24.3.2017 | 18:36
Utan þjónustusvæðis: Ásdís Thoroddsen
Um leið og Ásdís Thoroddsen var búin að segja frá bók sinni Utan þjónustusvæðis í Kiljunni var ég búin að ákveða mig. Þessa bók verð ég að lesa. Þó varð dráttur á.
Það er betra að hafa athyglina í lagi
Í fyrstu gekk mér erfiðlega að henda reiður á atburðarásinni, ég tók ekki nógu vel eftir venslum og ætterni persónanna. Það hvarflaði að mér að búa mér til ættar- og tengslatöflur, eins og ég geri við lestur Íslendingasagnanna. En til þess kom ekki, það nægði að taka vel eftir hver tengdist hverjum.
Þessi kvíði minn um ættartölustagl, var óþarfur. En hugmyndin varð til þess að kveikja á því, að ég fór að bera frásagnarmátann saman við Íslendingasögurnar.
Mannleg samskipti minntu óneitanlega á Sturlungu (kannski væri réttara að tala um kar-lmannleg samskipti). Menn útkljá mál með ofbeldi og safna liði ef með þarf.Undirskriftalistinn er liðsöfnun nútímans. Drifkraftur framvindunnar er reyndar ekki auður og völd, heldur slúður. Einkum kvenna. Það leiddi hugann að annarri góðri bók, Njálu. Samtal tveggja kvenna á kennarastofunni, sem sú þriðja heyrir óvart, verður kveikja að báli, Minnir á Gísla sögu Súrssonar.
En það er best að snúa sér að efninu. Aðalpersóna sögunnar er tvímælalaust Heiður kennari. Hún er reyndar ekki með kennarapróf, hún er leiðbeinandi og sambýliskona skólastjórans, Kristjáns. Henni gengur vel að kenna. Þar að auki stýrir hún kórnum. Í gegnum sönginn hefur hún náð að láta litla stúlku, sem býr við erfiðar aðstæður, blómstra. Heiður hefur auk þess tekið ábyrgð á unglingsstúlku, Þórunni, að sunnan, sem Barnaverndarnefnd þurfti að koma burt úr spillingunni.
En fólkið í sveitinni kann ekki að meta Heiði. Í fyrsta lagi heldur hún við mætan bónda, í öðru lagi er hún afskiptasöm, vesenast í því sem henni kemur ekki við og í þriðja lagi er hún stórskrýtin. Klæðir sig afkáralega og er með hænur.
Þótt sagan gerist í fámennri, afskekktri sveit, vantar ekki frásagnarefni. Unglingsstúlkan, fósturbarn Heiðar, er sérstök,hún er líka í uppreisn og reið við allt og alla. Við stærsta fyrirtæki sveitarinnar vinna Pólverjar. Þeir búa sér í húsi sem vinnuveitandinn hefur skaffað þeim og blandast ekki fólkinu. Enda ekki til þess ætlast, þeirra hlutverk er að vinna. En hver segir að Pólverjum henti best að búa saman út af fyrir sig? Ungi geðþekki maðurinn Pavel er dauðhræddur við Jarosav og ekki að ástæðulausu. Fortíðin á eftir að vitja Jarosavs. Framtíðin bíður Pavels. Örlög fólks geta ráðist í byggðarlagi, þótt það sé utan þjónustusvæðis. Þetta er bók um örlög.
Ég sé að það skilar sér ekki, að tala um persónur og rekja atburði tekna úr samhengi, í þessari bók. Hún er þéttriðið net, fortíðin skiptir ekki minna máli en hér og nú.
Að endingu finnst sveitungunum að Heiður hafi gengið of langt, henni er sagt upp við skólann. Og lyddan, Kristján skólastjóri, lætur það viðgangast. Sambúðin var fyrir löngu farin að trosna, hún elskar annan og hann er búinn að kynnast nýrri.
Nei, það gengur ekki að endursegja þessa sögu. Mér finnst hún sönn af því að höfundi tekst að segja sögu um fólk sem ekki hefur verið sögð áður. Ég er kröfuhörð og ég þekki vel þennan vettvang. Líf mitt hefur snúist um skólamál, bæði í þéttbýli og í hinum dreifðu byggðum. Ég var ekki alveg viss um að krónólógían væri rétt. Átti Heiður að tala við fulltrúa Menntamálaráðuneytis eða sveitastjórann, þegar allt var komið í óefni? Grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna 1996. Smámygli aðvara ég sjálfa mig, skiptir ekki máli.
Mér líkar vel við þessa bók. Allar persónurnar eru vel dregnar og hún speglar raunveruleika, sem alltof lítið hefur veið fjallað um, vanmátt einstaklings þegar almenningsálitið kveður upp sína illa ígrunduðu dóma. En hún er full af hlýju.
Sagan gerist í afskekktri sveit og þannig las ég hana. En hver segir að sagan vísi ekki út fyrir sig. Kannski er afskekkta sveitin Ísland? Þegar ég máta skúrkana inn í þessa hugmynd, verður sagan enn kröftugri.
Eftirmáli
Að lestri loknum fann ég til söknuðar. Mig langaði til að dvelja lengur í heimi bókarinnar. Ég held ég hafi loksins uppgötvað hver er munurinn á góðum og vondum bókum. Ef bókin er góð, vill maður helst að hún taki engan endi, ef hún er slæm, bíður maður óþolinmóður eftir að henni ljúki. Ég var einmitt að klára eina slíka. Meira um það í næsta pistli.
Fyrst langaði mig í framhald. Svo rann það upp fyrir mér, að mig langar frekar í bók um fortíð þessara persóna.
Af hverju tók ekki hin hæfileikaríka Heiður kennarapróf?
Af hverju brotnaði vasinn sem minnti Heiði á svik Kristjáns?
Af hverju var unglingurinn Þórunn svona hræðilega reið?
Og hvað var eiginlega í gangi á Króki?
Það var Ásdís sjálf sem las bókina (en ég þarf hljóðbækur vegna sjónarinnar). Hún les prýðisvel.
Mitt fyrsta verk eftir að hafa kvatt heim Utan þjónustusvæðis, var að hringja í systur mína, dreifbýliskonuna, til að segja henni, að þessa bók yrði hún að lesa.
Mér finnst bókin ekki hafa hafa fengið verðskuldaða umfjöllun fjölmiðla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2017 | 20:51
Snjókarlinn: Jo Nesbø
Ég nota bækur eins og pillur. Oft vel ég mér lesefni út frá líðan minni. Þegar ég var búin að lesa tvær bækur eftir Sofi Oxanen, ákvað ég að lesa eitthvað létt og spennandi.
Ég hafði heyrt mikið hrós um Norðmanninn Jon Nesbø (fæddur 1960). Hann er enn þá betri en Arnaldur, heyrði ég sagt í bókmenntaþætti. Ég valdi hann. Það er gott að byrja á að lesa Snjókarlinn, sagði maðurinn minn.
Ég fann Snjókarlinn inn á Hljóðbókasafninu, það er Hjálmar Hjálmarsson sem les. Hann kemur vel til skila kaldrifjuðu lesefni. Bókin tekur 16 tíma í afspilun. Ég las mér til um bókina,þetta er 7. bókin í ritröðinni um Harry Hole. Það hefði kannski verið betra að byrja á byrjuninni.
Örstutt um efnið
Kona hefur horfið. Oftast skilar horfið fólk sér sjálft til baka, er sagt hjá lögreglunni. En þessi gerir það ekki og þegar Harry fer að skoða málið kemst hann að því,að óeðlilega margar konur hafa horfið. Hjá honum vaknar grunur um að um raðmorð sé að ræða. Nýi samstarfsmaðurinn hans Katrine frá Bergen er kynþokkafull og snjöll. Ekki veitir af því, fljótlega vindur málið upp á sig.
Frásagan er spennuþrungin. Það eru líka miklar sviptingar innan lögreglunnar. Sér ekki þessi Harry Hole hvaðeina sem raðmorð, það er sérsvið frá náminu í Ameríku. Þegar hringurinn fer að þrengjast, eykst enn spennan. Að lokum verður spennan næstum óbærileg. Harrý er ekki bara góður að púsla saman og finna mynstur, hann er knár. Í lokinn sýnir hann takta sem James Bond gæti ekki leikið eftir.
Ekki raðmorð. Takk
Þrátt fyrir þetta allt og þrátt fyrir lipra frásögn, er þetta ekki mín tegund af glæpasögum. Ég er á móti raðmorðabókum, því þær byggja á því að morðinginn sé geðveikur. Ég held að flest morð séu framin af venjulegu fólki. Fólki eins og mér og þér, lesandi góður. En hvað er venjulegt? Ég efast um að raðmorð sé útbreytt vandamál. Sem betur fer. Og ég held að ef geðveikir á annað borð myrði fólk, þá séu fjöldamorð líklegri. En þau passa illa sem afþreyingarefni. Mér leiddist líka persónan Harry Hole, eilíft stress og ekki bætti úr skák þessi stöðuga löngun hans í áfengi. Auk þess fannst mér persónusköpunin heldur grunn. Nei, þá kýs ég frekar Erlend hans Arnaldar okkar.
Nú hef ég næstum því samviskubit yfir því að líka ekki við bókina. Ég hef hlýjar taugar til Noregs síðan ég var þar við nám, þá hefur höfundur bókarinnar verið 12 ára. Mér líkar vel við Norðmenn og fæ smá fortíðarþrá þegar ég kann enn að fylgja kennileitum í Ósló. Og svo er ég auðvitað búin að lesa mér til um Nesbø og kann vel við persónuna. Hann hóf feril sinn sem rokkari og er enn að (held ég). Auk þess hef ég séð eina ef ekki tvær glæpamyndir byggðar á verkum hans.Er í lagi að nota orðið verk um glæpasögur?
Slæmt að mér skyldi ekki falla við Snjómanninn. Ég reyni að friða samviskuna með því að finna lög með Nesbø á youtube..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2017 | 18:01
Fallinn frá: Torgny Lindgren
Daginn eftir morðið á Olof Palme (28. febrúar 1986) sat ég full eftirvæntingar í Norræna húsinu og beið eftir tveimur Svíum. En þó sérstaklega einum. Þetta voru Torgny Lindgren og Lars-Olof Franzén. Það var Torgny sem ég var komin til að hlusta á. Biðin var óeðlilega löng. Loks birtust tveir menn, þeim var brugðið. Franzén sagði okkur að hann væri ófær um að flytja erindið sem hann ætlaði að flytja. Mér sýndist líka að hann hefði fengið sér einum of mikið neðan í því, Torgny talaði fyrir hönd þeirra félaga, en ekki um það sem til stóð. Hann talaði um samband sitt við Palme og um hvað hann hafði verið sænsku þjóðinni. Ein af bókum hans heitir,Hur skulle det vara om man vore Olof Palme? (Hvering væri það vera Olof Palme?) Hana hef ég ekki lesið. Ræða hans og þessi stund í Norræna húsinu situr í minninu.
Nú er Torgny sjálfur fallinn frá og ég hugsa um hvað hann hefur verið mér.
Ég hef lesið 10 bækur eftir Torgny (sem ég man eftir). Þær eru:
Brännvinsfursten
Ormens väg på hälleberget
Skremmer dig minuten
Merabs skönhet
Batseba
Humelhonung
Pölsan
Norlands Akvavit
Minnen
Dores Bibel
Ég skrifa nöfnin á sænsku af því ég hef lesið þær á sænsku. Einhverjar hafa verið þýddar en ég er ekki viss um hverjar. Ég syrgi Torgny eins og einhvern sem ég þekki. Eins og sveitunga.
Nú langar mig til að lesa allar bækurnar hans. Hann kom mér alltaf til að hlæja innan í mér, þó eru bækurnar oftast sorglegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2017 | 17:34
Norma: Sofi Oxanen: Hugrenningar við lestur
Ég er ekki viss um að ég skilji þessa bók. Þarf maður alltaf að skilja bækur? Og hvað er að skilja bækur? Í hvert skipti sem ég les bók upp á nýtt, skil ég hana nýjum skilningi. Var þá fyrri skilningur rangur?
Þetta er fjórða bókin sem ég les eftir Oxanen. Hinar voru Kýr Stalíns, Hreinsun og Þegar dúfur úr hurfu. Þær eru allar litaðar af andrúmslofti stríðs. Stríð er ýtrasta stig ofbeldis. Sögur Oxanen eru um eftirleikinn.Þegar stríðið er búið.
Sagan um Normu hefst daginn sem móðir hennar er jörðuð. Hún hefst við jarðarförina. Norma er niðurbrotin. Fram til til þessa, hefur kjarni tilverunnar verið þessi litla eining, hún og mamma. Nú þarf hún að læra að vera bara hún, hún ein. Þær hafa átt saman leyndarmál. Það tengist hári. Norma er ekki normal, hún er með óeðlilegan hárvöxt og auk þess er hár hennar máttugt, Norma skynjar margt sem annað fólk skynjar ekki. Hún sér t.d. fyrir sjúkdóma og dauða. Auk þess er hún svo næm á lykt að hún veit upp á hár, hvað hver og einn hefur borðað, drukkið og hverja hann hefur verið í líkamlega snertingu við. Hún er svona eins og góður þefhundur sem kann að tala.
Fyrst var ég að velta fyrir mér hvort persóna" Norma, tengdist sögn Biblíunnar um, Samson og Dalíu en ofurkraftur Samsonar, var frá hári hans, sem hafði aldrei verið skorið og Dalía sveik hann síðar í hendur óvinanna. Reyndar er til fjöldi sagna um mátt hárs. Það er sjálfsagt ekki út í bláinn að Haraldur hárfagri hét því að skera ekki hár sitt og skegg fyrr en hann hefði lagt undir sig Noreg allan.
Sagan um Normu er ekki bara um hár og ofurþefskyn Normu, hún er líka um svik og grimmd. Þegar Norma hefur misst móður sína, vaknar hjá henni grunur um að lát hennar sé ekki í raun sjálfsvíg eins og leit út fyrir. Þegar hún fer að grafa í fortíð hennar, opnast iðandi ormagryfja svika og glæpa. Það var í þessari ormagryfju, sem ég tapaði þræðinum. Í stað þess að leita að og finna þráðinn, fór ég að hugsa um hvað höfundurinn væri að fara með þessari bók. Reynsla mín af fyrri bókum Oxanen, er að þær eru hlaðnar boðskap. Það var þess vegna sem ég náði í Biblíuna til að rifja upp söguna um Samson og Dalíu.
Allar bækur Oxanen, sem ég hef lesið, gerast annað hvort í stríði eða í kjölfar stríðs. Þá fór ég að hugsa um, að stríði er ekki lokið við við undirritun stríðsloka samninga. Það er þá sem eftirmálin fara í gang. Kauplausir fyrrverandi hermenn stofna glæpagengi til að hafa í sig og á og þeir sem töpuðu leita hefnda.
Í framhaldi fór ég að velta því fyrir mér, af hverju menn gerast atvinnuglæpamenn í stað þess að vinna heiðarlega vinnu, þar sem glæpamannsstarfið virðist ekki vera neinn dans á rósum. Loks fór ég að hugsa um okkar eigin glæpamenn, sem auka tekjur sínar með braski og bankaklækjum, sem er á mörkum hins löglega en kol-siðlaust. Svo hugsaði ég ljótt um mennina sem stela frá mér og þjóðinni með því að svíkja undan skatti. Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina. Það nægir ekki að brosa sætt framan í mig af sjónvarpsskjánum. Ég er nefnilega eins og Norma að ég er með ofurskyn. Ég sé hvenær menn ljúga.
Þegar þarna var komið sögu í sögunni og í hugsun minni, var ég löngu dottin út úr bókinni Normu. Ég lauk henni reyndar en hvað þýðir að lesa bók, þegar maður hefur tapað þræðinum?
Ég skil sem sagt ekki þessa bók, en hún kveiktu hjá mér margar hugsanir og fékk mig til að rifja upp merkilegar sögur, svo sem söguna um Samson. Hana þarf maður ekki að skilja, því það er Guð sjálfur sem er með puttana í atburðarásinni.
Lokaorð
Niðurstaða mín var því: Bækur sem maður skilur ekki, eru ekki síður dýrmætar en hinar sem maður þykist skilja. Loks fór ég að hugsa um Normalbuxur,sem ég var næstum búin að gleyma. Fyrir þá sem ekki vita hvað Normabuxur eru, voru það síðar hvítar bómullarnærbuxur, sem karlmenn voru í þegar þeir voru ekki í því sem nú kallast föðurland. Þessar buxur lögðust af því þær þóttu svo lítið sexí. Þegar þarna var komið, ákvað ég að hætta að reyna að skilja Normu.
Ég hefði kannski ekki átt að vera að skrifa um hana en nú er það búið og gert. Hafa ber í huga að pistlar mínir eru um lestur, ekki dómar um bækur. En fyrst og fremst eru þeir skrifaðir fyrir mig sjálfa til að átta mig á því sem ég les og hvað það gefur mér. Bækur taka aldrei neitt frá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2017 | 18:21
Kvennakakan
Í fyrsta skipti í mörg ár fór ég ekki af bæ til að taka þátt í baráttudegi kvenna, sat heima og hugðist njóta dagsins með því að horfa á sjónvarpið (allra landsmanna). Birtist þá ekki á skjánum mynd af gleiðbrosandi karlmönnum í jakkafötum. Einn þeirra var með köku.
Það kom ekki til af góðu að ég valdi að sitja heima. Eiginlega var það ekkert val. Ég er illa ferðafær, a.m.k. á samkomur þar sem ég er ekki örugg um tryggt sæti. Ég staulast um með tvær hækjur og svona er ástandið búið að vera síðan í apríl í fyrra. Framundan er viðtal við lækni (17. mars). Ég pantaði það í október þegar búið var að mynda mjaðmasvæðið. Ég vonast til að hann geti sagt mér hvort eitthvað sé hægt að gera. Vonast til að hann setji mig á biðlista fyrir aðgerð. Það sem hefur gert veikindi mín enn sárari, er að ég veit að það finnst hjálp, henni er bara haldið frá mér með því að svelta heilbrigðiskerfið. Þó eru nógir peningar í landinu. Það eru uppgangstímar.
Róttækar konur hafa síðan 1910 notað 8. mars, til að koma saman og berjast gegn óréttlæti. Ég segi óréttlæti því róttækar konur láta oft ekki við það sitja, að berjast fyrir hagsmunum kvenna, þær berjast einnig fyrir hagsmunum barna og gegn stríði. Mesta óréttlæti allra tíma.
Í fyrstu voru það nær eingöngu róttækar konur sem héldu þessum degi á lofti en allra síðustu ár hafa stöðugt fleiri slegist í hópinn.
Það var Clara Zetkin (1857-1933)þýskur kommúnisti, sem átti hugmyndina að því að gera 8. mars að baráttudegi kvenna. En hún var auðvitað ekki ein á ferð. Það er samtakamátturinn sem gildir þegar ráðist er gegn kúgun og óréttlæti.
En aftur að manninum með kökuna. Hann var enginn annar en forsætisráðherrann okkar. Hann hafði verið fenginn til að mæta á fund UN Women, sjálfsagt til að leggja eitthvað að mörkum í þágu kvenfrelsisbaráttu. Og hann valdi köku.
Það er í sjálfu sér ágætis val, því kökur eru gjarna notaðar táknrænt, t.d. þegar tekjum ríkisins er skipt milli opinberra verkefna.Það má líka hugsa sér kökurit í bláu og bleiku, sem sýnir tekjumun karla og kvenna.
Þarna sat hann brosandi með þjóðarkökuna og hún var bleik.
Ekki veit ég hvers vegna forsætisráðherra okkar var valinn í þetta samsæti, ekki frekar en ég skil hvernig samkoman átti að stuðla að jafnrétti í heiminum. Þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið, var ég enn að hugsa um kökuritið, um útdeilingu ríkistekna. Af hverju fór ekki stærri sneið til heilbrigðismála, svo ég og annað biðlistafólk gæti aftur orðið virkir þátttakendur í samfélaginu?
En aftur að baráttudegi kvenna. Clara Zetkin dó í Sovétríkjunum 1933 sama árið og hún flúði Þýskaland, vegna uppgangs nasismans.Hún þurfti því aldrei að horfa upp á hvernig konurnar voru sviknar. Í Sovétríkjunum var því haldið fram að það væri ekki þörf fyrir kvennabaráttu, frekar en verkalýðsbaráttu. Kerfið sá um að tryggja jöfnuð. Í Sovétríkjunum var 8. mars samt í heiðri hafður. Var nokkurskonar mæðradagur, þar sem konur fengu blóm og karlar sáu um húsverkin. Kannski hafa sumir bakað köku.
Hvernig á ég að enda þennan pistil, sem ég hóf að skrifa vegna geðshræringar sem ég komst í við að sitja fyrir framan sjónvarpið og horfa á forsætisráðherrann okkar með köku og sárinda vegna þess að vera sett til hliðar, fá ekki þá læknisþjónustu sem ég nauðsynlega þarf. Ég ætla að enda þetta með því að trúa ykkur, sem hafið lesið alla leið hingað þetta jafnréttiskjaftæði fyrir persónulegu leyndarmáli.
Ég er svo vel upp alin að ég reiðist ekki, mér sárnar. Og þegar mér er verulega misboðið fer ég að gráta. Þess vegna segi ég við ykkur og við sjálfa mig í leiðinni.Breytum sárindum í reiði og virkjum reiðina. Breytum gráti í öskur.
Það er hægt að skipta þjóðarkökunni réttlátar. Konur hér á landi og um allan heim eru hlunnfarnar. Það þarf að berjast fyrir réttlátari tekjuskiptingu. Það er hægt að sigrast á óréttlæti. Ekki láta blekkjast og halda að hér ríki jöfnuður. Ekki láta telja ykkur trú um að kvenréttindabaráttan sé óþörf.
Laun eftir launþegahópi, starfsstétt og kyni 2015
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2017 | 19:43
Spörum stóru orðin
Ég hef reynt að halda mig frá því að skrifa um málfar. Finnst mikilvægast að fólk tjái hug sinn, óttast að stöðugar útásetningar gætu hamlað fólki sem ekki er allt of öruggt með sig á ritvellinum. En nú ætla ég að ganga í flokk með málvöndunarfólki,og segja hug minn um einn þátt málvöndunar sem er tilgerðarlegt orðaval.
Það er allt of mikið um að skringilegheit og skemmtilegheit sem hafa fest i málinu og orðið viðvarandi. Líklega hefur einhver einn sagt þetta svona að gamni sínu, bara svona. Svo fara aðrir að apa það eftir þar til það festist og tekur yfir eðlilegt mál. Þar með ryður það burt blæbrigðum sem fylgja fjölbreyttu orðalagi. Mig langar að taka dæmi.
Að stíga á stokk í tíma og ótíma. Orðatiltækið er þekkt úr fornum ritum um fólk sem strengir heit, lýsir einhverju yfir. Mér finnst ópassandi að nota það um fólk sem er að gera eitthvað í vinnunni sinni eins og að syngja eða halda ræðu og oft er kallað að troða upp.
Að leiða saman hesta sína. Alveg óþolandi enda oftast rangt notað. Að leiða saman hesta sína var notað um nú útdauða íþrótt, það er þegar tveir öttu saman stóðhestum. Líklega myndu dýravinir mótmæla slíku nú. Hestar eru látnir takast á og gátu leikið hvor annan grátt. Nú heyri ég þetta oftast notað um fólk sem ætlar að vinna saman að einhverju, t.d ef tvær hljómsveitir ætla að koma fram sameiginlega.
Berja augum í staðin fyrir að sjá, líta, skoða, rekast á og svo framvegis. Ég veit ekki hvaðan það er komið, gæti verið sniðug tilbreyting en er óþolandi þegar það tekur yfir.
Vinna hörðum höndum. Skemmtilegt líkingamál. Gæti stundum átt við en veður hjákátlegt þegar það er notað í sífellu, t.d um skrifstofufólk eða stjórnmálamenn með manikúreraðar hendur. Ég hef ekki tölu á hvað það var oft notað til að lýsa vinnu samninganefnda í sjómannaverkfallinu.
Mig langar líka að vekja athygli á öðrum orðum, sem eru beinlínis óþörf og koma í stað ágætis orða.
Nýsköpun er hrein vitleysa. Sköpun er alltaf ný. Það er óþarft að taka það fram. Guð skapaði heiminn á sínum tíma. Hann nýskapaði hann ekki.
Hágæða er vandræðalegt orð. Maður fer að efast um gæðin. Af hverju þetta há?
Allt sem talað er um hér að ofan, er úr fjölmiðlamáli, en í lokin vil ég bæta við einum óþörfum frasa sem mætir manni alls staðar.
Eigðu góðan dag! Ég þoli það ekki en veit að það er vel meint. Af hverju ekki bara:Hafðu það gott, blessuð/blessaður, bless eða bless, bless?. Guð veri með þér er fallegt en kannski dálítið hátíðlegt. En það gæti átt við, við sérstakar að stæður, t.d þegar fólk er að fara í langt ferðalag. Allt nema eigðu góðan dag. En fólkið sem segir þetta er svo sælt á svipinn. Því líður svo vel að mér líður illa af því ég hugsa ljótt. Ég reyni að brosa hlýlega. Fölsk. Hugsa áfram: Hvernig hefur þetta komist inn málið? Líklega verið í námsefni starfsfólks einhverrar verslunarkeðjunnar. Reyndar veit ég að það er of seint að nöldra um þetta, það er komið inn í málið.
Eigið góðan dag elskurnar sem lesið þetta. Ég er að hugsa um að breyta mér.
Mynfin er af reiða kallinum sem ég heklaði mér til gamans. Ég sé að ég þarf að hekla eða prjóna reiðu kelinguna. Til að gæta jafnræðis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2017 | 17:25
Þegar dúfurnar hurfu og Risttuules
Fyrir nokkrum dögum las ég bókina Þegar dúfurnar hurfu. Hún er eftir Sofi Oksanen og er þýdd af Sigurði Karlssyni fyrrum leikara og nú þýðanda. Bókin kom út á íslensku 2014 Ég hlustaði á hana sem hljóðbók og það var þýðandinn sem las.
Bókin fjallar um stríð, nánar tiltekið um stríðin sem gengu yfir Eistland á árum seinni heimsstyrjaldar, þegar herir Þjóðverja og Rússa og þeirra eigin her skiptust á að hertaka/frelsa landið eftir því hvernig horft er á það. Það er ekki vinnandi vegur fyrir mig Íslendinginn að henda reiður á því sem þarna var að gerast og það er eflaust erfitt líka fyrir heimamenn. Auk þess er öll þessi saga svo gildishlaðin að það hlýtur að vera höfuðverkur fyrir samviskusama sagnfræðinga að skrá og miðla því sem þarna gerðist.
Þótt Eistland líti á sig sem þjóð með sérstakt tungumál, hafa aðrar þjóðir lengst af setið þar við völd: M.a. Þjóðverjar, Svíar, Danir og Rússar
1918 Lýsti Eistland yfir sjálfstæði sínu (við fall rússneska keisaradæmisins)
1940 Hernumið af Sovétríkjunum
1941 Hernumið af Þjóðverjum
1944 Hernumið af Sovétríkjunum
1991 Öðlast sjálfstæði að nýju
Ég bjó mér til þessa töflu til að átta mig betur á söguþræðinum, því bókin er ekki létt aflestrar.
Þegar dúfurnar hurfu er söguleg skáldsaga Oksanen skrifar um líf fólks í stríði og viðbrögðum við nýjum stjórnendum. Í þessu landi var ekki hjá því komist að taka afstöðu og vera virkur. Sagan nær yfir árin 1941 til 1966.
Hún lýsir ástandinu með því að fylgjast með nokkrum persónum, venjulegu sveitafólki úr sömu fjölskyldu.
Höfuðpersónurnar eru:
Roland sem er einn af skógarbræðrum, það eru eistneskir lýðveldissinnar, sem börðust fyrir sjálfstæði Eistlands.
Edgar frændi hans er kamelljón, skiptir litum eftir litnum á herbúningi sigurvegarans.
Júdit, sem er vansæl, tekur afstöðu með ástinni. En ástin er munaðarvara sem hæfir illa stríðstímum.
Frásagnarmáti Oksanen er kaldur, nákvæmur og að því er virðist hlutlægur. Stundum nánast eins og skýrsla. Lesandinn skynjar þó stöðuga ógn. Ógn um lífshættu og tortímingu. Ekki bara tortímingu fólksins, heldur tortímingu alls sem gefur lífinu gildi. Stríð er í sjálfu sér vont. Allir tapa.
Það er stríðið sem gerir fólk að svikurum, illmennum og vesalingum. Enginn sleppur alveg.
Þetta er áhrifamikil bók og mig skortir kunnáttu til að lýsa henni svo vel sé.
Það fór ekki hjá því að meðan ég las, kom mér önnur bók oft í hug, sem fjallar um sama efni. Það er Illska eftir Eirík Örn Norðdahl en Eiríkur er ekki bara að kljást við fortíð, hann vill fanga fortíðina í núinu.
Risttuules
En stundum er eins og tilviljanir sé eitthvað annað en tilviljanir. Í gærkvöldi rakst ég á eistneska kvikmynd frá 2014 (í sænska sjónvarpinu). Hún er eftir Martti Helde og heitir Risttuules (Veðramót eða In the Crosswind á ensku) Þetta er frábær mynd. Hún segir frá ungum hjónum og dóttur þeirra sem verða fórnarlömb þjóðernishreinsana þegar 40 þúsund fólks var flutt úr Eystrasaltsríkjunum til Síberíu 1941. Þetta er þó fyrst og fremst saga konunnar sem fer með dóttur sinni og öðrum konum til að þræla við að höggva við. Þarna strita þær undir harðýðgi manns og náttúru allt þar til örlítið fer að rofa til eftir dauða Stalíns.
Það sem gerir þessa mynd svo einstaka, er myndatakan. Myndsenurnar eru greinilega gerðar eftir gömlum ljósmyndum. Þetta er eins og fryst augnablik, löng augnablik. Þessi frystu augnablik er sýnd frá ólíkum sjónarhornum afar hægt. Með þessu fangar myndtökumaðurinn bæði aðstæður og tilfinningar fólksins. Ég get ekki almennilega lýst þessu en myndin er heillandi.
Myndin er af skjaldarmerki Eistlands
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2017 | 14:34
Tilbúin sannindi: Vegna orða sem féllu á Bessastöðum 8. febrúar 2016
Það er í sjálfu sér einfalt að búa til sannindi, það þarf bara að tönglast nógu oft á því sama, á endanum efast enginn um réttmæti fullyrðinganna.
Kveikjan að þessari hugsun núna var ein ræða sem haldin var á Bessastöðum við afhendingu bókmenntaverðlaunanna. Þá nýtti formaður bókaútgefenda aðstöðu sína til að tala í hljóðnemann,til að ausa svívirðingum yfir þá sem unnið hafa að bókaútgáfu fyrir nemendur í grunnskólum landsins. Ég sat agndofa. Ég var fyrst slegin yfir því hvað maðurinn var illa að sér, síðan hugsaði ég, hann veit ekki hvað er viðeigandi á þessum stað við þetta tilefni.
Ég hugsaði þetta svona með sjálfri mér. Þarna var maðurinn að fjalla um málaflokk sem ég þekkti vel til.Vegna starfs míns þurfti ég að hafa yfirsýn. Nú er ég eftirlaunaþega og það eru önnur mál sem eiga hug minn. Ég ætlaði ekki að bregðast við þessu, láta þetta bara renna framhjá eins og hvert annað fleipur. Svo fór ég að hugsa um hvernig sannleikur verður til og fann til ábyrgðar.
Mig langar að segja frá því að ég hef alveg gagnstæða skoðun. Ég hef oft dáðst að því hvað vel hefur tekist til með námsbækur fyrir nemendur á skyldunámsaldri, fyrir það takmarkaða fé sem til þess er veitt. Þetta er sérhæft verkefni og Ísland er lítið málsvæðip og það þarf stöðugt að vera að endurnýja bækur út frá þróun fræðanna og út frá hugmyndum manna um hvernig rétt sé að kenna. Ég hef sérstaklega dáðst að því hvernig jafnan hefur námsefni verið búið til í samvinnu við fræðimenn hverrar greinar og nú á síðari árum hafa listamenn; rithöfundar og teiknarar verið kallaðir til. Ég var slegin yfir þeirri vanvirðu sem kom fram í ræðu þessa manns gagnvart fólkinu sem hefur unnið við að skapa þetta námsefni. Það er þess vegna sem ég ákvað að bregðast við.
Það er reyndar ekkert nýtt að íslenskt námsefni sé talað niður. Að hluta til er það komið til vegna þess að þessar bækur koma inn á hvert heimili og allir hafa skoðun á því hvernig góð kennslubók á að vera. Það er gott og gagnrýni er góð ef til hennar er vandað. Það er líka gott að sem flestir hafi skoðun. En þar sem það er auðveldara að finna að en hrósa (kannski er þetta líka hluti af mannlegu eðli), hafa sumir farið að trúa því að það sé eitthvað sérstakt ástand í þessum málum hér.
Nú vil svo til að ég á lítið safn gamalla kennslubóka. Meðan ég var enn að velta fyrir mér orðunum sem ræðumaðurinn lét falla á Bessastöðum, dró ég þetta safn fram og skoðaði hvernig búið var að nemendum þegar ég var á skólaaldri. Það voru aðhaldssamir tímar og ekki bruðlað með neitt. Bækurnar voru enn betri en mig minnti. Annað sem kom mér á óvart, var hvað ég kunni þær vel. Það hljóta að ver meðmæli með kennslubók.
Reyndar hef ég, eftir að ég eignaðist þetta litla safn blaðað oft í heftunum þrem sem bera nafnið Íslands saga og eru eftir Jónas Jónsson. Þessar bækur urðu kjölfestan í sögulegri þekkingu og söguskoðun Íslendinga. Nú er oft á þær deilt, af því fræðin hafa tekið stakkaskiptum. Jónas var að vísu ekki fræðimaður á þessu sviði en söguskoðunin sem þarna kemur fram brýtur ekki í bága við ríkjandi söguskoðun í fræðunum á þeim tíma. En Jónas kunni að skrifa, ég man enn hvað mér fannst gaman að lesa Íslandssögu.
Nú er ég líklega komin út fyrir efnið sem ég ætlaði að fjalla um. Ég ætlaði að tala um það sem mér fannst óréttmæt gagnrýni á skólabókaútgáfu því ég veit að endurtekin ósannindi eiga það til að öðlast stöðu sannleikans.
En auðvitað veit ég að þessi gagnrýni ræðumannsins er ekki til komin vegna ástar á börnum. Þarna er beinlínis um hagsmunaárekstur að ræða. Bókaútgefendur vilja komast að kjötkötlunum sem þeir halda að námsbókaútgáfa sé. Í augum sumra er öll starfsemi hins opinbera af hinu vonda. Það eru önnur ó-sannindi sem verið er að festa í sessi. Samanber að í dag fer fram umræða um sölu á áfengum drykkjum.
Hættum að þegja og bregðumst við þegar við heyrum eitthvað sem okkur finnst vera rangsannleikur.
Myndin er af nokkrum gömlum námsbókum frá nýliðinni öld
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2017 | 20:47
Hershöfðingi dauða hersins
Nú er nokkuð um liðið síðan ég las bókina, Hershöfðingi dauða hersins eftir Ismail Kadaré. Ég hef dregið þetta af því vissi ekki hvernig ég gæti gert henni skil. En ég ætla að reya, þótt það sé erfitt að ná utan um þetta verkefni.
Nafn bókarinnar er síður en svo aðlaðandi, en mig langar segja þannig frá henni að þið segið "þessa bók verð ég að lesa"!
Titill bókarinnar minnir okkur á annan her og ég hugsaði, er ég að lesa þetta vitlaust og las aftur. Þetta var örugglega það sem höfundurinn ætlaðist til, hann er að hæðast, ekki að mér lesara sínum, heldur að virðingu sem borin er fyrir herjum og hernaði. En hann er er ekki bara að hæðast,hann er að skapa vissa ógn.
Ismail Kadaré (1936) er albanskur rithöfundur, ég held að ég hafi ekki áður lesið bók eftir albanskan rithöfund og þegar ég les mér til um hann fæ ég að vita að hann er virtur rithöfundur sem hefur skrifað mörg verk. Þessi bók kom út í heimalandi hans 1964.
Hún segir frá ítölskum hershöfðingja sem hefur fengið það verkefni að flytja líkamsleifar fallinna hermanna úr síðari heimsstyrjöldinni, heim til Ítalíu. Það hefur verið gert samkomulag um þetta á milli landanna og Þjóðverjar eru líka að sækja sín lík. Sagan segir frá þessu erfiða verki, væntingum hershöfðingjans og viðbrögðum heimamanna í Albaníu sem koma að verkinu. Þetta er hershöfðingi með metnað, hann vill bæði gæta þess að komið sé af virðingu fram við hina föllnu og er stoltur af að geta fært þá heim til ástvina þeirra. En Albanía er fjöllótt land og illt yfirferðar.
Lesandinn fræðist smám saman um stríðið. Það er merkilegt að fá að fylgjast með hugsunum hershöfðingjans og sjá hvernig hugmyndir hans breytast eftir því sem á líður verkið. Hetjur Ítala eru illmenni Albana. Þannig var þetta og þannig er það.
Sagan er ísmeygileg, maður trúir henni hálft í hvoru, þótt maður viti að hún hljóti að vera uppspuni frá rótum. Sannleikurinn sem situr eftir er óbeit á öllu stríði, hermennska verður fyrirlitleg. Þannig leið mér að minnsta kosti.
Það er Hrafn E. Jónsson (1942-2003) sem þýðir þessa bók á árunum 1990-1991 og hún var ári síðan lesin sem framhaldssaga í Ríkisútvarpið.
Það er mikill fengur að þessari bók en erfitt að segja frá því sem gerir hana svona frábæra, því það liggur ekki síður í því sem er látið ósagt.
Og þótt bókin sé dimm og köld, langar mig að lesa meira eftir þennan mann og mig langar til að ferðast til þessa lands. Og auðvitað er ég búin að skoða lýsingar frá ferðaskrifstofum og sé að það er ægifagurt.
Mynd af höfundi tók ég traustataki af netinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2017 | 17:36
Ör: Auður Ava Ólafsdóttir: Hrundir heimar
Ég lauk við bók Auðar Övu Ólafsdóttur, daginn áður en hún hún tók við bókmennta verðlaununum á Bessastöðum. Ég get ekki sagt að það kæmi mér á óvart. Þegar ég hóf lesturinn átti ég von á góðri bók og hún var afbragð. En það er erfitt að segja nákvæmlega hvað gerir hana svona frábæra. Þannig er þetta oft, það er erfiðara að festa fingur á hvað gerir bók góða en að finna gallana.
Bókin lætur ekki mikið yfir sér, Auður Ava slær ekki í kringum sig með æsilegum söguþræði, eða átakanlegum mannlegum örlögum. Þó er hvort tveggja til staðar í þessari bók, en klætt í einhvers konar hversdagsbúning, sem færir það nærri okkur, það talar til hjartans.
Aðalpersónan Jónas Ebenesar, býr einn. Í upphafi bókar er hann að heimsækja móður sína, sem er á elliheimili. Hún lifir í eigin heimi og maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi ef til alla tíð verið þannig. Jónas er góður og samviskusamur, hann er að miklu leyti horfinn inn í sig og langar að tala við móður sína um að hann sé óhamingjusamur. Hún skammtar honum aðgang að sér.
Konan fór frá honum, hún hafði reyndar um langt skeið skammtað honum aðgang að líkama síum og um leið og hún skildi við hann sagði hún honum að hann væri ekki faðir að dóttur þeirra, Vatnalilju, sem hann elskar.
Hann er hjálpsamur og kann að laga það sem þarf lagfæringar við, allt nema eigið líf. Þegar kemur að honum sjálfum er eins og hann sé verkfæralaus maður.
Jónas ætlar sér að taka líf sitt en hikar. Hann er svo tillitssamur að hann getur ekki fundið neina aðferð sem ekki kemur illa þann sem kemur að líkinu og veldur skelfingu.
Loks tekur hann það til bragðs að ferðast til stríðhrjáðs lands, þar sem hann þekkir engan og þarf því ekki að taka tillit til neins. Eða það heldur hann.
Í landinu sem hann flýr til er allt í rúst, bæði hús og mannlíf. Hann hefur tekið verkfærakassann sinn með því hann ætlar að finna sér stað til að hengja sig. En strax kynnist hann fólki og það kemur í ljós að það er bæði þörf fyrir hann og verkfærin. Fólkið sem hann kynnist hindrar enn að hann komi áformi sínu í framkvæmd, hann vill ekki særa það. Frásögn Auðar Övu af þessu stríðshrjáða landi er í senn hverdagsleg og grípandi. Fólkið sem við höfum heyrt svo mikið um í óteljandi fréttatímum, verður náið. Mig langar innilega til að systkinunum takist að gera upp hótelið og koma því í rekstur. Mig langar líka til að konurnar ljúki viðgerðinni á húsinu, þar sem þær ætla að búa með börnin sín. En ekkert gleður dapran hug Jónasar, fyrr en símtalið kemur. Reyndar flytur þetta símtal honum ekki neinar góðar fréttir.
Þessi bók er um tvenns konar hrunda heima, innri heim og ytri heim. Hún talar lágstemmt til lesandans. Ég sem er einn þeirra er ekki í neinum vafa um að þetta sé góð bók þó ég kunni ekki að skýra það. Reyndar fékk ég strax daginn eftir staðfestingu lærðrar nefndar á því að svo væri.
Það er erfitt að velja sér bók eftir lestur þessarar bókar.
Að lokum verð ég að geta þess að Auður Alva er lúmskt fyndinn höfundur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 190383
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar