland af Fornaldar sögum Norðurlanda (eins og við þekkjum þær), riddarasögum og ævintýrum. En þar sem ég er enginn bókmenntafræðingur les ég bara mér til skemmtunar. Reyndar minnti frásagan mig líka örlítið á kvikmyndir eftir Ang Lee.
Sagan er um riddarann Rúslan sem hefur gifst Ljúdmílu, en hún hreinlega gufar upp, týnist. En til þess liggja eðlilegar ástæður, galdrakarlinn Skuggavaldi hefur numið hana á brott.
Nú upphefst mikil leit. Það er ekki bara Rúslan sem leitar, tveir fyrrum biðlar Ljúdmílu taka einnig þátt, þeir eru svarnir óvinir Rúslans svo keppnin um að finna stúlkuna er hörð.
Þegar ég hafði lokið við að hlusta á Erling lesa söguna, langaði mig til að fá bókina í hendurnar og skoða hana. Þetta geri ég reyndar oft því ég elska að skoða bækur, þótt ég geti ekki lesið, get ég enn skoðað bækur mér til gagns. Bókavörðurinn sem var boðinn og búinn að hjálpa mér, fann ekki bókina fyrr en það rann upp fyrir henni að þetta var barnabók.
Bókin er dæmalaust falleg. Þýðingin er í raun endursögn er eftir Geir Kristjánsson. Það er ekki sagt hver gerir myndirnar, líklega einhver Rússi.
Geir skrifar formála að bókinni, hann er líka merkilegur.
Það var svo sannarlega happafengur að rekast óvart á þessa bók.
Þessi saga, sem er ljóð, kom út í Rússlandi 1820. Þýðing Geirs kom út 1954.
Mikhail Glinka samdi tónlist við þetta ljóð, Rúslan og Ljudmíla.
Myndin er úr bókinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2016 | 19:02
Gangandi prjónakonur: Breyttir tímar?
Ég gæti ekki sent eða svarað skilaboðum á símanum meðan ég er að aka bíl, þótt ég ætti líf mitt að leysa. Þaðan af síður gæti ég skoðað Feisbókina meðan ég er að hjóla. Ég furða mig á fólki sem getur þetta, en ég get ekki sagt að mér finnist það aðdáunarvert. Konan sem ég mætti í gærmorgun þegar ég var að hjóla í búðina trommaði þó allt sem ég hef séð í þessa veru hingað til.
Þar sem ég hjóla í útlenska sumarveðrinu í gær sé ég að það kemur ung kona með barnavagn á móti mér. Gangstéttin er ágætlega breið en þó er þörf fyrir að fólk víki til hliðar þegar mæst er. Ég átti ekki von á öðru en stúlkan sæi mig, véki hún til hliðar, en hún gekk áfram með barnavagninn á miðri götunni og að endingu varð ég að fara af baki og leiða hjólið. Þá sá ég að hún var að lesa á símann.
Þar sem ég er gömul kona, hvarflaði hugurinn til fyrri tíma. Í barnæsku heyrði ég oft talað um konur sem voru svo iðnar og miklar prjónakonur að þær gengu prjónandi milli bæja. Aldrei sá ég þó slíka konu. Ég heyrði líka sagt frá konu sem var svo iðin að hún lagði ekki frá sér prjónana þegar maður hennar lét vel að henni í rúminu. Þetta var að sjálfsögðu lygasaga og segir líklega meira um hvað mikið eða réttara sagthvað þessi kona fékk út úr ástalífinu. Þegar ég horfi á fólk rýnandi í símana sína hvað sem á gengur, verður mér hugsað til prjónakvennanna sem aldrei féll verk úr hendi.
Breyttir tímar? Betri tímar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2016 | 16:40
Sálumessa yfir spænskum sveitamanni:Ramón J. Sender
Ég var næstum búin að gleyma að segja frá þessari bók, hún lætur svo lítið yfir sér. Hún kom upp í hendurnar á mér af tilviljun, stundum er eins og góðar bækur leiti mig uppi. Ég þekkti ekkert til höfundarins og man ekki eftir umræðu um hana. Strax og ég sá nafnið vissi ég að þetta væri bókin. Ég hef komist á bragðið að lesa bækur sem rekja ættir til gömlu góð latínunnar (því miður einungis í þýðingum).
Bókin er stutt, tekur bara tvo og hálfan tíma í afspilun (ég hlusta á bækur). Hún gerist í litlu sveitaþorpi á árunum milli stríða. Sögumaður er kaþólskur prestur, sjónarhornið er hans. Það er allt afar friðsælt í þessu litla þorpi. Í föstum skorðum. Kjör alþýðunnar eru eðlileg, fólk hefur í sig og á. Þar búa þó tveir eða þrír auðugir menn í fínum húsum. Eini fátæklingurinn, sem sagt er frá, býr í helli og á ekki einu sinni dýnu til að sofa á. Þar deyr hann. Litli drengurinn sem fer með prestinum (kórdrengur) í hellinn til að veita hinum deyjandi manni hinstu smurningu, verður svo hrærður af því að sjá lífskjör sveitunga síns, að það átti eftir að verða örlagavaldur í lífi hans.
Í þessu þorpi er ein óforskömmuð kerling, Jerenima, nokkurs konar Gróa á Leiti. Hún dreifir sögum og er nokkurs konar fréttaveita þorpsins. Prestinum er um og ó.
Rammi sögunnar er vinna prestsins og skyldur hans við Guð og menn. Þótt prestur sé sögumaður og sé fyrst og fremst að tala um starf sitt, er hetja sögunnar litli kórdrengurinn sem fór með honum í vitjun inn í hellinn til að þjónusta nær allslausan deyjandi mann. Það eina sem hann átti var sonur í fangelsi. Ég ætla ekki að spilla lestri bókarinnar fyrir hugsanlegum lesendum með að rekja efni hennar frekar. Læt hér nægja að segja að lesandinn skynjar, þótt það sé hvergi beinlínis sagt, að það sé einhver hætta yfirvofandi, þrátt fyrir að allt sé friðsælt í litla þorpinu.
Höfundurinn Ramón J. Sender er fæddur 1901 í Chalamara Huesca í austurhluta Spánar. Hann var sjálfur þátttakandi í borgarastyrjöldinni sem hófst 1936 og lauk 1939. Í þessu stríði missti hann bæði konu sína og bróður og varð sjálfur að flýja föðurland sitt. Hann lifði í útlegð allt fram til dauða Francós (1975). Hann er nú talinn einn af merkustu höfundum Spánar. (Þegar ég hóf lestur bókarinnar vissi ég ekkert um þennan mann en ég hef lesið mér til). Litla sagan sem ég var að lesa er á yfirborðinu lágstemmd, ekki saga stórra atburða. En í reynd er verið að segja sögu borgarastyrjaldarinnar í hnotskurn, þorpið er smækkuð mynd.
Bókin kom út á spænsku 1953 og á íslensku 1986 í þýðingu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og Þorgeirs Þorgeirssonar, hann þýddi ljóðin. Þetta er bók sem maður notar um orð eins og Perla eða snilldarverk. Ég er búin að lesa hana þrisvar og leiddist ekki. Þannig er þessi bók.
Myndina tók ég á Spáni í fyrra en hún er víðsfjarri slóðum þessarar sögu.
Bloggar | Breytt 11.7.2016 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2016 | 19:52
Falinn fjársjóður: Draumur um veruleika: Helga Kress
"Af hverju var þetta ekki sagt mér" var það fyrsta sem mér datt i hug, þegar ég las safn smásagna, 22 sögur sem Helga Kress sá um útgáfu á, 1977. Hún ritar auk þess formála. Þetta eru smásögur eftir kvenrithöfunda, útgefnar á tímabilinu 1880 til 1977.
Fyrst af öllu furðaði ég mig á því, hvernig þessi bók hafði getað farið fram hjá mér og það var ekki laust við að ég skammaðist mín. Já, ég skammaðist mín niður í tær. Hver einasta kona með snefil af sómatilfinningu hlýtur að hafa lesið þessa bók fyrir löngu síðan.
Þannig leið mér. En svo fann ég afsökun og leið ögn betur. Ég bjó nefnilega í Svíþjóð á þessum árum og fylgdist takmarkað með því sem var að gerast á Íslandi.
Það gladdi mig mikið að finna þarna mína uppáhalds smásögu eftir tengdamóður mína Þórunni Elfu (Er Jósefína búin að ráða sig?) og enn vænna fannst mér um að rekast á sögu eftir fyrrverandi kennara minn úr barnaskóla, Oddnýju Guðmundsdóttur (Stefnuvottar). Reynar voru allar sögurnar skemmtilegar - og fræðandi.
Ég get ekki skrifað blogg um 22 smásögur, það myndi engin nenna að lesa það. En mig langar að víkja að sögunni sem safnið heitir eftir Draumur um veruleika, eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Sagan fjallar um heimavinnandi húsmóður sem er í raun þræll á eigin heimili og fær aldrei neitt þakklæti fyrir störf sín. Þetta er næstum fyndið. Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér gamall tími. Tími þegar þegar ekki tíðkaðist að ræða um mat, nema þegar eitthvað var að, og auðvitað bar húsfreyjan ábyrgð á því.
Ég man svo vel eftir því hvenær ég heyrði fyrst umræður um mat, sem ekki var misheppnaður, að ég gæti næstum dagsett það sem atburð. Það var í páskafríi 1962 eða 63. Ég var gestur hjá vinkonu minni á Sauðárkróki og það var spjallað yfir borðum. "Mikið ljómandi brauð er þetta, svo hæfilega mjúkt en þó með stökkri skorpu". Og fleira og fleira. Mér fannst þetta svo merkilegt að ég kunni ekki við að leggja orð í belg og velti lengi fyrir mér af hverju fólkið talaði svona. Það var líka á þessu heimili sem ég varð vitni að opinni umræðu um kynlíf. Einn morguninn kom gestur sem settist til borðs með fjölskyldunni. Hann sagði að hann hefði rétt í þessu verið að uppgötva að hann væri endanlega náttúrulaus. Þetta fannst mér merkilegt í tvennum skilningi. Mér fannst stórmerklegt að þessi kall skyldi hafa einhverja náttúru, það hvarflaði ekki að mér að hann væri kynvera, kominn á sjötugsaldur og mér fannst enn skrýtnara, að hann skyldi vilja ræða um það.
En þetta um borðhaldið á Sauðárkróki var bara innskot frá sjálfri mér, hugurinn fór á flug við að lesa þessa merkilegu bók. Mér fannst hún svo dýrmæt að nú langar mig til að allir lesi hana. Og í fyrsta skipti á ævinni langar mig til að biðja lesendur mína sem hafa aðgang að Feisbók að deila blogginu svo allir njóti.
Myndin er af sóleyjum í varpa
Bloggar | Breytt 11.7.2016 kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2016 | 19:07
Ég ferðast ein: Samuel Bjørk
Nú er ég búin að eyða 15 klukkutímum og 54 mínútum af lífi mínu við að lesa bók sem mér leiddist. En hún er spennandi og rígheldur í mann (ég hlusta á bækur en tala samt um að ég lesi). En mér leiðast raðmorð. Ástæðurnat fyrir því eru margar:
1. Söguþráðurinn verður vélrænn
2. Það er allt of margt fólk drepið
3. Mótívið er nær alltaf ótrúverðugt
4. Gerandinn eða gerendurnir eru oftast geðbilaðir. Það út af fyrir sig finnst mér fórdómafullt kjaftæði sem ég trúi ekki á
5. Höfundar teygja oft lopann og það verða til bláþræðir í innri logikk sögunnar.
Ég var að ljúka bókinni, Ég ferðast ein, eftir norskan höfund sem ég þekki ekki. Ég valdi bókina vegna þess að ég er hrifin af Norðmönnum, ætlaði með því að ferðast ódýrt (huglæg merking) til þessa vingjarnlega og fallega lands. Það tókst reyndar, ég er búin að vera þar í 15 klukkustundir og 54 mínútur en þetta var ekki sá Noregur sem ég þekki.
En eins og ég hef þegar sagt, er þetta spennandi bók og maður leggur hana ógjarnan frá sér. Annað sem er jákvætt við bókina eru lýsingarnar á lögregluvinnunni. Samstarfið er gott á vinnustaðnum en óskaplegt stress. Fólkið má ekki einu sinni vera að því að borða, sofa eða fara á klósettið (reyndar eru ekki lýsingar á því).
Ég ætla ekki að rekja efni sögunnar hér, það væri erfitt að gera grein fyrir því án þess að spilla ánægju væntanlegra lesend.
En ég mun halda áfram að lesa glæpasögur þótt mér finnist í raun meira gaman af öðrum tegundum bókmennta. Og það kemur ekki til af góðu. Ég hef um nokkurt skeið verið illa haldin af verkjum (það er bakið) og lesturinn reynist mér betri en nokkur lyf. Reyndar notfæri ég mér hvort tveggja.
Nú er ég búin að lesa mér til um höfundinn, sem heitir í raun Frode Sander Øien og er alvörulistamaður, þekktur tónlistarmaður með meiru. Þetta las ég reyndar ekki fyrr en ég var búin með bókina en það breytir engu um óbeit mína á raðmorðslitteratúr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2016 | 22:15
Hannesarholt: Arngunnur Ýr og frænkur hennar
Í dag fór ég á opnun sýningar hjá Arngunni Ýr. Fallegar myndir af landinu okkar eins og Arngunnur Ýr sér það. Arngunnur vinnur að hluta til sem leiðsögumaður, þá gefst henni tækifæri til að sjá og skoða. Í mörgum þessum myndum er mikil birta.
ÆEn ég skoðaði ekki bara sýninguna þarna var frábær dagskrá, Bryndís Halla Gylfadóttir og Þórður Magnusson spiluðu verk eftir Ravel, Yrsa Sigurðardóttir las upp úr glæpasögu og Áshildur Haraldsdóttir eftir son Bach (ég man ekki nafnið). Og svo spjölluðu þær saman frænkurnar um Listina með stórum staf og svöruðu spurningum úr sal.
En ég lét mér ekki bara nægja að njóta alls þessa. Ég skoðaði líka húsið Hannesarholt, ekki í fyrsta skipti. Ég verð alltaf svo glöð þegar ég kem í Hannesarholt, það er svo fallegt. Mikið dæmalaust er gaman hvernig til hefur tekist að gera upp þetta gamla hús. Auðvitað njóta þau sem tóku húsið að sér, að þetta hefur í upphafi verið fallegt hús. Ég vildi óska að fleiri gömul falleg hús fengju uppreisn æru.
Þetta var góður dagur.
Myndirnar voru teknar í Hannesarholti í dag
Bloggar | Breytt 11.7.2016 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2016 | 18:13
Glæpir úr fortíðinni: Agatha Christie: Feigðarför
Í friðsælum íslenskum dal, dvel ég um sumarsólhvörf og les glæpasögu eftir Agöthuo Christie. Þegar ég var ung kona, las ég Agöthu bækur í löngum bunum. Mig langaði til að ná valdi á því að lesa bækur á ensku, sem ég kunni illa en svo ánetjaðist ég og tók að safna að mér Agöthubókum og átti dýrmætan kassa sem nú er glataður.
Bókin sem nú var lesin heitir Feigðarför og gerist í Austurlöndum nær, nánar til tekið Palestínu og nærliggjandi löndum. Á þessum tíma var ákjósanlegt fyrir efnaða borgarstétt Vesturlanda að ferðast þarna og njóta þess að þefa af fornri menningu og skoða framandi lönd. Það vakti eftirtekt mína að svæðið sem fólkið ferðaðist um er nánast sama svæði og það svæði sem nú er alls ekki aðgengilegt fyrir venjulegt ferðafólk vegna þess að það hefur skaðast af styrjöldum sem enn geisa. Svæði hörmunga og glæpa sem liggja utan frásagnarhefðar glæpasagna
Þessi bók segir frá bandarískri fjölskyldu, óvenjulegri fjölskyldu og fólki sem þau kynnast og tengjast á ferðalaginu. Og svo að sjálfsögðu Hercule Poirot.
Það sem gerir Agöthu að snillingi í mínum augum eru persónurnar sem hún skapar, þær eru svo lifandi að þér finnst þú þekkja þær eða þær minna þig óþægilega mikið á fólk sem þú þekkir og gætir hitt í fjölskylduboði. Og svo er hún meistari í að draga upp myndir af vettvangi sögunnar og að síðustu að búa til söguþráð með fléttu eða flækju, sem leysist oft á óvæntan hátt. Ekki er þessi atburðarás alltaf trúleg en maður trúir henni meðan maður er að lesa söguna og það nægir mér.
Í þessari ferð lá ferðin m.a. til Petra. Þar er brugðið upp afar raunverulegri lýsingu af rústum fornrar menningar, sem ég gæti hugsað mér að skoða og fræðast um.
Agatha er drottning glæpasögunnar, hún bregst ekki. Ég veit að hún er barns síns tíma og ég reyni að stilla mig um að láta íhaldssamar skoðanir hennar á alþýðufólki ekki fara í taugarnar á mér meðan ég er að lesa, það spillir ánægjunni. En það kemur mér ekki á óvart þegar í ljós kemur að glæpurinn er framinn af einhverjum sem ekki tilheyrir yfirstéttinni. Þannig var þetta þá. Og er kannski enn. Í rauninni eru glæpir nútímayfirstéttarfólks meðhöndlaðir einhvern veginn öðru vísi. Þeir, glæpirnir, eru ekki jafn fyrirlitlegir og afbrot alþýðufólks eða ræfla. Því um þá er jafnað fjallað af vissri virðingu og með fyrirvörum. Sumir afbrotamenn fá jafn vel að sitja í háum embættum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2016 | 22:07
Kallar hann mig,kallar hann þig: Sigrún Elíasdóttir
Mig langar til að segja ykkur frá bókinni Kallar hann mig, kallar hann þig, af því, þegar ég rakst á hana fyrir tilviljun, hafði ég aldrei heyrt á hana minnst. Nú veit ég ekki hvort það var af því að bókin var lítið kynnt eða vegna þess að ég fylgist illa með, en ég var heppin að rekast á hana.
Bókin hefur undirtitilinn Leitin að afa. Hún kom út 2013 og er 270 blaðsíður. Þetta er að hluta til söguleg aldarfarslýsing um lífið á Barðaströnd og að hluta saga einnar fjölskyldu sem er rakin frá byrjun 20. aldar. Höfundurinn, Sigrún Elíasdóttir rekur ævi afa síns, Jóhannesar Arasonar út frá kynnum sínum af honum sjálfum, viðtölum við fólk og út frá heimildum. Frásagan er einlæg og nærgætin og höfundur gerir um leið grein fyrir sjálfri sér og sínu lífi.
Jóhannes er fæddur í Seljalandi í Gufudalssveit (1913 og dóó 2009). Þótt ævisaga hans sé þráðurinn sem heldur sögunni saman, er þetta breið saga um fjölda fólks. Það er sagt frá staðháttum og hvernig samfélagið var þá. Svo ólíkt er þetta okkar samtíð að þetta er eins og að heimsækja framandi land.
Undirtitill bókarinnar er Leitin að afa. Í raun er hún að grafast fyrir um líf afa síns sem hún þekkir og þekkir ekki. Við gerð bókarinnar notar hún viðtöl við fólk sem þekkir hann og hans gömlu heimaslóðir. Hún notar líka margvíslegar heimildir sem hún gerir grein fyrir. Þessu púslar hún svo saman í samfellda frásögn nokkurs konar þroskasögu sveitpiltsins, sem seinna varð afi hennar.
Í stað þess að rekja þá sögu, ætla ég að tala um það sem mér finnst allra best gert í þessari bók og vert að taka eftir en það eru verklýsingar hennar á sveitastörfum. Hún gefur gaum að smáatriðum sem máli skipta ef verk á að takast vel og hún lýsir vel samvinnu fólks sem var nauðsynleg ef allt átti að ganga upp.
Þetta er frásagan af því þegar fólk trúði á sjálft sig, landið og framfarir. Þetta voru tímar bjartsýni þrátt fyrir mikið strit og erfitt líf.
Þótt bókin hlýti lögmálum sagnfræðinnar, sviðsetur höfundur atburði og orðræðu. Þetta gerir frásögnina meira lifandi og það verður léttara að innbyrða öll þessi nöfn á fólki og örnefni. Þrátt fyrir að höfundur sviðsetji samskipti og atburði, gerir hún alltaf grein fyrir hvenær hún er að skálda í eyður hálf týndar fortíðar og hvenær hún lætur heimildirnar tala. Það liggur mikil vinna að baki þessa verks.
Hér er á ferðinni bók sem forvitinn ferðalangur getur tekið með sér ef hann ætlar að gefa sér tíma til að skoða landið.
Myndina tók ég af netinu frá Safnahúsi Borgarfjarðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2016 | 20:56
Mamúska: Halldór Guðmundsson
Lítil falleg bók en innihaldsrík. Þetta er að nafninu til ævisaga gamallar konu sem Halldór Guðmundsson rithöfundur (með meiru) kynntist í heimsóknum sínum til Frankfurt á ferðum sínum þangað á bókamessu. Þar kynnist hann veitingakonunni sem hann sem hann borðaði hjá á afar sérstökum veitingastað. Þótt þessi vinátta hefði staðið um um árabil vissi hann lítið um þessa konu og loks ákvað hann grafast fyrir um hver var konan á bak við þá litríku hressu konuna sem eldaði afburðagóðan mat og kunni að skapa andrúmsloft sem laðaði að litríkt fólk.
Í raun eru þetta tvær sögur. Annars vegar er saga konunnar sem rekur veitingastaðinn Rauðu akurliljuna og hins vegar er hörmungasaga þjóðanna sem búa við botn Eystrasaltsins. Það er ótrúlegt hvað yfir þessar þjóðir hefur hefur dunið. Þegar þjóðlönd takast á í stríði er það fólkið sem líður. Saga þessara átaka er svo flókin og margslungin að það er oft erfitt að halda áttum. En Halldór rekur þessa sögu skilmerkilega, auk þess er frábært kort í bókinni.
Mamúska, Marianne Kowalev, er fædd í Póllandi 1913 á landsvæði sem nú tilheyrir Litháen. Sjálf segist hún vera pólsk. Hún er komin af alþýðufólki en giftist Per Kowalev og tengdist þar með inn í velmegandi ætt. Hann var kominn af Rússum í föðurætt en móðurættin var með svissneskt blóð. Þetta svissneska blóð átti eftir að koma sér vel, því það nægði síðar til að fjölskyldan féll undir kategoríuna "Volkdeutsche" og fékk vist í Þýskalandi. Í stríðinu sem við köllum aðra heimsstyrjöld flýr þetta fólk land og fer til Frankfurt. Ósjálfrátt minnir þessi saga mig á sögu annarrar gamallar konu, Lenu Grigolet. Sú bók kom í íslenskri þýðingu 2003 og hét Paradísarstræti. Ég skrifaði um hana blogg undir titlinum, Gömul kona segir frá lífi sínu:Paradísarstræti. Sú kona lagði einnig á flótta í r,ingulreiðinni sem skapaðist þegar Rússar unnu stríðið á Austurvígstöðvunum og ráku flóttann yfir sama svæði og hér er lýst. Konan í þeirri sögu var þýskumælandi Lithái. En Lena Grigolet sneri við og hennar stríði lauk ekki þar, heldur löngu síðar við fall Sovétríkjanna.
Mér finnst magnað að lesa um þennan tíma þótt ég viti að ég er engan veginn fær um að skilja líðan stríðshrjáðra og landflótta manneskja. Bókin um Mamúsku er vel skrifuð enda kunnáttumaður á ferð. Vettvangur sögunnar er svæðið sem við kölluðum til forna Austurveg. Það var þegar íslenskar og norrænar "hetjur" fóru þangað í víking. Þetta er saga um vináttu gamallar konu og ungs manns.
Í rauninni er það sú saga sem er kjarni þessarar sögu.
Mér fellur vel við þessa litlu bók. Það er aðeins tvennt sem ég hef út á hana að setja. Mér finnst of lítið rætt um tungumálið, hver talaði hvaða mál, við hvern. Og ég fékk ekki að vita hvað Halldór borgaði fyrir matinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2016 | 21:35
Um minningar Guðrúnar Borgfjörð: Viðbót
Ekki tókst betur til í gær í skrifum mínum um hina snjöllu bók Guðrúnar Borgfjörð, sem hún nefnir Minningar, að ég setti inn mynd, sem mér er sagt að sé ekki af henni. Bókin Minningar nær ekki nema til 1888 en Guðrún var fædd 1856, svo Guðrún er að lýsa lífi ungrar konu. Mig langaði til að láta fylgja mynd af henni ungri. Eftir að hafa gramsað á netinu, fann ég mynd af ungri stúlku og við stóð að Guðrún Borgfjörð. Ég tók "sénsinn" en hef nú verið leiðrétt, og ég kann Hörpu Hreinsdóttur þökk fyrir.
Það hafði vakið athygli mína við lestur bókarinnar að tvisvar var vikið að því í bókinni að hún hefði ekki verið fríð, fyrst víkur hún að þessu sjálf, síðan talar frændi hennar Klemens um þetta í eftirmála. Myndirnar sem ég fann af Guðrúnu, voru allar af roskinni eldri konu sem mér fannst frekar aðlaðandi. Við þessar "rannsóknir" mínar komst ég að því að ég hugsa ekki um útlit fólks eftir skalanum ljótur - fallegur, heldur einhverju allt öðru. Þó þekki ég vel þennan skala, hann skipir mig bara ekki máli.
En úr því að ég fór að bæta við vangaveltur mínar um Guðrúnu, langar mig að bæta örlitlu við skrif mín. Mér fannst bæði fallegt og fróðlegt hvernig Guðrún talar um móður sína. Hún lýsir henni sem gáfaðri útsjónarsamri konu sem átti stundum erfitt líf. Það er t.d. mikið á konu lagt sem þarf að flytja búferlum frá Akureyri til Reykjavíkur, ríðandi í söðli komin á steypirinn. Aumingja elsku mamma segir Guðrún oft. Og þótt Anna Guðrún Eiríksdóttir móðir hennar, hefði enga skólamenntun hlotið, tók hún að sér að segja börnum til og drýgja með þvi tekjur heimilisins. Þess vegna sló það mig, þegar Klemens skrifar í eftirmála, að Jón Borgfjörð hafi komið öllum fjórum sonum sínum í gegnum háskólanám. Hann á hér að sjálfsögðu við kostnaðarlið skólagöngunnar. En Klemens á þakkir skyldar fyrir að koma þessari bók á prent, án hennar værum við enn fátækari af efnivið í sögu kvenna.
Hér læt ég staðar numið í skrifum mínum um þessa bók enda enginn fræðimaður á þessu sviði og um hana hefur heilmikið verið skrifað.
Myndin sem nú fylgir er sömuleiðis tekin af netinu og nú vona ég að þetta sé Guðrún sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 8
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 190374
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar