24.8.2020 | 14:29
Húsbóndinn á Skriðuklaustri
Vel heppnuð heimsókn á safn á það til að hlaða utan á sig eins og snjóbolti. Hún ýtir undir forvitni og kallar á lestur.
Á ferð minni um Austurland ekki alls fyrir löngu, kom ég við á Skriðuklaustri. Þar, í hinu veglega húsi, gjöf Gunnars Gunnarssonar til þjóðarinnar, eru nú tvær sýningar. Önnur um skáldið, hin um rannsóknir Steinunnar Kristjánsdóttur á klausturrústunum. Og svo er húsið sjálf áhrifamesti sýningargripurinn.
Ég hef oft komið þarna áður en í þetta skipti kveikti heimsóknin svo í mér að ég lagðist í lestur. Ég ákvað að leita fanga í bók Jóns Yngva Jóhannssonar, Landnám. Hafði reyndar lesið þá bók áður, en minni mitt er hriplekt.
Þetta er frábær bók. Hún er ekki bara um Gunnar og skáldskap hans, hún setur sögu Gunnars í samhengi við samtíð hans og stefnur og strauma í Evrópu.
Það liggur gríðarleg vinna í þessari bók, Jón Yngvi rekur ekki bara ævi hans út frá heimildum, hann skoðar skáldskap hans og hugmyndaheim út frá því sem var að gerast í heiminum og hans eigin lífi. Einkum finnst mér mikill fengur í umfjöllun Jóns Yngva á trúarlífi Gunnars. Gunnar var alin upp á strangtrúuðu heimili og þegar hann tapar barnatrúnni myndast gap sem hann leitast við að fylla.
Ég ætla ekki að reyna að endursegja efni Landnáms, þetta er löng og efnismikil bók og það er hætta á að þegar tæpt er á einstökum hlutum að samhengið glatist. Mig langar fyrst og fremst að benda á að það er mikil saga og hugmyndasaga sögð í þessu verki.
Ég hafði ekki fyrr lokið lestri Landnáms en ég hóf lestur á Sögu Borgarættarinnar. Hana hef ég ekki lesið áður eða séð myndina og er ekki seinna vænna, því ég er orðin háöldruð og nú stendur til að sýna myndina að nýju eftir að filman hefur verið lagfærð og samin við hana tónlist. Það átti reyndar að vera löngu búið að sýna hana en kóvít hefur hamlað því eins og svo mörgu öðru.
Það var upplifun að heimsækja Skriðuklaustur og nú finnst mér að við hefðum átt að staldra lengur við.
Ég get ekki lokið þessum pistli án þess að minnast á hið frábæra kaffihlaðborð staðarins. Ekki veit ég hvort það er í anda Gunnars og spegli matarsmekk hans, því þótt Jón Yngvi fjalli ítarlega um líf hans, man ég ekki til þess að hann komi inn á mataræði.
Myndin er af glugga á Skriðuklaustri. En Franzisca kona Gunnars var mikil blómakona
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2020 | 18:18
Eldum björn: Mikael Niemi
Um leið og ég sá að búið var að lesa Eldum björn inn hjá Hljóðbókasafninu, vissi ég hvaða bók ég myndi lesa næst. Bókin er eftir Mikael Niemi og bækur hans eru ómótstæðilegar. Hann sló í gegn með Rokkað í Vitula, sem er galsafengin æsku og uppvaxtarsaga unglinga á landsbyggðinni í Norður-Svíþjóð. Það sem gerir hana sérstaka er að hún er skrifuð á því máli sem sem hann ólst upp við. Það er að segja finnskuskotinni sænsku kryddaðri samísku. Ég las þá bók á frummálinu og átti fullt í fangi með það..
Í þessari bók Eldum björn, sækir hann efnivið aftur í tímann og byggir söguna að hluta til á atburðum , sem gerðust um miðja 19. öld. Önnur aðalpersónan er kennimaðurinn og náttúrufræðingurinn Lars Levi Læstadius.Hann hafði fengið það verkefni að kristna Samana og endaði með að koma af stað trúarhreyfingu sem mér skilst að sé enn við líði.
Í bók Niemi, Eldum Björn, hefur Læsta-dius tekið að sér samiska drenginn Jussa sem hann kennir að lesa og skrifa. Þegar óhuggulegir hlutir fara að gerast í sókninni umbreytast þeir tveir í nokkurs konar Scherlock Holmes og Watson
Læstadius fer á vettvang og rannsakar verksummerki í ljósi vísindalegrar þekkingar. Jussi hlustar og skráir. Ekki gengur þeim þó allt sem skyldi. Valdastéttin tekur ekki mark á ábendingum þeirra. Að lokum beinist grunur að Jussa sjálfum.
Þetta er margslungin saga og á köflum groddaleg. Og auðvitað er hún líka sorgleg . Samarnir eru nánast flóttamenn í eigin landi. Hinn vel meinandi Læstadius þarf í senn að berjast við fáfræði og spillingu.
En þetta er ekki bara mögnuð glæpasaga, þetta er líka saga um ástina. Of svo er sagan fræðandi lesning um þetta tímabil í sænskri sögu. Ég (einu sinni kennari ) hafði t.d. afar gaman að fræðast um lestrarkennsluna og um mátt stafanna.
Ég ætla ekki að rekja hvernig sagan endar. En veit að baráttu Sama fyrir mannréttindum er ekki enn lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2020 | 20:13
Dagurinnn sem sigurskúfurinn blómgvast
Dagurinn þegar sigurskúfurinn blómgast
Þessi pistill er ekki um bók, hann er samt um sögu. Svona sögu eins og Íslendingar segja um fólk.
Einhvern tíma þegar ég var enn ung og bjó á Austurlandi, heyrði ég sögu um mann sem vann við skógræktina á Hallormsstað. Þegar hann var spurður af yfirmanni, hvenær einhverju verkefni lauk, sem hann hafði með höndum. Eflaust fyrir einhverja skráningu. Svaraði hann um hæl, Það var daginn sem sigurskúfurinn blómgaðist.
Mér finnst svarið eitthvað ólýsanlega töfrandi að það rifjast upp fyrir mér hvert sumar sem sigurskúfurinn ákveður að að lýsa upp heiminn.
Þessi saga var hreint ekki sögð til heiðurs þessum góða dreng og náttúruunnanda. Þvert á móti. Hún var sögð til að láta alla vita að hann væri kynlegur kvistur.
Mikið væri gaman að eiga almanak með blómgunartíma jurta.
Einmitt núna er blómgunartími sigurskúfsins og reyndar fjölda annarra síðsumarplantna.
Ekki missa af því.
Meðan ég var að skrifa þennan stubb, langaði mig að hafa sigurskúfur með stórum staf. En það passar ekki. En einhvern tíma lærði ég að Jón Ólafsson blaðamaður og skáld hefði gefið út tímarit á Austurlandi sem hét Sigurskúfur. Hér gat ég komið stóra stafnum að.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2020 | 18:01
Tíbrá: Ármann Jakobsson
Ég las Tíbrá, bók Ármanns Jakobssonar, áður en ég fór í hringferð um landið. Eins og þeir vita sem lesið hafa pistlana mína, finnst mér oft gott að hverfa inn í langar og efnismiklar bækur, ekki síst þegar eitthvað er mótdrægt. En það er oft gott að stinga styttri og e.t.v. léttari lesefni inn á milli voldugra verka, eins og t.d. ritverka Torfhildar Hólm. Ég valdi Tíbrá. Þar sem nokkuð er um liðið, þurfti ég að fríska upp á minnið þegar ég loks hafði mig í að skrifa um bókina. Bókin batnaði við endurlestur, eins og allar góðar bækur gera.
Tíbrá/Blekking
Þetta er þriðja glæpasaga Ármanns sem ég les og þegar ég reyni að finna samnefnara fyrir þær er niðurstaðan þessi. Bækur Ármanns fjalla fyrst og fremst um fólk. Þar liggur styrkleiki þeirra. En nú er það ekki hið geðþekka lögregluteymi, sem er í forgrunni, nú fáum við að kynnast afar ólíkum hópi karlmanna. Og svo fjallar bókin að sjálfsögðu um morð. Um þann hluta sögunnar ætla ég ekki að tjá mig, því það gæti spillt ánægju þeirra sem ekki hafa enn lesið bókina. Plottið er afar sérstakt en gengur upp.
Til að vera alveg hreinskilin verð ég einnig að geta þess, sem mér fannst miður við bókina frá mér séð. Reyndar held ég það sé fyrst og fremst vandamál mitt. Mér leiðast kynlífslýsingar. Þetta er líklega tepruskapur, en það gildir einu. Ég hefði miklu frekar viljað fá mataruppskrift, t.d. af grænmetisréttinum sem stúlkan frá Slóveníu eldaði handa gestum sínum.
Eftir á að hyggja og til að enda ekki á því sem mér féll ekki, vil ég bæta því við, að Ármann á auðvelt með að draga upp sannferðugar myndir af fólki. Þessi bók gæti flokkast sem sálfræðiglæpasaga ef maður vill á annað borð flokka bækur og raða í kerfi.
Nú bíð ég spennt eftir hvers konar bók Ármann kemur með næst og vona að lögguhópurinn fái eitthvað til að takast á við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2020 | 17:50
Urðarköttur: Ármann Jakobsson
Urðarköttur
Ég var ekki fyrr búin með útlagamorðin þegar ég ákvað að lesa bók Ármanns um Urðarkött.Ég er svo hrifin af lögguteyminu hans, þeim Bjarna, Kristínu,Margréti og Njáli. Auk þess las ég bókina Finnbogasögu ramma fyrir langalöngu og mér fannst spennandi að sjá hvernig hægt væri að spegla þessa gömlu sögu en þangað er nafn bókarinnar sótt.
Margar efasemdir kviknuðu þegar sérstöku morðteymi var komið á laggirnar í okkar friðsæla landi.En í þessari bók fær teymið svo sannarlega tækifæri til að spreyta sig þegar tvö morð eru framin með stuttu millibili. Annað er ung kona sem finnst úti á víðavangi, hitt er einnig ung kona sem nýlega hefur hafið störf við litla háskólastofnun, sem vinnur að rannsóknum á þjóðsögum og þjóðháttum. Lýsingin á stofnuninni er meiri háttar. Mér finnst næstum að ég þekki hana (hef reynslu af því að starfa í Háskóla Íslands sem prófvörður).
Tengjast þessi tvö morð? Og ef já, þá hvernig? Ég ætla ekki að fara lengra inn í framvindu sögunnar til að spilla ekki fyrir þeim sem e.t.v.hafa ekki enn lesið bókina.
Þessi saga svíkur engan. Ármann kann að skapa góðar og trúverðugar persónur og spennandi söguþráð. Og síðast og ekki síst, er Ármann frábær stílisti. Hann skrifar auðugt og fallegt mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2020 | 18:08
Ferðast um Norður- og Austurland með Jóni lærða
Ferðast um Norður- og Austurland með Jóni lærða
Ég hef verið á 12 daga ferðalagi með eiginmanni og vinum. Og Jón lærði var með í för. Það er alltaf jafn gaman að ferðast um Ísland, svo ég tali nú ekki um æskuslóðirnar . Við dvöldum sjö daga á Eiðum en þaðan á ég margar góðar minningar frá því ég var þar í skóla. Ég tók með mér bók Viðars Hreinssonar um Jón lærða (1574 1658). Hún entist mér út ferðalagið. Mikið afskapleg er þetta merkileg og hrífandi bók . Bókin heitir fullu nafni Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.
Hún fjallar reyndar ekki bara um þennan sérkennilega mann og ótrúlegt lífshlaup hans. Það sem gerir hana einstaka, er að hún fjallar ekki síður um aldarfarið og hugmyndasögu þessa tíma, þegar yfirnáttúrlegir hlutir og yfirskilvitlegir vógu þyngra en það sem við menn gátum sannreynt . Hugmyndaheimur með lifandi náttúru með álfa í steinum og marbendla og sækýr í sjó. Mikið fellur hugmyndaheimur vel að verkum austfirsku listamannanna Þórbergs og Kjarvals.
En Viðar lætur sér ekki nægja að lýsa íslenskum hugmyndaheimi, hann rekur tengsl þeirra við það sem er að gerast hjá öðrum þjóðum og sýnir fram á að hugmyndaheimur Jóns lærða sem er sjálfmenntaður alþýðumaður, eru í takt við það sem er að gerast í öðrum þjóðlöndum.
En sagan er ekki bara saga hugmynda, hún er ekki síður spennandi og á köflum hryllingssaga. Jón skapaði sér ekki bara óvild valdamanna með því að skrifa um Baskavígin, hann var gagnrýninn á trúskiptin og kenndi þeim um siðrof. Vegna skrifa sinna og hugmynda hans, m. a. um galdur var hann ákærður og dæmdur. Hann slapp við að verða brenndur, í þess stað var honum gert að flytja sig um set og búa á Austurlandi. Þangað fluttist hann í kringum 1630 og bjó lengst af á Úthéraði. En stundum í Bjarnarey úti fyrir Héraðsflóa.
Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók. Hún er prýðisvel lesin af Jóni B. Guðlaugssyni en í þetta skipti saknaði ég að hafa bókina í höndunum, því í henni eru fjölmargar myndir sem lesari gerði grein fyrir. En eyra kemur aldrei í stað augna. En sem betur fer er ég kunnug ýmsum þessara mynda frá fyrri tíð.
Lokaorð
Þetta er sem sagt ekki bara góð bók, þetta er bók sem fer á listann yfir bækur sem ég les oft. Og þangað fara bara úrvalsbækur. Auk þess að bregða upp mynd af óvenjulegum manni og skoða hugmyndasögu okkar Íslendinga í ljósi þess sem er að gerast í Evrópu og klassískra fræða, hittir boðskapur verksins á kjarna þess sem nú er efst á baugi. Náttúruvernd.
Eftirmáli
Þegar maður er í fylgd með Jóni lærða, kemur ekki að sök að aka um landið í þoku, súld eða rigningu. Það lifnar við og maður sér náttúrur náttúrunnar fyrir sínum hugskotssjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.9.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar