Ör: Auður Ava Ólafsdóttir: Hrundir heimar

 

IMG_0284Ég lauk við bók Auðar Övu Ólafsdóttur, daginn áður en hún hún tók við bókmennta verðlaununum á Bessastöðum. Ég get ekki sagt að það kæmi mér á óvart. Þegar ég hóf lesturinn átti ég von á góðri bók og hún var afbragð. En það er erfitt að segja nákvæmlega hvað gerir hana svona frábæra. Þannig er þetta oft, það er erfiðara að festa fingur á hvað gerir bók góða en að finna gallana.

Bókin lætur ekki mikið yfir sér, Auður Ava slær ekki í kringum sig með æsilegum söguþræði, eða átakanlegum mannlegum örlögum. Þó er hvort tveggja til staðar í þessari bók, en klætt í einhvers konar hversdagsbúning, sem færir það nærri okkur, það talar til hjartans.

Aðalpersónan Jónas Ebenesar, býr einn. Í upphafi bókar er hann að heimsækja móður sína, sem er á elliheimili. Hún lifir í eigin heimi og maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi ef til alla tíð verið þannig. Jónas er góður og samviskusamur, hann er að miklu leyti horfinn inn í sig og langar að tala við móður sína um að hann sé óhamingjusamur. Hún skammtar honum aðgang að sér.

Konan fór frá honum, hún hafði reyndar um langt skeið skammtað honum aðgang að líkama síum og  um leið og  hún skildi við hann sagði hún honum að hann væri ekki faðir að dóttur þeirra, Vatnalilju, sem hann elskar.

Hann er hjálpsamur og kann að laga það sem þarf lagfæringar við, allt nema eigið líf. Þegar kemur að honum sjálfum er eins og hann sé verkfæralaus maður.

Jónas ætlar sér að taka líf sitt en hikar. Hann er svo tillitssamur að hann getur ekki fundið neina aðferð sem ekki kemur illa  þann sem kemur að líkinu og veldur skelfingu.

Loks tekur hann það til bragðs að ferðast til stríðhrjáðs lands, þar sem hann þekkir engan og þarf því ekki að taka tillit til neins. Eða það heldur hann.

Í landinu sem hann flýr til er allt í rúst, bæði hús og mannlíf. Hann hefur tekið verkfærakassann sinn með því hann ætlar að finna sér stað til að hengja sig. En strax kynnist hann fólki og það kemur í ljós að það er bæði þörf fyrir hann og verkfærin. Fólkið sem hann kynnist hindrar enn að hann komi áformi sínu í framkvæmd, hann vill ekki særa það. Frásögn Auðar Övu af þessu stríðshrjáða landi er í senn hverdagsleg og grípandi. Fólkið sem við höfum heyrt svo mikið um í óteljandi fréttatímum, verður náið. Mig langar innilega til að systkinunum takist að gera upp hótelið og koma því í rekstur. Mig langar líka til að konurnar ljúki viðgerðinni á húsinu, þar sem þær ætla að búa með börnin sín. En ekkert gleður dapran hug Jónasar, fyrr en símtalið kemur. Reyndar flytur þetta símtal honum ekki neinar góðar fréttir.

Þessi bók er um tvenns konar hrunda heima, innri heim og ytri heim. Hún talar lágstemmt til lesandans. Ég sem er einn þeirra er ekki í neinum vafa um að þetta sé góð bók þó ég kunni ekki að skýra það. Reyndar fékk ég strax daginn eftir staðfestingu lærðrar nefndar á því að svo væri.

Það er erfitt að velja sér bók eftir lestur þessarar bókar.

Að lokum verð ég að geta þess að Auður Alva er lúmskt fyndinn höfundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel skrifað og verður til þess að ég les þessa bók.

Ásþór Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.2.2017 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband