Færsluflokkur: Bloggar
15.6.2016 | 21:25
Minningar: Guðrún Borgfjörð
Ég skil ekkert í sjálfri mér, sem hef verið með annan fótinn í 19. öldinni, um árabil, að hafa ekki lesið þessa bók fyrir löngu síðan. Þó hef ég vitað um tilvist hennar, því margir sem skrifa um þennan tíma, vitna til hennar sem heimildar. Nú, að lestri loknum, sé ég líka (eða grunar) að ýmisir hafi nýtt sér hana í skrifum sínum án þess að geta um hana. Þrátt fyrir að ég vissi um tilvist bókarinnar, grunaði mig aldrei að þarna væri á ferðinni svo merkileg og skemmtileg bók. Svona getur kona verið vitlaus.
Mig langar til segja öllum, sem hafa ekki lesið hana, að bókin er öllum þeim kostum búin,sem einkenna góða bók.
Guðrún var fædd 1856 og dó 1930. Alla ævi stríddi hún við alvarlegan sjúkdóm, asma. Móðir hennar var Anna Guððrún Eiríksdóttir, ómenntuð alþýðukona en bókhneigð og faðir hennar, Jón Borgfirðingur,var sömuleiðis lítt skólagenginn en mikill bókaunnandi. Hann var ekki bara lesandi bóka, hann var lærður bókbindari og bókasafnari. Auk þess vann hann á tímabili við bóksölu og kom að útgáfu. Það er því greinilegt að Gúðrún hefur alist upp á heimili þar sem bækur voru elskaðar og virtar. Það sem ég segi hér um þetta fólk eru ályktanir sem ég dreg eftir lestur þessarar litlu bókar. Þegar ég segi "litlu" er það vegna þessa að ég ber hana í huganum saman við bækurnar sem ég hef lesið um karla 19. aldar (Jón Sigurðsson, Hannes Hafstein, Einar Bediktsson svo dæmi séu tekin)sem eru allar doðrantar. Þess vegna finnst mér merkilegt að Minnigarnar hennar Guðrúnar eru ekki síður fróðlegar.
Guðrún kann listina að segja frá. Í knöppu máli segir hún stóra sögu. Hún segir ekki bara sögu alþýðufjölskyldu, hún lýsir aldarfari og lífsháttum í þorpinu Reykjavík. Á þessum tíma þótti bæði rétt og eðlilegt að stétt og kynferði réði örlögum fólks. Víða í frásögn hennar má sjá hvernig fólk reynir að brjótast til mennta með dugnaði og útsjónarsemi. Sumum tókst en öðrum ekki. Bræður Guðrúnar eru dæmi um menn sem fóru til mennta, hún er sjálf dæmi um konu, sem lét sig dreyma um að fá bóklega menntun, draum sem ekki rættist.
Guðrún hefur glöggt auga fyrir því sem máli skiptir, frásögn hennar er full af "smáatriðum" sem skipta ekki minna máli en sögur um pólitískar stympingar karlanna. Reyndar leynir sér ekki að hún er vel heima þar sem annars staðar. Ég hafði alveg sérstaklega gaman að lesa um lýsingar hennar á heimilishaldi og einkum saumaskap sem hún virðist hafa haft mikla unun af.
Guðrún var sjálflærð menntakona sem þjónaði öðrum alla tíð. Því miður byrjaði hún allt of seint að skrifa (sextug). Bókin nær einungis til 1888. Hún skrifaði hana að áeggjan bróður síns Klemensar. Það var svo bróðursonur hennar Agnar Kl. Jónsson sem sá um útgáfuna 1947.
Myndina tók ég traustataki af netinu. Ég vona að hún sé af Guðrúnu en það vekur undrun mína að í tvígang er um það talað í bókinni, að Guðrún hafi ekki verið fríð. Merkilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2016 | 21:12
Gæðakonur: Steinunn Sigurðardóttir
Það er alltaf jafn gaman að lesa bækur Steinunnar Sigurðardóttur, hún skrifar svo fallega íslensku að hún á fáa sér líka. Mér dettur helst Indriði G. Þorsteinsson í hug, en hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekki veit ég hvort ég skil hvað Steinunn er að fara í þessari bók. Mig grunar að hér sé á ferðinni svo djúpar pælingar og að lesandinn þurfi að hafa fyrir því að höndla hina eiginlegu merkingu. Efni bókarinnar er enn að brjótast um í mér.
Bókin er á yfirborðinu einföld. Hún fjallar um eldfjallafræðinginn Maríu, sem er enn á góðum aldri. Hún stendur á tímamótum í lífinu, þarf að taka ákvörðun um framtíð sína, um lífið.
Ég ætla ekki að rekja atburðarás bókarinnar, þá myndi ég ljóstra upp of miklu og spilla fyrir væntanlegum lesendum. Þess í stað ætla ég að segja lauslega frá hvaða hugmyndir koma hér við sögu. Það á ekki illa við, því hugmyndaheimur bókarinnar er það sem gerir hana sérstaka.
María eldfjallafræðinguur er kona með fortíð. Þegar hér er komið sögu veitir hún því athygli að um svipað leyti og karlmenn hættu að gefa henni auga, eru konur farnar að horfa á hana með blik í auga. Eins og þær langi til að gera eitthvað við hana. Nú opnast henni nýr heimur, þar sem kynferði fólks er mun fjölbreyttara en þau viðmið sem hún þekkir. Þegar ég var þarna komin í lesturinn, fór ég að velta fyrir mér hvort e.t.v. rétt væri að tala um hvar þessi eða hinn sé staddur á kynferðisrófinu, rétt eins og nú er stundum rætt um fólk með einhverfueinkenni. Þá er gjarnan talað um hvar Jón eða Gunna séu stödd á rófinu.
Einn af mörgum efnisþáttum þessarar bókar eru fjölmargar birtingarmyndir ástar, kærleika og kynlífs. Ef ég hef skilið bókina rétt, er ástin og birtingarmyndir hennar ein af höfuðuskepnunum, náttúruafl sem við ráðum illa eða ekki við.
Aðalpersóna bókarinnar, María Hólm, er ekki bara góður vísindamaður á sínu sviði, hún er ástríðufull, elskar fagið og það sem að því snýr. Hún hefur sérstaka ást á fjallinu Stóra Stubb og jarðhræringum sem honum tengjast.
Sagan gerist á tímum gossins í Eyjafjallajökli en hún lýsir ekki bara jarðhræringum, hún lýsir ekki síður umbrotum í sálarlífinu og í samfélaginu. Þegar María fer til Parísar til að flytja fyrlestur á sérsviði sínu,eldfjallafræði, kynnist hún hinni pólitísku Gemmu, sem vill umbylta heiminum með því að færa valdið frá körlunum til kvennanna. Það er heimsins einasta von, segir hún,karlarnir hafa sýnt fyrir löngu að þeir kunna ekki að fara með það vald sem þeir hafa tekið sér. Gemma kynnir sig sem trúboða, hennar boðskapur er bylting kvenna. Vegna þess að Gemma lítur á sig sem trúboða, er óvenjumikil predikun í þessar bók. Boðskapurinn er augljós og ófalinn. Ég get alveg þolað það, í 19. aldar sögunum sem ég hef verið að lesa í vetur er þetta oft á sama veg. Dæmi um það er Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Becher Stowe (1852) þar sem höfundur rekur óhikað áróður fyrir afnámi þrælahalds og það gerir hún af miklum trúarhita.
Mér finnst Gæðakonur góð og skemmtileg bók. Hún hristir upp í manni. Góð bók kveikir á hugsun um aðrar góðar bækur. Allt í einu var ég farin að hugsa um bókina The Volcano Lover (1992) eftir Susan Sontag. Nafnið tengir. Það er líka ástríðufull bók, um eldfjall, ástir, listir og orustur. Þetta er ástarsaga Lord Nelsons og hinnar fögru Emmu Hamilton. En þar sem minnið er svikult þyrfti ég að lesa þá bók aftur áður en lengra er haldið. Ég gæti hugað mér að lesa hana aftur og aftur. En nú er ég komin út fyrir efnið.
Það væri beinlínis rangt að tala um Gæðakonur Steinunnar Sigurðardóttur án þess að minnast á hennar lúmsku fyndni. Glettni, gáski og húmor eru samofin stílnum og efninu og eru eitt af því sem einkennir hana sem höfund.
Lokaorð
Eins og sést á þessum skrifum mínum á ég enn langt í land með að skilja þessa bók. Það er allt í lagi, efni hennar kraumar í mér. Þetta er bók með eftirbragði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2016 | 14:23
Dauðans óvissi tími: Þráinn Bertelsson
"Hvernig gat hann vitað þetta"?, hugsa ég núna. Ég er að lesa bók Þráins, Dauðans óvissi tími, í annað sinn. Í fyrra skiptið sem ég las hana (2004) fannst mér hún vera spennandi glæpasaga. Núna les ég hana meira sem sögulega skáldsögu um Útrásina í aðdraganda HrunsinS.
Í bókinni er sagt frá hinum geðþekka rannsóknalögreglumann, Víkiingi og samstarfsfólki hans. Það er verið að rannsaka tvö morð. Í öðru tilviki er um að ræða aldraðan mann sem er úti með barnabörnin sín í þann mund sem verið að ræna banka. Í hinu tilvikinu finnst illa útlítandi lík af manni sem tengist fjármálageiranum. En tengjast þau?
Eins og ég sagði hér á undan, er þetta engin venjuleg glæpasaga. Þetta er lykilskáldsaga þar sem margar persónur líkjast mjög persónum sem við þekkjum af umfjöllun í fjölmiðlum. Ýmist hátt settum persónum í stjórnmálaheiminum eða úr fjármálageiranum, en þær heita öðrum nöfnum. Það er ekki nóg með að þessar persónur séu hlægilega líkar raunverulegum persónum, atburðarásin er líka nauðalík ýmsu sem við könnumst við. Hluti af skemmtilegheitum er að ráða í hver er hver.
En þetta er ekki bara saga um hvítflibbaglæpamenn, í sögunni er líka sagt frá tveimum drengjum, sem kynntust á meðferðarheimili og verða í gegnu erfiða sameiginlega reynslu einskonar fóstbræður. Drengirnir heita Þormóður og Þorgeir og það er sjálfsagt engin tilviljun að athæfi þeirra minnir meira en litið á nafna þeirra í Fóstbræðrasögu, það er að segja hvernig þeir gætu hagað sér í nútímasamfélagi.
Bókin hefst á því að segja frá Haraldi Rúrikssyni sem fer í víking í austurveg eftir að hafa sett skipafélag á hausinn sem dró með sér banka í fallinu. Haraldur auðgast vel að hætti víkinga og getur í krafti auðæfa sinn keypt stöndugan banka hér heima.
Þeim fóstbræðrum gengur ekki eins vel að komast í efni og ráðast í að ræna banka til að eiga fyrir útborgun í líkamsræktarstöð.
Bókin er afar vel skrifuð, svo vel að oft á tíðum sér maður atburðarásina fyrir sér eins og sviðsetningu í leikhúsi eða í bíómynd. Stundum tekst höfundi svo vel upp að ég hló upphátt, en það geri ég ekki oft við lestur. Ekki spillir að persónurnar á bak við sögupersónurnar eru enn virkar 12 árum seinna í athafna- og stjórmálalífi og hafa lítið breyst. Mig langar að taka lítið dæmi um hversu bókin á enn vel við. Þórhildur réttarlæknir, en hún er gift Víkingi, útskýrir fyrir manni sínum hver sé hin rétta skilgreining á psýkópat.
Endursögn:
Sjúkdómurinn er greindur út frá lista þar sem ákveðnir eiginleikar þurfa að vera til staðar, allir en ekki bara einhverjir. Þetta er nefnilega heilkenni segir Þórhildur.Einkennin eru:
Tilginningalega og eða í samskiptum er geðvillingur tungulipur og yfirborðslegur.
Hann er sjálfhverfur og hefur háar hugmyndir um sjálfan sig, skortir iðrun eða sektartilfinningu, skortir hluttekningu.
Hann er svikull og stjórnsamur.
Hann hefur grunn tilfinningaviðbrögð.
Félagsleg frábrigði sem einkenna geðvillinginn eru þau að hann er fljótfær, kann illa að stjórna hegðun sinni, þarf á spennu að halda, skortir ábyrgð.
Hegðunarvandi kemur snemma í ljós hjá geðvillingum.
En sagan er ekki bara fyndin og spennandi, hún er líka sorgleg, þegar maður hugsar til örlaga drengjanna af meðferðarstofnuninni, sem átti að bæta þá. Hún er líka grimm ádeila á samfélag sem er orðið svo þróað að það er lítið upp úr því að hafa að ræna banka utan frá. Það gera bara smákrimmar. Alvöruglæpamenn ræna banka innan frá og hafa rétt sambönd.
Myndin er barnateikning efti son minn. Birt án leyfis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2016 | 20:38
Samhengi hlutanna: Sigrún Davíðsdóttur
Ég hef verið að lesa Samhengi hlutanna, eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Þetta er annar lestur, ég las hana árið sem hún kom út, 2011. Þá var Hrunið enn ofarlega á dagskrá, það var mikil umræða í gangi og maður vissi ekki hvað sneri upp eða niður á tilverunni. Mér fannst bókin þá strembin, erfitt að skilja samhengi hlutanna.
Bókin hefst á því að segja frá ungu,íslensku pari í London. Hún er blaðakona sem vinnur jafnframt að því að skrifa bók um fjármálaflækjurnar að baki Hrunsins, hann er listamaður. Þau eru hamingjusöm og lífsglöð. Það er hann, Arnar sem segir söguna.
Allt í einu hrynur veröldin. Hulda, blaðakonan deyr í reihjólaslysi. Sorgin leiðir til þess að Arnar er ófær að takast á við lífið, einangrar sig og sekkur dýpra og dýpra inn í einhverskonar svartnætti. Þá kemur til sögunnar gamall vinur Huldu, Ragnar, sem tekur hús á honum og sest þar að. Ragnar er blaðamaður sem er búinn að drekka sig út úr starfi, hefur nú tekið það í sig að klára ætlunarverki Huldu, vinna úr rannsóknum hennar og ljúka bókinni sem hún var með í smíðum. Arnar er þessu mótfallinn en Ragnar er einþykkur og smám saman verður til lítill rannsóknarhópur í London sem púslar saman rannsóknum Huldu og nýrri vitneskju sem þessi litli rannsóknarhópur hefur komist að. En þræðirnir liggja víða og sumir nær Arnari en hann hefur órað fyrir. Og auðvitað endar á því að hópurinn lendir inn í atburðarás sem þar sem allt getur gerst.
Þegar ég las þessa bók á sínum tíma fannst mér erfitt að halda utan um alla þessa þræði. Mér fannst myndin af fjármálaheiminum sem dregin var upp líkjast meira einhverskonar stjörnuþoku en sæmilega löglegu stjörnumerki. En núna, þegar ég hef skólast í eftirhrunsskólanum, veitist mér það léttara. Já,svona var þetta hugsa ég. Núna finnst mér þetta góð bók, það mætti nota hana sem kennslubók til að fræða fólk um þennan tíma, t.d. nota hana sem námsefni í framhaldsskóla.
Eftir því sem verkinu vindur fram gengur Arnari betur að takast á við lífið. Í heimsókn sinni til Íslands kynnist hann nýjum hliðum á fjölskyldu sinni. En ég ætla ekki að rekja gang sögunnar frekar en mér var farið að þykja vænt aðalpersónurnar og vona það besta fyrir þeirra hönd.
Það sem mér fannst best við þessa bók, er að þarna er dregin upp heilleg mynd af atburðarás sem er um margt lítt skiljanleg. Eðli málsins samkvæmt er atburðarás peningaflæðisins hönnuð til að villa um fyrir heiðvirðu fólki og laganna vörðum.
Tvær samlíkingar í bókinni sitja í mér, báðar dálítið fráhrindandi. Önnur var sem lýsti því hvernig froskar bregðast við því þegar þeir eru soðnir. Ef þú skellir lifandi froski í sjóðheitt vatn hoppar hann upp úr. En ef þú setur hann í kalt vatn og hitar hægt þar til suðumarki er náð, þá bregst hann ekki, hann hægeldast.
Hin líkingin átti að skýra hvers vegna Íslendingar trúa aldrei neinu illu um fjármálamennina sem eru að stela frá þeim og lifa hátt á kostnað almennings. Það er auðveldast að skilja þetta í ljósi líkindanna við sér nákominn, sem er staðinn að því að misnota sitt eigið barn, eða annan nákominn og þá er oftast einn eða fleiri í fjölskyldunni sem trúir ekki og rís upp til varnar við ofbeldismanninn. Tilhugsunin um að okkur nákominn, maður sem við þekkjum og elskum er okkur um megn og þess vegna stöndum við frekar með honum en fórnarlambinu.
Mér fannst þetta í senn spennandi og fróðleg bók. Ég skil núna hvers vegna henni var svo lítið hampað á sínum tíma. Það er næstum óbærilegt að horfast í augu við að okkar eigin eignamenn og jafnvel stjórnmálamenn níðist á eigin þjóð.
Myndin af grafinu er tekin að láni úr Rannsóknarskýrslu Alþingis og tengist ekki efninu beint.
En mér finnst gaman að skoða myndirnar sem landslag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2016 | 22:20
Gildran: Lilja Sigurðardóttir
Um sex vikna skeið hef ég eingöngu lesið glæpasögur. Það er jafn langur tími og ég hef verið að glíma við bakverk. Spennubækur lina verki og hafa reynst mér betri en nokkrar verkjapillur.
Eftir að hafa lesið Spor, Lilju Sigurðardóttur, ákvað ég að lesa nýjustu bók hennar, Gildruna, sem hefur fengið lof gagnrýnenda.
Fráskilin kona og móðir, Sonja, grípur til þess óyndisúrræðis að flytja eiturlyf milli landa til að bæta fjárhag sinn. Hún hefur látið fyrrverandi mannn sinn plata sig til að samþykkja að hann hafi forræði sonar þeirra, Tómasar 9 ára. Hann skammtar henni takmarkaða umgengni og hún saknar drengsins mikið.
Hún kennir slæmum fjárhag um að það fór sem fór varðandi forræðismálið og bindur vonir við að peningarnir sem hún vinnur sér inn sem "burðardýr" geti hjálpað henni til að fá son sinn aftur.
Inn í þetta ævintýri blandast ástarsaga hennar og Öglu, framsækinnar bankakonu, sem hefur efnast með klækjum en veit þó að það geti komist upp um hana.
En það er önnur ástarsaga í gangi. Gamli tollvörðurinn, Bragi, þráir að hafa konuna sína heima, en hún dvelur á hjúkrunarheimili vegna þess að hún er komin með Alzheimer. Yfirmenn Braga ýta á hann að hætta að vinna og fara á eftirlaun. En Bragi hefur engan áhuga á að sitja einn í tómlegri íbúð. Hann er með önnur plön. Hann hefur tekið eftir hinni myndarlegu og vel klæddu Sonju, sem er mikið á ferðinni til útlanda. Hann bíður átekta. Hér æla ég að láta staðar numið að rekja efni sögunnar, til að spilla henni ekki fyrir lesendum mínum sem hafa ekki enn lesið bókina.
Þetta er lipurlega skrifuð spennusaga sem gerist í raunveruleika dagsins í dag, eða þannig. En hún var ekki nógu góð fyrir mig, af því ég trúi ekki orði af því sem er sagt. Galdurinn við að skrifa góða bók, er að tryggja að lesandinn trúi því meðan hann les, að svona hafi þetta verið.
Hvaða heilvita kona myndi láta plata sig svona við skilnað. Þarf ekki manneskja að vera ansi langt leidd til að ætla sér að redda fjárhagnum með svo áhættusamri "vinnu"? Á tímabili hélt ég Sonja hlyti að vera afar illa gefin og ósjálfstæð kona. Sú kenning gekk þó ekki upp þegar lýst var snilli hennar í burðardýrsstarfinu. Ástarævintýri kvennanna var ekki heldur sannfærandi. En ég veit ekki hvort glæpamennirnir eru trúverðugir, ég þekki svo lítið til í þeim bransa.
Ég varð sem sagt fyrir vonbrigðum með þessa bók, sérstaklega miðað við það mikla lof sem hún hefur fengið. Ég þarf eitthvað sterkara, ég þarf að trúa á atburðarásina.
Sumar bækur með lygilegum glæpum og ótrúlegri atburðarás, verka á mig sem vönduð sagnfræði. Og er reyndar langt komin með eina slíka bók. Það er bók Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. Hún hittir svo beint í mark að ég er verkjalaus af bakverkjum svo lengi ég les.
Meira um hana næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2016 | 17:39
Væntingastjórnun: Pólitík er ekki vara
Í síðustu viku lærði ég nýtt orð, væntingastjórnun. Það var ein af fjölmörgum skýringum sem ég hef heyrt undanfarið á slöku gengi Samfylkingarinnar. Það var stjórnmálafræðingur sem notaði orðið. Samfylkingin hefur sem sagt ekki haft stjórn á væntingum. Í sömu viku heyrði ég ekki bara einn, heldur tvo segja að frambjóðendur í formannskjöri Samfylkingarinnar, væru ekki ferskir. Það væri lítill ferskleiki yfir þeim. Allt í einu sló það mig að það er farið að ræða um pólitík eins og hverja aðra vöru, eins og hún sé búin til á auglýsingaskrifstofum og markaðssett. Er pólitík vara?
Einhvern veginn fellur mér ekki við þessa framsetningu. Mér fellur ekki heldur talið um gömlu flokkana, svo ég tali nú ekki um fjórflokkinn, enda gömul sjálf. Stefnumið flokka verða til í samstarfi fólks og pólitík ræðst,að ég held, af því hvernig tekst að koma áformum í verk.
Samfylkingunni tókst því miður ekki að koma í framkvæmd mikilvægum verkefnum. Því miður hugsa ég sem er gegnheil Samfylkingarkona og þori að segja það. Þetta síðasta segi ég vegna þess að Samfylkingin hefur um nokkuð skeið orðið fyrir mikilli gagnrýni. Það er reyndar eðlilegt og gott að stjórnmálaflokkar séu gagnrýndir. En það er ekki síður mikilvægt að átta sig á því, á hverju sú gagnrýni byggist.
Annars vegar er um að ræða gagnrýni frá andstæðingum, þ.e. stjórnmálaöflum sem eru andvíg því sem flokkurinn stendur fyrir. Hins vegar er um að ræða gagnrýni, sem kemur frá fólki sem virðis vera sammála stefnumálinum en telja að það hafi ekki verið farið rétt að.
Það er munur á þessu tvennu. Í fyrra tilvikinu, þegar gagnrýnin kemur frá mótherjum, finnst mér oft gilda, því meira því betra.
En í hinu síðarnefnda er mikilvægt að hlusta vel eftir hvað þarna er á ferðinni. Margt af þeirri umræðu sem nú fer fram í netheimum, hefði áður fyrr líklega farið fram í þrengri hópi hugsanlegra samherja. Tímarnir hafa breyst og vonandi til góðs ef rétt er á haldið. Það er mikilvægt þegar þessi gagnrýni er skoðuð að muna að Samfylkingin hefur átt sér volduga andstæðinga. Sterk viðbrögð pólitískra andstæðinga er fagnaðarefni, og síst til að kvarta yfir.
Til viðbótar við þessa ganrýni úr ólíkum áttum bætist auðvitað við nöldur fólks sem hefur misst trú á alla pólitík (að eigin sögn). Sárast finnst mér þó að hlusta á fyrrverandi samherja sem senda kaldar kveðjur til þeirra sem hafa tekið við keflinu. Stundum lítur út fyrir að allir hafi rétt á að hnjóða í þennan flokk. Óskemmtilegt. Eða það finnst mér að minnsta kosti sem hef verið stuðningsmaður Samfylkingarinnar frá upphafi.
Það er vor í lofti og framundan eru tvennar kosningar. Ég var að kjósa formann Samfylkingarinnar og þessar vangaveltur urðu til í kjölfarið. Mér fannst gaman að fá tækifæri til að velja á milli fjögurra álitlegra valkosta. Mér finnst kosningaár skemmtilegri en önnur ár, því það er svo mikið um að vera í samfélaginu. Pólitík er ekki vara, hún er miklu dýrmætari en svo. Það væri nær að líta á hana sem lífssýn eða hugsjón (kannski gamaldags) sem við búum til saman og eigum saman.
Ég er orðin þó nokkuð fullorðin og ég hef verið í stjórnmálaflokki síðan ég fékk kosningarétt og ég er stolt af því. Þannig getur maður tekið þátt í að móta stefnu þess flokks sem maður telur að sé líklegastur til stuðla að samfélaginu sem maður vill lifa í.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2016 | 16:32
Minningarorð: Herdís Erlingsdóttur frá Gilsá
Þeim fækkar stöðugt Breiðdælingunum sem ég þekkti vel. Í dag verður Herdís Erlingsdóttir fyrrum húsfreyja á Gilsá borin til grafar frá Eydalakirkju. Herdís var fædd 4. april 1926. Hún var frá Þorgrímsstöðum, fjórða barn í röð 7 systkina.
Ég man vel þegar okkur á nágrannabænum Hlíðarenda var sagt frá trúlofun Sigurðar á Gilsá, en það var mikill samgangur á milli bæjanna, bæði þá og síðar. Ég man að mér fannst þetta merkilegt. Ég sé núna, þegar ég reikna árin, að ég hef verið fimm ára. Ungu hjónin á Gilsá voru vel undir búskapinn búin, hann var búfræðingur og hún hafði verið í húsmæðraskóla.
Dísa á Gilsá var ein af þeim konum sem var svo grandvör til orðs og æðis að hætt er við að fólk taki ekki eftir þeim. Ég heyrði hana aldrei leggja illt til nokkurs manns. Og líklega hefði ég ekki þessar góðu minningar, nema af því að ég var svo heppin að kynnast henni vel. Ég var nefnilega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sem barn, "lánuð" að Gilsá til að hjálpa til. Ég man eftir því hvað ég hafði gaman að horfa á Dísu vinna, allt sem hún gerði, gerði hún vel og snyrtilega. Dísa var snillingur í öllu sem varðaði handavinnu, móðir mín sem kunni þar einnig vel til verka, leitaði gjarnan til hennar með ráð og aðstoð. Ég man vel eftir afar fallegum jólakjólum sem Dísa sneið og saumaði á okkur systur. Mamma lagði til efnið og svo var tekið mál og við vorum látnar máta, ekki bara einu sinni. Allt átti að passa vandlega. Mér þótti ekki gaman að máta en kjólarnir, sem voru rauðir og hvítir, voru undurfallegir.
En það er ekki alltaf nóg að búa sig vel undir lífið til að allt gangi að óskum. Lífið átti eftir að rétta þeim hjónum mörg erfið verkefni og mikla sorg. Sigurður átti við langvarandi heilsuleysi að stríða og reyndar fór Dísa ekki sjálf varhluta af því að takast á við sjúkdóma. Ég hef oft hugsað til fólksins á Gilsá þegar ég velti fyrir mér hversu gæfunni er misskipt. Það er átakanlegt að þurfa láta frá sér börn vegna veikinda þeirra og fötlunar. Hér er ég að tala um drengina þeirra tvo, tvíburana, Þorgeir og Stefán. Þeir voru fyrstu smábörnin sem ég passaði. Ég leit líka eftir Lárusi og Erlu, eldri börnunum. Þau voru svo svo dugleg og kotroskin að ekki var við hæfi að tala um að passa þegar þau áttu í hlut. Ég veit núna að þau hafa líklega verið þriggja og sex ára. Fjölskyldan á Gilsá þurftu líka að horfa á eftir lítilli stúlku, Sólrúnu, sem lést níu ára eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.
En Herdís Erlingsdóttir var og er í mínum augum sönn hetja. Þannig minnist ég hennar. Eins og sést á þessum orðum mínum í minningu Dísu, þá spretta fram ótal minningar, góðar og sterkar. Þær tengjast bæði henni og fólkinu á Gilsá. Þegar ég hugsa til baka, geri ég mér grein fyrir, að það var í þeirra félagsskap sem ég lærði að það er munur á að tala um málefni og verkefni eða um fólk. Þetta var góður félagsskapur, góðir nágrannar eru dýrmætir. Þegar ég flutti úr sveitinni missti ég aldrei alveg sjónar af þeim, frétti af þeim. Ég votta aðstandendum samúð mína.
Myndin sem fylgir, þessum pistli er brúðkaupsmynd af Sigurði og Herdísi. Hún er sótt í bók Sigurðar Lárussonar manns hennar Minningar og ljóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2016 | 01:08
Spor: Lilja Sigurðardóttir: Eins og að ráða krossgátu
Hver kannast ekki við tilfinninguna að vera svangur, langa í eitthvað, bara alls ekki það sem er til í ísskápnum? Eftir að hafa kvatt Anniku Bengtzon (sköpunarverk Lizu Marklund) með söknuði, vissi ég þó að mig langaði að lesa enn fleiri krimma. Ástæðan fyrir glæpasögulestrinum var bakverkur, ég treysti mér ekki í tormelt lesefni. Bókin Spor eftir Lilju Sigurðardóttur varð fyrir valinu. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hana áður.
Bókin byrjar ljúft, ungur maður er aðæ koma heim eftir áfengismeðferð, hann saknar sárt fyrrverandi konu sinnar ... Hún er rannsóknarlögga sem er að takast á við að leysa sitt fyrsta morðmál. Hinn myrti hefur einnig átt við áfengisvanda að stríða svo lögreglukonan leitar til fyrrverandi manns síns, biður hann að segja sér frá mönnunum sem hann hefur setið með á AA-fundum. Þetta er alveg á mörkunum að vera siðferðilega rétt en hann slær til af því hann þráir nálægð við sína fyrrverandi.
En það er framið nýtt morð og svo enn annað og það kviknar hugmynd um að þarna sé raðmorðingi á ferð svo nú er farið að leita að munstri sem geti skýrt hver þarna sé á ferðinni. Þetta er glæpasaga sem stendur undir nafni. En til að gera langa sögu stutta, þá virðist árangursríkt að skoða morðin út frá 12 spora kerfinu. Nú vona ég að það spilli engu fyrir hugsanlegum lesendum með að upplýsa þetta en meira segi ég ekki.
Það var fræðandi að lesa þessa bók, ég veit nú fjölmargt um líðan og langanir þeirra sem eru að halda sér þurrum og ég er enn fróðari um 12 spora kerfið. Þetta með að kúga fólk til trúar á Guð er verra en ég hélt. Reyndar ætla ég ekki að fjalla um að hér, heldur hitt að sporavinnan í bókinni skilaði árangri, morðinginn fannst.
Þetta er formúlubók en spennandi engu að síður. En raðmorð eru ekki fyrir mig. Bæði er, að ofbeldið verður yfirgnæfandi og skyggir á fjölmargt annað sem gerir bók góða. Þar ber hæst (í mínu tilviki) að fá þá tilfinningu að höfundi liggi eitthvað á hjarta, hvað vill hann segja fólki með þessari bók? Í ofbeldisfullum bókum verður persónusköpunin og trúverðug samskipti fólks stundum út undan, þótt það eigi ekki við um þessa bók. Helstu persónur eru vel dregnar og sama gildir um samskipti þeirra.
En raðmorð í okkar fámenna landi verða á vissan hátt afkáraleg, ég tala ekki um þegar búið er að smætta hópinn niður í alkóhólista, hvað þá ef hringurinn er gerður enn þrengri. Gengur þetta tölfræðilega upp? En sagan gengur upp. Ég hef aftur á móti ekki lengur gaman af svona bókum. Þær gera mér sama gagn og krossgátur. Reyndar rifjast upp fyrir mér tímar þegar ég lá í bókum þar sem lausn morðsins lá í röð smáatriða eins og t.d. að stúdera tímatöflur lesta (Agatha Christie) eða í gamalli hefð við að hringja kirkjuklukku (Dorothy Sayers). Mér er sagt að höfundur Sporsins sé meðvitað að fylgja form,úlu Dan Brown, höfundar Da Vincy lykilsins. Henni tekst það svo sannarlega. Snilldarhugmynd að fræða um 12 sporakerfið.
Það er bara ég sem er ekki á réttu róli. Nú vil ég samfélagslegar/pólitískar glæpasögur með boðskap. Reyndar ætla ég að lesa eina bók eftir Lilju í viðbót, Gildruna. Svo ætla ég að endurlesa bók Þráins, Dauðans óvissu tími, þar sem hann spáir fyrir um hrunið. Og ef ég verð enn í glæpasögugírnum, langar mig til að lesa aftur bók Sigrúnar Davíðsdóttur, Samhengi hlutanna, sem er tragísk hrunsaga.
Það getur verið gaman að vera staddur í öldudal vegna bakverkja og lesa bara "léttmeti" vegna depurðar. Eða hvað?
Það er gott til þess að vita hvað það eru til magar góðar glæpasögur. Þá get ég verið döpur lengi.
Myndin sem fylgir er úr Rannsóknarskýrslunni. Grafið minnir mig á Norðurdalsfjöllin (í Breiðdal). Mér finnst hún falleg en ekki man ég að segja hvaða hræringar þarna vor á ferð í efnahagslífinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.5.2016 | 18:32
Annika Bengtzon vinkona mín: Þar sem sólin skín
Þegar ég las síðustu bók Lizu Marklund um líf og störf söguhetjunnar Anniku Bengtzon, fannst mér eins og ég hefði misst af einhverju, sem skipti máli. Hélt að ég hefði hoppað yfir bók. Af hverju var Annika tekin aftur saman við eiginmann sinn, leiðindaskarfinn Thomas? Núna hef ég rakið mig til baka í bókunum og hef áttað mig.
Fyrir þá sem ekki þekkja sögurnar: Annika Bengzon er ung róttæk blaðakona af alþýðuættum. Hún á erfitt með að sætta sig við óréttlæti og spillingu í samfélaginu og reyndar í heiminum öllum, ef út í það er farið. Hún flækist gjarnan inn í mál sem þetta varðar. Rannsóknir hennar eiga oftar en ekki þátt í því að þau upplýsast. Annika er eldklár, óþolinmóð og hvatvís ung kona sem fer sínar eigin leiðir. Samstarf og hlýðni eru ekki hennar sterkustu hliðar. Hún á tvö börn og leitast við að vera góð móðir.
Bókin sem ég var að ljúka við í nótt heitir, Þar sem sólin skín. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók, það var Sunna Björk Þórarinsdóttir sem las. Hún les vel. Ekki spillir að ég þekki Sunnu og nú hefur Annika svolítið fengið hennar svip eða er það öfugt?
Bókin, Þar sem sólin skín, fjallar um spillingu og glæpi sem eiga rætur í fortíð. Sögusviðið spannar gamla fátæktar-Svíþjóð til lands velferðarinnar sem við könnumst við. Hluti sögunnar gerist þar sem sólin skín, á Spáni, Gíbraltar og Marokkó. Bókin er efnismikil, þræðirnir liggja víða. Annika er skilin við Tómas en saknar hans en það er pláss fyrir smá ástalíf. Eiginlega er einum of mikið um að vera í þessari bók en kaflinn um peningaþvættið er meistaraverk og á eitthvað svo vel við núna. Hún kemur út 2008 og þá var enn löglegt að vera með aflandsfélög í Evrópu, en það stóð til að uppræta þessa "þjónustu" sem var gert 2010. Það var svolítið eins og að vera komin heim að lesa þessa bók.
En það var meira um morð og ofbeldi í þessari bók en hjá okkar mönnum, sem enginn skilur af hverju eru að vista peningana sína, sem þeim þykir svo vænt um, svo fjarri sér. Þeir græða hvort sem er ekkert á því og þurfa að borga fólki fyrir að búa til flækjur, sem þeir skilja ekki einu sinni sjálfir. En hver veit svo sem hvort þetta falda fé tengist ekki morðum og stríðum. Það er til svo mikið af óheiðarlegu fólki í heiminum og einhvers staðar þarf að þvo peninga.
Ég vona að það hafi komist til skila að mér þykir mikið koma til Lizu Marklund. Ég hef heyrt út undan mér að einhver menningarlegur bókelskandi gagnrýnandi hafi sett hana í ruslflokk og hugsa ósjálfrátt. Of pólitískt og feminiskt fyrir suma. Ég nefni engin nöfn!!!
Ég finn til viss tómleika eins og eftir allar góðar bækur. Ég veit að það líður hjá, það er mikið til af góðum bókum í henni veröld.
Myndin er af línuriti úr Rannsóknarskýrslunni góðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2016 | 21:10
Er hvítasunnan orðin þunnur þrettándi?
Margir velta því fyrir sér hvað verði um frídagana sem byggja á helgum dögum kirkjunnar, nú þegar kristin trú hefur að vissu leyti úrhólkast (ætla ekki að fara nánar út í það). Fólk er fríinu fegið og hefur fundið dögunum nýjan tilgang, þótt í flestum tilvikum fari lítið fyrir helgihaldinu. Ég er utan trúfélaga og fylgi straumnum. Reyndar þarf ég ekki á frídögum að halda, því ég er komin í "langa fríið", ég get hagað hverjum degi að eigin geðþótta.
En hvernig var þetta hugsað allt, á sínum tíma, meðan fólk tók helgidagahald alvarlega, klæddi sig í spariföt, var andaktugt og hugsaði um andleg málefni? Maður tók mest eftir hvað var bannað. Það var náttúrlega bannað að vinna og þess vegna var ekki hægt að kaupa sér neitt, hvorki vöru eða þjónustu. Og svo var að sjálfsögðu bannað að skemmta sér.
Mér finnst siðvenjur merkilegar og mig langar til að skilja þær, þannig öðlast ég skilning á fólkinu í kringum mig og þannig öðlast ég skilning á mér. Mér fannst alltaf gaman í gamla daga þegar fólk fór í sparifötin og amma setti upp viðhafnarsvipinn um leið og hún setti á sig sparisvuntuna utan yfir peysufatasvuntuna. En auðvita lagðist ekki af nein vinna, kýrnar voru mjólkaðar, fénaður fékk tugguna sína og svo þurfti heimilisfólkið sitt. Hvítasunnan var á vissan hátt alltaf til vandræða, því oftar en ekki truflaði hún sauðburð, mesta annatíma til sveita, sem er á vissan hátt heilagur í sjálfu sér.
Enn er það svo, ég átta mig illa á hvitasunnuhelginni. Ef maður hugsar um þrískiptingu guðdómsins er þá ekki hægt að hugsa þetta svona?
Jólin eru hátíð Föðurins, hann gaf fólkinu Soninn
Páskarnir eru hátíð Sonarins, hann gaf fólkinu sjálfan sig
Hvítasunnan er hátíð Heilags anda, hann kom til lærisveinanna með miklum dyn
Reyndar ætti ég ekki að vera að ræða um helgidagahald, trúlaus manneskjan. Finnst sjálfsagt mörgum. En það er merkileg þverstæða að meðan kirkjan hefur einhvers konar einkarétt á því að ræða trú og andleg málefni, hafa braskararnir (þeir hinir sömu og Kristur hamaðist gegn í Musterinu) tekið forystu í að gæða gamla helgidaga merkingu og hinn svokallaði frjálsi markaður hefur tekið við hlutverki heilags anda.
En hvað er manneskjan að fara, kann einhver að spyrja? Það er eðlilegt, umræða utanað- komandi, ég meina trúleysingja um andleg málefni er gjarnan tekin sem karp. Hvernig væri að gefa þjóðkirkjunni frí svo allir sitja við sama borð.
Er þetta ekki bara í fínu lagi?
Ég minnist tímabils þar sem fréttir um ævintýraleg tjaldferðalög ungmenna út í guðs græna náttúruna (sem oftast var grá) voru stórfrétt Ríkisútvarpsins. Unga fólkið tók sig saman og engin gat vitað fyrirfram hvar það lenti.
Þegar þessar fréttir voru fluttar, hugsaði ég. Þetta er leitandi fólk.
Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 14
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 190380
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar