Færsluflokkur: Bloggar

Hundalíf: Theobald og Þráinn Bertelsson

0B1DCB0B-1E37-475A-A333-90434355B4A0

Ekki veit ég hvernig þessi bók flokkast á bókasöfnum en í bókasafninu sem ég nota, Hljóðbókasafni  Íslands, eru hverri bók gefin efnisorð. Ég kíki gjarnan á þau þegar ég er að velja mér bók.    

Efnisorð Hundlífs eru:

Fyndni

Hundar

Íslenskar bókmenntir

Örsögur.

Sagan segir frá gönguferðum manns og hunds, þetta eru Þráinn og Theobald.  Þráinn er maður af norrænu kyni en Thobald er franskur bolabítur.  Þessi litla bók segir frá samtölum þeirra  í  gönguferðum í nágrenni Hafnarfjarðar. Það er Þráinn sem færir samtöl þeirra í orð, því Theobald orðar ekki hugsanir sínar. Ef ég hefði átt að velja efnisorð fyrir þessa bók, hefði heimspekileg umræða verið fyrsta efnisorðið. Ljóð hefði ef til vill líka fengið að fljóta með.  Ég sá strax mikla líkingu með samræðum þeirra félaga og  þeirri umræðuhefð sem kennd er við Sókrates. Mál eru krufin með því að spyrja spurninga. Nemandi spyr og Sókrates svarar með nýrri spurningu.Mér sýnist Þráinn og Theobald skiptast á um að vera Sókrates. Auðvitað finnst mér mest koma til hugmynda Theóbalds enda er sjónarhorn hans nýtt og um margt ólíkt því sem ég þekki úr mannheimum.

Um bóklestur minn.

Í jólabókaflóðinu kýs ég alltaf að vera með bland í poka. Í fyrsta lagi nýjar bækur til að vinna á stabba ólesinna bóka, í öðru lagi gamlar bækur sem ég þekki vel til að uppgötva eitthvað nýtt, sem hefur farið fram hjá mér, í þriðja lagi andlegar bækur, oftast ljóð. Eitthvað sem orkar beint á tilfinningar og smeygir sér fram hjá allri rökhugsun. Þannig er Hundalíf.

lokum

Ég er sjálf mikil útivistarkona, geng eða hjóla  hvern dag. Mér finnst þessa daga sem  ég hef verið að lesa Hundalíf að ég hafi gengið tvöfalt. Mér finnst sem sagt, að ég hafi á mínum ferðum, líka verið að ganga með þeim félögum í Hafnarfirði og hlýtt á tal þeirra.

Það er Sigurður Skúlason sem les bókina fyrir mig, hann gerir það listavel.    


Síðasta barnið: Guðmundur S. Brynjólfsson

 

8FDB015D-695E-4DE4-B7E1-B76D3B9AB364
Síðasta barnið

Nú hefur Guðmundur  S. Brynjólfsson lokið við síðustu bók sína í trílógíunni um sýslumannshjónin á Eyrarbakka, þau Eyjólf og Önnu. Sögurnar   gerast á í upphafi 20. aldar. Hún ber nafnið  Síðasta barnið. Tvær fyrri bækurnar hétu; Eitraða barnið og Þögla barnið. Það er best fyrir lesendur að lesa þær allar og í réttri röð. Þannig njóta menn best framvindu sögunnar í heild. Allar  segja þær frá lífi sýslumannshjónanna Eyjólfs og Önnu. Eyjólfur er veiklunda en velmeinandi  en Anna er heilsteypt og dæmalaust röggsöm. Í fyrstu bókinni var sagt frá fyrstu kynnum þeirra en ég skyldi ekki þá og því síður nú, hvað þessi glæsilega og gáfaða stúlka sá við manninn.

En ég ætla að reyna að halda mig við síðustu bókina. Nú er illmennið Kár Ketilsson komið til baka frá Englandi, fullur af hatri og staðráðinn í að hefna sín á sýslumannshjónunum.  Í fyrstu bókinni tókst þeim  að góma hann fyrir hrottalega nauðgun en honum tókst þá að sleppa.            

Kár er búinn að vera hjá lýtalækni í Englandi til að láta gera sig óþekkjanlegan. Hann er nú afskræmdur og enn ógeðslegri en áður, þótt vart væri á það bætandi. Við þessa sögu kemur einnig enskur maður, Harrington lávarður, en hann hafði hitt Kár í London meðan á Englandsdvöl hans stóð.

Ég ætla ekki hér að rekja efni bókarinnar, það kynni að skemma lestur fyrir þeim sem hafa enn ekki lesið bókina, en langar að telja upp hvað það er sem mér finnst höfundur bókanna gera sérstaklega vel. Það gerir mér gott að skoða bókina í því ljósi.


Þá er fyrst að telja eða tala um hvað Guðmundi tekst að draga fram það sem vekur hjá manni ógeð, svo sem vonska og ljótleiki. Því næst finnst mér hann vera meistari í að lýsa náttúrunni. Honum er einkar lagið að lýsa veðurfari, veðrabrigðum og færð. Hann er snillingur í að nota, ljós og skugga. Síðast en ekki síst finnst mér hann skapa lifandi og eftirminnilegar persónur. Ég nefni sem dæmi sýslumannshjónin, Harrington lávarð, Eyrúnu, alþýðukonuna sem fóstraði Önnu sýslumannsfrú. Lýsing hans á Eyrúnu er hrein perla. Loks langar mig að nefna lýsingu hans á drengnum Snorra. Hún er svo tær að mér finnst eins og ég myndi þekkja hann á götu ef ég mætti honum.  Ég ætla að stoppa þessa upptalningu hér, því það er of margt upp að telja. Þar að auki býr hann til skemmtilegar og eftirminnilegar týpur.  

En það sem einkennir þessa bók umfram allt er að þetta er ekki bara saga um glæpi og aldarfar, þetta er fyrst og fremst saga um líf og dauða. Um harm og  von.

 Ef bókin væri málverk, væri það málað í sterkum litum og ég sé söguna frekar fyrir mér sem teiknimynd en kvikmynd. Það sem Guðmundur gerir þó  allra best er, hvernig hann lýsir lífinu við upphaf 20. aldar. Hjá háum og lágum.

Vangaveltur  um  illskuna

Eini efinn sem ég sit með eftir lestur bókarinnar, er hvernig hann lýsir glæpamanninum. Hann er djöfull, illskan sjálf. Ég hef tilhneigingu til að leitast við  að dæma gjörðir manna frekar en manninn sjálfan. Og vona síðan í lengstu lög að eitthvað gott leynist með hverjum manni.  En þessar vangaveltur snúast trúlega frekar um heimspekilegar og/eða trúarlegar hugmyndir en um bókmenntalega hugsun.  En Kár Ketilsson er vissulega sterkur fulltrúi hins illa og á vel heima í glæpasögu sem máluð er í sterkum litum.

Höfundur les söguna sjálfur og gerir það frábærlega vel.


Hansdætur: Benný Sif Ísleifsdóttir

A7E9D84C-11D1-4CA1-B05B-01E1186F9FEBHansdætur

Það er nokkur tími umliðinn síðan ég skrifaði síðasta bókapistil en ég  er ekki hætt að lesa. Ég veit ekki hvað kemur yfir mig þegar bókaflóðið skellur á í aðdraganda jóla, ég fer í algjöran baklás og á í erfiðleikum með að lesa nýjar og spennandi bækur. Þess í stað les ég gamlar bækur sem ég  þekki og treysti. Nú hef ég þegar lesið Eyrbyggju og Laxdælu og hafið lestur á Sturlungu. Meira um þessar góðu bækur síðar.

En ég  er samt búin að lesa/hlusta á nokkrar nýjar. Þar á meðal er bókin Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Ég hef ekki lesið neitt eftir hana áður en veit að þetta er ekki fyrsta bókin hennar. Sagan Hansdætur er látin gerast í sjávarþorpi á Vestfjörðum í upphafi 20. aldar. Þar segir frá lífsbaráttu fjölskyldu.  Fjölskyldumóðirin  hefur eignast þrjú börn með þremur mönnum. Elsta barnið er drengur sem farinn er að vinna fyrir sér en dæturnar tvær Sella og Gratíana eru enn krakkar. Í fjölskyldunni er líka amma barnanna.

Þegar sagan hefst er fjölskyldan að flytja búferlum, úr saggafullum vistarverum, vart íbúðarhæfum í þokkaleg húsakynni í eigu móðurbróður barnanna. Hann er ritstjóri bæjarblaðsins. Ástæðan  fyrir því að hann býður systur sinni að búa hjá sér er fyrst og fremst sú að eiginkona hans er veik og getur ekki sinnt um sjálfa sig hvað þá um  mann og börn.

Aðalpersóna bókarinnar er Grataína. Hún er full sjálfstrausts og tekur ekki mark á ríkjandi hugmyndum um stéttaskiptingu eða stöðu kvenna. Hún hrífst af móðurbróður sínum og fær meira að segja að aðstoða hann í vinnunni við blaðið.

Ég ætla ekki að rekja söguna lengra hér,  enda er það ekki söguþráðurinn sem hrífur mig  mest þegar ég les þessa bók, heldur hvernig sagan er sögð. Benný Sif er góð í að lýsa innra lífi, hugarheimi aðalpersónu sinnar, Gratíönu. Og hún leikur sér með orð.

 Mér verður hugsað til annarra rithöfunda sem fjallað hafa um upphaf 20. aldar, þeir eru fjölmargir. Og stórir. Ég hika við að nefna nöfn. Mér finnst þó að ég geti fullyrt að Hansdætur minna meira á Önnu í Grænuhlíð en Sölku Völku eða 100 kíló af sólskini.

Það var gaman að lesa þessa bók og vona að það verði framhald. Og er reyndar næsta viss um það. Það er ekki hægt  að skilja svona við söguhetjur sínar. Í algjörri  óvissu.

Höfundurinn les bókina sjálf inn sem hljóðbók og gerir það vel.


Stúlka : Edna O´Brien

69301CC7-C324-4C67-BE72-A256F6A19F58
Stúlka

Sannleikurinn á bak við fréttina.

 

Það fór ekki mikið fyrir fréttinni, þegar sagt var frá ráninu á stúlkunum  í heimavist stúlknaskólans í Norðaustur  Nígeríu. Það var skæruliðahreyfingin Boko  Haram sem nam þær á brott um miðja nótt. Gæti tengst Ísis hugsaði ég, maður veit svo lítið um þetta stóra land, Nígeríu. Það litla sem ég veit hef ég fengið  í gegnum bóklestur. Hálf gul sól eftir Chimamanda Ngozi Adichie (íslensk þýðing Ingunn Ásdísardóttir)  og Purple Hibiscuseftir sama höfund opnuðu mér sýn. Og var ekki  bókin Allt sundrast eftir Chinua Achebeeinmitt þaðan?

Saga úr nútíðinni

Sagan Stúlka er svo sannarlega fræðandi. En sá fróðleikur felur í sér  sannleika sem erfitt er að meðtaka. Það er nístandi að hugsa um líðan stúlknanna. En það er enn voðalegra að hugsa um hvernig menn geta unnið slík grimmdarverk. Auðvitað er stríð alltaf voðaverk, þetta verður einhvern veginn enn hræðilegra, þegar menn níðast á börnum augliti til auglitis.     Ég er ekki að mæla hernaði bót sem er fjarstýrt án þess að horfast í augu við fórnarlömbin.  Ara ýta á takka. Síður en svo.  

Ég veit ekki hvað varð til þess að  Edna O´Brien ákvað að skrifa bók um þennan atburð og lífsreynslu þessara stúlkna.  Ég gæti ímyndað mér að ástæðan væri einfaldlega mannkærleikur.

Til að undir búa sig las allt sem hún komst yfir að lesa, hún heimsækir landið og hún fær að hitta stúlkur sem höfðu komist lifandi úr prísundinni. Síðan ákveður hún að skrifa sögu einnar stúlku á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur aflað sér.

Saga stúlku

Stúlkan Maryam er skálduð persóna.Maryam er ósköp venjuleg stúlka, hún er góður námsmaður, foreldrar hennar hafa ákveðið að kosta hana til náms og hún hefur fengið verðlaun fyrir ritgerð sem hún skrifar. Ritgerðin er um skóg. Hún er trúuð. Þegar Maryam er rænt verður algjört rof í lífi hennar. Hún er þrælkuð, misþyrmingar og nauðganir verða hluti af daglegu lífi hennar. Hún er látin giftast og hún eignast barn. Og er sjálf barn. Þegar henni tekst að flýja, þarf hún að takast á við sult og er að dauða komin þegar velviljaðir hirðingjar bjarga henni. Þessir bjargvættir þora síðan ekki að hafa hana hjá sér af því þeim stendur svo mikil ógn af Boko haram – skæruliðunum.

Sagan er sögð í fyrstu persónu. Stúlkan sem segir  söguna, romsar henni upp. Það er eins og hún haldi ómanneskjulegri fjarlægð frá efninu svo sagan verður í aðra röndina eins og skýrsla. Hvernig er hægt að lýsa því ólýsanlega?

Ég átti erfitt með að lesa/hlusta á þessa bók. Mér fannst það á vissan hátt óbærilegt. En um leið fannst mér að það hlyti að vera skylda mín að horfa á sannleikann á bak við fréttirnar sem ég hlusta á til að  þykjast  vera upplýst. Ég tók því bókina í áföngum og passaði upp á að lesa  hana ekki undir svefninn.

Hvaðan kemur illskan?

 Hvernig á ég sem bara hef kynnst góðu fólki að vita þetta? Ég kann söguna um skilningstré góðs og ills, um Evu sem „tældi“ Adam til að borða eplið. Getur verið að það sé eitthvað til í því að maðurinn sé einfaldlega ekki fær um að stjórna gjörðum sínum? Og þó finnst mér það vera allt of mikil svarsýni að álykta sem svo. Ég vil trúa því að maðurinn sér fær um að gera rétt, taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Þessi litla saga, Stúlka¡, er hvatning til okkar allra að láta ekki sem við stöndum utan við það sem er að gerast og berum ekki ábyrgð. Hún er hvatning til okkar að skyggnast um  og leita að því litla sem við getum gert til að bæta heiminn. Bókin var gefandi þrátt fyrir að hún væri bæði átakanleg og hræðileg.

Örstutt um höfundinn

Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég áttaði mig á því hver var höfundur bókarinnar Stúlka. Þetta er Edna O´Brien, sem ég kynntist þegar ég var ung. Ég las tvær bækur eftir hana en réði ekki almennilega við það því ég var þá óvön að lesa ensku. Edna er frá Írlandi , fædd 1930. Það er hægt að skoða viðtöl við hana  með því að googla nafnið. 


Bölvun múmíunnar ! Fangar á hafsbotni: Ármann Jakobsson

217A2B66-44AE-48AA-8832-BA2BA15CDC44
Bölvun múmíunnar 2

Í fyrri bók Ármanns um bölvun múmíunnar er sagt frá unga fólkinu Júlíu, Maríu og Charlie, sem er rétt að verða fullorðið. Þau hafa stofnað með sér leynifélag til að leysa ráðgátur. Þetta eru skemmtilegir krakkar , sem eiga  það sameiginlegt að vera forvitin. Að öðru leyti eru þau ólík, með sitt sérsvið hvert og eitt. Júlía er tilfinningaveran, María skynsemisveran og Charlie er  tölvunördinn, finnur allt á netinu sem vert er að vita.

Sögusvið fyrri (fyrstu?) bókarinnar er fornminjasafn en þar búa mæðgurnar Júlía og móðir hennar. Í fyrri bók er búið að ræna afar dýrmætum safngrip, þ.e. múmíu Hóremhebs faraós sem var uppi á tímabilinu 1315 til 1292fyrir Krist. 

Auk þess var Júlíu rænt sjálfri. Það var reyndar sviðsett rán en jafn bölvað fyrir því meðan á stóð.

Síðari bókin hefst á því að börnunum er boðið með í heimssiglingu, þeim veitir ekki af því að létta sér upp,  eftir  allt sem á hefur dunið.

Múmía Hóremhebs er enn ófundin . Með í för fræg leikkona, sem er vinkona móður Júlíu. Hún á að líta til með unglingunum af því móðirin sjálf er veik. Þar eru líka Paganell prófessor, sá sem fann múmíuna og eldgaamall,moldríkur auðmaður. Þrímenningarnir eru enn   uppteknir af múmíuhvarfinu og í þeirra augum liggja allir, eða því sem næst undir grun. Á skipinu eru yfir 2000 manns.

Og ekki líður á löngu áður en skrattinn er laus. Börnunum er rænt og nú í alvöru.

Það sem eftir er bókarinnar gerist neðansjávar.  

Um svipað leyti og börnunum er rænt, breytist stíll og taktur bókarinnar. Þessi hluti hennar líkist mest ævintýralegum  vísinda - kvikmyndum sem ég horfði á með sonum mínum í gamla daga og hafði lítið gaman af. Það spretta fram lífshættuleg átök. Ég ætla ekki hér að segja neitt um hver var með hverjum eða hver var óvinur númer eitt. Slíkt á ekki við þegar verið er að fjalla um spennusögu.

Ég yrði ekki hissa þótt enn kæmi ein bók um þríeykið.

Það sem mér finnst skemmtilegast við þessar bækur er að þær eru lúmskt fyndnar. Mér finnst líka gaman að lesa um þegar unglingarnir eru að alhæfa. Sérstaklega þegar þau álykta um samfélagið sem þau búa í. Sem við búum í.

Lokaorð

Þótt það komi efni þessarar bókar lítið við er ég næstum viss um að hún hefur kviknað þegar höfundurinn var að hlusta á viðtal við Þórarin Eldjárn.  Hann var að segja frá uppvexti sínum í Þjóðminjasafninu. Og eitthvað minntist hann á beinagrindur.

 ...


Jaan Kross: Vitfirringur keisarans

3C7762EC-6579-435F-85E7-6A4E364129F4
Daglega fylgist ég með nýjum bókum sem bætast við á Hljóðbókasafni Íslands, Blindrabókasafninu. Ein af bókunum sem bættist við nýlega er Vitfirringur keisarans eftir Jaan Kross.

Oftast bætast nýjar bækur við safnið en allt í einu birtist bók sem er frá 2002.

Hún er þýdd af Hirti Pálssyni og það er hann sjálfur sem les.

Langt ferðalag

Þetta líst mér á, hugsa ég, og vel hana sem næstu bók.

Vitfirringur keisarans er löng bók (20 klukkustundir í hlustun). Hún er eftir eistneska rithöfundinn Jaan Kross (fæddur  1920,  dó 2007). Hún kom út í heimalandi hans 1978 og á Íslandi 2002.  

Þetta er söguleg skáldsaga sem gerist í Eistlandi á fyrri hluta 19.aldar. Landsvæðið sem nú er  Eistland  heyrir þá undir Rússakeisara.  Sagan segir frá ungum aðalsmanni Timo Brock, sem tekur hlutverk sitt sem eiðsvarinn trúnaðarmaður keisarans svo alvarlega, að honum finnst hann þurfa að   segja honum  sannleikann. Þ.e. hvað hann telur að sé best fyrir fólkið í landinu. Höfundur leggur frásöguna í munn Jakobs, sem er mágur herra Timo Brocks. Hann og systir hans Eva koma  úr bændastétt. Á þessum tíma var fáheyrt að aðalsmenn kvæntust bóndadætrum enda  voru bændur enn í ánauð og ekki sjálfs sín ráðandi.

Keisarinn launar unga aðalsmanninum hreinskilnina með því að halda honum í níu ára fangelsi. Skyldi það vera tilviljun að það er nokkurn veginn jafn langur tími og höfundur þessarar bókar þurfti sjálfur að afplána í fangelsum Sovét? Fyrst í Tallin og síðar í Gúlakbúðum í Vorkúta.

Að lesa þessa bók er  meira en lestur. Það er eins og að fara i rannsóknarleiðangur til framandi lands. Stundum finnst mér að það hefði verið betra að hafa einhvern með mér. Kannski á ég eftir að fara á þessar slóðir þegar smithættan verður minni. Og þá ferð myndi ég ekki fara ein. Það er gott að láta sig dreyma.

En aftur til Jaan Kross. Útgáfa þessarar miklu bókar fór fram hjá mér á sínum tíma, enda enn að vinna og að reyna að standa mig. Mér finnst því mikill fengur í að rekast á hana núna. Og auðvitað kom þýðingin of seint fyrir okkur Íslendinga, því þá var áhugi manna minni hér en meðan Eistland var enn fórnarlamb.

En það er ekki neinn vafi á að boðskapur þessarar bókar vísar út fyrir efni hennar. Það er sorglegt að þurfta að horfast í augu við að það er enginn skortur á einvöldum og harðstjórum í henni veröld.

Sjálfsagt hafið þið mörg hver,lesendur mínir, lesið bókina þegar hún kom út á sínum tíma en ég mæli með henni fyrir ykkur hin. Það  er eitthvað alveg sérstakt við að lesa langar bækur. Það er örlítið eins og að búa á svæðinu.

 


Sendiboðinn: Yoko Tawada

CDA30485-FF7D-4530-A8E0-29376F8AEE35
Bókin, sem ég var að lesa/hlusta á heitir Sendiboðinn og er eftir Yoko Tawada (fædd í Japan 1960)

Ég hef aðeins velt því fyrir mér að létta mér lund, á erfiðum tímum  og lesa léttar og ljúfar bækur. Engu að síður hef ég sjaldan eða aldrei lesið jafn margar bækur sem fjalla um erfiðleika og  vonleysi. Já og bækur sem þarf virkilega að hafa fyrir til að geta skilið þær. En ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með neina þeirra því mikið fæst ekki fyrir lítið þegar kemur að bóklestri.

Ástæðan fyrir því að ég valdi Sendiboðann eftir Yoko Tawada, var  fyrst og fremst sú að hún er gefin út af Angústúru. Bækur frá Angústúru þarf maður að lesa, því þær eiga við mann erindi . Ég hafði ekki kynnt mér efni hennar og þekkti ekki höfundinn. En eftir að ég var komin dálítið  inn í efnið, sá ég að hér er á ferðinni saga sem gerist í náinni framtíð.  Aðstæður í heiminum hafa breyst.

Gamall maður Yoshiro annast langafabarn sitt, drenginn Mumei. Sagan gerist í Japan og landið er einangrað og fjölmargt sem við höfum litið á sem sjálfsögð þægindi er ekki lengur til staðar. Sími og sjónvarp eru ekki lengur í boði. Sama á við um öll heimilistæki

nema ísskápa. Þeir eru snúrulausir og knúnir sólarorku.Dýrin eru líka flest horfin. Það er reyndar hægt að leigja sér hund til að fara með í göngutúr. Sömuleiðis hefur gróður jarðar tekið miklum breytingum. Gamli maðurinn, Yoshiro, sem annast Mumei, er  fullur sektarkenndar,  

hann telur að umhverfisbreytingar séu hans kynslóð að kenna. Yngsta kynslóðin þekkir ekkert annað líf. En þau eru líkamlega fötluð og veik  og þroskast ekki eðlilega. Ég las þessa bók til enda og fannst ástandið eðlileg afleiðing af því lífi sem við lifum. Auðvitað hrynur lífríkið, ef við höldum áfram að menga jörðina jafn mikið og við gerum í dag, hugsaaði ég. Og ég get ekki séð að neitt sé að breytast til batnaðar, hugsa ég áfram. Sakbitin eins og langafinn Yoshiro.

Í lok bókarinnar er eftirmáli sem segir frá höfundi og tilurð bókarinnar. Þar kemur fram að efni hennar  vísar sérstaklega til þess sem hefur verið að gerast í Japan. Og þó fyrst og fremst   til kjarnorkuslyssins sem varð 11. mars 2011 í Fukushima.  Mér fannst fróðlegt að lesa eftirmálann. Auðvitað er gott að skilja bækur réttum skilningi.

En mér fannst engu að síður gott að fá þessar útskýringar ekki fyrr en  í bókarlok,  því það varð til þessa að tók efnið meira til mín.  Bókin fékk breiðari skírskotun. Allt lífríki jarðarinnar er í hættu.

Lokaorð

Það var gaman að lesa þessa bók, þrátt fyrir ónotalegan boðskap hennar. Ég naut þess að lesa hana, fann ekki til kvíða þrátt fyrir hroðalega framtíðarsýn. Vesalings jörðin.   Ég held að ástæðan sé að bókin er svo skemmtilega skrifuð, höfundur leikur sér með merkingu orða og með hugmyndir. Það er ekki síður ánægjulegt að samskipti fólksins í sögunni eru jákvæð. Langafinn er elskulegur kall, drengurinn Mumei er sömuleiðis vænn drengur.  Það er hægt að tárast yfir hlutskipti hans.

Tvennt í viðbót.

Það er Sólveig Hauksdóttir sem les bókina og hún skilar því verkefni vel. Það er vandaverk, því  þrátt fyrir allar áhyggjurnar  af framtíð heimsins, sem bókin vekur,  er hún fyndin.

Hitt sem ég ætlaði að minnast á er að þýðingin hlýtur að vera góð, það er svo mikil kúnst að koma orðaleikjum til skila af einu tungumáli  yfir á annað.

Það hefur ein bók komið út áður eftir þennan höfund. Hún heitir Etýður í snjó og kom út  2018 í þýðingu Elísu Bjargar. Mig vantar svo sannarlega ekki lesefni.   


Peter Handke: Óskabarn ógæfunnar

1FF8CF6F-659B-4498-A5AC-AB10E2D0C9BA

Það er ekki allt slæmt við kóvít. Ég hef t.d. aldrei lesið meira af góðum bókum.

Nú hef ég  lokið við að lesa/hlusta á  bókina Óskabarn ógæfunnar eftir nóbelsverðlaunahafann  Peter Handke og ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa henni. Óttast að það sé ekki á mínu valdi.En reyni samt.

Þetta er stutt bók, tekur rúmlega 2 tíma í hlustun. Það er Sigurður Skúlason sem les, hann er frábær lesari.

Ógæfusama konan, sem titillinn vísar til, er María,  móðir Handkes.  Hún er nýlátin, tók líf sitt ríflega fimmtug.  Höfundur segir að hann langi til að skrifa um hana, „enginn þekkti hana betur en ég,“ segir hann. En hann er um leið að skrifa um sjálfan sig, líf þeirra blandast saman. Og um leið veltir hann fyrir sér hvernig  hægt sé að fjalla um  þetta efni. Allt í einu er ég farin að hugsa um minningargreinahefð okkar Íslendinga. Í raun er þetta bara löng minningargrein.Löng hreinskilin minningargrein.

Bókin er stutt og ég undrast, hvernig hægt er að segja svo margt og innihaldsríkt í fáum orðum.

Hann lýsir sorginni,  dofanum sem  heltekur hann. Og hvernig honum líður skást þegar skelfingin tekur yfir, því hún er raunveruleg og sönn.

 

Hann segir frá afa sínum sem var kominn af fátækum leiguliðum  en finnur frelsið, þegar hann eignast jörð og hélt hann gæti aukið frelsi sitt með því að spara og eignast meira til að auka frelsi sitt. Verðbólgan tók sparnaðinn. Hann sér ekki gagnsemi eða frelsi í því að kosta börnin sín til mennta. Og svo kom stríðið og tók sinn toll, tvo syni.

Handke lýsir móður sinni Maríu sem konu án tækifæra.En þetta er ekki bara saga hans og móður hans. Þetta er saga sem lýsir pólitík, stríði og meiri pólitík. Ég hef hvergi séð betur fjallað um hvað var svo hrífandi við nasismann. Þegar móðir hans hlustaði á áróður nasista fannst henni í fyrsta skipti að einhver talaði til hennar og að hún væri eitthvað. Að hún væri hluti af hóp og gæti verið stolt.

Í örfáum orðum segir Handke frá lestri Maríu og samtali þeirra um bækur. Hún bar líf söguhetjanna alltaf saman við sitt eigið líf, eins og bækurnar væru um hana. Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði einmitt verið að gera þetta sjálf.  Peter Handke er jafnaldri minn, fæddur 1942. Ég var að hugsa um að móðir  hans hafi verið á aldur við mömmu mína. Ekki hafði hún mikil tækifæri í lífinu, alin upp í stórum barnahóp á heiðarbýli, án samgangna og rafmagns.  Og án skólagöngu. Aldrei hugsa ég þó um hana sem konu án tækifæra. Svona róta góðar bækur upp í manni.  

Það er merkilegt hvernig höfundi tekst að fjalla um svo margt  í  lítilli bók. Ég vildi að ég gæti útskýrt það með því að textinn sé knappur. En mér finnst það ekki. Það er bara engu orði ofaukið.

Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Peter Handke. Hún er þýdd af Árna Óskarssyni. Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðinguna  en einhvern veginn finnst mér að hvert orð sé nákvæmlega  á réttum stað.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem kemur út í íslenskri þýðingu. Áður hefur komið út bókin Barnasaga í þýðingu Péturs Gunnarssonar 1987. Þetta vissi ég ekki en er auðvitað búin að lesa hana. Meira um hana seinna. Það er þegar ég er búin að lesa hana aftur.   


Landbúnarráðherra tekur heimspekilegan sprett

CF655497-2F75-49BA-BA17-87D4BE3BF7AB
Þetta var haft eftir landbúnaðarráðherra í gær:

"Talandi um frelsi sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu. Það er svona fyrsti kosturinn sem að við getum sagt að fólk hafi frelsi um að velja. Ég held að það sé engin goðgá að ætla það menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta er meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu.“  

 Ekki veit ég hvað  landbúnaðarráðherra var að  hugsa þegar hann lét þessi orð falla í gær á Alþingi.

Er hann kannski nýbúinn að lesa hugleiðingar Tolstojs um bændaánauðina í Rússlandi og hugur hans enn þar? Er hann að vísa til bókarinnar Kúgun kvenna eftir Stuart Mill.? Helmingur bændastéttarinnar eru  jú  konur.

Nei ég held að hann hafi tekið Lúther á þetta. Maðurinn er frjáls en með leiðsögn frá Guði.

En ef þetta er Lúther og nú satt og rétt hjá Lúther, hvers vegna gildir þetta ekki um annan atvinnurekstur?

Satt best að segja finnst mér eðlilegt að afgreiða þetta sem bull og það á landbúnaðarráðherra ekki að komast upp með. Hann er ekki réttur maður á réttum stað.

Myndin er úr Kverinu sem ég lærði, Veginum eftir Jakob Jónsson. Hún heitir Sáðmaðurinn


Bölvun múmíunnar: Doktor Ármann Jakobsson

E37084E6-88E7-4512-B26B-C3EEAD177908
Eftir að hafa lesið/hlustað á bókina  Beðið eftir barbörurunum,  , fannst mér rétt að velja mér lesefni sem tæki ekki eins mikið á mig. Fyrir valinu varð unglingabók eftir doktor Ármann Jakobsson . Bölvun múmíunnar; Fyrri hluti; Njósnasveitin og leynisöfnuðurinn QWACHA.

Bókin er kynnt sem unglingabók, söguhetjurnar Júlía, María og Charlie eru enn á skólaaldri (skólinn kemur þó ótrúlega lítið við sögu). Það er Júlía sem segir söguna. Hún býr í  fornminjasafni með móður sinni sem vinnur við safnið. Þegar sagan hefst,  hefur  forn  múmía  bæst við safnkost egypsku deildarinnar, þ.e. sjálfur Hóremheb ríflega 4000 ára gamall. Múmíunni fylgir sá orðrómur að   á henni hvíli  bölvun. Að þeir sem gæti hennar verði fyrir slysum,  jafnvel dauða. Það er mikið fjallað  um múmíuna í fjölmiðlum. Og auðvitað fer ýmislegt að gerast. Auk barnanna koma við sögu starfsmenn safnsins og enn síðar, eftir að undarlegir hlutir fara að gerast, verðir sem eiga að gæta múmíunnar. Það sem mér finnst aðall Ármanns er hvað hann er góður að skapa persónur og hvernig hann speglar samtímann í bókum sínum. Þessi er engin undantekning en það sem gerir hana þó sérstaka, er að sagan gerist ekki á Íslandi, heldur í einhverju öðru Evrópulandi. En auðvitað reynir hugur lesandans að staðsetja hana, það er eðli hugans. Sú sérstaka glíma er óvinnandi og kemur spennu sögunnar ekki við. Ég veit ekki hvort mér finnst það kostur eða ókostur.

 Mér fannst þetta bæði spennandi og skemmtileg bók. Hún er líka fróðleg því unglingarnir þrír eru þeirrar gerðar að þau ræða sín á milli um mikilvæga hluti og taka afstöðu.

Auðvitað gerist það sem allir óttast, þessari bók lýkur á að Hóremheb er stolið. En þetta er bara fyrri hluti. Ég veit að seinni hluti er kominn út en   

hann er ekki komin á hljóðbók. Ég bíð spennt.

Hvernig vitjar bók lesanda?

Hluti af lestrarupplifun ræðst af því hvernig bókin hittir mann fyrir.  Þessi bók hitti vel á mig, það er ekki nema eitt og hálft ár síðan  ég var í Egyptalandi og skoðaði fornar rústir, pýramída og konungagrafir. Auk þess sem ég gekk um hið víðáttumikla fornminjasafn Kaíró með leiðsögumanni og fannst það litla sem ég kunni í sögu væri komið í einn graut í höfðinu á mér. Ein múmía er nægur dagsskammtur fyrir mig. Mér fannst merkileg upplifun fyrir mig , komna frá sögueyjunni Íslandi að meðtaka sögu þar sem hugsað er í þúsundum ára. 

Myndin er af minjagrip frá Egyptalandi og sýnir hina heilögu scarib-bjöllu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 189890

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband